Hæstiréttur íslands

Mál nr. 594/2015

Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)
gegn
Garðari Hallgrímssyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður) og Tómasi Helga Jónssyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Lykilorð

  • Brot gegn valdstjórninni
  • Fjárkúgun
  • Eignaspjöll
  • Þjófnaður

Reifun

G og T voru sakfelldir fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að T réðist, að undirlagi G, með ofbeldi á fulltrúa lögreglustjóra á heimili hans. Þá var T jafnframt sakfelldur fyrir tilraun til fjárkúgunar, þjófnað og stórfelld eignaspjöll. Ekki var fallist á það með G að það leiddi til vanhæfis héraðsdómara að starfsstöðvar hans og fulltrúans hefðu verið í sama húsi og að þeir hefðu átt hefðbundin samskipti vegna starfa sinna. Þá þótti ekkert fram komið í málinu um vinfengi þeirra og var ómerkingarkröfu G því hafnað. Við ákvörðun refsingar G var litið til þess að hann hafði hlotið dóm í Hæstarétti 28. janúar 2016 þar sem hann var dæmdur í 10 mánaða fangelsi, þar af 7 mánuði skilorðsbundið, í tvö ár fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Með vísan til 60. gr. sömu laga var skilorðshluti þess dóms tekinn upp og honum ákveðin refsing í einu lagi fyrir bæði málin eftir reglum 77. og 78. gr. laganna. Þá voru brot T hegningarauki við dóm sem hann hafði hlotið í mars árið 2015 þar sem hann var sakfelldur fyrir fjölmörg brot. Að auki var litið til þess að brot G og T gegn fulltrúanum var framið í félagi, á heimili hans að kvöldi og nóttu til, og þótti að öllu leyti alvarlegt og ófyrirleitið. Á hinn bóginn hafði T játað brot sín að mestu fyrir dómi og lýst yfir iðrun vegna háttseminnar. Þá hafði G leitað sér aðstoðar á sjúkrastofnun vegna áfengis- og vímuvanda. Að öllu þessu virtu var refsing T hæfilega ákveðin þrjú ár og sex mánuðir og refsing G tvö ár og sex mánuðir.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. og 10. september 2015 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ómerkingarkröfu ákærða Garðars verði hafnað og að refsing ákærðu verði þyngd.

Ákærði Garðar krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms og að málinu verði vísað heim í hérað til munnlegrar sönnunarfærslu á ný. Til vara krefst hann sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en að því frágengnu refsimildunar.

Ákærði Tómas krefst refsimildunar.

Ákærði Garðar krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegrar sönnunarfærslu á ný. Um rök fyrir kröfunni vísar ákærði til þess að héraðsdómarinn, sem kvað upp hinn áfrýjaða dóm, hafi um langt árabil starfað í sama húsnæði og brotaþoli sá, sem í hlut á samkvæmt 5. lið II. kafla ákæru. Þá byggir ákærði á því að vinfengi sé milli héraðsdómarans og brotaþolans og að „dómarar við dómstólinn og fulltrúi lögreglustjóra hittist reglulega eftir vinnu, en slíkir fundir munu eiga sér stað a.m.k. 1-2 í mánuði.“ Við þær aðstæður sé augljóst að héraðsdómarinn hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins vegna tengsla sinna við brotaþola, sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Það leiðir ekki til vanhæfis héraðsdómarans að starfsstöðvar hans og umrædds brotaþola, sem gegnt hefur um langt skeið starfi fulltrúa lögreglustjórans á Akureyri og sinnt þar lögreglu- og sakamálum, hafi verið í sama húsi og þeir átt hefðbundin samskipti vegna starfa sinna. Þá er ekkert fram komið í málinu um vinfengi héraðsdómara og brotaþola. Samkvæmt þessu er framangreindri kröfu ákærða hafnað.

Með dómi Hæstaréttar [...].[...] í máli nr. [...]/[...] var ákærði Garðar sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og dæmdur í 10 mánaða fangelsi, þar af 7 mánuði skilorðsbundið í 2 ár. Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga laga verður skilorðshluti þess dóms tekinn upp og ákærða ákveðin refsing í einu lagi fyrir bæði málin eftir reglum 77. og 78. gr. laganna. Samkvæmt 1. tölulið 9. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 eru löglærðir fulltrúar lögreglustjóra handhafar lögregluvalds og hafa heimild til valdbeitingar eftir 14. gr. sömu laga. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærðu verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Garðar Hallgrímsson, greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur, og ákærði, Tómas Helgi Jónsson, málsvarnarlaun verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur. Annan áfrýjunarkostnað málsins, 148.970 krónur, greiði ákærðu óskipt.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 23. júlí 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var 29. maí, sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 20. mars 2015, á hendur Garðari Hallgrímssyni, kennitala [...], Vaðlabyggð 4, Svalbarðsstrandarhreppi, A, kennitala [...], [...], [...], B, kennitala [...], [...], [...], C, kennitala [...], [...], [...] og Tómasi Helga Jónssyni, kennitala [...], Brekkugötu 7b, Akureyri.  Sakarefninu er þannig lýst í ákærunni:

„I.

Á hendur ákærðu A, B og Tómasi Helga, fyrir neðangreind brot, framin að kvöldi þriðjudagsins 29. apríl 2014 á heimili D að [...] í [...], nema annað sé tekið fram:

  1. Fyrir tilraun til fjárkúgunar, með því að hafa í félagi reynt að hafa fé af D, með hótunum um að senda til hans menn í því skyni að beita hann ofbeldi og að bera á hann rangar sakir um kynferðisbrot ef hann ekki greiddi ákærðu B fjármuni. Ákærðu fengu þannig D til að millifæra kr. 1.000.000 af bankareikningi sínum inn á bankareikning ákærðu B í gegnum heimabanka en millifærslan gekk ekki eftir.

Telst þetta varða við 251. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

  1. Fyrir gripdeild, með því að hafa í félagi tekið [...] kort, [...] afsláttarkort, Visa greiðslukort, vasahníf, bréfahníf, tvær fjarstýringar, þrjár skyrtur og buxur í eigu D og haft á brott með sér.

Telst þetta varða við 245. gr. almennra hegningarlaga.

  1. Fyrir fjársvik, með því að hafa í kjölfar atvika sem lýst er í ákæruliðum 1 og 2, í heimildarleysi notað greiðslukort D til að svíkja út vörur samtals að fjárhæð kr. 39.360 í [...] við [...] á [...].

Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga.

  1. Fyrir þjófnað en til vara umboðssvik, með því að hafa að morgni miðvikudagsins 30. apríl 2014 notað greiðslukort D til að fylla á símainneignir hjá [...] að fjárhæð kr. 9.000 og 3.990 og hjá [...] að fjárhæð 5.000 og fyrir að hafa greitt fyrir eldsneyti að fjárhæð kr. 11.137 á bensínstöð [...] við [...] á [...] með [...] korti D.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga, en til vara við 249. gr. sömu laga.

II.

  1. Á hendur ákærðu Garðari, C og Tómasi Helga fyrir brot gegn valdstjórninni framið í félagi á Akureyri. Að undirlagi ákærða Garðars fóru ákærðu C og Tómas Helgi, aðfaranótt miðvikudagsins 12. nóvember, að [...] þar sem F, löglærður fulltrúi lögreglustjórans á Akureyri býr, í því skyni að beita F ofbeldi en ákærði Garðar hafði heitið ákærðu C og Tómasi Helga greiðslu að fjárhæð 300.000 – 500.000 króna fyrir verkið þar sem ákærði Garðar var ósáttur við afgreiðslu F á sakamálum honum tengdum.  Ákærði C ók ákærða Tómasi Helgi í nágrenni við [...] og ákærði Tómas Helgi, sem huldi andlit sitt og var vopnaður átaksskafti sem vóg rúm 1400 grömm, gekk heim til F og knúði þar dyra. Er F opnaði hurðina sló ákærði Tómas Helgi hann í handlegginn en F tókst fljótlega að loka hurðinni og læsa. Meðan á þessu stóð vaktaði ákærði C lögreglustöðina þannig að hann yrði þess var ef lögregla yrði kölluð út.  Ákærði C sótti svo ákærða Tómas Helga í [...] og óku þeir á brott.  Ákærðu C og Tómas Helgi fóru heim til ákærða Garðars að morgni 12. nóvember í því skyni að fá greitt fyrir verkið en síðar sama dag keypti ákærði Tómas Helgi vörur fyrir samtals 56.500 krónur og greiddi fyrir þær með debetkorti í eigu ákærða Garðars auk þess sem ákærði Garðar greiddi ákærðu C og Tómasi Helga samtals 50.000 krónur en fjármunirnir voru hluti af greiðslu fyrir árásina á F. Afleiðingar árásarinnar voru þær að F hlaut mar á vinstri framhandlegg og litla fingri vinstri handar.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

  1. Gegn ákærðu C og Tómasi Helga fyrir brennu, en til vara stórfelld eignarspjöll, með því að hafa í kjölfar árásarinnar á F, sbr. ákærulið 5, í félagi lagt eld að bifreiðinni [...], í eigu F, þar sem henni var lagt fyrir utan heimili hans að [...]. Ákærðu helltu bensíni yfir bifreiðina og kveiktu svo í tuskum sem þeir höfðu stungið í tvær glerflösku með bensíni í, köstuð flöskunum í bifreiðina og ollu með því eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu, en eldurinn breiddist út með þeim afleiðingum að mikið eignatjón varð á bifreiðinni en eldurinn var slökktur af lögreglu og slökkviliði.

Telst þetta varða við 1. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga, en til vara við 2. mgr. 257. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Við þingfestingu málsins þann 28. apríl sl. lagði sækjandi fram framhaldsákæru ríkissaksóknara, sem útgefin hafði verið 24. sama mánaðar.  Með ákærunni var tekin upp miska- og skaðabótakrafa brotaþola, D, sbr. sakarefni I. kafla ákæru, en lögmaður hans hafði lagt kröfuna fram við rannsókn málsins hjá lögreglu. Ákærða B, en einnig ákærði A andmæltu því að lagaskilyrði hefðu staðið til útgáfu framhaldsákærunnar samkvæmt 1. mgr. 153. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.  Með úrskurði dómsins hinn 15. maí sl. var fallist á röksemdir ákærðu að þessu leyti.  Með dómi Hæstaréttar Íslands 21. maí sl., sbr. mál nr. 353/2015, var úrskurðurinn staðfestur.

Í milliþinghaldi vísaði sækjandi til þess að ætluð brot samkvæmt 5. og 6. tölulið II. kafla ákærunnar hefðu gerst á árinu 2014, en að ártalið hafði fallið niður við ákærusmíðina.

Við aðalmeðferð málsins féll sækjandi frá sakargiftum á hendur ákærðu B vegna þeirrar háttsemi sem lýst er í 4. tölulið I. kafla ákæru, en áréttaði að öðru leyti lýstar dómkröfur.

Skipaður verjandi Hólmgeir Elías Flosason hdl., krefst þess fyrir hönd ákærðu B að hún verði dæmd til vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin.  Þá krefst verjandinn hæfilegra málsvarnarlauna, en einnig ferðakostnaðar.

Skipaður verjandi Snorri Snorrason hdl., krefst þess fyrir hönd ákærða A, að hann verði sýknaður af 1., 2. og 3. tölulið I. kafla ákæru.  Verjandinn krefst þess einnig að ákærði verði sýknaður af sakarefni 4. töluliðar I. kafla ákærunnar, að öðru leyti en því sem lýtur að eldsneytiskaupum á [...] við [...] á [...] að morgni 30. apríl 2014. Til vara krefst verjandinn vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin að öllu leyti.  Verjandinn krefst þess loks að allur málskostnaður falli á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun hans og ferðakostnaður.

Skipaður verjandi Sveinn Andri Sveinsson hrl., krefst þess fyrir hönd ákærða Tómasar Helga Jónssonar, að hann verði sýknaður af sakarefni I. og II. kafla ákæru, en þó að frátöldum þeim hluta 4. töluliðar I. kaflans, sem varðar áfyllingu á símainneignir, en að því leyti krefst verjandinn vægustu refsingar sem lög leyfa. Hann krefst þess jafnframt, verði dæmt áfall, að háttsemi ákærða samkvæmt 6. tölulið I. kafla ákærunnar verði heimfærð til 257. gr. almennra hegningarlaga.  Loks krefst verjandinn málsvarnarlauna og ferðakostnaðar.

Skipaður verjandi Guðmundur St. Ragnarsson hdl., krefst þess fyrir hönd ákærða, C, að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa fyrir þá háttsemi sem lýst er í 5. og 6. tl. II. kafla ákærunnar.  Þá krefst hann þess að háttsemi ákærða samkvæmt nefndum 6. tl. ákærunnar verði heimfærð til 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga og hann verði því sýknaður af broti gegn 1. mgr. 164. gr. sömu laga.  Loks krefst verjandinn hæfilegra málsvarnarlauna, auk ferðakostnaðar.

Skipaður verjandi Gísli M. Auðbergsson hrl., krefst þess að því sakarefni sem lýst er í 5. tölulið II. kafla ákæru, að því er varðar ákærða Garðar Hallgrímsson, verði vísað frá dómi.  Til vara krefst verjandinn þess að ákærði Garðar verði sýknaður af háttseminni, en til þrautavara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Loks krefst verjandinn hæfilegra málsvarnarlauna og ferðakostnaðar.

Við meðferð málsins og flutning var af hálfu dómsins því beint til málsaðila að sakarefnið yrði reifað með hliðsjón af hlutdeildarákvæði 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

A.

Sakarefni I. kafla ákæru, 1., 2., 3., og 4. töluliður.

1. Samkvæmt rannsóknargögnum barst lögreglu kæruerindi þann 30. apríl 2014, kl. 07:40, þess efnis að þrír aðilar hefðu kvöldið áður farið inn á heimili brotaþola, D [...], að [...] við [...] í [...] og jafnframt að þeir hefðu farið í heimabanka hans og tekið fjármuni af heimilinu.  Eftir að lögreglumenn komu á vettvang og ræddu við brotaþola, að viðstöddum dætrum hans, var upplýst að brotaþoli hafði verið einn á heimili sínu þriðjudagskvöldið 29. apríl þegar tveir karlmenn og kona komu þar í hlaðið, um kl. 20:00, og knúðu dyra á heimili hans.

Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir brotaþola að hann hefði ekki þekkt umrætt aðkomufólk og það ekki kynnt sig.  Hann hefði þó heyrt að konan bar nafnið B og sagði hann að hún hefði haldið því fram að hann hefði nauðgað henni.  Samkvæmt skýrslunni upplýsti dóttir brotaþola á vettvangi að allmörgum árum fyrr hefði brotaþoli verið dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn stúlku með þessu nafni.  Haft var eftir brotaþola að kona þessi, ásamt fylgdarmönnunum tveimur, hefði haft uppi hótanir um að hann yrði drepinn léti hann þau ekki hafa peninga.  Í framhaldi af því hefðu þau þvingað hann til að millifæra í heimabanka eina milljón króna inn á bankareikning konunnar.  Haft var eftir brotaþola í skýrslunni að aðkomufólkið hefði auk þess tekið pening úr veski hans, en einnig kredit- og olíukort.  Þá hefði það tekið með sér af heimilinu fjarstýringu að sjónvarpi og vasahnífa, en einnig gengið illa um húsakynnin, en að lokum horfið skyndilega af vettvangi, um kl. 22:00.

Við eftirgrennslan lögreglu, m.a. hjá fjármálastofnun brotaþola var upplýst að umrædd millifærsluaðgerð í heimabanka brotaþola hafði ekki tekist, en að kreditkort hans hefði verið notað í viðskiptum þriðjudagskvöldið 29. apríl í [...] á [...].  Þá hefði olíukort hans verið notað á bensínstöð á [...] að morgni miðvikudagsins 30. apríl, um kl. 08:40, til kaupa á bensíni fyrir rúmar 11.000 krónur. Liggur fyrir að vegna þessara upplýsingar athugaði lögregla upptökur í öryggismyndavélum, en eftir það virðast grunsemdir hafa beinst að tiltekinni bifreið, [...], og í framhaldi af því að ákærðu í máli þessu.

Samkvæmt rannsóknargögnum voru ákærðu A og B handtekin á heimili þess fyrrnefnda á  [...] miðvikudaginn 30. apríl, kl. 16:30.  Þau voru færð á lögreglustöð og vistuð í fangaklefa, en ennfremur var bifreið ákærða A, [...], haldlögð og færð á lögreglustöðina.  Við leit í bifreiðinni fundu lögreglumenn bensínkort brotaþola, tvær fjarstýringar að sjónvarpi, en einnig hanska, sem voru líkir þeim sem hald hafði verið lagt á við heimili brotaþola.  Við leit í tösku ákærðu B fundust kredit- og afsláttarkort brotaþola, en einnig tveir hnífar, sem höfðu verið á heimili hans.

Ákærði, Tómas Helgi, var handtekinn á heimili sínu að kveldi 1. maí nefnt ár.  Var hann færður á lögreglustöð og vistaður í fangaklefa vegna rannsóknar málsins.

Samkvæmt rannsóknargögnum báru ákærðu ekki merki áfengis- eða vímuefnaneyslu við handtökurnar.

Í skýrslu lögreglu er greint frá því að hámarksúttekt á kreditkorti brotaþola hafi er atvik gerðust verið 100.000 krónur, en vegna eigin notkunar hans hefði einungis verið unnt að taka út af kortinu 57.350 krónur.  Við nánari athugun var upplýst að greiðslukort brotaþola hafði verið notað í [...] til vörukaupa að fjárhæð 39.360 krónur, sbr. 3. tl. I. kafla ákæru, en að jafnframt hafði kortið verið notað til fjármunayfirfærslu vegna kaupa á þeim símainneignum sem lýst er í 4. tl. I. kafla ákærunnar.

Samkvæmt skýrslu lögreglu um athugun á síma brotaþola voru sýnileg ummerki um SMS boðskeyti þriðjudagskvöldið 29. apríl, kl. 21:11:03.  Varðaði skeytið millifærsluaðgerð af bankareikningi brotaþola yfir á reikning ákærðu B, að fjárhæð ein milljón króna.  Í málinu liggur fyrir ljósmynd af skeytinu, en þar má sjá umrædda fjárhæð, öryggisnúmer, auðkenni og dagsetningu.

Við frumrannsókn lögreglu voru ljósmyndir teknar innandyra á býli brotaþola, en á þeim má m.a. sjá húsaskipan og næsta nágrenni.  Einnig eru ljósmyndir af fatnaði brotaþola sem tekinn hafði verið af heimili hans, en hann hafði fundist í næsta nágrenni, nánar tiltekið við þjónustumiðstöðina [...] í [...].

Við rannsókn málsins aflaði lögregla ljósmynda úr tiltækum öryggiskerfum.  Er óumdeilt að á myndunum má m.a. sjá ákærðu þar sem þau standa saman við afgreiðsluborðið í [...] og að afgreiðslumaður er þar við störf.  Þá má sjá ákærða A á mynd sem aflað var úr öryggismyndavél bensínstöðvar [...] við [...], þar sem hann er að dæla bensíni á fyrrnefnda bifreið.

Við rannsókn lögreglu og fyrir dómi þekktu ákærðu sig á ofangreindum myndum, en þau lýstu einnig gjörðum sínum við lýstar aðstæður.

3. Samkvæmt gögnum afhenti ákærði A rannsóknaraðilum síma sinn, eftir hann hafði verið handtekinn á heimili sínu.  Vísaði ákærði til þess að hann hefði tekið upp á hljóðskrá símans þau samskipti sem hann hefði orðið vitni að á heimili brotaþola þriðjudagskvöldið 29. apríl.  Við athugun lögreglu reyndist hljóðskráin vera 19 mínútur og 32 sekúndur.  Á meðal gagna ákæruvalds er endurrit lögreglu af hljóðskránni.  Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi var hljóðskráin spiluð að hluta og staðfestu ákærðu efni hennar, líkt þau höfðu áður gert við rannsókn málsins hjá lögreglu.

4. Ákærðu A og B voru yfirheyrð af lögreglu um kæruefni máls þessa í tvígang á árinu 2014, í fyrra skiptið að kveldi 30. apríl, en í seinna skiptið, að viðstöddum verjenda sínum þann 3. maí.  Ákærði Tómas Helgi var yfirheyrður um kæruefni 2. maí, en fyrir skýrslutökuna hafði honum gefist ráðrúm til að ráðfæra sig við verjanda sinn í síma.  Allar yfirheyrslurnar voru teknar upp með hljóði og mynd og eru gögn þar um á meðal framlagðra gagna ákæruvalds.

5. Hið eldra dómsmál, sem minnst var á hér að framan, hafði ríkissaksóknari höfðað á hendur brotaþola með útgáfu ákæru þann [...].  Sakarefni málsins varðaði ætlað kynferðisbrot brotaþola gagnvart ákærðu B, sem þá var var barnung, en atvik voru sögð hafa gerst í ársbyrjun [...].  Málið var þingfest fyrir dómi 22. júlí sama ár.  Í milliþinghaldi gerði kærandi málsins, Barnaverndarnefnd [...], kröfu um að miskabótakrafa, sem gerð hafði verið fyrir hönd B yrði tekin fyrir samhliða refsiþætti málsins.  Kröfunni var vísað frá dómi vegna andmæla brotaþola, sbr. lagaákvæði, sem var sambærilegt því sem nú gildir, sbr. fyrrgreinda 153. gr. laga Alþingis nr. 88, 2008 um sakamál.

Lyktir ofangreinds dómsmáls, eftir aðalmeðferð og vitnaleiðslur, urðu þau að brotaþoli var fundinn sekur með dómi Héraðsdóms Norðurlands Eystra, sem upp var kveðinn þann [...].[...] [...], um fyrrgreind kynferðisbrot gegn ákærðu B.  Var hann dæmdur til óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar.  Dómur þessi var síðar staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands, sbr. mál nr. [...]/[...], þann [...]. [...] [...].

6. Óumdeilt er að í áðurnefndri hljóðskrá úr síma ákærða, A, koma fyrir a.m.k. nokkuð af þeim samskiptum sem urðu með brotaþola og ákærðu að kveldi 29. apríl 2014.  Rétt þykir að rekja hér að nokkru leyti þessi samskipti, eins og þau voru endurrituð af lögreglu, með skýringum, en bókstafirnir D, A, B og T eru upphafsstafir í nöfnum brotaþola og ákærðu:

A: Hvað segirðu, langar þig ekki til að bjóða B skaðabætur, fyrir það sem þú hefur gert? B: Þú leggur bara inn á mig pening, helst mánaðarlega. Ég hef ekki fengið krónu frá þér. Þú ert búinn að eyðileggja lífið mitt. Ég þarf að lifa með þessu fokking alla daga, alla daga. A: Það getur ekki verið að þér finnist það allt í lagi sko. B: Alla fokkings daga [óskýrt] hugsa um þetta og lifa með þessu. Ég var lítil saklaus þriggja ára sem vissi ekki neitt… [óskýrt]…neinum…[óskýrt](hálf-grátandi).A: Þú verður að átta þig á því að við erum ekki að koma í leiðindum við þig. Við erum komin til að gera það sem rétt er.  (rólegur)

......

B: Ég hefði getað tekið með mér gaura sem hefðu bara tekið og muffað þig niður en í staðinn tók ég tvo herramenn, eina af mínu bestu vinum. A: Til þess að ræða málin. B: Til að að ræða málin, og græja málin. B: Halló? A: Þú verður að tjá þannig að þú komist á þessa söngskemmtun þína. B: [óskýrt]…er ekkert að fara á það. D: Þið eruð nú búin að eyðileggja það fyrir mér.

....................

B: Hefurðu heyrt að nauðgun er sálarmorð? D: Veistu það að ég heyri frekar illa.

................

A: Hvað viltu gera fyrir hana í staðinn vinur. Ha? Nú þarf ég að fá svör.

...................

T: Ég nenni þessu bara ekki lengur. Ætlarðu að gera eitthvað fyrir hana eða ekki. Hvað ætlarðu að gera? Já eða nei. (ákveðinn). D: hmm. T: Já eða nei. D: Ég hugsa málið

............

D: Þetta er hótun (rólegur). [Læti, lamið í borð. ] T: [óskýrt]…hótun. Þú nauðgaðir stelpu.D: [óskýrt]… vera húsbrot. T: (æstur): Nei nei þetta á ekkert [óskýrt] húsbrot. Þú hlýtur að geta haft samvisku! B: Þú nauðgaðir mér 3. ára! A: Klukkan hvað viltu að við komum hérna á morgun? B: Nei ég er ekki að fara að koma hérna á morgun. A: Jú hann hugsar málið, við komum öll hérna á morgun aftur. B: Nei…[óskýrt]. A: Þú hugsar málið, ferð í banka. Klukkan hvað viltu að við komum hérna?

