Hæstiréttur íslands
Mál nr. 169/2012
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Veðleyfi
- Veðskuldabréf
- Ógilding samnings
|
|
Fimmtudaginn 1. nóvember 2012. |
|
Nr. 169/2012.
|
Sigurður Villi Guðmundsson og Dagbjört Friðriksdóttir (Björn Þorri Viktorsson hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Ólafur Örn Svansson hrl.) |
Fjármálafyrirtæki. Veðleyfi. Veðskuldabréf. Ógilding samnings.
S og D veittu samþykki sitt fyrir því að fasteign þeirra væri veðsett til tryggingar á skuld SÁ, tengdasonar þeirra, við L hf. samkvæmt tilteknu skuldabréfi, í tengslum við kaup SÁ og dóttur S og D á fasteign. Kröfðust þau ógildingar á samþykki sínu og að skuldabréfinu yrði aflýst af fasteign þeirra. Byggðu þau kröfu sína einkum á 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógildalöggerninga þar sem forveri L hf. hefði ekki sinnt þeim skyldum sem á honum hvíldu meðal annars á grundvelli reglna samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom meðal annars fram að niðurstaða greiðslumats lántaka sem SÁ, fyrir hönd L hf., kynnti fyrir S og D hefði bæði verið röng og villandi um mikilvæg atriði og upplýsingagjöf bankans hefði ekki verið í samræmi við skyldur hans samkvæmt áðurnefndu samkomulagi. Hefði þetta verið til þess fallið að S og D gættu sín ekki á þeirri staðreynd að SÁ hefði ekki staðist greiðslumat og áhætta þeirra á því að greiðslufall yrði á láninu hefði orðið mun meiri en ætla mætti. Vísaði Hæstiréttur til þess að gera mætti ríkar kröfur til L hf. um sérfræðiþekkingu og vönduð vinnubrögð. Hefði bankinn meðal annars mátt gera sér ljóst að SÁ hefði haft ríka hagsmuni af því að veðheimild yrði veitt og að ekki hefði verið víst að hann sinnti þeim skyldum til hlítar sem á bankanum hvíldu. Þá hefði niðurstaða greiðslumatsins verið á þann veg að bankinn hefði ekki átt að leggja skjölin fram til undirritunar án þess að gera ráðstafanir til að S og D fengju réttar og fullnægjandi upplýsingar um áhættu sína og að aflað væri sérstaks samþykkis þeirra til að veita veðið. Því væri ósanngjarnt af hálfu L hf. að bera fyrir sig samninginn sem fólst í samþykki S og D við að veita veð í fasteign sinni, umfram 4.000.000 krónur, en hluti lánsins sem þau veittu veðheimild fyrir, fór til greiðslu eldri veðskuldar sem hvíldi á fasteign þeirra. Miðað við vaxta- og verðtryggingarákvæði skuldabréfsins, sem greitt var upp, var talið að hækkun skuldarinnar hefði ekki numið lægri fjárhæð en 2.500.000 krónur. Að teknu tilliti til þessa ógilti Hæstiréttur samþykki S og D við að veita veðleyfi að því marki sem fjárhæðin væri umfram 6.500.000 krónur, en ekki var unnt að fallast á kröfu þeirra um aflýsingu skuldabréfsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 15. mars 2012. Þau krefjast ógildingar á samþykki þeirra 22. júlí 2007 á því að veita veð í fasteign sinni að Grenigrund 28, Akranesi, til tryggingar á skuld Stefáns Álfssonar við stefnda samkvæmt skuldabréfi nr. 0172-74-8778, útgefnu sama dag. Þau krefjast og aflýsingar skuldabréfsins. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjendur krefjast í málinu ógildingar á samþykki sínu 22. júlí 2007 á því að veita veð í ofangreindri fasteign sinni eins og nánar greinir í kröfugerð þeirra. Þau veittu einnig veðheimild í sömu fasteign til tryggingar skuld samkvæmt skuldabréfi útgefnu af sama skuldara 7. maí 2002 til Lífeyrissjóðs sjómanna að höfuðstól 3.900.000 krónur.
Aðdragandi þess að áfrýjendur samþykktu að veita veð í fasteign sinni á árinu 2007 var að Stefán og eiginkona hans, dóttir áfrýjenda, hugðu á kaup húss að Fjóluvöllum 3, Hafnarfirði, en til kaupanna þurftu þau að taka verulegar fjárhæðir að láni. Stefán, sem þá starfaði á verðbréfasviði Landsbanka Íslands hf., hafði fengið vilyrði hjá yfirmanni sínum í bankanum fyrir því að slík lántaka ætti að vera möguleg. Til kaupanna hugðist Stefán taka tvö lán hjá bankanum, annað að fjárhæð 35.580.000 krónur, en hitt 13.000.000 krónur. Kaupverð hússins átti að vera 50.800.000 krónur. Fyrrnefnda lánið skyldi tryggt með veði í húsinu en hið síðarnefnda var ætlunin að tryggja með veði í fasteign áfrýjenda. Stefán hitti áfrýjendur á heimili þeirra að kvöldi 22. júlí 2007 og hafði meðferðis skjal sem bar yfirskriftina: ,,Niðurstöður fasteignlánamats“ en einnig veðskuldabréfið, útbúið af stefnda, sem fól í sér skuldbindingu um lán til Stefáns að fjárhæð 13.000.000 krónur. Áfrýjendur rituðu nöfn sín á bæði skjölin og hafa upplýst í skýrslum fyrir dómi að það hafi þau gert án þess að lesa skjölin eða kynna sér sérstaklega efni þeirra að öðru leyti en því að þau hafi séð ritað á ,,Niðurstöður fasteignalánamats“ orðin: ,,Fjármögnun telst takast“. Hafi þau treyst bankanum og talið efni skjalanna rétt og í samræmi við staðreyndir.
Efni veðskuldabréfsins, sem áfrýjendur rituðu undir, var í meginatriðum á þann veg að Stefán viðurkenndi að skulda bankanum 13.000.000 krónur, sem greiðast skyldu á fimm árum þannig að vextir greiddust á 19 gjalddögum í fyrsta sinn 1. nóvember 2007 en síðan á þriggja mánaða fresti. Fjöldi afborgana af höfuðstól var aðeins ein og skyldi hún vera 1. ágúst 2012. Vextir voru tilgreindir breytilegir svonefndir LIBOR vextir með 1,5% álagi. Í 17. tölulið veðskuldabréfsins sagði: ,,Með undirritun sinni á skuldabréf þetta staðfestir veðsali, sem ekki er útgefandi, að hafa kynnt sér efni upplýsingabæklings Landsbanka Íslands hf. um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila, en Landsbankinn er aðili að samkomulagi fjármálafyrirtækja, stjórnvalda og Neytendasamtakanna um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga.“ Áfrýjendur upplýstu í skýrslum fyrir dómi að þau hafi þó ekki kynnt sér efni upplýsingabæklingsins og verður ekki séð að bæklingurinn hafi legið frammi við undirskriftina.
Á skjalinu ,,Niðurstöður fasteignalánamats“ sem unnið var fyrir hönd Landsbanka Íslands hf. af starfsmanni bankans kemur fram í lýsingu láns að um sé að ræða eitt lán að fjárhæð 35.580.000 krónur og er helstu skilmálum þess lýst. Skjalið tilgreinir á hinn bóginn ekki berum orðum það lán að fjárhæð 13.000.000 krónur sem áfrýjendur ábyrgðust, heldur einungis fyrrnefnda lánið sem Stefán hugðist taka vegna kaupanna og tryggja með veði í húsinu, sem keypt yrði. Af hálfu stefnda er því haldið fram að í matinu sé engu að síður bæði tekið fullt tillit til 13.000.000 króna lánsins við mat á greiðslubyrði lána og við mat á þeim eignum, sem notaðar skyldu til fjármögnunar kaupanna. Á skjalinu eru tveir dálkar, vinstra megin dálkur með yfirskriftinni: ,,Tekjur og útgjöld“ og hægra megin dálkur með yfirskriftinni: ,,Eignir og skuldir“. Niðurstaða í fyrrnefnda dálkinum er sú að ,,Áætluð greiðslugeta að teknu tilliti til skulda“ sé neikvæð um 91.693 krónur á mánuði. Eignastaða er í síðarnefnda dálkinum talin neikvæð um 2.362.205 krónur. Fyrir neðan þessa tvo dálka eru aðrir tveir dálkar. Sá, sem er vinstra megin, ber yfirskriftina: ,,Greitt við fasteignakaup“ og er niðurstöðutalan þar 62.989.206 krónur. Í hinum, sem er hægra megin, og ber yfirskriftina: ,,Tiltækt til fasteignakaupa“ eru tvær tölur. Annars vegar fjárhæð láns, sem áður hefur verið getið, 35.580.000 krónur, og hins vegar ,,Eignir notaðar til fjármögnunar“ 28.847.200 krónur eða samtals 64.407.200 krónur. Þar fyrir neðan er talan 1.417.994 krónur, en sú fjárhæð er sögð vera ,,Slaki í fjármögnun“. Undir þessari tölu stendur síðan stórum stöfum: ,,Fjármögnun telst takast“. Á skjalinu segir einnig svo: ,,Ef áætluð greiðslugeta að teknu tilliti til skulda er neikvæð (-) merkir það að greiðandi getur ekki efnt fjárskuldbindingar sínar. ... Mat þetta miðast við núverandi fjárhagsstöðu greiðanda og er samkvæmt henni áætlun um greiðslugetu hans. Ýmislegt nú ófyrirséð getur valdið því að greiðslugeta breytist til hins betra eða verra frá því sem nú er áætlað að verði.“ Í þessum texta eru orðin ,,getur ekki efnt fjárskuldbindingar sínar“ ská- og feitletruð. Þá er fyrirvari og forsendur um niðurstöður sem hljóða svo: ,,Framangreindar upplýsingar um skuldir og fjárhagsstöðu greiðanda eru að hluta frá honum sjálfum komnar. Að því leyti eru forsendur mats á greiðslugetu hans og niðurstöður/ályktanir dregnar af þeim upplýsingum á hans ábyrgð. Þær eru því án ábyrgðar fyrir Landsbanka Íslands hf.“
Stefán Álfsson upplýsti fyrir dómi að hann hefði ekki afhent áfrýjendum neina bæklinga um ábyrgðir, en ómótmælt er að hann hafi fengið bæklinginn afhentan sjálfur.
