Hæstiréttur íslands

Mál nr. 81/2003


Lykilorð

  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
  • Laun
  • Hlutafé
  • Skuldajöfnuður


Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. október 2003.

Nr. 81/2003.

Kristján Sveinn Kristjánsson

(Sigmundur Hannesson hrl.)

gegn

Parketi og gólfi ehf.

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

 

Frávísun frá héraðsdómi að hluta. Launakrafa. Hlutafé. Skuldajöfnuður.

K krafði P um greiðslu launa o.fl. P krafðist sýknu á grundvelli gagnkröfu til skuldajöfnuðar. Af gögnum málsins varð ekki annað ráðið en að K stæði í skuld við P umfram þá fjárhæð sem hann krafðist greiðslu á. Var P því sýknað af þessari kröfu K. Kröfu K um að viðurkenndur yrði með dómi 25% eignarhlutur hans í P var vísað frá dómi vegna ágalla á reifun málsins að því leyti. Athugasemdir voru gerðar við réttargæslustefnu og meðferð hennar fyrir héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. mars 2003. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 442.570 krónur með vöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. mars 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Áfrýjandi krefst þess einnig að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur hans á 25% í stefnda, að nafnverði 250.000 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar úr hendi áfrýjanda fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur stefnt Ómari Friðþjófssyni, Guðmundi Antonssyni, Friðriki Má Bergsveinssyni og Friðþjófi Friðþjófssyni til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

Stefndi hefur fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að áfrýjandi hafi ekki fengið greiddar frá honum 442.570 krónur í laun, lífeyrissjóðsgreiðslur og orlof. Sýknukrafa stefnda byggist á gagnkröfu til skuldajöfnuðar, annars vegar vegna framlags hans til Lífeyrissjóðs verslunarmanna, sem hann greiddi í þágu áfrýjanda, og hins vegar vegna úttekta áfrýjanda hjá stefnda, samtals að fjárhæð 1.433.763 krónur. Til stuðnings fullyrðingum sínum hefur stefndi meðal annars lagt fram yfirlit um úttektir áfrýjanda hjá stefnda og fylgiskjöl úr bókhaldi. Áfrýjandi hefur mótmælt framlögðu yfirliti og gert athugasemdir við sum fylgiskjölin, en þau eru flest ófullkomin og ekki kvittuð af áfrýjanda um móttöku þeirra greiðslna sem þau kveða á um. Helga Erlingsdóttir, fyrrverandi bókari hjá stefnda, hefur útskýrt nokkuð fyrir dómi framlögð bókhaldsgögn. Fram kom hjá henni að áfrýjandi hafi haft leyfi til að taka fé úr peningakassa í starfstöð stefnda. Venjan hafi verið sú að áfrýjandi hafi ekki kvittað fyrir móttöku á þessum peningaúttektum, en sett í staðinn miða með upplýsingum um úttektirnar svo að uppgjör hvers dags stemmdi. Áfrýjandi hefur viðurkennt að sum þessara gagna séu vegna greiðslna stefnda til sín, meðal annars vegna fyrirframgreiddra launa, sem hafi átt að færast til hans um hver mánaðamót. Framlagðir launaseðlar áfrýjanda styðja þó ekki fullyrðingar hans í þessu efni. Jafnframt er fram komið að áfrýjandi hafði óskað eftir því að skuld hans yrði bókfærð sem viðbótarlaun honum til handa. Auk framanritaðs eru einnig í gögnum málsins kvittanir áfrýjanda fyrir móttöku sumra af þessum greiðslum. Af því sem að framan er rakið verður ekki annað ráðið en að áfrýjandi hafi staðið í skuld við stefnda umfram þær 442.570 krónur sem hann krefst greiðslu á. Að þessu virtu er staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefnda af kröfu áfrýjanda um greiðslu þessarar fjárhæðar.

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi má rekja upphaf hins stefnda félags til þess að Solarumboðið hf. var stofnað árið 1988, en eigendur þess munu meðal annarra hafa verið tveir réttargæslustefndu, bræðurnir Ómar og Friðþjófur. Hlutafé félagsins var 1.000.000 krónur. Er ágreiningslaust að á þessum tíma var áfrýjandi ekki meðal hluthafa í félaginu. Á árinu 1994 var nafni félagsins breytt í Parket og gólf hf., síðar Parket og gólf ehf.

