Hæstiréttur íslands
Mál nr. 59/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Birting
- Frestur
|
|
Mánudaginn 17. febrúar 2014. |
|
Nr. 59/2014.
|
Vestri ehf. (Eggert Páll Ólason hdl.) gegn Landsbankanum hf. (Arnar Þór Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Birting. Frestur.
Talið var að V ehf. hefði brugðist við áskorun L hf. á þann veg að ekki væri fullnægt skilyrðum til töku búsins til gjaldþrotaskipta samkvæmt 5. tölul. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. janúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2014, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og fyrrgreindri kröfu varnaraðila hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var sóknaraðila 23. ágúst 2013 birt bréf varnaraðila 22. júlí sama ár með áskorun um að greiða tilgreinda skuld eða lýsa því yfir með skriflegum hætti að honum væri það unnt innan skamms tíma. Í bréfinu sagði bærist ekki skrifleg yfirlýsing innan þriggja vikna frá móttöku áskorunarinnar yrði krafist gjaldþrotaskipta á búi sóknaraðila, sbr. 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.
Af því sem fram er komið í málinu verður að miða við að kona sú sem tók við birtingu áskorunar varnaraðila hafi ekki verið starfsmaður sóknaraðila. Er því fallist á þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að birting hafi ekki farið fram í samræmi við áskilnað 4. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af gögnum málsins verður heldur ekki séð að önnur ákvæði laganna standi til þess að birting teljist hafa átt sér stað með réttum hætti, enda mun fyrirsvarsmaður sóknaraðila ekki eiga lögheimili þar sem birtingin fór fram. Á hinn bóginn er upplýst að sóknaraðili fékk áskorun þessa sannarlega í hendur. Verður miðað við að það hafi gerst 3. september 2013 eins og sóknaraðili heldur fram. Óumdeilt er að svar sóknaraðila við áskoruninni barst í tæka tíð 20. september 2013. Í svarinu er vísað til umræddrar greiðsluáskorunar og því meðal annars lýst yfir að sóknaraðili geti „greitt allar lögmætar kröfur“. Með þessu þykir varnaraðili hafa brugðist við áskorun sóknaraðila á þann veg að ekki sé fullnægt skilyrðum 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 til töku bús hans til gjaldþrotaskipta. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og hafnað kröfu varnaraðila um að bú sóknaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, Landsbankans hf., um að bú sóknaraðila, Vestra ehf., verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2014.
Krafa sóknaraðila, Landsbankans hf., Austurstræti 11, Reykjavík um að bú varnaraðila, Vestra ehf., Asparlundi 7, Mosfellsbæ, verði tekið til gjaldþrotaskipta barst dóminum 17. september 2013. Hún var tekin fyrir í dómi 30. október sl. Lögmaður varnaraðila mótmælti kröfunni og var þá þingfest þetta ágreiningsmál, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Lögmaður varnaraðila lagði fram greinargerð ásamt fylgiskjölum í þinghaldi 13. nóvember sl. Málinu var þá frestað til framlagningar greinargerðar sóknaraðila til miðvikudagsins 20. nóvember sl. Í þinghaldi þann dag kvaðst lögmaður sóknaraðila ekki myndu leggja fram greinargerð. Málinu var þá frestað til munnlegs málflutnings til mánudagsins 9. desember sl. Var málið flutt munnlega þann dag og tekið til úrskurðar.
Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Málavextir
Krafa sóknaraðila byggir á lánssamningi. Hinn 13. apríl 2007 gerðu Landsbanki Íslands hf. og varnaraðili með sér lánssamning, auðkenndan nr. 7688. Lánið var til þriggja ára að fjárhæð 250 milljóna króna. Lánið bar að greiða til baka með einni greiðslu afborgunar og vaxta 15. apríl 2010. Vextirnir skyldu vera svokallaðir REIBOR-vextir, sem voru vextir sem Seðlabanki Íslands skráir í samræmi við reglur um viðskipti á millibankamarkaði í íslenskum krónum, að viðbættu 2,5% vaxtaálagi. Vextirnir skyldu leggjast við höfuðstól lánsins á 12 mánaða fresti á lánstímanum, í fyrsta sinn 15. apríl 2008, og mynda þar með nýjan höfuðstól lánsins. Í 10. kafla lánssamningsins var mælt fyrir um tryggingar fyrir greiðslu lánsins og kom þar m.a. fram að varnaraðili setti að veði fasteignina Teig í Mosfellsbæ með útgáfu tryggingarbréfs að fjárhæð 200 milljónir króna og með gerð viðauka við tvö önnur tryggingarbréf, samtals að fjárhæð 100 milljónir króna, sem væru tryggð með fyrsta og öðrum veðrétti í sömu fasteign.