Svo sem fyrr greinir undirrituðu áfrýjendur framangreind skjöl að kvöldi 22. júlí 2007 og þegar næsta dag undirrituðu Stefán og dóttir áfrýjenda kaupsamning um húsið að Fjóluvöllum 3, Hafnarfirði, og greiddu útborgunarhluta kaupverðsins degi síðar. Hluti lánsins, sem hér um ræðir, 3.999.743 krónur, var notaður til þess að greiða upp lánið frá Lífeyrissjóði sjómanna, sem fyrir hvíldi á fasteign áfrýjenda og þau höfðu veitt veðleyfi fyrir í þágu Stefáns á árinu 2002.
Fjármálaeftirlitið tók í október 2008 ákvörðun um að víkja stjórn Landsbanka Íslands hf. frá og yfirtaka vald hluthafafundar í félaginu og í sama mánuði ákvörðun um að ráðstafa hluta eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til nýstofnaðs félags, stefnda í máli þessu. Gerður var viðauki við skuldabréfið 3. nóvember 2008 sem fól í sér að gjalddaga vaxta var frestað til 1. maí 2009 og áfallnir vextir frá síðasta gjalddaga 1. júní 2008 til og með 1. febrúar 2009 skyldu leggjast við höfuðstól lánsins. Áfrýjendur rituðu samþykki sitt á viðauka þennan.
Eins og gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi var lán það, sem um ræðir, bundið gengi erlendra gjaldmiðla, en því var síðan breytt í óverðtryggt lán í íslenskum krónum. Gjalddagar skyldu vera óbreyttir að öðru leyti en að framan greinir.
Með bréfi lögmanna áfrýjenda 11. nóvember 2010 var þess svo krafist að stefndi viðurkenndi að þau væru ekki bundin af þeirri skuldbindingu sem þau undirgengust 22. júlí 2007. Eftir að þeirri málaleitan var hafnað af hálfu stefnda var mál þetta höfðað.
II
Málsástæðum þeim, sem áfrýjendur reisa ógildingarkröfu sína á, er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Er krafa þeirra einkum reist á 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Telja áfrýjendur að forveri stefnda hafi ekki sinnt þeim skyldum, sem reglur samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga lögðu honum á herðar varðandi upplýsingagjöf til þeirra áður en þau undirgengust þá skuldbindingu sem um ræðir. Þá hafi forveri stefnda ekki sinnt þeim almennu skyldum sem á honum hvíldu samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 4. gr. þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti.
III
Eins og áður er fram komið er Stefán Álfsson tengdasonur áfrýjenda. Hann var starfsmaður á verðbréfasviði Landsbanka Íslands hf. á árinu 2007. Hann kvaðst í skýrslu fyrir dómi hafa hefði fengið vilyrði yfirmanns síns fyrir því að bankinn myndi lána honum fé til kaupa á húsinu að Fjóluvöllum 3, Hafnarfirði, áður en hann leitaði undirskrifta áfrýjenda á veðskuldabréfið og skjalið um ,,Niðurstöður fasteignalánamats“. Landsbanki Íslands hf. var bundinn af reglum áðurnefnds samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga bæði þegar lán bankans voru tryggð með ábyrgð þriðja manns og þegar þau voru tryggð með veði í eignum annars en lántaka. Í 1. gr. samkomulagsins er lýst því markmiði þess að draga úr vægi ábyrgða einstaklinga ,,og að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugeta greiðanda og eigin tryggingar hans. Með samkomulaginu eru settar meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum í þeim tilvikum er ... veð í eign annars einstaklings er sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu.“ Í 1. mgr. 3. gr. segir meðal annars að sé veð sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu beri fjármálafyrirtæki að meta greiðslugetu greiðanda nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir að svo verði ekki gert. Í framhaldi af þessu er lýst í stuttu máli hvaða aðferð skuli nota við greiðslumatið. Í 3. mgr. þessarar greinar segir að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. sé ,,fjármálafyrirtæki skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi skuldara nemur meira en kr. 1.000.000,-.“ Samkvæmt 4. gr. samkomulagsins skal fjármálafyrirtæki gefa út upplýsingabækling meðal annars um veðsetningar og dreifa með skjölum sem afhent séu. Segir jafnframt að með undirritun skjala sem fyllt séu út í tengslum við afgreiðslu láns staðfesti veðsali að hann hafi kynnt sér efni upplýsingabæklings um ábyrgðir. Þá segir að tryggt skuli að veðsali geti kynnt sér niðurstöður greiðslumats áður en hann heimili veðsetningu. ,,Ef niðurstaða greiðslumats bendir til að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar en [veðsali] óskar að lán verði veitt engu að síður, skal hann staðfesta það skriflega.“
IV
Landsbanka Íslands hf. bar að fullnægja þeim skyldum sem á honum hvíldu samkvæmt framangreindu samkomulagi um notkun ábyrgða þegar leitað var eftir veði í eign þriðja manns til tryggingar skuld við bankann. Það leysti bankann ekki undan þessum skyldum gagnvart áfrýjendum, þótt hann hefði kosið að fela Stefáni Álfssyni að afla undirskrifta áfrýjanda undir skjölin og sinna að öðru leyti skyldum bankans samkvæmt samkomulaginu. Er óumdeilt að áfrýjendum voru ekki kynntar reglur samkomulagsins áður en þau samþykktu að veita veð í fasteign sinni. Eins og áður er getið fólst í undirskrift þeirra á veðskuldabréfið einnig yfirlýsing um að þau hefðu kynnt sér efni upplýsingabæklings bankans um persónulegar ábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila. Mátti bankinn treysta því að með undirritun sinni hefðu áfrýjendur kynnt sér efni bæklingsins. Verður því ekki á það fallist að það eitt getið orðið grundvöllur ógildingar á samþykki þeirra, þótt bankinn hafi falið Stefáni að kynna skjölin og þar með tryggja að áfrýjendur ættu kost á að þekkja efni samkomulagsins en hann vanrækt þessar skyldur.
Áfrýjendur rituðu undir skjal um ,,Niðurstöður fasteignalánamats“ og kváðust eins og áður greinir ekki hafa lesið það yfir, en séð ritað á það orðin ,,Fjármögnun telst takast“. Hafi þau treyst bankanum í þessum efnum og talið skjalið rétt að efni til. Skjalið sem um ræðir átti samkvæmt 3. gr. framangreindra reglna að vera mat á ,,greiðslugetu greiðanda“ það er möguleikum hans til þess að standa í skilum með lán þau er greiðslumatið tók til miðað við forsendur eins og þær voru við undirritun skjalsins.
