Hæstiréttur íslands

Mál nr. 56/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Landskipti
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Þriðjudaginn 13

 

Þriðjudaginn 13. febrúar 2007.

Nr. 56/2007.

Björn Pálmason

Einar Pálmason

Elín Pálmadóttir

Guðmundur Pálmason og

Kristín Pálmadóttir

(Agnar Gústafsson hrl.)

gegn

Aksel Jansen

Jan Jansen og

Ólafi Friðsteinssyni

(Kristján Þorbergsson hrl.)

 

Kærumál. Landskipti. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Eigendur jarðarinnar S II kærðu úrskurð héraðsdóms, þar sem vísað var frá dómi kröfu þeirra um ógildingu ákvörðunar sýslumanns um að kveðja nafngreinda menn til starfa á ný til að ljúka yfirlandskiptum á óskiptu landi jarðanna S I og S II svo og kröfu þeirra um ógildingu á staðfestingu sýslumanns á skiptingu kostnaðar vegna yfirlandskiptagerðar 10. mars 2004. Talið var að ekki hefði verið nauðsynlegt að sýslumaður hlutaðist til um að yfirmatsmennirnir kæmu saman á ný eftir að héraðsdómur hafði ógilt umrædda yfirlandskiptagerð og að gerðir hans í því efni hefðu í raun enga þýðingu haft um skipun þeirra og störf.  Eigendur S II  höfðu því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi þeirra og var niðurstaða héraðsdóms um frávísun á þessum lið kröfugerðarinnar því staðfest. Þá var úrskurðurinn staðfestur um að vísa bæri frá dómi kröfu eigenda S II um að fella úr gildi staðfestingu sýslumanns á skiptingu kostnaðar við yfirlandskiptagerðina, þar sem hún hefði enga þýðingu haft að lögum. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 23. janúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 17. janúar 2007, þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Búðardal 31. desember 2005 um að kveðja nafngreinda menn til starfa á ný til að ljúka yfirlandsskiptum á óskiptu landi jarðanna Snóksdals I og Snóksdals II í Dalabyggð. Með úrskurðinum var ennfremur vísað frá dómi kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi staðfesting sýslumannsins 5. maí 2006 um skiptingu kostnaðar við yfirlandskiptagerð 10. mars 2004. Að öðru leyti var frávísunarkröfu varnaraðila hafnað. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi varðandi niðurstöðu um frávísun á kröfum þeirra og lagt fyrir héraðsdómara að taka þær til efnismeðferðar. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði óskuðu þáverandi eigendur Snóksdals I, sem nú er í eigu varnaraðila, eftir því við sýslumanninn í Búðardal 18. maí 2001 að yfirmat færi fram um skiptingu á óskiptu landi jarðanna Snóksdals I og Snóksdals II, sbr. 6. gr. landskiptalaga nr. 46/1941. Af þessu tilefni mun sýslumaðurinn hafa kvatt fimm menn til að framkvæma yfirmatið og var einum þeirra falið að vera formaður þeirra. Matsmenn luku yfirmatsgerð 10. mars 2004. Í henni var meðal annars tekin afstaða til ágreinings aðila um hvort jörðinni Gilsbakka tilheyrði hlutur í hinu óskipta landi. Með dómi Héraðsdóms Vesturlands 10. október 2005 voru landskiptin felld úr gildi þar sem einungis yrði skorið úr um ágreining sem þennan með dómi, sbr. 3. mgr. 3. gr. landskiptalaga. Með dóminum var einnig dæmt um eignarhlutföll umræddra jarða í hinu óskipta landi.

