Hæstiréttur íslands
Mál nr. 705/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Skaðabætur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. október 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2016 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila sem hann lýsti við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa sín að fjárhæð 65.922.209 krónur verði viðurkennd og henni skipað í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, en til vara 113. gr. sömu laga. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að krafa sóknaraðila verði lækkuð og henni skipað í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna ólögmætrar og saknæmrar háttsemi varnaraðila, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 9. maí 2016 í máli nr. 264/2016. Af þeim sökum verður úrskurðurinn staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Úlfur Sigurmundsson, greiði varnaraðila, VBS eignasafni hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2106.
I.
Máli þessu, sem er ágreiningsmál um slitameðferð varnaraðila, var beint til dómsins 23. desember 2013 með bréfi slitastjórnar varnaraðila með vísan til 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti. Málið var tekið til úrskurðar 1. september 2016.
Sóknaraðili krefst þess að krafa hans að fjárhæð 65.922.209 krónur verði viðurkennd við slitameðferð varnaraðila, og að henni verði skipað í réttindaröð sem forgangskröfu samkvæmt 7. tölul. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila.
Til vara krefst sóknaraðili þess að kröfu að fjárhæð 65.922.209 krónur verði skipað í réttindaröð sem almennri kröfu við slitameðferð varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila, að teknu tilliti til þess að sóknaraðili hefur ekki með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi.
Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Til vara krefst varnaraðili þess að fjárkrafa sóknaraðila verði lækkuð og að því marki sem hún sé viðurkennd skuli krafan njóta rétthæðar samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst varnaraðili þess í öllum tilvikum að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi sóknaraðila að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi sem taki mið af því að varnaraðili er ekki virðisaukaskattsskyldur.
II. Málsatvik
Sóknaraðili og varnaraðili, sem þá var og hét VBS fjárfestingarbanki hf., gerðu 3. október 2007 með sér samning um eignastýringu þar sem varnaraðili tók að sér að stýra eignum sóknaraðila. Fól sú eignastýring nánar tiltekið í sér tilfærslu milli mismunandi verðbréfa eftir því sem tækifæri buðust á markaði, sbr. 1. gr. samningsins. Heimild varnaraðila til eignastýringar var afmörkuð innan ákveðins ramma sem var skilgreindur í 13. gr. samningsins.
Samkvæmt 2. gr. samningsins skuldbatt varnaraðili sig til þess að varðveita fjármuni sóknaraðila á sérgreindum bankareikningi sem stofnaður var og sérstaklega merktur sóknaraðila þannig að engin hætta væri á að fjármunir á reikningnum blönduðust fjármunum varnaraðila eða annarra viðskiptavina varnaraðila. Skuldbatt varnaraðili sig til að leggja inn á reikning allt reiðufé sóknaraðila sem væri í vörslu varnaraðila á hverjum tíma.
Í 3. gr. eignastýringarsamningsins sagði að verðbréf í eigu sóknaraðila skyldu ávallt varðveitt með þeim hætti að eignarréttur sóknaraðila á slíkum verðbréfum væri nægilega tryggur og þeim haldið skýrt aðgreindum frá eignum varnaraðila eða annarra viðskiptavina varnaraðila. Þá sagði í 4. gr. að varnaraðili skyldi ákveða hvaða verðbréf skyldu keypt og hvernig fjármunum kröfuhafa skyldi á annan hátt varið innan þeirra marka sem fjárfestingarstefna samningsins samkvæmt 13. gr. mælti fyrir um. Fjármunir sóknaraðila skyldu varðveittir á vörslureikningi sérstaklega merktum sóknaraðila og fjármunum hans haldið aðgreindum frá fjármunum VBS.
Í fjárfestingarstefnu sem er að finna í eignastýringarsamningnum gaf sóknaraðili þau fyrirmæli til VBS að fjármunum hans skyldi varið til kaupa á skuldabréfum og hlutabréfum, en um það var fjallað nánar í samningnum.
Ekki er ágreiningur um það í málinu að á tímabilinu 2006-2009 keypti eignastýringarsvið varnaraðila, án samráðs við sóknaraðila, veðskuldabréf inn í eignasafn sóknaraðila sem ekki rúmuðust innan umboðs eða fjárfestingarstefnu eignastýringarsamningsins. Veðskuldabréfin eru gefin út af aðilum sem allir voru viðskiptavinir Framkvæmdafjármögnunar VBS, eins af sviðum bankans, en upphaflegur kröfuhafi bréfanna var VBS fjárfestingarbanki.
Framkvæmdafjármögnun VBS veitti fjármálaþjónustu sem mun hafa falist í skipulagningu og umsjón með fjármögnun á byggingaverkefnum. Gerði framkvæmdafjármögnun samninga við byggingaverktaka og framkvæmdaaðila er stóðu í byggingaframkvæmdum og leituðu til bankans um að fjármagna framkvæmdir. Framkvæmdafjármögnun VBS skoðaði og lagði mat á forsendur, áhættu og arðsemi og lagði síðan niðurstöður fyrir lánanefnd VBS. Væri viðkomandi verkefni samþykkt af lánanefnd VBS var gerður sérstakur fjármögnunarsamningur milli byggingaraðilans og VBS. Sú fjármögnun fólst í fjárframlagi af hálfu byggingaraðila annars vegar og hins vegar með útgáfu veðskuldabréfa sem VBS hafði umsjón með. Veðskuldabréfin voru oftast á 1. veðrétti viðkomandi eignar sem fjármagna átti byggingaframkvæmdir fyrir og skyldi heildarvirði skuldabréfanna vera sem næmi 60% af áætluðu söluvirði eignarinnar á fasteignamarkaði. Í einhverjum tilfellum mun þó hafa verið fjármagnað með veðskuldabréfum upp að 80%. Færi heildarvirði yfir 60% var það, sem umfram var þinglýst á 2. veðrétt viðkomandi eignar en ekki á 1. veðrétt samkvæmt reglum VBS. Veðsetning var með þeim hætti að veðsett voru samhliða á 1. veðrétti mörg skuldabréf sem samtals skyldu nema framangreindri heildarmatsfjárhæð.
Í greinargerð sóknaraðila eru nefnd í dæmaskyni veðskuldabréf á Mjölnisholti 12-14, sem sé eitt þeirra fasteignaverkefni sem VBS hafi staðið að, en þar hvíli samhliða á 1. veðrétti 52 samhljóða skuldabréf, hvert að nafnvirði 5.000.000 krónur sem útgefin voru 9.8.2006 samtals 260.000.000 krónur og samhliða þeim hvíli á 1. veðrétti önnur 227 samhljóða, hvert 5.000.000 krónur samtals kr. 1.135.000.000. Samtals hvíli því á 1. veðrétti 280 veðskuldabréf, samtals að fjárhæð 1.400.000.000 krónur.
Framkvæmdaaðili sem gert hafði fjármögnunarsamning við VBS gaf því næst út veðskuldabréf sem þinglýst var á viðkomandi lóð eða fasteign sem var í byggingu eða til stóð að ráðast í byggingu á.
Þegar tilteknum verkáfanga samkvæmt samningi um fjármögnun byggingarinnar var náð, keyptu VBS eða aðrir hluta þessara útgefnu skuldabréfa. Væri t.d. keypt lóð fyrir hinar fyrirhuguðu byggingaframkvæmdir og verð hennar væri 20% af áætluðu söluvirði eignarinnar, voru keypt skuldabréf af byggingaraðila fyrir um 60% af kaupverði lóðar og kaupin þannig fjármögnuð. Þegar byggingu var lokið og fasteignin seld, notaði útgefandi skuldabréfanna söluandvirði fasteignarinnar til að greiða upp skuldabréfin.
Framkvæmdafjármögnun VBS útbjó söluyfirlit yfir framangreind skuldabréf. Þar var viðkomandi fjármögnunarverkefni lýst og skilmálar veðskuldabréfanna tilgreindir. Framkvæmdafjármögnun VBS setti framangreind skuldabréf á sölulista skuldabréfa innan VBS um leið og VBS hafði keypt þau eða þau boðin öðrum til kaups miðað við framgang verksins. Fjárstýring VBS stýrði eignum bankans og ákvað hvort skuldabréfin yrðu seld þar sem að þeir voru sá aðili innan bankans sem voru með forræði á eignum bankans.
Framkvæmdafjármögnun VBS hafði umsjón með útgáfu veðskuldabréfanna. Af gögnum málsins verður ráðið að alls hafi þarna verið um 1200-1500 veðskuldabréf að ræða í um 39 skuldabréfaútgáfum. Bréfin tengjast um 20 fasteignaverkefnum á ýmsum byggingarstigum, allt frá óskipulögðu landi, tilbúnum lóðum, hálfbyggðum húsum og atvinnuhúsnæði í byggingu.