Hinn 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf., sem í dag heitir Landsbankinn hf. Ákvörðunin var tekin með heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.
Hinn 22. júlí 2013 sendi sóknaraðili varnaraðila greiðsluáskorun samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sem var samkvæmt birtingarvottorði birt af stefnuvotti 23. ágúst 2013. Í birtingarvottorðinu kemur fram að viðtakandi áskorunarinnr sé Vestri ehf., Asparlundi 7, 270 Mosfellsbæ. Fyrirsvarsmaður lögaðila sé Ásta Jónsdóttir, Efri-Reykjum, 271 Mosfellsbæ. Áskorunin hafi verið birt að Asparlundi 7, Mosfellsbæ, sem sé einbýli, fyrir Ragnheiði Bjarnadóttur. Varðandi tengsl við þann sem birting beinist að er fyllt út að Ragnheiður búi að Asparlundi 7. Birtingarvottorðið er dagsett 23. ágúst 2013 og undirritað af stefnuvotti, en ekki af viðtakanda.
Í áskoruninni var skorað á varnaraðila að greiða skuld samkvæmt framangreindum lánssamningi, að höfuðstólsfjárhæð 391.751.302 krónur, ásamt dráttarvöxtum, bankakostnaði, innheimtuþóknun og virðisaukaskatti, auk áfallandi dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og annars áfallandi kostnaðar, eða lýsa því yfir skriflega innan 21 dags frá móttöku áskorunarinnar að hann yrði fær um að greiða skuldina innan skamms tíma frá móttöku áskorunarinnar. Þá var þess óskað að tiltekið yrði hvenær og hvernig varnaraðila yrði fært að greiða skuldina. Ella yrði krafist gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila samkvæmt fyrrnefndu lagaákvæði.
Bjarni Ásgeir Jónsson, einn fjögurra stjórnarmanna varnaraðila, svaraði áskoruninni fyrir hans hönd með bréfi, dags. 20. september 2013. Þar segir að hann lýsi því yfir, fyrir hönd varnaraðila, að félagið geti greitt allar lögmætar kröfur. Þá bendi hann á að allar kröfur á hendur félaginu séu auk þess nægilega tryggðar. Allur réttur sé áskilinn.
Varnaraðili tekur fram að allt frá árinu 2010 hafi forsvarsmenn hans átt í samningaviðræðum við starfsmenn sóknaraðila í tengslum við uppgjör lánssamningsins. Viðræður málsaðila hafi verið settar í salt að frumkvæði sóknaraðila. Varnaraðili hafi strax brugðist við greiðsluáskorun sóknaraðila, eftir að honum hafi orðið kunnugt um hana, með svarbréfi, dags. 20. september 2013. Í kjölfar móttöku greiðsluáskorunarinnar hafi fulltrúar varnaraðila jafnframt haft samband við sóknaraðila eins og krafist hafi verið í áskoruninni.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Við munnlegan flutning málsins sagði lögmaður sóknaraðila að hann byggði aðild sína á ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til sóknaraðila. Aðild sóknaraðila sé óumdeild.
Sóknaraðili eigi kröfu á hendur varnaraðila samkvæmt lánssamningi, dags. 13. apríl 2007, upphaflega milli Landsbanka Íslands hf. og varnaraðila. Krafa sóknaraðila byggi á 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Greiðsluáskorun hafi verið birt af stefnuvotti og henni hafi verið svarað og þar með viðurkennt að hún hafi verið réttilega birt. Svar varnaraðila sé of seint fram komið. Sóknaraðili hafi sýnt fram á ógjaldfærni varnaraðila. Skuld hans við sóknaraðila sé löngu fallin í gjalddaga.
