Hæstiréttur íslands
Mál nr. 791/2014
Lykilorð
- Einkahlutafélag
- Ársreikningur
- Endurskoðandi
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Fimmtudaginn 21. maí 2015. |
|
Nr. 791/2014.
|
Matthías H. Johannessen (Reimar Pétursson hrl.) gegn Aztiq Pharma Partners ehf. (Bjarki H. Diego hrl.) |
Einkahlutafélag. Ársreikningur. Endurskoðandi. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.
M höfðaði máli á hendur A ehf. og krafðist þess aðallega að ógiltir yrðu aðalfundir A ehf. 14. október 2011 fyrir starfsárin 2009 og 2010, en til vara að ógiltar yrðu ákvarðanir á þeim fundum um samþykki ársreikninga A ehf. fyrir sömu ár. Í fundargerðum vegna aðalfundanna var bókað um deilu sem reis um hlutaskrá í A ehf. og atkvæðisrétt á grundvelli hennar. Þá hafði M fyrir fundina komið á framfæri margvíslegum athugasemdum við ársreikningana ásamt skýrslum félagsstjórnar, sem fylgdu reikningnum, og voru athugasemdirnar áréttaðar á fundunum. Hæstiréttur vísaði aðalkröfu M frá héraðsdómi, með skírskotun til þess að 1. mgr. 71. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög veitti ekki heimilt til að ógilda hluthafafund í heild, heldur einungis tilgreindar ákvarðanir sem þar hafa verið teknar, sbr. dóm réttarins 11. mars 2004 í máli nr. 360/2003. M studdi varakröfu sína meðal annars málatilbúnaði um hvernig borið hefði að standa að endurskoðun ársreikninga A ehf., svo og hvort A ehf. hefði verið skylt að færa þar verðmæti eignarhluta í dótturfélögum sínum eftir hlutdeildaraðferð samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga og gera samstæðureikning eftir ákvæðum VII. kafla sömu laga. Hæstiréttur taldi að A ehf. hefði verið heimilt samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga nr. 3/2006, eins og atvikum var háttað, að víkja frá meginreglu 1. mgr. 67. gr. sömu laga um skyldu móðurfélags til að gera samstæðureikning fyrir öll dótturfélög sín, svo og að ef skylda hefði á annað borð verið til að gera slíkan samstæðureikning yrði að líta svo á að fullnægt hefði verið skilyrðum 4. tölul. 1. mgr. 70. gr. laganna til að halda tilgreindum dótturfélögum A ehf., þ. á m. AP AB utan reikningsins. Af því leiddi samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 40. gr. laga nr. 3/2006 að A ehf. hefði verið óskylt að tilgreina verðmæti eignarhluta síns í AP AB með hlutdeildaraðferð. Var A ehf. talinn hafa mátt láta við það sitja að kjörinn yrði á aðalfundi skoðunarmaður eftir þágildandi ákvæðum IX. kafla laga nr. 3/2006 sem ekki var skylt að endurskoða í eiginlegum skilningi ársreikninga A ehf. Loks vísaði Hæstiréttur til þess að héraðsdómur, sem skipaður hefði verið tveimur sérfróðum meðdómendum, hefði tekið afstöðu til málsástæðna M um önnur atrið sem hann taldi valda því að ársreikningum A ehf. fyrir 2009 og 2010 hefði verið áfátt. Taldi rétturinn að M hefði ekki hnekkt niðurstöðu héraðsdóms að þessu leyti. Var því staðfest niðurstöðu héraðsdóm um að sýkna A ehf. af varakröfu M.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. desember 2014 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess aðallega að ógiltir verði aðalfundir stefnda 14. október 2011 fyrir starfsárin 2009 og 2010, en til vara að ógiltar verði ákvarðanir á þeim fundum um samþykki ársreikninga stefnda fyrir sömu ár. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess aðallega að aðalkröfu áfrýjanda verði vísað frá héraðsdómi og hann sýknaður af varakröfu áfrýjanda, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins var stefndi stofnaður í mars 2009 og bar þá heitið Dalasúla ehf. Með samningi 31. sama mánaðar framseldi stofnandi félagsins alla hluti í því til áfrýjanda og þriggja annarra, Vilhelms Róberts Wessman, Magnúsar Jaroslav Magnússonar og Árna Harðarsonar. Átti Vilhelm að eignast 94% hlutanna en hver hinna þriggja 2%. Viðauki dagsettur sama dag var gerður við þennan samning, en samkvæmt honum skyldi Árni eignast þann hlut í félaginu, sem Vilhelm hafði verið ætlaður, þannig að hlutur þess fyrrnefnda yrði 96%. Fyrirtækjaskrá var tilkynnt 1. apríl 2009 um breytt heiti stefnda og nýja stjórn hans, en Vilhelm var þar formaður og áfrýjandi meðstjórnandi ásamt Árna, sem var ráðinn framkvæmdastjóri. Þeirri skipan var breytt 2. mars 2010 þegar áfrýjandi vék úr stjórninni og Magnús var kjörinn í hans stað, en um það var fyrirtækjaskrá tilkynnt 5. sama mánaðar.