...........................

A: Hvað viltu gera fyrir hana? T: Segðu okkur bara núna, viltu gera eitthvað fyrir hana núna, miðað við hvað þú gerðir henni. Þá verður málið gleymt. B: Honum er drullusama!

.............................

A: Hvað á hann að gera? B: Við skutlum honum bara í hraðbanka…. [óskýrt]… nú af hverju ekki? ..........A: Hann getur bara farið og tekið út pening og við komum hérna á morgun og náum í peninginn.

.................................

A: Við erum að bjóða þér að gefa þér tækifæri til að segja stað og stund með þetta, eða hvað þú vilt gera. Vilt þú að við ákveðum hvað þú gerir. Ha?

......................

A: Getum við ekki bara ákveðið stað og stund, ætlarðu að gera eitthvað fyrir hana, og við hittumst á þeim tíma…. við getum komið okkur heim…. B: Byrjum bara að taka þetta sjónvarp. A: Ha? Finnst þér þetta óréttlátt af okkur að koma og segja þér… Við erum að gefa þér þennan tíma hvenær þú vilt gera þetta. Finnst þér það óréttlátt? D: Ég get ekkert sagt neitt um það. A: Geturðu ekki sagt neitt um það?

............................

D: Þetta kemur mér á óvart. A: Ég veit að þetta kemur þér á óvart. Þess vegna er ég að segja það við þig að ég er tilbúinn að gefa þér þann tíma… og þú á morgun.

.............................

T: Ég ætla ekki að tala hérna í allan dag sko. A: Nei hann verður að segja hvenær og klukkan hvað.. [óskýrt]. T: Þetta er bara já eða nei,þetta er ekki flókið. Ætlarðu að gera eitthvað fyrir hana eða ekki. Já eða nei?  A: Ef svarið er nei að þá… B: Þá er […óskýrt…]..ég er alveg að snappa. A: Þá höfum við ekki tök á að stoppa það.

T: Þá erum það ekki við sem komum næst. B: Ég ákvað að taka þessa með mér núna. T: Til að halda ró hérna. B: Til að halda ró. T: Þú vilt ekki vita… B: Það eru brjálaðir gaurar í Reykjavík, ég myndi hringja eitt símtal. A: Já. Hvenær viltu hittast hérna á morgun?..................................

B: Við erum ekki að fara að hittast á morgun, hann er bara að fara að græja þetta! Horfðu á mig… [óskýrt]… er þér alveg drullusama?  Hugsarðu ekkert um þetta, ertu ekki með samvisku?

...............................

T: Heyrðu, ég ætla telja upp að tíu…

.........................

A: Heldur þú að við séum að koma hérna út í sveit bara að gamni okkar og velja eitthvað…

...........................

A: Sleppum bara öðru fólki hérna í þetta.[óskýrt].  A: Sleppum bara öðrum á þetta. B: Ha? A: Sleppum bara öðru fólki á þetta. Ég nenni ekki að vera í þagnarbindindi með þetta.

....................................

A eða T: [óskýrt]..hringja bara í lögregluna og fá hana.. [óskýrt]. B: Já…[óskýrt]…kæra bara aftur…[óskýrt]. T: Ég get alveg komið hérna…[óskýrt]… nauðgað þér.. [óskýrt].

..............................

B: Æ, æ, ok. Við ætlum að hringja í lögregluna og segja að þú hafir verið að nauðga mér aftur… T: Þú hringir og segir að þér hafi verið nauðgað. B: og ég ætla að kæra þig. T: og við komum hérna og verðum sem vitni höfum verið vitni að því. B: Ef þú ert ekki að fara að gera neitt fyrir mig. T: Þrjú vitni núna á móti einum! B: Þú ert búinn að fokking skemma lífið mitt! [LAMIÐ Í BORÐ]. T: Búinn að eyðileggja það! C: Ég hef ekkert sagt að ég vildi ekkert gera fyrir þig.

....................................

T: Viltu gera eitthvað fyrir hana eða ekki? D: Já ég geri eitthvað fyrir hana. T: Já ok. D: ef það er sanngjarnt. A: Já ljómandi gott!

...................................

A: Hvað þykir þér sanngjarnt?[óskýrt]. T: Hvað vilt þú gera fyrir hana? Hvað finnst þér sanngjarnt?[óskýrt]

....................................

B: Jú ég ætla að gera þaðég tek hann bara og fokking læt hann leggja inn á mig.

......................

A: Á ég að taka sjónvarpið? D: Það er bara ráðist á mig. T: Það er ekkert ráðist á þig hérna!

.........................

D: Já.. þú skrifar þá fyrst hvað? T: Þú skrifar [óskýrt] eitt og þú eitt […óskýrt…]. Svo skoðum við það bara. B: Hvað? T: Þið skrifið bara bæði [óskýrt]. A: Skrifa þú hvað þú vilt fá í bætur og hann skrifar það sem hann vill borga þér. T: Þú skrifar hérna megin, og þú skrifar hérna megin.

7. Fyrir dómi játaði ákærða B skýlaust sök að því er varðaði sakarefni 1., 2. og 3. tl. I. kafla ákæru.  Ákærða staðhæfði að ferð hennar frá [...] að heimili brotaþola þriðjudagskvöldið 29. apríl 2014, ásamt meðákærðu Tómasi Helga og A, og það athæfi sem hún viðhafði þar hefði átt rót sína að rekja til þeirra brota sem hún hefði mátt þola af hendi brotaþola mörgum árum fyrr.  Vísaði ákærða til þess að hún hefði sem barn verið vistuð á vegum Barnaverndarnefndar [...] á heimili brotaþola og þáverandi eiginkonu hans, að [...]. Vist hennar á heimilinu hefði hinsvegar tekið snöggan endi þegar brotþoli hefði orðið uppvís að kynferðisbrotum gagnvart henni.  Ákærða staðhæfði að þessi brot brotaþola hefðu hrjáð hana andlega um langa hríð og þau lagst æ þyngra á sinni hennar eftir því sem árin liðu.  Ákærða kvaðst hafa rætt þetta málefni við meðákærðu A og Tómas Helga í afmælisteiti hennar þann [...]. [...] 2014, en bar að þá hefðu þau öll verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna.  Ákærða sagði að vegna þessa ástands síns, en einnig vegna mikillar reiði hennar í garð brotaþola og loks svefnleysis ætti hún erfitt með að greina frá því sem gerðist á heimili hans í smáatriðum.

          Fyrir dómi skýrði ákærða nánar frá atvikum máls þannig að við komu hennar og meðákærðu að [...] hefðu þau knúið dyra.  Hún minntist þess að er þetta gerðist hefði meðákærði Tómas Helgi verið með lambhúshettu á höfðinu.

          Ákærða lýsti upphafi samskipta sinna við brotaþola, eftir að hann kom til dyra á heimili sínu, á þá leið, að hún hefði fyrst innt hann eftir því hvort að hann myndi eftir henni, en bar að hann hefði ekki svarað spurningunni heldur haft á orði að hann væri að fara af heimilinu.  Vegna þessa svars kvaðst hún, líkt og meðákærðu, hafa tilkynnt brotaþola að honum stæði ekki til boða að fara og bar að fljótlega eftir þetta hefðu þau öll fylgt brotaþola inn í íbúðarhúsið.  Ákærða sagði að strax í þessum fyrstu samskiptum hefði hún sagt við brotaþola, líkt og meðákærðu, að hún ætlaðist til þess að hann greiddi henni skaðabætur.  Eftir að inn á heimilið var komið kvaðst hún hafa sest við eldhúsborðið við hlið brotaþola og bar að þar hefði þessi sama orðræða haldið áfram.  Ákærða sagði er þetta gerðist hefði hún verið í æstu skapi og reið brotaþola.  Ákærða sagði að orðræðan hefði fljótlega farið að snúast um hvað væri sanngjarnt að brotaþoli greiddi henni í bætur.  Hún sagði að er þetta gerðist hefði verið augljóst að brotaþoli var ekki sáttur við fjárkröfuna eða veru hennar og meðákærðu á heimilinu, og vísaði til þess að hún hefði séð á honum óttamerki.  Ákærða sagði að þessum samskiptum hefði í raun lokið með þeim hætti að hún hefði ritað á blað þá fjárhæð sem hún hefði talið sanngjarnt að hann greiddi henni, en brotaþoli ritað á blaðið þá fjárhæð sem hann hefði viljað greiða henni.  Að lokum hefðu hún og meðákærðu tekið af skarið að þessu leyti og þá um það að ein milljón króna væri ásættanlegar skaðabætur henni til handa.  Ákærða sagði að brotaþoli hefði ekki verið samþykkur þessum málalokum, en bar að hann hefði þó sjálfur millifært greinda fjárhæð í heimabanka sínum yfir á bankareikning hennar.  Á verknaðarstundu kvaðst hún hafa talið að millifærslan hefði tekist og staðfesti hún að því leyti frásögn sína við yfirheyrslur hjá lögreglu.

          Ákærða kvaðst ekki minnast þess að brotaþola hefði beinlínis verið hótað er atvik gerðust, en ætlað að á verknaðarstundu hefði honum frekar staðið ógn af og veru hennar og meðákærðu á heimilinu og af gjörðum þeirra þar.  Hún kvaðst m.a. hafa haft hug á því á tímabili að taka með sér sjónvarpstæki heimilisins, en sagði að meðákærðu hefðu komið í veg fyrir þann verknað hennar. Ákærða vefengdi það ekki fyrir dómi að hún hefði við greindar aðstæður stungið fjarstýringum og öðrum munum í eigin vasa, en hún kvaðst  hafa veitt því eftirtekt, eftir að hún hafði yfirgefið heimili brotaþola, að hún var með í vörslum sínum olíu- og greiðslukort hans.  Hún kvaðst hafa notað greiðslukortið til áfengiskaupa í [...] á [...].  Að þessu leyti játaði hún skýlaust sakarefni 2. og 3. tl. I. kafla ákærunnar.

          Fyrir dómi var ákærðu B m.a. kynntur hluti áðurrakinnar hljóðupptöku úr síma meðákærða A. Eftir að hafa hlýtt á hljóðbrot af upptökunni staðfesti ákærða að þar mætti heyra hluta af því sem fram fór á heimili brotaþola og vefengdi hún ekki efni þess eða áðurrakið endurrit.

Ákærða B bar fyrir dómi að ferð hennar á heimili brotaþola í greint sinn hefði verið farin í hefndarhug vegna þess eldra sakamáls sem vikið var að hér að framan, og þá með þeirri ætlan að krefja hann um skaðabætur vegna háttseminnar.  Hún sagði að ferðin eða lýstar gjörðir hefðu ekkert bætt líðan hennar.  Lýsti hún yfir eftirsjá vegna háttseminnar, en vísaði ennfremur til sérfræðigagna um að eftir verknaðinn hefði hún þegið viðeigandi aðstoð.  Ákærða kvaðst er atvik málsins gerðust ekki hafa haft vitneskju um að brotaþoli hafði [...] árum áður hlotið refsidóm fyrir brot sín gegn henni.

Ákærði A neitaði sök fyrir dómi, að öðru leyti en því að hann játaði hluta þess sakarefnis, sem lýst er 4. tl. I. kafla ákærunnar, þ.e. að hafa greitt fyrir eldsneyti, að fjárhæð 11.137 krónur, á bensínstöð  [...] við [...] að morgni miðvikudagsins 30. apríl 2014 með greiðslukorti brotaþola.

Fyrir dómi greindi ákærði frá því að hann hefði þekkt meðákærðu B í fáeina mánuði þegar atvik máls þessa gerðust og bar að hún hefði verið á heimili hans á [...], ásamt meðákærða Tómasi, þriðjudagskvöldið 29. apríl nefnt ár.  Hann kvaðst oft áður en atvik gerðust þetta kvöld hafa heyrt frásögn meðákærðu B um að brotaþoli hefði brotið gegn henni kynferðislega þegar hún var barn að aldri.  Ákærði staðhæfði að málefnið hefði legið þungt á henni og það einmitt komið til umræðu þetta kvöld.  Hann sagði að meðákærða B hefði lýst vilja sínum til þess að fá réttlætinu fullnægt, en er atvik gerðust kvaðst hann ekki hafa haft vitneskju um að brotaþoli hafði hlotið dóm mörgum árum áður vegna brota sinna.

Ákærði sagði að hann hefði verið undir áhrifum fíkniefna umrætt kvöld, en engu að síður fallist á að aka meðákærðu, B og Tómasi Helga, að heimili brotaþola í [...].  Ákærði sagði að ætlan hans hefði verið að fá brotaþola til að játa brot sín gagnvart meðákærðu B, en hann kvaðst jafnframt hafa haft vitneskju um að ætlan hennar væri að fá einhverjar bætur greiddar.

Ákærði skýrði frá því að við komu þeirra að heimili brotaþola hefði meðákærði Tómas Helgi verið með lambhúshettu á höfðinu, en bar að hann hefði fljótlega tekið hana niður.  Ákærði sagði að eftir að þau höfðu knúið dyra og brotaþoli opnaði útihurðina hefðu þau farið fram á að hann byði þeim inn á heimilið og þegar það gekk eftir kvaðst hann hafa sest við eldhúsborðið ásamt honum og meðákærðu.

Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki minnast atvika máls ýkja vel eftir hann kom inn á heimili brotaþola.  Hann kvaðst fljótlega hafa staðið upp frá eldhúsborðinu, en þrátt fyrir það að einhverju leyti fylgst með samskiptum meðákærðu og brotaþola úr dyragættinni í eldhúsinu.  Um ástæðu minnisglapanna vísaði ákærði til fyrrnefndra vímuefnaáhrifa, en vegna þessa ástands síns vísaði hann, um atvik máls fyrir dómi ítrekað, til fyrrnefndrar upptöku sem hann hefði tekið upp á hljóðskrá í síma sinn.  Nánar aðspurður kvaðst ákærði hafa ætlað að brotaþoli hefði í fyrstu ekki verið ósáttur við veru hans og meðákærðu á heimilinu, en bar að eftir því sem lengra leið á dvöl þeirra hefði hann orðið órólegri og minntist þess að hann hefði m.a. haft á orð á því að hann hefði ætlað að fara á tónleika.  Ákærði kvaðst ekki minnast þess að brotaþola hefði verið meinað að fara af heimili sínu, en sagði „Það átti að klára þetta mál fyrst“. Ákærði bar að þegar orðræðan hefði dregist á langinn hefði hann haft vilja til að fara út af heimili brotaþola í stað þess að standa í karpi við hann.  Nánar aðspurður treysti ákærði sér ekki til að segja til um hversu lengi hann hafðist við á heimili brotaþola.  Ákærði neitaði því sakaratriði að hann hefði við greindar aðstæður hótað brotaþola, þ. á m. um að bera hann röngum sökum um að hafa nauðgað ákærðu B þarna á vettvangi.  Hann kvaðst hins vegar hafa verið nærri er þau orð voru látin falla af hálfu meðákærðu.

Fyrir dómi var ákærða kynntur hluti af fyrrgreindri hljóðupptöku úr síma og staðfesti hann efnið og þar á meðal að á köflum hefði verið nokkur æsingur, en við þær aðstæður kvaðst hann hafa séð að brotaþoli varð skelkaður.

Ákærði neitaði því sakaratriði að hann hefði komið að þeirri millifærslu fjármuna sem lýst er í 1. tl. I. kafla ákærunnar.  Staðhæfði hann að þar hefðu aðeins komið við sögu meðákærðu B og Tómas Helgi, auk brotaþola.  Hann kvaðst hins vegar hafa verið nærri þegar aðgerðin í heimabankanum var framkvæmd.  Ákærði bar þegar að millifærslan virtist hafa tekist hefði hann strax farið úr húsakynnum brotaþola ásamt  meðákærðu.

Ákærði skýrði frá því að við brottförina af heimili brotaþola hefði meðákærða B tekið með sér fatnað, en hann kvaðst fyrst hafa veitt því athygli eftir að þau voru lögð af stað áleiðis til [...], en þá fyrirskipað henni að henda fatnaðinum út úr bifreiðinni.  Ákærði staðhæfði ennfremur að hann hefði fyrst haft vitneskju um þá muni sem tilteknir eru í 2. tl. I. kafla ákærunnar eftir að þau komu til [...] og bar að það sama hefði í raun gilt um notkun meðákærðu B á greiðslukorti, sbr. sakarefni 3. tl. ákærukaflans.  Hann kvaðst hafa fylgst með því þegar ákærða B keypti bjórinn í [...], en staðhæfði að hann hefði ekki neytt hans.  Ákærði neitaði því að hann hefði gerst sekur um misnotkun á þeim kortum sem lýst er í 4. tl. ákærukaflans, fyrir utan kaup á eldsneyti á bensínstöðinni við [...] að morgni 30. apríl greint ár, sem hann játaði skýlaust.

Ákærði Tómas Helgi Jónsson neitaði sök fyrir dómi, að því frátöldu að hann játaði hluta af því sakarefni, sem lýst er 4. tl. I. kafla ákærunnar.  Ákærði kvaðst þannig hafa notað greiðslukort brotaþola til þess að kaupa inneignir á síma sinn.

Fyrir dómi játaði ákærði Tómas Helgi að hafa farið ásamt meðákærðu, B og A, á heimili brotaþola þriðjudagskvöldið 29. apríl 2014. Ákærði skýrði frá því að nokkrum mánuðum fyrir þessa ferð hefði hann kynnst meðákærðu B og bar að hún hefði ítrekað haft orð á því að hún hefði mátt þola kynferðisbrot af hálfu brotaþola er hún var barn að aldri.  Bar hann að þessi brot hefðu greinileg haft mikil áhrif á andlega líðan B og hann því afráðið að liggja ekki á liði sínu þegar til tals hefði komið að réttast væri að brotaþoli greiddi henni einhverjar skaðabætur.  Hann hefði fallist á að fara umrædda ferð til brotaþola, en er atvik gerðust kvaðst hann ekki hafa haft vitneskju um að fallið hefði dómur um sakarefnið.

Fyrir dómi skýrði ákærði frá því að við komu að heimili brotaþola hefði hann verið með lambhúshettu á höfði, en sagði að hann hefði fljótlega tekið hana af sér. Ákærði bar að fyrstu orðaskiptin við brotaþola hefðu verið á þá leið að meðákærða B hefði innt hann eftir því hvort að hann myndi eftir brotum sínum gegn henni.  Ákærði sagði að brotaþoli hefði ekki kannast við athæfið, en í þess stað haft orð á því að hann væri að missa af dansleik eða tónleikum.  Ákærði sagði að þannig hefði verið greinilegt að brotaþoli var ósáttur við komu þeirra, en einnig er þau hefðu farið fram á það að hann byði þeim inn á heimilið í þeim tilgangi að ræða við hann um hið gamla brotamál.  Eftir að inn á heimilið var komið kvaðst ákærði hafa sest ásamt brotaþola og meðákærðu við eldhúsborðið og bar að þar hefðu þau rætt umrætt mál.  Ákærði sagði að brotaþoli hefði í fyrstu ekki verið sáttur við það að þurfa að greiða B skaðabætur, en staðhæfði að ekki hefði komið til sérstaks æsings þrátt fyrir að einhver orðaskipti hefðu orðið með þeim.

Fyrir dómi kannaðist ákærði í fyrstu ekki við það sakaratriði, að brotaþola hefði verið hótað við fyrrgreindar aðstæður.  Eftir að hafa hlýtt á fyrrnefnda upptöku úr hljóðskrá síma kvaðst ákærði ekki vefengja það sem þar kom fram.  Um hótanirnar sagði hann nánar; „jú, því hefur kannski verið hótað að bera á hann rangar sakir með þessari nauðgun, en honum var aldrei hótað með einhverjum öðrum mönnum.“  Var það ætlan ákærða að brotaþola hefði staðið ógn af veru hans og meðákærðu á heimilinu.  Hann sagði eftir því sem lengra leið á dvöl þeirra á heimilinu hefði hann litið svo á að sanngjarnt væri að brotaþoli greiddi meðákærðu B eina milljón króna í skaðabætur.  Hann bar að það hefði líka að lokum orðið niðurstaðan í umræðunum við brotaþola.  Ákærði kvaðst hafa talið að brotaþoli hefði verið sáttur við niðurstöðuna og vísaði til þess að hann hefði sjálfur reynt að millifæra fjárhæðina í heimabanka sínum, en er það hefði ekki gengið sem skyldi hefði hann veitt liðsinni sitt við verkið.

Ákærði staðhæfði að á meðan á dvölinni stóð á heimili brotaþola hefði meðákærða B farið að hræra í einhverju dóti, en bar að hann hefði stöðvað hana við þá iðju.

Fyrir dómi neitaði ákærði Tómas Helgi að hafa tekið þá muni sem tilgreindir eru 2. tl. I. kafla ákærunnar.  Hann kannaðist aftur á móti við að hafa séð meðákærðu B nota greiðslukort í [...] á [...] síðar um kvöldið, sbr. 3. tl. I. kaflans.  Hann játaði skýlaust brot sitt samkvæmt 4. tl. ákærukaflans, að hafa notað greiðslukort brotaþola við áfyllingu á símainneign á síma sinn.

Ákærði Tómas Helgi kvaðst hafa verið undir áhrifum fíkniefna er atvik máls þessa gerðust að kveldi 29. apríl 2014.

Brotaþoli, D, skýrði frá því fyrir dómi að hann hefði verið á heimili sínu umrætt kvöld og bar að hann hefði fyrst orðið var við aðkomufólk, ákærðu, er þau knúðu dyra.  Hann kvað aðkomufólkið, tvo karlmenn og konu, hafa verið honum ókunnug, en hann kvaðst hafa veitt því eftirtekt að annar karlanna var með lambhúshettu á höfðinu.  Af þeim sökum kvaðst hann aðeins hafa séð í augu hans.  Hann sagði að ákærðu hefðu strax haft orð á því að hann skuldaði þeim peninga, en kannaðist ekki við að þau hefðu í því samhengi nefnt að hann hefði mörgum árum fyrr brotið gegn konunni kynferðislega.  Aftur á móti kvaðst hann hafa heyrt ákærðu  nefna það að konan hefði á árum áður verið í vist hjá honum.

Brotaþoli sagði að hann hefði verið ósáttur við komu ákærðu.  Vísaði brotaþoli til þess að er atvik gerðust hefði hann verið rétt ófarinn á söngskemmtun í nágrenninu, sem átti að hefjast kl. 20:30.  Hann kvaðst engu að síður hafa boðið konunni inn á heimili sitt til viðræðna, en bar að þá strax hefðu karlmennirnir fylgt á eftir.

Fyrir dómi sagði brotaþoli að ákærðu hefðu ekki viðhaft ógnandi líkamlega tilburði gagnvart honum, en bar að konan hefði aftur á móti viðhaft ógnandi orð og þá um það að hún ætlaði að drepa hann.  Hann kvaðst hafa talið að ákærðu væru undir áhrifum lyfja og vísaði sérstaklega til þess að annar karlinn og umrædd kona hefðu verið dálítið ör í sinni.  Hann sagði að í viðræðum sínum við ákærðu hefðu þau reynt að hafa áhrif á hann, en með þeim hætti hefðu þau reynt að fá hann til að greiða ætlaða skuld hans við konuna.  Brotaþoli sagði að á meðan á dvöl ákærðu stóð hefðu þau farið um öll húsakynnin, en að auki kvaðst hann hafa veitt því eftirtekt að konan var með fulla vasa af dóti, sem hún hafði tekið á heimilinu og þar á meðal fjarstýringar.  Þá kvaðst hann hafa veitt því eftirtekt að ákærðu tóku upp sjónvarpið og fóru með það að útidyrahurðinni.

Fyrir dómi ætlaði brotaþoli að ákærðu hefðu haldið til á heimili hans í um 2-3 klukkustundir.  Hann kvaðst að lokum hafa samþykkt fjárkröfu þeirra, en staðhæfði að það hefði hann gert til þess að losna við þau út af heimilinu.  Hann kvaðst því í raun hafa verið þvingaður til að greiða þeim fjármunina og vísaði til þess að ákærðu hefðu farið í heimilistölvuna hans.  Bar hann að ákærðu hefðu í framhaldi af því ætlast til þess að hann samþykkti að greiða þeim þá peninga sem þau hefðu farið fram á.  Vegna lýstra aðstæðna, þ.e. hótana og þessara þvingana, kvaðst hann hafa komið með þá uppástungu, þar sem hann sat við eldhúsborðið á heimili sínu, að hann greiddi konunni 500.000 krónur.

