Hæstiréttur íslands

Mál nr. 28/2002


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Sérálit


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. maí 2002.

Nr. 28/2002.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Kurt Fellner

(Vilhjálmur Þórhallsson hrl.)

 

Ávana- og fíkniefni. Sérálit.

K var sakfelldur fyrir innflutning á 67.485 MDMA töflum (9,6 kg), sem fundust undir fölskum botni í ferðatösku hans á Keflavíkurflugvelli, en K var þar staddur vegna millilendingar á leið frá Amsterdam til New York. Var lagt til grundvallar að K hefði tekið að sér að flytja efnin til Bandaríkjanna fyrir aðra gegn þóknun og þótti sannað að hann hefði vitað að efnin voru ætluð til sölu og dreifingar. Þótti brot hans varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar K var litið til þess að ekki hefði annað verið leitt í ljós en að K hefði einungis verið flutningsmaður efnanna. Hins vegar þótti brot hans stórfellt, þar sem um mikið magn fíkniefna með mikla hættueiginleika var að ræða. Með hliðsjón af fyrri dómum Hæstaréttar og forsendum héraðsdóms að öðru leyti þótti refsing K hæfilega ákveðin fangelsi 9 ár.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Málinu var áfrýjað 17. janúar 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og einnig að hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst þess aðallega, að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins en til vara, að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð.

Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Fram er komið að fíkniefnin, sem falin voru í ferðatösku ákærða og fundust við leit tollvarða á Keflavíkurflugvelli 27. september 2001, voru um 9,6 kg að þyngd, en taskan vóg 24,8 kg á voginni á Schipolflugvelli í Amsterdam. Auk fíkniefnanna voru föt ákærða í töskunni. Af framburði tollvarða er sýnt að ákærði vissi um falska botninn í töskunni og hlaut að vita að þarna voru fíkniefni geymd, en af frásögn hans verður ráðið að hann kærði sig kollóttan um hvaða efni það voru. Einnig er fram komið, að austurrískur ræðismaður er í Dóminíska lýðveldinu, þar sem ákærði kvaðst hafa búið og starfað, en hann sagðist allt að einu hafa farið heim til Austurríkis í þeim tilgangi aðallega að fá vegabréf sitt endurnýjað. Vegabréfið, sem hann bar á sér á Keflavíkurflugvelli, var gefið út í Vínarborg 6. september 2001 og talið ófalsað. Engir stimplar voru í því sem sýndu ferðalög hans, enda ónotað.

 Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti var af hálfu ákæruvalds fallið frá því ákæruatriði að ákærði hafi sjálfur ætlað að selja fíkniefnin í Bandaríkjunum. Eins og málið liggur fyrir verður ekki á því byggt að ákærði hafi verið eigandi fíkniefnanna. Ferðasaga ákærða er öll með ólíkindum, en af hálfu ákæruvalds hafa þó engar athuganir verið gerðar sem gætu varpað á hana ljósi. Með vísan til þessa og forsendna héraðsdóms að öðru leyti ber að fallast á þá niðurstöðu hans að sannað sé að ákærði hafi haft fíkniefnin í vörslum sínum í því skyni að afhenda þau og vitað að þau voru ætluð til sölu og dreifingar, og er brot hans þar réttilega heimfært til refsiákvæða.

Við ákvörðun refsingar ákærða verður að líta til þess að ekki hefur tekist að útiloka þann framburð hans að hann hafi ekki átt frumkvæði að þessum flutningum. Er ekki annað leitt í ljós en að hann hafi einungis verið flutningsmaður efnanna gegn 5000 dollara þóknun. Hins vegar er brot hans stórfellt, þar sem um mikið magn fíkniefna með mikla hættueiginleika var að ræða, og hann á sér engar málsbætur. Með hliðsjón af fyrri dómum Hæstaréttar og þess sem í forsendum héraðsdóms greinir að öðru leyti, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi 9 ár. Frá refsivist ákærða ber að draga með fullri dagatölu óslitið gæsluvarðhald hans frá 28. september 2001.

Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein telja, að fyrri dómar Hæstaréttar á þessu sviði og hið gífurlega magn hættulegra fíkniefna, sem á sér engin fordæmi í réttarframkvæmd hér á landi, geri það að verkum, að refsing ákærða eigi að vera 10 ára fangelsi.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku efna og sakarkostnað eru staðfest. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Kurt Fellner, sæti fangelsi 9 ár. Til frádráttar refsivist ákærða komi gæsluvarðhald hans frá 28. september 2001.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku efna og sakarkostnað eru staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin laun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Þórhallssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 14. janúar 2002.

