Hæstiréttur íslands
Mál nr. 288/2005
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
|
|
Fimmtudaginn 15. desember 2005. |
|
Nr. 288/2005. |
Þrotabú Ævintýrisins Tangarhöfða 7 hf. (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn Afþreyingarfélaginu ehf. (Magnús Guðlaugsson hrl.) |
Gjaldþrotaskipti. Riftun.
Á aðalfundi Æ var ákveðið að fara fram á að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Í framhaldi af fundinum var gerður samningur um kaup A á tilteknum fasteignum og lausafé Æ. Af hálfu þrotabús Æ var krafist riftunar á þeim ákvæðum samningsins sem vörðuðu greiðslu kaupverðs eigna félagsins með vísan til 141. og 131. gr. laga nr. 21/1991. Talið var að öllum sem að samningnum stóðu hafi verið ljóst að Æ var ógjaldfært. Fallist var á að sú tilhögun á greiðslu kaupverðs sem ákveðin var í samningnum hefði falið í sér mismunun kröfuhafa og leitt til þess að eignir voru ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum á þann hátt sem mælt sé fyrir um við skipti þrotabúa. Hafi því verið um ótilhlýðilega ráðstöfun að ræða. Að virtu því sem komið var fram um kaupverð og matsvirði umræddra eigna var hins vegar ekki talið að þrotabú Æ hefði sýnt fram á að A hefði haft hag af þessari ráðstöfun eins og áskilið er í 141. gr. laga nr. 21/1991. Þá var ekki talið að 131. gr. laganna kæmi til álita. Var A því sýknað af kröfu Æ.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Guðrún Erlendsdóttir og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. júní 2005. Hann krefst þess að rift verði með dómi kaupsamningi áfrýjanda og stefnda 20. janúar 2003 að því er tekur til kaupa stefnda á óveðsettum eða undirveðsettum verðmætum áfrýjanda. Einnig krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 10.848.569 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. janúar 2003 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og fram kemur í héraðsdómi var hinn 20. janúar 2003 ákveðið á aðalfundi Íslenskra ævintýraferða hf., sem síðar var nefnt Ævintýrið Tangarhöfða 7 hf., að fara fram á gjaldþrotaskipti á félaginu. Barst Héraðsdómi Reykjavíkur beiðni félagsins 14. febrúar 2003 og var bú þess tekið til gjaldþrotaskipta 20. sama mánaðar. Forsvarsmaður stefnda hafði verið framkvæmdastjóri Íslenskra ævintýraferða hf. frá 21. desember 2002 og stjórnarmaður frá aðalfundi 20. janúar 2003. Átti hann um 20% hlutafjár í félaginu.
Í framhaldi fundarins 20. janúar 2003 var gerður samningur milli Íslenskra ævintýraferða hf. og stefnda um kaup hins síðarnefnda á tilteknum fasteignum og lausafé hins fyrrnefnda eins og nánar er rakið í héraðsdómi. Einnig voru keyptar allar viðskiptakröfur félagsins og munu þær hafa numið 16 milljónum króna. Kaupverð var ákveðið 84.034.285 krónur, en það skyldi greitt með yfirtöku kaupanda á tilteknum skuldum seljanda, er námu þessari fjárhæð. Þá tók kaupandi við ráðningarsamningum við fjóra starfsmenn seljanda og þeim skyldum, er þeim fylgdu. Í samningnum sagði og að ein af forsendum hans væri að aðilarnir efndu til samstarfs sín á milli, sem einkum skyldi felast í því að kaupandi annaðist framkvæmd ævintýraferða og seljandi annaðist markaðs- og sölustarf.
Í héraðsdómi er greint frá matsgerð tveggja manna, er dómkvaddir voru að kröfu stefnda til að meta verðmæti þeirra fasteigna og lausafjármuna, er kaupsamningurinn tók til. Var það niðurstaða þeirra að heildarverðmæti þessara eigna næmi 50.108.000 krónum. Greiðslukrafa áfrýjanda byggir nú á þessari matsgerð og krefst hann matsverðs óveðsettra eigna og mismunar matsverðs og veðskulda á veðsettum eignum. Hefur stefndi ekki vefengt fjárhæð veðskulda, sem byggt er á. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti kom fram af hálfu stefnda að Sparisjóður Mýrarsýslu hefði fengið greidda yfirdráttarskuld, sem stefndi átti að greiða samkvæmt samningnum, með því að fá framseldar ofangreindar viðskiptakröfur. Að öðru leyti hafi stefndi reitt fram greiðslu þeirra skulda, sem tilgreindar voru í samningnum. Hefur þessu ekki verið hnekkt af hálfu áfrýjanda. Telur stefndi þegar tillit sé tekið til allra atriða hafi kaupverð eignanna samkvæmt samningnum numið a.m.k. 18 milljónum krónum hærri fjárhæð en sem nam raunvirði.
Skilja verður kröfugerð áfrýjanda svo, að hann krefjist riftunar á þeim ákvæðum samningsins frá 20. janúar 2003, sem vörðuðu greiðslu kaupverðs eigna Íslenskra ævintýraferða hf. Verður talið að slík kröfugerð sé honum heimil. Hann byggir á því að söluandvirðið, að svo miklu leyti sem það rann ekki til greiðslu veðskulda, hafi átt að koma inn í þrotabúið og verða þannig til fullnustu öllum kröfuhöfum. Ráðstöfun eigna samkvæmt samningnum hafi að þessu leyti verið ótilhlýðileg og riftanleg samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og einnig vísar hann til 131. gr. sömu laga, því að í raun hafi verið um gjafagerning að ræða þar sem ekkert endurgjald hafi komið í búið fyrir óveðsett verðmæti.