Varðandi málsástæður varnaraðila mótmælir sóknaraðili málsatvikalýsingu varnaraðila. Samningaviðræður séu ekki í gangi milli aðila. Þá telur sóknaraðili óþarft að geta fyrirsvarsmanns í kröfu um gjaldþrotaskipti og í greiðsluáskorun. Fyrirsvarsmanns sé auk þess getið í birtingarvottorði. Það sé varnaraðila að sanna að greiðsluáskorun hafi verið birt of seint, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Lengd þess tíma sem líður á milli greiðsluáskorunar og kröfu um gjaldþrotaskipti skipti ekki máli. Sóknaraðili vísar því á bug að greiðsluáskorunin uppfylli ekki skilyrði 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðila hafi ekki verið settar þrengri skorður með áskoruninni en ákvæðið heimili. Loks beri varnaraðili sönnunarbyrði fyrir því að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð, en engin gögn séu lögð fram því til sönnunar. Sóknaraðila sé óheimilt að krefjast gjaldþrotaskipta nema krafa hans sé ekki nægilega tryggð. Því sé augljóst að sóknaraðili hafi ekki talið hina veðsettu jörð 700 milljóna króna virði. Varnaraðili hafi því strax orðið að tryggja sér sönnun fyrir verðmæti hennar. Loks séu mótmæli gegn kröfu um dráttarvexti haldlaus, sbr. ákvæði lánssamnings aðila.
Í kröfu um gjaldþrotaskipti sundurliðar sóknaraðili kröfu sína á svofelldan hátt:
|
Höfuðstóll |
391.751.302 krónur |
|
Dráttarvextir til 16. september 2013 |
197.861.998 krónur |
|
Bankakostnaður |
1.720 krónur |
|
Innheimtuþóknun ásamt virðisaukaskatti |
627.500 krónur |
|
Greiðsluáskorun |
2.500 krónur |
|
Veðbókarvottorð |
1.000 krónur |
|
Gjaldþrotaskiptabeiðni |
5.000 krónur |
|
Réttargjöld vegna gjaldþrotaskiptabeiðni |
15.000 krónur |
|
Samtals |
180.168.433 krónur |
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili byggir kröfu sína í fyrsta lagi á því að birting greiðsluáskorunarinnar hafi ekki tekist þar sem sóknaraðili hafi ekki uppfyllt þau skilyrði fyrir birtingu sem lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. setji, en þau lög mæli fyrir um að birta eigi með sama hætti og stefnu í einkamáli samkvæmt ákvæðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Greiðsluáskoruninni sé einungis beint að varnaraðila sjálfum, ekki að fyrirsvarsmanni hans eða stjórnarmanni, þrátt fyrir að í 80. gr. laga nr. 91/1991 segi að í stefnu skuli m.a. greina svo glöggt sem verða má nöfn fyrirsvarsmanna aðila, ef því er að skipta, stöðu þeirra og heimili eða dvalarstað. Slíkt hafi ekki verið gert í umræddri greiðsluáskorun né birtingarvottorði og uppfylli áskorunin því ekki skilyrði laga nr. 91/1991 þar sem fyrirsvarsmaður verði að vera tilgreindur.
Þá hafi greiðsluáskorunin verið birt fyrir Ragnheiði Bjarnadóttur, sem hvorki sé stjórnarmaður né starfsmaður varnaraðila, en samkvæmt 4. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991 verði að birta fyrir æðsta starfsmanni lögpersónunnar sem hittist fyrir á stjórnarstöðinni. Ekki sé heldur tiltekið hvort eða eftir atvikum hvernig Ragnheiður, sem hittist þar fyrir, tengdist varnaraðila eða fyrirsvarsmanni hans að öðru leyti en því að hún búi að Asparlundi 7. Það sé aldrei fullnægjandi að birta fyrir þeim sem hittist fyrir á lögheimili félags, enda beri að birta fyrir fyrirsvarsmanni félags. Fram kom hjá lögmanni varnaraðila við munnlegan flutning málsins að stjórnarstöð varnaraðila sé ekki að Asparlundi 7 í Mosfellsbæ.