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 19. nóvember 2001, á hendur ákærða Kurt Fellner, kennitala 140365-0099, Velmerst. 34, Himberg bei Wien, Vínarborg, fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, með því að hafa fimmtudaginn 27. september 2001, í biðsal flugstöðvar Keflavíkurflugvallar, haft í vörslum sínum í ferðatösku merktri ákærða samtals 67.485 töflur og 13,91 g af töflumulningi með fíkniefninu MDMA (3.4 metýlendíoxýmetamfetamíni), sem ákærði hugðist flytja til Bandaríkjanna og selja þar í ágóðaskyni.

Telst þetta varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/ 1940, sbr. lög nr. 64/ 1974.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þá er þess krafist að ofangreind fíkniefni verði gerð upptæk, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/ 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/ 2001.

Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara vægustu refsingar er lög leyfa. Verjandi ákærða krefst hæfilegra málsvarnarlauna.

Málið var dómtekið 17. desember sl., en endurupptekið í dag með heimild í 131. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þar sem nauðsynlegt þótti að leggja fram í málinu endurrit hljóðupptöku af fyrstu skýrslu ákærða fyrir dómi, er krafist var gæsluvarðhalds yfir honum. Endurrit þeirrar skýrslu lá ekki frammi í málinu við aðalmeðferð þess.

I.

Fimmtudaginn 27. september 2001 unnu tollverðir hjá tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli við að gegnumlýsa farangur úr flugvélinni FI-503 sem kom frá Amsterdam og lenti kl. 16:23, en farangur þessi átti að fara áfram sama dag með öðru flugi til New York. Tösku, sem merkt var farþeganum K. Fellner, var rennt í gegnum röntgenvél í tollgæslubifreið á flughlaði. Kom þá í ljós á skjá röntgenvélarinnar óþekktur massi, sem ákveðið var að skoða frekar. Var taskan flutt á öryggisleitarsvæði í flugstöðvarbyggingunni. Farþeginn Kurt Fellner, ákærði í máli þessu, var kallaður til aðstoðar á öryggisleitarsvæðið og hann beðinn um að bera kennsl á töskuna og opna lás á henni. Játaði ákærði að eiga töskuna og opnaði hann síðan talnalás hennar. Við leit í töskunni kom í ljós falskur botn. Var ákveðið að fjarlægja hann og komu þá í ljós töflur innpakkaðar í plast. Aðspurður kvaðst ákærði ekki vita hvað falið væri í töskunni. Eftir þetta var ákærði handtekinn og færður til yfirheyrslu hjá lögreglu.

Við talningu og vigtun efna, sem fundust í áðurnefndri ferðatösku, reyndust vera samtals 67.485 töflur og 13,91 grömm af töflumulningi. Sýni úr pakkningunum, alls 140, voru send á Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði til rannsóknar. Samkvæmt matsgerð Jakobs Kristinssonar dósents við rannsóknarstofuna var staðfest að öll sýnin innhéldu MDMA-klóríð.

II.

Við aðalmeðferð málsins gáfu þrír starfsmenn tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli skýrslu.

Þráinn L. Brynjólfsson, tollvörður, kvað ákærða hafa verið kallaðan upp eftir að í ljós kom óþekktur massi í tösku merktri honum. Ákærði hefði borið kennsl á töskuna og opnað talnalás hennar án nokkurs hiks. Eftir að fatnaður hafði verið tekinn upp úr töskunni hefði komið í ljós að ofarlega í henni var hólf. Ákærði hefði verið spurður um hvað væri í töskunni og hefði hann þá yppt öxlum og glott. Falski botninn á töskunni hefði verið rifinn upp í einu horni töskunnar og hefðu þá komið í ljós töflur innpakkaðar í plast. Ákærði hefði enn verið spurður um hvað væri í töskunni, hann litið til tollvarðanna, glott og yppt öxlum. Í framhaldi af því hefði hann verið handtekinn. Vitnið kvaðst sjálft hafa tekið föt upp úr töskunni. Hefði þar verið um að ræða gömul og notuð föt. Ákærði hefði hins vegar verið í glænýjum jakkafötum með verðmiða á og í nýjum skóm. Ákærði hefði beðið um að fá að fara í gömlu fötin í flugstöðinni. Vitnið kvað ákærða hefði horft á horn töskunnar sem rifið var upp og glott. Taskan hefði legið á gólfinu í litlum leitarklefa.