Framkvæmdafjármögnun VBS leitaði með beinum hætti til eignastýringarsviðs VBS þar sem framangreind veðskuldabréf voru boðin til kaups inn í eignasöfn viðskiptavina sem voru í eignastýringu hjá VBS. Í tölvupóstsamskiptum frá forstöðumanni eignastýringar VBS var óskað eftir því að útvegað yrði fjármagn í þau fasteignaverkefni sem VBS hafði skipulagt og gert fjármögnunarsamninga um, allt fram í febrúar til mars 2009, þegar leitað var eftir fjármagni vegna framkvæmda við að klára fasteignina Ferjuvað 13 í fokheldi.
Eignastýringarsvið VBS keypti í nafni kröfuhafa veðskuldabréf þau sem mál þetta lýtur að. Bréfin voru tryggð með 1. veðrétti í tilgreindum eignum sem vörðuðu þau fasteignaverkefni sem VBS hafði með fjármögnunarsamningi tekið að sér að fjármagna með framkvæmdaraðila.
Fyrir liggur að í sumum tilfellum var útgefandi og greiðandi veðskuldabréfanna dótturfélag eða hlutdeildarfélag VBS. Útgefandi skuldabréfa vegna spildna úr landi Laugardæla er Fjárfestingafélagið Ferjuholt ehf., kt. 410207-0520, en dótturfélag VBS, Fremd ehf., kt. 631205-1510, mun vera eigandi 28% hlutafjár í félaginu. Mun starfsmaður VBS hafa um tíma verið stjórnarformaður fyrrnefnda félagsins og annar starfsmaður stjórnarmaður þess síðarnefnda. Þá sat starfsmaður VBS í stjórn Laugardæla ehf., útgefanda skuldabréfa vegna Laugardæla, í gegnum Fremd ehf.
Af gögnum málsins verður ráðið að um áramótin 2007-2008 hafi farið að halla undan fæti í mörgum þeim fasteignaverkefnum sem VBS stóð að og tekin hafi verið ákvörðun um að láta viðskiptavini í eignastýringu bankanna kaupa veðskuldabréf í. Samdráttur var á fasteignamarkaði, vandkvæði í byggingu og framkvæmdum ásamt erfiðleikum í rekstri byggingaraðila sem að framkvæmdum stóðu. Þá þegar var orðið ljóst að útgefendur skuldabréfanna gátu ekki greitt þau á gjalddaga. Brugðust VBS og útgefandi við með því að breyta skilmálum í mörgum af þessum skuldabréfum og semja um nýjan gjalddaga. Sú skilmálabreyting fór ýmist fram eftir að bréfin höfðu verði keypt inn í eignasafn kröfuhafa eða rétt áður en VBS tók ákvörðun um að kaupa veðskuldabréfin inn í eignasafn kröfuhafa, en sóknaraðili vísar í því sambandi til veðskuldabréfs vegna Ferjuvaðs 13-15 í dæmaskyni.
Skuldabréfin sem VBS hafði keypt inn í eignasafn kröfuhafa voru ekki greidd á gjalddaga. Þegar ljóst varð að bréfin fengjust ekki greidd tók VBS til við að stofna svokölluð kröfuhafafélög. Þessi kröfuhafafélög voru einkahlutafélög þar sem þeir aðilar sem áttu veðskuldabréf með veð í tilteknum fasteignum eða lóðum voru hluthafar. Var félögunum ætlað það verkefni að slá skjaldborg utan um veðrétt aðila í viðkomandi fasteign og gera veðhöfum kleift að starfa í sameiningu sem einn aðili við uppboð eða sölu á viðkomandi fasteign.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 9. apríl 2010 var VBS fjárfestingarbanki hf. tekinn til slitameðferðar og var bankanum skipuð slitastjórn en í byrjun ágúst 2009 lá fyrir að bankinn uppfyllti ekki kröfur samkvæmt X. kafla laga nr. 161/2002 um eiginfjárkröfur og lausafjárkröfur fjármálafyrirtækja.
Í kjölfar þess að slitameðferð bankans hófst fékk sóknaraðili upplýsingar um með hvaða hætti framangreind veðskuldabréf höfðu verið keypt inn í eignasafn kröfuhafa ásamt því að hafa þá fyrst fengið upplýsingar um framangreint skipulag, tilhögun og framkvæmd á fasteignaverkefnum. Í greinargerð sóknaraðili til dómsins segir að sóknaraðila hafi þá fyrst orðið ljóst umfang þess tjóns sem hann hafði orðið fyrir vegna saknæmrar og ólögmætrar hegðunar stjórnenda og starfsmanna VBS.
Með bréfi, dags. 3. nóvember 2010, lýsti sóknaraðili eftirfarandi kröfum við slitastjórn VBS fjárfestingarbanka hf.
- Lýstar kröfur vegna veðskuldabréfa
-
Kröfur vegna veðskuldabréfa, nr. 45635, 45636, 45637 (Ásatún 48), keypt þann 08.10.2008:
|
Höfuðstóll samtals fyrir bréf |
ISK |
7.588.650 |
|
Krafa um vexti skv. 8. gr. l. 38/2001 frá kaupdegi veðskuldabréfs til 09.04.2010 |
ISK |
1.054.063 |
|
Samtals krafa í íslenskum krónum |
ISK |
8.642.713 |
-
Kröfur vegna veðskuldabréfs nr. 20951 (Dalaþing 15-17), keypt þann 14.11.2008:
|
Höfuðstóll samtals fyrir bréf |
ISK |
3.868.928 |
|
Krafa um vexti skv. 8. gr. l. 38/2001 frá kaupdegi veðskuldabréfs til 09.04.2010 |
ISK |
493.134 |
|
Samtals krafa í íslenskum krónum |
ISK |
4.362.062 |
-
Kröfur vegna veðskuldabréfs nr. 12310 (Dalvegur 30), keypt þann 14.11.2008:
|
Höfuðstóll samtals fyrir bréf |
ISK |
4.998.617 |
|
Krafa um vexti skv. 8. gr. l. 38/2001 frá kaupdegi veðskuldabréfs til 09.04.2010 |
ISK |
637.124 |
|
Samtals krafa í íslenskum krónum |
ISK |
5.635.741 |
-
Kröfur vegna veðskuldabréfs nr. 45514 (Kjarnagata 25-31), keypt þann 09.10.2008:
|
Höfuðstóll samtals fyrir bréf |
ISK |
2.699.491 |
|
Krafa um vexti skv. 8. gr. l. 38/2001 frá kaupdegi veðskuldabréfs til 09.04.2010 |
ISK |
374.959 |
|
Samtals krafa í íslenskum krónum |
ISK |
3.074.450 |
-
Kröfur vegna veðskuldabréfa nr. 44547, 44549 (Laugardælir), keypt þann 14.11.2008:
|
Höfuðstóll samtals fyrir bréf |
ISK |
9.875.152 |
|
Krafa um vexti skv. 8. gr. l. 38/2001 frá kaupdegi veðskuldabréfs til 09.04.2010 |
ISK |
1.256.119 |
|
Samtals krafa í íslenskum krónum |
ISK |
11.131.271 |
-
Kröfur vegna veðskuldabréfs nr. 43878(Laugardælir), keypt þann 18.11.2008 :
|
Höfuðstóll samtals fyrir bréf |
ISK |
4.947.129 |
|
Krafa um vexti skv. 8. gr. l. 38/2001 frá kaupdegi veðskuldabréfs til 09.04.2010 |
ISK |
596.624 |
|
Samtals krafa í íslenskum krónum |
ISK |
5.543.753 |
-
Kröfur vegna veðskuldabréfa nr. 44951(Tjarnarvellir 3), keypt þann 24.10.2008:
|
Höfuðstóll, upphaflega EUR 50.000, skilmálabreytt í íslenskar krónur, ISK 6.200.000.- |
ISK |
6.121.264 |
|
Krafa um vexti skv. 8. gr. l. 38/2001 frá kaupdegi veðskuldabréfs til 09.04.2010 |
ISK |
819.025 |
|
Samtals krafa í íslenskum krónum |
ISK |
6.940.289 |
-
Kröfur vegna veðskuldabréfa nr. 41828, 41829, 41830, 41831 og 41832 (Tjarnarvellir 3), keypt þann 07.02.2008:
|
Höfuðstóll samtals fyrir bréf |
ISK |
17.579.225 |
|
Krafa um vexti skv. 8. gr. l. 38/2001 frá kaupdegi veðskuldabréfs til 09.04.2010 |
ISK |
3.855.124 |
|
Samtals krafa í íslenskum krónum |
ISK |
21.434.349 |
-
.Kröfur vegna veðskuldabréfa nr. 44969 og 44970 (Vallarkór 3), keypt þann 14.11.2008:
