Hæstiréttur íslands

Mál nr. 48/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann

Reifun

Staðfest var ákvörðun lögreglustjóra um að X skyldi sæta nálgunarbanni á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Davíð Þór Björgvinsson og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. janúar 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 2017 þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 16. sama mánaðar um að varnaraðili skuli sæta nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fallist er á með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 4. gr. og 6. gr. laga nr. 85/2011 til að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila, Guðmundar St. Ragnarssonar héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

                 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 2017

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti þá ákvörðun embættis lögreglustjóra frá 16. janúar sl. að X skuli sæta nálgunarbanni til 31. janúar nk. þannig að lagt sé bann við því að hann veiti börnum sínum, A, kt. [...], og B, kt. [...], eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í sam­band við þau á annan hátt.

                Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar meint ofbeldi X, C og D gegn börnunum A og B. X og C séu for­eldrar barnanna en D eldri bróðir þeirra. Vegna rannsóknar máls­ins hafi verið teknar skýrslur af börnunum í Barnahúsi. Að auki liggi fyrir framburður E, eldri systur barnanna, um ofbeldi framangreindra aðila gegn henni og börn­unum svo og önnur gögn. Fjölskyldan hafi búið öll saman að [...] í [...] þar til í haust þegar E hafi, að eigin sögn, flúið heimilið vegna ofbeldis.

                Í greinargerðinni segir að upphaf málsins megi rekja til máls 007-2016-[...] þar sem E hafi kært X föður sinn og D bróður sinn fyrir ára­langt ofbeldi gegn sér. Í málinu sé X undir sterkum grun um að hafa nefbrotið brota­þola og slegið hana með fánastöng í líkamann svo hún hafi hlotið mikla áverka af en um fleiri tilvik sé að ræða. Þá sé D sömuleiðis undir sterkum grun um ofbeldi á hendur E. Í tveimur skýrslum sem teknar hafi verið af E, 16. septem­ber sl. og aftur 12. janúar sl., lýsi hún einnig alvarlegu ofbeldi sem A og B hafi orðið fyrir af hálfu föður þeirra og D eldri bróður þeirra. Hún lýsi því að faðir þeirra slái börnin með höndum, skóhorni, belti og inniskóm og viðvarandi ofbeldi sé á heim­il­inu. Þá verði yngri börnin sömuleiðis vitni að ofbeldi gegn öðrum á heim­ilinu.

                Barnavernd hafi rætt við A og B í skólum barnanna 6. desember sl. Hjá B komi fram að foreldrar hans hafi beitt hann ofbeldi með því að slá hann með höndum, inniskóm og stundum með skóhorni úr járni. Hann hafi jafnframt greint frá því að eldri bróðir hans, D, sem búi á heimilinu, hafi beitt hann ofbeldi með því að lemja hann, hrinda honum, kýla og sparka í hann. Þá hafi hann orðið vitni að ofbeldi bróður síns gegn systur sinni. Í viðræðum við barnavernd hafi A ekki sagst hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu foreldra sinna en hún hafi orðið fyrir ofbeldi af D bróður síns.

                Í skýrslutöku fyrir dómi 16. janúar sl. hafi komið fram hjá B að bróðir hans beitti hann ofbeldi og hann hafi orðið vitni að ofbeldi gegn systrum sínum á heimil­inu. Ekki hafi verið unnt að ljúka skýrslutöku af B þar sem honum hafi liðið illa og óskað eftir að þurfa ekki að tjá sig frekar. Ljóst sé að það þurfi að taka aðra skýrslu af honum vegna málsins.

                Í skýrslutöku fyrir dómi 16. janúar sl. hafi A lýst því að hún hafi ítrekað orðið fyrir ofbeldi af hálfu bróður síns og orðið vitni að ofbeldi hans gegn systkinum sínum. A hafi kosið að tjá sig ekki um ofbeldi foreldra sinna en lýst því að faðir hennar væri mjög skapstór maður. Það hafi verið ljóst af yfirheyrslunni yfir A að hún óttist föður sinn og hafi hún haft miklar áhyggjur af því að ekki yrði unnt að tryggja öryggi hennar í málinu kysi hún að tjá sig. Það sé mat lögreglu að taka þurfi frek­ari skýrslu af A en það sé ekki unnt fyrr en búið sé að tryggja öryggi hennar að mati lögreglu.

                Fram kemur að meðal gagna málsins séu ljósmyndir af áverkum sem talið sé að A hafa orðið fyrir af hálfu föður síns þegar þau hafi verið stödd í Kosovo yfir jólin 2016. Gögnin hafi borist lögreglu frá eldri systur barnanna, E. Að sögn E hafi faðir þeirra í þetta sinn slegið A með belti eða skóhorni.

                Í bókunarkerfi lögreglu séu nokkrar tilkynningar um læti eða ofbeldi á heim­ili kærða sem styðji framburð barnanna og systur þeirra um ofbeldi sem þau hafi sætt eða orðið vitni að (sjá bókanir lögreglu í máli nr. 007-2015-[...] frá 12. maí 2015 og í máli nr. 007-2016-[...] frá 5. nóvember 2016).