Fyrir dómi bar brotaþoli að hann myndi ekki vel alla ofangreinda atburðarás, en þar um vísaði hann til þess álags sem hann hefði verið undir þegar atvik gerðust.

Fyrir dómi var borið undir brotaþola efni þeirrar yfirheyrsluskýrslu sem hann hafði gefið hjá lögreglu við rannsókn málsins.  Eftir að hafa hlýtt á efni skýrslunnar áréttaði hann fyrri frásögn sína hjá lögreglu og þar á meðal að fyrrnefnd kona, ákærða B, hefði haft á orði að margir aðilar væru tilbúnir til þess að koma á heimili hans til þess drepa hann.  Þá kvaðst hann ennfremur minnast þess að ákærðu hefðu barið fast á eldhúsborðið.

Fyrir dómi skýrði brotaþoli frá því að um hálfum mánuði eftir ofangreindan atburð hefði hann farið á Sjúkrahúsið á [...] og í framhaldi af því í hjartaþræðingu.

E, rannsóknarlögreglumaður staðfesti fyrir dómi áðurrakin rannsóknargögn lögreglu og þar með taldar yfirheyrsluskýrslur sem teknar voru af ákærðu.

B.

Sakarefni II. kafla ákæru

1. Samkvæmt frumskýrslu barst lögreglunni á [...], miðvikudaginn 12. nóvember 2014, klukkan 04:34, tilkynning um að eldur logaði í bifreið við [...], en þá lá fyrir að slökkviliðsmenn voru á leið á vettvang með forgangi.  Fram kemur að er lögreglumenn nálguðust vettvang hafi þeir séð mikinn reyk leggja frá bifreiðastæði við raðhúsið [...] og skömmu síðar einnig að mikill eldur logaði þar í fólksbifreiðinni [...].  Greint var frá því að eldurinn hafi verið mest áberandi ofan á vélarhlífinni og á framrúðunni, en að hann hafi einnig náð yfir nær alla bifreiðina.  Segir frá því að við athugun á vettvangi hafi lögreglumenn m.a. veitt því eftirtekt að eldur logaði í bjórflösku fyrir aftan bifreiðina og að fataefni hafði verið troðið í flöskuna.  Er því lýst þannig að um svokallaðan „molotov cocktail“ hafi verið að ræða. Vegna greindra ummerkja voru strax grunsemdir um íkveikju.

Greint er frá því að eigandi bifreiðarinnar, F fulltrúi sýslumanns- og lögreglustjóraembættisins [...], hafi á vettvangi haft orð á því að einhver aðili hefði kveikt í bifreið hans.  Hafi hann vísað til þess að hann hefði vaknað um klukkan 3 umrædda nótt og séð hvar grímuklæddur maður var við útidyrahurð heimilis hans.  Nokkru síðar hafi hann heyrt mikinn hávaða, en í framhaldi af því séð að búið var að kveikja í bifreið hans og hann þá hringt á Neyðarlínuna.

Í frumskýrslu lögreglu er greint frá því að lögreglumenn hafi strax hafið slökkvistarf með slökkvitæki lögreglubifreiðar, en að auki hafi þeir sprautað vatni á eldinn úr slöngu sem að þeir náðu í við umrætt hús.  Skömmu eftir það hafi slökkviliðsmenn komið að og endanlega ráðið niðurlögum eldsins.

Í rannsóknargögnum er greint frá því að umrædda nótt hafi verið tilkvaddur rannsóknarlögreglumaður og hafi þá strax verið hafin leit að hugsanlegum gerendum.  Er til þess vísað að auk fyrrnefndra ummerkja á vettvangi hafi fundist aðrir munir, s.s. flaska, kveikjari, en einnig tveggja lítra gosflaska, sem í hafi verið bensín.  Einnig hafi verið á vettvangi skóför eftir tvo aðila.  Hafi sporin verið rakin til suðurs og allt að [...], en þar hafi lögreglumenn séð nýleg hjólför eftir bifreið.

Á meðal frumgagna lögreglu eru ljósmyndir af vettvangi, en einnig myndbandsupptaka af slökkvistarfinu.

Samkvæmt gögnum fór nefndur sýslumannsfulltrúi á Sjúkrahúsið á [...] að kveldi 12. nóvember nefnt ár vegna áverka á hendi.  Liggur fyrir í málinu vottorð læknis, en þar er lýst maráverkum á vinstri framhandlegg og á litla fingri vinstri handar fulltrúans.  Vottorðið var staðfest fyrir dómi.

2. Með bréfi setts lögreglustjóra á Akureyri, dagsettu 12. nóvember 2014, lýsti hann yfir vanhæfi sínu til að rannsaka umrætt mál þar sem atvik snéru að starfsmanni embættisins og ætla mætti að þau tengdust störfum hans við rannsókn og saksókn sakamála.  Með bréfi ríkissaksóknara, sem ritað var sama dag, var fallist á röksemdir lögreglustjórans, en jafnframt var lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu falin rannsókn málsins með vísan til 3. mgr. 21. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.  Í beinu framhaldi af því hóf rannsóknarteymi nefnds lögreglustjóra rannsókn málsins, en í því voru G aðstoðarsaksóknari og rannsóknaraðilar H og I.  Að auki unnu starfsmenn tæknideildar embættisins að rannsókninni, m.a. við brunarannsókn og gerðu um það skýrslu.

3. Við rannsókn málsins var J byggingarverkfræðingi falið að framkvæma mat á því hvort að íkveikja í bifreiðinni [...] hefði valdið almannahættu í skilningi 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og hvort að hún hafi verið þess eðlis að mönnum hafi verið bersýnilegur lífsháski búinn eða hvort hún hafi haft í för með sér augljósa hættu á eyðingu á eignum annarra manna.

Staðfest skýrsla verkfræðingsins um nefnd álitaefni er dagsett 25. janúar 2015.  Í skýrslunni segir að mat hans byggist helst á skýrslum lögreglu, en einnig á ljósmyndum og vettvangsskoðun.  Í skýrslunni segir að um hafi verið að ræða bruna sem hafi átt sér upptök í [...] fólksbifreiðinni [...], staðsettri á bifreiðastæði við húseignina [...].  Tekið er fram að húseignin sé hluti af [...], [...], sem merktar séu með bókstöfunum [...] og séu á sameiginlegri lóð.

Í skýrslu verkfræðingsins er m.a. greint frá því að tilkynning til lögreglu og slökkviliðs vegna brunans hafi borist umrædda nótt klukkan 04:34, að slökkvistarf hafi hafist um 04:46, en lokið 6 mínútum síðar.  Greint er frá því að umrædd bifreið hafi staðið á bifreiðastæði norðan við húsið [...] og að eldurinn hafi verið mest áberandi ofan á vélarhlífinni og framrúðunni.  Tekið er fram að enginn eldur hafi náð inn í bifreiðina þegar hann var slökktur.  Greint er frá því að bifreiðin hafi staðið innan við 1 m. frá grindverki.

Í skýrslunni er lagt til grundvallar að íkveikjan hafi orðið með þeim hætti að bensíni úr tveggja lítra gosflösku hafi verið hellt yfir bifreiðina en síðan eldur borinn að.  Síðan segir orðrétt í skýrslunni: „Áframhaldandi bruni í bensíninu og bifreiðinni hefði leitt til þess að eldur færi í innréttingu hennar og myndi brenna hana upp og einnig hjólbarða hennar og eldsneyti.  Samkvæmt upplýsingum sem aflað var hjá lögreglunni [...] var geymirinn cirka hálfur sem segir að á honum hafi verið 25-30 ltr. af bensíni.  Slíkur bruni á eldsneyti væri mestur á planinu undir bifreiðinni og síðan dreifast í þá átt sem planinu hallar það er að götunni...“.

Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir m.a.: „... er hitageislunin frá bifreiðinni, eftir að eldur er kominn í innréttingar hennar, það mikil að hitageislunin mundi kveikja í timbri sem er nær bifreiðinni en 2,2-2,4 m.  Íbúðin númer [...] stendur 2,65 m innar í lóðinni en íbúð [...], auk þess sem grindverk er á milli hússins og bifreiðastæðisins og stóð bifreiðin nokkuð frá grindverkinu eins og sjá má á myndbandsupptökunum.  Skyggni yfir húshliðinni nær 1,15 metra fram fyrir hliðina og er það steypt að framanverðu en klætt þunnri plötuklæðningu að neðan.  Logar út um framrúðu bifreiðarinnar eru því um 3,5-4 m frá húshliðinni og 2,3-2,7 frá skyggninu.  Ekki er því talin hætta á að eldur gæti borist í íbúðina 1c, en hún gæti skemmst af reyk sem legði yfir hana og eins gæti reykur borist inn á þakið í gegnum loftunarop á klæðningunni undir skyggninu en það mundi ekki leiða til íkviknunar á íbúðinni.  Málning á skyggninu gæti sviðnað og skemmst.

Eftir myndum og grunnmyndum hússins að dæma hefur fjarlægðin frá gluggum bifreiðarinnar að eldhúsglugga á íbúð [...] verið cirka 3,5 m þannig að eldur hefði ekki kveikt í gluggakörmunum miðað við ofangreindar forsendur um geislunarþol.  Glerið í gluggunum þolir geislunina frá eldinum í 3,1-3,4 m fjarlægð þannig að ytri rúðan gæti sprungið en ekki eru líkur á því að rúðan félli úr falsinu.

Eldur myndi þannig ekki berast yfir í þá íbúð en hún gæti skemmst af reyk sem legði yfir hana stæði vindur af honum.  Almannahætta hefur því ekki verið til staðar varðandi fasteignina [...] og þar af leiðandi ekki fyrir líf eða limi manna í húsinu.

Ekki er í lögregluskýrslum minnst á að aðrar bifreiðar eða lausafé hafi verið í nágrenninu og verður það heldur ekki ráðið af myndbandsupptökunum.

Önnur hús eru einnig utan þeirrar fjarlægða sem núverandi byggingarreglugerð setur sem lágmarksfjarlægð milli húsa og utan þeirra marka sem útreiknuð hitageislun veldur hættu.  Með þessum fjarlægðum á að vera ásættanlegt öryggi gegn því að eldur geti breiðst út á milli bygginga en alltaf er hætta á að reykur frá bruna leggi yfir næstu hús sem gæti valdið skemmdum, einkum ef berist reykurinn inn í þau.  Almannahætta hefur því ekki verið til staðar varðandi aðrar fasteignir eða lausafé né fyrir líf eða limi manna sem höfðust við í næsta nágrenni við brunann.

Við mat þetta komu ekki fram önnur atriði sem greinir hér að ofan og skýrt geta málið.

Niðurstaða: Með vísan til ofanritaðs má telja öruggt að um sé að ræða eldsvoða í skilningi 164. gr. almennra hegningarlaga.  Íkveikjan myndi þróast á þann veg að [...] bifreiðin [...] myndi verða alelda og eyðileggjast.

Eldurinn hefði ekki breiðst út í raðhúsið, hvorki í íbúð [...] eða [...], né til annarra húsa í nágrenninu eða lausafé í nágrenni við brunann.

Bifreiðin var mannlaus og þar sem eldurinn hefði ekki breiðst út frá bifreiðinni hefur enginn verið í hættu í nágrenni við hana.

Almannahætta hefur því verið til staðar vegna eigna af íkveikjunni og hætta á yfirgripsmikilli eyðingu á bifreiðinni en engum hefur verið bersýnilegur lífsháski búinn hvorki í bifreiðinni eða í nágrenni við hana við atvik þetta.“

4. Samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu beindust grunsemdir fljótlega að ákærðu Tómasi Helga Jónssyni og C, en m.a. lá fyrir að þeir höfðu verið í ítrekuðum símasamskiptum aðfaranótt 12. nóvember sl., um kl. 3.  Samkvæmt gögnum fór lögreglan að heimili Tómasar Helga nefndan dag kl. 11:40, að Brekkugötu 7 a, í miðbæ Akureyrar, en húseignin er gegnt útibúi Landsbankans.  Þar á vettvangi hittu lögreglumenn sambýliskonu ákærða Tómasar Helga, sem upplýsti að hann og ákærði C hefðust þar við innan dyra, en væru sofandi vegna áfengis- og vímuefnaneyslu.  Þar á vettvangi haldlagði lögreglan útiskó vegna rannsóknar málsins, en er þetta gerðist beindust grunsemdir einnig að öðrum en ákærðu Tómasi Helga og C.

Af gögnum verður ráðið að eftir lýstar upphafsaðgerðir hafi rannsókn málsins enn frekar beinst að ákærðu Tómasi Helga og C.  Var hinn fyrrnefndi handtekinn á heimili sínu kl. 19:05 nefndan dag, en samhliða því var lagt hald á gsm síma hans og skófatnað, en talið var að á skóm væri sambærilegt skómunstur og fannst á brunavettvangi við [...].  Jafnframt lagði lögreglan hald á fólksbifreiðina [...], [...], sem var þar við húsið.  Fram kemur að er lögreglumenn voru við húsleit á heimili ákærða Tómasar Helga, eftir handtöku hans og brottflutning á lögreglustöð, hafi ákærði C komið á vettvang ásamt sambýliskonu þess fyrrnefnda.  Þau voru bæði handtekin í þágu rannsóknarinnar og færð á lögreglustöð.

5. Samkvæmt rannsóknargögnum voru ákærðu Tómas Helgi og C ekki með sýnileg áfengis- eða vímuefnaeinkenni er þeir voru handteknir.  Þeir voru vistaðir í fangaklefa á lögreglustöðinni á Akureyri og í framhaldi af því úrskurðaðir í gæsluvarðhald og einangrun vegna rannsóknarhagsmuna.  Gæsluvarðhald Tómasar Helga var síðar framlengt á grundvelli síbrota allt til 8. apríl sl., en þá hóf hann refsiúttekt á 18 mánaða fangelsisrefsingu vegna eldri dóma en að frádreginni 147 daga gæsluvarðhaldsvist hans.  Ákærða C var hins vegar sleppt við lok rannsóknar málsins.

6. Samkvæmt rannsóknargögnum voru teknar skýrslur af vitnum, sem talið var að hefðu haft samskipti við ákærðu Tómas Helga og C þann 12. nóvember nefnt ár.  Meðal annars voru teknar skýrslur af fyrrnefndum F fulltrúa, en einnig af K leigubifreiðastjóra og L [...], [...] sem var á þessum tíma leigjandi hjá ákærða Garðari Hallgrímssyni.  Einnig tóku rannsóknaraðilar vitnaskýrslu af ákærða Garðari, þann 13. nóvember sl., en hann var síðar handtekinn á heimili sínu laust eftir miðnættið 14. sama mánaðar sl., kl. 00:10.  Í handtökuskýrslu segir að ákærði Garðar hafi borið sýnileg merki um áfengis- eða vímuefnaneyslu, en einnig er tekið fram að hann hafi virst vera þreyttur og slæptur.

7. Við rannsókn málsins lögðu rannsóknaraðilar hald á fleiri ætluð sönnunargögn.  Þar á meðal voru símar og tölvubúnaður, en einnig fatnaður og skótau.  Þá lagði lögregla hald muni sem ákærðu Tómas Helgi og C vísuðu á eftir fyrstu yfirheyrslur.  Var þar á meðal svartur vindstakkur, fingravettlingar, húfa, tveir mótorhjólahjálmar, bakpoki og töng, en áður hafði verið lagt hald á fyrrnefndar flöskur, sem fundust á vettvangi við [...]. Þá vísuðu ákærðu á svokallað „átaksskaft“.  Greint er frá því að skaftið hafi verið 47 sm að lengd og úr málmi.  Tiltekið er að um annan enda skaftsins hafi verið vafið tuskum og þær festar með límbandi.  Þyngd skaftsins var mælt 1436,8 grömm.

Á meðal þess sem lögreglan upplýsti var að þann 12. nóvember sl., kl. 04:08 hafði verið keypt bensín, 3,95 lítrar, fyrir 915 krónur á bensínstöð á Oddeyrinni á Akureyri. 

Með verkbeiðni lögreglu voru helstu munir sendir til rannsóknar hjá Rannsóknarstofu Háskóla Íslands.  Samkvæmt skýrslu rannsóknarstofunnar, sem dagsett er 25. nóvember sl. var það niðurstaða rannsóknar að skótau, vettlingar, klútar og hluti fatnaðar voru menguð af bensíni.

Við rannsókn málsins aflaði lögreglan m.a. gagna úr öryggismyndavélum hjá útibúum Landsbankans og Arion banka í miðbæ Akureyrar, en að auki var aflað afrita og bankagagna af debet reikningi ákærða Garðars.

Á myndum, sem lögregla fékk úr öryggismyndavél útibús Landsbankans á Akureyri við Strandgötu, sem eins og fyrr sagði er gegnt Brekkugötu 7, heimili ákærða Tómasar Helga, má sjá, samkvæmt skýrslum lögreglu, ákærðu Tómas Helga, C og Garðar.  Fram kemur að myndirnar voru teknar aðfaranótt 12. nóvember sl., kl. 01:10, en einnig þá um morguninn kl. 06:33, 06:34 og 06:35.

Á myndum, sem lögreglan aflaði úr öryggismyndavél í Arion banka í miðbæ Akureyrar, má sjá, samkvæmt gögnum og skýrslum lögreglu, ákærðu Garðar og C standa saman framan við gjaldkeraborð þann 12. nóvember sl., kl.12:39.

Í skýrslu lögreglu, sem gerð var vegna úttekta af debetkortareikningi ákærða Garðars segir að aðfaranótt 12. nóvember sl., en einnig að morgni þess dags, hafi eftirfarandi færslur farið fram af reikningi hans í Arion banka: A) [...], kl. 01:04, 4.200 krónur. B) [...]-verslun, kl. 09:42, 13.000 krónur. C) [...]-verslun, kl. 09:44, 15.500 krónur. D) [...], kl. 09:45, 13.000 krónur og E) [...], kl. 09:47, 15.000 krónur.  Allir þessir verslunarstaðir eru í miðbæ Akureyrar og því nærri heimili ákærða Tómasar Helga.  Samkvæmt skýrslum og gögnum lögreglu voru auk nefndra úttekta af debetkorti ákærða Garðars í útibúi Arion banka nefndan dag aðrar þrjár færslur, þar sem tekið var út lausafé samtals að fjárhæð 40.300 krónur.  Þá voru samkvæmt gögnum lögreglu, m.a. kvittun, enn aðrar færslur af reikningnum, kl. 12:42, þennan dag.  Var annars vegar um að ræða úttekt að fjárhæð 17.801 króna og hins vegar á sama tíma að fjárhæð 62.139 krónur.  Með síðustu úttektinni virðist reikningurinn hafa verið tæmdur.

Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglu var aflað gagna um ógreidd verktakalaun ákærða Garðars hjá fyrirtækinu [...], sem annast hafði m.a. [...].  Upplýsti [...] félagsins rannsakendur um að ákærði Garðar hefði átti rúmlega 900 þúsund krónur inni hjá félaginu vegna verka sinna og að hann hafi reynt að innheimta verklaun sín með því að senda félaginu reikning um miðjan nóvember sl.  Vegna mistaka við reikningsgerðina hefði ekki verið unnt að greiða ákærða launin og þar sem félaginu hafði ekki borist leiðrétting hinn 20. nóvember hefðu þau enn verið ógreidd.

Samkvæmt skýrslu lögreglu var aflað gagna um símasamskipti ákærðu C og Tómasar Helga dagana 11. og 12. nóvember 2014.  Einnig aflaði lögregla sambærilegra upplýsinga um símasamskipti ákærðu C og Garðars, en þau náðu yfir tímabilið frá 4. október til 12. nóvember 2014.

Samkvæmt nefndum gögnum voru símasamskipti ákærðu C og Tómasar Helga þann 11. nóvember sl., sem hér segir: klukkan 18:30, 19:51, 20:19 og 21:32.  Þá voru símasamskipti milli þeirra þann 12. nóvember, sem hér segir: Klukkan 2:38, 2:46, 6:41, 14:42, 14:45, 15:32, 18:11 og 18:12.

Samkvæmt gögnum voru gagnkvæm símasamskipti milli ákærðu C og Garðars á tímabilinu frá 10. til 12. nóvember sem hér segir: a) 10. nóvember klukkan 23:42, b) 11. nóvember klukkan 16:23, 23:10, 23:11, 23:25, 23:38 og 23:48 og  c) 12. nóvember klukkan 00:12, 00:15, 00:39, 00:40, 00:43, 03:13, 05:26, en á tímabilinu frá klukkan 20:10 til 20:25 sama dag fóru á milli þeirra fjögur símtöl.

8. Í upplýsingaskýrslu lögreglu, dagsettri 19. janúar 2015, er greint frá því að ákærði Garðar Hallgrímsson hafi ekki átt ólokin rannsökuð mál í nóvember 2014 hjá lögreglustjóranum á Akureyri.  Á hinn bóginn er upplýst að hann hafi átt að mæta við fyrirtöku hjá Héraðsdómi Norðurlands eystra þann 31. október og 25. nóvember nefnt ár vegna tveggja sakamála.  Hafi annars vegar verið um að ræða ákærumál ríkissaksóknara, vegna tveggja ætlaðra sérstaklega hættulegra líkamsárása, en það mál hafði verið höfðað 12. mars það ár.  Á sama tíma hafi hann átt að mæta fyrir dóminn vegna ákæru lögreglustjóra/sýslumannsembættisins á Akureyri vegna ætlaðs ölvunaraksturs, en það mál hafði verið höfðað 2. maí sama ár.  Ákærumál þessi voru við meðferð fyrir dómi sameinuð og féll dómur um nefnd sakaratriði þann [...].

9. Ákærði Tómas Helgi Jónsson var yfirheyrður í fjögur skipti hjá lögreglu við rannsókn málsins.  Hann var fyrst yfirheyrður síðdegis fimmtudaginn 13. nóvember sl., en áður hafi hann rætt í síma við tilnefndan verjanda sinn, sem síðar var skipaður verjandi hans.  Við nefnda yfirheyrslu var ákærða m.a. kynnt efni símaupptöku frá klukkan 3:00 aðfaranótt miðvikudagsins 12. nóvember sama ár, en ætlað var að hann hefði þá verið í samskiptum við meðákærða C.  Við yfirheyrsluna neitaði ákærði Tómas Helgi alfarið kæruefninu.  Hann var á ný yfirheyrður um kæruefnið föstudaginn 14. nóvember, en áður hafði hann rætt við verjanda sinn í síma.  Hann óskaði í framhaldi því eftir því að gefa skýrslu um málsatvik og játaði þá skýlaust og í öllum aðalatriðum sakarefni 5. og 6. tl. II. kafla ákæru.  Hann var á ný yfirheyrður um kæruefnið þriðjudaginn 18. nóvember, að viðstöddum tilnefndum verjanda sínum og áréttaði hann þá fyrri játningu sína, en lýsti þá einnig verkum meðákærðu, C og Garðars Hallgrímssonar.  Að síðustu var ákærði Tómas Helgi yfirheyrður af lögreglu föstudaginn 12. desember sama ár, en þá voru honum kynnt öll rannsóknargögn lögreglu.

Ákærði C var fyrst yfirheyrður um kæruefnið hjá lögreglu  13. nóvember sl., en hann neitaði þá sakargiftum.  Við yfirheyrslu lögreglu sama dag játaði hann í ítarlegri skýrslu sakargiftir, en lýsti þá jafnframt aðild meðákærðu að málinu.  Í yfirheyrsluskýrslu þann 19. nóvember sama ár áréttaði hann játningu sína, en lýsti þá enn frekar ætluðum þætti meðákærða Garðars Hallgrímssonar.

Ákærði Garðar Hallgrímsson neitaði við yfirheyrslu lögreglu þann 14. nóvember sl. aðild sinni að málinu, líkt og við yfirheyrslu 25. sama mánaðar.  Eftir síðari skýrslutökuna var honum sleppt úr haldi lögreglu.

Við nefndar yfirheyrslur var öllum ákærðu gerð grein fyrir því að þeir væru grunaðir um að hafa komið að með einum og öðrum hætti að íkveikju í ökutæki við hús að [...] og líkamsárás gagnvart löglærðum sýslumannsfulltrúa á Akureyri.  Yfirheyrslurnar voru teknar upp með hljóði og mynd og eru gögn þar um á meðal framlagðra gagna ákæruvalds.

