Hæstiréttur íslands
Mál nr. 568/2011
Lykilorð
- Skuldskeyting
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Aðildarskortur
|
|
Fimmtudaginn 31. maí 2012. |
|
Nr. 568/2011. |
Icelandair Cargo ehf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.) gegn Íslandsbanka
hf. (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) |
Aðildarskortur.
Skuldskeyting. Fjármálafyrirtæki. Slit.
IC ehf. krafði Í hf. um greiðslu tiltekinnar
fjárhæðar í sterlingspundum á grundvelli samnings um gjaldmiðlaviðskipti milli IC og G hf. Taldi IC ehf. að
krafa félagsins hefði færst yfir til N hf., sem síðar varð Í hf., með
tiltekinni ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að óuppgerð viðskipti G hf. sem
ekki tengdust afleiðuviðskiptum færðust yfir til hins nýja banka. Hæstiréttur
vísaði til þess að skuldir vegna gjaldmiðlaviðskipta af því tagi sem IC gerði við G hf. hefðu ekki verið meðal þeirra nánar
tilgreindu skuldbindinga sem færðar voru frá G hf. til hins nýja banka með
ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Þá yrði ekki fallist á það að forsendur fyrir
skiptingu efnahagsreiknings hins nýja banka hefði flutt frekari skuldbindingar
til Í en þær sem beinlínis leiddu af ákvörðuninni. Var því staðfest niðurstaða
héraðsdóms um sýknu Í hf. af kröfu IC ehf. sökum
aðildarskorts.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu
til Hæstaréttar 18. október 2011. Hann krefst þess að stefnda verði gert að
greiða sér 127.203,86 sterlingspund ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr.
laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. júní 2008 til greiðsludags.
Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Málavöxtum og málsástæðum aðila er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir gerðu áfrýjandi og Glitnir banki hf. samning um gjaldmiðlaviðskipti 11. júní 2008. Samkvæmt samningnum keypti áfrýjandi 127.231,86 sterlingspund fyrir 1.200.000 danskar krónur og átti afhending á gjaldmiðlunum að fara fram tveimur dögum síðar. Óumdeilt er að við þetta uppgjör urðu þau mistök af hálfu bankans að áfrýjanda voru greiddir bandaríkjadalir í stað punda. Þessa fjárhæð í dölum endurgreiddi áfrýjandi 22. júlí 2008 en í kjölfarið barst honum ekki greiðsla í pundum frá bankanum.
Samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar Glitnis banka hf., vék stjórn hans frá og setti skilanefnd yfir bankann. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. þess mánaðar, sem reist var á sömu lagaheimild, var eignum og skuldum bankans ráðstafað. Í þeirri ákvörðun fólst að stefndi, sem þá hét Nýi Glitnir banki hf., tók við öllum skuldbindingum vegna innstæðna í innlendum útibúum Glitnis banka hf., auk nánar tilgreindra ábyrgða bankans. Þá tók stefndi yfir skuldbindingar samkvæmt verðbréfum útgefnum af bankanum með veði hjá seðlabönkum og ríkissjóðum og veðskuldir áhvílandi á fullnustueignum. Í niðurlagi ákvörðunarinnar kom fram sá fyrirvari að Fjármálaeftirlitið gæti gert hvers konar breytingar á ákvörðuninni, þar með talið fellt hana úr gildi í heild eða að hluta, ef hún reyndist byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða aðrar forsendur hennar brygðust verulega.