Á efni skjalsins sem áfrýjendur undirrituðu eru verulegir ágallar. Í fyrsta lagi var niðurstaða þess sú að áætluð greiðslugeta lántaka, Stefáns Álfssonar, væri neikvæð um 91.693 krónur á mánuði. Samkvæmt texta skjalsins sjálfs þýddi þetta að ,,greiðandi getur ekki efnt fjárskuldbindingar sínar.“ Þessu til samræmis segir í 2. málslið 3. mgr. 4. gr. reglna samkomulagsins: ,,Ef niðurstaða greiðslumats bendir til að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar en ábyrgðarmaður óskar eftir að lán verði veitt engu að síður, skal hann staðfesta það skriflega.“ Síðastnefnda reglu samkomulagsins verður að skýra svo, að á Landsbanka Íslands hf. hafi við þessar aðstæður hvílt sérstök skylda til þess að vekja athygli áfrýjenda á þeirri staðreynd að Stefán stóðst ekki greiðslumatið og að það fæli í sér verulega aukna áhættu fyrir þau. Það var ekki gert og brást því bankinn skyldum sínum samkvæmt samkomulaginu og þykir í því ljósi ekki geta ráðið úrslitum þótt áfrýjendur hafi ekki kynnt sér reglur þess eða efni skjalsins. Í öðru lagi kemur skýrlega fram ritað með stóru letri á skjalinu sú niðurstaða að ,,Fjármögnun telst takast“. Sú yfirlýsing, sem fólst í þessum orðum, var bæði röng og villandi fyrir áfrýjendur, því skjalið átti samkvæmt reglum samkomulagsins og heiti þess ekki að lúta að því, hvort unnt væri að fjármagna fasteignakaupin, heldur að því hvort lántaki, Stefán, gæti greitt þær skuldir sem stofnað var til vegna kaupanna. Var því villandi sú áhersla sem í texta skjalsins var á því að fjármögnun kaupanna teldist takast, einkum í ljósi þess að niðurstaða skjalsins var í raun sú að Stefán gæti ekki staðið í skilum með greiðslu þeirra lána, sem hann hugðist taka vegna kaupanna. Í þriðja lagi var skjalið einnig rangt að því leyti að ekki var getið þess láns, sem áfrýjendur heimiluðu að tryggt yrði með veði í fasteign þeirra. Þótt stefndi hafi fært fram rök, sem ekki hefur verið hnekkt, fyrir því að í greiðslumatinu sé samt sem áður tekið tillit til greiðslu vaxta af láninu, er þess ekki getið sérstaklega að þegar lánstíma er lokið hvílir höfuðstóll lánsins enn á fasteign áfrýjenda. Bar bankanum annað hvort að taka tillit til þess er metin var greiðslugeta Stefáns eða gera áfrýjendum skýrlega grein fyrir því í skjalinu að þær greiðslur, sem greiðslumatið var reist á og tilgreindar voru á því, væru einungis vaxtagreiðslur. Var þetta þeim mun brýnna þar sem efni skjalsins er um margt óljóst og óaðgengilegt og áfrýjendum voru ekki kynntar forsendur greiðslumatsins að öðru leyti. Þá hafði þetta einnig sérstaka þýðingu þar sem niðurstaðan, sem þegar var neikvæði um 91.693 krónur á mánuði, hefði orðið neikvæð um nærfellt 308.000 krónur á mánuði ef fjárhæðinni hefði verið deilt niður á lánstímann, sem var 60 mánuðir.
Samkvæmt framansögðu var niðurstaða greiðslumatsins bæði röng og villandi um mikilvæg atriði og upplýsingagjöf bankans ekki í samræmi við skyldur hans samkvæmt samkomulaginu, sem áður greinir. Verður í þessu ljósi ekki gerð sú krafa til áfrýjenda að þau hefðu mátt átta sig á þessu, þótt þau hefðu kynnt sér efni upplýsingabæklings bankans og þar með reglur samkomulagsins, sem þar var að finna.
V
Sem fyrr greinir reisa áfrýjendur ógildingarkröfu sína einkum á 36. gr. laga nr. 7/1936, en samkvæmt þeirri grein má víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta eða breyta ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við sanngirnismatið skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.
Við mat á efni samnings þess, sem komst á 22. júlí 2007 milli áfrýjenda og Landsbanka Íslands hf. með undirritun þeirra á veðskuldabréfið, um að þau heimiluðu að veita veð í fasteign sinni til tryggingar láni bankans til Stefáns Álfssonar, verður fyrst að líta til ,,Niðurstöður fasteignlánamats“. Það skjal var grundvöllur ákvörðunar þeirra um að takast á herðar skuldbindingu þá sem í samþykki þeirra fólst. Þetta skjal var að efni til bæði rangt og villandi um mikilvæg atriði eins og áður er rakið. Var það til þess fallið að áfrýjendur gættu sín ekki á þeirri staðreynd að Stefán stóðst ekki greiðslumat og áhætta þeirra á því að greiðslufall yrði á láninu var mun meiri en ætla mætti. Vegna efnis skjalsins var ákvörðun áfrýjenda reist á rangri og villandi niðurstöðu þess. Mátti forvera stefnda vera þetta ljóst. Verður stefndi að bera hallann af því að óvíst er hvort þau hefðu veitt veðheimild í eigninni ef þau hefðu fengið þær upplýsingar, sem Landsbanka Íslands hf. bar með réttu að veita.
Þegar litið er til stöðu aðila er ljóst að Landsbanki Íslands hf. var stórt fjármálafyrirtæki, sem starfaði á grundvelli opinbers leyfis, og að til hans mátti gera ríkar kröfur um sérfræðiþekkingu og vönduð vinnubrögð. Þessar kröfur leiða bæði af óskráðum reglum og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 og 4. gr. þágildandi laga nr. 33/2003. Óumdeilt er að áfrýjendur búa ekki yfir sérstakri menntun eða þekking á því sviði, sem um ræðir.
Áður hefur verið gerð grein fyrir atvikum við samningsgerð, en eins og þar segir ákvað bankinn að fela Stefáni sjálfum að annast um að skyldum bankans til að veita upplýsingar væri fullnægt. Mátti bankinn gera sér ljóst að Stefán hafði ríka hagsmuni af því að veðheimild yrði veitt og að ekki væri víst að hann sinnti þeim skyldum til hlítar sem á bankanum hvíldu. Þá var líklegra að ekki yrði staðið jafn faglega að upplýsingagjöf þegar sá, sem annast átti hana fyrir bankann, var eins tengdur þeim, sem til stóð að veita skyldu veðheimild, og raun bar vitni. Auk þess var niðurstaða greiðslumatsins á þann veg að bankinn átti ekki að leggja skjölin fram til undirritunar án þess að gera ráðstafanir til að áfrýjendur fengju réttar og fullnægjandi upplýsingar um áhættu sína og að aflað væri sérstaks samþykkis þeirra til að veita veðið þótt Stefán stæðist ekki greiðslumatið.
Ekki verður talið að atvik sem síðar komu til hafi hér sérstaka þýðingu, einkum í ljósi þess að stefndi hefur fallið frá gengistryggingu höfuðstóls lánsins.
Sanngirnismat samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 ræðst af heildarmati á þeim fjórum þáttum, sem tilgreindir eru í 2. mgr. greinarinnar og lýst er að framan. Við matið verður hér að taka tillit til þess að hluti lánsins, sem áfrýjendur veittu veðheimild fyrir, fór til greiðslu eldri veðskuldar að fjárhæð tæplega 4.000.000 krónur, sem áður er gerð grein fyrir og sem hvíldi á fasteigninni. Niðurstaða sanngirnismats, eins og atvikum er háttað í þessu máli, er á þann veg að ósanngjarnt sé af hálfu stefnda að bera fyrir sig samninginn sem fólst í samþykki þeirra við að veita veð í fasteign sinni, umfram síðastnefnda fjárhæð. Miðað við vaxta- og verðtryggingarákvæði skuldabréfsins, sem greitt var upp, má ætla að hækkun skuldarinnar hefði ekki numið lægri fjárhæð en 2.500.000 krónum. Þegar tekið er tillit til þessa verður fallist á kröfu áfrýjenda á þann hátt að ógilt verður samþykki þeirra við að veita veðleyfi að því marki sem fjárhæðin er umfram 6.500.000 krónur. Í ljósi þessa er ekki unnt að fallast á kröfu áfrýjenda um aflýsingu skuldabréfsins.
Stefndi hefur mótmælt þeirri málsástæðu áfrýjenda að þau hafi mátt gera ráð fyrir að í greiðslumatinu fælist full endurgreiðsla lánsins, sem um ræðir, sem nýrri málsástæðu fyrir Hæstarétti og hafnar því að taka megi tillit til hennar. Í stefnu til héraðsdóms er á því byggt að greiðslumatið sé rangt að því leyti að ekki hafi verið framkvæmt sérstakt greiðslumat vegna þessa láns. Verður talið felast í því sú málsástæða er stefndi andmælir sem of seint fram kominni. Verður því ekki tekið tillit til þessara andmæla hans.
Stefndi greiði áfrýjendum hvorum fyrir sig málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Samþykki áfrýjenda, Sigurðar Villa Guðmundssonar og Dagbjartar Friðriksdóttur, 22. júlí 2007, við því að veita veð í fasteign sinni að Grenigrund 28, Akranesi, fyrir láni Landsbanka Íslands hf. til Stefáns Álfssonar samkvæmt skuldabréfi nr. 0172-74-8778, útgefnu 22. júlí 2007, að fjárhæð 13.000.000 krónur er ógilt að því leyti sem samþykkið er umfram 6.500.000 krónur.
Stefndi, Landsbankinn hf., greiði áfrýjendum málskostað í héraði og fyrir Hæstarétti, 600.000 krónur til hvors þeirra.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var 18. nóvember 2011, er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 1. apríl sama ár.