|
Höfuðstóll samtals fyrir bréf |
ISK |
5.585.466 |
|
Krafa um vexti skv. 8. gr. l. 38/2001 frá kaupdegi veðskuldabréfs til 09.04.2010 |
ISK |
710.471 |
|
Samtals krafa í íslenskum krónum |
ISK |
6.295.937 |
-
Kröfur vegna veðskuldabréfs nr. 45183 (Vallarkór 3), keypt þann 22.12.2008:
|
Höfuðstóll samtals fyrir bréf |
ISK |
2.840.530 |
|
Krafa um vexti skv. 8. gr. l. 38/2001 frá kaupdegi veðskuldabréfs til 09.04.2010 |
ISK |
324.389 |
|
Samtals krafa í íslenskum krónum |
ISK |
3.164.919 |
-
Kröfur vegna veðskuldabréfa nr. 48815, 488164, 48810 og 48811 (Oddeyrartangi 1-15), keypt þann 30.11.2009:
|
Höfuðstóll samtals fyrir bréf |
ISK |
19.263.304 |
|
Krafa um vexti skv. 8. gr. l. 38/2001 frá kaupdegi veðskuldabréfs til 09.04.2010 |
ISK |
400.677 |
|
Samtals krafa í íslenskum krónum |
ISK |
19.663.981 |
-
Kröfur vegna veðskuldabréfa nr. 48854, 48855, 48858 og 48859 (Kaldbaksgata 6-8), keypt þann 30.11.2009:
|
Höfuðstóll samtals fyrir bréf |
ISK |
1.375.956 |
|
Krafa um vexti skv. 8. gr. l. 38/2001 frá kaupdegi veðskuldabréfs til 09.04.2010 |
ISK |
28.675 |
|
Samtals krafa í íslenskum krónum |
ISK |
1.404.631 |
-
Kröfur vegna veðskuldabréfa nr. 44735 og 42732 (Sómatún 1 og 3), keypt þann 09.10.2008:
|
Höfuðstóll samtals fyrir bréf |
ISK |
2.841.959 |
|
Krafa um vexti skv. 8. gr. l. 38/2001 frá kaupdegi veðskuldabréfs til 09.04.2010 |
ISK |
394.748 |
|
Samtals krafa í íslenskum krónum |
ISK |
3.236.707 |
Í kröfulýsingunni var jafnframt gerð krafa um afhendingu eftirtalinna eigna á grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991, sem annað hvort væru í vörslum VBS Fjáfestingarbanka hf. eða Lehman Brothers í Bankaríkjunum í nafni kröfuhafa eða í nafni VBS (custody account):
|
|
Nafn bréfa/fjármuna |
Gjaldmiðill |
Nafnverði |
|
1. |
TELE2 B |
SEK |
300 |
|
2. |
Modern Times Group B |
SEK |
100 |
|
3. |
METRO SDB A |
SEK |
70 |
|
4. |
METRO SDB B |
SEK |
140 |
|
5. |
Sænskar krónur á innlánsreikning í eigu kröfuhafa |
SEK |
1.318 |
|
6. |
Fjárvörslureikningur ISK |
ISK |
1.272.406 |
- Kostnaður
|
Kröfulýsing |
ISK |
150.000 |
|
Útlagður kostnaður vegna kröfulýsingar |
ISK |
3.500 |
|
Samtals kröfur vegna kostnaðar |
ISK |
153.500 |
Með birtingu kröfuskrár 2. desember 2010 frestaði slitastjórnin því að taka afstöðu til kröfunnar. Með bréfi til varnaraðila, dags. 9. desember 2010, mótmælti sóknaraðili þessari afstöðu.
Með bréfi, dags. 10. ágúst 2011, tilkynnti slitastjórn að hún teldi ekki hjá því komist að hafna kröfunni sökum vanreifunar. Í bréfinu var þess getið að þrátt fyrir ítarlega kröfulýsingu væri krafan sett fram með þeim hætti að örðugt væri að tengja saman ákveðna ólögmæta hegðun starfsmanna VBS og endanlegt tjón kröfuhafa.
Sóknaraðili mótmælti þessari afstöðu með bréfi til slitastjórnar, dags. 23. ágúst 2011, þar sem hann krafðist þess að krafa hans yrði samþykkt eins og henni var lýst í búið, bæði að fjárhæð og réttindastöðu. Í bréfinu voru jafnframt gerðar athugasemdir við að í bréfi slitastjórnar væri engin afstaða tekin kröfu sem lýst væri á grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991, um afhendingu á á tilteknum verðbréfum utan skuldaraðar sem tilgreind væru í kröfulýsingu.
Á ágreiningsfundi vegna slitameðferðar VBS eignasafns hf., sem haldinn var 11. nóvember 2011, vegna kröfunnar, ítrekaði slitastjórn VBS þá afstöðu sína að hafna lýstri kröfu frá 3. nóvember 2010, með kröfunúmerið 175 í kröfuskrá. Þá mótmælti sóknaraðili enn frekar afstöðu slitastjórnar og ítrekaði fyrri kröfur í samræmi við kröfulýsingu. Ítrekaði sóknaraðili sérstaklega að rökstuðning skorti fyrir höfnun á kröfu hans um afhendingu verðbréfa utan skuldaraðar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 og ítrekaði sóknaraðili kröfu sína þar um.
Á fundinum var upplýst að samkvæmt beiðni Fjármálaeftirlitsins hefði VBS falið Ernst & Young að vinna skýrslu um starfsemi VBS en sú skýrsla væri væntanleg innan skamms. Sammæltust aðilar í kjölfarið um að fresta málinu og umfjöllun um ágreining sinn þar til skýrslan lægi fyrir.
Eftir að fyrrgreind skýrsla hafði borist og slitastjórn hafði farið yfir efni skýrslunnar, tilkynnti hún sóknaraðila um það með bréfi, dags. 11. apríl 2013. Í bréfi slitastjórnar kom fram að eftir að hafa farið yfir kröfurnar á ný teldi hún að allar líkur væru á því að brotið hefði verið gegn lögum og reglum um fjármálafyrirtæki, eins og málum var háttað hvað varðar fjárfestingu í hinum umdeildu veðskuldabréfum f.h. viðskiptavina eignastýringar VBS. Auk þess hefði eignastýring varnaraðila ekki virt að fullu settar verklagsreglur eignastýringar og fjárfestingarstefnu sóknaraðila. Með vísan til þessara atriða féllst slitastjórn á að um skaðabótaskylda háttsemi eignastýringar varnaraðila hefði verið að ræða og því væri um að ræða skaðabótakröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Í bréfinu segir hins vegar enn fremur:
Í kröfulýsingunum frá nóvember 2010 vegna ofangreindra krafna, er ekki tekið tillit til þess hversu háar fjárhæðir höfðu fengist greiddar upp í hluta hinna umdeildu veðskuldabréfa. Né var ljóst á þeim tímapunkti er kröfunum var lýst hversu háar fjárhæðir myndu fást greiddar upp í hluta þeirra veðskuldabréfa er kröfurnar byggja á. Í einhverjum tilfellum liggur ekki enn fyrir hversu háar fjárhæðir fást greiddar upp í umrædd veðskuldabréf.
Að auki ber að athuga það að kröfuhafar hafa í einhverjum tilvikum gerst hluthafar í kröfuhafafélögum er halda utan um þar viðeigandi eign er veðsett var skv. umræddum veðskuldabréfum og eignin leyst inn í kröfuhafafélag á uppboði á grundvelli veðskuldabréfanna. Óljóst er því hverjar endanlegar endurheimtur kröfuhafanna eru vegna fjárfestingar í hinum umdeildu veðskuldabréfum.
Líkt og fyrr greinir fellst slitastjórn VBS á í ljósi alls framangreinds að skaðabótaskyld háttsemi sé til staðar. Hins vegar, eins og atvikum er háttað þá er ekki hægt að afmarka hvert endanlegt tjón umbjóðenda þinna er. Af þeim upplýsingum sem liggja fyrir er því óljóst hvert tjón kröfuhafanna er.
Forsenda þess að hægt sé að samþykkja kröfurnar er sú að fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir um hvert endanlegt tjón umbjóðendanna er.