Eftir ógildingu yfirmatsgerðarinnar og þar sem skorið hafði verið úr ágreiningi aðila um eignarhlutföllin með dómi bar yfirmatsmönnum að koma saman til að ljúka landskiptum á ný. Ákvörðun sýslumanns, sem dómkrafa sóknaraðila beinist að, laut ekki að því að taka nýja ákvörðun samkvæmt 1. mgr. 6. gr. landskiptalaga um kvaðningu yfirmatsmanna, heldur einungis að því að kveðja yfirmatsmennina til starfa á ný. Ekki var nauðsynlegt að sýslumaður hlutaðist til um þetta og höfðu gerðir hans í raun enga þýðingu um skipun yfirmatsmanna og störf þeirra. Hafa sóknaraðilar því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Ber samkvæmt þessu að fallast á niðurstöðu héraðsdóms um að vísa skuli kröfu sóknaraðila að þessu leyti frá dómi.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður niðurstaða hans staðfest að því er snertir frávísun á kröfu sóknaraðila sem varðar skiptingu kostnaðar við yfirmatsgerð frá 10. mars 2004.

Sóknaraðilar verða dæmd til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um frávísun á kröfum sóknaraðila, Björns Pálmasonar, Einars Pálmasonar, Elínar Pálmadóttur, Guðmundar Pálmasonar og Kristínar Pálmadóttur.

 Sóknaraðilar greiði í sameiningu varnaraðilum, Aksel Jansen, Jan Jansen og  Ólafi Friðsteinssyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 17. janúar 2007.

Mál þetta var höfðað 18. og 21. september og 3. október 2006 og tekið til úrskurðar 8. janúar 2007. Stefnendur eru Björn Pálmason, Álfhólsvegi 131 í Kópavogi, Einar Pálmason, Sóltúni 5 í Reykjanesbæ, Elín Pálmadóttir, Garðsstöðum 31 í Reykjavík, Guðmundur Pálmason, Kvennabrekku í Dalabyggð, og Kristín Pálmadóttir, Dvergabakka 8 í Reykjavík. Stefndu eru Aksel Jansen, Viðarási 33a í Reykjavík, Jan Jansen, Ósabakka 1 í Reykjavík og Ólafur Friðsteinsson, Glæsibæ 11 í Reykjavík.

Stefnendur hafa höfðað málið til að fá fellda úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Búðardal frá 31. desember 2005 um að kveðja Jón Höskuldsson, héraðsdómslögmann, Lárus Birgisson, búnaðarráðunaut, Sigurbjörgu Ósk Áskelsdóttur, landslagsarkitekt, Þorstein Þorsteinsson, bónda að Skálpastöðum í Borgarbyggð, og Anton Ottesen, bónda að Ytri-Hólmi í Hvalfjarðarsveit, til starfa á ný til að ljúka yfirlandskiptum á jörðunum Snóksdal I og Snóksdal II í Dalabyggð. Jafnframt gera stefnendur þá kröfu að felld verði úr gildi staðfesting sýslumanns frá 2. desember 2005 og 5. maí 2006 um skiptingu kostnaðar við yfirlandskiptagerð frá 10. mars 2004 og að stefndu verði gert að greiða stefnendum 635.405 krónur með dráttarvöxtum frá birtingardegi stefnu til greiðsludags. Þá krefjast stefnendur að stefndu verði gert að greiða þeim málskostnað.

Af hálfu stefndu er þess krafist aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að stefndu verði sýknuð af kröfum stefnenda og að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins í Búðardal um að kalla yfirlandskiptanefnd til stafa á ný. Í báðum tilvikum gera stefndu kröfu um málskostnað úr hendi stefnenda.

Með úrskurði þessum er tekin til úrlausnar frávísunarkrafa stefndu. Í þeim þætti málsins krefjast stefnendur þess að frávísunarkröfunni verði hrundið og að málskostnaður bíði efnisdóms.

I.

Í Miðdalahreppi hinum forna í Dalasýslu eru kirkjujörðin Snóksdalur og fyrrum hjáleiga hennar, jörðin Gilsbakki. Á manntalsþingi 31. maí 1886 að Sauðafelli í Dölum var þinglesið landamerkjabréf fyrir jörðunum frá 22. maí 1886, en þar er að finna nákvæma lýsingu á útmörkum jarðanna.

Með samningi 2. maí 1911 var Gilsbakki seldur frá Snóksdal. Í samningnum var landamerkjum Gilsbakka lýst, en síðan sagði að uppi á Snóksdalshálsi væri óskipt beitiland sem báðar jarðirnar Snóksdalur og Gilsbakki mættu nota í samfélagi sumar og vetur í hlutfalli við stærð þessara jarða. Með merkjum þeim sem lýst var í samningnum var Gilsbakki talinn 10 hundraða land en Snóksdalur 22 hundruð og 17 álnir.