                Framburður barnanna og E um meint ofbeldi hafi verið borinn undir kærðu. Þeir neiti báðir sök eða geri lítið úr þeim tilvikum sem borin hafi verið undir þá eða lýsi þeim á annan veg. Fram hafi komið hjá X að hann noti skóhorn til að hræða börnin og hafi danglað í þau með því. Hann kannist einnig við að öskra á börnin og hræða þau. D hafi kannast við að hafa tekið A hálstaki og hent henni til en hann hafi eingöngu hrætt B bróður sinn. Móðir barnanna, C, hafi einnig verið yfirheyrð vegna málsins. Hún neiti að hafa orðið vitni að ofbeldi X og D. Töluvert misræmi sé þó milli framburðar þessara þriggja aðila og lýsi þau atvikum sem borin hafi verið undir þau á ólíkan hátt.

                Barnavernd Reykjavíkur hafi mánudaginn 16. janúar sl. ákveðið að vista börnin tíma­bundið utan heimilis til 31. janúar nk. vegna alvarleika málsins. Það sé mat lög­reglu að brýnt sé að á sama tíma njóti börnin verndar fyrir frekara ofbeldi og áreiti föður þeirra og bróður. Rannsókn málsins sé enn á viðkvæmu stigi og því mikilvægt að ekki sé hægt að hafa áhrif á framburð barnanna sem þurfi að ræða betur við að mati lög­reglu.

                Í ljósi ofangreinds telji lögreglustjóri skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 upp­fyllt en X liggi undir rökstuddum grun um að hafa beitt A og B líkam­legu ofbeldi sem talið sé varða við ákvæði almennra hegningarlaga og barna­vernd­ar­laga. Þá sé það talið mikilvægt að kærði setji sig ekki í samband við börnin meðan rann­sókn máls­ins sé enn á viðkvæmu stigi. Lögreglan telur ekki sennilegt að friðhelgi barn­anna verði vernduð á annan og vægari hátt, eins og sakir standa.

Niðurstaða:

                Lögregla rannsakar nú hvort systkinin A og B hafi verið beitt líkam­legu ofbeldi af hálfu bróður síns og föður.

                Fyrir dóminn hafa verið lögð rannsóknargögn í málinu. Dómurinn hefur horft á mynd- og hljóðupptökur af skýrslum sem B og A gáfu í Barnahúsi 16. janúar sl. sem og mynd- og hljóðupptöku af skýrslu sem bróðir þeirra D gaf hjá lögreglu og jafn­framt hlýtt á hljóð­upptökur af skýrslum sem foreldrar þeirra gáfu hjá lögreglu, sama dag. Enn fremur hefur dómurinn lesið endurrit skýrslu sem E gaf hjá lög­reglu, einnig þann dag og séð myndir af áverkum bæði hennar og A.

                Eftir að hafa kynnt sér öll þessi gögn telur dómurinn rökstuddan grun um að varn­ar­aðili, X, hafi raskað friði brotaþola, barna sinna B og A, þannig að heimilt sé, til þess að vernda friðhelgi þeirra á meðan að málið er í rann­sókn, að banna honum að nálgast þau á því tímabili sem krafan tekur til.

                Í skýrslutöku í Barnahúsi greindu börnin nokkuð greiðlega frá ofbeldi af hálfu bróður síns D. Hins vegar komu þau sér í lengstu lög undan því að svara öllum spurn­ingum sem vörð­uðu foreldra þeirra. Svörin voru ýmist á þá leið að þau gætu ekki munað, vildu ekki tala um það núna, treystu sér ekki til að rifja það upp og undan­færslur í þeim dúr. Ekki stóð þó á tárunum þegar reynt var að spyrja þau að því hvort for­eldrar þeirra slægju til þeirra. Að mati dómsins er ekki vafi á því að þau hafa ekki þorað í Barna­húsi að greina frá öllu því sem þau hafa upplifað, hvorki af hendi bróður síns né foreldra sinna, meðal annars af ótta við afleið­ing­arnar þegar heim væri komið. Skýrslu­tök­urnar sýna að þau hafa beyg bæði af föður sínum og bróður. Taka þarf skýrslu af bæði B og A aftur. Dómurinn fellst á það með lögreglustjóranum að nauðsynlegt sé að tryggja að hvorki faðir þeirra né bróðir geti haft áhrif á þau þar til þau gefa skýrslu á ný.

                Jafnframt er tekið undir það mat lögreglustjóra að ekki þyki sennilegt að frið­helgi barnanna á rannsóknarstigi málsins verði vernduð á annan hátt en þennan. Þykja því uppfyllt skilyrði a-liðar 4. gr. og 6. gr. laga nr. 85/2011 til þess að staðfesta ákvörðun lögreglu­stjóra, 16. janúar sl., eins og nánar greinir í úrskurð­ar­orði, en ekki þykja efni til að marka nálgun­ar­banninu skemmri tíma.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Staðfest er sú ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, 16. janúar sl., að X, sæti nálgunarbanni til 31. janúar nk. þannig að lagt er bann við því að X veiti börnum sínum, A, og B, eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau á annan hátt.

Þóknun verjanda varnaraðila, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., og réttar­gæslu­manns brotaþola, Ómars Arnar Bjarnþórssonar hdl., 150.000 krónur til hvors skal greidd úr ríkissjóði.