Áskorunin uppfylli því ekki formskilyrði sem gildi um birtingu stefnu í einkamáli og birting hafi því ekki tekist 23. ágúst 2013. Hvorki á vottorði stefnuvotts né í greiðsluáskoruninni sé fyrirsvarsmaður tilgreindur, í skilningi 80. gr. og 4. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991. Því sé ekki hægt að skora á félagið að svara áskoruninni því einhver þurfi að svara fyrir hönd félagsins. Áskorunin hafi borist fyrirsvarsmanni 3. september 2013 og henni hafi verið svarað 20. september 2013, vel innan þriggja vikna frá móttöku hennar. Greiðsluáskoruninni hafi verið svarað með fullnægjandi hætti innan þriggja vikna frá móttöku hennar því miða verði við þann dag sem áskorunin barst fyrirsvarsmanni, en ekki hvenær hún var birt einhverjum sem hittist fyrir á lögheimili varnaraðila.
Þá komi ekki fram hvort stefnuvottur hafi getið þess að um áskorun um yfirlýsingu um greiðslufærni hafi verið að ræða, eða hvort hann hafi einungis afhent lokað umslag án þess að gera móttakanda grein fyrir efni skjalsins og þýðingu þess. Þá sé ekki útskýrt af hverju skjalið, sem sé dagsett 22. júlí 2013, sé ekki birt fyrr en rúmum mánuði eftir dagsetningu þess. Mikilvægt sé að stefnuvottur geti um hvaða skjal sé verið að birta og þýðingu þess og árétti skyldur viðtakanda í þeim efnum.
Varnaraðili telur í öðru lagi að greiðsluáskorunin fullnægi ekki skilyrðum 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili byggi kröfu sína á þeim grundvelli að varnaraðili hafi ekki sinnt áskorun hans samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 17. gr. laga nr. 95/2010. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi sem varð að lögum nr. 95/2010 komi fram að í þessu ákvæði felist að skuldari þurfi að lýsa því yfir að efnahag hans sé ekki þannig komið að hann sé ógreiðslufær. Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi ekki sent varnaraðila sérstaka áskorun um gjaldfærni eins og umrætt lagaákvæði geri ráð fyrir. Umrætt ákvæði laganna sé sérregla sem tekin hafi verið upp í lög nr. 21/1991 til að auðvelda lánardrottni að knýja fram gjaldþrotaskipti á búi skuldara. Því verði sóknaraðili að fullnægja í hvívetna þeim skilyrðum sem þar séu sett.
Í fyrrgreindri greiðsluáskorun sé skorað á varnaraðila að greiða kröfuna eða semja um hana. Hér sé því ekki um sérstaka yfirlýsingu um ógjaldfærni að ræða, heldur greiðsluáskorun þar sem skorað sé á varnaraðila að greiða kröfuna, án þess þó að tiltaka neinn sérstakan frest til þess. Ennfremur sé veittur kostur á að hafa samband við sóknaraðila og semja um kröfuna. Ekki sé hægt í sama bréfi að skora á varnaraðila að greiða kröfuna eða semja um hana og um leið skora á hann að lýsa því yfir innan tiltekins frests að hann sé fær um að greiða kröfuna innan skamms tíma ellegar yrði bú hans tekið til gjaldþrotaskipta. Slíkt uppfylli ekki þær skýrleikakröfur sem dómstólar verði að gera í gjaldþrotaskiptamálum. Þá geri sóknaraðili jafnframt aðrar og meiri kröfur en heimilt sé samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991, en hvergi komi fram í lögunum að skuldari þurfi að tilteka hvernig og hvenær hann kjósi að greiða skuldina.
Til þess að skilyrðum 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 sé uppfyllt þurfi að beina því að skuldara með sérstakri áskorun að hann lýsi því sérstaklega yfir að hann sé fær um að greiða skuldina. Með vísan til alls þessa fullyrðir varnaraðili að honum hafi verið settir aðrir kostir í áskorun varnaraðila en heimilt sé samkvæmt umræddu lagaákvæði. Af þeirri ástæðu beri að hafna kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti. Þá hafi varnaraðili jafnframt sent fulltrúa sína á samningafund, eins og greiðsluáskorunin hafi mælti fyrir um. Þannig hafi hann uppfyllt þær kröfur sem greiðsluáskorunin hafi gert til hans auk þess sem hann hafi svarað sóknaraðila með efnislega fullnægjandi hætti innan þess tíma sem lögin marki.