Í málatilbúnaði áfrýjanda er staðhæft að á árinu 2011 hafi honum fyrst orðið kunnugt um viðaukann við samninginn frá 31. mars 2009 og það eignarhald yfir hlutum í stefnda, sem þar hafi verið kveðið á um. Við þessu hafi hann brugðist með því að tilkynna 16. september 2011 að hann nýtti sér forkaupsrétt samkvæmt samþykktum stefnda að þeim 94% hlut í félaginu, sem viðaukinn átti að færa úr höndum Vilhelms til Árna. Samkvæmt fundarboði 26. september 2011 voru 14. október sama ár haldnir aðalfundir stefnda fyrir starfsárin 2009 og 2010, þar sem meðal annars voru fluttar skýrslur stjórnar félagsins um starfsemi þess þau ár og lagðir fram til samþykktar ársreikningar. Í fundargerðum var greint frá deilu sem reis á fundunum um hlutaskrá í stefnda og atkvæðisrétt á grundvelli hennar. Hafnað var kröfu áfrýjanda um að hann færi á fundunum með atkvæði sem eigandi 96% hluta í stefnda, en þess í stað ákveðið að Árni færi með það hlutfall atkvæða og áfrýjandi og Magnús hvor með atkvæði sem eigendur 2% hlutar. Fyrir fundina hafði áfrýjandi komið á framfæri margvíslegum athugasemdum við ársreikninga stefnda fyrir 2009 og 2010 ásamt skýrslum félagsstjórnar, sem fylgdu reikningunum, og voru þessar athugasemdir áréttaðar á fundunum, en reikningarnir voru samþykktir þar með atkvæðum Árna og Magnúsar gegn atkvæði áfrýjanda.
Áfrýjandi höfðaði 13. desember 2011 mál á hendur Vilhelm, Magnúsi, Árna og stefnda og gerði nánar tilgreindar kröfur varðandi eignarhald og forkaupsrétt að hlutum í félaginu. Með dómi Hæstaréttar 28. nóvember 2013 í máli nr. 367/2013 var staðfestur héraðsdómur í því máli, en þar hafði niðurstaðan orðið sú að áfrýjandi, Magnús og Árni ættu að stefnda frágengnum forkaupsrétt að þeim 94% hluta í félaginu, sem viðaukinn við samninginn 31. mars 2009 tók til, fyrir nafnverð þeirra, 470.000 krónur. Stefndi mun hafa neytt forkaupsréttar að þessum hlutum 2. desember 2013. Áfrýjandi höfðaði einnig þetta mál 13. desember 2011 og krefst hann þess aðallega sem fyrr segir að aðalfundirnir í stefnda, sem haldnir voru 14. október 2011, verði ógiltir, en til vara að ógiltar verði ákvarðanir á fundunum um samþykki ársreikninga stefnda fyrir árin 2009 og 2010.
II
Með 1. mgr. 71. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög er hluthafa í slíku félagi heimilað að höfða mál vegna ákvörðunar hluthafafundar í því hafi hún verið tekin með ólögmætum hætti eða brjóti hún í bága við þau lög eða samþykktir félagsins. Lagaákvæði þetta veitir ekki heimild til að ógilda hluthafafund í heild, heldur einungis tilgreindar ákvarðanir sem þar hafa verið teknar, sbr. dóm Hæstaréttar 11. mars 2004 í máli nr. 360/2003. Samkvæmt þessu verður aðalkröfu áfrýjanda vísað frá héraðsdómi.