Afstaða slitastjórnar VBS til krafnanna er að kröfunum er hafnað að svo stöddu.
Ekki verður séð af bréfinu að þar sé fjallað sérstaklega um kröfur sóknaraðila sem settar voru fram með vísan til 109. gr. laga nr. 21/1991. Með bréfi, dags. 18. apríl 2013, áréttaði sóknaraðili þær kröfur sem gerðar voru í kröfulýsingu og krafðist þess að þær yrðu samþykktar eins og þeim var lýst. Í bréfinu er fjallað um bótakröfur sóknaraðila í tilefni af háttsemi starfsmanna varnaraðila en ekki er þar vikið sérstaklega að fyrrnefndum kröfum hans samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991.
Jöfnunarfundur var haldinn á ný 17. september 2013. Í fundargerð kemur fram að sóknaraðili hafi á þessum fundi lagt fram yfirlit til nánari afmörkunar á tjóni kröfuhafa. Í bréfi varnaraðila frá 23. desember 2013, þar sem máli þessu er vísað til úrlausnar héraðsdóms, með vísan til 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, kemur einnig fram að sóknaraðili hafi síðar sent ítarlegri gögn yfirliti sínu til stuðnings. Slitastjórn hafi hins vegar ítrekað fyrri afstöðu sína um að hafna bæri kröfunni og sóknaraðili að sama skapi ítrekað kröfu sína um að lýstar kröfur hans yrðu samþykktar.
Við aðalmeðferð málsins kom fyrir dóminn Brynja Hjálmtýsdóttir, starfsmaður í eignastýringu hjá Virðingu hf., áður Auði Capital hf., sem tók yfir eignastýringu VBS hf. á grundvelli samnings við slitastjórn VBS með samþykki Fjármálaeftirlitsins. Mun vitnið hafa komið að málinu sem fjárfestingarstjóri og stjórnarformaður í hinum svokölluðu kröfuhafafélögum sem áður eru nefnd og stofnuð voru í því skyni að slá skjaldborg utan um veðrétt aðila í viðkomandi fasteign og gera veðhöfum kleift að starfa í sameiningu sem einn aðili við uppboð eða sölu á viðkomandi fasteign.
Samkvæmt framburði vitnisins var eignastýring sóknaraðila meðal þeirra verkefna sem Auður Capital hf. yfirtók með samningi sínum við slitastjórn VBS, en í því fólst að félagið tók yfir umsýslu þeirra fasteignaveðskuldabréfa sem liggja til grundvallar kröfu sóknaraðila í þessu máli. Þessi verkefni fluttust yfir með þeim hætti að Auður Capital fékk yfirlit frá VBS yfir allar þær eignir sem sóknaraðili ætti að eiga hjá VBS. Í framhaldinu hafi starfsmenn Auðar Capital farið yfir til VBS, talið öll bréf sem hver viðskiptavina eignastýringar VBS ætti og fært þau inn í sitt kerfi. Í framburði sínum staðfesti vitnið að VBS hefði keypt þau veðskuldabréf sem liggja til grundvallar kröfu sóknaraðila í þessu máli fyrir hans hönd á sínum tíma, en bréfin hefðu áður verið eign VBS.
Í framburði sínum staðfesti vitnið enn fremur að veðsetning þeirra eigna sem veðskuldabréfin sem krafa sóknaraðila byggist á hafi við yfirtöku Auðar Capital á eignastýringunni verið með þeim hætti sem greinir í veðbandayfirlitum frá 15. apríl 2010 og sóknaraðili lagði fram við meðferð málsins. Þá kom fram í máli vitnisins að félögin hefðu aldrei selt eignir nema með samþykki meirihluta hluthafa. Vitnið staðfesti enn fremur í framburði sínum að sóknaraðili hefði átt tiltekinn eignarhlut í hverju kröfuhafafélagi í samræmi við það sem fram kemur í gögnum málsins. Í framburði vitnisins kom enn fremur fram að umræddur eignarhlutur byggi á eign veðskuldabréfa í hverri fasteign. Í máli vitnisins kom enn fremur fram að varnaraðili hefði einnig átt aðild að umræddum félögum vegna eignar sinnar á skuldabréfum og að starfsmenn hans hafi mætt á fundi þar sem teknar voru ákvarðanir um ráðstöfun eigna og verið kunnugt um starfshætti félaganna. Þá hafi aðalskuldarar veðskuldabréfanna jafnframt verið viðskiptavinir VBS.
Í framburði vitnisins kom jafnframt fram að starfsmenn Auðar Capital, og síðar Virðingar hf., hafi ekki haft miklar upplýsingar um getu aðalskuldara til að greiða skuldir samkvæmt fyrrgreindum veðskuldabréfum ef andvirði hinna veðsettu fasteigna hrykki ekki til þess. Þær upplýsingar sem fyrir hendi voru hafi verið sóttar í kerfi Creditinfo hf. og lotið að því hvort gjaldþrotabeiðnir væru til staðar eða gerð hefðu verið árangurslaus fjárnám. VBS hafi hins vegar þegar haldið á einhverjum eignarhlutum aðalskuldara í kröfuhafafélögum þegar Auður Capital hf. tók við eignastýringu sóknaraðila þar sem aðalskuldararnir, fyrrverandi viðskiptavinir VBS, voru ógjaldfærir.
Í framburði sínum staðfesti vitnið enn fremur að fjárhæð þeirrar kröfu sem lýst er í greinargerð sóknaraðila hafi lækkað frá upphaflegri kröfulýsingu til samræmis við þær endurheimtur sem fengist hafi á kröfum hans samkvæmt veðskuldabréfunum í gegnum kröfuhafafélögin.
III. Málsástæður aðila
Málsástæður sóknaraðila
Rökstuðningur fyrir að krafa njóti stöðu samkvæmt 7. tölul. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili telur ekki ágreining í málinu um að fyrir liggi skaðabótaskyld háttsemi VBS Fjárfestingarbanka hf. og að hún hafi valdið honum tjóni. Sóknaraðili telur aðila vera sammála um að ágreiningur þeirra snúi að því hvort krafa sóknaraðila njóti stöðu samkvæmt 7. tölul. 112. gr. laga nr. 21/1991, sem krafa til eða vegna meðferðar fjár sem þrotamaður hefur haft í vörslum sínum sem opinber sýslunarmaður með sjálfstæða fégæslu, eða hvort hún njóti stöðu sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga.
Sóknaraðili byggir á því að VBS Fjárfestingarbanki hf. hafði með skipulagi, athöfnum og athafnaleysi valdið sóknaraðila tjóni með saknæmum hætti sem orsakaðist og sé sennileg afleiðing af háttsemi starfsmanna bankans. Telur sóknaraðili að varnaraðili beri ábyrgð á þessu tjóni, sbr. 8. gr. í eignastýringarsamningi aðila, dags. 3. október 2007, en þar segi að varnaraðili ábyrgist tjón sem rekja megi til saknæmrar háttsemi starfsmanna varnaraðila.
Sóknaraðili kveður tjón sitt felast í því að fjármunir sem voru í vörslum og undir stjórn varnaraðila á grundvelli eignastýringarsamnings, hafi tapast vegna bótaskyldra athafna varnaraðila. Varnaraðili hafi þegar viðurkennt að krafa sóknaraðila njóti stöðu sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Sóknaraðili byggi hins vegar á því að krafa hans njóti stöðu sem forgangskrafa samkvæmt 7. tölul. 112. sömu laga.
Sóknaraðili vísar í þessu sambandi til þess að ef horft er til eðlis kröfu hans og tilurðar sé hún annars eðlis en almenn kröfuréttindi og almennar skaðabótakröfur í bú þrotamanns. Sóknaraðili bendir á að innistæður sem um margt hafa svipaða stöðu og fjármunir á vörslureikningum fjármálafyrirtækis njóti rétthæðar samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, en með síðastnefndu ákvæði hafi löggjafinn tekið af skarið um að réttur til innstæðufjár sé í reynd kröfuréttur, ekki eignarréttur.
Sóknaraðili telur að forgangskröfur samkvæmt 112. laga nr. 21/1991 feli í sér frávik frá meginreglu laganna um jafnræði kröfuhafa og jafna rétthæð krafna í þrotabú. Þessar kröfur eigi það hins vegar sammerkt að þær hafi ýmist einkenni persónulegra kröfuréttinda eða eignarréttinda. Þannig byggist þær kröfur sem taldar eru upp í 1.-6. tölulið 112. gr. á vinnuréttarsambandi launþega en þessum kröfum og réttindum sé það sameiginlegt að það sé þrotamaður sem haldi utan um eða hafi umráð yfir þeim á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag.