Í þriðja lagi telur varnaraðili að krafan sé nægilega tryggð, sbr. 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Í 10. gr. lánssamningsins séu taldar upp tryggingar fyrir greiðslu lánsins. Meðal annars sé vísað í tryggingarbréf nr. 0106-63-51980 að fjárhæð 200 milljónir króna, auk annarra tryggingarbréfa sem þar sé nánar lýst. Sóknaraðili hafi ekki lagt fram umrædd tryggingarbréf þó hann hafi þau undir höndum.
Hin veðsetta eign sé ríflega 700 milljóna króna virði, sem sé langt umfram kröfufjárhæð sóknaraðila. Því beri að hafna beiðni sóknaraðila í ljósi þess að krafa hans á hendur varnaraðila sé nægjanlega tryggð. Um sé að ræða mjög verðmætt land á höfuðborgarsvæðinu.
Í fjórða lagi andmælir varnaraðili fjárhæð kröfunnar, sérstaklega fjárhæð dráttarvaxta. Varnaraðili hafi átt í samningaviðræðum um kröfuna og samkomulag hafi verið milli aðila um að skuldin væri ekki innheimt og bæri þar af leiðandi ekki dráttarvexti. Því sé ekki hægt að krefjast fullra dráttarvaxta frá gjalddaga.
Krafa varnaraðila um málskostnað er studd við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.
Niðurstaða
Krafa sóknaraðila byggir á lánssamningi sem forveri hans, Landsbanki Íslands hf., og varnaraðili gerðu 13. apríl 2007 og sem er auðkenndur nr. 7688. Óumdeilt er að sóknaraðili hefur tekið við kröfunni samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Ekki er heldur um það deilt að krafan féll í gjalddaga 15. apríl 2010 og að varnaraðili hefur ekkert greitt af láninu.
Varnaraðili telur að greiðsluáskorun samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. hafi ekki verið réttilega birt honum. Fram kemur í fyrrnefndum 5. tl. að greiðsluáskorun skuli birt fyrir skuldara eftir sömu reglum og gilda um birtingu stefnu í einkamáli. Samkvæmt 4. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála má birting stefnu fyrir félagi alltaf fara fram á stjórnarstöð þess þótt fyrirsvarsmaður hafi þar ekki fastan vinnustað, en þá skal að jafnaði birta fyrir æðsta starfsmanni þess sem verður náð til. Ekki er um það deilt að varnaraðili eigi lögheimili að Asparlundi 7 í Mosfellsbæ. Ekki er komið fram að varnaraðili eigi stjórnarstöð á einhverjum öðrum tilteknum stað og verður því að leggja til grundvallar að stjórnarstöð hans sé að Asparlundi 7 í Mosfellsbæ. Í birtingarvottorði kemur fram, um tengsl viðtakanda við þann sem birt er fyrir, að Ragnheiður búi að Asparlundi 7 í Mosfellsbæ. Ekki kemur þar fram að Ragnheiður sé starfsmaður varnaraðila og er því haldið fram af varnaraðila að hún sé það ekki. Samkvæmt þessu er ljóst að birtingin var ekki í samræmi við 4. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991.
Varnaraðili byggir einnig á því að ekki komi fram í birtingarvottorði hvort stefnuvottur hafi getið þess hvaða skjal sé verið að birta og árétti skyldur viðtakanda, sbr. 2. mgr. 86. gr. laga nr. 91/1991. Ekki er tekið fram í 1. mgr. 87. gr. laganna að sérstaklega verði að koma fram í birtingarvottorði að sá sem annast birtingu hafi gætt þeirra atriða sem talin eru upp í 2. mgr. 86. gr. laganna. Var því ekki nauðsynlegt að taka það fram. Þá átelur varnaraðili að í birtingarvottorði komi ekki fram skýring á því af hverju skjalið sé ekki birt fyrr en rúmum mánuði eftir dagsetningu þess. Í 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 er ekki settur neinn tímafrestur fyrir birtingu áskorunar og getur þetta atriði því ekki skipt máli.