Margnefndur samningur aðilanna var gerður í beinu framhaldi þess að aðalfundur Íslenskra ævintýraferða hf. ákvað að fara fram á gjaldþrotaskipti og var því öllum, sem að samningnum stóðu, ljóst að félagið var ógjaldfært. Sú tilhögun á greiðslu kaupverðs, sem ákveðin var í samningnum fól augsýnilega í sér mismunun kröfuhafa og leiddi til þess að eignir voru ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum á þann hátt, sem mælt er fyrir um við skipti þrotabúa. Var þetta því ótilhlýðileg ráðstöfun samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991. Þegar litið er til þess, sem fram er komið um kaupverð og matsvirði umræddra eigna, verður hins vegar ekki talið að áfrýjandi hafi sýnt fram á að stefndi hafi haft hag af þessari ráðstöfun eins og áskilið er í umræddu ákvæði. Verður greiðslukröfu ekki beint að honum, sbr. 3. mgr. 142. gr. laganna. Ákvæði 131. gr. þeirra koma hér ekki til álita.
Samkvæmt þessu verður niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefnda af kröfu áfrýjanda staðfest.
Eins og málinu er háttað þykir rétt að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2005.
Mál þetta var höfðað 6. nóvember 2003 og var dómtekið 9. desember sl. Málið var tekið til endurflutnings í gær og var dómtekið.
Stefnandi er þb. Ævintýrisins Tangarhöfða 7 hf., Vegmúla 2, Reykjavík.
Stefndi er Afþreyingarfélagið ehf., Bakkastöðum 3a, Reykjavík.
Dómkröfur
Dómkröfur stefnanda eru þær að rift verði með dómi kaupsamningi stefnanda og stefnda dags. 20. janúar 2003 að því er tekur til kaupa stefnda á óveðsettum eða undirveðsettum verðmætum stefnanda og stefnda verði gert að greiða stefnanda 10.848.569 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 20. janúar 2003 til greiðsludags, auk málskostnaðar að mati dómsins.
Sundurliðast kröfur stefnanda þannig:
1. Rift verði með dómi kaupum stefnda á göllum frá Geysi og Langjökli, 300 stk., og stefnda verði gert að greiða 83.000 krónur.
2. Rift verði með dómi kaupum stefnda á verkstæðisbúnaði og stefnda verði gert að greiða stefnanda 690.000 krónur.
3. Rift verði með dómi kaupum stefnda á öryggisbúnaði í Skálpanesi og Jaka og stefnda verði gertað greiða stefnanda 130.000 krónur.
4. Rift verði með dómi kaupum stefnda á búnaði og svefnpokum frá Addís og stefnda verði gert aðgreiða stefnanda 510.000 krónur.
5. Rift verði með dómi kaupum stefnda á fasteigninni að Geitlandi við Langjökul í Hálsahreppi, með öllu tilheyrandi, fastnr. 221-5978, og stefnda verði gert að greiða 371.506 krónur.
6. Rift verði með dómi kaupum stefnda á fasteigninni að Brekku, Drumboddsstöðum í Biskupstungnahrepp, fastnr. 222-3064 og 00-0001 (þjónustuhús) og stefnda verði gert að greiða stefnanda 9.982.063 krónur.
7. Rift verði með dómi kaupum stefnda á skála að Stuttárbotum 2 í landi Húsafells, Hálsahreppi og stefnda verði gert að greiða stefnanda 2.400.000 krónur.
8. Rift verði með dómi kaupum stefnda á sumarhúsalóð að Birkilundi 14 í landi Húsafells, Hálsahreppi og stefnda verði gert að greiða stefnanda 400.000 krónur.
9. Rift verði með dómi kaupum stefnda á kerrum o.þ.h. frá Geysi og Addís og stefnda verði gert aðgreiða stefnanda 220.000 krónur.
10. Rift verði með dómi kaupum stefnda á bifreiðinni MX-584, sem er Ford F 350 árg. 1991 og stefnda verði gert að greiða stefnanda 100.000 krónur.
11. Rift verði með dómi kaupum stefnda á bifreiðinni HE-730, sem er MAN 9.136 árg. 1984 og stefnda verði gert að greiða stefnanda 900.000 krónur.
12. Rift verði með dómi kaupum stefnda á bifreiðinni MAN 8x8 og stefnda verði gert að greiða stefnanda 1.200.000 krónur.
13. Rift verði með dómi kaupum stefnda á bifreiðinni MZ-958 sem er IHC Navistar 1853 árg. 1984 og stefnda verði gert að greiða stefnanda 100.000 krónur.
14. Rift verði með dómi kaupum stefnda á bifreiðinni IA-114 sem er MAN 16.192 árg. 1979 og stefnda verði gert að greiða stefnanda 250.000 krónur.
15. Rift verði með dómi kaupum stefnda á bifreiðinni FS-084 sem er MAN 16.240 árg. 1980 og stefnda verði gert að greiða stefnanda 10.000 krónur.
16. Rift verði með dómi kaupum stefnda á bifreiðinni HD-411 sem er MAN 16.240 (P-2536) árg. 1984 og stefnda verði gert að greiða stefnanda 10.000 krónur.
17. Rift verði með dómi kaupum stefnda á VH-999 sem er hengivagn árg. 1990 og stefnda verði gert að greiða stefnanda 100.000 krónur.
18. Rift verði með dómi kaupum stefnda á MP-299 sem er hestakerra árg. 1994 og stefnda verði gert að greiða stefnanda 80.000 krónur.