Í umræddri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins var fjallað um mat á eignum og uppgjör, en þar sagði meðal annars að um nánari meðferð einstakra liða í skiptingu efnahagsreiknings væri kveðið á um í sérstöku skjali sem Fjármálaeftirlitið hefði staðfest. Það skjal var einnig frá 14. október 2008 en var endurskoðað 19. sama mánaðar og bar yfirskriftina „Forsendur fyrir skiptingu efnahagsreiknings“. Í inngangi skjalsins kom fram að Fjármálaeftirlitið hefði tekið saman samræmd viðmið um framsetningu stofnefnahagsreiknings nýs banka, en markmiðið væri að samræma vinnubrögð við yfirfærslu eigna og skulda í nýjan banka og koma með tillögu um áætlað mat en formlegt verðmat eigna og skulda færi fram síðar. Þá sagði að í skjalinu væri gerð nánar grein fyrir einstökum liðum „opnunarefnahagsreiknings“. Í framhaldinu var síðan vikið að því hvaða eignir og skuldir hefðu verið fluttar yfir í nýjan banka. Að því er varðar þær eignir sem fluttar voru í nýjan banka var ýmist tekið fram að þær væru færðar á gangverði eða bókfærðu verði. Þær skuldir sem fluttar voru í nýja bankann voru annars vegar innlán, sem færa átti á bókfærðu verði, og hins vegar aðrar skuldir en um þær sagði svo: „Óuppgerð viðskipti færast yfir í nýja bankann á bókfærðu verði, annað verður eftir í gamla bankanum, þar með talið skuldir tengdar afleiðusamningum.“ Með þessu telur áfrýjandi að skuld samkvæmt fyrrgreindum samningi um gjaldmiðlaviðskipti hafi verið flutt yfir til stefnda.
II
Svo sem nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi kemur fram í gögnum málsins að krafa samkvæmt gjaldmiðlasamningi áfrýjanda við Glitni banka hf. hafi verið framseld Icelandair Group ehf. Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð yfirlýsing þess félags og áfrýjanda um að krafan hafi eingöngu verið framseld til innheimtu og því hafi hún allt frá stofnun verið í eigu áfrýjanda, sem er dótturfélag Icelandair Group ehf. Yfirlýsing þessi er ódagsett en af efni hennar verður ráðið að hún var rituð eftir uppsögu héraðsdóms. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á það með stefnda að fyrir hendi sé aðildarskortur til sóknar.
Á grundvelli lögbundinnar heimildar tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun 14. október 2008 að flytja nánar tilgreindar skuldbindingar frá Glitni banka hf. til stefnda. Þar á meðal voru ekki skuldir vegna gjaldmiðlaviðskipta af því tagi sem áfrýjandi gerði við bankann. Þessari ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hefur ekki verið breytt í samræmi við fyrirvara sem gerður var í ákvörðuninni. Þá verður ekki fallist á það með áfrýjanda að það skjal sem ákvörðunin vísar til og hefur að geyma forsendur fyrir skiptingu efnahagsreiknings nýs banka hafi flutt frekari skuldbindingar til stefnda en leiðir beinlínis af ákvörðuninni, en þessar forsendur lúta aðeins að því hvernig farið skuli með í efnahagsreikningi stefnda þær eignir og skuldir sem fluttar höfðu verið til hans. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Icelandair Cargo ehf., greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2011.
Mál þetta, sem var
dómtekið 15. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Icelandair Cargo ehf.,
Brautarholti 12-14, Reykjavík, á hendur Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2,
Reykjavík, með stefnu birtri 16. mars
2011.
Stefnandi
krefst þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda GBP 127.203,86 ásamt dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga
nr. 38/2001 frá 13. júní 2008 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af
öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi.
Málavextir
Hinn 11.
júní 2008 gerðu stefnandi og Glitnir samning um gjaldmiðlaviðskipti, samning
nr. FX0000304230. Seldi Glitnir banki hf. stefnanda 127.231.86 bresk pund (GBP) fyrir DKK 1.200.000.00 og
átti afhending að vera tveimur dögum síðar. Við uppgjörið urðu mistök hjá
Glitni það er að stefnanda voru greiddir dollarar en ekki pund, eins og
samningurinn gerði ráð fyrir. Hinn 22. júlí 2008 endurgreiddi stefnandi
fjárhæðina sem hann hafði móttekið í dollurum, en svo virðist sem greiðsla í
pundum hafi ekki borist stefnanda frá Glitni banka hf.
Hinn 7. október 2008
ákvað Fjármálaeftirlitið að skipa skilanefnd yfir Glitni banka hf. og hinn 14.
október 2008 ákvað Fjármálaeftirlitið að ráðstafa nánar tilgreindum eignum og
skuldum Glitnis banka hf. til Nýja Glitnis banka hf., sem síðar varð
Íslandsbanki hf. Í skjali dags. 14. október 2008 (endurskoðað 19. október 2008)
útgefnu af FME „Forsendur fyrir skiptingu
efnahagsreiknings“ er nánar fjallað um skiptingu eigna og skuldbindinga Glitnis
banka hf. Þar segir undir kaflanum um „aðrar skuldir“ að ,,óuppgerð viðskipti
færast yfir í nýja bankann á bókfærðu verði, annað verður eftir í gamla
bankanum, þar með talið skuldir tengdar afleiðusamningum“.