Krafa á grundvelli 7. tölul. 112. laganna stofnist aftur á móti vegna meðferðar fjár sem þrotamaðurinn hafi haft í vörslum sínum sem opinber sýslunarmaður með sjálfstæða fégæslu. Að mati sóknaraðila felst í orðalagi ákvæðisins krafa á hendur þrotabúinu sem grundvallast á kröfuréttindum sem aðili eignast á hendur því. Með orðunum „meðferð fjár“ sé ýmist vísað til saknæmrar eða refsiverðrar háttsemi þrotamanns sem leiði til að fjármunir í eigu kröfuhafa eru ekki lengur til staðar í búinu. Sóknaraðili bendir á að hefði fjármunum hans verið ráðstafað með lögmætum hætti af VBS, þ.e. keypt verðbréf í samræmi við fjárfestingarstefnu eignastýringarsamningsins, ætti sóknaraðili rétt til þess að fá verðbréfin afhent utan skuldaraðar, sbr. 109 gr. laga nr. 21/1991, á grundvelli eignarréttar, sbr. 3. gr. eignastýringarsamnings aðila.
Sóknaraðili bendir enn fremur á að varnaraðili hafi skuldbundið sig, samkvæmt 2. gr. eignastýringarsamnings aðila, til að varðveita fjármuni sóknaraðila á sérgreindum bankareikningi sem stofnaður var og sérstaklega merktur sóknaraðila þannig að engin hætta væri á að fjármunir hans blönduðust fjármunum varnaraðila eða annarra viðskiptavina varnaraðila. Sóknaraðili telur að þar sem fjármunir sóknaraðila hafi tapast vegna saknæmrar háttsemi varnaraðila verði sóknaraðili að sætta sig við að eignarréttindi hans umbreytist í kröfuréttindi samkvæmt 112. gr. Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að kröfur sem njóta stöðu samkvæmt 7. tölul. 112. gr. eigi það sameiginlegt að vera sprottnar af sérstakri vörslu þrotamanns á fjármunum eða hagsmunagæslu hans fyrir hönd þess sem sett hefur fjármuni eða aðra hagsmuni í hendur þrotamanni í afmörkuðum tilgangi.
Sóknaraðili byggir á að ekki sé skilyrði að þrotamaður sé berum orðum nefndur „opinber sýslunarmaður“ í öðrum lögum til þess að krafa á hendur þrotamanni falli undir 7. tölul. 112. gr. Hugtakið opinber sýslunarmaður sé hvergi skýrt eða skilgreint og hafi enga fastákveðna merkingu í settum lögum. Orðasambandið vísi til einstaklings eða lögaðila sem hafi tiltekna stöðu að lögum, hafi með höndum sérstök verkefni og beri ríkari skyldur og ábyrgð en almennt gerist, einkum vegna þess að slíkum aðilum sé falið sérstakt trúnaðarhlutverk, s.s. fjárhald fyrir umbjóðendur eða hagsmunagæsla. Sóknaraðili byggir á að meta verði hverju sinni hvort þrotamaður teljist í raun hafa haft með höndum störf sem fela í sér opinbera umsýslu.
Sóknaraðili telur það einkenna þá sem teljast til opinberra sýslunarmanna að þeir hafi með höndum starfsemi í skjóli opinbers leyfis. Þeir sinni verkefnum fyrir umbjóðendur, sem oft eru skilgreind í lögum eða fyrirmæli eru um að þau skuli skilgreind í samningi eða umboði. Þeir starfi á kostnað umbjóðenda/skjólstæðinga sinna. Hafi þeir fjármuni umbjóðenda í vörslum sínum bera þeir lagaskyldu til að halda þeim fjármunum aðgreindum frá eigin fé. Sem dæmi þar um megi nefna lögmenn, endurskoðendur, lögráðamenn, fjármálafyrirtæki og verðbréfafyrirtæki, sbr. 11. gr. laga nr. 108/2007, og ákvæði 10. gr. laga nr. 33/2003. Þá beri þeir ríka þagnarskyldu gagnvart umbjóðendum sínum. Einnig séu opinberir sýslunarmenn skyldugir til að upplýsa umbjóðendur sína um mögulega hagsmunaárekstra sem kunna að vera milli þeirra og umbjóðenda þeirra. Ekki sé skilyrði að opinber sýslunarmaður sé einstaklingur en hann getur einnig verið lögaðili. Þá bera slíkir aðilar ríkari skaðabótaábyrgð á störfum sínum gagnvart skjólstæðingum sínum en almennt gerist.
Sóknaraðili byggir á að varnaraðili hafi haft öll einkenni opinbers sýslunarmanns meðan hann var VBS fjárfestingarbanki hf. Varnaraðili hafi starfað samkvæmt opinberu leyfi á grundvelli laga nr. 161/200 og borið að haga starfsemi sinni og skipulagi m.a. í samræmi við framangreind lög. Þá hafi varnaraðili haft leyfi til eignastýringar og heimild til að taka fjármuni í eignastýringu í samræmi við ákvæði laga nr. 33/2003 og síðar ákvæði laga nr. 108/2007. Einnig hafi varnaraðili gert samning við sóknaraðila um eignastýringu þar sem heimildir varnaraðila til fjárfestinga fyrir hönd sóknaraðila hafi verið afmarkaðar.
Sóknaraðili vísar enn fremur til þess að varnaraðili hafi verið skyldugur til þess að lögum að halda fjármunum viðskiptavina tryggilega aðgreindum frá eignum fjármálafyrirtækisins. Þannig leiddi það af 2. mgr. 11. gr. laga nr. 108/2007 og 10. gr. laga nr. 33/2003, að varnaraðila bar að varðveita fjármuni sóknaraðila á sérstökum nafnskráðum reikningi, en þessi skylda var einnig sérstaklega tilgreind í 2. gr. í eignastýringarsamningi aðila.
Sóknaraðili telur einnig að varnaraðila hafi verið skylt að upplýsa hann um þá hagsmunaárekstra sem mögulega gátu skaðað sóknaraðila. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 108/2007 og ákvæði 6. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti hafi varnaraðila borið skylda til að gera allar tiltækar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að hagsmunaárekstrar sköðuðu hagsmuni sóknaraðila. Varnaraðili hafi hins vegar tekið ákvörðun án umboðs eða heimildar um að láta framkvæmdafjármögnun bankans selja og eignastýringarsvið bankans kaupa veðskuldabréf í eigu bankans inn í eignasafn sóknaraðila. Að mati sóknaraðila gátu hagsmunir sóknaraðila og varnaraðila ekki farið saman við þessar aðstæður og því hafi varnaraðili brotið lagaskyldu sína gagnvart sóknaraðila, sbr. 5. og 18 gr. laga nr. 108/2007. Sóknaraðili bendir auk þess á að varnaraðili hafi tekið þóknun fyrir störf sín fyrir sóknaraðila, sbr. 10. gr. eignastýringarsamnings.
Með vísan til þess sem að framan er rakið byggir sóknaraðili á því að í verkefnum, ábyrgð og stöðu varnaraðila gagnvart sóknaraðila hafi falist verkefni opinbers sýslunarmanns og hann sé þá opinber sýslunarmaður í skilningi 7. tölul. 112. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili hafi haft með höndum fé og hafði það í vörslum sínum með sjálfstæða fégæslu sem fellur undir 7. tölul. 112. gr. gþl. Ekki skipti máli hvort þrotamaður sé kallaður berum orðum „opinber sýslunarmaður“ í lögum, heldur það hvort hann hafi í reynd haft með höndum starf og stöðu sem jafna má til opinberrar sýslu sem hafi framangreind einkenni.
Verði ekki fallist á framangreint telur sóknaraðili að fella eigi kröfu varnaraðila undir 7. tölul. 112. gr. gþl. með lögjöfnun með sömu rökum og tilgreind eru hér að framan.
Rökstuðningur fyrir að krafa njóti stöðu samkvæmt 113. gr. gþl.
Til vara er kröfunni lýst sem almennri kröfu í þrotabúið skv. 113. gr. laga nr. 21/1991, en auk þess er krafist áfallandi dráttarvaxta og kostnaðar er síðar kunni að falla á aðal- og varakröfur frá úrskurðardegi. Er þeim kröfum, bæði á aðalkröfu og varakröfu, lýst sem eftirstæðum kröfum samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991.
Til stuðnings varakröfu sinni byggir sóknaraðili á viðurkenningu varnaraðila á að krafa sóknaraðila sé skaðabótakrafa og að hún njóti stöðu sem almenn krafa samkvæmt ákvæði 113. gr. laga nr. 21/1991 en framangreint kemur fram í bréfi varnaraðila þann 11. apríl 2013.