Málatilbúnaður áfrýjanda er misvísandi hvað varðar kröfu um að viðurkenndur verði 25% eignarhlutur hans í stefnda. Í héraðsdómsstefnu kemur fram að hann hafi vorið 1994 ákveðið að ganga til samstarfs við réttargæslustefnda Ómar ,,um stofnun hlutafélagsins“, en félagið ,,væri orðið formlega skráð þann 1. júlí 1994“. Þrátt fyrir framanritað segir í stefnunni að félagið hafi ekki verið stofnað þá heldur á árinu 1988 og hafi á þessum tíma því einungis átt sér stað nafnbreyting í þá veru sem að framan er rakið. Áfrýjandi kveðst hafa átt 25% af hlutafé í stefnda, eða ,,að nafnverði kr. 250.000“, sem hann hafi að megninu til greitt á árinu 1994 og að hluta ,,í nafni móður sinnar“, en heldur því jafnframt fram að hann hafi ,,í upphafi“ verið eigandi 25% hlutafjár. Samkvæmt framanrituðu virðist áfrýjandi þó miða þar við 1. júlí 1994 er  nafnbreyting áti sér stað. Raunar vekur áfrýjandi í greinargerð sinni til Hæstaréttar sérstaka athygli á því „að allt frá stofnun félagsins er hlutafé félagsins kr.1.000.000...“.

Verður málatilbúnaður áfrýjanda samkvæmt framanrituðu helst skilinn svo að eignarhlutföll í stefnda hafi breyst á árinu 1994, en ekki hafi þá komið til hlutafjáraukningar í félaginu, og tilgreinir áfrýjandi sérstaklega þá sem hafi átt hlutafé ásamt sér. Þrátt fyrir það hefur áfrýjandi ekki stefnt þeim í sérstöku máli, heldur beint kröfu sinni að stefnda án þess að gera glögglega grein fyrir viðskiptum þeirra í milli. Að því virtu sem að framan greinir eru þvílíkir ágallar á reifun málsins að vísa verður þessari kröfu áfrýjanda frá héraðsdómi.

Það athugast að áfrýjandi hefur kosið að stefna „öllum upphaflegum/þekktum hluthöfum“ í stefnda til réttargæslu, þannig að þeim verði gert að sæta því að eignarhlutur stefnanda í félaginu verði staðfestur. Er í hinum áfrýjaða dómi fjallað efnislega um þessa kröfu áfrýjanda á hendur þeim og þeir sýknaðir af henni, á mismunandi forsendum. Þeir sem stefnt er til réttargæslu geta hins vegar ekki orðið bundnir af dómi í málinu á þann veg sem dómkrafa áfrýjanda hljóðar á um. Slík kröfugerð á hendur réttargæslustefndu og meðferð hennar í hinum áfrýjaða dómi er því í andstöðu við ákvæði 21. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem verður ákveðinn í einu lagi, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Kröfu áfrýjanda, Kristjáns Sveins Kristjánssonar, á hendur stefnda, Parketi og gólfi ehf., um viðurkenningu á hlutafjáreign hans í stefnda, er vísað frá héraðsdómi.

Stefndi er sýkn af kröfu áfrýjanda um greiðslu launaskuldar.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2002.

Mál þetta, sem dómtekið var 8. nóvember s.l., er höfðað með stefnu birtri 5.-8. desember 2001.

Stefnandi er Kristján Sveinn Kristjánsson, kt. 050353-5679, Suðurbraut 5, Kópavogi.

Stefndi er Parket og gólf ehf., kt. 510888-1469, Ármúla 23, Reykjavík.  Réttargæslustefndu eru Ómar Friðþjófsson, kt. 021051-2929, Logafold 32, Reykjavík, Guðmundur Antonsson, kt. 110243-0069, Háulind 9, Kópavogi, Friðrik Már Bergsveinsson, kt. 240762-2699, Logafold 111, Reykjavík og Friðþjófur Friðþjófsson, kt. 251159-2899, Kársnesbraut 78, Kópavogi.

Dómkröfur stefnanda eru þær að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda vangreidd laun og orlof samtals að fjárhæð kr. 442.570 ásamt vöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. mars 1999 til 1. júlí 2001, en skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Þá eru þær kröfur gerðar á hendur hinu stefnda félagi og réttargæslustefndu að þeim verði gert að þola staðfestingu eignarréttar stefnanda á 25% eignarhlut í áðurgreindu félagi að nafnverði kr. 250.000.  Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Dómkröfur hins stefnda félags eru þær aðallega að það verði sýknað af öllum kröfum stefnanda en til vara að það verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og að viðurkenndur verði skuldajöfnuður við launa- og orlofskröfu stefnanda.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.  Réttargæslustefndu gera þær kröfur að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og þeim verði dæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati dómsins.

 

Málavextir.