Stefnendur eru Sigurður Villi Guðmundsson og Dagbjört Friðriksdóttir, bæði til heimilis að Grenigrund 28, Akranesi.
Stefndi var upphaflega NBI hf., Austurstræti 11, Reykjavík. Fyrir liggur að nafni NBI hf. var breytt í Landsbankann hf. 28. apríl 2011.
Dómkröfur stefnenda eru þær, að ógilt verði með dómi samþykki þeirra og undirritun á veðskuldabréf nr. 0172-74-8778, um að veita stefnda lánsveð í fasteigninni Grenigrund 28, Akranesi, og að stefnda verði gert að aflýsa veðskuldabréfinu af fasteigninni. Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefnda að mati réttarins, auk virðisaukaskatts á málskostnað.
Stefndi krefst þess að öllum kröfum stefnenda verði hafnað. Að auki er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, auk virðisaukaskatts af dæmdri málflutningsþóknun til stefnda.
I.
Upphaf máls þessa má rekja til þess að Stefán Álfsson, tengdasonur stefnenda, leitaði til stefnenda um að þau gengjust í ábyrgð fyrir láni frá Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 13.000.000 króna. Stefán var á þessum tíma starfsmaður á verðbréfasviði bankans.
Af gögnum málsins er ljóst að Stefán Álfsson sótti hinn 5. júlí 2007 um tvö lán hjá Landsbanka Íslands hf. í tengslum við kaup sín á fasteigninni að Fjóluvöllum 3 í Hafnarfirði. Annað lánið var fasteignalán í erlendri mynt að fjárhæð 35.560.000 krónur til 20 ára með veði í Fjóluvöllum 3 en hitt var kúlulán í erlendri mynt að fjárhæð 13.000.000 króna með lánstíma í 5 ár með veði í eign stefnenda að Grenigrund 28 á Akranesi.
Fram fór svonefnt fasteignalánamat á lántaka, Stefáni Álfssyni, og liggur frammi í málinu skjal, sem ber yfirskriftina „Forsendur fasteignalánamats“, sem undirritað er af honum og konu hans, Pálínu Sigurðardóttur, dóttur stefnenda, hinn 22. júlí 2007. Sama dag undirrituðu þau, ásamt stefnendum, skjal sem ber yfirskriftina „Niðurstöður fasteignalánamats“. Enn fremur liggur frammi í málinu veðskuldabréf að fjárhæð 13.000.000 króna með nánar tilgreindri gengistryggingu og er þar jafnframt kveðið á um að fasteignin að Grenigrund 28 á Akranesi, íbúð 01-0101 og bílskúr 02-0101, sé sett að veði til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á höfuðstól, gengismun, vöxtum, dráttarvöxtum og öllum kostnaði vegna vanskila og innheimtuaðgerða. Er skuldabréfið einnig undirritað 22. júlí 2007 af Stefáni Álfssyni, sem útgefanda, Pálínu Sigurðardóttur, sem maka útgefanda, og stefnendum, sem annars vegar veðsali, og hins vegar sem maka veðsala.
Hinn 23. júlí 2007 skrifuðu Stefán og Pálína undir kaupsamning um fasteignina Fjóluvelli 3 í Hafnarfirði.
Gerð var breyting á framangreindu veðskuldbréfi með viðauka við skuldabréfið, dagsettum 31. október 2008. Með viðaukanum var vaxtaafborgun bréfsins frestað til 1. maí 2009 og greiðslu eftirstöðva lánsins frestað til 1. ágúst 2012. Undir viðaukann skrifaði Stefán, sem lántaki, og stefnendur, sem þinglýstir eigendur hinnar veðsettu eignar.
Aðila greinir á um það, hvort stefnendum hafi verið afhent skriflegt greiðslumat á lántakanda vegna umræddrar lántöku Stefáns Álfssonar. Stefnendur kveða ekkert greiðslumat hafa verið framkvæmt og þá hafi stefnendum hvorki verið afhentir upplýsingabæklingar né skjöl til undirritunar um þá áhættu sem því kynni að fylgja að gangast í ábyrgð. Þá hafi stefnendum hvorki verið kynnt að endurgreiðslur lánsins væru gengistryggðar né hafi þeir verið upplýstir um hver áhrif gengisbreytingar gætu haft á veðtrygginguna. Um það hafi lántakandinn sjálfur hins vegar verið upplýstur sérstaklega. Stefnendur hafi heldur ekki verið upplýstir um það sérstaklega að umrædd lánveiting væri í formi kúluláns með einum gjalddaga, sem skyldi greiðast að fullu hinn 1. ágúst 2012. Stefnendur hafi því hvorki fengið kynningu á því hvers eðlis lánveitingin var, né hafi þeir verið upplýstir um þá áhættu sem fólst í ábyrgðinni. Við þessar kringumstæður hafi stefnendur undirritað samþykki fyrir lánsveði á veðskuldabréfið sem þinglesnir eigendur fasteignar í kvöldverðarboði á heimili sínu.
Stefndi bendir hins vegar á að framkvæmt hafi verið fasteignalánamat, sem sé greiðslumat sem framkvæmt sé þegar einstaklingar kaupi fasteign, og sé það sambærilegt greiðslumati, sem framkvæmt sé þegar einstaklingur taki skuldabréfalán í banka til annars en fasteignakaupa. Hafi fasteignalánamatið ekki aðeins tekið til þess láns, sem Stefán og Pálína óskuðu eftir að stefnendur veittu þeim veðleyfi fyrir, heldur hafi það tekið til allra lánveitinga við kaupin. Niðurstaða matsins var sú að fjármögnun taldist takast og að kaupendurnir hefðu greiðslugetu til að kaupa eignina. Í framhaldi af greiðslumatinu voru skuldabréfin útbúin og afhent Stefáni ásamt niðurstöðum fasteignalánamats og forsendum þess. Stefán mun hafa farið með skjölin til stefnenda á Akranesi og voru þau undirrituð með þeim hætti, sem lýst er hér að framan.
Með bréfum lögmanns stefnenda til stefnda, dagsettum 11. nóvember og 20. desember 2010, og á fundum sem haldnir voru í kjölfarið, var þess ítrekað farið á leit af hálfu stefnenda að stefndi viðurkenndi að hann gæti ekki byggt rétt á ábyrgðaryfirlýsingum stefnenda og að stefndi aflýsti veðskuldabréfinu af fasteign stefnenda. Stefndi hefur hafnað öllum kröfum stefnanda þess efnis, m.a. í bréfi dagsettu 15. desember 2010.
Með lögum nr. 151/2010, um breytingu á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, var lögfest að veðskuldabréfið væri gengistryggt lán og því ólögmætt og bæri að endurútreikna það í samræmi við ákvæði laganna. Endurútreikningur lánsins hefur farið fram og er lánið nú íslenskt lán með lægstu óverðtryggðu vöxtum Seðlabanka Íslands.
II.
Stefnendur reisa dómkröfur sínar á því að við undirbúning ábyrgðayfirlýsingar stefnenda hafi ekki verið fylgt skilyrðum og skyldum samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða frá árinu 2001. Á grundvelli þess samkomulags, og með vísan til 36. gr. samningalaga um að víkja megi samningi til hliðar í heild eða að hluta og ákvæða laga um góða viðskiptahætti, byggja stefnendur á því að samþykki þeirra um veitingu lánsveðs teljist óskuldbindandi.
Í þessu sambandi benda stefnendur í fyrsta lagi á að Landsbanki Íslands hf. hafi ekki látið framkvæma sérstakt greiðslumat vegna ábyrgða stefnenda eins og honum hafi verið skylt að gera samkvæmt 3. mgr. 3. gr. samkomulagsins, sbr. 2. ml. 1. mgr. 2. gr. Sé jafnframt ljóst að niðurstöður fasteignalánamats vegna annars láns geti ekki talist hafa komið í stað hins skyldubundna greiðslumats vegna hinnar umþrættu lánveitingar, enda hafi Landsbanki Íslands hf. lýst því sérstaklega yfir í matinu að bankinn bæri ekki ábyrgð á þeim upplýsingum sem þar kæmu fram. Af framlögðu sýnishorni af greiðslumati vegna sjálfskuldarábyrgðar þriðja manns, eins og bankinn vann það á þeim tíma, sé t.a.m. vakin sérstök athygli ábyrgðarmanns á því að umrætt greiðslumat gefi til kynna að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar og ábyrgðarmaður því beðinn um það sérstaklega að staðfesta ábyrgð sína vegna áhættunnar. Hefði verið rétt og eðlilegt að sams konar vinnubrögð hefðu verið viðhöfð í þessu máli, þ.e. að framkvæmt hefði verið greiðslumat, byggt á réttum upplýsingum og athygli ábyrgðarmanna vakin á áhættu sem ábyrgðinni fylgdi. Hefði það verið í samræmi við góðar venjur og góða viðskiptahætti. Það hafi hins vegar ekki verið gert og á því beri stefndi einn alla ábyrgð.