19. Rift verði með dómi kaupum stefnda á VX-640 sem er hestakerra árg. 1994 og stefnda verði gert að greiða stefnanda 100.000 krónur.
20. Rift verði með dómi kaupum stefnda á HO-156 sem er af gerðinni Kassbohrer Flexmobile árg. 1983 og stefnda verði gert að greiða stefnanda 50.000 krónur.
21. Rift verði með dómi kaupum stefnda á snjósleðanum DT-877 sem er af gerðinni Ski-Doo Grand Touring og stefnda verði gert að greiða stefnanda 170.000 krónur.
22. Rift verði með dómi kaupum stefnda á snjósleðanum YL-578 sem er Ski-Doo Grand Touring árg. 1998 og stefnda verði gert að greiða stefnanda 100.000 krónur.
23. Rift verði með dómi kaupum stefnda á snjósleðanum MY-944 sem er Ski-Doo Skandic 380 árg. 1998 og stefnda verði gert að greiða stefnanda 70.000 krónur.
24. Rift verði með dómi kaupum stefnda á snjósleðanum RS-114 sem er Ski-Doo Skandic 380 árg. 1997 og stefnda verði gert að greiða stefnanda 10.000 krónur.
25.Rift verði með dómi kaupum stefnda á snjósleðanum AI-558 sem er Ski-Doo Touring E árg. 1998 og stefnda verði gert að greiða stefnanda 10.000 krónur.
26.Rift verði með dómi kaupum stefnda á snjósleðanum YS-498 sem er Ski-Doo Touring E árg. 1998 og stefnda verði gert að greiða stefnanda 10.000 krónur.
27.Rift verði með dómi kaupum stefnda á snjósleðanum SY-217 sem er Ski-Doo Touring E árg. 1999 og stefnda verði gert að greiða stefnanda 10.000 krónur.
28. Rift verði með dómi kaupum stefnda á snjósleðanum OV-222 sera er Ski-Doo Touring E árg. 1999 og stefnda verði gert að greiða stefnanda 10.000 krónur.
29. Rift verði með dómi kaupum stefnda á snjósleðanum VB-953 sem er Ski-Doo Touring E LT árg. 1996 og stefnda verði gert að greiða stefnanda 10.000 krónur.
30. Rift verði með dómi kaupum stefnda á snjósleðanum ME-643 sem er Ski-Doo Touring E LT2 árg. 1997 og stefnda verði gert að greiða stefnanda 10.000 krónur.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu. Til vara er þess krafist að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og dráttarvextir aðeins dæmdir frá dómsuppsögudegi.
Í báðum tilvikum krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða honum málskostnað að mati dómsins, eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Málavextir
Málavextir eru þeir að um áramótin 2000/2001 voru Íslenskar ævintýraferðir hf. stofnaðar. Starfaði félagið á sviði ferðaþjónustu en það annaðist rekstur ferðaskrifstofu og rekstur véladeildar sem sinnti framkvæmd þeirra ferða sem félagið seldi bæði innanlands og erlendis. Var félagið stofnað á grunni fjögurra félaga, Addice ehf., Langjökuls ehf, Geysis vélsleðaferða ehf. og Rekstrarfélags Jökulferða ehf. Rekstur félagsins gekk ekki sem skyldi og tap varð af reglulegri starfsemi félagsins. Um áramótin 2001/2002 réðust forsvarsmenn félagsins í kaup á innanlandsdeild ferðaskrifstofureksturs Samvinnuferða-Landsýnar af þrotabúi félagsins um áramótin 2001/2002. Snemma varð ljóst að þær væntingar sem menn gerðu til batnandi afkomu gengu ekki eftir. Mikið tap varð vegna rekstrarársins 2002. Um miðjan janúar var ljóst að félagið myndi ekki geta staðið undir þeim fjárhagsskuldbindingum er það hafði tekist á hendur og ákvað því stjórn félagsins, í kjölfar ákvörðunar hluthafafundar sem haldinn var 20. janúar 2003, að óska eftir gjaldþrotaskiptum.
Hinn 20. febrúar 2003 var félagið síðan tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur og Sveinn Andri Sveinsson lögmaður skipaður skiptastjóri þess. Frestdagur við skiptin var 14. febrúar 2003 og lauk kröfulýsingarfresti 12. maí 2003.
Sama dag og hluthafafundur ákvað að fela stjórn stefnanda að óska eftir gjaldþrotaskiptum, þ.e. hinn 20. janúar 2003, gerðu stefnandi og stefndi með sér kaupsamning þar sem stefnandi seldi stefnda tilgreind verðmæti, m.a. galla, verkstæðis- og öryggisbúnað, fasteignir og skála, bifreiðar og vélsleða,. sbr. nánar 1. gr. umrædds kaupsamnings. Umsamið kaupverð, 84.034.285 krónur skyldi stefndi greiða með því að yfirtaka skuldir stefnanda við lánadrottna sína, sbr. 2. gr. samningsins, en skuldirnar voru að einhverju leyti tryggðar með veði í einstökum eignum stefnanda.
Stefnandi vekur athygli á því að við gerð kaupsamnings stefnanda og stefnda hafi engin tilraun verið gerð til að meta einstök keypt verðmæti. Greinilegt sé að viðsemjendur og ráðgjafar þeirra hafa fyrst ákveðið hvaða skuldbindingar stefndi yrði að yfirtaka, uppreiknað þær og því næst ákveðið kaupverðið. Að verðmæti þeirra keyptu eigna og staða yfirtekinna lána beri nákvæmlega upp á sömu upphæð, sé harla ólíklegt.