Með afsölum frá árunum 1929 og 1945 eignaðist faðir stefnenda hálfa jörðina Snóksdal. Í tengslum við afsalið frá árinu 1945 var gert landamerkjabréf um tún og engjar jarðarinnar. Í afsalinu var vísað til þess að eigendur jarðarinnar hefðu sett ákveðin merki milli eignarhluta sinna, en tekið var þó fram að beitiland væri óskipt, svo og að annars skyldu öll gögn og gæði jarðarinnar, til lands og vatns, fylgja hvorum eignarhluta hlutfallslega. Voru eignarhlutar í jörðinni nefndir Snóksdalur I, sem nú er í eigu stefndu, og Snóksdalur II, sem er í eigu stefnenda. Því til viðbótar á stefnandi Guðmundur jörðina Gilsbakka.

Hinn 7. júní 1999 fóru þáverandi eigendur Snóksdals I þess á leit að fram færu skipti á óskiptu landi jarðanna Snóksdals I og Snóksdals II. Hinn 15. júní 2000 var haldinn fundur í landskiptanefndinni, en hann sóttu þáverandi eigendur Snóksdals I, ásamt lögmanni sínum, og stefnendur Einar og Guðmundur, ásamt lögmanni sínum. Á fundinum var fært til bókar að aðilar væru sammála um að Gilsbakka bæri „hlutfallsleg hlutdeild í hinu óskipta beitilandi sbr. afsal 2. maí 1911.“ Undir fundargerðina rituðu viðstaddir jarðeigendur og lögmenn þeirra.

Undirlandskiptum lauk með skiptagerð 20. nóvember 2000. Í skiptagerðinni er vísað til fyrrgreindrar bókunar frá fundi landskiptanefndar 15. júní 2000 og tekið fram að leitast hafi verið við að halda hlutföllum jarðanna Gilsbakka annars vegar og Snóksdals hins vegar, sem fram koma í samningnum frá 2. maí 1911.

Þáverandi eigendur Snóksdals I vildu ekki una landskiptunum og óskuðu eftir yfirmati með bréfi 18. maí 2001. Nokkur dráttur varð á afgreiðslu beiðninnar, en yfirmatsmenn voru skipaðir með bréfi sýslumannsins í Búðardal 16. júlí 2002. Meðan skiptin voru til meðferðar hjá yfirlandskiptanefnd gáfu þáverandi eigendur Snóksdals I út afsal 31. janúar 2003 til stefndu fyrir jörðinni.

Hinn 10. mars 2004 lauk yfirlandskiptanefnd störfum og skilaði landskiptagerð. Í skiptagerðinni kemur fram að ágreiningur hafi orðið við skiptin um hlut jarðarinnar Gilsbakka í óskiptu landi Snóksdals. Var lagt til grundvallar við skiptin að Gilsbakka fylgdi eingöngu beitarréttur en ekki beinn eignarréttur að landi. Stefnendur sættu sig ekki við yfirlandskiptin og höfðuðu mál hér fyrir dómi til að fá þeim hnekkt. Með dómi réttarins 10. október 2005 var yfirlandskiptagerðin ógilt þar sem nefndin hefði farið út fyrir valdheimildir sínar með því að skipta landinu þótt ágreiningur væri um eignarhlutföll, en úr þeirri deilu yrði ekki skorið nema með dómi, sbr. 3. mgr. 3. gr. landskiptalaga nr. 46/1941. Með dóminum var einnig dæmt um eignarhlutföllin milli Snóksdalsjarðanna og Gilsbakka.