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi reisir áfrýjandi varakröfu sína á því að ýmsir gallar hafi verið á ársreikningum stefnda fyrir árin 2009 og 2010, en áfrýjandi kveðst hafa hagsmuni af því að fá samþykki þessara reikninga ógilt, enda yrði stefndi þar með knúinn til að láta gera þá á ný og bæta úr annmörkum á þeim. Lýtur málatilbúnaður áfrýjanda að þessu leyti meðal annars að því hvernig hefði borið að standa að endurskoðun ársreikninga stefnda, svo og hvort honum hafi verið skylt að færa þar verðmæti eignarhluta í dótturfélögum sínum eftir hlutdeildaraðferð samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga og gera samstæðureikning eftir ákvæðum VII. kafla sömu laga. Um þessi atriði verður að gæta að því að samkvæmt 1. mgr. 67. gr. laga nr. 3/2006 gildir sú meginregla að móðurfélagi sé skylt að gera samstæðureikning fyrir öll dótturfélög sín. Frá því má á hinn bóginn víkja ef samstæðan í heild fer ekki fram úr minnst tveimur af þremur viðmiðunum, sem fram koma í 1. mgr. 68. gr. laganna, en fram að gildistöku laga nr. 14/2013 voru þær á þann veg að eignir næmu 230.000.000 krónum, að rekstrartekjur næmu 460.000.000 krónum og að fjöldi ársverka á reikningsári væri 50. Af gögnum málsins verður ráðið að meginhluta þess tímabils, sem ársreikningar stefnda 2009 og 2010 tóku til, hafi hann átt að fullu dótturfélag í Svíþjóð, Aztiq Partners AB, sem var eini eigandinn að félagi í Luxembourg, Aztiq Pharma Partners SCA. Í málinu liggja fyrir ársreikningar þessara tveggja félaga. Af þeim verður ekki annað séð en að bókfært verðmæti eigna þeirra að viðbættum eignum stefnda hafi á þessum tíma farið fram úr fyrrgreindri viðmiðun samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga nr. 3/2006, en það hafi á hinn bóginn hvorki samanlagðar tekjur af rekstri félaganna þriggja gert né fjöldi starfsmanna þeirra. Eins og málið liggur fyrir verður jafnframt að líta svo á, eins og gert var í hinum áfrýjaða dómi, að fullnægt hafi verið skilyrðum 4. töluliðar 1. mgr. 70. gr. laga nr. 3/2006 til að halda dótturfélaginu Aztiq Partners AB og þar með einnig áðurnefndu dótturfélagi þess í Luxembourg utan samstæðureiknings ef skylda hefði á annað borð staðið til að gera hann. Af þessu leiðir samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 40. gr. sömu laga að stefnda var óskylt að tilgreina í ársreikningum sínum verðmæti eignarhlutar síns í Aztiq Partners AB með hlutdeildaraðferð, sem þar um ræðir. Í ljósi þessa alls þurfti ekki til annars að líta en aðstæðna stefnda eins við mat á því hvort skylda samkvæmt 1. mgr. 98. gr. laga nr. 3/2006, svo sem hún hljóðaði á þessum tíma, hafi staðið til þess að kosinn yrði endurskoðandi eða endurskoðunarfélag til að endurskoða ársreikninga hans. Til þess stóðu ekki skilyrði þess lagaákvæðis. Mátti stefndi því láta við það sitja að kjörinn yrði á aðalfundi skoðunarmaður eftir þágildandi ákvæðum IX. kafla laga nr. 3/2006, svo sem gert var, og verður að fallast á með héraðsdómi að þeim manni hafi ekki verið skylt að endurskoða í eiginlegum skilningi ársreikninga stefnda.
Um önnur atriði, sem áfrýjandi telur í málatilbúnaði sínum valda því að ársreikningum stefnda fyrir 2009 og 2010 hafi verið áfátt, verður að gæta að því að héraðsdómur, sem skipaður var tveimur sérfróðum meðdómsmönnum, hefur tekið afstöðu til málsástæðna hans og hefur hann fyrir Hæstarétti ekki hnekkt niðurstöðum hins áfrýjaða dóms að því leyti. Að þessu virtu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna stefnda af varakröfu áfrýjanda.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað verður látið standa óraskað, en áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Vísað er frá héraðsdómi aðalkröfu áfrýjanda, Matthíasar H. Johannessen, um að ógiltir verði aðalfundir stefnda, Aztiq Pharma Partners ehf., sem haldnir voru 14. október 2011 fyrir starfsárin 2009 og 2010.
Hinn áfrýjaði dómur skal að öðru leyti vera óraskaður.
Áfrýjandi greiði stefnda 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2014.