 

Upphaf hins stefnda félags má rekja til þess þegar fyrirtækið Solarumboðið var stofnað hér á landi árið 1988.  Eigendur þess voru meðal annarra réttargæslustefndu Ómar og Friðþjófur, en þeir eru bræður.  Nokkrar breytingar urðu á hlutafjáreign félagsins og árið 1993 var svo komið að réttargæslustefndi Ómar og kona hans áttu 94% hlut í félaginu en Friðþjófur 6%.  Á hluthafafundi í félaginu 1. júlí 1994 var samþykkt að breyta nafni félagsins í Parket og gólf hf. og var sú breyting tilkynnt til Hlutafélagaskrár samdægurs.  Í stjórn félagsins voru áðurgreindir hluthafar þess.

Stefnandi segist hafa hafið störf árið 1989 hjá Parketgólfi hf., sem þá hafi m.a. verið í eigu réttargæslustefnda Ómars.  Það fyrirtæki mun hafa sameinast fyrirtækinu Víði Finnbogasyni og hlotið nafnið Teppaland-Parketgólf hf.  Mun stefnandi hafa haldið áfram störfum hjá hinu sameinaða fyrirtæki.  Stefnandi mun hafa sagt upp störfum hjá fyrirtækinu í byrjun árs 1994 og skömmu síðar mun réttargæslustefnda Ómari einnig hafa verið sagt upp störfum.  Mun réttargæslustefndi Ómar þá hafa hafið undirbúning að nýjum rekstri hins stefnda félags og tók félagið á leigu húsnæði að Vegmúla 2 hér í borg í ágúst 1994.  Stefnandi hóf þá störf hjá hinu stefnda félagi og heldur stefnandi því fram að svo hafi samist milli hans og réttargæslustefnda Ómars að Ómar ætti 50% hlut, stefnandi 25%, réttargæslustefndi Guðmundur 17%, réttargæslustefndi Friðrik Már 5% og réttargæslustefndi Friðþjófur 3%.  Réttargæslustefndi Ómar heldur því hins vegar fram að stefnandi hafi aldrei orðið hluthafi í félaginu.  Stefnandi hafi verið úrskurðaður gjaldþrota 12. júlí 1994 og mun skiptameðferð á búi hans hafa lokið 19. desember 1997.  Engar eignir munu hafa fundist í búinu og var skiptum lokið með vísan til 155. gr. laga nr. 21/1991 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur.  Stefndu halda því fram að stefnandi hafi látið í ljós áhuga sinn á því að verða síðar hluthafi í félaginu þegar hagur hans vænkaðist.  Hafi verið auðsótt mál að stefna að því að selja stefnanda aukningarhlut í félaginu.  Hafi þó legið ljóst fyrir að hugsanleg kaup stefnanda yrðu að bíða þar til fjárhagsstaða hans yrði með þeim hætti að honum væri það mögulegt.  Stefnandi heldur því hins vegar fram að hann hafi verið búinn að greiða kr. 900.000 í peningum í nafni móður sinnar þegar verslun hins stefnda félags opnaði í Vegmúlanum.  Þá hafi hann lagt félaginu til tæki og búnað að verðmæti kr. 180.000.  Hafi þar verið um að ræða tölvubúnað, sög, fræsara, hjólsög, borvélar og fleiri smáverkfæri.  Hafi hann því greitt kr. 1.080.000 af kr. 1.750.000, en eftirstöðvarnar hafi hann átt að greiða síðar, m.a. með vinnuframlagi vegna yfirvinnu.  Stefndu halda því hins vegar fram að formleg ákvörðun um hlutafjáraukningu hafi aldrei verið tekin, en það hafi verið forsenda fyrir aukningunni að nýir hluthafar greiddu fyrir hlut sinn með reiðufé og hafi aldrei verið rætt um að unnt væri að greiða fyrir hlutaféð með öðrum hætti.  Stefndu halda því fram að rangt sé að stefnandi hafi greitt upp í hlut sinn í félaginu í nafni móður sinnar, Þórunnar Maggýjar Guðmundsdóttur.  Hafi hún lagt umrædda fjárhæð sem lán til félagsins og hafi það verið bókfært sem skuld við hana í bókhaldi þess.  Stefnandi hafi aldrei fengið þessa fjárkröfu móður sinnar framselda til sín og hafi félagið endurgreitt henni umrætt lán með vöxtum og verðbótum, samtals með kr. 1.412.614 þann 28. júní 1999.  Fram kemur í bréfi lögmanns Þórunnar til hins stefnda félags dagsettu 18. júní 1999 að honum hafi verið falið að innheimta 900.000 króna lán sem hún hafi veitt félaginu árið 1994 í gegnum (svo) son sinn sem starfað hafi hjá félaginu.  Sjái hún enga ástæðu til að láta fjármuni sína standa inni í félaginu eftir að sonur hennar hafi verið hrakinn frá störfum þar.  Þá segja stefndu að þau tæki sem stefnandi segist hafa lagt félaginu til hafi hann tekið með sér þegar hann hætti störfum hjá því í nóvember 1998.

