Hæstiréttur íslands
Mál nr. 148/2000
Lykilorð
- Vinnulaun
- Sjómaður
- Umboð
|
|
Fimmtudaginn 19. október 2000. |
|
Nr. 148/2000. |
Guðfinnur ehf. (Ólafur Sigurgeirsson hrl.) gegn Eyjólfi Leós Leóssyni (Jón Einar Jakobsson hdl.) |
Vinnulaun. Sjómenn. Umboð.
Í málinu var deilt um greiðslu G á eftirstöðvum launa E, en hann var háseti á fiskiskipi G á árinu 1995. Fyrir lá að G hafði réttilega haldið eftir hluta launa hans til greiðslu félagsgjalda stéttarfélags, lífeyrissjóðsiðgjalda og opinberra gjalda og hafði greitt honum um helming eftirstöðvanna með innborgun inn á bankareikning hans. Hins vegar neitaði G að greiða eftirstöðvarnar á þeim forsendum að hann hafi í fyrsta lagi mátt taka hluta þeirra upp í skuld E við G samkvæmt skriflegum samningi, þá hafi E fengið hluta launanna greiddan með tékka sem hann hafi innleyst í banka og loks hafi sambúðarkona E tekið við launum fyrir hans hönd, og hefði G í heild greitt E hærri upphæð en honum bar. Fyrir Hæstarétti var ekki til endurskoðunar niðurstaða héraðsdóms um að G hefði mátt draga greiðslu skuldar af launum E og að hluti þeirra teldist greiddur með tékka. Með vísan til meginreglu 1. mgr. 31. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 var talið að greiðslur sem sambúðarkona E kvittaði fyrir hefðu ekki verið réttilega inntar af hendi til E. Voru ekki talin efni til að telja kröfu hans fallna niður fyrir fyrningu eða tómlæti og var G því gert að greiða E hluta eftirstöðva launa hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson og Páll Sigurðsson prófessor.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. apríl 2000. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt gögnum málsins var stefndi háseti á fiskiskipi áfrýjanda, Guðfinni KE 19, frá 8. janúar til 21. ágúst 1995. Óumdeilt er að heildarlaun hans á því tímabili hafi numið 3.000.522 krónum, svo og að áfrýjandi hafi réttilega haldið eftir af þeim launum samtals 1.041.577 krónum til greiðslu félagsgjalda til stéttarfélags, lífeyrissjóðsiðgjalda og opinberra gjalda. Þá er einnig óumdeilt að af mismuninum, 1.958.945 krónum, hafi áfrýjandi greitt stefnda 979.044 krónur með innborgunum á bankareikninga hans. Um eftirstöðvarnar, 979.901 krónu, er hins vegar deilt. Áfrýjandi telur sig hafa mátt taka 454.961 krónu af þeirri fjárhæð upp í skuld stefnda við sig samkvæmt skriflegum samningi 6. apríl 1995, sem nánar greinir í héraðsdómi. Einnig hefur áfrýjandi haldið fram að stefndi hafi fengið greiddar 75.000 krónur upp í laun sín með tékka 2. ágúst 1995, sem hann hafi innleyst í banka. Þá hefur áfrýjandi lagt fram tólf kvittanir, sem dagsettar eru á tímabilinu frá 3. mars til 18. ágúst 1995, þar sem þáverandi sambúðarkona stefnda viðurkennir að hafa tekið við fyrir hans hönd samtals 818.600 krónur frá áfrýjanda. Að öllu þessu samanlögðu telur áfrýjandi sig hafa greitt stefnda meira en honum bar. Í hinum áfrýjaða dómi var fallist á með áfrýjanda að fyrstnefndu fjárhæðirnar tvær, alls 529.961 króna, ættu að dragast frá kröfu stefnda. Áttu þannig að standa eftir af kröfunni 449.940 krónur, en ekki 499.940 krónur, eins og var komist að niðurstöðu um í forsendum dómsins og greint í dómsorði.