Í öðru lagi hafi bankanum borið skylda til þess, samkvæmt 1. mgr. 4. gr. samkomulagsins, að afhenda stefnendum upplýsingabæklinga um skuldaábyrgðir og veðsetningar og dreifa með skjölum til undirritunar. Það hafi ekki verið gert, auk þess sem upplýsingaskylda bankans samkvæmt 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins, þess efnis að ábyrgðarmönnum skuli gert kleift að kynna sér niðurstöður greiðslumats áður en gengist er í ábyrgð, sé þar að auki ekki uppfyllt.
Í umræddu kvöldverðarboði stefnenda með lántaka á heimili hinna fyrrnefndu hafi stefnendur undirritað sérstakt skjal, sem hafi fyrirsögnina „Niðurstöður fasteignalánamats“. Í bréfi stefnda til lögmanns stefnenda, dagsettu 15. desember 2010, komi hins vegar fram að stefnendum hafi verið kynnt skjal sem hafi haft fyrirsögnina „Forsendur fasteignalánamats“ áður en niðurstöður matsins voru undirritaðar en sú fullyrðing stefnda sé því röng. Skjal með forsendum matsins hafi ekki verið kynnt stefnendum áður en þau undirrituðu og samþykktu að veita ábyrgð í formi lánsveðs. Þess utan komi fram í forsendum matsins margvíslegar upplýsingar, sem sýni fram á að efni og niðurstöður fasteignalánamatsins séu í besta falli rangar eða villandi ef ekki tilbúningur frá upphafi í því skyni að réttlæta lánveitinguna. Þrátt fyrir að forsendur matsins og niðurstöður miðist við annað lán en það, sem stefnendur gengust í ábyrgð fyrir, sé rétt að rekja efni þeirra frekar.
Í fyrsta lagi komi fram að upplýsingar um mánaðarlaun lántaka byggist á óstaðfestum áætlunum bankans en í því felist að uppgefnar mánaðartekjur í fasteignalánamatinu frá bankanum hafi ekki byggst á samningsbundnum launum lántaka nema að hluta. Hinn hluti áætluðu launanna frá bankanum hafi verið byggður á vonum og væntingum aðila um launagreiðslur til lántaka í formi bónusa og kaupauka í hverjum mánuði til langrar framtíðar. Ákvarðanir um slíka kaupauka og bónusa hafi þó einungis byggst á geðþóttaákvörðunum bankans hverju sinni og yrðu því í besta falli tilviljanakenndar, enda hafi hvorki legið fyrir samningur né skýrar forsendur um það, hvort eða hvenær slíkar greiðslur yrðu inntar af hendi. Upplýsingar um þessa óvissu komi skýrt fram í forsendum matsins en þær komi ekki fram í þeim niðurstöðum, sem kynntar hafi verið stefnendum. Í forsendunum komi einnig fram að maki lántaka hafi verið tekjulaus svo mánaðarlegar afborganir hafi alfarið verið fjármagnaðar með launatekjum lántaka.
Í öðru lagi komi fram í forsendunum að mánaðarleg greiðslubyrði af sameiginlegum skuldum lántaka og maka nemi samtals 301.244 krónum. Í þeirri samtölu sé ekki gert ráð fyrir afborgunum af því 35.560.000 króna láni, sem matið varðar, en í niðurstöðum komi fram að afborganir af því láni séu áætlaðar 278.827 krónur á mánuði. Af þessu verði ráðið að mánaðarlegar afborganir lántaka og maka hans hafi verið um 580.000 krónur á mánuði. Í niðurstöðum matsins sé á hinn bóginn gert ráð fyrir því að mánaðarleg greiðslubyrði sé aðeins 437.704 krónur en sú niðurstaða virðist byggjast á því að tilteknar skuldir lántaka yrðu greiddar upp, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það hafi ekki gengið eftir og þá hafi stefnendur ekki verið upplýstir um þær forsendur. Sé því um verulegt misræmi að ræða milli forsendna matsins og niðurstöðu varðandi mánaðarlega greiðslubyrði lántaka og maka hans, sem stefnendur hafi ekki verið upplýstir um.
Í þriðja lagi sé í niðurstöðum fasteignalánamatsins tilgreint sérstaklega söluverð eigna lántaka og maka, sem verði notaðar til fjármögnunar fasteignakaupa, samtals að fjárhæð 28.847.200 krónur. Þessar eignir hafi ekki verið sundurliðaðar í niðurstöðum fasteignalánamatsins en í forsendum þess sé vísað til þriggja eigna í þessu sambandi. Í niðurstöðum fasteignalánamatsins sé tilvist þessara eigna og söluandvirði þeirra talin forsenda þess að fjármögnun teljist takast.
Í bréfi stefnda til lögmanns stefnenda hinn 15. desember 2010 komi fram sú skýring stefnda að fyrrnefnd fjárhæð, 28.847.200 krónur, undir liðnum „Eignir lántaka og maka“ í forsendum fasteignalánamatsins sé fengin með því að leggja saman áætlað söluverð eigna sem tiltekið hafi verið að notaðar yrðu við fjármögnun fasteignakaupanna.
Þær þrjár eignir, sem þarna sé vísað til, séu í fyrsta lagi veltureikningur lántaka nr. 161-26-3005, en virði hans hafi verið metið á 15.600.000 krónur. Samkvæmt bankayfirliti hafi staðan á reikningnum verið 11.154.951 króna hinn 22. júlí 2007. Hinn 10. júlí 2007 hafi innstæðan náð mestum hæðum eða 12.071.747 krónum. Umræddur reikningur hafi verið í neikvæðri stöðu nánast allt árið 2007 að frátöldum 20 dögum í júlí, þ.e. frá 5. til 24., þar sem staðan hafi verið jákvæð. Innstæðan á reikningnum hafi þó aldrei náð þeirri fjárhæð, sem fram komi í forsendum fasteignalánamatsins. Það hljóti að vekja sérstaka athygli að innstæðan hafi náð þessum hæðum á þessu tímabili, því það hafi komið sér vel fyrir matið, en þrátt fyrir það liggi fyrir að fjármunir á reikningnum hafi ekki verið notaðir til kaupa á umræddri fasteign. Í öðru lagi hafi stefndi vísað til nýs fasteignaláns í erlendri mynt með lánsveði í Grenigrund að fjárhæð 9.747.200 krónur. Ekki séu gefnar frekari skýringar á þessari fjárhæð en í niðurstöðum fasteignalánamats sé hún talin til eigna og muni söluandvirði þeirrar eignar nýtast við fjármögnun fasteignakaupanna eins og fram komi í bréfi stefnda. Í þriðja lagi hafi verið vísað til bifreiðar af gerðinni Audi Q7 en bifreiðin hafi verið flutt til landsins og tollafgreidd 27. ágúst 2007 eða einum og hálfum mánuði eftir að umrætt fasteignalánamat var unnið. Það hafi því verið fráleitt að fullyrða í matinu að andvirði þeirrar eignar myndi nýtast við fjármögnun fasteignakaupanna, enda hafi hún ekki verið í eigu lántaka á þeim tíma sem matið var unnið. Á þessum tíma hafi kostnaður vegna kaupa og innflutnings á bifreið af þessari tegund verið nærri 6,5-7 milljónum króna. Í niðurstöðum fasteignalánamatsins sé ekki gert ráð fyrir útgjöldum hjá lántaka vegna þessara kaupa. Þess í stað komi fram í niðurstöðunum að eigið fé lántaka í bifreiðinni nemi 3,5 milljónum króna en útilokað sé að það fái staðist.
Kaup lántaka á fasteigninni Fjóluvöllum 3 í Hafnarfirði hafi að öllu leyti verið fjármögnuð með tveimur lánum frá Landsbanka Íslands hf., annars vegar að fjárhæð 35.560.000 krónur og hins vegar umþrætt lán að fjárhæð 13.000.000 króna. Engar eignir hafi því verið seldar til að fjármagna kaupin og fullyrðingar um sölu eigna í niðurstöðum fasteignalánamats vegna fjármögnunar kaupanna séu því rangar. Hér verði einnig að hafa í huga að söluandvirði þessara þriggja meintu eigna hafi verið metið í niðurstöðum fasteignalánamats áður en stefnendur samþykktu að veita umrætt lánsveð eða umrædd bifreið komst í eigu lántaka. Bankanum hafi því verið ljóst að upplýsingagjöf bankans í fasteignalánamatinu, um að söluandvirði eignanna nýttist við fjármögnun við kaupin, hafi í besta falli verið röng eða villandi, enda hafi bankinn tekið það sérstaklega fram að hann bæri ekki ábyrgð á upplýsingagjöfinni.
Stefnendur benda jafnframt á að lántaki hafi haft sérstaka hagsmuni af því að lánsveðið yrði veitt og því hafi það hvorki verið sanngjarnt né eðlilegt að honum skyldi ætlað að bera ábyrgð á því að fullnægja hlutlægri upplýsingaskyldu bankans gagnvart stefnendum, eins og stefndi hafi beint og óbeint vísað til. Verði að telja það til vanrækslu af hálfu bankans og í andstöðu við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, sbr. lög um fjármálafyrirtæki, að fela lántaka að sjá um skyldubundna upplýsingagjöf bankans um leið og hann aflaði ábyrgða hjá stefnendum.