Mál þetta höfðaði Matthías H. Johannessen, kt. [...], Bollagörðum 49, Seltjarnarnesi, með stefnu birtri 13. desember 2011, á hendur Aztiq Pharma Partners ehf., kt. [...], Smáratorgi 3, 200 Kópavogi. Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 10. júní sl.
Stefnandi krefst þess aðallega að aðalfundir hins stefnda félags fyrir starfsárin 2009 og 2010, sem haldnir voru 14. okt. 2011, verði dæmdir ógildir. Til vara að samþykkt reikninga félagsins fyrir árin 2009 og 2010 á aðalfundunum 14. okt. 2011 verði dæmd ógild. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu.
Stefndi krefst sýknu bæði af aðal- og varakröfu stefnanda. Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins.
Einkahlutafélagið Dalasúla var stofnað í mars 2009 og var Lögvit ehf. eini hluthafinn. Með samningi dags. 31. sama mánaðar keyptu Vilhelm Róbert Wessman, Árni Harðarson, Magnús Jaroslav Magnússon og stefnandi allt hlutafé í félaginu. Samkvæmt framsalssamningnum átti Vilhelm Róbert Wessman 94% hlutafjárins, en Árni Harðarson, Magnús Jaroslav Magnússon og stefnandi áttu 2% hver.
Í framsalssamningnum kom í 3. gr. fram að afhending hlutanna teldist fara fram við undirritun samnings þessa. Þar sagði jafnframt að öll réttindi skyldu fylgja hlutunum frá afhendingunni. Í lok samningsins sagði að stefnandi, Vilhelm Róbert, Árni og Magnús væru löglegir eigendur að öllum eignarhlutum í stefnda Aztiq og væru bærir til að fara með öll réttindi og skyldur í tengslum við hina framseldu eignarhluti. Meðal ákvæða í samþykktum félagsins var ákvæði um forkaupsrétt að hlutum. Fyrst átti félagið forkaupsrétt, en síðan aðrir hluthafar í hlutfalli við hlutafjáreign.
Þeir Vilhelm Róbert og Árni gerðu með sér samning sem þeir nefndu viðauka við framsalssamning um hlutabréf í einkahlutafélaginu Dalasúlu. Með þeim samningi var allt hlutafé Vilhelms framselt Árna á nafnverði.
Stefnandi hélt því fram að hann hefði ekki frétt af þessu framsali frá Vilhelm Róberti til Árna fyrr en löngu síðar. Reis ágreiningur milli aðila um framsalið, en hann var leystur með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2013, sem var staðfestur í Hæstarétti 28. nóvember sama ár. Þar var viðurkennt að stefnandi Matthías ætti forkaupsrétt að umræddum hlutum ásamt þeim Árna Harðarsyni og Magnúsi Jaroslav Magnússyni, að stefnda frágengnum. Upplýst er að stefndi nýtti sér forkaupsrétt að hlutum þessum þann 2. desember 2013.
Á sama tíma og stefnandi lýsti vilja sínum til að nýta forkaupsrétt að hlutum í félaginu krafðist hann þess að haldnir yrðu aðalfundir vegna áranna 2009 og 2010. Voru aðalfundirnir haldnir 14. október 2011.
Á fundunum lagði stjórn félagsins fram hlutaskrá. Var þar gert ráð fyrir að stefnandi ætti 2% hlut í félaginu, en Árni Harðarson 96%. Er bókað að ágreiningur sé um hlutaskrána, en stefnandi telji sig eiga 96% hlutafjár. Fundarstjóri ákvað að atkvæði á fundinum færu eftir framlagðri hlutaskrá stjórnar félagsins.
Þá voru lagðir fram ársreikningar fyrir árin 2009 og 2010. Þeir höfðu ekki verið endurskoðaðir, en voru áritaðir af löggiltum endurskoðanda sem kvaðst hafa aðstoðað við gerð reikninganna. Þá sagði í áritun endurskoðanda að þeir hefðu skipulagt og hagað vinnu sinni í samræmi við viðurkenndar aðferðir á Íslandi við gerð óendurskoðaðra ársreikninga með það að markmiði að aðstoða félagið við að leggja fram ársreikning sem væri í samræmi við lög og góða reikningsskilavenju á Íslandi.