Samkvæmt áðurgreindum yfirheyrsluskýrslum ákærða C, sem hann síðar staðfesti fyrir dómi, var upphaf málsins það að meðákærði Garðar Hallgrímsson hafði í fjögur eða fimm skipti greint honum frá því að hann ætti harma að hefna gagnvart F fulltrúa sýslumannsins á Akureyri og vildi af þeim sökum gera honum mein.  Hann kvað ákærða Garðar, þriðjudaginn 11. nóvember 2014, enn á ný fært þetta málefni í tal við sig í símtali og þá spurst fyrir um hvort að hann væri reiðubúinn að taka þetta verkefni að sér gegn greiðslu.  Hafi ákærði C að sögn dregið lappirnar fram til þessa og líkt og áður viljað hugsa sig um, en síðan afráðið að samþykkja verkbeiðnina og þeir tveir í framhaldi af því ákveðið að hittast og ræða málið frekar á heimili þess síðarnefnda í [...].  Í framhaldi af þessu símtali hafi ákærði C haldið á fund Tómasar Helga á heimili hans að Brekkugötu 7 á Akureyri og skýrt honum frá samræðum sínum við ákærða Garðar.  Hafi ákærði Tómas Helgi verið spenntur fyrir verkefninu og þeir í framhaldi af því afráðið að fara heim til meðákærða Garðars að Vaðlabyggð 4, á [...] fólksbifreið ákærða C.  Við komu þeirra hafi ákærði Garðar komið út af heimili sínu og sest inn í bifreiðina, en í framhaldi af því hafi þeir ekið að bensínstöð á Akureyri.  Í  ökuferðinni hafi ákærði Garðar fljótlega farið að greina frá viðskiptum sínum við nefndan sýslumannsfulltrúa, og þá vegna starfa hans, en þá jafnframt lýst vilja sínum til þess að fá einhvern eða einhverja til að veita honum áverka og brjóta hönd hans þannig að hann gæti ekki undirritað pappíra.  Þá hafi ákærði Garðar í þessari ökuferð upplýst meðákærðu um að hann þyrfti að mæta fyrir dóm á næstu dögum, en hefði engan sérstakan áhuga á því að hitta þar fyrir nefndan fulltrúa og látið þau orð falla að hann væri tilbúinn til þess að greiða 450-500 þúsund krónur fyrir verkið, en að fjárhæðin færi endanlega eftir því hvernig verkið yrði framkvæmt og hvernig til myndi takast.  Samkvæmt skýrslu ákærða C samþykkti meðákærði Tómas Helgi strax verkbeiðni meðákærða Garðars og hafi hann þá einnig áréttað fyrra samþykki sitt.  Hann kvaðst enga tryggingu hafa haft fyrir því að ákærði Garðar myndi standa við orð sín um greiðslu verklaunanna, en sagði; ,,Ég veit bara að hann stendur við orð sín.“

Samkvæmt frásögn ákærða C keypti meðákærði Garðar í nefndri ökuferð svonefnd læknalyf af meðákærða Tómasi Helga að andvirði 60.000 krónur.  Bar hann að þeir tveir hefðu af því tilefni farið í hraðbanka í miðbæ Akureyrar, um kl. 1 umrædda nótt, og að þá hefði ákærði Garðar tekið út fjármuni, en nefndi í því sambandi 30-40.000 krónur. Í þessari ferð þeirra kvað hann meðákærðu, Garðar og Tómas Helgi, einnig hafa lagt leið sína á veitingastað í miðbænum og sagði að þar hefði ákærði Garðar keypt bjór, sem hann hefði haft með sér út af staðnum.  Hann sagði að í framhaldi af þessum erindum hafi meðákærða Garðari verið ekið aftur að heimili sínu þar sem hann hafi farið út úr bifreiðinni.  Eftir þetta hafi hann ásamt meðákærða Tómasi Helga ekið á ný til Akureyrar, en samhliða rætt um framkvæmd verkbeiðni meðákærða Garðars.  Ákærði C skýrði frá því við yfirheyrslu að þegar þarna hafi verið komið sögu hafi honum fallist hendur, en í framhaldi af því hafi verið afráðið að ákærði Tómas Helgi myndi annast hið eiginlega verk, en að hann myndi koma að verkinu með þeim hætti að hann myndi aka meðákærða Tómasi Helga nærri heimili sýslumannsfulltrúans, en í framhaldi aka að lögreglustöðinni og fylgjast þannig með ferðum lögreglu og gefa aðvörun ef að hreyfing yrði þar á.  Þá hafi þeir ákveðið, að sögn ákærða C, að skipta verklaunum meðákærða Garðars þannig að hann fengi 25% fjárhæðarinnar, en ákærði Tómas Helgi 75%.  Eftir þessa orðræðu hefðu þeir tveir farið heim til meðákærða Tómasar Helga, að Brekkugötu 7, en þá aðeins rætt málefnið lítillega enda hefði sambýliskonan þá verið fyrir á heimilinu.  Þeir hafi hins vegar hafið eiginlegan undirbúning verksins og m.a. tekið til  dökkan klæðnað og lambhúshettu, en einnig átaksskaft.  Þeir hafi vafið tusku og viskastykki um annan enda skaftsins og límt með límbandi og þannig útbúið nokkurs konar púða, en þá haft í huga að fulltrúinn yrði fyrir litlum skaða.  Eftir þennan undirbúning hafi ákærði C hringt til meðákærða Garðars og tilkynnt honum að hið umbeðna verk hans yrði framkvæmt þá um nóttina og að hann skyldi því ekki fara að sofa snemma þar sem þeir ætluðust til þess að hann greiddi þeim verklaunin.

Ákærði C skýrði frá því hjá lögreglu að eftir lýstan undirbúning hafi hann ekið á fyrrnefndri [...] bifreið nærri heimili sýslumannsfulltrúans í [...] þar sem meðákærði Tómas Helga hefði farið út.  Í framhaldi af því hafi hann ekið bifreiðinni nærri lögreglustöðinni í þeim tilgangi að fylgjast með ferðum lögreglumanna og þá til að gera meðákærða Tómasi Helga viðvart ef hreyfing yrði á.

Frásögn ákærða Tómasar Helga við yfirheyrslur hjá lögreglu var í öllum aðalatriðum samhljóða ofangreindri frásögn meðákærða C að því er varðaði undirbúning lýsts verknaðar.  Hann hafi farið grímuklæddur að heimili sýslumannsfulltrúans um klukkan 3, hringt þar dyrabjöllunni og er fulltrúinn opnaði útidyrahurðina hafi hann slegið til hans með skaftinu.  Fulltrúinn hafi hins vegar strax lokað að sér, en hann þá hlaupið sem hraðast af vettvangi.  Á hlaupunum hafi hann losað sig við fatnað og bareflið í gám nærri vettvangi, en síðan hringt í meðákærða C og beðið hann um að sækja sig að fjölbýlishúsunum við [...], eins og um hafi verið rætt.  Í framhaldi af þessu hafi ákærði C ekið sem leið lá aftur að Brekkugötu 7.

Frásögn ákærðu C og Tómasar Helga hjá lögreglu var samhljóða um að þeir tveir hefðu eftir greindan verknað ákveðið að bæta um betur og kveikja í bifreið sýslumannsfulltrúans, en með því athæfi hafi þeir haft í huga að gera verknaðinn trúverðugri í augum meðákærða Garðars.  Þeir staðhæfðu og báðir að íkveikjan hefði ekki verið orðuð af hálfu meðákærða Garðars þegar hann ræddi um verknaðinn gegn sýslumannsfulltrúanum fyrr um nóttina.  Á heimili Tómasar Helga hafi þeir því tekið til tveggja lítra gosflösku, en einnig tvær bjórflöskur, keypt bensín á eldsneytisstöð á Oddeyrinni og í framhaldi af því útbúið svokallaða „molotov cocktaila“,  tekið fram hanska og mótorhjólahjálma, en að öllu þessu loknu, um klukkan 4, haldið áleiðis að heimili nefnds fulltrúa í fyrrnefndri [...] bifreið.  Þeir hafi lagt bifreiðinni við [...], en eftir það farið fótgangandi að heimili fulltrúans íklæddir hjálmum og hönskum og haft meðferðis fyrrnefnda „molotov cocktaila.“  Á vettvangi hafi þeir hellt bensíni yfir bifreið fulltrúans, [...], og kveikt í en síðan yfirgefið vettvang með hraði.  Þeir hafi eftir það ekið fyrrnefndri bifreið Eyjafjarðarhringinn, en eftir um 30 mínútna akstur afráðið að fara beinustu leið heim til meðákærða Garðars með þeirri ætlan að fá verklaunin greidd.

Ákærðu C og Tómas Helgi báru báðir við yfirheyrslur lögreglu að þeir hafi verið undir áhrifum fíkniefna umrædda nótt.  Þá staðhæfðu þeir að við komu þeirra á heimili ákærða Garðars síðla nætur hafi hann verið mjög ölvaður og það svo að hann hafi ekki verið fær um að fara inn á heimabanka sinn þar á heimilinu.  Vegna þessa hefðu þeir afráðið að fara saman í leigubifreið á heimili ákærða Tómasar Helga í miðbæ Akureyrar, með þeirri ætlan að reyna að ná í peninga úr hraðbanka Landsbankans.  Það hafi hins vegar ekki gengið eftir þar sem meðákærði Garðar hafi verið kominn yfir úttektarheimild sína í bankanum vegna fyrrnefndra kaupa hans á læknadópi, en fyrir það hafi hann greitt um 40 þúsund krónur um miðnættið þessa sömu nótt, líkt og áður sagði.  Vegna þessara vandkvæða hafi þeir afráðið að halda kyrru fyrir á heimili ákærða Tómasar Helga og bíða átekta þar til bankinn opnaði. Þeir hafi að auki allir sofnað í íbúðinni.

Ákærðu C og Tómas Helgi skýrðu báðir frá því hjá lögreglu að á meðan á dvöl þeirra stóð á heimili þess síðarnefnda hefði meðákærði Garðar greint frá því að hann ætti von á verktakagreiðslu vegna vinnu sinnar við [...] og að hann ætlaði að greiða þeim verklaunin með þeim peningum.

Við nefndar yfirheyrslur lögreglu voru ákærðu C og Tómasi Helga sýndar myndir, sem lögreglan hafði aflað úr húsakynnum bankaútibúa í miðbæ Akureyrar.  Þeir staðfestu báðir að á ljósmyndunum, sem teknar höfðu verið í hraðbanka útibús Landsbankans að morgni 12. nóvember mætti sjá þá, en að auki kannaðist ákærði C við mynd af sér, sem tekin hafði verið í útibúi Arion banka í miðbænum klukkan 12:42 nefndan dag, en hann kvaðst þá hafa verið í fylgd meðákærða Garðars við úttekt fjármuna, að fjárhæð 62.139 krónur. Hann bar að ákærði Garðar hefði tekið út alla þá fjármuni sem hann gat og þá með það fyrir augum að greiða hin umsömdu verklaun, en jafnframt vísað til þess að eftirstöðvarnar myndi hann greiða eftir að hann fengi áðurgreind laun vegna verka sinna við [...].  Hann sagði að er þetta gerðist hafi meðákærði Tómas Helgi verið sofandi ölvunarsvefni á heimili sínu.  Ákærði C bar að meðákærði Garðar hefði í framhaldi af nefndri bankaúttekt látið hann hafa 20.000 krónur, en bar að sambýliskona meðákærða Tómasar hefði fengið 10.000 krónur, en það hefði verið eftirstöðvar af kaupverði fyrrnefndra lyfja.  Þá fullyrti hann að ákærði Garðar hefði látið meðákærða Tómas Helga hafa 30.000 krónur.  Ákærði C staðhæfði að meðákærði Garðar hefði ekki verið þvingaður til að fara í banka umræddan morgun eða í hádeginu og áréttaði að þvert á móti hefði hann verið mjög ánægður með hvernig til hefði tekist og þá að meðákærði Tómas Helgi hefði náð að veita sýslumannsfulltrúanum áverka.

Ákærðu C og Tómas Helgi skýrði frá því hjá lögreglu að lýstum samskiptum hafi lokið með þeim hætti að Tómas Helgi hefði fengið nákominn aðila til þess að aka meðákærða Garðari til síns heima síðdegis miðvikudaginn 12. nóvember 2014.

Ákærði Tómas Helgi Jónsson skýrði frá því við nefndar yfirheyrslur hjá lögreglu að hann hafi verið undir áhrifum áfengis og vímuefna er atvik gerðust 11. og 12. nóvember 2014.  Hann kvaðst hafa verið í slagtogi með vini sínum, meðákærða C, og þá fyrst heyrt frásögn hans um að meðákærða Garðari væri í nöp við F sýslumannsfulltrúa vegna einhvers máls og að hann hefði beðið hann um að ganga í skrokk á honum.  Hann sagði að atvik máls hefðu síðan verið með þeim hætti að hann hefði skömmu eftir miðnættið þann 12. nóvember farið ásamt meðákærða C á heimili meðákærða Garðars að Vaðlabyggð 4, en sagði að tilgangurinn með þeir ferð hefði verið sala á læknadópi, þ.e. 30 töflur af efninu Trafil.  Til að ákærði Garðar gæti greitt fyrir efnið hefðu þeir með hann til Akureyrar, þar sem hann hefði farið í hraðbanka, framkvæmt tvær úttektaraðgerðir og í framhaldi reitt fram 40.000 krónur.  Þá kvaðst hann hafa farið ásamt meðákærða Garðari í stutta stund á veitingastaðinn [...], um klukkan 1 að hann ætlaði, og bar að þar hefði meðákærði Garðar keypt bjór.

Ákærði Tómas Helgi skýrði frá því hjá lögreglu að í nefndri ökuferð hafi hann heyrt meðákærða Garðar biðja meðákærða C um að framkvæma líkamsárás gagnvart nefndum sýslumannsfulltrúa.  Kvaðst hann helst hafa skilist það á orðum meðákærða Garðars að tilefnið hefði verið eitthvert mál, sem þá hefði verið í gangi og bar að hann hefði boðist til að greiða 450 - 500 þúsund krónur fyrir verknaðinn, en sagði nánar um verkbeiðnina: „Garðar og C töluðu við mig að í mesta lagi fingurbrjóta F“.  Hann sagði að meðákærði Garðar hefði haft orð á því að hann myndi greiða fyrir verknaðinn strax að honum loknum.  Hann kvaðst líkt og meðákærði C hefðu gengið að þessu og þannig samþykkt tilboð meðákærða Garðars, en bar að ekki hefði farið fram frekari umræða um framkvæmdina af hálfu Garðars og verkið því sett í þeirra hendur.  Hann bar að eftir þessar viðræður í bifreiðinni hafi þeir ekið meðákærða Garðari aftur til síns heima.  Í framhaldi af því hafi þeir tveir, hann og meðákærði C, hafist handa við að skipuleggja verknaðinn, en verklaununum hafi þeir, að hans sögn, ætlað að skipta jafnt sín á milli og kannaðist ekki við aðra skiptingu þeirra.

Við nefndar yfirheyrslur lögreglu lýsti ákærði Tómas Helgi atlögunni að sýslumannsfulltrúa og síðan íkveikjunni í bifreið hans með sama hætti og hér að framan var rakið.  Jafnframt bar hann að eftir lýsta háttsemi hefðu hann ekið ásamt meðákærða C að heimili ákærða Garðars á ný og þá með þeirri ætlan að fá verklaunin greidd.  Hann sagði að þeir hefðu haldið til á heimili meðákærða Garðars um stund, en þar sem hann hafi ekki komist inn á reikning sinn í heimabanka vegna eigin ölvunar hafi þeir afráðið að fara allir saman í leigubifreið til Akureyrar og bíða á heimili hans í Brekkugötu 7 þar til að bankar opnuðu daginn eftir.  Nánar aðspurður kvaðst hann í rauninni ekki minnast þess vegna eigin vímuástands hvort þeir hefðu reynt að fara í hraðbanka umræddan morgunn, en minntist þess hins vegar að meðákærði Garðar hefði gleymt eða týnt veskinu sínu þá um nóttina og bar að hann hefði af því tilefni farið á heimili hans aftur og náð í það og þá hitt fyrir leigjanda Garðars, vitnið L, en hann kvaðst hafa séð hann fyrst er þeir komu á heimilið fyrr um nóttina.  Hann skýrði frá því að á meðan að meðákærðu dvöldu í íbúð hans á Akureyri hefði hann gefið meðákærða Garðari eina e-töflu, en sagði að í framhaldi af því hefði  Garðar veitt honum heimild til þess að nota greiðslukortið sitt til að kaupa sígarettur og annan varning.  Hann kvaðst þennan morgunn því hafa notað greiðslukortið til vörukaupa í verslun [...], í [...] og í skartgripaverslun, en bar að þau kaup hans, að fjárhæð 56.000 krónur, hefðu átt að dragast frá fyrrgreindri verkgreiðslu meðákærða Garðars.  Að þessu leyti staðfesti hann þær bankafærslur sem rannsóknaraðilar sýndu honum, en lýsti að öðru leyti atvikum máls með þeim hætti sem hér að framan var rakið og þar á meðal um heimferð meðákærða Garðars Hallgrímssonar síðdegis þann 12. nóvember sl.

Við yfirheyrslur lögreglu var ákærða Tómasi Helga kynntur andstæður framburður meðákærða Garðars við rannsókn málsins og þ. á m. um að hann kannaðist alls ekkert við málavaxtalýsingu hans, en hann svaraði því þannig; „Þetta er nú bara samt svona.“  Ennfremur staðhæfði hann að hann hefði ekkert átt sökótt við nefndan sýslumannsfulltrúa.

Ákærði Garðar Hallgrímsson var eins og áður var rakið fyrst yfirheyrður af rannsóknaraðilum fimmtudaginn 13. nóvember 2014, sem vitni og þá vegna fyrrnefndrar íkveikju í bifreið við [...].  Var sú skýrslan tekin á heimili hans í Vaðlabyggð í Svalbarðsstrandarhreppi, sem er gegnt Akureyri.  Við skýrslugjöfina kvaðst hann lítillega kannast við meðákærða Tómas Helga.  Þá kvaðst hann aðfaranótt miðvikudagsins 12. nóvember 2014 alfarið hafa haldið til á heimili sínu.  Hann staðhæfði jafnframt að hann hefði ekki orðið var við mannaferðir í eða við heimili sitt.

Ákærði Garðar var vegna rannsóknar málsins handtekinn af rannsóknaraðilum laust eftir miðnættið föstudaginn 14. nóvember sama ár, en í framhaldi af því var hann yfirheyrður tvívegis þá um daginn, klukkan 12:56 og 19:43, en síðan úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna.  Ákærði var að lokum yfirheyrður af rannsóknaraðilum 25. nóvember sama ár, en fyrir yfirheyrsluna hafði hann um hríð dvalið á sjúkrahúsi í Reykjavík.  Eftir þá skýrslugjöf var honum sleppt úr haldi lögreglu.

Við upphaf fyrri yfirheyrslu lögreglu þann 14. nóvember nefnt ár var ákærða Garðari kynnt að hann væri grunaður um að hafa komið að með einum eða öðrum hætti að íkveikju í ökutæki, sem staðið hafi á bifreiðastæði til móts við húsið að [...] á Akureyri aðfaranótt 12. sama mánaðar.  Við lok yfirheyrslunnar var honum jafnframt kynnt að hann væri grunaður um að hafa lagt á ráðin um að vinna F sýslumannsfulltrúa mein gegn greiðslu fjármuna.  Viðstaddur lögregluyfirheyrsluna, líkt og við hinar síðari, var tilnefndur verjandi ákærða, en hann var síðar var skipaður til starfans fyrir dómi.

Ákærði Garðar skýrði frá því í nefndri lögregluyfirheyrslu að hann hefði séð fréttir í fjölmiðlum um kæruefnið, en u. þ. b. tveimur vikum fyrr haft lítilleg samskipti við ákærðu C og Tómas Helga, en einnig ónafngreinda konu.  Hann kvaðst í raun ekkert hafa þekkt þau og m.a. aldrei átt við þau símasamskipti, verið með þeim í leigubifreið og þá ekki að morgni miðvikudagsins 12. nóvember nefnt ár.  Þá kannaðist hann heldur ekki við að meðákærðu hefðu komið á heimili hans.

Við upphaf síðari yfirheyrslu lögreglu nefndan dag er tekið fram að ákærða Garðari hafi verið gerð grein fyrir því að hann væri grunaður um að hafa tekið þátt í árás á heimili nefnds sýslumannsfulltrúa.  Ákærði greindi þá frá því að hann hefði kynnst meðákærðu C og Tómasi Helga þremur til fimm vikum fyrir umræddan atburð og bar að það hefði gerst er hann hafi keypt af þeim áfengi og fíknilyf, sem hann nefndi læknadóp, en hann kvaðst hafa keypt fyrir um 30 til 40 þúsund krónur í hvert skipti. Vegna þessar viðskipta kvaðst hann stundum hafa verið í í símasamskiptum við meðákærðu, og þá verið ,,plataður“ til að kaupa umrædd efni.  Ákærði Garðar skýrði frá því við yfirheyrsluna að þriðjudagskvöldið 11. nóvember nefnt ár hefði hann verið undir áhrifum áfengis, og ætlaði að þá hefði hann keypt pillur af meðákærðu er þeir komu á heimili hans.  Hann treysti sér ekki til tímasetja þessi samskipti nánar vegna lýsts ástands síns, en sagði að meðákærðu hefðu í framhaldi af þessum viðskiptum krafið hann um greiðslu fjármuna og fullyrti að þeir hefðu sífellt farið fram á hærri fjárhæð.  Hann vísaði að öðru leyti til minnisleysis og bar að stundum fengi hann svokallað ,,black out“.

Nánar aðspurður af rannsakendum skýrði ákærði Garðar frá því að meðákærðu C og Tómas Helgi hefðu áður komið á heimili hans í fyrrnefndum erindagjörðum, þrisvar til fjórum sinnum á liðnum vikum, en hann kvaðst þá jafnan hafa staðgreitt fíknilyfin.