Ein áðurnefndra kvittana fyrrverandi sambúðarkonu stefnda, sem áfrýjandi hefur lagt fram í málinu, er dagsett 2. ágúst 1995 og fyrir greiðslu að fjárhæð 75.000 krónur. Verður að ætla að þar sé um að ræða greiðslu með fyrrgreindum tékka, sem stefndi innleysti. Með vísan til meginreglu 1. mgr. 31. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, svo og að öðru leyti til forsendna héraðsdóms verður fallist á að aðrar greiðslur, sem sambúðarkonan kvittaði fyrir, hafi ekki réttilega verið inntar af hendi til stefnda. Ekki eru efni til að telja kröfu stefnda fallna niður fyrir fyrningu eða tómlæti, svo sem áfrýjandi hefur haldið fram fyrir Hæstarétti. Þá verður heldur ekki fallist á að stefndi þurfi að sæta frádrætti af kröfu sinni vegna bóta fyrir fyrirvaralaust brotthvarf úr skiprúmi, en um það gerði áfrýjandi fyrst ákveðna kröfu í greinargerð sinni fyrir Hæstarétti.
Með því að stefndi áfrýjaði ekki fyrir sitt leyti getur ekki komið til endurskoðunar sú niðurstaða héraðsdóms að áðurnefndir tveir liðir komi til frádráttar kröfu hans. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur að öðru leyti en um málskostnað staðfestur með þeirri breytingu, sem stafar af leiðréttingu fyrrgreindrar reiknivillu í forsendum dómsins.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Guðfinnur ehf., greiði stefnda, Eyjólfi Leós Leóssyni, 449.940 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. september 1995 til greiðsludags.
Áfrýjandi greiði stefnda samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 8. febrúar 2000.
I.
Mál þetta sem dómtekið var hinn 25. janúar árið 2000 hefur Eyjólfur Leó Leósson, kt. 270173-5949, Sólvallagötu 29, Keflavík, höfðað fyrir dóminum með stefnu birtri 5. júní 1999 á hendur Guðfinni ehf., kt. 411193-2099, Vesturgötu 37, Keflavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum kr. 943.706 auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga með síðari breytingum frá 1. september 1995 til greiðsludags. Þess er krafist að dráttavextir leggist við höfuðstól stefnufjárhæðar á tólf mánaða fresti frá upphafsdegi að telja. Krafist er málskostnaðar að skaðlausu að viðbættum virðisaukaskatti.
Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.
II.
Stefndi Guðfinnur ehf. á og gerir út Guðfinn KE-19, sem er 69,35 brúttólesta fiskiskip. Eigendur, stjórnarmenn og prókúruhafar hins stefnda félags eru hjónin Sigurður Friðriksson, kt. 190448-3559 og Margrét Sigurðardóttir, kt. 010154-4569, Vesturgötu 37, Keflavík.
Hjónin unnu bæði hjá félaginu, konan, Margrét, annaðist skrifstofuhald, þar á meðal launauppgjör og launagreiðslur.
Fósturdóttir téðra hjóna er Lóa K. Kristinsdóttir, kt. 260474-4489. Lóa og stefnandi máls þessa Eyjólfur Leó tóku upp sambúð og varð það úr að stefnandi réðst hinn 1. janúar 1995 sem háseti á Guðfinn KE-19 og var þar skipverji til 22. ágúst sama ár, en þá hafði slitnað upp úr sambúð hans og fósturdótturinnar. Ekki er annað fram komið en að samkomulag hafi verið um að hann hætti fyrirvaralaust. Stefnukrafan er um vangoldin laun.
Ekki er ágreiningur um það að stefnandi átti að fá útborgað frá útgerðinni samtals 1.958.945 krónur fyrir umrætt tímabil. Stefndi hefur lagt fram kvittanir er sýna að hann hefur lagt kr. 979.044 inn á bankareikninga stefnanda. mismunur upphafleg stefnukrafa kr. 979.901. Stefnandi viðurkennir að hafa fengið þá fjárhæð greidda og viðurkennir auk þess að launagreiðandanum hafi verið heimilt að draga af launum hans kr. 36.195 til þess að ljúka endurgreiðslu á láni þriðja manns. Samtals viðurkennd móttaka á kr. 1.015.239 krónum. Mismunur endanleg dómkrafa 943.706 krónur.
Þess má geta að stefndi hefur hreyft því að stefnandi eigi að sæta hýrudrætti að fjárhæð 25.000 krónum með vísan til 60. gr. sjómannalaga, en þar sem eigi er annað fram komið en samkomulag hafi verið um að stefnandi hætti án uppsagnarfrests kemur sú fjárhæð eigi frekar til álita.