Við skoðun skiptastjóra á þessum gerningi kom í ljós að stór hluti þeirra eigna sem stefndi eignaðist með yfirtöku skulda voru veðbandslausar eða einungis veðsettar að hluta. Þannig keypti stefndi nánar tilgreind óveðsett verðmæti með yfirtöku veðskulda sem hvíldu á öðrum verðmætum, sem einnig voru keypt eða með yfirtöku óveðtryggðra krafna lánardrottna stefnanda. Stefnandi heldur því fram að með þessari ráðstöfun hafi verið komið í veg fyrir að stór hluti söluandvirðis eigna stefnanda rynni inn í búið til jafnrar ráðstöfunar fyrir lánardrottna. Telur skiptastjóri að þessi ráðstöfun sé riftanleg með stoð í XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Sé málshöfðun þessi nauðsynleg til að tryggja að söluandvirði óveðsettra eigna þrotabúsins verði til reiðu til fullnustu kröfuhöfum.
Vekur stefnandi jafnframt athygli á því að fyrirsvarsmaður stefnda, Halldór Kristjánsson, hafi um tíma verið framkvæmdastjóri Íslenskra ævintýraferða hf.
Stefndi bendir á að þegar Ævintýrið Tangarhöfða 7 ehf. var stofnað hafi Sparisjóður Mýrasýslu verið viðskiptabanki Langjökuls ehf. og hafi félagið raunverulega verið gjaldþrota. Frekar en setja Langjökul ehf. í þrot, hafi sparisjóðurinn breytt skuldum í hlutafé og síðan staðið að þessari sameiningu. Þannig hafi Sparisjóður Mýrasýslu orðið stærsti einstaki hluthafi hins sameinaða félags. Rekstur hins sameinaða félags hafi gengið illa frá upphafi og ljóst sé nú að eignir þessara stofnaðila hafi verið alltof hátt metnar inn í félagið í upphafi. Um áramót 2001/2002 hafi forsvarsmenn stefnanda ætlað að bæta stöðuna og útvíkka starfsemina með kaupum á innanlandsdeild ferðaskrifstofunnar Samvinnuferða Landsýnar ehf., en reksturinn hafi ekki batnað og mikið tap hafi orðið á félaginu á árinu 2002. Í nóvember 2002 hafi Halldór Kristjánsson, f.h. óstofnaðs hlutafélags, gert tilboð að fjárhæð 77 milljónir króna í ferðaþjónustuhluta stefnanda. Sparisjóður Mýrasýslu, stærsti hluthafinn, hafi hafnað þessu boði, en bauð Halldóri að kaupa hlut í stefnanda í staðinn og taka við stjórn stefnanda. Sparisjóður Mýrasýslu hafi lagt þær forsendur fyrir Halldór að tap á rekstri félagsins á árinu 2002 væri 40.000.000 króna til 43.000.000 króna en aðrir hluthafar myndu færa niður hlutafé sitt til að mæta tapinu. Á þessum forsendum hafi Halldór slegið til og keypti hann 20% hlut í félaginu.
Halldór hóf störf 23. desember 2002 og hafi byrjað á því að gera félagið upp. Eftir viku hafi hann óskað eftir fundi með öðrum hluthöfum, enda hafi þá verið ljóst að tapið á félaginu væri að minnsta kosti 60.000.000 króna. Á þessum fundi hafi Halldór óskað eftir því að kaup hans gengju til baka, en Sparisjóður Mýrasýslu og Geysir, stærstu hluthafarnir, sögðust myndu leggja félaginu til 18.000.000 króna þannig að staðan yrði í samræmi við þær forsendur sem lagðar höfðu verið fyrir Halldór í upphafi.
Í janúar 2003 hafi Halldór lokið uppgjöri á stefnanda og hafi niðurstaðan orðið 76.000.000 króna tap. Sparisjóður Mýrasýslu hafi þá ekki lengur viljað koma nálægt málinu og alls ekki leggja félaginu til nýtt hlutafé, frekar en aðrir hluthafar. Aðalfundur hafi verið haldinn 20. janúar 2003 og fyrir þann fund hafi Halldór lagt á ný fram fyrra tilboð sitt í ferðaþjónustuhluta félagins. Það hafi verið samþykkt að selja honum ferðaþjónustuhluta rekstrarins með þeirri breytingu að söluverðið hækkaði í 84.034.285 krónur og greiddist nánar tilteknum aðilum sbr. framlagðan kaupsamning, dags. sama dag. Jafnframt hafi á aðalfundinum verið samþykkt að selja ferðaskrifstofuhlutann til félagsins Ísland DMC ehf., kt. 610297-2349.
Á þessum aðalfundi hafi orðið ljóst að félagið færi í þrot og hafi þáverandi stjórnarmenn lagt á það áherslu að þeir yrðu leystir frá störfum. Sú ákvörðun hafi verið tekin að þrír stærstu hluthafarnir legðu hver til einn mann til að sitja í stjórn hins sökkvandi skips og þar sem Halldór hafði f.h. óstofnaðs félags, 20 dögum áður keypt 20% hlut í félaginu af Sparisjóði Mýrarsýslu, hafi hann verið þriðji stærsti hluthafinn og þar af leiðandi hafi hann lent í stjórn félagsins 20. janúar 2003.