Með bréfi formanns yfirlandskiptanefndar 3. júní 2004 var málsaðilum tilkynnt að kostnaður við yfirlandskiptin næmi 1.270.809 krónum og samkvæmt ákvörðun nefndarinnar yrði þeim kostnaði skipt jafnt á milli jarðanna Snóksdals I og Snóksdals II. Þessu erindi svaraði lögmaður stefnanda með bréfi 11. sama mánaðar, en þar kom fram að stefnendur gætu ekki tekið afstöðu til skiptingar kostnaðar fyrr en þeir hefðu fengið landskiptagerðina í hendur. Af þeim sökum yrði hlutdeild stefnenda í kostnaðinum greidd með áskilnaði um að gera síðar athugasemd við skiptingu hans. Í stefnu til dómsins í fyrrgreindu máli, sem stefnendur höfðuðu til að fá yfirlandskiptunum hnekkt, var áskilinn réttur til að endurkrefja stefndu um þann kostnað sem stefnendum var gert að greiða vegna yfirlandskiptanna.

II.

Með bréfi lögmanns stefndu 17. nóvember 2005 til sýslumannsins í Búðardal var þess farið á leit að yfirlandskiptanefnd yrði á ný kvödd til starfa. Einnig var óskað eftir umsögn sýslumanns um skiptingu kostnaðar vegna matsins og var tekið fram að til þessa hefði matskostnaði verið skipt til helminga milli Snóksdalsjarðanna. Í því sambandi var bent á að eigandi Gilsbakka hefði átt aðild að skiptunum vegna jarðarinnar og því ætti að réttu lagi þriðjungur kostnaðar við matið að falla á hann.

Sýslumaðurinn í Búðardal ritaði málsaðilum bréf 2. desember 2005 og gerði grein fyrir því að fyrirhugað væri að kveðja yfirlandskiptanefndina aftur til starfa. Var aðilum veittur frestur til að koma á framfæri við sýslumann athugasemdum við þá ráðagerð fyrir 20. sama mánaðar. Vegna beiðni um umsögn um skiptingu kostnaðar við skiptin vísaði sýslumaður til 2. mgr. 6. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 þar sem fram kæmi að skipta ætti kostnaði að tiltölu miðað við eignarhlutföll þess er skiptin næðu til.

Með bréfi lögmanns stefnenda 12. desember 2005 var því harðlega mótmælt að sömu menn yrðu kvaddir til að ljúka yfirlandskiptum þar sem stefnendur hefðu ástæðu til að ætla að þeir yrðu ekki óhlutdrægir í störfum sínum. Var þetta nánar rökstutt með því að benda á ýmsa annmarka sem stefnendur töldu vera á yfirlandskiptagerðinni og störfum yfirmatsmanna án þess að þær röksemdir verði nánar tíundaðar hér. Þá var skiptingu þess kostnaðar sem fallið hafði til vegna starfa yfirlandskiptanefndar mótmælt og sú krafa gerð að sýslumaður úrskurðaði að stefndu bæri að endurgreiða stefnendum kostnað vegna starfa yfirlandskiptanefndar. Þessu erindi svaraði sýslumaður með bréfi 31. desember 2005 þar sem fram kom að hann teldi ekki efni til að fallast á andmæli við hæfi nefndarmanna og yrðu þeir því kvaddir til að ljúka yfirlandskiptunum. Með bréfi sama dag til formanns nefndarinnar var nefndin kvödd á ný til starfa.

Lögmaður stefnenda ritaði sýslumanni aftur bréf 5. janúar 2006 og krafðist þess með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, að sýslumaður færði rök fyrir þeirri ákvörðun að kalla sömu menn til starfa til að ljúka yfirlandskiptum. Einnig var ítrekuð krafa um að sýslumaður úrskurðaði um skiptingu kostnaðar við störf nefndarinnar. Þessu erindi svaraði sýslumaður með bréfi 5. maí 2006, en þar eru málsatvik reifuð og færð rök fyrir því að þeir einstaklingar sem kvaddir voru til setu í yfirlandskiptanefnd væru ekki vanhæfir. Þá segir í bréfinu að sýslumaður hafi ekki talið efni til að leggja skiptakostnað á eigendur Snóksdals I og því hafi verið tekin sú ákvörðun að kostnaði yrði skipt að tiltölu milli aðila í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 6. gr. laga nr. 46/1941.