Lúðvík Þráinsson endurskoðandi, sem áritaði reikningana, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hann kvaðst hafa áritað ársreikningana sem skoðunarmaður, en reikningarnir hefðu ekki verið endurskoðaðir. Hann sagði að það hefði verið ákvörðun stjórnar félagsins að færa ekki hlutinn í Aztiq Pharma Partners AB eftir hlutdeildaraðferð, enda hefði hluturinn verið seldur árið eftir. Þá hefði stjórnin ákveðið að færa ekki niður verðmæti krafna á hendur Salt Investments. Þá hefði sala á Aztiq Partners AB ekki komið fram í yfirliti um sjóðstreymi þar sem engir peningar hefðu verið greiddir til félagsins vegna sölunnar á árinu.
Í fundargerð aðalfundar fyrir árið 2009 er greint frá athugasemdum sem umboðsmaður stefnanda á fundinum gerði, en hann hafði einnig sent skriflegar athugasemdir fyrir fundinn. Þá eru bókuð ítarlega svör stjórnarformanns við athugasemdum þessum. Þetta kemur einnig fram í fundargerð aðalfundar fyrir árið 2010. Á báðum fundunum voru reikningarnir samþykktir með 98% atkvæða, en 2% atkvæða voru á móti. Þótt þess sé ekki getið má gera ráð fyrir að allir aðrir en stefnandi hafi samþykkt reikningana, en að stefnandi hafi greitt atkvæði á móti.
Þá gerði stefnandi athugasemdir við skýrslu stjórnar á báðum fundunum.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi kveðst byggja aðalkröfu sína á því að hlutaskrá félagsins sem lögð hafi verið til grundvallar á fundunum hafi verið röng. Af því leiði að framkvæmd fundarins hafi verið ólögmæt og að allar samþykktir fundanna teljist ógildar.
Stefnandi rekur í stefnu í nokkrum liðum að Árni Harðarson hefði keypt hluti af Vilhelm Wessman og að við þessi kaup hafi forkaupsréttur félagsins og síðan annarra hluthafa orðið virkur. Eins og áður segir hefur nú verið staðfest með dómi að forkaupsréttur hafi orðið virkur og félagið hefur nú nýtt sér þann rétt. Stefnandi byggir á því að dómurinn staðfesti að hlutaskráin sem lá til grundvallar aðalfundunum 14. okt. 2011 hafi verið röng. Af því leiði að aðalfundirnir teljist ógildir og beri því að taka aðalkröfu stefnanda til greina og ógilda fundina í heild sinni.
Þá byggir stefnandi aðalkröfu sína á því að ársreikningar þeir sem voru lagðir fyrir aðalfundina fyrir rekstrarárin 2009 og 2010, hafi veitt ófullnægjandi mynd af starfsemi félagsins og ekki uppfyllt lögbundnar kröfur um reikningsskil félagsins. Rekur hann helstu atriðin nánar.
Stefnandi segir að skýrsla stjórnar hafi ekki fullnægt þeim kröfum sem gerðar séu í 1. og 5. mgr. 65. gr. laga um ársreikninga. Ekki hafi verið þar að finna upplýsingar um aðalstarfsemi félagsins, mikilvæg atriði til að byggja mat á stöðu félagsins og afkomu, þróun í starfsemi félagsins, markverða atburði eftir að reikningsári lauk eða upplýsingar um samstæðu félagsins í heild. Þá hafi fyrirmæli 40. gr. sömu laga um að eignarhlutir í dótturfélögum skyldu færðir samkvæmt hlutdeildaraðferð verið virt að vettugi. Þá hafi ekki verið saminn samstæðureikningur, sbr. 67. gr. sömu laga. Meðferð skammtímakrafna hafi ekki verið í samræmi við áskilnað 35. gr., sbr. 3. mgr. og 1. málsl. 4. mgr. 30. gr. Loks hafi ekki verið veittar upplýsingar um viðskipti við tengda aðila, en þau virðist hafa verið umfangsmikil, sbr. 53. og 63. gr.
Þá gerir stefnandi tvær athugasemdir við áritun endurskoðanda á reikningana og vísar hann til 102. og 104. gr. laga um ársreikninga. Segir hann að endurskoðandinn hafi ekki sannreynt grundvöll ársreikninganna eða endurskoðað hann. Þá hafi hann „aðstoðað við gerð“ reikninganna, en það brjóti í bága við 19. gr. laga nr. 79/2008 og kafla 390 í siðareglum endurskoðenda.
Stefnandi segir að þessir annmarkar á ársreikningunum leiði til þess að fundirnir teljist ógildir í heild, en reikningarnir hafi verið helsta fundarefnið.