Halldór f.h. óstofnað félags, nú stefndi, hafi keypt ferðaþjónustuhluta félagsins á 84.034.285 krónur eða langt yfir sannvirði, sbr. mat hinna dómkvöddu matsmanna, er meti þessar sömu eignir á 32.150.000 kr. + 17.958.000 kr. eða samtals 50.108.000 krónur. Aðalfundurinn hafi ákveðið að í stað þess að stefndi greiddi kaupverðið inn í félagið, svo sem eðlilegt hefði verið, skyldi stefndi yfirtaka nánar tilgreindar skuldir félagsins við þriðja mann, aðallega við Sparisjóð Mýrasýslu, Ferðamálasjóð, SP kaupleigu og Tryggingamiðstöðina hf. allt eins og nánar sé upp talið í fyrrgreindum kaupsamningi. Þá hafi hluthafar lagt mikla áherslu á að gengið yrði frá kaupunum strax, bæði til að forða félaginu frá kröfum vegna pantana og innborgana, sem ljóst var að stefnandi gæti ekki uppfyllt, og eins vegna launakrafna starfsfólks sem ljóst var að félagið myndi ekki geta staðið við.
Ástæða þess að aðalfundurinn krafðist þess að stefndi yfirtæki skuldir, í stað þess að greiða kaupverðið inn í félagið, hafi verið sú að þessi aðferð var stærstu hluthöfunum, Sparisjóði Mýrasýslu, Geysi ehf. og Garðari Vilhjálmssyni, til hagsbóta. Með þessari aðferð hafi Sparisjóður Mýrarsýslu fengið sínar kröfur greiddar og Garðar Vilhjálmsson hafi losnað undan persónulegum ábyrgðum. Þessi aðferð hafi hins vegar engu breytt fyrir stefnda sem kaupanda, né fyrir hann sem eiganda minnihluta hlutafjár í stefnanda.
Öllum aðilum samningsins hafi verið ljóst að verið var að greiða yfirverð fyrir hið selda, þótt stefnda væri ekki ljóst, þegar kaupin gerðust, að um jafn mikið yfirverð væri að ræða, eins og niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna sýni. Þetta komi skýrt fram í skýrslu Jóns Kristleifssonar hjá skiptastjóra. Stefndi hafi aðeins starfað hjá félaginu í þrjár vikur og þótt honum væri ljóst að búnaður stefnanda væri ekki í sem bestu ásigkomulagi, hafði hann ekki séð allan þann búnað er hann keypti og honum hafi þá ekki verið ljóst að stór hluti hans væri ónýtur eða týndur. Eftir kaupin hafi það svo komið í ljós. Þannig hafi aldrei fundist 300 vélsleðagallar, aðeins 125 stk. Snjósleðinn MY-944, hafi aldrei fundist og hafi hann verið afskráður hjá Umferðarstofu 25. júlí 2003. Tryggingamiðstöðin hf. hafi tekið 19 sleða á bak við lánin nr. TMB 7588, TMB 7593 og TMB 7594 og hafi afskrifað á móti hluta af skuldunum. Stefnandi átti ekki og hafi aldrei átt vélsleða með númerunum RS-114 og DT-877. Af þeim sleðum sem þá voru eftir hafi stefnda tekist að gera 12 sleða nothæfa. Þá vísist til matsgerðar varðandi ástand annars búnaðar. Loks hafi orðið verulegar vanefndir á greinum 2.2 og 2.3 í kaupsamningnum.
Á aðalfundinum 20. janúar 2003 hafi verið skipt um nafn á stefnanda úr Íslenskum ævintýraferðum ehf. í Ævintýrið Tangarhöfða 7 ehf. Ákveðið hafi verið að óska gjaldþrotaskipta á félaginu. Félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota 20. febrúar 2003 og Sveinn Andri Sveinsson hrl. skipaður skiptastjóri. Frestdagur hafi verið 14. febrúar 2003. Kröfulýsingarfrestur hafi runnið út 12. maí 2003. Skiptastjóri hafi aldrei talað við Halldór Kristjánsson, hvorki munnlega né með bréfaskriftum. Þá hafi skiptastjóri engra skýringa óskað á kaupsamningum né neinu. Það sé svo degi áður en málshöfðunarfestur samkvæmt 148. gr. 1. nr. 21/1991 rennur út að skiptastjóri þingfestir mál þetta.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Krafa stefnanda um riftun á kaupsamningi stefnanda og stefnda frá 20. janúar 2003 byggir á því að ýmsar eignir sem greindar séu í sundurliðun kröfugerðar hafi alfarið eða að hluta til verið keyptar með yfirtöku veðskulda sem hvílt hafi á öðrum eignum eða hafi yfirhöfuð ekki hvílt á neinum eignum. Þegar seldar séu eignir, sem ekki séu háðar veðböndum, út úr búi skömmu fyrir gjaldþrot, sé grundvallarregla að söluandvirði viðkomandi eigna renni inn í búið og verði þannig til fullnustu kröfuhöfum og skiptist eftir úthlutunarreglum gjaldþrotaréttarins. Sé byggt á því að ráðstöfun hinna óveðsettu eigna stefnanda hafi þess vegna verið ótilhlýðileg og riftanleg með vísan til XX. kafla gjaldþrotalaga, sbr. 141. gr., og í ljósi þess að ekkert endurgjald hafi komið fyrir verðmæti þau sem voru óveðsett né greiðsla fyrir þess hluta veðsettra verðmæta sem ekki voru veðsettir, sé um að ræða gjafagerning sem sé riftanlegur með vísan til 131. gr. gjaldþrotalaganna. Að svo miklu leyti sem hinar keyptu eignir hafi verið veðbandslausar, eða veðsetning undir verðmæti, sé þess krafist að andvirði umræddra eigna, samkvæmt framlagðri matsgerð, eða mismunurinn verði greiddur til stefnanda.