Við mat á afleiðingum þess að upplýsingaskyldu var ekki sinnt af hálfu bankans, verði jafnframt að líta til þess að veiting lánsveðsins var í þágu bankans, þ.e. til tryggingar kröfu bankans á hendur lántaka, auk þess sem öll skjöl málsins hafi verið samin af honum, sem bjó yfir sérfræðiþekkingu á sviði fjármálaþjónustu og bankaviðskipta en stefnendur séu hins vegar menntaðir í vélstjórn og hjúkrunarfræðum. Eftir undirritun samningsins hafi reynt á flesta þá áhættuþætti, sem bankanum hafi verið skylt að upplýsa um við samningsgerðina en hafi þó ekki gert. Sé því bersýnilega ósanngjarnt og andstætt góðum viðskiptavenjum að stefndi geti borið fyrir sig samning, sem byggi á yfirlýsingum sem fengnar voru með þessum hætti.
Stefnendur benda á, að meginmarkmið samkomulags um notkun ábyrgða hafi verið að ábyrgðarmenn gætu metið hlutlægt áhættu af því að gangast í ábyrgð á skuldum einstaklinga áður en þeir samþykktu að veita hana. Heiðarleg, nákvæm og vönduð upplýsingagjöf lánveitanda til ábyrgðarmanna sé forsenda þess að þetta markmið náist en stefnendur telji ljóst að slíku hafi ekki verið fyrir að fara í máli þessu. Því hafi Landsbanka Íslands hf. verið skylt að meta greiðslugetu lántaka sérstaklega vegna þess lánsveðs, sem sóst var eftir hjá stefnendum. Þá líta stefnendur svo á að hin takmarkaða, ranga og villandi upplýsingagjöf af hálfu bankans til stefnenda sé í andstöðu við ákvæði 1.-4. gr. samkomulagsins frá 2001, eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, sbr. meginreglur 4. gr. þágildandi laga nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti og 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Því geti stefndi ekki byggt rétt á ábyrgðaryfirlýsingum stefnenda, sbr. 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, og beri því að víkja þeim til hliðar.
Hvað málskostnaðarkröfu stefnenda varðar, benda stefnendur á að þau hafi þurft að leita lögfræðiþjónustu samfleytt frá upphafi árs 2009 í því skyni að fá réttláta lausn í málinu. Megi af gögnum málsins sjá að mikil vinna hafi verið lögð í málið af hálfu stefnenda.
Kröfum sínum til stuðnings vísa stefnendur til ákvæða þágildandi samkomulags frá 1. nóvember 2001, um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, einkum 1., 2., 3., og 4. gr., 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og 4. gr. þágildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003. Þá vísa stefnendur enn fremur til fordæma Hæstaréttar, einkanlega Hrd. nr. 163/2005 og Hrd. 3/2003. Um samlagsaðild stefnenda vísast til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og um málskostnað til XXI. kafla sömu laga.
III.
Stefndi byggir á því að fasteignalánamat það, sem fram fór á Stefáni Álfssyni og Pálínu Sigurðardóttur og þau undirrituðu ásamt stefnendum, fullnægi að öllu leyti ákvæðum 3. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum og því beri að hafna kröfu stefnenda um að ógilt verði samþykki þeirra og undirritun á veðskuldabréf nr. 8778. Í greininni komi fram hvernig greiðslumat skuli fara fram á lántaka ef veð er sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu einstaklings. Óumdeilt sé í málinu að stefnendur undirrituðu fasteignalánamatið en þar komi fram eftirfarandi fyrirvari og forsendur um niðurstöður matsins: „Framangreindar upplýsingar um skuldir og fjárhagsstöðu greiðanda eru að hluta til frá honum sjálfum komnar. Að því leyti eru forsendur mats á greiðslugetu hans og niðurstöður/ályktanir dregnar af þeim upplýsingum á hans ábyrgð. Þær eru því án ábyrgðar fyrir Landsbanka Íslands hf.“ Þá komi fram að við undirritun aðila undir fasteignalánamatið hafi þeir fengið matið afhent, kynnt sér það og skilið efni mats á greiðslugetu greiðanda og samþykkt það sem fullnægjandi. Aðilar hafi einnig kynnt sér upplýsingabækling Landsbanka Íslands hf. um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila. Þetta hafi Stefán Álfsson, Pálína Sigurðardóttir og stefnendur staðfest með undirritun sinni undir skjalið. Stefnendur hafi því staðfest að hafa séð matið og skilið það og að hafa fengið upplýsingabækling um persónuábyrgðir.
Í 17. tl. veðskuldabréfsins segi að með undirritun á bréfið staðfesti veðsali, sem ekki sé útgefandi, að hafa kynnt sér upplýsingabækling Landsbanka Íslands hf. um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila. Undir bréfið hafi stefnendur ritað. Þau hafi því í tvígang staðfest að hafa séð umræddan bækling Landsbanka Íslands hf. um persónuábyrgðir. Við undirritun bréfsins hafi stefnendur einnig séð að um var að ræða fasteignalán í erlendri mynt og hafi hlutföll myntanna verið gefin upp. Einnig komi skýrt fram í bréfinu að fjöldi afborgana er einn og að vaxtagjalddagar séu 19. Stefnendur geti því ekki haldið því fram að þau hafi ekki vitað að um kúlulán í erlendri mynt var að ræða.
Í 4. gr. framangreinds samkomulags segi um upplýsingagjöf til ábyrgðarmanns áður en til veðsetningar er stofnað, að fjármálafyrirtækjum beri að gefa út upplýsingabækling um sjálfskuldarábyrgðir og veðsetningar og dreifa með skjölum sem afhent séu ábyrgðarmönnum til undirritunar. Sé því ljóst að stefnendur hafi staðfest að þau hafi kynnt sér efni upplýsingabæklings Landsbanka Íslands hf. og einnig hafi þau undirritað fasteignalánamatið og hafi bankinn því uppfyllt að öllu leyti ákvæði samkomulagsins. Hefðu stefnendur gert fyrirvara við undirritun sína á veðskuldabréfið og/eða fasteignalánamatið þess efnis að þau hefðu ekki séð upplýsingabæklinginn eða ekki séð fasteignalánamatið eða ekki skilið það, hefði Landsbanki Íslands hf. aldrei keypt skuldabréfið. Bankinn hefði kallað stefnendur á sinn fund og afhent þeim upplýsingabæklinginn og farið ítarlega yfir fasteignalánamatið og forsendur þess.
Bankinn hafi farið fram á að stefnendur undirrituðu fasteignalánamatið sökum þess að þar fór fram mat á greiðslugetu Stefáns Álfssonar og Pálínu Sigurðardóttur og greiðslugeta af báðum lánunum, sem þau hafi tekið til kaupanna, metin. Það hefði verið þýðingarlaust af hálfu bankans að láta stefnendur undirrita fasteignalánamatið ef það hefði ekki tekið til 13 milljóna króna lánsins sem sé með veði í fasteign stefnenda.
Stefndi mótmælir sérstaklega framlagningu sýnishorna af greiðslumati Landsbankans. Skjölin tengjast aðilum málsins ekki með neinum hætti og bendir stefndi á að um sé að ræða trúnaðarskjöl samkvæmt ákvæðum laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og hafi stefnendur ekki sýnt fram á það með neinum gögnum að þau hafi haft heimild viðkomandi einstaklinga til að leggja niðurstöður greiðslumatsins fram í málinu. Stefndi árétti að fyrirvarar og forsendur niðurstöðu matsins séu alveg þær sömu og í fasteignalánamati Landsbanka Íslands hf. og séu fullyrðingar stefnenda í stefnu um annað rangar.
Stefndi mótmælir því, sem haldið er fram í stefnu, að Landsbanki Íslands hf. hafi ekki upplýst stefnendur um að lánið var kúlulán, með einum gjalddaga, né heldur hafi bankinn upplýst þau um að endurgreiðslur lánsins væru gengistryggðar og hvaða áhætta væri samfara því. Bankinn hafi útbúið greiðslumat og skuldabréf þar sem skýrlega hafi komið fram að veðskuldabréfið væri kúlulán og stefnendur hafi undirritað skjölin og með því staðfest skilning á efni þeirra og þeirri áhættu, sem þau tækju, með því að veita lánsveð fyrir veðskuldabréfinu í fasteign sinni. Stefndi áréttar að í samkomulaginu um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga og lögum nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, sé ekki gerð krafa um það að ábyrgðaraðilum sé gerð grein fyrir því að lán, sem þeir gangast í ábyrgð fyrir, sé gengistryggt. Landsbanki Íslands hf. hafi því uppfyllt ákvæði samkomulagsins um upplýsingaskyldu gagnvart stefnendum. Bankinn hafi haft það vinnulag við veitingu erlendra lána að lántaki staðfesti að hann gerði sér grein fyrir þeirri áhættu sem væri samfara því að taka erlent lán. Á svonefndri yfirlýsingu-fylgiskjali með láni í erlendri mynt sé gert ráð fyrir því að stefnendur undirriti skjalið en það hafi þau ekki gert. Með því að láta lántaka og ábyrgðarmenn undirrita slíkt skjal hafi Landsbanki Íslands hf. gengið lengra en lög og samkomulagið gerðu kröfu um. Það að stefnendur undirrituðu ekki skjalið, geti því alls ekki leitt til þess að ógilda beri veðskuldabréfið. Eins og áður hafi komið fram, hafi farið fram endurútreikningur á veðskuldabréfinu þannig að ekki sé lengur unnt að tala um að gengisáhætta hafi verið samfara láninu.