III
Þær fjárhæðir sem deilt er um hvort stefnandi hafi fengið greiddar eru af tvennum toga. Annars vegar eru 454.961 krónur sem útgerðin greiddi af láni er stefnandi og sambýliskona hans höfðu fengið hjá fósturmóður sambýliskonunnar, Margréti fjármálastjóra stefnda, og hins vegar greiðslur frá útgerðinni sem sambýliskonan Lóa kvittaði fyrir. Stefnandi hefur mótmælt því að hún hafi haft til þess umboð. Framlagðar kvittanir undirritaðar af sambýliskonunni Lóu eru samtals fyrir kr. 818.600.
Verður fyrst vikið að láninu og greiðslum af því:
Er stefnandi og fósturdóttirin Lóa hófu sambúð fengu þau til afnota íbúð á neðri hæð í húsi fósturforeldranna, eigenda hins stefnda félags. Jafnframt hófust þau handa um kaup á íbúð. Til þess að þau stæðust greiðslumat Íbúðarlánasjóðs lagði fósturmóðirin Margrét krónur 1.300.000 inn á sparisjóðsbók í nafni Lóu. Í framhaldi af því var gerður skriflegur samningur, sem lagður er fram í málinu og hljóðar svo:
“Við undirrituð Lóa K. Kristinsdóttir, kt. 260474-4489 og Eyjólfur Leó Leósson, kt. 270173-5949, annarsvegar og Margrét Sigurðardóttir, kt. 010154-4569, gerum svofelldan samning: Lóa Kristín og Eyjólfur Leó fá að láni 1.300.000 krónur til íbúðakaupa vegna Fífumóa 1A, sem eru á bók nr. 120564, eigandi Lóa K. Kristinsdóttir, kt. 260474-4489, sem endurgreiðist með sparimerkjum og uppgjörum mánaðarlega 1995.
|
Sparimerki áætluð |
kr.845.039 |
|
Uppgjör fyrir apríl |
kr.37.491 |
|
Uppgjör fyrir maí |
kr.42.976 |
|
Uppgjör fyrir júní |
kr.174.494 |
|
Uppgjör fyrir júlí |
kr.200.000 |
|
Samtals |
kr.1.300.000 |
Keflavík 6.4.1995. Lánveitandi: Margrét Sigurðardóttir 010154-4509. Lántakendur: Lóa K. Kristinsdóttir. 260474-4489. Eyjólfur Leós 270173-5949. Vottur að réttri undirskrift fjárræði aðila og dagsetningu. Sigurður Friðriksson 190448-3559."
Stefnandi hefur lýst því yfir fyrir dómi að fjármálastjórinn Margrét hafi haft fulla heimild að þess að ráðstafa hluta af launum hans til greiðslu á láni þessu í samræmi við framangreint skriflegt samkomulag. Þrátt fyrir orðalag samkomulagsins hélt hann því þó fram, að sú heimild hefði aðeins náð til fjárhæðar er næmi helmingi lánsfjárhæðarinnar, hann kvaðst hafa ætlast til að sambýliskonan Lóa yrði krafin um og greiddi hinn helming lánsfjárhæðarinnar, enda hafi þau verið kaupendur íbúðarinnar að jöfnu og andvirði íbúðarinnar skipst að jöfnu við sambúðarslit.
Af hálfu stefnanda hefur því verið haldið fram samningurinn hafi ekki verið ritaður að fullu hinn 6. apríl, fjárhæðir úr uppgjörum hafi verið færðar inn eftirá, að líkindum eftir að hann hætti hjá útgerðinni. Fjármálastjórinn Margrét mótmælti því ekki að svo kynni að hafa verið, en lögmaður stefndu bendir á að lánið hafi átt að "endurgreiðast með sparimerkjum og uppgjörum mánaðarlega" á árinu, fjármálastjóri stefndu hafi augljóslega haft umboð til að rita skjalið að fullu síðar, hafi það ekki verið gert þegar við undirritun þess.
Varðandi fjárhæðir þær sem sambýliskonan Lóa veitti viðtöku og kvittaði fyrir, þá hefur stefnandi haldið því fram að hún hafi ekkert umboð haft til þess. Auk þess séu fjárhæðir þær er greinir í bókhaldi stefndu um greiðslur samkvæmt samningum frá 6.4.1995, kvittanir Lóu fyrir launagreiðslum og aðrar færslur og fylgiskjöl varðandi launauppgjör til stefnanda að meira eða minna leyti tilbúnar eftir á, eftir sambúðarslitin. Sambýliskonan Lóa kom ekki fyrir dóm til þess að bera vitni í málinu.