Byggir stefnandi kröfur sínar um verðmæti einstakra eigna á framlagðri matsgerð. Er riftunarkrafa hans í 31 lið, eins og áður er fram komið.
Þeir lánardrottnar Íslenskra ævintýraferða hf. hverra kröfur voru yfirteknar af stefnda voru ekki aðilar að samningum stefnanda og stefnda. Þeir njóti hins vegar góðs af þessum samningi. Sem ófullnægðir veðhafar eða eigendur óveðtryggðra krafna hefðu þeir einfaldlega öðlast stöðu almennra kröfuhafa í þrotabúi stefnanda. Óveðsett andvirði eigna stefnanda hefði með réttu átt að renna inn í búið, en hafi í þess stað verið nýtt til uppgjörs til sumra kröfuhafa á kostnað annarra. Þótt viðkomandi kröfuhafar njóti góðs af þessum samningi verði riftunarkröfu ekki beint að þeim, a.m.k. ekki að sinni.
Stefnandi leggur til grundvallar að 144. gr. gjaldþrotalaga eigi ekki við í þessu tilviki, nema þá hugsanlega varðandi fasteignir, en í þeim tilvikum ætti stefndi að geta afhent stefnanda fasteignirnar aftur. Gera þyrfti ráð fyrir hæfilegu leigugjaldi þann tíma sem stefndi hafi haft umræddar fasteignir til umráða. Um lausaféð gegni allt öðru máli. Tæki og tól þau sem keypt voru hafi verið notuð í starfsemi stefnda og því ótækt að stefnandi þurfi að una því að taka við verðmætunum aftur. Stefndi geti með engu móti tryggt að lausafénu sé skilað í jafngóðu ástandi og þegar það var keypt.
Umrædd krafa stefnanda um riftun er byggð á 131. og 141. gr. 1aga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 142 gr. 8.1. Um dráttarvaxtakröfu er vísað til III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Um málskostnað er vísað til 130. gr. 1aga nr. 91/1991. Um varnarþing er vísað til 33. gr. 1aga nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda og lagarök
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að kaupsamningur hans við stefnda brjóti ekki gegn XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. og að 141. gr. s.l. eigi ekki við um samning aðila.
Málatilbúnaður stefnanda byggist á því að 141. gr. 1. nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eigi við um samning aðila. Stefndi hafi með einhverjum hætti hagnast á ótilhlýðilegan hátt á kostnað annarra kröfuhafa með samningnum.
Ljóst sé að stefndi hafi ekki verið kröfuhafi í bú stefnanda. Þegar af þeirri ástæðu einni eigi 1. ml. greinarinnar ekki við, en því sé við að bæta að samningurinn hafi alls ekki verið stefnda á ótilhlýðilegan hátt til hagsbóta. Þannig sé ljóst að verðmæti þeirra muna er stefndi keypti hafi aðeins verið 50.108.000 krónur, sbr. niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna, en ekki þær 84.034.285 krónur er stefndi hafi greitt fyrir þá. Stefndi hafi því ofgreitt 34.000.000 króna fyrir munina og því ljóst að samningurinn hafi ekki verið honum til hagsbóta, hvað þá að hann væri ótilhlýðilegur.
2. ml. 141. gr. heimili riftun samnings, er leiði til þess að eignir þrotamanns verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Af mati hinna dómkvöddu matsmanna sé ljóst að stefndi hafi fengið frá stefnanda eignir að verðmæti 50.108.000 krónur en hafi í staðinn tekið á sig 84.034.285 krónur af skuldum stefnanda. Gjaldþrot stefnanda sé því 84.034.285 krónum minna en ef samningurinn hefði ekki verið gerður, en eignir þrotabúsins séu aðeins 50.108.000 krónum minni en fyrir samningsgerðina. Þrotabúið sé því eignameira eftir samninginn, sem nemi 34.000.000 króna, þ.e. kröfuhafar í þrotabúi stefnanda hafi hagnast um 34.000.000 króna. Samningurinn hafi því ekki verið þeim til tjóns sem heildar og það sé því alveg ljóst að 2. ml. 141. gr. eigi ekki við um samning aðila. Hins vegar megi vera að með samningnum hafi kröfuröð verið raskað eða skiptastjóra hefði verið mögulegt að fara í mál við einstaka kröfuhafa, á grundvelli 134. gr. 1. nr. 21/1991, er hafi fengið greitt samkvæmt samningi stefnda og stefnanda. Það sé hins vegar ekki mál stefnda að skiptastjóri hafi látið alla fresti renna út án þess að láta reyna á slíka riftun.
Þriðji ml. 141. gr. heimili riftun ef samningur leiðir til skuldaaukningar, kröfuhöfum til tjóns. Ljóst sé að samningur þessi leiði ekki til skuldaaukningar og sé kröfuhöfum sem heild til hagsbóta. Riftun verði því ekki byggð á 3. ml.
Loks heimili 141. gr. riftun ef þrotamaður var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hag hafði af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður er leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Rétt sé að stefnandi hafi verið ógjaldfær, er samningur þessi var gerður. Hins vegar sé alveg ljóst af mati hinna dómkvöddu matsmanna að staða hans hafi batnað mjög við samningsgerðina, þannig að gjaldþrot hans hafi orðið minna en ella. Þá sé einnig ljóst af matinu að stefndi hafi ekki haft hag af þessari ráðstöfun þegar allar niðurstöður lágu fyrir. Loks sé ljóst að samningur sem er þrotabúinu hagstæður um 34.000.000 króna sé ekki ótilhlýðileg ráðstöfun. Riftun verði því ekki byggð á 141. gr. l. nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, né nokkurri annarri grein í þeim lögum eða öðrum og beri því að sýkna stefnda.