Hinn 3. febrúar 2009
sendi starfmaður stefnanda tölvupóst til starfsmanns hjá gjaldeyrismiðlun
stefnda og óskaði eftir því að málið yrði kannað. Engin svör bárust og því var
beiðnin ítrekuð 13. febrúar 2009.
Hinn 23. febrúar 2009
bárust stefnanda eftirfarandi svör frá starfsmanni hjá gjaldeyrismiðlun
Íslandsbanka: ,,Fékk þau svör frá skilanefnd að ekki væri hægt að greiða þetta
út, það verður að leggja fram kröfu og eina leiðin til þess að ná þessu öllu er
með skuldajöfnun. “
Stefnandi kveðst hafa
dregið þá ályktun af svörum stefnda að skuldin hefði ekki verið flutt til
stefnda og var því ekkert gert í málinu af hálfu stefnanda fyrr en í lok
nóvember 2009 þegar til stóð að lýsa kröfu í bú Glitnis banka hf.
Stefnandi kveður að þegar
starfsmenn hans hófu vinnu við að lýsa kröfu í bú Glitnis banka hf. hafi komið
í ljós að ofangreind svör frá stefnda hafi ekki verið rétt því skv. ákvörðun FME frá 14. október 2008 hafði skuldbindingin færst yfir
til stefnda þar sem öll óuppgerð viðskipti Glitnis banka hf. sem ekki tengdust
afleiðusamningum færðust yfir til stefnda.
Hinn 7. janúar 2010 sendi
forstöðumaður lögfræðideildar Icelandair Group hf., bréf til stefnda þar sem krafist var að stefndi
myndi greiða stefnanda GBP 127.203,86 ásamt
dráttarvöxtum frá 13. júní 2008 til greiðsludags. Í bréfinu var vísað til þess
að umrædd skuld hefði færst yfir til stefnda, sbr. fyrrnefnd ákvæði ákvörðunar FME dags. 14. október 2008.
Með bréfi dags. 27.
janúar 2010 barst Icelandair Group
hf. svar frá lögfræðideild stefnda. Í bréfinu hafnaði stefndi greiðsluskyldu
sinni með þeim rökum að krafa stefnanda teldist ekki til innlána skv.
fyrrnefndri ákvörðun FME.
Í framhaldi af svörum
stefnda átti forstöðumaður lögfræðideildar Icelandair
Group hf. í bréfasamskiptum við starfsmenn Glitnis
banka hf. Þar krafðist stefnandi þess að kröfunni yrði skuldajafnað á móti
skuldum Icelandair Group
ehf. hjá Glitni banka hf. en bankinn hafnaði þeirri kröfu.
Þar sem stefnanda hefur
ekki borist umrædd greiðsla að fjárhæð GBP 127.203,86
frá stefnda þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir telur hann nauðsynlegt að höfða mál
þetta.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Kröfur stefnanda byggja aðallega á því
að stefnda sé skylt að greiða stefnanda GBP
127.203,86 þar sem um óuppgerð viðskipti á milli stefnanda og Glitnis banka hf.
hafi verið að ræða. Með ákvörðun FME dags. 14.
október 2008 höfðu skuldbindingar vegna óuppgerðra viðskipta verið fluttar til
stefnda frá Glitni banka hf.
Fyrir liggi að Glitnir banki hf. hafi
skuldbundið sig til þess að selja stefnanda GBP
127.203,86 hinn 13. júní 2008. Stefnandi hafi innt af hendi greiðslu til
stefnda vegna kaupanna hinn 13. júní 2008 í dönskum krónum. Fyrir liggi að
Glitnir banki hf. hafi greitt stefnanda umsamda dollara þann sama dag. Skömmu
síðar, eða hinn 18. júní 2008, hafi Glitnir banki hf. greitt fyrir mistök USD 248.658,11 inn á reikning stefnanda. Þeir fjármunir
hafi síðar verið endurgreiddir. Greiðsla vegna uppgjörs á viðskiptum aðila, sem
hafi átt að vera GBP 127.203,86, hafi ekki enn borist
stefnanda.