Með bréfi lögmanns stefnenda 17. maí 2006 var kærð til dómsmálaráðuneytisins sú ákvörðun sýslumannsins í Búðardal að skipa aftur til setu í yfirlandskiptanefnd sömu menn og höfðu átt þar sæti. Einnig var borin undir ráðuneytið sú skipting kostnaðar sem ákveðin var af yfirlandskiptanefnd. Ráðuneytið felldi úrskurð á málið 19. júlí 2006, en með honum var kröfum stefnenda vísað frá ráðuneytinu. Fyrir þeirri niðurstöðu voru færð þau rök að ákvörðun sýslumanns um að skipa yfirlandskiptanefnd aftur til starfa væri formákvörðun, sem ekki yrði skotið til ráðuneytisins, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Þá taldi ráðuneytið að kærufrestur vegna ákvörðunar yfirlandskiptanefndar frá 3. júní 2004 um skiptingu kostnaðar milli málsaðila væri löngu liðinn. Í því sambandi tók ráðuneytið fram að ákvörðun yfirlandskiptanefndar um skiptingu kostnaðar yrði ekki borin undir sýslumann.

III.

Stefndu byggja frávísunarkröfu sína á því að ákvörðun sýslumanns um að kalla yfirlandskiptanefnd til starfa hafi ekki verið stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, heldur formákvörðun, sbr. 2. mgr. 26. gr. sömu laga. Telja stefndu að slík ákvörðun sæti ekki endurskoðun meðan skiptum er ólokið, enda væri að öðrum kosti hætt við að mál myndu dragast úr hömlu. Þá séu hagsmunir aðila nægjanlega tryggðir með því að hugsanlegt vanhæfi geti leitt til þess að skiptin verði felld úr gildi.

Stefndu vísa til þess að yfirlandskiptanefndin sjálf eigi úrlausnarvald um vanhæfi einstakra nefndarmanna eða nefndarinnar í heild, sbr. 4. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga. Þótt sýslumaður hafi tekið ákvörðun um hæfi nefndarmanna með því að kalla nefndina til starfa 31. desember 2005 verði sú ákvörðun ekki borin undir dómstóla.

Stefndu benda á að yfirlandskiptanefnd hafi upphaflega verið skipuð til að framkvæma skiptin. Þeim skiptum sé ólokið þar sem skiptagerð nefndarinnar hafi verið felld úr gildi með dómi réttarins frá 10. október 2005. Með vísan til dóms Hæstaréttar frá 23. október 2003 í máli nr. 128/2003 og niðurstöðu héraðsdóms í því máli halda stefndu því fram að sýslumanni hafi beinlínis verið skylt að kalla nefndina aftur til starfa. Ákvörðun sýslumanns feli ekki í sér úrskurð um hæfi eða vanhæfi nefndarmanna enda sé úrlausn þar að lútandi ekki á valdi sýslumanns. Þar fyrir utan sé ákvörðun um hæfi ekki stjórnvaldsákvörðun.

Stefndu halda því fram að krafa stefnenda um greiðslu kostnaðar sé svo vanreifuð og óskýr að ekki verði lagður á hana dómur. Til stuðnings kröfunni vísi stefnendur til almennu skaðabótareglunnar án þess þó að lýsa því hvernig sú regla eigi við. Þar sem málatilbúnaðurinn sé óglöggur að þessu leyti sé stefndu ekki með góð móti kleift að halda uppi vörnum í málinu. Í þessu sambandi benda stefndu á að ekki hafi verið reynt að lýsa þeirri háttsemi stefndu sem hafi verið til þess fallin að valda stefnendum tjóni og því síður hafi verið leitt í ljós að hvaða leyti háttsemi stefndu hafi verið saknæm og ólögmæt.

Loks benda stefndu á að sýslumanninum í Búðardal hafi ekki verið stefnt í málinu, en hann hafi tekið þær ákvarðanir sem stefnendur geri kröfu um að verði felldar úr gildi. Þar sem málið snúist um hæfi yfirlandskiptanefndar, sem nefndin sjálf eigi úrlausn um, telja stefndu að jafnframt hefði átt að höfða málið á hendur nefndinni. Af þessum sökum beri einnig að vísa málinu frá dómi.