Kári Gunnlaugsson, deildarstjóri bar í meginatriðum á sama veg um atvik og vitnið Þráinn L. Brynjólfsson. Kvað vitnið ákærða hafa borið kennsl á tösku sína og opnað talnalás hennar óhikað. Í ljós hefði komið falskur botn á töskunni. Ákærði hefði verið spurður hvað væri undir falska botninum, en hann aðeins yppt öxlum og glott. Vitnið fullyrti að ákærði hefði séð töflurnar í töskunni eftir að búið var að lyfta falska botninum upp.

Þorsteinn Haraldsson yfirtollvörður kvaðst ekki hafa verið viðstaddur er taska ákærða var opnuð, en komið að málinu og tilkynnt ákærða að hann væri handtekinn. Vitnið kvaðst hafa séð tösku ákærða opna í leitarklefanum þar sem ákærði var og hefði ekki farið á milli mála hvað í töskunni var. Ekki hefði átt að geta farið framhjá ákærða að verið var að fara í gegnum farangur hans.

Auk framangreindra vitna komu rannsóknarlögreglumennirnir Hrannar Þór Arason, Hrafn V. Ásgeirsson og Kristján Kristjánsson fyrir dóminn sem vitni. Þá var tekin símaskýrsla af vitninu Jakobi Kristinssyni dósent við Rannsóknarstofu Háskólans í lyfja- og eiturefnafræðum.

III.

Í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði ekki geta svarað því hvort hann hefði komið með til landsins í tösku þau fíkniefni sem í ákæru væru tilgreind. Hann vissi það ekki. Hann skýrði annars svo frá, að hann hefði farið frá Dóminíska lýðveldinu heim til Vínarborgar síðastliðið haust með viðkomu í Amsterdam, þar sem hann hefði þurft að dveljast daglangt. Þar hefði hann kynnst ungum manni, Marcial að nafni, sem hefði boðist til að hjálpa honum þar sem ákærði skildi ekki tungumálið í Hollandi. Þessi ungi maður hefði veitt honum aðstoð á ýmsa vegu, m.a. gengið frá farmiða hans. Sem gagngreiða hefði hann beðið ákærða að taka ferðatösku með sér til Bandaríkjanna er ákærði héldi aftur til Dóminíska lýðveldisins þar sem hann hafi aðsetur.

Eftir dvöl í Vínarborg kvaðst ákærði hafa tekið lest til Amsterdam, en þar hefði hann átt að bíða í tvo daga. Í Amsterdam hefði ungi maðurinn farið með hann í íbúð þar sem hann hefði þurft að afhenda vegabréf sitt og farmiða. Ákærði kvaðst hafa orðið órólegur yfir þessu en honum hefði þá verið sagt að nauðsynlegt væri að fá vegabréf hans svo unnt yrði að umskrifa farseðil hans. Þennan sama dag hefði maður, sem var kallaður Primo, komið í íbúðina og sótt farmiða ákærða og vegabréf. Að kvöldi þessa dags hefði Primo þessi hringt og sagt að allt væri klárt og að ákærði ætti flug til New York á fimmtudag. Er ákærða var bent á að í skýrslum hans hjá lögreglu væri haft eftir honum að menn þessir hefðu keypt handa honum farseðil á flugvellinum í Amsterdam, gaf ákærði þá skýringu, að kunningi hans á ferðaskrifstofu í Dóminíska lýðveldinu hefði útvegað honum svokallaðan “last minute” farmiða. Sá miði hefði verið á nafni annars manns. Á þessum miða hefði hann komið frá Dóminíska lýðveldinu til Amsterdam. Aðeins hefði þurft að breyta nafninu á miðanum Hann hefði því látið manninn í Amsterdam hafa þennan miða og hann aftur látið ákærða hafa nýjan miða. Ákærði kvaðst hafa flogið með Martin Air frá Dómíníska Lýðveldinu til Amsterdam en síðan með Flugleiðum áleiðis til New York.