Ljóst sé að viðskiptin hafi verið
svokölluð stundarviðskipti. Í stundarviðskiptum með gjaldeyri felast kaup á
gjaldeyri sem eigi að gerast upp innan skamms tíma gagnstætt afleiðusamningum
um gjaldeyri sem miði við lengri tíma. Almennt sé miðað við að stundarviðskipti
séu viðskipti sem eigi að gera upp innan tveggja daga frá viðskiptadegi. Þessu
til stuðnings bendi stefnandi á, að samkvæmt skilgreiningu í svokölluðum
lýsigögnum gjaldeyrisjafnaðar bankastofnana séu stundarviðskipti skilgreind sem
viðskipti sem gerð séu upp innan tveggja daga frá viðskiptadegi.
Stefnandi telur að þar sem enginn
afleiðusamningur hafi verið gerður um þessi gjaldeyriskaup sé óumdeilt að um
stundarviðskipti hafi verið að ræða.
Til enn frekari stuðnings þess að um
stundarviðskipti hafi verið að ræða, bendir stefnandi einnig á að Glitnir banki
hf. hafi innt af hendi greiðslur í dollurum vegna viðskiptanna. Fyrst hafi það
verið með tveimur greiðslum hinn 13. júní 2008, á sama degi og stefnandi innti
greiðslu í dönskum krónum til Glitnis banka hf. af hendi. Skömmu síðar, eða
hinn 18. júní, hafi Glitnir banki hf. lagt inn á reikning stefnanda USD 248.658,11. Sú fjárhæð hafi verið endurgreidd þar sem
greiðslan hafi ekki verið í samræmi við samkomulag aðila. Ljóst sé að Glitnir
banki hf. hafi skuldbundið sig til þess að greiða stefnanda GBP
127.203,86 og átti að inna greiðsluna af hendi á fyrir fram umsömdum
viðskiptadegi hinn 13. júní 2008. Glitnir banki hf. hafi hins vegar ekki staðið
við þá skuldbindingu að gera viðskiptin upp með réttum hætti.
Í ljósi þess að um stundarviðskipti hafi
verið að ræða, sem ekki voru tengd afleiðusamningum, telur stefnandi ljóst að
þessi óuppgerðu gjaldeyrisviðskipti hafi verið færð yfir til stefnda með
áðurgreindri ákvörðun FME.
Að öllu ofangreindu virtu telur
stefnandi að hann eigi réttmæta kröfu á hendur stefnda um greiðslu á GBP 127.203,86 ásamt dráttarvöxtum frá 13. júní 2008 til
greiðsludags.
Stefnandi kveðst byggja
kröfur sínar á reglum um skuldbindingargildi samninga og almennum reglum
kröfuréttar. Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á ákvæðum XXI. kafla laga um
meðferð einkamála nr. 91/1991. Um kröfugerð, aðallega á hendur aðalstefnda og
til vara á hendur varastefnda, sé vísað til 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991.
Mál þetta er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur samkvæmt heimild í 1. mgr. 33.
gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda
Í
fyrsta lagi tekur stefndi fram að fyrir liggi dómskjöl sem beri með sér að sú
krafa sem stefnandi sækir í málinu hafi verið framseld öðrum lögaðila, Icelandair Group hf. Hafði það
verið gert hinn 13. júní 2008 eins og fram hafi komið í bréfi forstöðumanns
lögfræðideildar Icelandair til Glitnis banka hf.,
dags. 19. október 2010.
Til
viðbótar hafi Icelandair Group
hf., sem mun vera móðurfélag stefnanda, hagað aðgerðum sínum þannig gagnvart
Glitni banka að enginn vafi leiki á því að hann hafi fengið kröfuna framselda
og farið eða misfarið með hana sem eigandi hennar. Má þar nefna tilraunir til
skuldajöfnunar við kröfur Glitnis banka gagnvart Icelandair
Group.