Ákærði Garðar neitaði því alfarið að hafa beðið meðákærðu um viðvik eða tiltekið verk gegn greiðslu.  Var ákærða í framhaldi af þessum orðum hans kynnt að meðákærðu hefðu báðir haldið slíku fram, sbr. það sem rakið var hér að framan.  Svaraði ákærði því til að hann minntist þessa ekki, en vísaði til almenns minnisleysis vegna áfengisdrykkjunnar og sagði; „Nei ég held það hafi aldrei verið neitt... ef það hefur verið sagt einhvers staðar þá hefur það verið í fylliríi einhvers staðar og einhver sagði eitthvað... menn röfla einhverja vitleysu og einhver sagði eitthvað og svo daginn eftir manstu varla eftir því sko.“  Að þessu sögðu var ákærða Garðari kynnt af rannsóknaraðilum að samkvæmt skýrslum meðákærðu hefði verkbeiðni hans varðað árás á F sýslumannsfulltrúa, en jafnframt var hann inntur eftir því hvort að hann gæti gefið einhverjar skýringar á framburði þeirra eða hvort að hann hefði heyrt meðákærðu ræða um slíkan verknað.  Ákærði Garðar svaraði þessu þannig: „Ég get ekkert útskýrt þetta, þetta hef ég ekki sagt ...Nei ég sagði að þeir hefðu harma að hefna gagnvart honum (fulltrúanum), voru mjög reiðir við hann út af einhverjum gömlum málum sem að þeir voru búnir að lenda í og þau voru aldrei rædd í neinum smáatriðum og það eru svo margir sem eru reiðir við þennan mann... þessir menn rúnta um götur bæjarins og eru í þessu bulli sínu og sko þeir handleggsbrjóta mann fyrir 50 þúsund krónur.  Þú þarft ekkert að borga þeim neina hálfa milljón eða neitt sko...  Ég tók ekki þátt í þessu, þetta var bara eitthvað rætt eins og menn ræða svipað bara...  Þetta var nú bara í bíl á fleygiferð með músík og þetta var nú bara eitthvað svona fyllerísröfl...  Ég var ekkert að skipta mér af því...  Það var ekki ég sem gerði neitt... Ég hef ekki borgað þessum mönnum neina peninga...  Þessir menn hafa ekki unnið þetta verk fyrir það að ég hafi beðið um það, ég man það að ég var bara heima hjá mér...  ég held að þeir hafi bara kannski verið búnir að tala eitthvað saman um þetta líka...  Ég mundi aldrei taka þátt í svona bulli... ég mundi ekki sko láta nappa mig svona...“  Orðum sínum til staðfestu vísaði ákærði m.a. til eigin bankareikninga.  Þá áréttaði hann að meðákærði C hefði haft horn í síðu sýslumannsfulltrúans og sagði; „Hann hataði F alveg út af lífinu.  Það var hans draumur...  ég hlustaði bara á þetta... ég held að þetta hafi meira að segja verið rætt nokkrum sinnum... Það voru þeir sko, þeir höfðu einhverra harma út í hann, sem ég var ekkert að spyrja að því neitt...  Ég man það hins vegar að hann var mjög reiður... og það var eiginlega draumur hjá honum að hérna meiða F.  Eitthvað hérna að hefna sín á honum eða eitthvað...  Svo ef að ég myndi ætla að gera eitthvað svona þá myndi ég aldrei gera þetta svona.  Ég myndi fá alvörumenn í þetta sko og svo er það aldrei gert svona... menn sem ætla að gera eitthvað svona, þú ert með seðlana fyrst.  Þú lætur ekki berja einhvern og kemur svo og rukkar.  Það er aldrei gert...  Ef að þessir menn hafa farið að gera eitthvað þarna þá á það að vera á þeirra eigin ábyrgð.  Hún er ekki hjá mér... ég neita alfarið sök í þessu máli... ég held að það sé bara ekkert að marka þá alveg mikið.“

Við yfirheyrslur lögreglu kvaðst ákærði Garðar ekki bera neinn kala til nefnds sýslumannsfulltrúa, en sagðist hafa verið ósáttur við starfsaðferðir lögreglu.  Vísaði hann þar helst til sakamáls, sem lögreglan á Akureyri hafði rannsakað, en að ríkissaksóknari hefði síðan höfðað sakamál gegn honum vegna ætlaðrar líkamsárásar gegn fyrrverandi kærustu hans, sbr. áðurnefnt dómsmál.  Aðspurður lýsti ákærði hug sínum til sýslumannsfulltrúans nánar þannig:  „.. hann hefur svo sem ekkert gert mér neitt sérstakt í lífinu.  Ég hef enga sérstaka harma að hefna gagnvart honum, en mér þarf kannski ekkert endilega að líka rosalega vel við hann fyrir því.“

Við nefnda yfirheyrslu lögreglu var ákærði Garðar ítrekað spurður um ferðir sínar, m.a. að morgni 12. nóvember sl., en einnig var honum að nokkru kynnt af rannsakendum áðurrakin rannsóknargögn.  Hann skýrði þá frá því að meðákærðu Tómas Helgi og C hefðu komið á heimili hans að morgni 12. nóvember og bar að hann hefði þá farið með þeim í leigubifreið til Akureyrar.  Hann sagði að meðákærðu hefðu er þetta gerðist báðir verið undir áhrifum fíkniefna, en lýst aðstæðum sínum nánar þannig: „Veistu ég var bara skíthræddur... mig rámar eitthvað í það, jú mig rámar aðallega í það að ég hafi verið svo hræddur því svona menn, sem eru í svona ástandi, gera bara hvað sem er og þess vegna hefði verið mikið betra fyrir mig sko að láta þá fá 5000 kall frekar en ekki neitt því þeir hefðu verið vísir til þess að stinga mig á hol.  En ég var bara skíthræddur og ég var að vonast til þess að þetta yrði seinasta skiptið sem að ég myndi þurfa að tala, eða eiga samskipti við þessa menn.“  Hann áréttaði að er meðákærðu komu á heimili hans í greint sinn hefði hann verið undir áhrifum áfengis, en að auki verið nývaknaður.  Hann kvaðst ekki muna sérstaklega eftir orðræðu meðákærðu, en sagði; „Einhvern tímann fórum við í helvítis bankann, náðum í pening en hvort að það var akkúrat þetta kvöld eða eitthvað annað ég ætla ekki að sverja fyrir það sko.  Ég bara man það ekki.“

Nánar aðspurður af rannsakendum kvaðst ákærði Garðar í greint sinn ekki hafa litið á sig sem fórnarlamb í samskiptum sínum við meðákærðu og áréttaði að hann hefði ekkert saknæmt gert af sér.  Þá kvaðst hann einu sinni hafa komið í húsakynni meðákærðu og bar að þá hefði verið þar fyrir kona, sem hann nefndi ekki með nafni, en staðhæfði að þessi heimsókn hans hefði ekki gerst að morgni 12. nóvember nefnt ár.

Við nefnda yfirheyrslu kynntu rannsakendur ákærða Garðari að lögreglan hefði heimildir fyrir því að hann hefði um það leyti er atvik máls þessa gerðust farið með meðákærðu í hraðbanka á Akureyri.  Ákærði svaraði því til að það væri rétt, en bar að þá hefði hann gert árangurslausa tilraun til þess ná út reiðufé, en með því hefði hann ætlað að greiða fyrir það læknadóp, sem hann hafði keypt og því ætti andstæð frásögn meðákærðu sér enga stoð og þar á m.a. um beiðni hans um að þeir gerðu umræddum fulltrúa mein.  Nánar greindi hann frá samskiptum sínum við meðákærðu þannig að þeir hefðu verið saman á fylleríi og það hefði verið drukkið full mikið og að í gangi hefði verið rugl og vitleysa, en sagði síðan;  „Það er alveg á kristaltæru, ég kom ekkert nærri þessu máli.“  Nánar aðspurður kannaðist ákærði Garðar ekki við að hafa haldið til á heimili meðákærða Tómasar Helga og þannig beðið eftir að bankar opnuðu að morgni 12. nóvember, en gerði að lokum þá athugasemd, líkt og síðar fyrir dómi, að hann hefði er hann hefði gefið vitnaskýrslu sína, eftir að lögregla kom fyrst á heimili hans þann 13. nóvember, verið verið undir áhrifum áfengis.

Ákærði Garðar Hallgrímsson var yfirheyrður í síðara skiptið við rannsókn lögreglu þann 25. nóvember 2014.  Hann vísaði þá til fyrri skýrslna sinna hjá lögreglu og svaraði m.a. á líkum nótum að því er varðaði hug sinn til nefnds sýslumannsfulltrúa.  Hann neitaði alfarið sakargiftum, en jafnframt neitaði hann að greina frekar frá ferðum sínum að morgni 12. nóvember nefnt ár.  Aðspurður kannaðist hann ekki við að hafa hringt í meðákærða C, en áréttaði að hann hefði yfirleitt keypt af honum læknadóp fyrir 20-30 þúsund krónur í hvert skipti og að hann hefði yfirleitt staðgreitt efniskaup sín.  Við yfirheyrsluna var ákærða kynntur enn frekar framangreindur framburður meðákærðu hjá lögreglu.  Hann andmælti frásögn þeirra alfarið sem rugli og vitleysu, en neitaði að öðru leyti að tjá sig.  Nánar aðspurður af rannsakendum kvaðst hann ekki minnast þess að hafa farið með meðákærða Tómasi Helga á veitingastað í miðbæ Akureyrar skömmu eftir miðnættið þann 12. nóvember og þá til bjórkaupa.  Þá neitaði hann að tjá sig um þá frásögn meðákærða Tómasar Helga um að þeir hefðu farið saman í hraðbanka til að ná í reiðufé, 40.000 krónur, vegna kaupa hans á læknadópi.  Ennfremur neitaði hann að tjá sig um þá frásögn meðákærðu að hann hefði tvívegis farið með þeim, að morgni og um hádegisbilið, umræddan dag, í hraðbanka í miðbæ Akureyrar þar sem hann hefði tekið út áðurgreinda fjármuni í reiðufé og í síðasta skiptið rúmlega 60.000 krónur.  Þá kvaðst hann ekki minnast atvika máls er honum voru sýndar fyrrgreindar myndir, sem teknar höfðu verið í hraðbanka.  Ákærði kannaðist heldur ekki við að hafa verslað í miðbæ Akureyrar aðfaranótt eða að morgni 12. nóvember, en nefndi í því sambandi þó helst sígarettur og bar að hann hefði það fyrir venju að hafa á sér lausafé í veski sínu til þess að greiða fyrir nauðsynjar og akstur.  Aðspurður neitaði ákærði að tjá sig um hvort að hann hefði á þessum tíma átt von á um 900.000 krónum vegna ógreiddra verktakalauna.  Við yfirheyrsluna voru ákærða kynnt símagögn, sem sýndu að sögn rannsenda ætluð samskipti hans við meðákærða C umræddan sólarhring.  Ákærði svaraði því til að hann hefði reynt að slíta sig frá mönnum eins og C.  Ákærði neitaði að tjá sig um frásögn vitnisins og leigjandans L, sem hann hafði gefið í skýrslu hjá lögreglu og lýsti m.a. samskiptum ákærða Garðars við tvo aðila margnefnda nótt og bar að hann minntist ekki viðveru þessara manna á heimilinu.  Og almennt lýsti ákærði kæruatriðum lögreglu og framburði meðákærðu sem hreinum heilaspuna og fyllerísröfli.

10. Skýrslur fyrir dómi. Ákærði Garðar Hallgrímsson neitaði alfarið sök í máli þessu fyrir dómi. Við þingfestingu og aðalmeðferð fyrir dómi neitað ákærði þannig sakarefni 5. tl. II. kafla ákæru, líkt og hann hafði áður gert hjá lögreglu.  Hann andmælti og verknaðarlýsingu ákæruliðarins og þar á meðal því sakaratriði að hann hefði beðið meðákærðu Tómas Helga og C að beita F sýslumannsfulltrúa ofbeldi.  Ákærði kvaðst þannig ekkert hafa komið nærri þeim verknaði, sem lýst er í ákæru ríkissaksóknara.

Ákærði Garðar skýrði frá því við þingfestingu málsins að hann hefði haft lítil kynni af meðákærðu og sagði að þau hefðu í raun fyrst hafist einhverjum vikum fyrir umrædda atburði.  Hann kvaðst lítillega hafa umgengist meðákærðu og áréttaði fyrri frásögn hjá lögreglu um að samskiptin hefðu varðað kaup hans á áfengi og lyfjum.  Hann staðhæfði að kynni hans af meðákærðu hefði verið slæm og því hefði hann reynt að forðast þá.  Hann kvaðst því enga skýringu geta gefið á þeirri frásögn meðákærðu um að hann hefði átt hlut að líkamsárásinni gegn sýslumannsfulltrúanum.  Hann kvaðst hins vegar hafa heyrt af því að meðákærðu hefðu stundað það að beita fólk fjárkúgun í stórum stíl og sagði nánar um það: „...og það átti að gera það við mig... þeir hringdu og djöfluðust í mér og ég held að þetta (verknaðurinn) hafi bara verið gert í einhverju annarlegu ástandi hjá þeim... og svo er gott að kenna einhverjum um og krefjast greiðslu í staðinn.“

Við aðalmeðferð máls þessa fyrir dómi áréttaði ákærði neitun sína.  Hann skýrði þá frá því að hann hefði fyrst haft kynni af meðákærða C í október 2014 vegna eigin kaupa hans á læknadópi, en hann kvaðst hafa þekkt til meðákærða Tómasar Helga í enn skemmri tíma.  Hann lýsti kynnum sínum af meðákærðu nánar þannig að hann hefði farið á fyllirí með þeim í tvö eða þrjú skipti, og sagði að á slíkum stundum hefðu þeir rætt ýmislegt saman.  Um þær samræður og um sakarefni 5. tl. II. kafla ákærunnar sagði hann nánar; „...Það var svona ýmislegt sagt eins og gengur og gerist í fylliríi... ég var ekkert að biðja um þetta og ég hef aldrei látið þá hafa pening og þeir hafa aldrei kúgað mig eða beðið mig um pening... Ég lofaði þeim aldrei greiðslu, það var talað bara um þetta í einhverju svona gríni... þeir hafa heldur ekkert verið að ofsækja mig eða rukka mig fyrir eitt eða neitt... þetta er bara einn allsherjar misskilningur og fyllerísrugl, eitthvað sem að fór bara úr böndunum því miður. ...  Svo getur verið kannski að þeir hafi eitthvað orðið hálf reiðir náttúrulega að lenda í steininum og kannski fúlir að fá ekki pening og vísa kannski svolítið svona á mig, ég get nú trúað að það sé svona hluti af skýringunni... ég man bara það að við vorum eitthvað að ræða þetta svona meira í gríni heldur en í alvöru... í eitt, tvö, þrjú skipti... þetta var bara umræðan sem var í bílnum á milli okkar allra þriggja... röfla einhverja vitleysu og einhver sagði eitthvað í einhverju gríni... ég bara satt að segja man ekki nákvæmlega hver sagði hvað, en það gæti hugsanlega hafa verið eitthvað svoleiðis en það var þó ekki meint... hefði ég ætlað að láta gera þetta... ég hefði bara gert það sjálfur, ég hefði ekki þurft að fá neinn til þess að gera þetta fyrir mig... og þeir stukku af stað í einhverju dópæði... þetta er bara misskilningur út af fylliríi og einhverju rugli og fer bara í tóma steypu.“

Ítrekað aðspurður og eftir að hafa verið kynnt sérstaklega frásögn meðákærða C um að hann hefði haft vilja til að gera áðurnefndum lögreglustjórafulltrúa mein, svaraði ákærði: „Já já það getur vel verið, það hefur þá verið sagt í fylliríi og ekki meinað eitt eða neitt.  Ef að maður er fullur og illa fyrirkallaður þá kannski man maður ekki endilega nákvæmlega hvað maður segir... það getur hugsanlega hafa verið eitthvað svoleiðis, en það var þó ekki meint.“

Ákærði Garðar bar fyrir dómi að hann hefði ekkert átt sökótt við nefndan fulltrúa, enda þótt að hann hefði komið að sakamálum hans í starfi sínu.  Hann sagði að það sama hefði átt við um meðákærðu og vísað hann til þess að þeir hefðu ekki verið 100% sáttir við verk fulltrúans og þá ekki frekar en margir aðrir.  Aðspurður hvort að hann hefði haft orð á því við meðákærðu að hann hefði vilja til þess að láta taka fulltrúann úr umferð kvaðst hann ekki minnast þess, en sagði; „..ég ætla ekkert að sverja fyrir, að ég man ekki nákvæmlega þegar að ég er fullur... ég á enga sérstakra harma að hefna við hann.“  Ákærði sagði það hugsanlegt að meðákærðu hefðu tekið orð hans mun alvarlegar en hann hefði meint.

Um atvik máls aðfaranótt miðvikudagsins 12. nóvember 2014 áréttaði ákærði Garðar að hann hefði þá verið á heimili sínu í Vaðlabyggð, gegnt Akureyri, en verið ,,ölvaður og ruglaður“.  Hann sagði að kvöldið áður, þ.e. þriðjudagskvöldið 11. nóvember, hefði meðákærði C hringt í hann og sagði að þeir hefðu þá afráðið að hittast, en bar að tilefnið hefði verið kaup hans á einhverjum töflum og landa.  Hann sagði að þá um nóttina hefðu meðákærðu C og Tómas Helgi báðir komið á heimili hans.  Hann kvaðst ekki muna nákvæmlega hvað þeim fór þá á milli, en kannaðist við að hafa farið með þeim frá heimili sínu í leigubifreið.  Og um samskipti sín við meðákærðu og umrædda ferð sagði hann: „...ég kannski var í raun og veru aldrei búinn að biðja um þetta í raun og ég verð náttúrulega hálf hvumpinn þegar þeir koma þarna og vissi ekkert nákvæmlega hvað ég átti að gera og hérna fer með þeim... niður í Brekkugötu og við fórum á eitthvert fyllirí þar og ég fór í hraðbankann og keypti af þeim eitthvað meira, einhverjar töflur og eitthvað dóp, og ég hef aldrei borgað þeim peninga fyrir þetta, þeir hafa aldrei beðið mig um það.“  Nánar skýrði ákærði frá því að hann hefði í umrætt sinn lagt leið sína í hraðbanka Landsbankans, en hann hefði þá ætlað taka út peninga til þess að geta keypt fleiri pillur af meðákærðu.  Hann sagði að úttekt hans hefði ekki tekist, en bar að því gæti vel verið að hann hefði látið meðákærða Tómas Helga hafa greiðslukortið, enda þótt að hann myndi ekki vel eftir því.  Hann kannaðist ekki við að hafa verslað í [...] né annars staðar í miðbænum, en minntist þess að hafa sofnað við eldhúsborðið í íbúð meðákærða Tómasar Helga að Brekkugötu 7, eftir að hann kom þangað og ætlaði helst að hann hefði áður tekið inn eina e-töflu.

Ákærði Garðar skýrði frá því fyrir dómi að er atvik máls þessa gerðust hefði hann átt útistandandi ógreidd verktakalaun.  Hann staðfesti að öðru leyti efni þeirra skýrslna sem hann hafði gefið hjá lögreglu 14. og 25. nóvember, með þeim leiðréttingum sem hann hefði gefið fyrir dómi.

Ákærði C viðurkenndi skýlaust fyrir dómi sakargiftir samkvæmt 5. og 6. tl. II. kafla ákæru og játaði alfarið verknaðarlýsingu ákæruliðanna.  Um nánari atvik máls vísaði hann ítrekað til áðurrakinna yfirheyrsluskýrslna, sem hann hafði gefið hjá lögreglu, sem hann staðfesti.  Ákærði áréttaði m.a. að hann hefði kynnst meðákærða Garðari nokkrum mánuðum fyrir lýsta atburði og sagði að samskiptin hefðu m.a. varðað fíkniefnasölu  og að vegna þeirrar starfsemi hans hefðu þeir m.a. verið í símasamskiptum.  Ákærði sagði að er þetta gerðist hefði hann sjálfur verið fíkniefnaneytandi.

Ákærði C greindi fyrir dómi frá tildrögum þess að sú aðför var gerð að fulltrúanum og að eigum hans, sem lýst er í nefndum ákæruliðum ákæru.  Hann sagði aðdragandinn hefði verið með þeim hætti að meðákærði Garðar hefði nefnt það við hann nokkrum sinnum áður en aðförin var gerð að vilji hans stæði til þess að fulltrúanum yrði gert mein.  Hann kvaðst helst hafa skilið orð Garðars á þann veg að tilefnið fyrir þessari beiðni hans væru einhverjar óuppgerðar sakir hans við fulltrúann, en lýsti orðræðunni nánar þannig: „...hann (Garðar) var margoft búinn að biðja mig um að finna einhvern í þetta verk, það var á þessu ári, ég man ekki vel, gæti hafa verið fyrir fjórum, fimm mánuðum, sem að hann spurði fyrst um þetta.  Hann vildi bara láta þetta verða gert.  Ég sagði alltaf að ég mundi hugsa þetta, það varð aldrei neitt úr þessu... ég leiddi þetta alltaf hjá mér af því að ég hafði engan áhuga á að gera þetta.  Svo bara á þessum tímapunkti þá var ég í miklu rugli og vantaði pening.“  Ákærði C staðhæfði að meðákærði Garðar hefði m.a. minnst á málefni fulltrúans er þeir voru saman í bifreið ásamt meðákærða Tómasi Helga um miðnættið þann 12. nóvember sl.  Hann sagði að er þetta gerðist hefðu þeir allir verið undir áhrifum vímuefna og því í annarlegu ástandi.  Vegna orða ákærða Garðars fyrir dómi um að meðákærðu, þ.e. hann og Tómas Helgi, hefðu eftir atvikum misskilið orð hans um verkbeiðni hans gagnvart fulltrúanum og hann hefði þá jafnframt verið að grínast sagði ákærði C: „Kannski var alvarleiki hans (Garðars) ekki jafn mikill og ég hélt.“  Hann áréttaði í því sambandi einnig fyrri frásögn sína um að fyrir umrædda ökuferð hefði meðákærði Garðar margoft verið búinn að orða verkbeiðnina, en að auki lofað greiðslu fyrir slíkan verknað.  Ákærði kvaðst því að lokum hafa fallist á þessa beiðni hans og áréttað að þegar það gerðist hefði hann vanhagað um peninga fyrir kaupum á fíkniefnum  og sagði; „Peningarnir hljómuðu bara vel í mínum eyrum og ég bara lét vaða á það.“  Ákærði tók fram að hann hefði ekkert átt sökótt við nefndan fulltrúa.

Ákærði C sagði að eftir að hann og meðákærði Tómas Helgi höfðu fallist á verkbeiðni ákærða Garðars hefðu þeir látið hendur standa fram úr ermum og í framhaldi af því framkvæmt þá háttsemi sem lýst er í 5. og 6. tl. II. kafla ákærunnar.  Hann lýsti að öllu leyti atvikum í samræmi við áðurrakta frásögn sína hjá lögreglu.  Þá kvaðst hann eftir háttsemina hafa farið ásamt meðákærða Tómasi Helga til ákærða Garðars í þeim tilgangi að fá verklaunin greidd en er það hefði ekki gengið eftir sagði hann að þeir hefðu allir farið saman til Akureyrar og þá helst í þeim tilgangi að halda áfram skemmtun sinni.  Hann kvaðst um síðir hafa sofnað í íbúð meðákærða Tómasar Helga, að Brekkugötu 7, í miðbæ Akureyrar.  Ákærði sagði að þegar til kom hefði hann aðeins fengið lítinn hluta verklaunanna greiddan frá meðákærða Garðari og nefndi í því sambandi 15.000 krónur.  Hann kvaðst aldrei hafa haft uppi hótanir við meðákærða Garðar vegna vanefnda hans.

Fyrir dómi lýsti ákærði ítrekað yfir iðran vegna brota sinna.  Þá gerði hann grein fyrir breyttum högum sínum hin síðustu misserin og lagði  fram gögn því til staðfestu.

Ákærði Tómas Helgi Jónsson játaði fyrir dómi skýlaust sakargiftir samkvæmt 5. og 6. tl. II. kafla ákæru og staðfesti jafnframt efni áðurrakinna yfirheyrsluskýrslna sinna hjá lögreglu.  Hann greindi frá því fyrir dómi að hann hefði þekkt vel til meðákærða C er atvik máls gerðust, en aftur á móti haft lítil kynni af meðákærða Garðari er hann hitti hann um miðnættið þann 12. nóvember 2014.  Ákærði sagði að umrætt kvöld eða nótt hefði meðákærði Garðar boðist til að greiða honum og meðákærða C 500.000 krónur ef þeir vildu taka það verkefni að sér að veitast að F sýslumannsfulltrúa og sagði:  ,, ..hann (Garðar) bauð okkur upphaflega fjárhæð ef við mundum hræða eða meiða F ..“.  Ákærði kvaðst er þetta gerðist hafa verið í miklum peningavandræðum vegna eigin neysluskulda og staðhæfði að hann hefði af þeim sökum óttast innheimtuaðgerðir tiltekins vélhjólagengis.  Og vegna nefnds verktilboðs meðákærða Garðars og eigin stöðu kvaðst hann hafa ákveðið að taka tilboðinu gegn greiðslu.  Nánar aðspurður fyrir dómi sagði ákærði að vel gæti vel verið að hann hefði fyrst heyrt af verkbeiðni Garðars frá meðákærða C, þ.e. áður en hann hlýddi á tilboð hans sjálfs um miðnættið þann 12. nóvember nefnt ár.  Hann kvaðst hafa ályktað eftir að hafa hlýtt á orðræðu meðákærða Garðars að tilefnið fyrir beiðni hans tengdist helst máli sem sýslumannsfulltrúinn hefði verið með á sinni könnu í starfi sínu og að það hafi varðað meðákærða Garðar og fyrrverandi konu hans, og þá þannig að fulltrúinn hefði á einhvern hátt farið rangt að í verkum sínum.  Ákærði kvaðst sjálfur engan kala hafa borið til fulltrúans enda þótt hann hefði um árabil haft viðvarandi kynni af honum vegna eigin sakamála.  Við lok aðalmeðferðarinnar var ákærði Tómas Helgi inntur eftir því hvort að verið gæti að hann hefði misskilið orð meðákærða Garðars umrædda nótt að því er varðaði verkbeiðni hans gagnvart fulltrúanum.  Var honum kynntur framburður hans og þar á meðal að um einhvers lags grín orðræðu hefði verið að ræða.  Ákærði svaraði því til að þetta gæti verið rétt og áréttaði að hann hefði verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna er hann hlýddi á orð ákærða Garðars, en sagði:  ,,.. það var rætt um allskonar hluti þarna ...  það getur meira en vel verið að hann (Garðar) hafi bara rætt um þetta í einhverju léttu gríni sko .. ég hef bara túlkað þetta eitthvað öðru vísi bara ...“

Fyrir dómi lýsti ákærði Tómas Helgi atvikum máls eftir hann hafði samþykkt að taka að sér umrætt verk fyrir meðákærða Garðar, líkt og meðákærði C, í aðalatriðum á sama veg og hann hafði áður gert hjá lögreglu og hér að framan var rakið.  Hann kvaðst þannig nær strax hafa rætt um framkvæmd verksins við meðákærða C, án viðveru Garðars, og bar að þeir tveir hefðu ákveðið framkvæma það strax umrædda nótt og það síðan gengið eftir.  Hann staðhæfði að við verknaðinn gagnvart fulltrúanum hefði hann ávallt haft í huga að hann hlyti ekki alvarlega áverka.  Vegna þessa hefði hann við undirbúning verksins vafið tusku um það átaksskaft, sem hann síðar beitti gegn fulltrúanum.  Hann sagði að íkveikjuna í bifreið fulltrúans hefði hann ákveðið að gera ásamt meðákærða C, og því án samráðs, vitneskju eða samkvæmt beiðni meðákærða Garðars.  Um ástæðu þessa síðastgreinda verknaðar hafði hann svofelld orð; ,, ... ákváðum bara að gera minna úr þessu heldur en hann (Garðar) bað um, svo þegar við vorum búnir að fara heim til F þá ákváðum við að kveikja í bílnum af því við vildum ekki meiða hann og hann meiddist ekki, svo þetta mundi líta betur út eins og við hefðum gert eitthvað.“

Ákærði Tómas Helgi staðhæfði fyrir dómi að hann og meðákærði C hefðu í raun staðið saman að líkamsárásinni gegn fulltrúanum, líkt og að íkveikjunni í bifreið hans, og sagði: ,,Þetta var bara gert í einhverjum hita leiksins...“.  Hann sagði að við verknaðina hefðu þeir hagað verkinu sínum með þeim hætti sem hann hefði áður greint frá við skýrslugjöf hjá lögreglu.  Þannig hefði meðákærði C annast akstur bifreiðar, en eftir það verið á varðbergi nærri lögreglustöðinni.  Ákærði kvaðst hins vegar hafa veist að fulltrúanum með átaksskaftinu, en að því leyti hefði hans hlutur verið öllu meiri.