Samkvæmt gögnum málsins var haldinn hluthafafundur í hinu stefnda félagi 15. desember 1995 og samþykktu hluthafar samþykktir hins stefnda félags.  Stefnandi ritar undir samþykktir þessar sem hluthafi.  Þá hafa verið lagðir fram ársreikningar hins stefnda félags árin 1995 og 1996 og í skýrslu stjórnar er tíundað hverjir eigi yfir 10% af hlutafé og kemur fram að stefnandi átti 25%, réttargæslustefndi Guðmundur 17% og réttargæslustefndi Ómar 50%.  Í ársreikningi 1997 er slíka tilgreiningu hins vegar ekki að finna en stefnandi ritar undir skýrslu stjórnar sem stjórnarmaður.  Í árshlutareikningi 30. júní 1998 er stefnanda hins vegar hvergi getið.  Samkvæmt vottorði úr hlutafélagaskrá dagsettu 8. október 1998 eru réttargæslustefndu Guðmundur, Friðþjófur og Ómar í stjórn félagsins.

Stefnandi skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði alltaf staðið í þeirri trú að hann væri hluthafi í félaginu.  Hann kvaðst hins vegar ekki hafa skýrt skiptastjóra í þrotabúi sínu frá hlutafjáreign sinni.  Stefnandi segist hafa orðið þess áskynja sumarið 1997, á fundi hluthafa með lögfræðingi hins stefnda félags, að ekki væri búið að ganga formlega frá hlutafjármálunum og skildist stefnanda að endurskoðandi félagsins ætti í vissum erfiðleikum með að skrá 50% hlut réttargæslustefnda Ómars þar sem hann hefði ekki lagt fjármuni til félagsins.  Stefndu lýsa atvikum á hinn bóginn svo að eftir að gjaldþrotaskiptum á búi stefnanda hafi lokið í lok ársins 1997 hafi félagið enn reynt að auka hlutafé félagsins í samræmi við óskir og áhuga aðila.  Hafi lögmaður félagsins útbúið uppkast að fundargerð í janúar 1998 þar sem fram hafi komið hvert gengi aukningarhluta yrði, hvernig aukningin skiptist, greiðslur í reiðufé, skiptingu hlutafjár eftir aukningu og hlutaskrá ef af aukningu yrði.  Hafi verið lögð á það áhersla að þeir sem hefðu áhuga á kaupa hluti í aukningunni yrðu að vera búnir að greiða fyrir þá með reiðufé áður en hluthafafundur yrði haldinn.  Hafi lögmaðurinn sérstaklega tekið fram að ekki væri heimilt að greiða fyrir aukninguna með víxlum, skuldabréfum eða öðrum verðmætum.  Ekki hafi komið til þess að hluthafafundur yrði haldinn í þessu skyni og sumarið 1998 hafi stefnandi komið á skrifstofu lögmannsins og tjáð honum að hann væri ekki reiðubúinn að taka þátt í aukningunni að svo stöddu.  Á þessum tíma mun hafa verið kominn upp trúnaðarbrestur milli stefnanda og réttargæslustefnda Ómars og á fundi með lögmanni félagsins 17. nóvember 1998 var stefnanda sagt upp störfum hjá félaginu og var uppsögnin ítrekuð með bréfi dagsettu 30. nóvember sama ár.  Lét stefnandi þegar af störfum og með bréfi dagsettu 15. desember sama ár óskaði lögmaður stefnanda þess við stjórnarformann hins stefnda félags að boðað yrði til formlegs hluthafafundar í félaginu, m.a. til þess að ræða tillögu stefnanda um að fram færi sérstök rannsókn með vísan til 72. gr. laga nr. 138/1994.  Hið stefnda félag hafnaði þessari málaleitan stefnanda með bréfi dagsettu 29. desember sama ár með þeim rökum að stefnandi væri ekki og hefði aldrei orðið hluthafi í félaginu.  Stefnandi leitaði þá til viðskiptaráðuneytisins með beiðni um rannsókn samkvæmt áðurgreindri lagagrein en ráðuneytið synjaði endanlega erindi stefnanda 30. október 1999.

