Hæstiréttur íslands

Mál nr. 293/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Mánudaginn 16. maí 2011.

Nr. 293/2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason)

gegn

X

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. maí 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. maí 2011 klukkan 16 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. maí 2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. maí 2011, kl. 16.00. Þá er þess krafist að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að A hafi í gær leitað til lögreglu og skýrt frá því að kærði, ásamt meðkærða Y, hafi haldið sér í gíslingu og misþyrmt sér á heimili meðkærða Y að [...] í Hafnarfirði og í bifreið X.

Um kl. 19:00 hafi kærðu Y og X verið handteknir grunaðir um að hafa svipt A frelsi sínu, hótað honum og misþyrmt þannig að varði við 218. gr., 226. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga.

Í skýrslutöku fyrr í dag hafi A skýrt frá því að kærðu hafi sótt sig um kl. 21:00 að kvöldi þriðjudagsins 10. maí sl. í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði, honum hafi svo verið ekið að heimili Y, þar sem hann hafi mátt þola margvíslegar árásir, hann hafi verið laminn margítrekað í höfuð og líkama, með ýmsum áhöldum, hann hafi verið hýddur með þykkri rafmagnssnúru, honum hótað að skornar yrðu í sundur sinar á fótleggjum og tennur dregnar úr honum, ef hann útvegaði ekki fartölvu eða tvö sjónvörp. Barsmíðarnar hafi staðið yfir allt frá því hann kom í húsnæðið til kl. 00:30 um nóttina. Hann hafi svo verið fluttur um nóttina, með einhverskonar hettu yfir höfðinu, frá húsnæðinu í geymsluhúsnæði, sem hann hafi ekki vitað hvar væri. Þar hafi honum verið haldið til morguns er X hafi sótt hann og ekið með hann aftur að heimili Y. Á leiðinni hafi kærði X tekið “hettuna” af honum og hent út um glugga bifreiðarinnar. Þeir hafi þá verið staddir rétt við Sprengisand við Reykjanesbraut. Nú fyrr í dag hafi lögregla fundið þar húfu sem talið sé að hafi verið sett yfir höfuð A, en húfan bíði nú frekari rannsóknar. Er þeir hafi komið á heimili Y hafi hann verið vistaður inni á baðherbergi. Kærðu hafi haft uppi miklar ásakanir á hendur honum og kveðið hann skulda sér 10 milljónir króna. Um kl. 10:00 hafi þeir, X og A, svo aftur farið út í því augnamiði að svíkja út fasteign og bifreiðar með því að nota kennitölu A. Hann hafi hins vegar sloppið út úr bifreið X um kl. 12:00, þar sem þeir hafi verið staddir í Borgartúni í Reykjavík.

Aðspurður hvers vegna kærðu hafi ráðist á hann hafi hann kveðið þá hafa talað um að hann hefði svikið þá og skemmt mannorð X með illu umtali. A hafi kveðist hafa trúað hótunum Y um barsmíðar, en Y hafi haldið á vopnum til að leggja áherslu á orð sín. A hafi sagst hafa verið laminn meira og minna í skömmtum, milli þess sem hann hafi þrifið íbúð Y, m.a. blóð eftir sjálfan sig. Hann hafi sagt sér hafa liðið mjög illa á meðan frelsissviptingunni og barsmíðunum hafi staðið, enda hafi hann séð fyrir sér að verða drepinn og þeirri tilfinningu gæti hann ekki lýst.

A hafi hlotið talsverða áverka eftir barsmíðar kærðu, m.a. nefbrot, fjölda yfirborðsáverka og tognanir, auk þess sem hann hafi sjóntruflanir og ógleði, sbr. áverkavottorð.

Við leit í íbúð kærða Y hafi mátt sjá blóðslettur á vegg, gangi og í svefnherbergi, sem lögregla ætli að sé úr brotaþola A. Sömuleiðis hafi lögregla fundið í íbúðinni samskonar sverð, hníf og leðurbelti og A hafi lýst að notað hafi verið gagnvart sér. Þá hafi og fundist blóð í bifreið kærða X, sem lögregla ætli að sé einnig frá A komið. Tekin hafi verið blóðsýni úr íbúðinni og bifreiðinni sem bíði niðurstaðna tæknirannsóknar. Í síma Y hafi fundist drög að smáskilaboðum til A þar sem fram komi grófar hótanir um líkamlegt ofbeldi greiði hann ekki tiltekna skuld.

Kærði X, sem hafi alfarið neitað sök í málinu, sé nú undir rökstuddum grun um að hafa, í félagi við Y, svipt A frelsi sínu og misþyrmt. X hafi hlotið tvo dóma vegna fíkniefna- og umferðarlagabrots.

Rannsókn málsins sé á frumstigi og því afar brýnt að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, þannig að hann fái ekki tækifæri til að torvelda rannsókninni, s.s. með því að koma undan munum, hafa áhrif á aðra samseka eða vitni.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a. liðar 1. mgr. 95. gr. og b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er á frumstigi. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á samseka og vitni. Með vísan til a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fallist á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Þá verður með sömu rökum og rakin eru hér að framan og með vísan til b. liðar 1. mgr. 99. gr. laganna fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti einangrun á meðan hann sæti gæsluvarðhaldi.

Barbara Björnsdóttir settur héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. maí 2011 kl. 16.00.

Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.