Varakröfu sína byggir stefnandi á sömu málsástæðum og aðalkröfuna. Er hún miðuð við að fundirnir teljist ekki ógildir í heild, heldur einungis samþykkt reikninganna.
Stefnandi vísar til laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, laga nr. 2/2006 um ársreikninga og laga nr. 79/1008 um endurskoðendur. Þá vísar hann til meginreglna samninga- og kröfuréttar. Loks vitnar hann í siðareglur endurskoðenda og góða reikningsskilavenju.
Í lok stefnu er gerð athugasemd um ráðstafanir sem sagt er að stjórn stefnda hafi gripið til og boðað að annað mál verði höfðað af því tilefni.
Málsástæður og lagarök stefnda
Í greinargerð stefnda eru höfð uppi andmæli við þeim staðhæfingum stefnanda að Vilhelm Wessman hafi framselt Árna Harðarsyni hlut sinn í félaginu og að forkaupsréttur hafi því orðið virkur. Þá er einnig byggt á tómlæti stefnanda í því sambandi. Úr þessum ágreiningi hefur þegar verið leyst.
Stefndi segir að stefnandi hafi ekki átt nema 2% hlut þegar aðalfundirnir voru haldnir. Engu skipti þótt hann hafi lagt tiltekna fjárhæð inn á vörslureikning hjá lögmanni sínum og telji sig eiga rétt til að nýta forkaupsrétt. Stefnandi hafi ekki átt lögbundinn rétt til hlutanna þegar fundirnir voru haldnir. Hlutahafaskráin sem byggt hafi verið á hafi verið rétt. Því sé ekkert tilefni til að ógilda fundina eða ákvarðanir hans.
Stefnandi hafi einungis átt forkaupsrétt ásamt öðrum, að félaginu frágengnu. Hann hefði því ekki haft meirihluta atkvæða á fundinum. Aðrir hluthafar hefðu haft nægt vægi atkvæða til að greiða atkvæði með öllum þeim tillögum sem lagðar hafi verið fram til samþykktar. Bæði Árni Harðarson og Magnús Jaroslav Magnússon hafi mætt á fundinn og greitt atkvæði með tillögum þeim sem lagðar hafi verið fram. Því skipti í raun engu máli þótt skilyrði hafi verið til nýtingar forkaupsréttar.
Þá telur stefndi að niðurstaða héraðsdóms og Hæstaréttar um forkaupsrétt að hlutum í félaginu staðfesti ekki að hlutaskráin sem lá frammi á fundinum hafi verið röng. Niðurstaða um forkaupsréttinn og beitingu hans hafi ekki verið komin.
Stefndi mótmæli því að ársreikningarnir hafi gefið ófullnægjandi mynd af starfsemi félagsins, en staðhæfingar stefnanda um það efni séu ósannaðar. Þá mótmælir hann því að skýrsla stjórnar hafi verið ófullnægjandi og ekki fullnægt kröfum laga nr. 3/2006. Þá telur hann sig hafa fylgt fyrirmælum 40. og 67. gr. laga um ársreikninga. Hluta í Aztiq Partners AB hafi eingöngu verið aflað til að endurselja þá. Sú hafi og orðið raunin, þeir hafi verið seldir á árinu 2010.
Stefndi mótmælir fullyrðingum í stefnu um tilgreiningu skammtímakrafna í reikningunum. Það sé háð mati hvort færa skuli kröfur niður vegna hættu á að þær muni ekki fást greiddar eða af öðrum ástæðum. Þá vanti ekki upplýsingar um viðskipti við tengda aðila og þá sé sú staðhæfing ekki rökstudd að sjóðsstreymi og eign í öðrum félögum í ársreikningi 2010 sé ranglega tilgreint.
Stefndi byggir á því að ekki hafi verið skylt að endurskoða reikningana, þar sem ekki sé fullnægt skilyrðum 1. mgr. 98. gr. laga um ársreikninga. Ekki hafi verið skylt að kjósa endurskoðanda fyrir félagið. Áritun skoðunarmanns, sem reyndar sé löggiltur endurskoðandi, hafi verið í samræmi við venjur hjá minni fyrirtækjum. Hann hafi því ekki brotið gegn hlutleysisskyldu endurskoðenda eða siðareglum. Slíkt myndi heldur ekki leiða til ógildingar aðalfundanna.