Af hálfu stefnda er á það bent að rík venja sé fyrir því að eiginkonur eða sambýliskonur veiti launagreiðslum til sjómanna viðtöku og kvitti fyrir þeim án þess að skriflegs umboðs sé krafist. Með stefnanda og sambýliskonu hans hafi verið full fjárhagsleg samstaða, þau hafi búið saman, rekið saman heimili, stúlkan verið vanfær og þau hafi verið að kaupa saman íbúð. Stefnandi hafi fyrir dóminum viðurkennt að hafa fengið mánaðarlega uppgjörsseðla um mitt sumar fyrir allt starfstímabil sitt nema júlí og ágúst. Endanlegt launauppgjör hann hafi síðan fengið fyrir milligöngu verkalýðsfélags síns fengið hinn 12.12.1995. Þrátt fyrir það hafi hann ekki mótmælt sérstaklega umboði sambýliskonu sinnar til þess að taka við launagreiðslum fyrr en undir rekstri máls þessa.
Álit dómsins.
Túlka verður samninginn, lánsskjalið, frá 6.apríl 1995 svo, að stefnandi hafi veitt Margréti fjármálastjóra stefnda, sem var að því er virðist lánveitandi persónulega, umboð til þess að ráðstafa þeim launagreiðslum, uppgjörsfjárhæðunum, sem í samningnum greinir, til greiðslu á láninu, enda er ekki í skjalinu að finna, eða fram komið með öðrum hætti, að greiðsluskylda stefnanda hafi verið takmörkuð við helming lánsfjárhæðarinnar svo sem hann hefur látið að liggja. Þvert á móti verður ekki annað af skjalinu ráðið en að hann hafi verið fullábyrgur gagnvart lánveitanda fyrir allri lánsfjárhæðinni og ávísað launagreiðslum til fullnaðargreiðslu á láninu. Samkvæmt því verða þær krónur 454.961 sem runnu til greiðslu lánsins teknar til greina sem launagreiðsla.
Stefnda tryggði sér ekki skriflega sönnun fyrir umboði sambýliskonu stefnanda til þess að veita launagreiðslunum til hans viðtöku. Þótt sambúð og fjárhagsleg samstaða skapi almennt líkur á því að úrgerðarmaður leysist með því að greiða sambýliskonu skipverja laun hans, og þótt sá háttur kunni að vera algengur, þá er á það að líta að hér hagar óvenjulega til:
Sambýliskonan er launagreiðslunum veitti móttöku var nátengd eigendum og stjórnendum hins stefnda félags, fjölskyldumeðlimur. Sambúðinni var slitið er stefnandi fékk uppgjör það þar sem meginhluti umræddra launaúttekta kemur fram. Fylgiskjöl, einkum samningur sá sem dagsettur er 6. apríl 1995, vekja grunsemdir um að vera ekki að öllu leyti samtímagögn. Sambýliskonan hefur ekki komið fyrir dóm til þess að veita svör um umboð sitt svo og hvort og þá hvenær hún veitti umræddu fé viðtöku og hvenær hún undirritaði kvittanirnar.
Að þessu athuguðu teljast þær launakvittanir er sambýliskona stefnanda undirritaði ekki lögfull sönnunargögn um launagreiðslur til stefnanda.
Sem fyrr segir er óumdeilt í málinu að stefnandi átti að fá krónur 1.958.945 útborgaðar í laun. Stefndi hefur sýnt fram á að hann hafi lagt kr. 979.044 inn á bankareikninga stefnanda og lagt fram ávísun útgefna af stefnda á stefnanda sem hann framseldi hinn 2. ágúst 1995 að fjárhæð kr. 75.000 sem stefndi heldur fram að sé launagreiðsla og stefnandi hefur ekki getað skýrt á annan veg. Samtals kr. 1054.044. Þar við bætast greiðslu af láni kr. 454.961. Alls hefur stefnandi þá fengið kr. 1.509.005 af þeim kr. 1.958.945 sem óumdeilt er að homum bar. Samkvæmt þessu eru vangoldin laun stefnanda þá kr. 499.940 og verður hið stefnda félag dæmt til þess að greiða stefnanda þá fjárhæð með vöxtum eins og stefnandi krefst og krónur 150.000 í málskostnað.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi Guðfinnur ehf. greiði stefnanda Eyjólfi Leó Leóssyni kr. 499.940,- ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 1. september 1995 til greiðsludags og 150.000 krónur í málskostnað auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.