Ákærði kvað annan mannanna í Amsterdam hafa afhent honum farmiðann og vegabréfið er þeir stigu upp í bifreið og héldu út á flugvöll í Amsterdam. Beint við innganginn í flugstöðina hefði honum verið afhent ferðataskan. Hann hefði spurt hvort hann mætti opna töskuna og setja úlpu sína í hana og jafnframt spurt hvað hann ætti að gera við töskuna. Honum hefði þá verið sagt að ekkert vandamál væri með töskuna. Hann tæki hana með sér í flugið til New York. Þar biði hans stór svertingi, sem hann ætti að afhenda töskuna. Hann myndi spyrja hvaðan ákærði væri að koma og ætti ákærði að svara: “ Frá Austurríki.” Þetta hefði átt að vera einhvers konar leyniorð. Hann hefði síðan átt að afhenda manni þessum töskuna og halda síðan áfram ferð sinni heim. Aðspurður hvort hann hefði átt að fá eitthvað greitt fyrir þetta kvað ákærði til tals hafa komið að honum yrði greiddur aukakostnaður sem hlytist af því að kaupa flugmiða frá New York til Dóminíska lýðveldisins. Honum yrði látið það fé í té. Ekki hefði verið beint talað um ákveðna upphæð og hefði hann því ekki vitað hve mikið hann átti að fá. Ákærða var bent á ósamræmi í framburðum sínum. Í skýrslum sínum hjá lögreglu hefði hann sagt að mennirnir í Amsterdam hefðu keypt farseðil fyrir hann og eins að hann ætti að fá 5000 dollara greidda. Þetta skýrði ákærði svo, að mennirnir hefðu rætt um 5000 dollara, en hann hefði ekki vitað hvort hann ætti að fá þá upphæð. Hann hefði átt að ræða þetta við manninn í New York, sem talaði spænsku.

Í skýrslu, sem ákærði gaf fyrir dómi er fyrst var krafist gæsluvarðhalds yfir honum, sagði hann að hann myndi fá 5000 dollara kæmi hann töskunni til New York. Honum hefði þótt þetta undarlegt, en verið búinn að hugsa sér að með þessum peningum sem hann fengi fyrir flutninginn gæti hann fjármagnað orlof sem hann var að fara í og fleira sem hann þurfti að borga.

Ákærði kvaðst hafa spurt mennina í Amsterdam hvort eiturlyf væru í töskunni og fengið þau svör að ekkert vandamál væri varðandi það sem í töskunni væri. Vegna þessa framburðar var ákærða bent á framburð sinn hjá lögreglu varðandi þetta atriði. Í skýrslu ákærða hjá lögreglu 1. október 2001 hefði honum verið bent á að í yfirheyrslu 28. september hefði hann sagst hafa vitað að eitthvað væri í töskunni sem hann væri að flytja á milli landa og hann spurður um það hvernig hann hefði vitað það. Ákærði hefði svarað lögreglu því til að hann hefði vitað þetta vegna þess að honum var sagt að þegar hann skilaði töskunni í New York þá fengi hann peninga. Það hlyti því eitthvað að hafa búið undir, því það borgi enginn flug og síðan peninga fyrir að flytja tösku til New York. Hann hefði spurt hvort eiturlyf væru í töskunni en honum verið sagt að hafa engar áhyggjur því svo væri ekki. Aðspurður hvað hefði komið til að hann spurði manninn hvort fíkniefni væru í töskunni svaraði ákærði lögreglu því til að hann hefði aldrei spurt beint um það. Hann hefði hins vegar spurt hvað væri í töskunni og honum verið sagt að það væru engin vandamál. Hann hefði aldrei tekið að sér að flytja töskuna hefði hann vitað að eiturlyf væru í henni. Í sömu yfirheyrslu kvaðst ákærði hafa grunað að eitthvað væri ólöglegt við flutninginn á töskunni þar sem mennirnir hefðu boðist til að borga flugið og borga á hann föt fyrir að flytja hana. Hann hefði alltaf fengið þau svör að þetta væri ekkert vandamál. Í sömu yfirheyrslu sagði ákærði að maðurinn í New York hefði átt að greiða honum 5000 dollara við afhendingu á töskunni.

Fyrir dóminum kvaðst ákærði sennilega ekki hafa spurt hvort eiturlyf væru í töskunni heldur bara hvað væri í henni. Þá kvaðst ákærði hafa grunað að eitthvað ólöglegt væri í töskunni vegna greiðslunnar sem hann átti að fá. Hann hefði grunað að einhver skjöl kynnu að vera í töskunni eða eitthvað sem honum kæmi ekki við. Honum hefði alltaf verið sagt að þetta væri ekkert mál. Hann hefði því ekkert hugsað út í þetta og ekki grunað að um eiturlyf væri að ræða.