Þá byggi stefndi einnig sýknukröfu sína á því að skoða beri samning hans og stefnanda heildstætt.
Varakrafa stefnda sé byggð á sömu rökum og aðalkrafan.
Óhjákvæmilegt sé að gera nokkrar athugasemdir við málatilbúnað stefnanda og þau gögn er hann leggi fram og það sem í þeim stendur.
Farið sé fram á riftun á bæði RS-114 og DT-877. Þetta sé athyglisvert því skráður eigandi þessara tækja hafi verið SP-Fjármögnun, en stefnandi hafi aldrei átt þessi tæki. Ómögulegt sé fyrir skiptastjóra að fara fram á riftun á sölu verðmæta sem stefnandi hafi aldrei átt.
Stefnandi krefst riftunar á sölu á Drumboddsstöðum. Vilborg Hannesdóttir og Björn Gíslason, Logafold 119, Reykjavík hafi stofnað félagið Bátafólkið ehf. 1995 um rekstur flúðasiglinga í Hvítá. Þau hafi keypt Dramboddsstaði sem aðstöðu fyrir félagið. Til þeirra kaupa hafi þau tekið lán hjá Ferðamálasjóði og Búnaðarbanka Íslands hf. Veðhæfni Drumboddsstaða hafi ekki verið nægjanleg fyrir þeim lánum sem þau tóku og hafi því eitt lánið, upphaflega að fjárhæð 8.000.000 króna, en að eftirstöðvum 5.899.868 krónur (lán nr. 202073), verið tryggt með veði í heimili þeirra, Logafold 119, Reykjavík. Björn hafi farist í slysi á árinu 2000. Samstarf hafði verið með Bátafólkinu ehf. og stofnendum stefnanda. Það hafi svo leitt til að stefnandi keypti allan búnað og aðstöðu Bátafólksins ehf. m.a. með yfirtöku allra lána, þ.m.t. lánsins á Logafold 119, Reykjavík. Þegar stefndi hafi keypt Drumboddsstaði hafi hann yfirtekið lánið á Logafold 119, Reykjavík, að eftirstöðvum 5.899.868 krónur (lán nr. 202073). Þessari skuldbindingu stefnanda vegna Drumboddsstaða sleppi skiptastjóri í riftunarkröfu sinni, en hún hljóti að teljast óaðskiljanlegur hluti Drumboddsstaða.
Um dómskjal nr. 6, skýrslu Garðars K. Vilhjálmssonar sem tekin var mánudaginn 24. febrúar.
Þar segi Garðar að „Afþreyingarfélagið hafi hætt við að kaupa allan pakkann“ Það hafi aldrei staðið til af hálfu stefnda að kaupa allan pakkann. Stefndi hafi gert tilboð í ferðaþjónustuhluta stefnanda í nóvember. Sparisjóður Mýrasýslu hafi fengið stefnda til að koma að rekstri stefnanda. En þegar í ljós hafi komið að staða stefnanda var næstum tvöfalt verri en Sparisjóður Mýrasýslu hafði kynnt hana og aðrir hluthafar ekki tilbúnir til að leggja fram fé til að bæta hana, hafi stefndi endurnýjað tilboð sitt frá því í nóvember 2002 og hafi verið gengið að því.
Orðalag í skýrslu Jóns Kristleifssonar, sem tekin var fimmtudaginn 6. mars, sé allt með ólíkindum og virðist eingöngu að því stefnt að gera stefnda tortryggilegan. Til dæmis eigi Jón að hafa sagt: „Kjartan kom síðan inn með mann sem tók við sem framkvæmdastjóri, sem heitir Halldór Kristjánsson. Þetta virkaði ekki; var hluti af skýringunni e.t.v. sá að hann var alltaf að hugsa um að kaupa reksturinn. Reksturinn byrjaði að fjara út þegar Garðar og Arngrímur hættu og hélt því áfram enn frekar eftir að Halldór tók við.“
Í fyrsta lagi: Þegar talað sé um að Kjartan hafi síðan komið inn með stefnda megi vísa til fundargerðar frá 16. fundi stjórnar Íslenskra ævintýraferða ehf., stefnanda. Þar komi fram í lið nr. 4. „Ráðning Halldórs Kristjánssonar, fulltrúa nýrra aðila að Íæ var rædd. Hann var sóttur á fundinn og kynntur fyrir stjórnarmönnum. Rætt var að ráða hann sem framkvæmdarstjóra fram að næsta aðalfundi. Ráðning Halldórs samþykkt einróma.“
Á þessum fundi voru: Arngrímur Hermannsson, Jón Kristleifsson sjálfur, Jón Karl Ólafsson, Hilmar Sölvason, Kjartan Broddi Bragason, Garðar K. Vilhjálmsson og Kalla Björg Karlsdóttir. Þannig sé alveg klárt að öllum hafi verið ljóst að þetta stæði til og því beinlínis rangt að halda því fram að Kjartan hafi birst með stefnda einn daginn uppúr þurru.