Stefndi bendir á, að þegar lánveitingin fór fram hafi lántaki, Stefán Álfsson, verið starfsmaður Landsbanka Íslands hf. sem gjaldeyrismiðlari á verðbréfasviði. Hann hafi sótt um lánveitingar vegna húsnæðiskaupa sinna og eiginkonu sinnar hjá vinnuveitanda sínum. Eftir nokkurra ára starf hafi Stefán þekkt vel til allra starfsreglna bankans vegna útlána, enda hefði hann áður tekið lán hjá bankanum með lánsveði þegar hann tók veðskuldabréf þar sem foreldrar hans lögðu fram veð til tryggingar skuldum hans. Stefán hafi einnig þekkt mjög vel alla áhættu, sem fylgdi því að taka erlent lán, og hafi verið vel til þess fallinn að útskýra það fyrir stefnendum. Stefán hafi því þekkt vel til fasteignalánamats og forsendna þess, enda hafi það legið fyrir við fyrri lánveitingu til hans samkvæmt veðskuldabréfi. Þá hafi hann einnig þekkt vel til samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga þar sem hann hafi gengið í gegnum sama ferli þegar foreldrar hans veittu honum veðleyfi í eign sinni. Þá hafi þau undirritað veðskuldabréfið og fasteignalánamatið og staðfest að þau hefðu fengið upplýsingabækling Landsbanka Íslands hf. um persónuábyrgðir.
Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnenda að fasteignalánamatið, sem gert var af starfsmönnum Landsbanka Íslands hf., hafi verið rangt. Hafi matið verið byggt á upplýsingum frá lántaka sjálfum og skattframtali hans vegna síðustu tveggja ára og hafi starfsmenn Landsbanka Íslands hf. sannreynt þær upplýsingar, sem hann gaf, eins og þeim var unnt.
Í matinu sé gert ráð fyrir að andviði veittra lána vegna kaupanna verði varið til uppgreiðslu ákveðinna lána og yfirdráttar af tékkareikningi. Einnig hafi Stefán ætlað að selja bíl, sem hann átti eignarhluta í, og gera upp lán af andviði söluverðsins en honum hefði ekki tekist að selja bílinn áður en greiðslumatið fór fram. Þannig hafi greiðslubyrði Stefáns lækkað eftir þær aðgerðir. Stefndi hafi ekki getað sannreynt hvort Stefán framkvæmdi þær aðgerðir, sem reiknað hafi verið með í matinu, enda hefði það gerst eftir að Landsbanki Íslands hf. greiddi út lánin. Hafi Stefán ekki framkvæmt það, sem forsendur fasteignalánamatsins gerðu ráð fyrir, verði stefnendur að höfða mál á hendur Stefáni Álfssyni og Pálínu Sigurðardóttur til að sækja rétt sinn en þau geti ekki sett ábyrgðina yfir á bankann, sem framkvæmdi matið, út frá forsendum sem Stefán hafði skuldbundið sig til að fara eftir.
Stefndi áréttar einnig fyrirvara og forsendur um efni greiðslumatsins sem fram koma á því. Stefnendur hafi samþykkt forsendurnar og fyrirvarann með undirritun sinni undir fasteignalánamatið.
Varðandi mánaðarlaun lántaka tekur stefndi fram að þegar greiðslumatið fór fram, hefði Stefán fengið greiddar 4 milljónir króna í kaupauka, sem geri 197.125 krónur á mánuði, sem sjá megi af framlögðu afriti af tölvupósti starfsmanns Landsbanka Íslands hf. til Stefáns. Stjórnendur Landsbanka Íslands hf. hefðu fram að þessum tíma greitt starfsmönnum á verðbréfasviði bónus í nokkur ár og hefðu bónusarnir farið hækkandi ár frá ári. Ekki hafi mátt reikna með öðru á þessum tíma en að bónusgreiðslurnar myndu halda áfram og hækka frekar en hitt.
Þegar fasteignalánamatið og forsendur þess séu skoðaðar komi í ljós að afborgun af láninu að fjárhæð 35.560.000 krónur nemi 278.827 krónum og greiðslubyrði af öðrum skuldum, eftir uppgreiðslu lána, nemi 158.877 krónum, sem geri samtals 403.704 krónur eins og fram komi í matinu.
Varðandi þær eignir, sem stefnandi gaf upp að hann ætlaði að nota til að fjármagna kaupin, sé ljóst að innstæða á tékkareikningi var þegar matið fór fram 12.071.747 krónur en ranglega sé sagt í stefnu að reikningurinn hafi aðeins verið jákvæður í júlí. Innstæðan hafi verið til staðar þegar matið fór fram og Stefán hafi staðfest að hann ætti þessa peninga og að þeir yrðu notaðir við kaupin. Varðandi fasteignalánið með veði í Grenigrund 28 á Akranesi bendir stefndi á, að það hafi verið forsenda matsins að lánið yrði tekið og að 9.747.200 krónur færu til kaupa á fasteigninni en mismunurinn færi til uppgreiðslu láns sem hvíldi á Grenigrund 28. Stefán hafi sent tölvupóst á þann starfsmann Landsbanka Íslands hf., sem framkvæmdi greiðslumatið, og hafi Jón Sigurðsson hjá Sky Trading staðfest að Stefán hefði hinn 16. júní 2007 greitt 3.500.000 krónur inn á kaupverð bifreiðarinnar og hafi það verið metið sem eigið fé Stefáns í bifreiðinni.
Stefndi hafnar þeim fullyrðingum stefnenda að kaup lántaka á fasteigninni Fjóluvöllum 3 í Hafnarfirði hafi eingöngu verið fjármögnuð með lánunum frá Landsbanka Íslands hf. Ljóst sé að andvirði lánanna dugi ekki fyrir kaupverðinu og því hafi Stefán orðið að ganga á eignir sínar eins og hann hefði skuldbundið sig til að gera við framkvæmd matsins. Eignirnar hafi annað hvort verið til staðar, eins og innstæðan á reikningnum, eða að Stefán átti eftir að selja þær, eins og bifreiðina. Andvirði lánsins með veði í Grenigrund 28 á Akranesi hafi verið lagt inn á reikning lántaka og hafi Stefáni verið gert ljóst að án þess að nota innstæðurnar og selja bifreiðina gæti hann ekki keypt fasteignina.
Stefndi hafnar einnig sem röngum fullyrðingum stefnanda um að hann hafi haft sérstaka hagsmuni af því að lánsveðið yrði veitt, enda sé þessi fullyrðing ekki studd neinum gögnum í málinu. Pálína Sigurðardóttir og Stefán Álfsson, dóttir og tengdasonur stefnenda, hafi verið einu aðilarnir sem höfðu hagsmuni af því að lánsveðið yrði veitt. Hefði veðið ekki verið veitt, hefði Landsbanki Íslands hf. ekki veitt lánið og þá hefðu lántaki og kona hans ekki getað keypt fasteignina. Hafi lántaki ekki nýtt þá fjármuni, sem hann sagðist myndu nota til kaupanna við gerð greiðslumatsins í bankanum, hafi lántaki eingöngu verið að svíkja stefnendur, sem veitt hafi honum veð fyrir öðru láninu, og verði stefnendur að sækja þau til ábyrgðar en ekki stefnda.
Stefndi hafnar jafnframt fullyrðingum stefnenda um að Landsbanki Íslands hf. hafi borið hlutlæga upplýsingaskyldu gagnvart stefnendum. Ekki sé hægt að skilja 4. gr. samkomulagsins þannig að um hlutlæga upplýsingaskyldu sé að ræða. Landsbanki Íslands hf. hafi í einu og öllu farið eftir ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og þannig unnið í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Bankinn hafi einnig farið eftir ákvæðum samkomulagsins og þágildandi lögum nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti.
Um lagarök vísar stefndi til samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, einkum 1.-4. gr. Einnig er vísað til laga nr. 161/2002, einkum 19. gr. Krafa stefnda um málskostnað byggist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnanda.
IV.