Ákærði kvaðst hafa verið töskulaus og án alls farangurs er hann fór heim til Vínarborgar. Hann kvað glæný föt hafa verið í töskunni er hann opnaði hana á flugvellinum í Amsterdam til þess að setja úlpuna sína í hana. Þetta hefðu verið ýmis konar föt, t.d. gallabuxur, joggingföt, nærföt, sokkar, tvö pör af skóm og nærskyrtur. Ákærði kvaðst hafa opnað töskuna á flugvellinum í Keflavík, tollvörður tekið fötin úr henni og hefði taskan þá reynst vera tóm. Annar tollvarðanna hefði þá tekið hníf og sett hann niður með hlið töskunnar að innanverðu og kinkað kolli til félaga síns. Eftir það hefði ákærði verið settur í handjárn og leiddur í burtu. Hann hefði því ekki séð er falski botninn var tekinn úr töskunni. Honum hefði fyrst verið greint frá eiturlyfjunum um kvöldið þegar verjandi hans kom á lögreglustöðina.

Ákærði kvaðst ekki hafa þekkt mennina sem hann hitti í Amsterdam fyrir. Hann kvaðst hafa fengið miða með nöfnum þeirra og símanúmerum, en þekkti þá ekki undir þeim nöfnum sem lögreglan hafði aflað upplýsinga um að væru skráð fyrir þessum símanúmerum.

IV.

Sannað telst í máli þessu, að fíkniefni þau er í ákæru greinir fundust við leit í ferðatösku, sem ákærði hafði meðferðis á leið sinni frá Amsterdam til New York. Fundust fíkniefnin undir fölskum botni töskunnar. Ákærði kannast hvorki við að hafa átt fíkniefnin né að hafa vitað að fíkniefni væru í ferðatöskunni. Ákærði hefur á hinn bóginn viðurkennt að hafa tekið að sér að flytja þessa tösku til New York fyrir tilgreinda aðila í Amsterdam gegn 5000 dollara þóknun. Þótt ákærði neiti vitneskju sinni um fíkniefnin kannast hann þó við að hafa grunað að ekki væri allt með felldu í ljósi þeirrar greiðslu sem hann átti að fá fyrir viðvikið.

Í máli þessu hefur gætt ósamræmis í framburði ákærða í mörgum atriðum eins og vikið var að hér að framan. Þannig hefur ákærði ýmist haldið því fram að umsamið hafi verið að hann fengi 5000 dali fyrir flutninginn á töskunni eða að ekki hafi verið rætt um ákveðna upphæð. Þá hefur framburður ákærða um farseðil þann er hann kveðst hafa afhent mönnunum í Amsterdam verið ruglingslegur. Hið sama á við um eftirgrennslan ákærða um innihald töskunnar, en ákærði hefur ýmist borið að hann hafi spurt mennina í Amsterdam hvort fíkniefni væru í töskunni eða aðeins hvað væri í töskunni. Vitni hafa og borið að í tösku ákærða hafi verið notaður fatnaður en sjálfur hafi hann verið í glænýjum fötum er hann var handtekinn. Ákærði heldur því aftur á móti fram að í töskunni hafi verið talsvert af nýjum klæðnaði sem mennirnir í Amsterdam hafi látið í töskuna og hann hafi fyrst séð er hann opnaði töskuna í flugstöðinni í Amsterdam til þess að láta úlpu sína í hana.

Þegar atvik málsins eru virt heildstætt og sérsatklega litið til framangreindra atriða, þykir ólíkindablær vera á frásögn ákærða sem varpar verulegri rýrð á sannleiksgildi hennar. Þykir ákærði ekki hafa getað gefið haldbærar skýringar á háttsemi sinni. Verður framburður hans metinn sem fyrirsláttur einn. Er það mat dómsins með vísan til framanritaðs að sannað þyki að ákærði hafi vitað að í farangri hans væri mikið magn MDMA fíkniefna sem flytja ætti til Bandaríkjanna og koma þar í sölu og dreifingu.