Stefndi bendir á að athugasemdum stefnanda hafi verið svarað á aðalfundunum og reikningarnir því næst verið samþykktir af hluthöfum. Því sé ekki tilefni til að ógilda aðalfundi félagsins. Þá telur stefndi að þótt einhverjir annmarkar kynnu að hafa verið á ársreikningunum sé ósannað að þeir hafi ekki veitt nægilega skýra mynd af starfsemi félagsins. Jafnvel þótt svo hefði verið varði það ekki ógildingu aðalfunda. Ekki komi fram í lögum að annmarkar á ársreikningum valdi ógildi þeirra eða aðalfunda þar sem þeir hafi verið samþykktir.
Stefndi vísar til framangreindra málsástæðna til stuðnings kröfu um sýknu af varakröfu stefnanda.
Stefndi kveðst byggja kröfur sínar og málsástæður m.a. á lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög, almennum reglum samninga og kröfuréttar, þar á meðal reglum um tómlæti. Þá vísar hann til laga nr. 3/2006 og nr. 79/2008 um endurskoðendur.
Niðurstaða
Í áðurgreindum dómi um forkaupsrétt að hlutum í hinu stefnda einkahlutafélagi er komist að þeirri niðurstöðu að forkaupsréttur félagsins sjálfs hefði orðið virkur við sölu hluta frá Vilhelm Wessman til Árna Harðarsonar. Þessi forkaupsréttur var staðfestur með dóminum sem var staðfestur í Hæstarétti í nóvember 2013. Nokkrum dögum síðar nýtti félagið forkaupsréttinn, þannig að félagið sjálft eignaðist 94% hlutafjár.
Þegar umræddir aðalfundir voru haldnir höfðu farið fram þau viðskipti sem gerðu forkaupsréttinn virkan. Honum hafði ekki verið beitt og því höfðu ekki orðið eigendaskipti að hlutum þannig að félagið eignaðist sjálft hlutina sem Árni Harðarson hafði keypt. Þannig var Árni Harðarson eigandi þessara hluta og því rétt að skrá hann í hlutaskrá félagsins sem eiganda 96% hlutafjár eins og gert var. Á fundinum var því miðað við rétta hlutaskrá og verður því hafnað kröfu stefnanda um ógildingu fundarins sem hann byggir á því að skráin hafi verið röng.
Stefnandi telur að endurskoða hafi átt ársreikninga stefnanda, ekki hafi dugað að endurskoðandi áritaði þá sem skoðunarmaður eins og gert var. Samkvæmt 96. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga, eins og hún hljóðaði þegar umræddir aðalfundir voru haldnir, skyldi kjósa endurskoðendur, endurskoðunarfyrirtæki eða skoðunarmenn. Skylt var að kjósa endurskoðanda samkvæmt 98. gr. þegar félagið náði tiltekinni stærð. Óumdeilt er að stefndi náði ekki þessari stærð. Ekki er hægt að skýra ákvæði laganna svo að skoðunarmönnum hafi verið skylt að endurskoða reikninga. Lögin gera skýran mun á minni félögum og stærri í þessu sambandi og þótt í 102. gr. laganna hafi verið notað orðið endurskoðun um verkefni skoðunarmanna, telur dómurinn með hliðsjón af öðrum ákvæðum kaflans, svo og lögum nr. 79/2008 um löggilta endurskoðendur, að skoðunarmanni hafi ekki verið skylt að endurskoða í eiginlegum skilningi ársreikning í félagi þar sem annars var ekki skylt að kjósa endurskoðanda. Þá breytist skylda skoðunarmanns ekki þótt sá sem kosinn er sé löggiltur endurskoðandi. Áritun skoðunarmanns á ársreikninga stefnda þessi ár var því fullnægjandi.
Dómurinn telur að í ársreikningum stefnda komi fram nauðsynlegar upplýsingar til að unnt sé að greina rekstur og efnahag félagsins og því séu athugasemdir stefnanda um skýrslu stjórnar ekki á rökum reistar. Fallast verður þó á að veita hefði átt frekari upplýsingar um lánveitingar félagsins en felast í sundurliðunum undir liðnum aðrar skammtímakröfur.
Stefndi telur að sér hafi ekki verið skylt að beita svokallaðri hlutdeildaraðferð er eignarhluti í Aztiq Partners AB var tilgreindur. Má fallast á að honum hafi ekki verið skylt að færa eignarhlutann með öðrum hætti en hann gerði. Þó hefði verið rétt að skýra þessa ákvörðun í skýringum. Þá má fallast á að heimilt hafi verið að sleppa gerð samstæðureikningsskila samkvæmt 70. gr. laga nr. 3/2006, en á sama hátt og með eignarhlutann í Aztiq Partners hefði verið rétt að skýra þessa ákvörðun. Í þessu sambandi verður að líta til þess að fjárbindingin í viðkomandi dótturfélagi var ekki mikilvæg þar sem hún nam aðeins einni og hálfri milljón króna, eða sem svarar 3,7% af heildareignum í árslok 2009.