Í öðru lagi: „Þetta virkaði ekki.“ Það sé með enn meiri ólíkindum að þetta sé sett fram með þessum hætti. Og að reksturinn hafi byrjað að fjara út þegar Arngrímur og Garðar hættu og hvað þá að hann hafi haldið því enn frekar áfram eftir að Halldór tók við sem framkvæmdastjóri. Myllusteinninn hafi verið lagður um hálsinn á þessu félagi löngu áður. Nánar tiltekið strax við stofnun þess. Þegar eignir hafi verið settar inn sem hlutafé, sér í lagi eignir Geysis og Addice, sé alveg ljóst að þær hafi verið metnar inn í bækur félagsins á mjög uppsprengdu verði. Síðan hafi fyrirsvarsmenn stefnanda gert ráð fyrir yfir 20 milljón króna hagnaði fyrsta árið (2001) en raunin hafi orðið ríflega 20 milljón króna tap. Síðan hafi leikurinn haldið áfram 2002 og félagið hafi tapað u.þ.b. 5-6 milljónum á mánuði allt árið. Þannig sé út í hött að halda því fram að reksturinn hafi ekki byrjað að fjara út fyrr en Arngrímur og Garðar hættu og Halldór tók við sem framkvæmdastjóri. Það sé með ólíkindum að reynt sé að gera Halldór að aðalmanni í rekstri stefnda. Halldór hafi aðeins starfað hjá stefnda frá 23. desember 2002 til 20. janúar 2003 og út í hött að halda því fram að viðsnúningur til hins verra hafi orðið í rekstri félagsins á þeim tíma.
Eftir að ljóst var orðið að staðan væri eins slæm og raunin var strax uppúr áramótum 2002/2003 og að Sparisjóður Mýrasýslu og Geysir ætluðu ekki að standa við að koma inn með nýtt fjármagn, hafi orðið ljóst að stefnandi var kominn í þrot. Þá þótti ekki rétt að stefndi væri báðum megin við borðið og því hafi Garðari verið falið að semja við stefnda annars vegar og Ísland DMC hins vegar um sölu á eignum félagsins. Þessa samninga hafi hluthafafundur síðan staðfest 20. janúar 2003. Það sé því út í hött að halda því fram að stefndi hafi gefist upp og Garðar tekið við.
Málskostnaðarkrafa stefnda byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 20. febrúar 2003 var bú Ævintýrisins Tangarhöfða 7 hf. tekið til gjaldþrotaskipta.Fram er komið að áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta, eða í nóvember 2002, gerði Halldór Kristjánsson f.h. óstofnaðs félags tilboð í ferðaþjónustuhluta stefnanda sem var hafnað. Honum var hins vegar boðið að kaupa hlut í félaginu og jafnframt boðið að taka við stjórn þess, sem hann gerði. Er hann, í lok desember 2003, gerði sér grein fyrir því að tap félagsins var meira en talið var vildi hann að kaupin á hlut í stefnanda gengju til baka. Eins og rakið er hér að framan, gekk það ekki eftir en í staðinn keypti Halldór ferðaþjónustuhlutann í rekstri stefnanda fyrir 84.034.285 krónur, sbr. kaupsamning, dags. 20. janúar 2003. Kaupverðið var greitt með yfirtöku skulda sömu fjárhæðar.
Stefnandi höfðar mál þetta til riftunar á þeim ráðstöfunum sem gerðar voru með umræddum kaupsamningi og vísar til stuðnings kröfum sínum til 131. gr. og 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Í 131. gr. eru ákvæði um að rifta megi gjafagerningi að uppfylltum vissum skilyrðum en í 141. gr. segir að krefjast megi riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiði til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða varð það vegna ráðastöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.
Að beiðni stefnda voru dómkvaddir 2 matsmenn til þess að meta andvirði þeirra eigna er stefndi keypti af stefnanda með kaupsamningi 20. janúar 2003. Er í matsgerðinni miðað við verðlag þann sama dag. Niðurstaða matsmanna er sú að andvirði hinna seldu eigna nemi 50.108.000 krónum. Kaupverð þessara eigna var hins vegar 84.034.285, eins og áður greinir. Fram er komið að aðilum kaupsamningsins var ljóst að verið væri að greiða yfirverð fyrir hið selda. Þá er einnig fram komið að skuldastaða stefnanda var þeim ljós. Í framburði Halldórs Kristjánssonar fyrir dómi kom fram að honum var ljóst að hann væri, samkvæmt kaupsamningnum, að greiða meira en sannvirði fyrir eignirnar en með því að reksturinn stöðvaðist ekki taldi hann sig fá einhverja viðskiptavild í staðinn.
Það er skilyrði fyrir riftun ráðstöfunar samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 að ráðstöfun sé ótilhlýðileg. Eins og mál þetta horfir við verður ekki annað séð en að umrædd ráðstöfun hafi komið stefnanda til góða þar sem fyrir liggur að stefndi greiddi um 34 milljónum meira fyrir eignir stefnanda en nemur sannvirði þeirra samkvæmt matsgerð. Þá er, samkvæmt ákvæðinu, skilyrði að ráðstöfunin sé kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra. Fyrir liggur að stefndi var ekki kröfuhafi í bú stefnda. Þá þykir ekki sýnt fram á af hálfu stefnanda að ráðstöfunin hafi orðið honum til hagsbóta en búinu til tjóns. Að þessu virtu er ekki fallist á að þær ráðstafanir sem gerðar voru með kaupsamningi, dags. 20. janúar 2003, séu riftanlegar í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991. Með vísan til framanritaðs er heldur ekki fallist á að um gjafagerning hafi verið að ræða þannig að umræddar ráðstafanir séu riftanlegar samkvæmt 131. gr. sömu laga. Hvort umræddar eignir voru veðbandslausar eða einungis veðsettar að hluta þykir ekki skipta máli í þessu sambandi.
Samkvæmt framansögðu ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 700.000 krónur.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Afþreyingarfélagið ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, þrotabús Ævintýrisins Tangarhöfða 7 ehf.
Stefnandi greiði stefnda 700.000 krónur í málskostnað.