Í 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni frá 20. desember 1988, sem tók gildi gagnvart Íslandi 1. desember 1997, en Bandaríkjunum 11. nóvember 1990, er mælt fyrir um það, að hver aðili hans skuli meðal annars lýsa þá háttsemi refsiverða, sé hún framin af ásetningi, að flytja inn eða út ólögleg fíkniefni eða skynvilluefni eða hafa í vörslum sínum slík efni í ólögmætum tilgangi. Óumdeilt er í málinu, að dreifing og sala fíkniefnisins MDMA er refsiverð í Bandaríkjunum. Óumdeilt er einnig að verknaðarlýsing 2. mgr. 173. gr. a almennra hegningarlaga tekur ekki einungis til fyrirhugaðrar sölu eða afhendingar ólöglegs fíkniefnis hér á landi heldur einnig í öðrum löndum, sem lýsa meðferð hættulegra ávana- og fíkniefna refsiverða, enda nær íslensk lögsaga samkvæmt 1. tl. 4. gr. almennra hegningarlaga jafnframt til brota, sem beinast að erlendum hagsmunum, sbr. dómur Hæstaréttar frá 8. febrúar 2001 í máli nr. 433/2000.

Þeirri vörn ákærða, að ósannað sé, að allar 67.485 MDMA töflurnar, sem fundust í fórum hans, hafi að geyma fíkniefni, þar sem einungis 140 þeirra hafi verið teknar til rannsóknar, er hafnað með vísan til framangreinds hæstaréttardóms, en þar var sýnataka og rannsókn efna í sambærilegu máli talin hafa farið fram í samræmi við áralanga venju um könnun ætlaðra fíkniefna og hefðu íslenskir dómstólar lagt þá starfshætti til grundvallar dómum sínum.

Samkvæmt framansögðu telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um brot sem varðar við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974 og lög nr. 32/2001.

Ákærði hefur eigi sætt refsingu svo kunnugt sé.

Ákærði á sér engar málsbætur.

Hæstiréttur hefur í mörgum dómum sínum á undanförnum árum ákveðið þung refsiviðurlög vegna meðferðar á fíkniefninu MDMA hér á landi, en það hefur verið álitið eitt hið hættulegasta á fíkniefnamarkaði, sbr. H. 1997:328. Hefur ekkert komið fram sem haggar því áliti. Í áðurgreindum dómi Hæstaréttar frá 8. febrúar 2001 var maður sakfelldur fyrir að hafa í vörslum sínum 14.292 töflur og 22,49 grömm af töflumulningi með fíkniefninu MDMA, sem hann ætlaði að flytja til Bandaríkjanna og selja þar í ágóðaskyni. Í héraði var refsing ákveðin 9 ára fangelsi, en á þeim tíma var hámarksrefsing fyrir slík brot 10 ára fangelsi. Segir í dómi Hæstaréttar að í málinu sé magn þessa fíkniefnis margfalt meira en áður hafi komið til kasta dómstóla. Séu því engin efni til þess að hnika refsiákvörðun héraðsdóms, sbr. og 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Magn fíkniefna í því máli sem hér er til meðferðar er tæplega fimmfalt magn þeirra fíkniefna sem ákærði í framangreindu máli hafði í vörslum sínum. Þá er brot ákærða framið eftir gildistöku laga nr. 32/2001 um breytingu á 173, gr a almennra hegningarlaga þar sem hámarksrefsing var hækkuð úr 10 ára fangelsi í 12 ára fangelsi.

Með vísan til framanritaðs og að teknu tilliti til þess að með dreifingu þeirra fíkniefna sem hér um ræðir hefði heilbrigði ótiltekins fjölda manna verið stefnt í voða, þykir eigi verða hjá því komist að dæma ákærða til að sæta hámarksrefsingu, fangelsi í 12 ár. Skiptir þá engu þótt leggja verði til grundvallar að ákærði hafi tekið að sér að flytja fíkniefnin til Bandaríkjanna fyrir aðra. Frá refsivist ákærða ber að draga með fullri dagatölu óslitna gæsluvarðhaldsvist hans frá 28. september 2001.

Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001  skal gera upptækar 67.485 töflur af fikniefninu MDMA og 13,91 g af sama fíkniefni.

Dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásbjarnar Jónssonar héraðsdómslögmanns, 350.000 krónur.

Af  hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Guðrúnu Sesselju Arnardóttur fulltrúa ríkissaksóknara.

Finnbogi H. Alexandersson, Guðmundur L. Jóhannesson og Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómarar kváðu upp dóminn.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Kurt Fellner, sæti fangelsi í 12 ár. Til frádráttar refsivist ákærða skal koma gæsluvarðhaldsvist hans frá 28. september 2001 með fullri dagatölu.

Ákærði skal þola upptöku á 67.485 töflum af fíkniefninu MDMA og 13,91 g af sama fíkniefni.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásbjarnar Jónssonar héraðsdómslögmanns, 350.000 krónur.