IV.

Stefnendur benda á að málinu hafi af hálfu sýslumannsins í Búðardal verið lokið með því að hann kallaði yfirlandskiptanefnd á ný til starfa 31. desember 2005. Sú ákvörðun hafi því verið endanleg og verði borin undir dómstóla eftir almennum reglum. Sama eigi við um ákvörðun sýslumanns um skiptingu kostnaðar af störfum yfirlandskiptanefndar.

Stefnendur telja að sýslumaðurinn í Búðardal og yfirlandskiptanefnd hafi engra lögvarinna hagsmuna að gæta af niðurstöðu málsins. Aðild þessara stjórnvalda að málinu sé því óþörf og engin réttarfarsleg nauðsyn á að gefa þeim kost á að láta málið til sín taka.

Þá halda stefnendur því fram að kröfugerð þeirra eða málatilbúnaður að öðru leyti sé nægjanlega skýr og glöggur til að efnisdómur verði lagður á málið.

V.

Með dómi réttarins 10. október 2005 var felld úr gildi yfirlandskiptagerð frá 10. mars 2004 um skipti á landi sem tilheyrir jörðunum Snóksdal I, Snóksdal II og Gilsbakka. Í kjölfarið tók sýslumaðurinn í Búðardal þá ákvörðun með bréfi 31. desember 2005 að kalla sömu nefndarmenn á ný til starfa til að ljúka skiptum á landi jarðanna. Með málsókninni leitast stefnendur við að fá ákvörðun þessari hnekkt og reisa þá kröfu á því að þeir sem sæti eiga í nefndinni séu vanhæfir til að fara með málið.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 heyrir undir sýslumann að skipa menn til setu í yfirlandskiptanefnd. Í ákvæðinu er tekið fram að þeir sem taki sæti í nefndinni skuli vera óvilhallir, en það leiðir einnig af almennum reglum II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þegar sýslumaður skipar menn til setu í yfirlandskiptanefnd ber honum hvorki að afla né fara eftir ábendingum aðila um hverjir taki sæti í nefndinni. Jafnframt getur landeigandi, sem á aðild að landskiptum, ekki hlutast til um að nefndarmaður, sem á sæti í yfirlandskiptanefnd, verði leystur undan þeim starfa. Í samræmi við þetta er ekki á forræði málsaðila að kvaðning nefndarmanna, sem upphaflega voru skipaðir til setu í yfirlandskiptanefnd 16. júlí 2002 og síðan kvaddir á ný til að halda áfram og ljúka skiptum 31. desember 2005, verði felld niður og nýir menn skipaðir í þeirra stað. Ákvörðun þar að lútandi hvílir hjá sýslumanni eða eftir atvikum nefndinni sjálfri, kjósi hún að víkja nefndarmanni, einum eða fleiri, sbr. 4. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga.

Til að ákvörðun stjórnvalds verði felld úr gildi verður venjulega að stefna til varnar því stjórnvaldi sem stóð að þeirri ákvörðun sem um er deilt, sbr. til að mynda dóm Hæstaréttar 30. mars 2000 í máli nr. 324/1999. Að öðrum kosti er viðbúið að mál verði ekki nægjanlega upplýst þar sem stjórnvaldinu hefur ekki verið gert kleift að koma á framfæri þeim sjónarmiðum sem ákvörðun er reist á og svara fyrir hana. Þá er aðild stjórnvaldsins nauðsynleg ef dómur í samræmi við þær kröfur sem hafðar eru uppi leggur stjórnvaldinu á herðar skyldu af einhverju tagi. Á það við í þessu máli, enda þyrfti sýslumaður að skipa nýja yfirlandskiptanefnd ef fallist verður á kröfu stefnanda um að ákvörðun sýslumanns frá 31. desember 2005 verði felld úr gildi. Kröfunni verður því vísað frá dómi þar sem málið hefur ekki verið höfðað á hendur sýslumanninum í Búðardal.

