Hæstiréttur íslands

Mál nr. 478/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi


Miðvikudaginn 23

 

Miðvikudaginn 23. október 2002.

Nr. 478/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(enginn)

 

Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.

Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. október 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. október 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. október nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Engar kröfur hafa komið fram af hendi varnaraðila fyrir Hæstarétti, en ætla verður að hann kæri til að fá úrskurð héraðsdómara felldan úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Samkvæmt gögnum málsins rannsakar sóknaraðili eldsvoða, sem mun hafa komið upp nokkru fyrir miðnætti 19. október sl. í porti sunnan við húsið að Laugavegi 40 í Reykjavík, en breiddist þaðan út í nærliggjandi hús og leiddi til verulegs tjóns og almannahættu. Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar komu fram upplýsingar á vettvangi um að varnaraðili hafi sést fara inn í áðurnefnt port um tíu mínútum áður en elds varð þar vart. Var hann handtekinn utan við veitingahús að Laugavegi 78 skömmu eftir kl. 1 þá um nóttina. Að morgni 20. október tók lögreglan skýrslur af tveimur vitnum, sem báru að þau hafi séð til fyrrgreindra ferða varnaraðila, þar sem hann hafi opnað dyr að portinu og gengið rakleitt inn, en 20 til 30 mínútum síðar hafi þau orðið vör við að eldur væri kominn þar upp. Sama dag var tekin skýrsla af varnaraðila. Hann kvaðst hafa verið á ferð milli veitingahúsa við Laugaveg og farið inn í umrætt port til að kasta af sér vatni, en horfið frá því þegar hann sá dyrabjöllur og útidyrahurð þar. Hafi hann haldið för sinni áfram við svo búið. Hann neitaði með öllu sakargiftum um að hafa orðið valdur að brunanum.

Í kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald yfir varnaraðila, sem lögð var fram á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur að kvöldi 20. október sl., var greint frá meginatriðum í framburði áðurnefndra vitna um ferðir varnaraðila og frásögn hans sjálfs um sama efni. Til einskis annars var þar vísað um forsendurnar fyrir því að hann væri undir rökstuddum grun um að hafa orðið valdur að fyrrgreindum eldsvoða. Er heldur ekki annað því til styrktar í gögnum málsins. Að því gættu er ekki fullnægt skilyrðum til að láta varnaraðila sæta gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. október 2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði á grundvelli a liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudagsins 25. október nk. kl. 16.00

Í greinargerð lögreglunnar segir að síðastliðna nótt hafi komið upp mikill eldur í húsum við Laugaveg í Reykjavík. Hafi mestur eldur verið í húsum nr. 40 og 40a. Í húsum þessum og nærliggjandi húsum séu bæði íbúðir og verslanir. Tilkynningin um eldinn hafi borist lögreglu kl. 23.52, og hafi slökkviliðið komið skömmu síðar á vettvang. Um stórbruna hafi verið að ræða og rannsaki lögreglan atvikið sem íkveikju af mannavöldum, en samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðsmönnum sem farið hafi fyrstir inn hafi eldur logað á tveim aðskildum stöðum. Á vettvangi hafi m.a. fundist hrúga af fötum sem virtist hafa verið kveikt í en eldurinn kulnað í þeim. Slökkvistarfi hafi lokið að mestu um hádegisbil í dag.

Lögreglu hafi borist upplýsingar um að sést hefði til X, fara inn í port við Laugaveg 40. Tvö vitni hafi verið að þessu og hafi bæði borið kennsl á X og að þau hafi séð hann fara þarna inn um 23.30, en þau hafi þá verið á ferð um Laugaveginn, og annað vitnið búi á móti Laugavegi 40.

X hafi viðurkennt að hafa verið á ferli þarna. Hann hafi farið inn í port og ætlað að kasta af sér vatni þar í portinu en hætt við það. Hann kveði þetta hafa verið milli 01.00 og 02.00 síðastliðna nótt. Hann hafi síðan farið á veitingastaðinn Mónakó og setið þar einhverja stund.

Lögreglan hafi handtekið X kl. 01.10 síðastliðna nótt á Laugavegi við Barónsstíg, vegna upplýsinga vitna um komu hans á Laugaveg 40 fyrr um kvöldið skömmu áður en eldsins hafi orðið vart.

X sé undir rökstuddum grun um að hafa orðið valdur að, eða hafa átt aðild að, því að eldur hafi orðið laus að Laugavegi 40 og 40a með þeim hætti sem hafi orðið í nótt. Fullyrða megi að veruleg hætta hafi skapast bæði varðandi fólk sem búi í húsunum og nærliggjandi húsum sem og að eldurinn næði að breiðast út í nærliggjandi hús. Rannsókn málsins sé á algeru frumstigi. Leita þurfi frekari vitna, sem hugsanlega geti bætt við upplýsingum í málið, en fjöldi fólks sé jafnan á ferð á laugardagskvöldi, ræða þurfi við íbúa og verslunareigendur, sem og að ljúka vettvangsrannsókn, en varla hafi verið hægt að vera á vettvangi vegna hættulegra aðstæðna þar. Telja verði að X geti haft áhrif á rannsókn málsins gangi hann laus, með því að hafa áhrif á vitni og spilla sakargögnum að öðru leyti og því brýnt að hann sæti gæsluvarðhaldi eins og krafist er.

X sé grunaður um brot gegn 164. og 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot gegn ákvæðum þessum geti varðað fangelsi í 6 ár og girði því ákvæði stjórnarskrár eða annarra laga ekki fyrir að verði gert að sæta gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins. Með vísan til alls framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún sé fram sett.

Rannsókn lögreglu er á frumstigi. Tvö vitni sem þekkja kærða í sjón sáu hann fara inn í port við Laugaveg 40 um tuttugu mínútum áður en eldsins varð vart. Kannast ákærði við að hafa farið þarna inn til að kasta af sér vatni en segir klukkuna hafa verið á milli 01.00 og 02.00 um nóttina og þá hafi hann engan eld séð. Slökkviliðsmenn skýra frá því að eldurinn hafi komið upp á tveimur stöðum og auk þess hafi verið ummerki um kulnaðan eld í fatahrúgu. Telja verður að fram sé kominn rökstuddur grunur um það að kærði sé viðriðinn eldsvoðann á Laugavegi í nótt og að hann hafi brotið gegn 164. og 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga. Telja verður að hætta sé á því að kærði gæti haft áhrif á rannsókn málsins fái hann að ganga laus, svo sem með því að hafa áhrif á vitni og spilla sakargögnum. Eru því uppfyllt skilyrði a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrir því að kærði sæti gæsluvarðhaldi, þó ekki lengur en til kl. 16.00 föstudaginn 25. þessa mánaðar

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 25. október nk. kl. 16.00.