Ákærði sagði að er atvik þessi gerðust hefði hann verið undir miklum fíkniefnaáhrifum og ætlaði að það sama hefði gilt um meðákærðu, C og Garðar.  Hann sagði að er hin lýsta háttsemi var um garð gengin hefði hann farið ásamt ákærða C og hitt meðákærða Garðar á heimili hans, enda hefðu þeir þá ætlað að heimta fyrrgreinda peningafjárhæð, sem hann hafði lofað þeim.  Hann sagði að þegar til kom hefði orðið minna um efndir af hálfu Garðars og bar að hann hefði aðeins fengið í sinn hlut ,,smábrot“ af greiðslunni eða um 50.000 krónur.  Því til viðbótar kvaðst hann hafa fengið heimild meðákærða Garðars til þess að nota greiðslukort hans til verslunarkaupa á Akureyri, eftir að þeir höfðu dvalið stutta stund á heimili hans og bar að þar hefðu þeir haldið áfram að ,,djamma og sukka“.  Um nánari atvik máls vísaði ákærði til áðurrakinna yfirheyrsluskýrslna hjá lögreglu, sem hann staðfesti.

Ákærði Tómas Helgi staðhæfði fyrir dómi hann hefði ekkert átt sökótt við meðákærða Garðar og áréttaði að hann hefði í raun ekkert þekkt til hans þegar atvik máls þessa gerðust.  Hann sagði að verið gæti að hann hefði á síðari stigum hringt til hans og ógnað honum, en bar að það hefði þá verið vegna vanefnda hans á greiðslu áðurgreindra verklauna.  Fyrir dómi lýsti ákærði yfir iðran vegna gjörða sinna.

Vitnið F, fæddur [...], kom fyrir dóminn og bar að hann hefði verið á heimili sínu, [...], aðfaranótt 12. nóvember 2014.  Hann sagði að daginn áður hefði hann verið í aðgerð hjá tannlækni og vegna verkja ekki getað sofið fyrrihluta nætur og því tekið verkjalyf.  Hann kvaðst hafa vaknað um klukkan 3 umrædda nótt við það að bankað var á útidyrahurðina og þar sem hann hefði ætlað að sonur hans væri að koma heim hefði hann opnað hurðina.  Hann sagði að vegna aðstæðna hefði hann staðið talsvert ofar í dyragættinni en aðkomumaðurinn, en hann kvaðst strax hafa veitt því eftirtekt að hann var grímuklæddur.  Hann sagði að um leið og hann opnaði útidyrahurðina hefði aðkomumaðurinn slegið til hans með einhverju áhaldi, en hann þá jafnframt heyrt hvin og séð blika á áhald.  Hann kvaðst strax hafa náð að loka hurðinni og læsa.  Hann kvaðst á verknaðarstundu ekki hafa gert sér grein fyrir því að hann hefði orðið fyrir áverkum á vinstri hendi vegna barsmíðarinnar.  Bar hann að það hefði í raun verið fyrst um kvöldið, sem hann hefði séð mar á framhandleggnum.  Vegna þessa hefði hann leitað til læknis á sjúkrahúsi, en við skoðun hefði þá einnig komið í ljós lítill áverki á litla fingri vinstri handar.

Vitnið F kvaðst í greint sinn hafa veitt því eftirtekt að aðkomumaður hljóp á brott eftir að hann hafði slegið frá sér með áðurgreindum hætti.  Hann kvaðst á verknaðarstundi ekki fyllilega hafa áttað sig á atburðarrásinni og vísaði þar um helst til fyrrnefnds svefnleysis og áhrifa verkjalyfjanna.  Hann kvaðst því eftir þessa næturheimsókn hafa lagst til hvílu, en síðan farið að hugleiða atvik máls frekar og því verið vakandi þegar sprenging varð utan við heimili hans.  Hann kvaðst strax hafa gætt að þessu og þá séð að fólksbifreið hans, [...], árgerð [...], var í ljósum logum á bifreiðastæðinu og þá strax hringt eftir aðstoð. Vitnið kvaðst um árabil hafa starfað sem fulltrúi hjá sýslumanns- og lögreglustjóraembættinu [...] og bar að verksvið hans hefði einkum varðað saksókn sakamála og eftirlit með rannsóknaraðgerðum lögreglu.  Að auki kvaðst hann á árum áður hafa komið að innheimtumálum vegna opinberra gjalda.  Vegna þessara embættisverka kvaðst hann hafa þekkt til ákærða Garðars, en þá aðallega í tengslum við ítrekuð ölvunarakstursbrot hans hin síðustu misserin, en einnig vegna rannsóknar lögreglu á ætluð [...] hans.  Vegna síðast greinda málsins kvaðst hann hafa tekið ákvörðun um að ákærði Garðar sætti tímabundnu nálgunarbanni frá 6. mars 2013 gagnvart [...] og síðan fylgt því máli eftir fyrir dómi þar sem hann hefði krafist staðfestingar á ákvörðuninni.  Að auki kvaðst hann á árum áður hafa komið að innheimtumálum vegna fyrirtækjareksturs ákærða Garðars.  Hann kvaðst aftur á móti ekkert hafa þekkt til ákærða C og þá ekki þekkt hann í sjón.  Hann kvaðst hafa þekkt vel til ákærða Tómasar Helga og vísað til þess að hann hefði margoft sætt rannsóknum og ákærum á liðnum árum.  Hann kvaðst aldrei fundið fyrir óvild af hálfu ákærða Tómasar Helga í sinn garð.

Við rannsókn lögreglu gerði F lögreglustjórafulltrúi kröfu um að höfðað yrði sakamál á hendur ákærðu og að þeim yrði refsað fyrir brennu/eignaspjöll með vísan til 1. mgr. 144. gr. sakamálalaga nr. 88, 2008, sbr. 4. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, en bréf hans þar um er dagsett 19. mars 2015.

Vitnið L, fæddur [...], kom fyrir dóminn og bar að hann hefði síðustu misserin verið leigutaki á heimili ákærða Garðars Hallgrímssonar í Vaðlabyggð í Svalbarðsstrandarhreppi.  Hann kvaðst hafa verið sofandi á heimili þeirra aðfaranótt 12. nóvember 2014, en vaknað þá um morguninn og farið framúr og þá séð hvar ákærði Garðar var í viðræðum við tvo stráka í stofunni.  Hann kvaðst ekki hafa þekkt aðkomumennina og því ekki blandað sér í orðræður þeirra heldur farið út til að reykja.  Að því loknu kvaðst hann hafa farið aftur inn í húsið, en þá séð að ákærði Garðar og nefndir strákar voru að fara inn í leigubifreið, sem þá var komin að heimilinu.  Af þessu tilefni kvaðst hann hafa rætt stuttlega við ákærða Garðar, en bar að hann hefði þá sagt að ekki þyrfti hafa neinar áhyggjur af sér.  Hann kvaðst hafa veitt því eftirtekt að er þetta gerðist að á bifreiðastæðinu við heimilið var kyrrstæð fólksbifreið af gerðinni [...].

Vitnið sagði að umrædda nótt hefðu fyrrnefndir strákar verið áfjáðir í að komast til Akureyrar, en hann kvaðst hann hafa veitt því eftirtekt að ákærði Garðar var rólegur í fasi, en sýnilega mjög ölvaður.  Hann sagði að Garðar hefði komið aftur þeirra kvöldið eftir, en kannaðist ekki við að annar hinna fyrrnefndu stráka hefði komið aftur á heimilið umræddan morguninn og spurst fyrir um eða sótt veski ákærða Garðars.

Vitnið kvaðst hafa haft vitneskju um það er atvik máls þessa gerðust að ákærði Garðar átt inni ógreidd laun hjá fyrirtækinu [...] ehf. vegna starfa við [...].

Vitnið skýrði frá því að er atvik máls þessa gerðust hefði hann þekkt til F fulltrúa sýslumannsins á Akureyri, og staðhæfði að það hefði ákærði Garðar einnig gert.  Vísaði hann til þess að í maí nefnt ár hefði hann orðið vitni að því að ákærði Garðar ræddi málefni fulltrúans og staðhæfði að það hefði hann oft gert eftir það.  Hann sagði að um illmælgi hefði verið að ræða og vísaði til þess að ákærði Garðar hefði m.a. haft um það óbein orð að taka þyrfti fulltrúann úr umferð.  Hann sagði að ávallt þegar ákærði Garðar ræddi um málefni fulltrúans hefði hann verið undir áhrifum áfengis.  Hann kvaðst hafa ályktað að tilefni þessara orða hefði m.a. varðað fyrirtöku á einhverju tilteknu máli sem hefði verið í farvatninu og að ákærði Garðar hafi verið mjög ósáttur og litið svo á að nefndur fulltrúi hefði gert eitthvað á hlut hans.  Var það ætlan hans að málið hefði varðað  reksturs þess félags, sem ákærði Garðar hafði áður átt og rekið.

Vitnið K, fæddur [...], kvaðst hafa verið við akstur leigubifreiðar að morgni 12. nóvember sl., og bar að klukkan liðlega 6 hefði verið óskað eftir þjónustu að Vaðlabyggð 4, og hann þá sinnt erindinu.  Hann sagði að þarna hefðu átt hlut að máli ákærðu Garðar og Tómas Helgi, en ætlaði að með þeim hefði verið félagi ákærða Garðars, sem hann nefndi [...] (L). Hann kvaðst ekki hafa séð betur en að vel hefði farið á með öllum þessum aðilum.  Þeir hefðu þó verið fremur slapplegir, en sagði að það hefði ekki verið óvenjulegt á þessum tíma.  Að beiðni þeirra kvaðst hann ekið í miðbæ Akureyrar, þar sem þeir hefðu allir farið út úr bifreiðinni, en ákærði Tómas Helgi þá greitt fargjaldið.  Hann sagði að aðeins örfáum mínútum eftir brottför þessara farþega hans hefði hann fengið kall frá stjórnstöð bifreiðarstöðvarinnar, en í kjölfarið fengið fyrirspurn um hvort að veski ákærða Garðars hefði orðið eftir í bifreiðinni.  Hann kvaðst strax hafa gætt að því en ekki fundið veskið og tilkynnt það stjórnstöðinni.

M rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn og staðfesti rannsóknargögn máls þessa.  Hann lýsti rannsókninni og öllum rannsóknaraðgerðum.  Hann greindi m.a. frá því að ákærðu Tómas Helgi og C hefðu strax eftir handtökur verið vistaðir í fangaklefa og þannig verið skildir að.  Þeir hefðu því ekki haft tækifæri til að samræma framburð sinn við þær yfirheyrslur sem á eftir fylgdu.  Hann kvaðst hafa metið það svo að frásögn ákærðu Tómasar Helga og C um atvik máls, m.a. 11. og 12. nóvember 2014, hefði í öllum aðalatriðum verið samhljóða.  Þá hefði frásögn þeirra verið í samræmi við önnur rannsóknargögn málsins, m.a. ljósmyndir og síma- og bankagögn.  Hann sagði að ákærði Garðar hefði greinilega verið eftir sig vegna áfengisdrykkju er hann gaf vitnaskýrslu á heimili sínu við upphaf lögreglurannsóknar þann 13. nóvember sl., en staðhæfði að hann hefði þá verið hæfur til skýrslutöku og sagði að ef svo hefði ekki verði hefði skýrslutakan aldrei farið fram.

C

Niðurstaða.

Ákærukafli I., liður 1., 2., 3. og 4.

Samkvæmt 1. tölulið ákærukaflans er ákærðu B, A og Tómasi Helga gefið að sök tilraun til fjárkúgunar samkvæmt 251. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 með því að hafa að kveldi 29. apríl 2014 reynt að hafa fé af D á heimili hans að [...] í [...].

Nánar er háttsemi ákærðu lýst þannig að þau hafi hótað að senda til brotaþola menn í því skyni að beita hann ofbeldi og bera á hann rangar sakir um kynferðisbrot. Með þessum hætti hafi þau fengið hann til að millifæra eina milljón króna af bankareikning sínum inn á bankareikning ákærðu B í gegnum heimabanka en sú aðgerð hafi í raun ekki gengið eftir.

Ákærða B hefur við alla meðferð málsins fyrir dómi, en áður hjá lögreglu, játað sök að því er varðar sakarefni nefnds ákæruliðar.  Ákærðu A og Tómas Helgi hafa á hinn bóginn báðir neitað sök varðandi þennan ákærulið.  Vísa þeir í vörn sinni einkum til þess, að þeir hafi ekki haft ásetning til verknaðarins.

Fyrir dómi, líkt og við rannsókn málsins hjá lögreglu, hafa ákærðu öll lýst ökuferð sinni að kveldi þriðjudagsins 29. apríl 2014 frá Akureyri til býlis brotaþola í [...]. Að virtum framburði ákærðu verður lagt til grundvallar að tilefni ferðar þeirra hafi á verknaðarstundu verið einhvers konar fjárhagslegt uppgjör vegna þess sakamáls sem höfðað hafði verið gegn brotaþola og lokið var með dómi árið [...], líkt og vikið var að hér að framan.

Óumdeilt er að ákærðu voru öll undir áhrifum fíkniefna er atvik máls gerðust.  Ákærðu hafa vegna ástands síns borið við nokkru minnisleysi um gjörðir sínar á heimili brotaþola, en hafa um atvik helst vísað til áðurrakinnar hljóðupptöku úr hljóðskrá síma um þá orðræðu sem þar átti sér stað.  Ákærðu staðfestu efni upptökunnar fyrir dómi. 

Af hljóðupptökunni verður ráðið að orðræðan af hálfu ákærðu hafi á köflum verið tilfinningaþrungin og hávaðasöm, en að auki hafi er atvik gerðust verið barið í eldhúsborð sem brotaþoli sat við er hann átti í samskiptum við ákærðu.  Til þess ber að líta hljóðskráin geymir aðeins hluta af þeim samskiptum sem urðu með ákærðu og brotaþola í greint sinn.

Fyrir liggur að brotaþoli var einn fyrir á heimili sínu er ákærðu bar að garði.  Hann var þá [...] ára að aldri.  Fyrir dómi hefur brotaþoli sagt að hann hafi við komu ákærðu ekki þekkt þau, en jafnframt borið um að þau hafi þá strax krafið hann um greiðslu peninga. Óumdeilt er að ákærði Tómas Helgi var við komu að heimilinu með lambhúshúfu á höfði.

Af frásögn ákærðu verður ráðið að brotaþoli hafi fljótlega eftir komu þeirra boðið ákærðu B inn á heimili sitt, en að þá strax hafi meðákærðu Tómas Helgi og A fylgt henni eftir.  Er óumdeilt að eftir það sat brotaþoli í eldhúsi íbúðarhússins þar sem hann átti orðastað við ákærðu um fjárkröfu þeirra.  Af framburði ákærðu verður helst ráðið að þau hafi að mestu haldið til í eldhúsinu hjá brotaþola, en að þau hafi þó einnig farið um öll húsakynni hans, þó einkum ákærðu B og Tómas Helgi.

Fyrir dómi hefur brotaþoli staðhæft að hann hafi vegna atgangs og hótana ákærðu fallist á að reiða af hendi fjármuni til ákærðu B og nefndi hann í því sambandi 500.000 krónur.  Þá sagði hann að ákærðu hefðu farið í heimilistölvu hans þegar millifæra átti fjárgreiðsluna.  Að áliti dómsins hefur frásögn brotaþola í heild verið staðföst og trúverðug, en hann lýsti atvikum máls fyrst við komu lögreglu á vettvang að morgni 30. apríl 2014.

Af gögnum verður ráðið að ákærðu hafi komið á heimili brotaþola umrætt kvöld um kl. 20, en farið þaðan nokkru eftir kl. 21.  Fyrir liggur að fyrrgreind millifærsluaðgerð í heimabanka brotaþola, á einni milljón króna, yfir á bankareikning ákærðu B, var reynd kl. 21:11.

Fyrir dómi játaði ákærða B skýlaust sök, en einnig verknaðarlýsingu nefnds ákæruliðar.  Hún hefur lýst því að er atvik gerðust hafi hún, auk vímuáhrifa, verið mjög reið og æst í samskiptum sínum við brotaþola.  Hún kvaðst hafa séð óttamerki á brotaþola, en bar einnig að það hafi verið augljóst á verknaðarstundu að hann hafi verið ósáttur við veru hennar og meðákærðu í húsakynnum hans og ennfremur við þá fjárkröfur sem þau hefðu haft uppi, en vísaði um nánari atvik að nokkru til minnisleysis.  Þá sagði hún að undir lok veru þeirra í húskynnum brotaþola hafi þau tekið af skarið um hvað væru ásættanlegar bætur henni til handa.  Fyrir dómi staðfesti ákærða jafnframt efni margnefndrar hljóðskrár og þar á meðal að brotaþoli hafi verið beittur þeim hótunum sem greint er frá í þessum ákærulið ákæru.

Ákærði Tómas Helgi hefur fyrir dómi lýst aðdraganda þess að hann fór á heimili brotaþola með líkum hætti og meðákærða B, en hann staðhæfði jafnframt að ferðina hafi hann farið vegna samúðar við hana.  Þá bar hann á sama veg og hún um að við komu að heimili brotaþola hafi hann borið lambhúshúfu á höfði og að hann hafi fylgt meðákærðu B eftir er hún þáði boð brotaþola að koma inn til viðræðna við hann á heimilinu.  Ákærði sagði að hann hefði veitt því eftirtekt að brotaþoli var ekki sáttur við viðveru þeirra á heimilinu og þá ekki við þá fjárkröfu sem þau héldu fram gegn honum.  Þá kvaðst hann hafa ályktað af viðbrögðum brotaþola eftir að þau fóru inn í húsakynni hans að honum stæði ógn af veru þeirra.  Ákærði játaði að í þeim orðaskiptum sem á eftir hefðu fylgt hefði brotaþola verið hótað.  Nefndi hann sérstaklega áburð um kynferðisbrot gegn ákærðu B þar á vettvangi sem þau myndu síðar tilkynna og bera vitni um hjá lögreglu.  Ákærði bar að hann hefði undir lokin tekið af skarið um lyktir lýsts erindis þeirra og þá þannig að brotaþoli ætti að greiða skaðabætur að fjárhæð ein milljón króna.  Í framhaldi hefði hann komið að því verki að millifæra fjárhæðina í heimabanka brotaþola yfir á bankareikning meðákærðu B, eins og lýst er í ákæru.

Ákærði A hefur fyrir dómi lýst aðdraganda þess að hann fór á heimili brotaþola með líkum hætti og meðákærðu, en bar að fyrir ferðina hafi honum verið kunnugt um að það var vilji meðákærðu B að krefja brotaþola um bætur vegna misgjörða hans mörgum árum fyrr.  Hann sagði að það hafi og verið ætlan hans að fá fram játningu brotaþola á brotum hans á árum áður enda ekki, líkt og meðákærði Tómas Helgi, haft vitneskju um lyktir dómsmálsins frá árinu [...].

Ákærði A hefur fyrir dómi borið að vegna þeirra vímuefnaáhrifa sem hann var undir í greint sinn, treysti hann sér ekki til að greina frá þeirri orðræðu sem varð á heimili brotaþola.  Hann kannaðist þó við að hafa tekið þátt í henni, a.m.k. í fyrstu og sagði að hann hefði á köflum orðið nokkuð æstur í skapi.  Hann kvaðst um síðir hafa staðið hjá, en fylgst með orðræðu meðákærðu og brotaþola og staðhæfði að það hafi í raun verið vilji hans að farið yrði að óskum meðákærðu B um greiðslu skaðabótanna.

Ákærði A hefur við meðferð málsins neitað því að hafa hótað brotaþola með þeim hætti sem lýst er í þessum ákærulið, en þess stað borið að þar hafi meðákærðu átt hlut að máli.  Fyrir dómi staðfesti ákærði efni áðurnefndrar hljóðskrár.  Hann kannaðist þannig við hafa sagt við brotaþola er atvik máls áttu sér stað, að hann gæti átt von á öðru fólki næst og að við slíkar aðstæður hefðu hvorki hann né meðákærðu tök á því að stöðva þann framgang sem þá yrði.  Að auki kvaðst hann hafa verið viðstaddur þegar meðákærðu höfðu á orði við brotaþola að þau myndu bera á hann rangar sakir um kynferðisbrot gegn ákærðu B.  Þá kvaðst hann hafa verið viðstaddur þegar fyrrnefnd millifærsluaðgerð var framkvæmd.  Er atvik gerðust á heimili brotaþola kvaðst hann hafa veitt því eftirtekt að brotaþoli var skelkaður.

Samkvæmt 251. gr. hegningarlaganna skal sá sæta refsingu allt að 6 ára fangelsi, sem hefur fé af öðrum með því að hóta manni að beita hann eða nána vandamenn hans líkamlegu ofbeldi, svipta hann eða þá frelsi, eða að hafa uppi rangan sakburð um refsiverða eða vansæmandi háttsemi hans eða náinna vandamanna hans, eða annan slíkan sakburð, þótt sannur sé, ef nauðungin á ekki nægilegan rétt á sér vegna málefnis þess, er hótunin beinist að, eða loks með því að hóta honum að valda verulegum skemmdum eða eyðileggingu á eignum hans.

Efni áðurgreindrar hljóðskrár úr síma ákærða A hefur hér að framan verið rakið, eins og það var ritað upp af rannsóknaraðilum.  Þá var efnið að hluta til spilað fyrir dómi og staðfestu ákærðu öll það sem þar kom fram.

Eftir að hafa hlýtt á hljóðupptökuna liggur fyrir að mati dómsins að ákærðu tóku öll þátt í orðræðunni við brotaþola eftir að á þau komu inn á heimili hans.  Verður ráðið að þau hafi að mestu haft orðið í rökræðum sínum og rifrildi við brotaþola í greint sinn.  Orðræða ákærðu var á köflum hávaðasöm og tilfinningaþrungin, en að auki var oftar en einu sinni barið fast í eldhúsborðið, eins og fyrr var lýst.

Af gögnum verður helst ráðið að ákærðu hafi haldið til á heimili brotaþola í a.m. k. á aðra klukkustund.  Verður lagt til grundvallar að undir lok veru þeirra hafi ákærði Tómas Helgi tekið af skarið um upphæð fjárkröfunnar og að hann hafi í framhaldi af því farið ásamt brotaþola í heimilistölvuna og framkvæmt þá millifærsluaðgerð sem um ræðir.  Samkvæmt frásögn meðákærðu B og A voru þau nærstödd er þessa gerðist.  Verður ráðið að eftir þessa aðgerð hafi ákærðu horfið á braut í nokkurri skyndingu úr húsakynnum brotaþola, en hann þá setið einn eftir uns dætur hans litu til hans að morgni næsta dags.