Stefndi
heldur því fram að stefnandi eigi ekki þá hagsmuni sem hann leiti dóms fyrir og
því sé aðildarskortur sóknarmegin sem leiði til sýknu, sbr. ákvæði 2. mgr. 16.
gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í öðru
lagi byggir stefnandi kröfu sína á því að skuld Glitnis banka hf. við stefnanda
hafi með einhverjum hætti flust yfir til Íslandsbanka hf. með ákvörðun
Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008. Stefndi byggi á því að sýkna beri
hann af öllum kröfum stefnanda vegna aðildarskorts til varnar, sbr. 2. mgr. 16.
gr. laga um meðferð einkamála. Byggir sýknukrafa stefnda á því að málinu sé
ranglega beint gegn honum.
Í
þriðja lagi tekur stefndi fram að hann hafi aldrei tekið við þeirri
skuldbindingu sem hugsanlega hafi hvílt á Glitni banka hf. vegna vanefnda á
samningi við stefnanda. Hvorki liggi samningar þar að lútandi fyrir, né hafi
skuldin verið færð í bækur stefnda á grundvelli þeirra ákvarðana
Fjármálaeftirlitsins sem frumefnahagsreikningur bankans og heildaruppgjör við
Glitni banka hf. byggist á. Kröfuréttur á hendur stefnda byggist því hvorki á
samningi, lögum né annars konar bindandi ákvörðunum stjórnvalda.
Meginmálsástæða
stefnda er að engar skuldbindingar verði á hann lagðar nema samkvæmt skýrum
fyrirmælum sem eigi sér stoð í því heildaruppgjöri sem fram hafi farið með
ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins í október 2008 og tildrögum þeirra. Kröfur
stefnanda séu beinlínis í andstöðu við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og auðsæ
markmið hennar.
Í
fjórða lagi kveður stefndi að stefnandi virðist telja að orðalag um uppgjör á
„óafgreiddum viðskiptum“ í svokölluðum „forsendum fyrir skiptingu
efnahagsreiknings“ eigi að leiða til þess að hann verði betur settur en
tugþúsundir almennra kröfuhafa Glitnis. Þetta sé alrangt en jafnvel þótt
fallist væri á skilning stefnanda þá sé óheimilt að túlka það án samhengis við
ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008 og þann efnahagsreikning sem
unninn hafi verið á grundvelli allra umræddra gagna.
Viðskiptin
sem vísað er til á bls. 2 í forsenduskjalinu eigi við um peningafærslur sem enn
voru á ferðinni í kerfum bankans, ýmist vegna eigin viðskipta eða milligöngu.
Markmið ákvarðana Fjármálaeftirlitsins hafi verið að koma í veg fyrir hrun
greiðslukerfa landsins og af þeim sökum hafi það orðið að taka fram að nýju
bankarnir tækju að sér þá miðlun greiðslna sem enn hafi verið „í pípunum“ þegar
þeir féllu. Alrangt sé að halda því fram að þetta orðalag eigi að túlka þannig
að margra mánaða vanefndarkröfur falli þar undir.
Í
fimmta lagi sé óumdeilt að þau viðskipti sem tekist sé á um í málinu hafi verið
svokölluð stundarviðskipti, enda segi í almennum skilmálum í samningi stefnanda
og Glitnis banka hf. um umrædd gjaldmiðlaviðskipti, að í gjaldmiðlaviðskiptum
fari afhending gjaldmiðla almennt fram tveimur bankadögum eftir samningsdag.
Samkvæmt
samningi stefnanda og Glitnis banka hf. frá 11. júní hafi afhendingardagur átt
að vera 13. júní 2008. Afhending Glitnis banka hf. virðist hafa dregist til 18.
júní 2008, en þá hafi Glitnir banki hf. greitt stefnanda andvirði DDK 1,200,000.00. Greiðslan hafi reynst vera í annarri mynt
en um var samið vegna mistaka, þ.e. í dollurum en ekki í pundum. Stefnandi hafi
endurgreitt dollarana 22. júlí 2008 og óskað eftir greiðslu í pundum í staðinn,
en vegna mistaka hafi sú greiðsla aldrei verið innt af hendi.