Þá byggir sóknaraðili á þeim atvikum, málsástæðum og lagarökum sem lýst er í kröfulýsingu 3. nóvember 2010 til frekari rökstuðnings fyrir kröfu sinni undir þessum lið. Sóknaraðili telur að varnaraðili hafi með háttsemi sinni sem að framan er lýst brotið gegn lagaskyldum og samningsskyldum sínum gagnvart sóknaraðila og að hann og starfsmenn á hans vegum hafi valdið sóknaraðila verulegu fjárhagslegu tjóni.
Rökstuðningur fyrir kröfufjárhæð
Um fjárhæð lýstrar kröfu vísar sóknaraðili til kröfulýsingar í málsgögnum. Höfuðstóll hvers skuldabréfs miðast við kaupverð skuldabréfsins en varnaraðili keypti hvert veðskuldabréf með afföllum sem fram koma m.a. á kaupnótum fyrir hvert og eitt veðskuldabréf. Hvert skuldabréf beri vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi er eignastýring VBS fjárfestingarbanka hf. keypti viðkomandi veðskuldabréf inn í eignasafn sóknaraðila til úrskurðar, dags 9. apríl 2010, þegar VBS fjárfestingarbanki var tekinn til slitameðferðar. Skaðabótavextir eru reiknaðir samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands og birtum vöxtum, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 38/2001.
Sóknaraðili lýsti upphaflega kröfum að fjárhæð 100.530.803 krónur vegna veðskuldabréfa. Þessi veðskuldabréf hafi síðan verið færð inn í svonefnd kröfuhafafélög en þau félög hafi síðan leyst til sín þau veð sem veðskuldabréfin voru tryggð með veði í og hafa félögin unnið að því að auka verðmæti veðanna með það að markmiði að selja þau og greiða veðhöfum og eigendum skuldabréfanna.
Sóknaraðili kveður flestum kröfuhafafélögunum nú hafa verið slitið eftir að tókst að selja eignir þeirra og deila söluandvirði þeirra til kröfuhafa veðskuldabréfanna. Í töflu sem lögð var fram í þinghaldi 19. júní 2015 sé að finna yfirlit yfir greiðslur sem sóknaraðili hafi fengið upp í þau veðskuldabréf sem hann lýsti kröfu í við slitameðferð varnaraðila, sbr. kröfulýsingu 3. nóvember 2010. Þær greiðslur komi til lækkunar upphaflegri kröfu sóknaraðila samkvæmt kröfulýsingu. Tekur kröfugerð sóknaraðila mið af því að nánast öllum kröfuhafafélögum sem sóknaraðili átti hlut í hafi verið slitið og endanlegt uppgjör þeirra liggi fyrir.
Að teknu tilliti til innborgana inn á skuldabréf frá viðkomandi kröfuhafafélögum gerir sóknaraðili kröfu að fjárhæð 65.922.209 krónur. Sóknaraðili vísar einnig til framlagðs yfirlits yfir greiðslur frá 1. janúar 2009 til 10. júní 2015 sem hann hafi fengið frá Virðingu hf. sem hafi haft umsjón með kröfuhafafélögunum og séð um greiðslu þeirra til sóknaraðila.
Krafa sóknaraðila um málskostnað er reist á 129. gr., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Um lagarök vísar sóknaraðili til laga nr. 21/1991, ákvæða laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, laga nr. 33/2003, svo og annarra reglna og venja á sviði markaðs- og verðbréfaviðskipta, ákvæða laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og almennra reglna kröfuréttar og kauparéttar og ákvæða samningalaga nr. 7/1936.
Málsástæður varnaraðila
Krafa sóknaraðila er vanreifuð og umfang tjóns ósannað.
Varnaraðili byggir varnir sínar á því að krafa sóknaraðila sé vanreifuð. Vísar varnaraðili m.a. til meginreglna réttarfars um skýran og ljósan málatilbúnað sem og 80. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
Varnaraðili telur það liggja fyrir í málinu að keypt voru veðskuldabréf inn á eignasafn sóknaraðila fyrir ákveðna fjárhæð tryggða með veði í fasteign. Að mati varnaraðila liggi ekki fyrir með nægjanlega skýrum hætti í málinu hverjar eru endurheimtur sóknaraðila vegna hvers einstaks bréfs og umfang tjóns sóknaraðila því ósannað. Því hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á með skýrum hætti hvert umfang tjóns hans hafi verið vegna viðskipta sinna við varnaraðila.
Varnaraðili vísar til þess að í yfirlitum sóknaraðila er afar óljóst hverjar eru endurheimtur þeirra bréfa sem hann byggir kröfu sína á. Varðandi endurheimtur þá er vísað í málatilbúnaði sóknaraðila til hreyfingaryfirlits án þess að nokkur gögn séu lögð fram því yfirliti til stuðnings eða sönnunar.
Kröfufjárhæð sóknaraðila byggir á yfirliti á öðru dómsskjali en varnaraðili telur jafnframt að það yfirlit sé ekki nægilega skýrt til grundvallar kröfufjárhæð hans. Þar sé til dæmis vísað til endurheimtuhlutfalls án nokkurra skýringa. Auk heldur þar sem fjárhæð til lækkunar á kröfu sóknaraðila vegna endurheimta hans er tilgreind án nokkurra skýringa eða gagna og því ósannað hvað hefur greiðst upp í kröfur sóknaraðila. Þá verði að telja að umkrafinn kostnaður sé vanreifaður með öllu og órökstuddur. Hið sama megi segja um umkrafða vexti.
Varnaraðili vill sérstaklega taka það fram vegna umfjöllunar í lið merktum 25 á bls. 6 í greinargerð sóknaraðila að sóknaraðili fékk umrædd bréf, sem fjárfest var í af hálfu VBS, afhent. Sóknaraðili hafi jafnframt fullnustað bréfin og fengið fyrir þau fjármuni. Fjármunir sóknaraðila hafi því ekki blandast fjármunum annarra aðila heldur var fjárfest fyrir þá eins og áður hefur komið fram.
Varnaraðili bendir á að eftir að greiðslur höfðu komið upp í veðkröfu sóknaraðila samkvæmt þeim bréfum sem mál þetta lýtur að við nauðungarsölu veðandlagsins öðlaðist sóknaraðili, eðli málsins samkvæmt, almenna/ótryggða kröfu á hendur skuldara bréfsins. Ekki liggi hins vegar fyrir í málinu nein gögn eða skýringar af hálfu sóknaraðila hvort greiðst hafi upp í hina nú ótryggðu kröfu sóknaraðila á hendur skuldara veðskuldabréfanna sem deilt er um í málinu.
Með vísan til framangreinds telur varnaraðili því málatilbúnaði sóknaraðila svo verulega áfátt að slíkt leiði til frávísunar og því verði ekki hjá því komist að hafna kröfum hans. Er í þessu sambandi vísað til 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. gþl., sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Varakrafa:
Varnaraðili byggir á því til vara að ef ekki er fallist á aðalkröfu hans, þá beri að lækka fjárkröfu sóknaraðila og að því marki sem hún sé viðurkennd skuli krafan njóta rétthæðar skv. 113. gr. gþl.
Varnaraðili telur í fyrsta lagi að hafna beri því að krafa sóknaraðila skuli viðurkennd sem forgangskrafa skv. 7. tölul. 112. gr. gþl. Varnaraðili telur alveg skýrt að hann gat ekki verið opinber sýslunarmaður í skilningi ákvæðisins og er lögskýringum sóknaraðila sérstaklega mótmælt að þessu leyti. Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins geti það eingöngu átt við fjármuni sem þrotamaður hefur haft í vörslum sínum sem opinber sýslunarmaður með sjálfstæða fégæslu. Ljóst er því að ákvæðið geti ekki tekið til varnaraðila. Varnaraðili hafi starfað sem fjármálafyrirtæki á grundvelli laga nr. 161/2002 en slíkt fyrirtæki geti ekki talist opinberir sýslunarmenn í nokkrum skilningi. Auk heldur hafi þeir fjármunir sem hér um ræðir ekki verið í vörslum varnaraðila á þann hátt sem áskilið sé í ákvæðinu. Í þeim efnum er sérstaklega bent á að varnaraðili fór ekki með sjálfstæða fégæslu í skilningi ákvæðisins heldur hafði hann fengið umboð til þess að fjárfesta fyrir hönd sóknaraðila í verðbréfum eða skuldabréfum. Hlutverk eignastýringar varnaraðila hafi því verið að stýra verðbréfasafni sóknaraðila, sbr. eignastýringarsamning aðila.