Að ofangreindu virtu og með skýlausri játningu ákærðu B er hún sönn að sök að því er varðar þá háttsemi sem lýst er í 1. tölulið I. kafla ákærunnar.  Þegar játning ákærðu B og frásögn brotaþola eru virt ásamt rannsóknargögnum, þ. á m. fyrrnefndri hljóðskrá, er að mati dómsins ekki varhugavert að leggja til grundvallar að ákærðu Tómas Helgi og A hafi með orðræðu sinni og framgöngu allri eftir að þeir komu í húsakynni brotaþola gerst sekir um þá háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið, hvor með sínum hætti, og að í raun hafi verið um samverknað að ræða með meðákærðu B, enda þótt tilgangur þeirra í upphafi ferðar hafi eftir atvikum verið annar.  Að því leyti verður m.a. litið til áðurgreindra aðstæðna og þar á meðal að atvik gerðust að kvöldlagi og að ákærðu áttu í samskiptum við aldraðan mann, sem var einn á heimili sínu.  Að þessu virtu er það niðurstaða dómsins að þau hafi öll beitt brotaþola fjárkúgun.

Óumdeilt er að millifærsluaðgerð ákærðu tókst ekki í raun og er því háttsemi þeirra réttilega heimfærð í ákæru til 251. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Ákærða B hefur fyrir dómi játað þá háttsemi sem lýst er í 2. tl. I. kafla ákæru.  Eins og áður hefur verið rakið bar ákærða B að nokkru við minnisleysi um gjörðir sínar þann tíma sem hún hafðist við á heimili brotaþola.  Brotaþoli hefur greint frá því að ákærða B hafi, líkt og meðákærðu, farið um heimili hans.  Hann staðhæfði jafnframt að hún hefði tekið heimilismuni hans og sett þá í vasa sína.  Að mati dómsins er þessi frásögn brotaþola trúverðug, en hún hefur einnig stoð í frásögn meðákærðu A og Tómasar Helga.

Við frumrannsókn lögreglu kom í ljós við leit í tösku ákærðu B tveir hnífar sem tilheyrðu innbúi brotaþola, en einnig greiðslu- og afsláttarkort hans.  Þá fann lögreglan í bifreið sem ákærðu höfðu farið ferðir sínar í, tvær fjarstýringar og bensínkort.  Fundust fjarstýringarnar í vasa aftan við hægra aftursætið, en kortið í hanskahólfinu.

Fyrir dómi hafa meðákærðu A og Tómas Helgi alfarið neitað sök að þessu leyti, en sá fyrrnefndi hefur jafnframt lýst meðferð ákærðu á fatnaði brotaþola.

Að ofangreindu virtu er að áliti dómsins sök ákærðu B nægjanlega sönnuð og varðar háttsemi hennar við 245. gr. almennra hegningarlaga.

Gegn neitun ákærðu A og Tómasar Helga og að ofangreindu virtu hefur ákæruvaldið að mati dómsins ekki sannað sekt þeirra að því varðar sakarefni nefnds ákæruliðar.  Verða þeir því báðir sýknaðir af háttseminni.

Í 3. tölulið ákærukaflans eru ákærðu öll ákærð fyrir að hafa notað greiðslukort brotaþola í viðskiptum við áfengiskaup í [...] á [...], en um heimfærslu er vísað til fjársvikaákvæðis hegningarlaganna.

Óumdeilt er að eftir að ákærðu hurfu á braut frá heimili brotaþola, þriðjudagskvöldið 29. apríl 2014, óku þau sem leið lá til Akureyrar og lögðu leið sína í [...].  Liggur fyrir að þar var greiðslukort brotaþola notað tvívegis í viðskiptum.  Annars vegar var um að ræða viðskipti fyrir 37.200 krónur og hins vegar fyrir 2.160 krónur.

Fyrir dómi játaði ákærða B játað háttsemina, líkt og hún hafði áður gert hjá lögreglu, en um nánari atvik bar hún við minnisleysis vegna vímuefnaástands síns.  Meðákærðu A og Tómas Helgi báru á sama veg fyrir dómi og hún um greind viðskipti, en neituðu sök.

Við rannsókn málsins var frásögn ákærðu Tómasar Helga og A ekki að öllu leyti samhljóða og hafa þeir að nokkru leyti vísað hvorn á annan.  Þannig kvaðst ákærði Tómas Helgi fyrst haft vitneskju um að meðákærða A var með greiðslukort brotaþola eftir að hún hafði notað það við umrædd viðskipti.  Ákærði A bar að hann hefði fyrst séð meðákærðu Tómas Helga og B handleika greiðslukort brotaþola í bifreiðinni á leið þeirra til Akureyrar.  Hann kvaðst þá strax hafa aftekið með öllu að þau notuðu kortið í viðskiptum.  Og eftir að komið var í [...] kvaðst hann hafa tekið einn [...], en síðan brugðið sér frá um stund.  Þykir þessi síðastgreinda frásögn ákærða A hafa nokkra stoð í áðurnefndri ljósmynd, sem tekin var í öryggismyndavél, en á henni má sjá hvar ákærðu standa öll við afgreiðsluborð og að ákærði A heldur á sérútbúnu [...].  Ákærðu Tómas Helgi og A báru báðir að meðákærða B hefði tekið hina keyptu bjórdrykki með sér er þau yfirgáfu [...].  Þá kváðust þeir ennfremur ekki hafa neytt drykkjanna.

Að ofangreindu virtu er nægjanlega sannað að ákærða B hafi gerst sek um þá háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið.  Á hinn bóginn þykir með vísan til XVI. kafla laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála og gegn neitun ákærðu A og Tómasar Helga ekki alveg komin fram lögfull sönnun um sekt þeirra.  Verða þeir því sýknaðir af háttseminni.

Ákærðu A og Tómas Helgi hafa við alla meðferð málsins skýlaust játað sök að því er varðar þá háttsemi sem lýst í 4. tölulið ákærukaflans.  Ákærðu hafa þannig greint frá því, að sá fyrrnefndi hafi notað greiðslukort brotaþola við bensínkaup, en hinn síðarnefndi hafi notað það við tilgreind kaup á símainneignum.  Gögn málsins eru að mati dómsins í samræmi við játningar ákærðu og verða þeir sakfelldir fyrir þessa skiptu háttsemi, sem í öllum tilvikum varðaði við 244. gr. almennra hegningarlaganna.

Ákærukafli II., liður 5. og 6.

Samkvæmt 5. tölulið ákærukaflans er ákærðu Tómasi Helga, C og Garðari gefið að sök hafa í félagi brotið gegn valdstjórninni aðfaranótt 12. nóvember á síðasta ári með því að hafa veist að F fulltrúa lögreglustjórans á Akureyri með ofbeldi á heimili hans, eins og nánar er rakið í ákæruliðnum.  Um háttsemina er vísað til 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, en lagagreinin hljóðar svo:  Hver, sem ræðst með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi á opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu eða út af því, og eins hver sá, sem á sama hátt leitast við að hindra framkvæmd slíks starfa eða neyða starfsmanninn til þess að framkvæma einhverja athöfn í embætti sínu eða sýslan, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.  Ef brot samkvæmt þessari málsgrein beinist að opinberum starfsmanni, sem að lögum hefur heimild til líkamlegrar valdbeitingar, má beita fangelsi allt að 8 árum.  Beita má sektum, ef brot er smáfellt.

Háttsemi ákærðu Tómasar Helga og C er í ákæru nánar lýst í aðalatriðum á þann veg að hinn fyrrnefndi hafi farið að heimili nefnds fulltrúa umrædda nótt og beitt hann ofbeldi með því að slá í handlegg hans með átaksskafti þegar hann opnaði útihurðina með þeim afleiðingum að hann hlaut maráverka á vinstri framhandlegg og litla fingri vinstri handar.  Þætti ákærða C er aftur á móti lýst þannig að hann hafi er atvik gerðust ekið meðákærða Tómasi Helga í nágrenni við heimili fulltrúans vegna fyrrnefnds ætlunarverks, að hann hafi eftir það vaktað lögreglustöðina á Akureyri þannig að hann yrði þess var ef lögregla yrði kölluð út, en að afloknum verknaði meðákærða Tómasar Helga sótt hann þar sem hann var nærri vettvangi, nánar tiltekið við [...] í [...].  Því er og lýst í ákæruliðnum að ákærðu Tómas Helgi og C hafi síðar umrædda nótt farið á heimili meðákærða Garðars í því skyni að fá laun sín greidd fyrir verknaðinn gegn lögreglufulltrúanum, líkt og hann hafði heitið þeim, en með þeim árangri sem nánar er rakin.

Með skýlausum játningum ákærðu C og Tómasar Helga, sem er í samræmi við ítarleg rannsóknargögn lögreglu, er að mati dómsins lögfull sönnum fyrir því komin að þeir tveir hafi í félagi og eftir undirbúning, en síðan með verkskiptum hætti farið að heimili fulltrúa lögreglustjóra umrædda nótt og að þar hafi ákærði Tómas Helgi beitt fulltrúann því ofbeldi sem lýst er lýst í 5. ákærulið II. kafla ákæru.  Aftur á móti hafi ákærði C, auk þess að undirbúa verknaðinn, annast akstur bifreiðar á brotavettvang, en eftir það fylgst með ferðum lögreglu, eins og nánar er lýst í ákæruliðnum.

Það er niðurstaða dómsins að um samverknað ákærðu C og Tómasar Helga hafi verið að ræða, og er háttsemi þeirra réttilega heimfærð til 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Af hálfu ákærða Garðars Hallgrímsson var þess krafist við flutning málsins að þætti hans í málinu yrði vísað frá dómi.  Hann byggir einkum á því að ákæra ríkissaksóknara, að því er varðar ætlaða háttsemi hans samkvæmt 5. lið II. kafla ákæru, sé ekki nægjanlega glögg eða afmörkuð og ekki í samræmi við tilgreint ákvæði hegningarlaganna.  Hann byggir á því að ákæran fullnægi ekki skilmerkjum c. og d. liða 152. gr. laga nr. 88, 2008.

Samkvæmt c. og d. liðum 152. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála skal m.a. greina í ákæru hver sú háttsemi er sem ákært er útaf, hvar og hvenær brotið er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga.  Auk þess skal í ákæru greina, ef þörf er á, þær röksemdir sem ákæruvaldið byggir málsókn sína á svo að ekki fari á milli mála hverjar sakargiftir eru, en þá með gagnorðum hætti þannig að ákærði, og þá dómari, geti ráðið um hvaða ætluðu refsiverða háttsemi um er að ræða.

Í ákæru ríkissaksóknara er háttsemi ákærða Garðars Hallgrímssonar talin varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og er á því byggt að hann hafi framið brotið í félagi við meðákærðu.  Í ákærunni er, eins og hér að framan var rakið, lýst ofbeldi meðákærða Tómasar Helga gagnvart fulltrúa lögreglustjórans á Akureyri, en einnig þátttöku meðákærða C í verknaðinum.  Þá er í ákærunni sagt að þeir hafi beitt ofbeldinu að undirlagi ákærða Garðars, og er á því byggt að hann hafi heitið þeim fjárgreiðslu fyrir.  Þá er til þess vísað að ákærði Garðar hafi verið ósáttur við afgreiðslur fulltrúans á ótilteknum sakamálum honum tengdum.  Loks er í ákæruliðnum sagt að ákærði Garðar hafi eftir verknað meðákærðu greitt þeim hluta af umræddri fjárgreiðslu, annars vegar með lausafé og hins vegar með því að heimila meðákærða Tómasi Helga að greiða fyrir vörukaup með greiðslukorti sínu.

Eins og nefndur ákæruliður er úr garði gerður er málatilbúnaður ákæruvalds á því byggður að um samverknað allra ákærðu hafi verið að ræða.  Við munnlegan flutning málsins var um þetta atriði m.a tekist af hálfu sakflytjanda.

Það er álit dómsins að ákæra ríkissaksóknara sé nægjanlega skýr um verknaðarlýsingu að því er varðar greint ákvæði hegningarlaganna, um ætlaða háttsemi ákærða Garðars Hallgrímssonar og um önnur þau atriði sem talin eru upp í 152. gr. laga nr. 88, 2008, þannig að það hafi ekki torveldað eða komið niður á vörn hans.  Verður því að hafna frávísunarkröfu hans.

Eins og fyrr segir hafa ákærðu Tómas Helgi og C við alla meðferð málsins skýlaust játað sök og verknaðarlýsingu ákæru að því er varðar þennan ákærulið.  Þeir hafa fyrir dómi, líkt og hjá lögreglu greint frá orðræðu meðákærða Garðars Hallgrímssonar fyrir verknað þeirra, en jafnframt lýst vímuástandi sínu og öðrum aðstæðum að nokkru.  Þeir hafa loks lýst undirbúningi verknaðarins og þeirri verkaskiptingu sem þeir viðhöfðu við alla framkvæmdina, en einnig samskiptum sínum við meðákærða Garðar eftir verknaðinn.

Ákæra í málinu gegn ákærða Garðari er m.a. á því byggð að meðákærðu Tómas Helgi og C hafi að frumkvæði hans og hvatningu um fyrirheit um fjárgreiðslu gengið til þess verks að beita fulltrúa lögreglustjóra ofbeldi á heimili hans. Ákærði Garðar neitar alfarið sök.

Samkvæmt framburði ákærða Garðars fyrir dómi tókust takmörkuð kynni með honum og meðákærða C fáeinum viku fyrir þann atburð sem hér um ræðir.  Er óumdeilt að tilefni þessara kynna þeirra voru kaup ákærða Garðars á fíknilyfjum.  Hann hefur staðhæft að þessi samskipti hans við meðákærða C hafi verið harla lítil, en að þeir hafi átt í símasamskiptum og einnig stöku sinnum hist og sagði að þá hefði vímuefnaneysla og áfengisdrykkja hans jafnan farið úr böndum. Ákærði C hefur borið að kynni hans og samskiptin við meðákærða Garðar hafi staðið yfir í heldur lengri tíma, en Garðar heldur fram.  Hann staðfesti aftur á móti að tilefni þeirra hefði verið sala hans á fíkniefnum.  Rannsóknargögn lögreglu þykja heldur styðja frásögn ákærða C að þessu leyti, en samkvæmt símtalaskrá sem nær yfir tímabilið frá 4. október til aðfaranætur 12. nóvember 2014 virðast þeir hafa verið í ítrekuðum gagnkvæmum símasamskiptum.

Ákærðu Garðar og Tómas Helgi hafa báðir borið að lítil sem enginn kynni hafi verið með þeim.  Hefur þetta stoð í framburði meðákærða C, en einnig í öðrum gögnum. Samkvæmt símtalaskrá voru enginn símasamskipti á milli þeirra þriðjudagskvöldið 11. nóvember né aðfaranótt miðvikudagsins 12. sama mánaðar.

Ákærði C hefur borið fyrir dómi að í fyrrnefndum símasamskiptum hafi ákærði Garðar í nokkur skipti fært málefni nefnds lögreglufulltrúa í tal og þá nefnt það að vilji hans stæði til þess gera honum mein.  Hann hafi jafnan leitt þessi orð ákærða Garðars hjá sér, enda engan áhuga haft á slíkum verknaði.  Hann hafi hins vegar skipt um skoðun er ákærði Garðar hafi símaviðræðum þann 11. nóvember sl. enn fært málefnið í tal, auk þess sem hann hefði boðið fram greiðslu tæki hann verkið að sér.  Hann hafi vegna þessa greiðslutilboðs fallist á verkbeiðni meðákærða Garðars, en um aðstæður sínar er þetta gerðist vísað hann til eigin peningaleysis og fíkniefnaneyslu.

Af frásögn ákærða C, sem nokkra stoð hefur í framburði meðákærða Tómasar Helga, ræddu þeir saman í kjölfar nefnds verktilboðs ákærða Garðars, en fyrir liggur að mati dómsins að þeir fóru  saman skömmu eftir miðnættið 12. nóvember á heimili ákærða Garðars.  Óumdeilt er að Garðar fór síðan með þeim í ökuferð, m.a. til Akureyrar, en samhliða því keypti hann af meðákærðu fíknilyf.  Fyrir liggur að í þessari ferð fór ákærði Garðar í hraðbanka Landsbankans og verður lagt til grundvallar að eftir það hafi hann greitt fyrir fíknilyfið, a.m.k að hluta.

Ákærði Tómas Helgi hefur fyrir dómi lýst verkbeiðni meðákærða Garðars á sama veg og meðákærði C.  Að því leyti hefur hann einnig greint frá eigin aðstæðum með líkum hætti.  Hann hefur greint frá því að í nefndri ökuferð, laust eftir miðnættið 12. nóvember, hafi hann hlýtt á orð ákærða Garðars um að hann hefði haft horn í síðu fyrrnefnds lögreglufulltrúa vegna embættisverka hans, sem hann ætlaði að varðað hefðu sakamál, sbr. umfjöllun í B kafla. 8. tl. dómsins hér að framan.  Ákærði Tómas Helgi greindi frá því að fjártilboð ákærða Garðars vegna verksins hefði verið að fjárhæð 450-500 þúsund krónur og kvaðst hann hafa samþykkt að taka að sér verkið, að beita fulltrúann ofbeldi og þá eftir atvikum með beinbroti.

Frásögn ákærðu Tómasar Helga og C um illvilja ákærða Garðars gagnvart lögreglufulltrúanum fær að áliti dómsins samhljóm í frásögn vitnisins L fyrir dómi.  Að áliti dómsins var frásögn vitnisins skilmerkileg og í heild trúverðug, en hún var einnig í samræmi við skýrslu þess hjá lögreglu.  Fyrir liggur að vitnið hafði um nokkurt skeið er atvik gerðust verið í miklum samskiptum við ákærða Garðar vegna búsetu sinnar á heimili hans.

Framburður ákærðu Tómasar Helga og C er auk ofangreinds samhljóða um að eftir að þeir höfðu báðir samþykkt að ganga til þess verks sem hér var lýst hafi nánari framkvæmd þess ekki verið rædd frekar af hálfu meðákærða Garðars, að öðru leyti en því en að hann hefði haft orð á því að hann myndi greiða þeim eftir því hvernig til myndi takast.  Frásögn ákærðu Tómasar Helga og C var einnig einróma um að ákærði Garðar hefði ekkert minnst á íkveikju í bifreið fulltrúans, sbr. 6. tölulið ákærukaflans, enda hefðu þeir tveir alfarið átt hugmyndina að þeim verknaði.  Aftur á móti greindi ákærði C frá því að hann hefði tilkynnt meðákærða Garðari eftir að þeir höfðu undirbúið verkið og skömmu áður en þeir fóru fyrst á heimili fulltrúans að verkbeiðni hans yrði framkvæmd umrædda nótt og hann mætti því því eiga von á þeim síðar um nóttina þar sem þeir ætluðu þá að heimta verklaunin.  Samkvæmt vætti nefnds fulltrúa ætlaði hann að það ofbeldi sem hann varð fyrir hefði gerst um klukkan 3 umrædda nótt.  Er til þess að líta í því viðfangi að samkvæmt símtalaskrá rannsóknaraðila hringdi ákærði C í meðákærða Garðar í tvígang þessa nótt, klukkan 2:38 og 2:46.

Að virtum framburði ákærðu, sem stoð þykir hafa í framburði þeirra vitna sem voru í samskiptum við þá þann 12. nóvember, þar á meðal K leigubifreiðastjóra sem ók þeim snemma morguns, verður lagt til grundvallar að ákærðu hafi allir verið undir áhrifum vímuefna og áfengis þriðjudagskvöldið 11. nóvember og jafnframt að þeir hafi eftir það haldið áfram neyslu sinni.  Að áliti dómsins ber öll frásögn ákærðu um atvik máls og eigin gjörðir umrædda nótt þessa ástands þeirra glöggt merki og þá ekki síst ákærða Garðars, sem við meðferð málsins bar ítrekað við minnisleysi og upplýsti jafnframt um að honum hætti til að fá svokallað ,,black out“.

Samkvæmt framlögðum gögnum voru ákærðu C og Garðar í talsverðum símasamskiptum þann 11. nóvember sl., en ekki síður aðfaranótt 12. sama mánaðar.  Önnur framlögð gögn lögreglu, þ. á m. ljósmyndir og bankafrit, bera með sér að ákærði Garðar hafi ítrekað farið í hraðbanka og bankaafgreiðslur nefndan sólarhring, m.a. skömmu eftir miðnættið, að morgni dags og um hádegisbilið.  Var hann í þessum erindagjörðum ýmist með báðum meðákærðu eða einn með meðákærða C.  Samkvæmt frásögn ákærðu C og Tómasar Helga, sem stoð hefur í rannsóknargögnum, greiddi ákærði Garðar 40.000 krónur fyrir hluta af þeim fíkniefnum, sem hann fékk í hendur frá meðákærðu skömmu eftir miðnættið þann 12. nóvember.  Gerði hann það með fyrrgreindri úttekt í hraðbanka Landsbankans í miðbæ Akureyrar, en af frásögn ákærðu verður helst ráðið að heildverð fíkniefnanna hafi verið um 60.000 krónur.  Þá liggur það fyrir að ákærði Garðar reyndi árangurslaust að taka út fjármuni af sama bankareikningi í hraðbanka Landsbankans um klukkan 7:30 umræddan morgunn.

Af gögnum lögreglu verður ráðið að umræddan sólarhring, þann 12. nóvember, hafi ákærði Garðar, auk fyrrgreinda fjármuna sem hann tók út af reikningi sínum í Landsbankanum, tekið út 138.041 krónu af bankareikningi sínum í Arion banka og að það hafi hann gert í nokkrum færslum.

Við alla meðferð málsins hafa ákærðu C og Tómas Helgi haldið því fram að með bankaferðum sínum að morgni dags og um hádegisbilið þann 12. nóvember hafi ákærði Garðari ætlað að standa við fyrirheit sín um að greiða þeim þá fjármuni sem hann hafði heitið þeim vegna verks þeirra gegn fulltrúa lögreglustjóra.  Þeir hafa borið að það hafi honum þó ekki reynst unnt nema að mjög takmörkuðu leyti vegna eigin fjárskorts.  Verður í þessu samhengi til þess að líta að samkvæmt gögnum var fyrrnefndur reikningur ákærða Garðars í Arion banka tæmdur með tveimur fjárúttektum hans um hádegisbilið þann 12. nóvember, en með þeim fékk hann í hendur samkvæmt gögnum samtals 79.940 krónur.  Hefur ákærði C, sem var með ákærða Garðari við úttektina, haldið því fram að hann hafa fengið í sinn hlut af þessari fjárhæð um 15-20.000 krónur, en að hinn hlutinn hafi annars vegar farið til meðákærða Tómasar Helga og hins vegar hafi verið um að ræða greiðslu á eftirstöðvum fyrrnefndra fíkniefnaviðskipta þá um nóttina.  Fyrir liggur að auk þessara fjármuna notaði ákærði Tómas Helgi greiðslukort ákærða Garðars til vörukaupa verslunum í miðbænum laust fyrir klukkan 10 umræddan morgunn.  Hefur hann haldið því fram að þessi viðskipti hans hafi farið fram með vitund og samþykki meðákærða Garðars, enda hafi fjárhæðin, 56.000 krónur, síðar átt að dragast frá verkgreiðslunni.  Ákærði Garðar hefur vísað til minnisleysis vegna þessara viðskipta meðákærða Tómasar Helga.

Við meðferð málsins hafa ákærðu Tómas Helgi og C borið að eftir að þeir höfðu unnið þá háttsemi sem lýst er í 5. og 6. tl. II. kafla ákærunnar hafi þeir farið heim til meðákærða Garðars og þá í þeim tilgangi að heimta umrædd verklaun sín.  Þeir hafa  borið að þar á heimilinu hafi ákærði Garðar árangurslaust reynt að fara inn á heimabanka sinn og þeir þá ákveðið að fara saman til Akureyrar. Samkvæmt vætti fyrrnefnds leigubifreiðastjóra, en einnig leigjandans á heimili ákærða, var ekkert athugavert í fari eða hegðan ákærða Garðars, fyrir utan vímu- og ölvunareinkenni, þegar hann fór með meðákærðu af heimili sínu að morgni 12. nóvember, en óumdeilt er að með leigubifreiðinni fóru þeir allir í miðbæ Akureyrar.  Samkvæmt því sem fyrr var rakið fór ákærði Garðar eftir þetta, ásamt meðákærðu í hraðbanka Landsbankans þar sem hann gerði ítrekaðar, en árangurslausar tilraunir, til að taka fjármuni út af bankareikningi sínum.  Ákærðu Tómas Helgi og C hafa við meðferð málsins borið að þegar þeim varð vangeta ákærða Garðars ljós við að standa við fyrirheit sín um að greiða þeim umrædd verklaun hafi hann upplýst þá um að hann ætti von á greiðslu vegna vinnu sinnar við [...].