Stefndu halda því fram að stefnandi hafi á starfstíma sínum hjá hinu stefnda félagi fengið fyrirframgreidd laun eða lán langt umfram laun hans og hafi skuldum hans aldrei verið að fullu skuldajafnað við útborguð laun hans.  Hafi skuld stefnanda í lok ársins 1996 numið samtals kr. 359.868, kr. 715.096 í árslok 1996, kr. 927.880 í árslok 1997 og við starfslok stefnanda hafi skuld hans við hið stefnda félag af þessum sökum numið kr. 1.433.763.  Hafi lögmanni félagsins verið falið að ganga til fjárhagslegs uppgjörs við stefnanda, en þrátt fyrir ítrekuð tilmæli hafi ekki tekist að fá stefnanda til að ganga til uppgjörs.  Hafi stefnandi á fundi með lögmanninum 15. febrúar 1999 óskað eftir því að skuld hans yrði bókfærð sem viðbótarlaun hans, en skömmu áður en hann hætti störfum hafi hann lýst yfir óánægju með launakjör sín.  Hið stefnda félag féllst ekki á þessa ósk stefnanda og með bréfi dagsettu 19. mars sama ár var skorað á stefnanda að greiða skuld sína að fullu innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins.  Stefnandi mun ekki hafa gert upp umrædda skuld.

Hið stefnda félag segist einnig hafa þurft að greiða til Lífeyrissjóðs verslunarmanna vangreidd iðgjöld vegna stefnanda frá 1. júlí 1996 til desembermánaðar 1998, samtals kr. 739.460.  Þar af hafi verið ógreitt 4% framlag stefnanda til sjóðsins, samtals kr. 294.024 að meðtöldum dráttarvöxtum.  Hefur stefnandi verið krafinn um greiðslu á þessari fjárhæð en ekki sinnt þeirri áskorun.

 

Málsástæður og lagarök.

 

Stefnandi reisir dómkröfur sínar á því að samkomulag hafi verið gert milli allra hluthafa við stofnun hins stefnda félags að eignarhlutur stefnanda skyldi vera 25%.  Þá hafi stefnandi jafnframt gert samkomulag við réttargæslustefnda Ómar um að stefnandi afsalaði sér allri yfirvinnu gegn 25% eignarhlut í fyrirtækinu.  Stefnandi byggir á því að fyrir liggi lögfull sönnun um eignarhlut stefnanda þar sem hann undirriti samþykktir félagsins sem hluthafi og í ársreikningum félagsins fyrir árin 1995 og 1996 sé staðfest að hann sé eigandi 25% hlutar í félaginu.  Þá áriti stefnandi ársreikninga félagsins fyrir árið 1997.  Stefnandi beinir þessari dómkröfu sinni að félaginu sem og réttargæslustefndu sem öllum upphaflegum/þekktum hluthöfum, en réttargæslustefndu þurfi að sæta því að 25% eignarhlutur stefnanda verði staðfestur.

Þá byggir stefnandi fjárkröfur sínar á hið stefnda félag á því að stefnandi hafi ekki fengið greidd laun fyrir febrúarmánuð 1999, kr. 207.000 auk 6% lífeyrissjóðsgjalds kr. 12.420, eða samtals kr. 219.420.  Þá telur stefnandi sig eiga inni orlof frá maí 1998 til febrúar 1999, samtals kr. 223.150 (219.420 x 10,17% x 10 mán.).  Samtals nemur fjárkrafa stefnanda því kr. 442.570.

Stefnandi byggir á reglum kröfuréttar um efndir loforða og samninga, sbr. lög nr. 7/1936 og lög nr. 39/1922.  Dráttarvaxtakröfur eru studdar við reglur III. kafla vaxtalaga og kröfur um málskostnað við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Réttargæslustefndu Guðmundur og Friðrik Már reisa sýknukröfu sína á því að þeir hafi aldrei orðið hluthafar í hinu stefnda félagi og beri því að sýkna þá á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.  Réttargæslustefndi Friðrik Már skýrði svo frá fyrir dómi að hann væri ekki hluthafi í félaginu.  Hann kannaðist við að það hafi staðið til og hafi hann greitt kr. 50.000 í því skyni en fengið þær endurgreiddar, sennilega sumarið 1994.  Réttargæslustefndi Guðmundur skýrði svo frá fyrir dómi að hann væri nú hluthafi í félaginu en dregist hefði að ganga frá því þar sem á því stóð að stefnandi gæti gengið frá hlutafjáreign sinni.