Í bréfi sýslumannsins í Búðardal 5. maí 2006 til lögmanns stefnenda segir að sýslumaður hafi ákveðið að kostnaður vegna starfa yfirlandskiptanefndar skyldi skiptast að tiltölu milli aðila í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 6. gr. landskiptalaga. Stefnendur gera þá kröfu að þessari ákvörðun verði hnekkt.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. landskiptalaga úrskurðar sýslumaður um reikninga yfirmatsmanna. Einnig segir að skjóta megi úrskurði sýslumanns undir fullnaðarúrskurð dómsmálaráðuneytisins, en það úrskurðar um reikning sýslumanns, ef hann sjálfur á sæti í nefndinni. Af þessu leiðir að sýslumaður tekur eingöngu ákvörðun um þóknun til yfirmatsmanna, sem hann hefur skipað til setu í nefndinni. Samkvæmt þessu heyrir ekki undir sýslumann að skera úr ágreiningi um hvernig þeim kostnaði verði skipt milli þeirra sem aðild eiga að landskiptunum og verður ákvörðun yfirlandskiptanefndar þar að lútandi ekki skotið til sýslumanns. Að þessu gættu verða stefnendur ekki taldir hafa lögvarða hagsmuni af því að fá fellda úr gildi ákvörðun sýslumanns, sem enga þýðingu hefur að lögum. Þessari kröfu stefnenda verður því einnig vísað frá dómi.

Loks gera stefnendur þá kröfu á hendur stefndu að þeim verði gert að greiða sér 635.405 krónur, en sú fjárhæð nemur helmingi af kostnaði við störf yfirlandskiptanefndar vegna skiptagerðarinnar frá 10. mars 2004. Þurftu stefnendur að reiða fram þá greiðslu til að fá skiptagerðina í hendur. Í stefnu er því haldið fram að stefndu hafi vísvitandi haldið fram rangri málsástæðu þess efnis að réttindi Gilsbakka til landsins væri beitarréttur en ekki beinn eignarréttur. Með þessu athæfi hafi stefndu komið því til leiðar að yfirlandskiptanefndin tók sér dómsvald í blóra við 3. mgr. 3. gr. landskiptalaga, en það hafi valdið því að skiptin voru ógild með dómi réttarins. Þetta hafi valdið stefnendum tjóni, sem stefndu beri ábyrgð á eftir almennu skaðabótareglunni. Á þessari kröfugerð eða málatilbúnaði eru engir þeir annmarkar sem varðað geta frávísun. Að þessu leyti verður því frávísunarkröfu stefndu hrundið.

Þar sem vísað hefur verið frá dómi kröfu stefnenda um að ákvörðun sýslumannsins í Búðardal frá 31. desember 2005 verði felld úr gildi reynir ekki á varakröfu stefndu um að sú ákvörðun verði staðfest. Það athugast að slík krafa til sjálfstæðs viðurkenningardóms verður ekki höfð uppi án þess að gagnsök sé höfðuð.

Málskostnaður bíður efnisdóms.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

   Vísað er frá dómi kröfu stefnenda, Björns Pálmasonar, Einars Pálmasonar, Elínar Pálmadóttur, Guðmundar Pálmasonar og Kristínar Pálmadóttur, um að ógilt verði ákvörðun sýslumannsins í Búðardal frá 31. desember 2005 um að kveðja til Jón Höskuldsson, héraðsdómslögmann, Lárus Birgisson, búnaðarráðunaut, Sigurbjörgu Ósk Áskelsdóttur, landslagsarkitekt, Þorstein Þorseinsson, bónda að Skálpastöðum í Borgarbyggð, og Anton Ottesen, bónda að Ytri-Hólmi í Hvalfjarðarsveit, til starfa á ný til að ljúka yfirlandskiptum á jörðunum Snóksdal I og Snóksdal II í Dalabyggð. Einnig er vísað frá dómi kröfu stefnenda um að felld verð úr gildi staðfesting sýslumanns frá 5. maí 2006 um skiptingu kostnaðar við yfirlandskiptagerð frá 10. mars 2004. Að öðru leyti er frávísunarkröfu stefndu, Aksel Jansen, Jan Jansen og Ólafs Friðsteinssonar hrundið.

Málskostnaður úrskurðast ekki.