Fyrir dómi hefur ákærði Garðar andmælt frásögn meðákærðu, Tómasar Helga og C í heild sinni sem rangri.  Hann staðfesti hins vegar fyrir dómi að er atvik máls gerðust hefði hann átt inni verklaun vegna vinnu sinnar [...].  Samkvæmt gögnum lögreglu var þar um að ræða rétt um 900.000 krónur.

Fyrir dómi greindi ákærði Garðar frá því að málefni nefnds lögreglufulltrúa hefði borið á góma stöku sinnum þegar hann var í samskiptum við meðákærðu.  Nefndi hann í því sambandi ökuferð sem hann hefði farið í með þeim, en sagði að þá hefði margt borið á góma, m.a. í gríni, en hann hefði er þetta gerðist verið ölvaður og ruglaður, líkt og meðákærðu.  Hann vísaði til minnisleysis síns um orðræðu þeirra, en bar að það sem m.a. hefði komið fram hefði verið að meðákærðu hefðu báðir verið ósáttir við embættisverk fulltrúans og af þeim sökum verið heitt í hamsi.  Hefði þetta þó sérstaklega átt við meðákærða C.  Hann kvaðst hafa tekið þátt í orðræðunni, en fullyrti að ekkert mark hefði verið takandi á honum vegna áðurlýsts ástands.

Meðákærðu C og Tómas Helgi hafa fyrir dómi andmælt þessum síðustu orðum ákærða Garðars og þannig ekki kannast við frásögn hans um að þeir hafi verið ósáttir við fulltrúann eða embættisverk hans.

Af gögnum og því sem rakið hefur verið hér að framan er að áliti dómsins upplýst að ákærðu C og Garðar voru í nokkrum samskiptum, þ. á m. í síma, í október og nóvember 2014.  Þá benda gögn til þess, eins og áður hefur veri nefnt, að þeir tveir hafi verið í tíðum símasamskiptum þriðjudagskvöldið 11. nóvember.  Eru þannig á tímabilinu frá kl. 18:30 til 21:32 skráð fjögur símtöl þeirra í millum.  Rannsóknargögn benda til þess að eftir nokkurt hlé hafi þessi símasamskipti þeirra haldið áfram aðfaranótt 12. nóvember, en þá eru skráð tvö símtöl þeirra í millum, kl. 2:38 og 2:46, en eftir það varð hlé til kl. 6:41.  Loks eru þrjú símtöl um miðjan daginn og síðan tvö síðdegis.

Ákærðu C og Tómas Helgi hafa lýst samskiptum og samræðum sínum við meðákærða Garðar í ökuferð þeirra skömmu eftir miðnættið aðfaranótt miðvikudagsins 12. nóvember 2014.  Þeir hafa jafnframt greint frá sölu á fíknilyfi til meðákærða Garðars og greint frá úttekt hans á fjármunum í hraðbanka.  Þá hafa þeir einnig greint frá orðræðu hans um fulltrúa lögreglustjóra og illvilja í hans garð.  Loks hafa þeir skýrt frá fyrirheiti ákærða Garðars um að hann myndi greiða þeim allnokkra fjármuni gengju þeir til þess verks að beita fulltrúann ofbeldi.  Báðir greindu þeir frá bágri stöðu sinni er atvik gerðust og staðhæfðu að það hefði verið undirrót þess að þeir leiddust til þeirrar háttsemi sem lýst er í nefndum ákærulið.

Ákærði Garðar hefur við meðferð málsins alfarið neitað sök eins og áður sagði.  Hann hefur aftur á móti borið við minnisleysi um samskipti sín við meðákærðu.  Að auki hefur hann staðhæft að orðræða hans um fulltrúa lögreglustjóra hafi verið vímu-og fyllerísraus, en eftir atvikum sögð í gríni, og því í raun verið merkingarlaus.

Framburður ákærðu C og Tómasar Helga hefur að mati dómsins verið samhljóma og stöðugur og ennfremur í öllum aðalatriðum í samræmi við þær skýrslur sem þeir gáfu hjá lögreglu.  Þeir hafa borið að fyrir áeggjan meðákærða Garðars og vegna áður lýstra aðstæðna hefðu þeir veist að fulltrúa lögreglustjóra í greint sinn.

Að áliti dómsins hafa skýrslur ákærðu C og Tómasar Helga fyrir dómi verulega stoð í rannsóknargögnum lögreglu, þ. á m. þegar litið er til áðurgreindra síma- og bankagagna.  Einnig þykir frásögn þeirra hafa nokkra stoð í vætti áðurnefndra vitna, en einnig öðrum gögnum og þar á meðal um að ákærði Garðar hafi borið þungan hug til fulltrúans.  Aftur á móti hefur frásögn ákærða Garðars um að meðákærðu hafi borið slíkan hug til fulltrúans enga stoð í gögnum málsins.  Verður frásögn hans að því leyti metin sem fyrirsláttur.  Að áliti dómsins hefur framburður Garðars við meðferð málsins að öðru leyti verið reikull og í heild ótrúverðugur.

Að öllu ofangreindu virtu og þrátt fyrir neitun ákærða Garðars Hallgrímssonar þykir ákæruvaldið hafa sannað sök hans í máli þessu, eins og háttsemi hans er nánar lýst í 5. lið II. kafla ákærunnar.  Ber að áliti dómsins að virða þátt hans þannig að hann hafi líkt og meðákærðu verið aðalmaður í brotinu.  Brotið er rétt fært til refsiákvæðis í ákæru.

Ölæði eða önnur sú víma sem ákærðu voru undir er atvik gerðust leysir þá ekki undan refsiábyrgð samkvæmt 17. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærðu C og Tómas Helgi hafa játað sök samkvæmt 6. tölulið II. kafla ákæru.  Atvikum er nánar er lýst hér að framan, en einnig er þar vikið að staðfestri skýrslu verkfræðings, sem lögregla kvaddi til, en var ekki dómkvaddur.

Með skýlausum játningum ákærðu, sem eru í samræmi við það, sem fram hefur komið í máli þessu, verður að telja fullsannað, að þeir hafi gerst sekir um verknaðinn.

Um heimfærslu er í ákæru vísað til 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, en til vara 2. mgr. 257 gr. sömu laga.

Samkvæmt 108. gr. laga nr.88, 2008 um meðferð sakamála hvílir sönnunarbyrði um sekt ákærðu og annað, sem þeim er í óhag á ákæruvaldinu.

Í fyrrnefndri skýrslu verkfræðings er m.a. sagt að íkveikjan í bifreiðinni hefði þróast á þann veg að án slökkviaðgerða hefði hún orðið alelda og eyðilagst.  Einnig segir í skýrslunni að eldurinn hefði eins og aðstæður voru á vettvangi ekki breiðst út frá bifreiðinni og því ekki farið í [...], hvorki í íbúð [...] eða [...], né til annarra húsa eða lausafjár í nágrenni við brunann  Því hafi enginn verið í hættu í nágrenni við umrædda bifreið.

Þegar horft er til ofangreinds og nefndrar lagareglu sakamálalaganna er það mat dómsins að sýkna beri ákærðu af aðalkröfu ákæruvaldsins, en fallist er á að þeir verði sakfelldir af varakröfunni.

D

Ákærða, B, sem [...] ára, hefur samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins þrívegis frá árinu 2013 sætt refsingum fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot, en í öll skiptin gerðist hún einnig sek um ölvunar- og fíkniefnaakstur. Vegna ítrekunaráhrifa var hún síðast, þann 31. mars sl., dæmd í 30 daga fangelsi, en einnig til sektargreiðslu til ríkissjóðs.  Þá var hún svipt ökurétti ævilangt.

Í máli þessu hefur ákærða verið sakfelld fyrir hegningarlagabrot, þ.e. tilraun til fjárkúgunar, gripdeild og fjársvik í lok apríl 2014.  Brotin framdi ákærða fyrir uppsögu þess dóms, sem kveðinn var upp 31. mars sl. og ber því að tiltaka refsingu hennar sem hegningarauka, sbr. 78. gr., almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, en einnig með hliðsjón af 77. gr. sömu laga.

Við ákvörðun refsingar ákærðu ber auk ofangreindra atriða m.a. að líta til viðeigandi töluliða 1. mgr. 70. gr. hegningarlaganna, og þar á meðal að fjárkúgunarbrotið framdi hún að kvöldi til og á heimili aldraðs manns.  Það er mat dómsins að ákærða hafi unnið verknaðinn af einbeitni og með hefndarhug, en hún var þá í félagi við aðra, sbr., að því leyti, ákvæði 2. mgr. 70. gr. sömu laga.  Að mati dómsins var verknaðurinn alvarlegur og ber að virða nefnd atriði ákærðu til refsiþyngingar.  Til refsimildunar þykir m.a. mega líta til þess að ákærða hefur aldrei áður verið dæmd fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, að hún játaði háttsemina í öllum aðalatriðum fyrir dómi, líkt og hún hafði áður gert hjá lögreglu, en hún lýsti einnig yfir iðrun.  Þá liggja fyrir gögn frá sjúkrastofnun um að ákærða hafi í byrjun þessa árs leitað sér aðstoðar vegna áfengis-og vímuefnamisnotkunar.

Að ofangreindu virtu þykir refsing ákærðu B hæfilega ákveðin sex mánaða fangelsi, en í ljósi m.a. ungs aldur hennar þykir eftir atvikum rétt að fresta fullnustu refsingarinnar með skilyrðum.  Skal refsingin þannig niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. hegningarlaganna, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.  Þá þykir einnig rétt svo sem atvikum er háttað að binda frestun fullnustunnar því skilyrði að ákærða sæti á skilorðstímanum sérstakri umsjón, sbr. 1. og 2. tl. 3. mgr. 57. gr. laga nr. 19, 1940.  Þá skal ákærða greiða sakarkostnað að hluta, eins og nánar verður rakið hér á eftir, ásamt málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns.

Ákærði, A, sem [...] ára, hefur samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins fimm sinnum sætt sektarrefsingum fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot frá árinu 2010, en síðast var honum gerð refsing vegna þessa þann 16. janúar og 10. apríl sl.

Í máli því sem hér er til umfjöllunar hefur ákærði verið sakfelldur fyrir hegningarlagabrot, þ.e. fyrir tilraun til fjárkúgunar og þjófnað í lok apríl 2014.  Brotin framdi ákærði áður en honum voru ákvarðaðar fyrrnefndar refsingar á árinu 2015 og ber því að tiltaka refsingu hans nú sem hegningarauka, sbr. 78. gr., almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, en einnig með hliðsjón af 77. gr. sömu laga.

Við ákvörðun refsingar ákærða ber auk auk ofangreindra atriða, að líta m.a til viðeigandi töluliða 1. mgr. 70. gr. hegningarlaganna, og þar á meðal að fjárkúgunarbrotið var alvarlegt og að hann framdi það í félagi við aðra að kvöldi til gagnvart öldruðum manni, sbr. að því leyti ákvæði 2. mgr. 70. gr. sömu laga.  Ber að virða þetta allt til refsiþyngingar.  Til refsimildunar þykir m.a. mega líta til þess að ákærði hefur ekki áður verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og að hann játaði háttsemina að nokkru fyrir dómi, líkt og hann hafði áður gert hjá lögreglu.  Að auki veitti hann rannsóknaraðilum liðsinni sitt við að upplýsa um atvik málsins.  Fyrir dómi lýsti ákærði ítrekað yfir iðrun vegna verknaðarins.

Að ofangreindu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin átta mánaða fangelsi, en eftir atvikum þykir fært að að fresta fullnustu sex mánaða af refsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að þremur árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. hegningarlaganna, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.  Þá skal ákærði greiða sakarkostnað að hluta, eins og nánar verður rakið hér á eftir, ásamt málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns.

Ákærði, Tómas Helgi Jónsson, sem er 36 ára, á samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins langan sakaferil að baki, allt frá árinu 1996.  Hann mun hafa hlotið 27 refsidóma og þá aðallega fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot, en á árum áður var hann einnig dæmdur fyrir brot gegn hegningarlögum, vegna þjófnaða á árunum 1995 og 2006 og vegna skjalafals á árinu 2003.  Síðast var hann dæmdur þann 11. mars 2015 í átta mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir hylmingu, þjófnað og skemmdaverk, en einnig fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöfinni og fyrir fíkniefnaakstur.  Til frádráttar refsingunni var gæsluvarðhald það sem hann hafði sætt í máli því sem hér er til umfjöllunar, þ.e. á tímabilinu frá 13. nóvember 2014, en refsingin var, líkt og gert verður í því máli sem hér er til umfjöllunar, ákveðin með hliðsjón af 77. gr. og 78. gr. hegningarlaganna.

Í máli þessu hefur ákærði Tómas Helgi verið sakfelldur fyrir hegningarlagabrot, þ.e. tilraun til fjárkúgunar og fyrir þjófnað í lok apríl 2014, en einnig fyrir brot gegn valdstjórninni og loks fyrir stórfelld eignaspjöll, sem hann framdi í nóvember sama ár.  Við ákvörðun refsingar ákærða ber m.a að líta til viðeigandi töluliða 1. mgr. 70. gr. hegningarlaganna, og þar á meðal lýsts sakaferils, að hann framdi brotin í félagi við aðra, annars vegar að kvöldi til og hins vegar að næturlagi, nánar tiltekið á og við heimili brotaþola, sbr. að því leyti ákvæði 2. mgr. 70. gr. hegningarlaganna.  Að mati dómsins var háttsemi ákærða í öllum tilfellum mjög alvarleg og ófyrirleitin.  Er í því viðfangi m.a. til þess að líta að með lögum nr. 25, 2007 var refsihámark fyrir brot gegn 106. gr. hegningarlaganna hækkað, en það var þá vilji Alþingis að skerpa á og auka refsivernd þeirra opinberu starfsmanna sem heimild hafa til valdbeitingar, sem veitt er í lögum, en lagagreinin var rakin hér að framan.  Ber að virða ákærða þetta allt til refsiþyngingar.  Til refsimildunar þykir  mega líta til þess að ákærði játaði brot sín að mestu  fyrir dómi, líkt og hann hafði áður gert hjá lögreglu, en að auki virðist hann hafa verið til nokkurrar samvinnu við að upplýsa um atvik máls.  Fyrir dómi lýsti ákærði einnig ítrekað yfir iðrun vegna háttseminnar.

Að öllu ofangreindu gættu þykir refsing ákærða Tómasar Helga, að virtum nefndum hegningaraukaáhrifum, hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.  Vegna alvarleika háttseminnar og sakaferils eru ekki forsendur fyrir að skilorðsbinda refsinguna.  Þá skal ákærði greiða sakarkostnað að hluta, eins og nánar verður rakið hér á eftir, ásamt málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns.

Ákærði, C, sem er [...] ára, hefur samkvæmt vottorði sakaskrár áður hlotið refsingar.  Hann var með dómi 3. október 2011 dæmdur til sektar til ríkissjóðs vegna fíkniefnalagabrots og fíkniefnaaksturs, en jafnframt var hann sviptur ökurétti tímabundið.  Þá var honum með sáttagjörð, sem hann gerði við lögreglustjóra hinn 20 janúar sl. vegna fíkniefnaaksturs, gert að greiða sekt til ríkissjóðs, en einnig var hann þá sviptur ökurétti tímabundið. Ber vegna þess að tiltaka refsingu ákærða nú sem hegningarauka, sbr. 78. gr., almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, en einnig með hliðsjón af 77. gr. sömu laga.

Í máli þessu hefur ákærði verið sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni og stórfelld eignaspjöll, sem hann framdi í nóvember sl. Við ákvörðun refsingar ákærða ber m.a að líta til viðeigandi töluliða 1. mgr. 70. gr. hegningarlaganna, og þar á meðal að brotin framdi hann á og við heimili brotaþola að nóttu til og í félagi við aðra,  sbr. að því leyti ákvæði 2. mgr. 70. gr. sömu laga.  Verður í því viðfangi m.a. litið til áðurgreindrar umfjöllunar um lög. nr. 25, 2007 þar sem refsihámark fyrir brot gegn 106. gr. hegningarlaganna var hækkað.  Að mati dómsins var háttsemi ákærða alvarleg og ófyrirleitin og ber að virða honum nefnd atriði öll til refsiþyngingar.

Til refsimildunar ber að líta til þess að ákærði er ungur að árum og að hann hefur ekki áður verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum.  Ennfremur ber að líta til þess að hann játaði skýlaust brot sín fyrir dómi, líkt og hann hafði áður gert hjá lögreglu  Þá lýsti hann að mati dómsins einlæglega yfir iðran vegna háttseminnar.  Í málinu liggja fyrir gögn frá sjúkrastofnun um að ákærði hafi í maí sl., leitað sér aðstoðar vegna áfengis- og vímuefnamisnotkunar, en jafnframt eru gögn um að hann hafi verið við sjómannsstörf á togara fyrri hluta ársins.  Þá liggja fyrir gögn um að verulegar breytingar hafi orðið á öðrum högum ákærða að undaförnu til batnaðar.  Eru þar á meðal vottorð frá sýslumannsembætti um að hann hafi gert samkomulag við barnsmóður sína um sameiginlega forsjá barns þeirra, sem fæddist [...], en einnig afrit samnings um að hann hafi þann sama dag tekið á leigu íbúð til eins árs.

Að öllu ofangreindu gættu þykir refsing ákærða C hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár. Með tilliti til þess sem áður var rakið, en ekki síst ungs aldurs ákærða, þykir eftir atvikum rétt að fresta fullnustu refsingarinnar með skilyrðum að hluta og þá þannig að fresta skal fullnustu tuttugu og eins mánaðar og sá hluti hennar niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. hegningarlaganna, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.  Þá þykir einnig rétt svo sem atvikum er háttað að binda frestun fullnustunnar því skilyrði að ákærða sæti á skilorðstímanum sérstakri umsjón, sbr. 1. og 2. tl. 3. mgr. 57. gr. laga nr. 19, 1940.  Loks skal ákærði greiða sakarkostnað að hluta, eins og nánar verður rakið hér á eftir, ásamt málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns.

Ákærði, Garðar Hallgrímsson, sem er 51 árs, hefur samkvæmt vottorði sakaskrár áður verið dæmdur til refsingar.  Hann var þannig með dómi Hæstaréttar Íslands þann 11. desember 2014 sakfelldur fyrir að hafa ekið ökutæki tvívegis undir áhrifum áfengis.  Var hann vegna þess dæmdur til sektargreiðslu og til tímabundinnar ökuréttarsviptingar, en með greindum dómi var í raun staðfest refsiáfall héraðsdóms frá 27. febrúar sama ár.  Þá var ákærði með dómi héraðsdóms hinn [...] dæmdur fyrir sérlega hættulega líkamsárás, en það brot framdi hann í febrúar 2013, og fyrir ölvunarakstur, sem hann framdi í mars 2014.  Vegna þessarar háttsemi var ákærði dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu sektar til ríkissjóðs, en að auki til tímabundinnar ökuréttarsviptingar.

Ber samkvæmt 60. gr., sbr. 77. gr. og 78. gr.  almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, og lýsts sakaferils  ákærða, að taka nefndan skilorðsdóm hans frá [...] upp og dæma honum refsingu í einu lagi, með þeim brotum sem hér eru til umfjöllunar.

Ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni og ber við ákvörðun refsingar m.a. að líta til viðeigandi töluliða 1. mgr. 70. gr. hegningarlaganna.  Ber þannig m.a. líta til þess að hann framdi brotið í félagi við aðra og að það var framið að nóttu til á heimili brotaþola, sbr. að því leyti ákvæði 2. mgr. 70. gr. sömu laga.  Að mati dómsins var allt hátterni ákærða mjög alvarlegt og ófyrirleitið.  Verður í því viðfangi m.a. litið til ofangreindrar umfjöllunar um lög. nr. 25, 2007 þar sem refsihámark fyrir brot gegn 106. gr. hegningarlaganna var hækkað.  Til refsimildunar þykir mega horfa til þess að ákærði leitaði sér aðstoðar á sjúkrastofnun vegna áfengis- og vímuvanda í maí sl. og að hann hafði, er atvik máls gerðust, ekki áður verið sakfelldur fyrir brot gegn hegningarlögum.  Ákærði þykir hins vegar ekki eiga sér aðrar málsbætur, en líta beri til fyrrgreindra hegningaraukaáhrifa.

Að öllu ofangreindu virtu þykir refsing ákærða Garðars Hallgrímssonar hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði.  Ekki eru forsendur til að skilorðsbinda refsinguna, en til frádráttar henni skal koma gæsluvarðhaldsvist ákærða á tímabilinu frá 14 til 25. nóvember 2014.  Þá skal ákærði greiða sakarkostnað að hluta, eins og nánar verður rakið hér á eftir, ásamt málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns.

Ákæruvaldið hefur í málinu gert kröfu um að ákærðu verði í samræmi við yfirlit dæmd til greiðslu alls sakarkostnaðar málsins vegna útlagðs kostnaðar á rannsóknarstigi málsins, samtals að fjárhæð 932.641 króna.  Er annars vegar um að ræða kostnað sem til féll vegna málsins sem lýst er ákærukafla I, að fjárhæð 178.200 krónur og hins vegar vegna málsins sem lýst er í ákærukafla II. að fjárhæð 754.441 krónur, en þar af er greiðsla til tilnefnds verjanda ákærða C að fjárhæð 132.000 krónur.  Yfirlitið er sundurliðað og rökstutt.  Að auki er um að ræða málsvarnarlaun skipaðra verjanda ákærðu, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, sbr. ákvæði 218. gr. laga nr. 88, 2008.  Í ljósi málsúrslita verður fallist á kröfur ákæruvalds, en við ákvörðun launanna verður m.a. litið til umfangs málsins og starfa hinna skipuðu lögmanna, sbr. og sundurliðaðra skýrslna þar um, en þau eru og öll ákveðin með virðisaukaskatti.

Af hálfu ákæruvalds flutti málið Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari.

Gætt var ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88, 2008.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Ákærða, B, sæti sex mánaða fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja, haldi hún almennt skilorð 57. gr. hegningarlaganna, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.  Þá er frestun fullnustu refsivistar jafnframt bundin því skilyrði að ákærða sæti á skilorðstímanum sérstakri umsjón, sbr. 1. og 2. tl. 3. mgr. 57. gr. laga nr. 19, 1940.

Ákærði, A, sæti átta mánaða fangelsi, en fresta skal fullnustu sex mánaða af refsingunni og skal sá hluti hennar niður falla að þremur árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. hegningarlaganna, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.

Ákærði, C, sæti fangelsi í tvö ár, en fresta skal fullnustu tuttugu og eins mánaðar af refsingunni og skal sá hluti hennar niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. hegningarlaganna, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.  Þá er frestun fullnustunnar jafnframt bundin því skilyrði að ákærði sæti á skilorðstímanum sérstakri umsjón, sbr. 1. og 2. tl. 3. mgr. 57. gr. laga nr. 19, 1940.

Ákærði, Tómas Helgi Jónsson sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.

Ákærði, Garðar Hallgrímsson sæti fangelsi í tvö ár og sex mánuði.  Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhaldsvist hans á tímabilinu frá 14. til 25. nóvember 2014.

Ákærðu, B, A og Tómas Helgi Jónsson, greiði óskipt 178.200 krónur í sakarkostnað.  Þá greiði ákærðu, Tómas Helgi, Garðar Hallgrímsson og C óskipt 622.441. krónu í sakarkostnað.  Loks greiði ákærði, C, einn 132.000 krónur í sakarkostnað.

Ákærða, B, greiði 1.268.520 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hólmgeirs Elíasar Flosasonar hdl., og 176.700 krónur vegna ferðakostnaðar og annars útlagðs kostnaðar hans.

Ákærði, A, greiði 1.145.000 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Snorra Snorrasonar hdl., og 219.978 krónur vegna ferðakostnaðar og annars útlagðs kostnaðar hans.

Ákærði, C, greiði 1.248.060. króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., og 105.600 krónur vegna ferðakostnaðar hans.

Ákærði, Tómas Helgi Jónson, greiði 1.108.050 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., og 80.900 krónur vegna ferðakostnaðar hans.

Ákærði, Garðar Hallgrímsson, greiði 1.246.200 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar hrl., og 318.202 krónur vegna ferðakostnaðar hans og annars útlagðs kostnaðar.

Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola Arnbjargar Sigurðardóttur hrl., 131.440 krónur greiðist úr ríkissjóði.