Aðrir stefndu reisa sýknukröfur sínar á því að stefnandi hafi aldrei orðið hluthafi í hinu stefnda félagi.  Hann hafi aldrei greitt fyrir hlutafé, hvorki fyrir hlutafjáraukningu né aðra hluti.  Enginn samningur liggi fyrir um kaup stefnanda í hinu stefnda félagi.  Stefndu kannast við að til hafi staðið að stefnandi ásamt öðrum festi kaup á auknum hlut í félaginu en á því hafi strandað sökum þess að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta.  Leiði ákvæði laga til þess að á þeim tíma geti stefnandi ekki hafa átt hlut í félaginu eða öðrum hlutafélögum þar sem hlutur hans hefði í því tilviki runnið í þrotabúið og komið til skipta.  Bú stefnanda hafi reynst eignalaust en í því hafi falist að stefnandi hafi engar eignir átt, þ.m.t. hlutabréf.  Stefndu byggja á því að samkvæmt tilkynningu til Hlutafélagaskrár í júlí 1994 hafi verið tilkynnt um alla hluthafa félagsins og samkvæmt því hafi réttargæslustefndi Ómar og kona hans átt 94% hlut og réttargæslustefndi Friðþjófur 6%.  Hafi engin breyting orðið á þeirri skráningu á þeim tíma sem hér skipti máli.  Þá hafi formleg ákvörðun um aukningu hlutafjár í hinu stefnda félagi aldrei verið tekin og hafi hlutaféð því verið óbreytt frá upphafi stofnunar félagsins kr. 1.000.000. 

Stefndu hafna því að stefnandi hafi lagt félaginu til tæki og tól sem meta skyldi sem greiðslu fyrir aukningarhluti í félaginu.  Þá mótmæla stefndu því að svo hafi um samist að meta ætti yfirvinnu stefnanda sem greiðslu fyrir hlutafé.  Stefnandi hafi verið starfsmaður félagsins og byggja stefndu á því að ekki verði séð af vinnuframlagi hans að hann teldi sig eiga hagsmuni undir vexti félagsins eða hag þess.  Hafi fjarvistir stefnanda verið tíðar og mikill tíma og orka hans farið í að sinna ýmsum persónulegum málefnum.

Stefndu segja það rangt að stefnandi hafi greitt upp í hlut sinn með greiðslum í nafni móður sinnar.  Hafi móðir stefnanda lagt kr. 900.000 sem lán til félagsins og það lán hafi hún fengið endurgreitt eftir að stefnanda var sagt upp störfum hjá félaginu.

Stefndu byggja á því að tilgreining á hluthöfum í skýrslum stjórnar sem fylgdu ársreikningum félagsins fyrir árin 1995 og 1996 hafi verið röng, enda ekki í samræmi við hlutaskrá félagsins.  Hafi endurskoðanda félagsins verið kunnugt um vilja þess til þess að auka hlutaféð og hafi honum verið tilkynnt að til stæði að tilteknir aðilar keyptu aukningarhluti í ákveðnum hlutföllum.  Hafi endurskoðandanum verið fullkunnugt um þessar fyrirætlanir og jafnframt að af þessu hafi aldrei orðið.  Hafi þeim aðilum sem til stóð að keyptu aukningarhluti verið boðið að sitja fundi félagsins og samþykkja nýjar samþykktir þess, ársreikninga, skýrslur o.fl. í því skyni að auðvelda þeim aðgang að félaginu og gera þeim stöðu þess ljósa.  Hins vegar hafi öllum verið ljóst að ekki gæti orðið af hlutafjáraukningunni fyrr en greitt hefði verið í reiðufé fyrir þá hluti sem þeir hefðu hug á.  Hafi hlutafjáraukningunni verið frestað ár eftir ár af ástæðum er vörðuðu stefnanda, en hann hefði ítrekað lýst því yfir að hann gæti ekki greitt fyrir hlut sinn.  Hafi nýr endurskoðandi félagsins fellt niður fyrri ranga tilgreiningu í skýrslum stjórnar frá 1998, en stefnandi hafi þá tekið þátt í fundum félagsins og ritað athugasemdalaust undir þá skýrslu þrátt fyrir að eldri tilgreining um eignarhlut hans í félaginu hafi verið felld niður, enda hafi honum verið fullkunnugt um að hann hafi aldrei verið eigandi hlutar í félaginu.

Stefndu byggja á að samkvæmt skráningum Hlutafélagaskrár hafi hlutaféð verið óbreytt frá stofnun félagsins eða kr. 1.000.000.  Í ársreikningum séu hvorki færð hlutafjárloforð né hlutafjáraukningar og engar tilkynningar hafi verið sendar um aukningu hlutafjár eða breytingar á eigendum þess.