Það sé
því ljóst að umræddur samningur um gjaldmiðlaviðskipti hafi verið eða átt að
vera uppgerður í júní 2008, en Glitnir banki hf. virðist ekki hafa gengið frá
greiðslum sem leiðrétta áttu mistök sem hafi orðið við uppgjör samningsins. Í
ljósi þess sé ekki hægt að halda því fram að um óuppgerð viðskipti sé að ræða
heldur augljóslega vanefnda skyldu, sé lýsing stefnanda á atvikum málsins rétt.
Í
sjötta lagi tekur stefndi fram, að eins og að framan greini hafi
Fjármálaeftirlitið hinn 7. október 2008 ákveðið að skipa skilanefnd yfir Glitni
banka hf. og 14. október 2008 að ráðstafa eignum og skuldum Glitnis banka hf.
til stefnda. Ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins hafi verið teknar með heimild í
100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr.
125/2008, svokölluðum neyðarlögum.
Af
greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að neyðarlögunum megi sjá að
tilgangur lagasetningarinnar hafi verið að koma í veg fyrir kerfishrun og
bankaáhlaup með því að tryggja áframhaldandi almenna bankastarfsemi og öryggi
innstæðna á Íslandi. Segir að mikilvægt sé að stjórnvöld hafi heimild til að
grípa til nauðsynlegra aðgerða, enda sé ljóst að fjárhags- og rekstrarvandi
kerfislega mikilvægra banka geti haft mjög alvarleg keðjuverkandi áhrif á
fjármálamarkaðinn og íslenskt hagkerfi og ógnað fjármálastöðugleika. Ástæða
þess að Fjármálaeftirlitið greip inn í starfsemi Glitnis banka hf. á grundvelli
framangreindra ákvæða hafi verið sú að stofnunin taldi að bankinn hafi í raun
verið ófær um að standa við skuldbindingar sínar. Þegar skorið sé úr um það
hvaða eignir og skuldir fluttust frá gamla bankanum til nýja bankans sé
nauðsynlegt að hafa þessar aðstæður í huga.
Í
sjöunda lagi bendir stefndi á að meginreglan við skiptingu Glitnis banka í
gamlan og nýjan banka hafi verið að nýi bankinn yfirtók innlendar eignir og
innlendar innstæður Glitnis. Í gamla bankanum hafi hins vegar verið skildar
eftir allar skuldir aðrar en innlendar innstæður. Þetta megi sjá af ákvörðun um
ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf., frá 14. október 2008. Ekki sé á
það minnst að stefndi taki yfir kröfur af þeim toga er stefnandi hefur uppi í
máli þessu, enda teljist sú krafa ekki til innlána, ábyrgða eða verðbréfa sem
Glitnir banki hafi gefið út eða veðskulda áhvílandi á fullnustueignum.
Með
óuppgerðum viðskiptum verði að telja að átt sé við viðskipti sem voru í bígerð
þegar ákvörðunin hafi verið tekin, en ekki viðskipti frá 13. júní 2008, fjórum
mánuðum áður en ákvörðun Fjármálaeftirlitsins var tekin. Þá verði ekki talið að
leiðrétting vegna mistaka starfsmanna Glitnis banka hf. geti talist óuppgerð
viðskipti sem færst hafi yfir til stefnda.
Það sé
því ljóst að umrædd skuld sem Glitnir banki hf. virðist standa í við stefnanda
hafi ekki verið flutt yfir til stefnda með ákvörðum Fjármálaeftirlitsins hinn
14. október 2008. Því sé stefndi ekki réttur aðili að málinu og beri að sýkna
hann af kröfum stefnanda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga
nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í
áttunda lagi bendir stefndi á að telji dómurinn að umrædd kröfuréttindi hafi í
raun verið flutt til stefnda sem skuldbinding byggi stefndi jafnframt á því að
með aðgerðarleysi sínu hafi stefnandi fyrirgert öllum þeim rétti sem hann kynni
að hafa haft. Sé sérstaklega vísað til þess að mjög þýðingarmikið hafi verið
fyrir stefnda að fá vitneskju um málsókn vegna þess uppgjörs sem lokið hafi
verið á árinu 2009 við Glitni banka í framhaldi af flutningi tiltekinna eigna
og skulda til stefnda.