Varnaraðili vísar enn fremur til þess að ljóst sé að ákvæði 112. gr. laga nr. 21/1991 feli í sér undantekningu frá þeirri meginreglu laganna að eignum bús skuli skipta jafnt á milli kröfuhafa búsins. Því beri að beita þröngri lögskýringu við mat á því hvort viðurkenna eigi að réttindi falli undir 112. gr. laganna. Almenn orðskýring ákvæðisins leiði einnig þá túlkun af sér að ákvæðið taki eingöngu til einstaklinga er fara með ákveðna hagsmuni og geti það því ekki fallið undir lögaðila. Af þeim sökum m.a. sé ekki hægt að fallast á það með sóknaraðila að varnaraðili hafi verið opinber sýslunarmaður í skilningi laganna. Jafnframt mótmælir varnaraðili tilvísun sóknaraðila til lögjöfnunar með sömu rökum og tilgreind eru hér að framar, enda séu skilyrði til beitingar lögjöfnunar ekki til staðar.
Varnaraðili telur óumdeilt í málinu að um er að ræða skaðabótakröfu líkt og fram kemur í málatilbúnaði sóknaraðila og slíkar almennar skaðabótakröfur njóta rétthæðar sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Krafa verði lækkuð
Af hálfu varnaraðila er fjárhæð kröfu sóknaraðila almennt mótmælt í heild sinni. Varnaraðili ítrekar að upplýsingar um endanlegar endurheimtur veðskuldabréfanna liggi ekki fyrir í málinu. Gögn málsins beri það með sér að sóknaraðili hafi ekki innheimt að fullu eftirstandandi kröfu þeirra veðskuldabréfa sem ekki fengust greidd að fullu eftir sölu veðandlags þeirra. Að svo greindu sé ljóst að sóknaraðili hafi ekki takmarkað tjón sitt með þeim hætti sem honum er skylt. Af þeim sökum beri því að lækka kröfu sóknaraðila sem nemi meintu tjóni þeirra bréfa er framangreint á við.
Kröfu sóknaraðila um kostnað er sérstaklega mótmælt og telur varnaraðili að ekki standi lagaheimild til að samþykkja slíka kröfu. Varnaraðili telur einnig að krafan sé jafnframt vanreifuð og óútskýrð með öllu, líkt og áður hafi komið fram.
Einnig er vaxtakröfu sóknaraðila sérstaklega mótmælt. Að mati varnaraðila er útreikningur vaxta óljós með öllu og í raun vanreifaður. Ekki liggi fyrir í málinu reiknaðir vextir af höfuðstól fjárhæðar hins meinta tjóns sóknaraðila. Af þeim sökum sé ekki unnt að fallast á umkrafða vexti sóknaraðila.
Varnaraðili telur að lækka beri kröfu sóknaraðila sem nemur frekari endurheimtum hans upp í hin hér umþrættu veðskuldabréf. Sökum vanreifunar á kröfu sóknaraðila séu endurheimtur bréfanna óljósar og er því ekki hjá því komist af hálfu varnaraðila að mótmæla því að um endanlega fjárhæð endurheimtu bréfanna sé að ræða. Varnaraðili telur að hún sé hærri en hefur takmarkaðan aðgang að slíkum upplýsingum.
Af hálfu varnaraðila er vísað til laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, vísað er til laga um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991, og þá sérstaklega 112., 113., 117. gr. og 2. mgr. 178. gr. laganna. Einnig er vísað til 80. gr. laga nr. 91/1991. Auk þess sem vísað er til almennu skaðabótareglunnar.
IV. Niðurstaða
Varnaraðili hefur í greinargerð sinni fyrir dómi byggt á að hafna eigi kröfu sóknaraðila þar sem hún sé vanreifuð og að umfang tjóns sé ósannað.
Mál þetta, sem er rekið eftir ákvæðum 5. þáttar laga nr. 21/1991, snýr að því einu að fá leyst úr ágreiningi um hvort, og þá eftir atvikum hvernig, viðurkenna eigi kröfuna, sem sóknaraðili lýsti samkvæmt framansögðu við slit varnaraðila. Fyrir dómi verða því ekki hafðar uppi auknar kröfur frá þeim, sem gerðar voru í kröfulýsingu, sbr. einnig 118. gr. laga nr. 21/1991, en úr kröfum geta aðilarnir á hinn bóginn dregið fyrir dómi og bætt úr annmörkum á þeim á sama hátt og gera mætti undir rekstri einkamáls eftir almennum reglum.
Um málatilbúnað aðila í málum af því tagi sem hér er til meðferðar gilda að öðru leyti ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, þegar sérreglum síðarnefndu laganna sleppir. Í þessum ákvæðum felst m.a. að kröfugerð í greinargerð skal vera skýr sem og röksemdir fyrir henni. Af þeim leiðir jafnframt að málsástæður ber að hafa uppi í kröfulýsingu og til fullnaðar í greinargerð sem málsaðila er gefið færi á að skila undir rekstri máls. Verði misbrestur á því að málatilbúnaður sé reifaður með fullnægjandi hætti verður ekki úr bætt við munnlegan flutning málsins án samþykkis gagnaðila.
Eins og áður segir hljóðar kröfugerð sóknaraðila á þann veg að viðurkennd verði krafa hans að fjárhæð 65.922.209 krónur við slitameðferð varnaraðila og að henni verði skipað í réttindaröð sem forgangskröfu samkvæmt 7. tölul. 112. gr. laga nr. 21/1991. Í greinargerð sóknaraðila er ekki gerð krafa um afhendingu verðbréfa utan skuldaraðar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 eins og gert í kröfulýsingu hans frá 3. nóvember 2010. Þegar af þessari ástæðu kemur sú krafa ekki til frekari efnislegrar umfjöllunar í máli þessu.
Um fjárhæð lýstrar kröfu vísar sóknaraðili í greinargerð sinni til dómsins til kröfulýsingar í málsgögnum. Ljóst er þó að þessi krafa er umtalsvert breytt og lækkuð frá þeirri kröfu sem sóknaraðili setti fram í upphaflegri kröfulýsingu sinni frá 3. nóvember 2010. Af gögnum málsins verður ráðið að sóknaraðili hafi á jöfnunarfundi sem haldinn var 17. september 2013, og áður en máli þessu var vísað til dómsins, lagt fram „yfirlit og frekari gögn til afmörkunar og til stuðnings þess tjóns sem kröfuhafar telji sig hafa orðið fyrir í viðskiptum sínum“ við varnaraðila, sbr. fundargerð dags. sama dag. Í sömu fundargerð kemur fram að slitastjórn varnaraðila hyggist fara yfir gögnin til nánari skýringar á umfangi tjóns kröfuhafa. Hins vegar verður ekki séð að þau gögn sem þarna er vísað til hafi verið lögð fyrir dóminn.
Í greinargerð sóknaraðila er jafnframt rakið að veðskuldabréfin sem sóknaraðili hafi lýst kröfu vegna hafi verið færð inn í svonefnd kröfuhafafélög. Þá segir í greinargerðinni að flest kröfuhafafélögin hafi leyst til sín þau veð sem veðskuldabréfin voru tryggð með og unnið að því að auka verðmæti veðanna með það að markmiði að selja þau og greiða veðhöfum og eigendum skuldabréfanna. Flestum kröfuhafafélögunum hafi hins vegar þegar verið slitið eftir að tókst að selja eignir þeirra og deila söluandvirði þeirra til kröfuhafa veðskuldabréfanna. Í greinargerðinni er í þessu sambandi vísað til töflu sem lögð var fram samhliða greinargerðinni en þar sé að finna yfirlit yfir greiðslur sem sóknaraðili hafi fengið upp í þau veðskuldabréf sem hann lýsti kröfum vegna við slitameðferð varnaraðila. Þær greiðslur komi til lækkunar upphaflegri kröfu sóknaraðila samkvæmt kröfulýsingu.
Sóknaraðili vísar til þess að kröfugerð hans taki mið af því að öllum kröfuhafafélögum sem hann átti hlut í hafi verið slitið og að endanlegt uppgjör þeirra liggi fyrir. Að teknu tilliti til innborgana á skuldabréf frá viðkomandi félögum geri sóknaraðili kröfu að fjárhæð 65.922.209 krónur.