Hið stefnda félag byggir á því að viðurkenna eigi til skuldajöfnuðar skuld stefnanda samkvæmt viðskiptareikningi hans vegna láns eða fyrirframgreiddra launa.  Hafi stefnandi ekki mótmælt þessari skuld sinni við félagið en því hafi verið hafnað að skuldin yrði bókfærð sem viðbótarlaun honum til handa eða afturvirk launahækkun.  Þá byggir félagið á því að jafnframt beri að skuldajafna greiðslu félagsins í framlagi stefnanda í lífeyrissjóð, en stefnandi hafi ekki mótmælt þeirri endurkröfu.

Hið stefnda félag hafnar kröfu stefnanda um greiðslu launa fyrir febrúarmánuð, þar sem hann hafi þá verið kominn í vinnu hjá öðrum vinnuveitanda.  Þá hafnar félagið kröfu stefnanda um orlof þar sem hann hafi tekið út áunnið orlof sitt með frídögum á starfstíma sínum.

Verði fallist fjárkröfur stefnanda krefst hið stefnda félag þess að fjárkröfum hans verði skuldajafnað við framangreindar skuldir stefnanda við hið stefnda félag með vísan til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndu vísa til laga nr. 138/1994, einkum III., IV. og V. kafla, laga nr. 21/1991, laga og reglna vinnuréttar svo og almennra reglna samninga- og kröfuréttar.  Skuldajafnaðarkrafa er reist á almennum reglum samninga- og kröfuréttar, reglum vinnuréttar svo og ákvæðum laga nr. 91/1991.  Málskostnaðarkrafa er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr.   Réttargæslustefndu vísa um málskostnaðarkröfu til 21. gr. og XXI. kafla laga nr. 91/1991.

 

Niðurstaða.

 

Í máli þessu krefur stefnandi hið stefnda félag um vangoldin laun fyrir febrúarmánuð 1999 og orlof frá maí 1998 til febrúar 1999.  Þá gerir stefnandi þá kröfu að öllum stefndu verði gert að þola staðfestingu eignarréttar stefnanda á 25% hlut í hinu stefnda félagi.

Ekki er um það deilt í málinu að hið stefnda félag hefur ekki staðið stefnanda skil á launum og orlofi fyrir það tímabil er mál þetta snýst um.  Hefur stefndi borið því við að stefnandi hafi verið farinn að vinna fyrir annan vinnuveitanda í febrúarmánuði 1999 og þá hafi hann tekið allt sitt orlof út með frídögum á starfstíma sínum.  Verði ekki á þessar málsástæður stefnda fallist gerir stefndi kröfu um að fjárkröfum stefnanda verði skuldajafnað við skuldir hans við stefnda.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að hann hafi hafið störf hjá öðrum 1. mars 1999.  Þessi staðhæfing stefnanda hefur ekki verið hrakin og þarf hið stefnda félag því að standa stefnanda skil á launum sínum eins og krafist er.  Þá hefur af hálfu stefnda ekki verið sýnt fram á að stefnandi hafi tekið orlof sitt út í frídögum eins og haldið er fram.  Verður því fallist á að stefnandi eigi fjárkröfu á hið stefnda félag og þar sem ekki er ágreiningur um útreikning stefnanda á kröfu sinni þarf stefndi að standa stefnanda skil á kr. 442.570.

Kemur þá til skoðunar hvort heimilt sé að skuldajafna kröfum hins stefnda félags við framangreinda kröfu stefnanda.  Telja verður nægilega upplýst að gagnkröfur stefnda lúti annars vegar að framlagi stefnanda í lífeyrissjóð sem stefndi greiddi til Lífeyrissjóðs verslunarmanna í þágu hans, kr. 294.024 og hins vegar að  fyrirframgreiddum launum stefnanda sem hann hefur ekki staðið stefnda skil á, eða kr. 1.433.763.  Hefur stefndi hafnað þeirri ósk stefnanda að þessi skuld verði bókfærð sem viðbótarlaun honum til handa.  Verður því að teljast óumdeilt að stefnandi standi í skuld við stefnda að þessu leyti.  Kemur þá til skoðunar hvort ákvæði 1. gr. laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups standi því í vegi að skuldajöfnuði verði beitt.  Það ákvæði hefur í dómaframkvæmd verið túlkað svo að skuldajöfnuður sé heimill standi krafan í slíkum tengslum við vinnuréttarsamband aðila að telja verði skuldajöfnuð eðlilegan.  Kröfur þær sem stefndi hefur uppi til skuldajafnaðar lúta annars vegar að langmestu leyti að fyrirframgreiddum launum og hins vegar að lögbundnu framlagi stefnanda til lífeyrissjóðs.  Þar sem hér er um samrættar kröfur að ræða sem tengjast beinlínins launagreiðslum til stefnanda þykja framangreind ákvæði laga nr. 28/1930 ekki girða fyrir að skuldajöfnuði verði beitt.  Þar sem gagnkröfur hins stefnda félags sem hér ná fram að ganga eru hærri en krafa stefnanda verður að sýkna stefnda af fjárkröfum stefnanda.