Með
aðgerðum sínum hafi stefnandi jafnframt gefið fyllsta tilefni til að ætla að
hann myndi beina kröfum sínum að Glitni banka, m.a. í formi skuldajöfnunar.
Þessi málsókn sé því ósamrýmanleg þeim aðgerðum, að ekki sé minnst á þá
staðreynd að stefnandi hafi framselt kröfuna til annars aðila svo sem rakið var
hér að framan.
Verði
ekki fallist á að sýkna stefnda af kröfum stefnanda á grundvelli aðildarskorts
geri stefndi kröfu um að dráttarvextir
verði ekki dæmdir fyrr en í fyrsta lagi frá og með uppkvaðningu endanlegs dóms,
enda hafi stefnandi talið óljóst að hverjum hann hafi átt að beina kröfum sínum
og beint þeim að stefnda og Glitni banka hf. til skiptis. Vísast um þetta til
7. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Um málskostnaðarkröfu
stefnda vísast til ákvæðanna í 129.-131. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Dagana
11. og 13. júní 2008 gerðu Flugleiðir-Frakt ehf. og Glitnir banki hf. þrjá
samninga um gjaldmiðlaviðskipti. Hinn 28. ágúst 2010 breyttist nafn
Flugleiða-Fraktar ehf. í Icelandair Cargo ehf., sem er stefnandi í máli þessu. Ekki er deilt um
efni eða efndir á tveimur samningum um skipti á dönskum krónum og
Bandaríkjadölum en ágreiningur aðila snýst um hinn þriðja sem fjallar um skipti
á breskum pundum (GBP) og dönskum krónum (DKK). Ágreiningslaust er að Glitnir banki hf. greiddi
bandaríska dollara í stað breskra punda inn á reikning stefnanda. Hinn 22. júlí
2008 voru dollararnir endurgreiddir bankanum án þess að bankinn hafi greitt
bresku pundin í þeirra stað. Stefnandi kveður að hann hafi ekki orðið var við
þessi mistök fyrr en í febrúar 2009. Í málinu er stefnandi að gera kröfur um
greiðslu á bresku pundunum.
Eignarhald
hinnar umdeildu dómkröfu er ekki svo skýrt sem skyldi. Í bréfi forstöðumanns
lögfræðideildar Icelandair Group
frá 6. apríl 2010 til Glitnis banka hf., (slitastjórnar) kemur fram að stefnandi
hafi framselt Icelandair Group
hf. kröfu þá sem um er deilt í málinu.
Ekki er upplýst í bréfinu hvenær framsalið átti sér stað. Það var hins vegar
gert í bréfi frá hinum sama forstöðumanni dags. 19. október 2010 og tilgreint
að framsalið hefði átt sér stað 13. júní 2008.
Slitastjórn
Glitnis banka hf. svarar nefndu bréfi frá Icelandair Group hf. hinn 10. janúar 2011. Af því bréfi verður ekki
annað ráðið en að slitastjórnin hafi viðurkennt að stefnandi eigi kröfu á hana;
einungis virðist sem í bréfinu sé verið að hafna skuldajöfnuði á móti skuldum Icelandair Group við Glitni banka
hf. Þannig virðist eignarhald kröfunnar í janúar 2011 vera á þann hátt að Iceland Group hf. eigi kröfuna.
Mál
þetta er síðan höfðað í mars 2011. Ekkert liggur fyrir um að stefnandi hafi þá
átt kröfuna. Í yfirlýsingu Björgólfs Jóhannssonar, forstjóra Icelandair Group hf., og Gunnars
Más Sigurfinnssonar, framkvæmdastjóra Icelandair Cargo ehf., dags. 24. ágúst 2011, staðfesta þeir að
stefnandi eigi þá kröfu sem um er deilt í málinu. Hins vegar liggur ekkert
fyrir um það í málinu hvenær stefnandi hafi eignast kröfuna.