Mál þetta lýtur að ágreiningi um gildi ábyrgðaryfirlýsinga og undirskrifta stefnenda um að veita lánsveð í fasteign sinni vegna láns til tengdasonar sínar, Stefáns Álfssonar. Stefnendur telja undirskriftirnar óskuldbindandi þar sem lánveitandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt þágildandi samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001, sem samtök ýmissa fjármálafyrirtækja gerðu við Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra, sem óumdeilt er að Landsbanki Íslands hf. var aðili að og nú stefndi. Telja stefnendur því bersýnilega ósanngjarnt að þau teljist bundin við skuldbindingu sína, sbr. 36. gr. samningalaga. Stefndi byggir hins vegar á því að öllum slíkum skyldum hafi verið fullnægt.
Framangreint samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga liggur frammi í málinu. Samkvæmt 2. gr. þess tekur það til þess þegar einstaklingur hefur gefið út leyfi til að veðsetja fasteign sína til tryggingar skuldum annars einstaklings, svo sem hér háttar til. Í 3. gr. er að finna ákvæði um mat á greiðslugetu. Segir þar að þegar skuldaábyrgð eða veð er sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu, beri fjármálafyrirtæki að meta greiðslugetu greiðanda, nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert. Þá kemur fram að við greiðslumat skuli tekið tillit til neyslu og annarra fastra útgjalda áður en ráðstöfunarfé til greiðslu skuldbindinga er reiknað út. Við áætlun á útgjöldum til neyslu skuli að lágmarki nota viðmiðun Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna eða Íbúðalánasjóðs. Er síðan í 4. gr. samkomulagsins mælt fyrir um upplýsingagjöf til ábyrgðarmanna áður en til veðsetningar er stofnað. Segir þar að fjármálafyrirtækjum beri að gefa út upplýsingabæklinga um skuldaábyrgðir og veðsetningar og dreifa með skjölum sem séu afhent ábyrgðarmönnum til undirritunar. Þá er mælt fyrir um það, hvað koma skuli fram í slíkum upplýsingabæklingum.
Vitnið, Stefán Álfsson, sem er lántaki að því láni, sem fasteign stefnenda var sett að veði fyrir, kvaðst í skýrslu sinni hér fyrir dóminum hafa farið með skjal, sem ber yfirskriftina „Niðurstöður fasteignalánamats“ og veðskuldabréfið til stefnenda og fengið þau til að undirrita þau. Er óumdeilt að skjölin voru undirritað af lántaka, maka hans og báðum stefnendum á heimili stefnenda hinn 22. júlí 2007, eins og áður er getið.
Í framangreindum niðurstöðum fasteignalánamats er lánsfjárhæð tilgreind 35.560.000 krónur en óumdeilt er að lántaki fékk tvö lán hjá Landsbanka Íslands hf. vegna kaupa á húsinu að Fjóluvöllum 3 í Hafnarfirði, annars vegar lán að fjárhæð 35.560.000 krónur og hins vegar lán að fjárhæð 13.000.000 króna samkvæmt veðskuldabréfi því, sem mál þetta er risið af. Kemur fram í skjalinu að fjármögnun telst takast. Við aðalmeðferð málsins gaf skýrslu sem vitni Efemía Rún Sigurbjörnsdóttir, starfsmaður stefnda, og kvað hún umrætt fasteignalánamat hafa verið framkvæmt vegna þessara tveggja lána en fjárhæð hærra lánsins hefði eingöngu verið tilgreind í skjalinu þar sem formsins vegna væri einungis mögulegt að tilgreina eitt lán. Hins vegar hefðu niðurstöður matsins verið byggðar á mati á greiðslugetu vegna beggja lánanna og verður það lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Þá kannaðist vitnið ekki við það, að lántaki, Stefán Álfsson, hefði verið sendur sem starfsmaður Landsbanka Íslands hf. til stefnenda með skjöl til undirritunar, eins og haldið er fram í stefnu. Verður því að telja þá fullyrðingu í stefnu ósannaða og verður ekki á henni byggt. Jafnframt kom fram hjá Efemíu Rún að lánafyrirgreiðslan til Stefáns og öll framkvæmd hennar hefði í engu verið með öðrum hætti en almennt tíðkaðist gagnvart almennum lántökum hjá bankanum og hefði engu breytt að því leyti að Stefán var starfsmaður bankans.
Þegar litið er til framangreinds er það niðurstaða dómsins að fram hafi farið mat á greiðslugetu lántaka umrædds veðskuldabréfs með fasteignalánamati því sem gert var umrætt sinn. Af forsendum matsins, niðurstöðum þess og vætti vitnisins, Efemíu Rúnar, verður ekki annað séð en að matið hafi verið unnið í samræmi við ákvæði 3. gr. áðurgreinds samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Bar vitnið um að matið hefði verið unnið eftir upplýsingum frá lántaka og í samræmi við viðtekna venju bankans. Hafa engin gögn verið lögð fram sem hnekkja þessu mati.
Niðurstöður matsins voru undirritaðar af stefnendum, lántaka og maka hans og teljast því uppfyllt skilyrði 4. gr. samkomulagsins þar sem kveðið er á um að tryggja skuli að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgðina, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. Þá verður hér að líta til þess að ákvæði umrædds skuldabréfs um eðli ábyrgðar stefnenda og umfang hennar eru ekki flókin. Þar kemur fram hver lánsfjárhæðin er og að hana skuli endurgreiða með einni afborgun hinn 1. ágúst 2012. Jafnframt kemur fram að vaxtagjalddagar séu 19 og að gjalddagi fyrstu vaxtagreiðslu sé 1. nóvember 2007. Þá er tilgreint að mánuðir milli gjalddaga séu þrír, að vextir reiknist frá útborgunardegi og að vextir séu breytilegir Libor-vextir og vaxtaálag nemi 1,5%. Loks segir í 17. gr. skuldabréfsins að með undirritun sinni á bréfið staðfesti veðsali að hann hafi kynnt sér efni upplýsingabæklings Landsbanka Íslands hf. um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila.
Lántaki, Stefán Álfsson, bar um það hér fyrir dóminum, að hann hefði ekki afhent stefnendum neina bæklinga. Hins vegar er því ómótmælt að hann hafi fengið upplýsingabæklinginn afhentan ásamt öðrum skjölum og bera gögn málsins með sér að hann hafi kynnt sér efni upplýsingabæklings bankans, m.a. framlagðar niðurstöður fasteignalánamats, sem hann undirritaði ásamt stefnendum. Þá liggur fyrir, eins og hér að framan er rakið, að í umræddu veðskuldabréfi, sem stefnendur undirrituðu, er sérstaklega tekið fram að með undirritun sinni á bréfið staðfesti veðsalar að þau hafi kynnt sér efni upplýsingabæklings Landsbanka Íslands hf. um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila. Þótt stefnendur hafi fyrir dóminum lýst því, að þau hafi hvorki lesið veðskuldabréfið né niðurstöður fasteignalánamatsins, verður ábyrgð á þeirri háttsemi ekki lögð á aðra en þau sjálf. Að framansögðu virtu verður að telja uppfyllt það skilyrði 4. gr. margnefnds samkomulags um að bankanum hafi borið að gefa út upplýsingabækling um skuldaábyrgðir og veðsetningar og dreifa með skjölum, sem afhent eru ábyrgðarmönnum til undirritunar.
Ekki er fallist á það með stefnendum að unnt sé að líta svo á að veiting lánsveðsins hafi verið einvörðungu í þágu bankans sem veitti lánið, heldur verður að telja að það lúti einnig að hagsmunum lántaka sem nýtur lánafyrirgreiðslunnar. Þá verður ekki á það fallist með stefnanda, að með ákvæðum 4. gr. samkomulagsins hafi lögð einhvers konar hlutlæg upplýsingaskylda á fjármálafyrirtæki.
Í ljósi alls framanritaðs, og jafnframt með hliðsjón af því að umrætt veðskuldabréfalán hefur verið endurútreiknað og er nú íslenskt lán með lægstu óverðtryggðu vöxtum Seðlabanka Íslands, er ekki unnt að fallast á það með stefnendum að ógilda beri samþykki stefnenda og undirritun á tilgreint veðskuldabréf og að aflýsa beri veðskuldabréfinu af fasteign stefnenda, eins og krafist er, með vísan til ósanngirni og vanrækslu, sbr. ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936, þágildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 og laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Er það mat dómsins að við umrædda veitingu lánsveðs hafi verið uppfyllt skilyrði samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 og þá verði framkvæmdin ekki talin hafa brotið gegn eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum og venjum á fjármálamarkaði, sbr. ákvæði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Þykir hér engu breyta þótt ljóst sé að bankinn hafi samið skjöl þau, sem hér skipta máli.
Að öllu framangreindu virtu verður stefndi sýknaður af viðurkenningarkröfu stefnenda. Hins vegar þykir rétt, eins og mál þetta er vaxið og með vísan til ákvæða 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af viðurkenningarkröfu stefnenda, Sigurðar Villa Guðmundssonar og Dagbjartar Friðriksdóttur.
Málskostnaður fellur niður.