Hæstiréttur íslands

Mál nr. 193/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 24

 

Miðvikudaginn 24. apríl 2002.

Nr. 193/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Hæstiréttur féllst á kröfu á lögreglu  um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. apríl 2002, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 31. maí nk. kl. 16.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Samkvæmt gögnum málsins var varnaraðili handtekinn 21. mars sl. vegna gruns um stórfelldan innflutning á fíkniefnum. Hann sætti gæsluvarðhaldi vegna málsins á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 frá 22. sama mánaðar þar til héraðsdómari kvað upp hinn kærða úrskurð. Við rannsókn málsins hefur varnaraðili gengist við aðild sinni að innflutningi á tæplega 30 kg af hassi. Kveðst hann hafa ásamt þremur öðrum mönnum lagt á ráðin um innflutning þess og fengið einn þeirra til að koma því fyrir í húsgögnum, sem hann hafi sent í vörugámi hingað til lands. Hafi hinir þrír séð um að útvega fé til innflutningsins. Eru þannig ekki efni til annars en að fallast á með sóknaraðila að sterkur grunur sé um að varnaraðili hafi framið brot, sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Þá verður fallist á að eðli brotsins og umfang þess sé slíkt að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt því verður krafa sóknaraðila tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 31. maí nk. kl. 16.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19.apríl 2002.

Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að X verði gert að að sæta gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 31. maí 2002 klukkan 16:00.

Af hálfu kærða er þess krafist að kröfu lögreglustjórans í Reykjavík verði hafnað.

[...].

Lögreglan kveður að rannsókn á ætluðu broti kærða gegn 173.gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 sé lokið og sé rannsóknin langt komin a.ö.l. og verði gögn málsins send til ákærumeðferðar hjá ríkissaksóknara að rannsókn lokinni, en brotið geti varðað hann þungri fangelsisrefsingu ef sannist, en sterkur rökstuddur grunur sé um að kærði hafi gerst sekur um slíkt brot.  Verði að telja gæsluvarðhald nauðsynlegt m.t.t. almannahagsmuna. 

Lögreglan kveður heimild til gæsluvarðhalds vera í 2.mgr. 103.gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála.

Við reifun málsins fyrir dómara ítrekaði fulltrúi lögreglustjóra ofangreind rök og lagði sérstaka áherslu á að réttarhagsmunir almennings væru fólgnir í því að menn sem grunaðir séu um svo umfangsmikið fíkniefnabrot gangi ekki lausir fyrr en dómur gengur og þeir hafi afplánað sína refsingu. Um sé að ræða eitt mesta magn af hassi sem lagt hafi verið hald á hér á landi. Kærði hafi verið samvinnuþýður við rannsókn málsins og muni það koma til athugunar við úrlausn málsins en hafi ekki áhrif á það úrlausnarefni sem hér sé til meðferðar.

Verjandi kveður almannahagsmuni ekki vera í húfi í tilviki kærða. Hugtakið almanna­hagsmunir sé illa skilgreint í lögum og í dómaframkvæmd og þrátt fyrir að brot kærða yrði talið falla undir 173. gr. a almennra hegningarlaga þá sé hér um að ræða kannabisefni, en ákvæði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 hafi ekki verið beitt þegar svo hátti til. Hættueiginleikar kannabisefna séu minni en annarra þeirra fíkni­efna þar sem Hæstiréttur hafi talið að sjónarmið um réttarhagsmuni almennings eigi við. Þá verði 30 kg af hassi ekki skilgreind sem “gífurlegt magn”. Vísar verjandi til sakamáls nr. 1030/2001 við Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem ákært sé fyrir tilraun til inn­flutnings á sambærilegu magni, en í því máli hafi ekki verið krafist áframhaldandi gæslu­varðhalds yfir sakborningum á grundvelli þessa ákvæðis. Þá hafi annar aðili sem játað hafi aðild að broti því sem hér er til umfjöllunar verið látinn laus. Jafnvel hafi slíkri kröfu verið hafnað í tilviki mjög alvarlegrar líkamsárásar. Gæta verði jafn­ræðis, sbr. 65. gr. stjórnarskrár. Átt geti við að vísa til almannahagsmuna þegar um sé að ræða afbrot eins og manndráp eða hryðjuverk eða brot gegn öryggi ríkisins. Kærði hafi einungis séð um innflutninginn gegn greiðslu en ekki átt efnið eða greitt það. Frelsis­sviptingu megi aðeins beita í undantekningartilvikum og í þessu máli krefjist réttar­vitund almennings þess ekki að kærði sitji áfram í gæslu þar til dómur gengur eða að það muni valda óróa í þjóðfélaginu verði hann látinn laus. Hann hafi játað brot sitt á frumstigi rannsóknar og aðstoðað lögreglu eftir megni við að upplýsa málið. Það sé andstætt mann­rétt­inda­ákvæðum að leysa kærða ekki úr haldi nú þegar rannsóknarhagsmunir séu ekki lengur fyrir hendi. Frelsissviptingu eigi aðeins að beita í undantekningartilvikum og samkvæmt 5. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu eigi allir menn rétti til frelsis og mann­helgi. Mannréttindadómstóll Evrópu hafi litið svo á að þeir hagsmunir að sakborningi gefist tækifæri til að ganga frá sínum málum áður en hann hefur afplánun séu mikilvægari en almannahagsmunir og vísar verjandi þar um til svonefnds Letellier-máls nr. 29/1990.

Mál það sem krafa lögreglustjóra lýtur að varðar innflutning á 30 kg af hassi. Rannsókn málsins að því er varðar kærða er lokið, en rannsókn málsins í heild er ekki full­lokið. Kærði hefur játað aðild sína og verið samvinnuþýður við rannsókn málsins. Rann­sóknarhagsmunir krefjast þess ekki lengur að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi. Krafa lögreglustjóra er gerð á grundvelli þess að almannahagsmunir krefjist þess að kærði gangi ekki laus. Jafnvel þótt um mikið magn sé að ræða af hassi og mesta magn sem haldlagt hefur verið í einu lagi hér á landi dugar það eitt og sér ekki til. Við mat á því hvort almannahagsmunum sé ógnað af manni sem gerst hefur sekur um inn­flutning fíkniefna, verður að líta til hættueiginleika þess efnis sem um er að ræða. Hass er ólöglegt hér á landi og varðar innflutningur þess og dreifing þungum viður­lögum, byggist það á því að það geti verið ávanabindandi, skaðlegt heilsu neytanda og neysla þess geti leitt neytendur til afbrota og neyslu enn hættulegri efna. Engu að síður verður ekki fallist á það að ætlað brot kærða sé þess eðlis að nauðsynlegt sé með tilliti til almannahagsmuna að hann sæti gæsluvarðhaldi á meðan lokið er rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómstólum. Er því hafnað kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um að X sæti áfram gæsluvarðhaldi.