Stefnandi telur að skammtímakröfur hefði átt að færa niður. Þessar kröfur eru tvenns konar, annars vegar viðskiptakröfur og hins vegar aðrar skammtímakröfur. Í árslok 2009 voru engar viðskiptakröfur, þ.e. kröfur vegna sölutekna fyrirtækisins, en þær námu rúmlega 6 milljónum króna í árslok 2010, sem svarar til um 70% af meðalveltu hvers mánaðar á árinu. Þessar upplýsingar einar og sér gefa ekki vísbendingu um að þörf hafi verið á sérstakri niðurfærslu. Í sundurliðun með ársreikningum 2009 og 2010 eru veittar upplýsingar um aðrar skammtímakröfur (kröfur sem ekki stafa af söluviðskiptum félagsins) og hækkuðu þær talsvert á milli áranna eða um 63 milljónir króna. Eru kröfurnar aðallega á hendur félögunum Salt Investment og Salt Development. Ekki verður annað ráðið af reikningsskilunum en að hér sé um lánveitingar að ræða sem ekki bera vexti, eða a.m.k. lága vexti. Þá ákvörðun að færa kröfurnar ekki niður verður að skilja svo að forstjóri og stjórn félagsins, sem báru ábyrgð á reikningsskilunum, hafi talið óþarft að færa þessar kröfur niður í verði. Skoðunarmanni bar ekki skylda til að leggja í sjálfstæða rannsókn á horfum um innheimtu þessara krafna. Engar upplýsingar er að finna í reikningsskilunum um að ekki hafi verið unnt að innheimta þessar kröfur. Að þessu virtu þykir ekki vera hægt að halda því fram að reikningsskilin séu röng að þessu leyti eða í ósamræmi við lög, þ.e. að aðrar kröfur hefði borið að færa niður í verði. Rétt hefði þó verið að upplýsa tilefni lánveitinga félagsins í reikningsskilunum. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að lánað hafi verið til tengdra aðila.
Að síðustu gerir stefnandi athugasemd um upplýsingar um sjóðstreymi félagsins. Hún beindist að því að ekki hafi komið fram innstreymi fjár við sölu á félaginu Aztiq Partners AB í ársreikningi 2010. Skoðunarmaður félagsins bar fyrir dómi að söluandvirðið hefði ekki verið innheimt í árslok 2010. Er sú skýring fullnægjandi, en rétt hefði verið að segja frá viðskiptunum í sjóðstreymisyfirlitinu sem fjárfestingarhreyfingu sem ekki hefði sjóðstreymisáhrif. Þá þykir mega finna þann galla á gerð sjóðstreymisins að lánveitingar sem getið er að framan, eru flokkaðar sem rekstrartengdar. Því er handbært fé frá rekstri rangfært og til mótvægis eru fjárfestingarhreyfingar ranglega tilgreindar í sjóðstreymi beggja áranna sem hér er um fjallað. Þessi athugasemd þykir þó ekki skipta sköpum og rangfærslan ekki til þess fallin að gefa villandi mat á rekstri og efnahag félagsins.
Þessir ágallar á reikningsskilum félagsins eru ekki umtalsverðir og engin forsenda er til þess að ógilda aðalfundina vegna þeirra. Þá duga þeir heldur ekki til þess að ógilt verði samþykkt reikninganna á aðalfundum fyrir árin 2009 og 2010. Umfram það sem að framan er rakið hefur heldur ekki verið sýnt fram á að umtalsverðar frásagnir hafi vantað í skýrslu stjórnar.
Stefndi verður sýknaður af kröfum stefnanda. Stefnanda verður gert að greiða stefnda málskostnað, sem er hæfilega ákveðinn 600.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóm þennan kveða upp Jón Finnbjörnsson héraðsdómari og Guðmundur Óskarsson og Stefán Svavarsson, löggiltir endurskoðendur.
D ó m s o r ð
Stefndi, Aztiq Pharma Partners ehf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Matthíasar H. Johannessen.
Stefnandi greiði stefnda 600.000 krónur í málskostnað.