Stefndi
byggir á því að hann eigi ekki aðild að máli þessu. Eins og að framan greinir
gerði stefnandi samning við Glitni banka hf. Hinn 7. október 2008 ákvað Fjármálaeftirlitið
að skipa skilanefnd yfir Glitni banka hf. og hinn 14. október 2008 ákvað
Fjármálaeftirlitið að ráðstafa nánar tilgreindum eignum og skuldum Glitnis
banka hf. til Nýja Glitnis banka hf., sem síðar varð Íslandsbanki hf. Kröfu
sína á hendur stefnda byggir stefnandi á því að í 1. ml.
10. gr. ofangreindrar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins segi, að kveðið sé á um
nánari meðferð einstakra liða í skiptingu efnahagsreiknings meðal annars í
sérstöku skjali sem Fjármálaeftirlitið hafi staðfest, nefnt ,,forsendur fyrir
skiptingu efnahagsreiknings“. Í síðastnefndu skjali, sem dagsett sé 14. október
2008 og endurskoðað 19. október sama ár, sé kveðið á um skiptingu eigna og
skuldbindinga Glitnis banka hf. Stefnandi byggir á því að í kaflanum um „aðrar
skuldir“ sé fjallað um óuppgerð viðskipti og telur hann að krafa hans falli þar
undir.
Áðurnefnd ákvörðun
Fjármálaeftirlitsins frá 7. október 2008 er tekin með heimild í 100. gr. a í
lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild
til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði
o.fl. Í upphafi 1. gr. laga nr. 125/2008 segir, að við sérstakar aðstæður á
fjármálamarkaði sé fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að reiða fram
fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki
eða þrotabú þess í heild eða að hluta. Af greinargerð með lögunum verður ráðið
að tilgangur lagasetningarinnar hafi verið sá, að tryggja virkni
fjármálakerfisins og vernda fjármálamarkaðinn. Segir þar að ljóst sé, að
fjárhags- og rekstrarvandi kerfislega mikilvægra banka geti haft mjög alvarleg
keðjuverkandi áhrif á fjármálamarkaðinn og íslenskt hagkerfi og ógnað
fjármálastöðugleika. Við úrlausn á ágreiningi aðila um það, hvort kröfum
stefnanda sé réttilega beint að stefnda eður ei, verður að líta til þess sem
ákvörðunin, samkvæmt efni sínu, tilgreinir að ráðstafað hafi verið yfir til
nýja bankans, auk þess sem horfa verður til framangreindra sjónarmiða um
tilgang laganna, sem umrædd ákvörðun Fjármálaeftirlitsins er byggð á.
Af ákvæðum
framangreindrar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins er ljóst, að með henni var
ráðstafað tilgreindum og nánar afmörkuðum eignum, réttindum og skyldum frá
Glitni banka hf. yfir til stefnda, áður Nýja Glitnis banka hf. Samkvæmt 7. til
9. tl. ákvörðunarinnar yfirtók Nýi Glitnir banki hf.,
nú stefndi, innlán frá fjármálafyrirtækjum og fleirum, skuldbindingar samkvæmt
inn- og útflutningsábyrgðum o.fl. og skuldbindingar samkvæmt verðbréfum sem
Glitnir banki gaf út. Ekki er í ákvörðuninni tekið fram að Nýi Glitnir hf.
yfirtaki kröfur álíka þeim er stefnandi krefur um í málinu.
Eins og atvikum máls
þessa er háttað er ekki fallist á að krafa stefnanda um leiðréttingu á mistökum
starfsmanna Glitnis banka hf., sem áttu sér stað í júní 2008 og uppgötvuðust í
febrúar 2009, geti talist óuppgerð viðskipti sem stefndi beri ábyrgð á, en um
stundarviðskipti var að ræða sem taka um það bil tvo virka daga. Því er hafnað
að umrædd skuld, sem Glitnir banki hf. virðist standa í við stefnanda, hafi verið
flutt yfir til stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hinn 14. október 2008.
Niðurstaða málsins er því sú að stefndi sé ekki réttur aðili að málinu og beri
að sýkna hann af kröfum stefnanda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16.
gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Með vísan til 131. gr.
laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem þykir
hæfilega ákveðinn 800.000 kr.
Sigrún Guðmundsdóttir
héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýknaður af kröfum
stefnanda, Icelandair Cargo
ehf.
Stefnandi greiði stefnda
800.000 kr. í málkostnað.