Réttargæslustefndu Guðmundur og Friðrik Már byggja sýknukröfu sína á þeirri málsástæðu að þeir hafi aldrei orðið hluthafar í hinu stefnda félagi og beri því að sýkna þá á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.  Samkvæmt gögnum málsins voru hluthafar hins stefnda félags samkvæmt hlutaskrá við nafnbreytingu 1. júlí 1994, og þann tíma sem hér skiptir máli, réttargæslustefndu Ómar og Friðþjófur og eiginkona Ómars.  Ekki hefur verið sýnt fram á að réttargæslustefndu Guðmundur og Friðrik hafi orðið hluthafar í félaginu.  Eru þeir því ekki réttir aðilar til varnar þeirri kröfu stefnanda að staðfestur verði eignarréttur hans að 25% eignarhlut í félaginu.  Verða þeir því sýknaðir af kröfum stefnanda í málinu.

Krafa stefnanda á hendur öðrum stefndu um að viðurkenndur verði eignarréttur hans að 25% hlut í hinu stefnda félagi er á því byggð að samkomulag hafi verið gert milli allra hluthafa við stofnun hins stefnda félags að eignarhlutur stefnanda skyldi vera 25%.  Þá hafi stefnandi jafnframt gert samkomulag við réttargæslustefnda Ómar um að stefnandi afsalaði sér allri yfirvinnu gegn 25% eignarhlut í fyrirtækinu.  Stefnandi byggir á því að hann undirriti samþykktir félagsins sem hluthafi og í ársreikningum félagsins fyrir árin 1995 og 1996 sé staðfest að hann sé eigandi 25% hlutar í félaginu.  Þá áriti stefnandi ársreikninga félagsins fyrir árið 1997. 

Samkvæmt gögnum málsins hefur stefnandi aldrei verið á hlutaskrá félagsins og þá hafa að mati dómsins ekki verið lögð fram fullnægjandi gögn sem sýna fram á að stefnandi hafi greitt hlutafé til félagsins eins og hann heldur fram.  Fram hefur komið að 900.000 króna greiðsla í nafni móður stefnanda, sem stefnandi heldur fram að hafi í raun verið greiðsla á hlutafé í hans þágu, var endurgreidd henni sumarið 1999 og kom fram í kröfubréfi hennar að um lán til félagsins hafi verið að ræða.  Þá er ljóst að stefnandi var undir gjaldþrotaskiptum frá 12. júlí 1994 til 19. desember 1997 og hefur verið upplýst að stefnandi taldi umdeildan 25% eignarhluta sinn ekki til eignar sinnar.  Hefur komið fram að fyrirhugaðri hlutafjáraukningu hafi ítrekað verið frestað vegna fjárhagsvandræða stefnanda.  Benda má á að ákvæði 4. mgr. 3. gr. laga nr. 138/1994 girða fyrir að stefnandi hafi getað talist meðal stofnenda félagsins meðan hann var undir gjaldþrotaskiptum.   Þá hefur stefnandi að mati dómsins ekki sýnt fram á að hann hafi greitt hlut sinn með vinnuframlagi eða með öðrum hætti, en samkvæmt 3. mgr. 5. gr. sömu laga skal greiðsla hlutar með öðrum verðmætum en reiðufé hafa fjárhagslegt gildi.  Greiðslan má ekki felast í skyldu til að vinna verk eða veita þjónustu.

Að mati dómsins leiðir tilgreining endurskoðanda í ársreikningum á hluthöfum, sem er í ósamræmi við formlega skráningu hluta í einkahlutafélagi, ekki til þess að stefnandi teljist hafa eignast hlut í hinu stefnda félagi með þeim hætti sem boðið er í lögum nr. 138/1994.  Með hliðsjón af framansögðu og þar sem stefndi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi greitt fyrir umdeildan eignarhluta sinn ber að sýkna stefndu af kröfu stefnanda að þessu leyti.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

DÓMSORÐ:

 

Stefndi, Parket og gólf ehf. og réttargæslustefndu Ómar Friðþjófsson, Guðmundur Antonsson, Friðrik Már Bergsveinsson og Friðþjófur Friðþjófsson, skulu vera sýknir af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.