Ljóst er að sú breyting sem sóknaraðili gerði á kröfugerð sinni að þessu leyti kom í kjölfar þess að slitastjórn varnaraðila hafnaði að svo stöddu þeim kröfum sóknaraðila sem lýst var í kröfulýsingu 3. nóvember 2010, sbr. bréf 11. apríl 2013, á þeim forsendum að ekki hefði verið tekið tillit til þess í kröfulýsingunni hversu háar fjárhæðir hefðu fengist greiddar upp í hluta hinna umdeildu veðskuldabréfa og að óljóst væri um endurheimtur kröfuhafa vegna fjárfestingar í skuldabréfunum.
Af gögnum málsins verður ráðið að þau veðskuldabréf sem sóknaraðili hefur lýst kröfu vegna séu alls 28 talsins. Varnaraðili hefur í greinargerð sinni vísað til þess að ekki liggi fyrir með nægjanlega skýrum hætti í málinu hverjar séu endurheimtur sóknaraðila vegna hvers einstaks bréfs og umfang tjóns hans sé því ósannað. Þá telur varnaraðili jafnframt að það yfirlit sem sóknaraðili lagði fram samhliða greinargerð sinni og vísað er þar til sé ekki til nægilegrar skýringar á kröfufjárhæð hans. Þannig sé þar vísað til endurheimtuhlutfalls án nokkurra skýringa, auk þess sem fjárhæð til lækkunar á kröfu sóknaraðila vegna endurheimta hans sé tilgreind án skýringa og gagna.
Ljóst er að í greinargerð sóknaraðila fyrir dómi er hvorki vikið með sjálfstæðum hætti að skuldabréfunum sem kröfur sóknaraðila lúta að né fjallað um hvaða fjárhæðir hafi fengist greiddar vegna þeirra. Sóknaraðili hefur hins vegar, í andsvörum sínum við málsástæðum varnaraðila um vanreifun, vísað til þess að hann hafi samhliða greinargerð sinni lagt fram töflu yfir þær greiðslur sem hann hafi fengið upp í þau veðskuldabréf sem hann lýsti við slitameðferð varnaraðila. Í því yfirliti séu settar fram upplýsingar um kaupdag bréfs, höfuðstól, kaupverð og endurheimtuhlutfall og að hvaða leyti krafa vegna hvers bréfs er endurreiknuð. Þá hafi sóknaraðili samtímis lagt fram hreyfingarlista og sjóðsbók sína hjá Virðingu þar sem sé að finna yfirlit yfir allar greiðslur sem hann hafi fengið upp í hvert og eitt veðskuldabréf sem lýst var samkvæmt kröfulýsingu í nóvember 2010. Á því skjali komi einnig fram dagsetningar greiðslna sem sóknaraðili hafi fengið upp í kröfu samkvæmt veðskuldabréfum í máli þessu.
Við mat á því hvort málatilbúnaður sóknaraðila fullnægi áskilnaði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, verður að mati dómsins að horfa til atvika málsins og eðlis þess ágreinings sem hefur verið vísað til dóms á grundvelli 2. mgr. 120. gr. síðastnefndu laganna.
Í máli þessu horfir svo við að sóknaraðili hefur krafist skaðabóta vegna meðferðar varnaraðila á fjármunum við eignastýringu á árunum 2006-2009, sem nánar tiltekið lýsir sér í kaupum á skuldabréfum sem óumdeilt er í málinu að sóknaraðili beið tjón af. Eins og áður er rakið eru þessi skuldabréf alls 28 talsins en í kröfulýsingunni frá 3. nóvember 2010 krafðist sóknaraðili þess að honum yrði greidd öll fjárhæð skuldabréfanna.
Í kröfulýsingunni var hins vegar ekkert fjallað um hvaða endurheimtur sóknaraðili hefði haft vegna skuldabréfanna, eins og nú er byggt á í málatilbúnaði hans fyrir dómi. Auk þess var þar í engu vikið að málsástæðum eða birt gögn sem vörpuðu ljósi á hvert endanlegt tjón hans hafi orðið að þessu leyti. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að samkvæmt 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991, sem gildir samkvæmt 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 við slit varnaraðila, skal í kröfulýsingu tekið fram í hvers þágu hún sé gerð, svo ekki verði um villst, og skulu kröfur tilteknar eins skýrt og verða má, svo sem fjárhæð kröfu og vaxta í krónum. Af ákvæðinu leiðir enn fremur að í kröfulýsingu skal einnig greina þær málsástæður sem kröfuhafi byggir rétt sinn á hendur þrotabúinu á, svo og önnur atvik sem þarf að greina samhengis vegna. Í 3. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 er enn fremur kveðið á um að þau gögn skuli fylgja kröfulýsingu sem kröfur eru studdar við.
Sóknaraðili hefur í málatilbúnaði sínum fyrir dóminum vísað til þeirra málsástæðna sem fram koma í kröfulýsingu hans frá 3. nóvember 2010. Af þeirri lýsingu málsástæðna sem þar kemur fram verður ráðið að kröfugerð hann miðast við að hann verði eins settur og ef aldrei hefði orðið af kaupum hans á framangreindum veðskuldabréfum þegar fjármunum sem hann átti í eignastýringu og fjárvörslu hjá VBS var ráðstafað til að kaupa veðskuldabréfin. Í greinargerð lýsir sóknaraðili þeim sjónarmiðum að ef fjármunum hans hefði verið ráðstafað með lögmætum hætti af VBS, þ.e. keypt verðbréf í samræmi við fjárfestingarstefnu eignastýringarsamningsins, þá ætti hann rétt til þess að fá verðbréfin afhent utan skuldaraðar, sbr. 109. gr. laga nr. 21/1991, á grundvelli eignarréttar, sbr. 3. gr. eignastýringarsamnings aðila.
Að mati dómsins er sá rökstuðningur sem sóknaraðili hefur fært fram fyrir fjárhæð kröfu sinnar í greinargerð sinni til dómsins takmarkaður. Þar kemur til dæmis fram að veðskuldabréf sem sóknaraðili lýsti kröfu vegna hafi verið færð inn í svonefnd kröfuhafafélög. Í greinargerðinni er þó ekkert vikið að hlutdeild sóknaraðila í þeim félögum né með hvaða hætti fjármunum var skipt milli þeirra sem aðild áttu að félögunum.
Sóknaraðili hefur að nokkru leyti bætt úr þessum annmörkum við meðferð málsins, m.a. með framlagningu upplýsinga um hreyfingar á reikningi sóknaraðila hjá Auði Capital og Virðingu hf. og upplýsinga um eignarhlut sóknaraðila í fyrrnefndum kröfuhafafélögum.
Við úrlausn málsins verður þó ekki litið fram hjá því að bæði aðal- og varakrafa sóknaraðila eru í eðli sínu kröfur um skaðabætur vegna saknæmrar háttsemi starfsmanna varnaraðila sem miða að því að gera hann eins settan við slit varnaraðila og ef fjármunum hans í eignastýringu varnaraðila hefði aldrei verið ráðstafað til kaupa á framangreindum veðskuldabréfum. Sóknaraðili hefur ekki fært fram neinar skýringar á því hvers vegna hann telji tjón vegna þessarar háttsemi hafa numið alls 65.922.209 krónum, og þá einkum hvort og hvernig hann hefði endurheimt sömu fjárhæð ef varnaraðili hefði fjárfest í þeim hlutabréfum og skuldabréfum sem honum var heimilt að fjárfesta í samkvæmt eignastýringarsamningi aðila frá 3. október 2007. Verður í því sambandi að horfa til þeirra áhrifa sem atburðir á íslenskum fjármálamarkaði í september og október 2008 höfðu á virði hlutabréfa og skuldabréfa.
Samkvæmt framangreindu skortir á að sóknaraðili hafi afmarkað með nægilega skýrum hætti það tjón sem málsástæður hans taka til þannig að dómurinn geti lagt á þær efnislegan dóm. Þar að auki er sá annmarki á kröfugerð í greinargerð sóknaraðila að vextir eru ekki tilgreindir með ákveðinni fjárhæð, svo sem bar að gera vegna áðurnefndra fyrirmæla 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991, en af yfirlitum þeim sem sóknaraðili hefur lagt fram til stuðnings kröfu sinni verður ótvírætt ráðið að vextir eru reiknaðir inn í þá fjárhæð sem sóknaraðili gerir kröfu um í þessu máli.
Af þessum sökum er fallist á með varnaraðila að forsendur kröfugerðar sóknaraðila séu vanreifaðar og málið sé því ekki tækt til efnismeðferðar. Verður kröfum sóknaraðila því hafnað þegar af þeirri ástæðu.
Með hliðsjón af þessum úrslitum málsins verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 650.000 krónur.
Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfum sóknaraðila í máli þessu er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 650.000 krónur í málskostnað.