Varnaraðili kveðst hafa fengið greiðsluáskorunina í hendur 3. september 2013. Þar sem varnaraðili svaraði henni 20. september 2013 án athugasemda um lögmæti birtingarinnar verður þó að líta svo á að hann geti ekki borið fyrir sig hina ógildu birtingu, með vísan til undirstöðuraka 4. mgr. 83. og 93. gr. laga nr. 91/1991. Þar sem birtingin var ógild verður jafnframt að líta svo á að svar varnaraðila hafi borist innan þriggja vikna frests samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili byggir einnig á því að greiðsluáskorun sóknaraðila sé haldin annmörkum, annars vegar þar sem henni sé ekki beint að fyrirsvarsmanni varnaraðila, hins vegar þar sem hún uppfylli ekki skilyrði 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Í ákvæðinu kemur ekki fram að fylgja eigi ákvæðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 við ritun greiðsluáskorunar. Þá er skýrt tilgreint í birtingarvottorði að fyrirsvarsmaður varnaraðila sé Ásta Jónsdóttir og tekin er fram kennitala hennar og heimilisfang. Er því nægilega skýrt að hverjum greiðsluáskoruninni var beint.
Ákvæði 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 geymir sérreglu sem beinist að því að auðvelda lánardrottni að knýja fram gjaldþrotaskipti á búi skuldara. Þessi regla hefur því verið túlkuð þannig að gera verði strangar kröfur til lánardrottins um að hann fullnægi þeim skilyrðum sem lagaákvæðið mælir fyrir um til þess að krafa hans um gjaldþrotaskipti á búi skuldara verði tekin til greina, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands 9. desember 2011 í máli nr. 632/2011 og 19. desember 2011 í máli nr. 643/2011. Í greiðsluáskorun sóknaraðila voru sett fram tilmæli um að hafa samband við tiltekið símanúmer eða senda tölvuskeyti á tiltekið netfang ,,til að semja um greiðslu kröfunnar“. Ekki verður talið óeðlilegt að gefa upplýsingar um hvernig hafa megi samband við lánardrottinn og hvetja hann til þess að semja um greiðslu kröfu til þess að forða gjaldþrotaskiptum. Er því ekki hægt að fallast á það með varnaraðila að þessi tilmæli hafi gert áskorun sóknaraðila óljósa. Í áskoruninni var einnig óskað eftir því að varnaraðili tilgreindi hvenær og hvernig honum yrði kleift að greiða skuldina. Ekki verður litið svo á að það brjóti gegn ákvæðinu þótt óskað sé eftir rökstuðningi fyrir því að varnaraðili geti greitt kröfuna innan skamms tíma. Það eitt að af hálfu varnaraðila hafi verið mætt til fundar hjá sóknaraðila getur ekki leitt til þess að hann teljist hafa uppfyllt skilyrði ákvæðisins, en engin gögn liggja fyrir um hvað hafi farið fram á þeim fundi. Í svarbréfi varnaraðila var ekki vikið að því að hann væri fær um að greiða kröfu sóknaraðila, heldur aðeins vísað til þess að varnaraðili gæti greitt ,,allar lögmætar kröfur.“ Er þessi yfirlýsing ekki í samræmi við ákvæðið, enda er þar gert ráð fyrir að skuldari lýsi því að hann geti greitt ,,skuld við hlutaðeigandi lánardrottin“, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 9. maí 2012 í máli nr. 262/2012.
Samkvæmt upphafsorðum 2. mgr. 65. gr. verður bú varnaraðila því tekið til gjaldþrotaskipta nema hann sýni fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær falla í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma. Varnaraðili hefur enga grein gert fyrir eignum sínum og skuldum. Varnaraðili hefur því ekki fært sönnur á að hann sé gjaldfær. Eru skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 því uppfyllt fyrir því að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Ber því að fallast á kröfu sóknaraðila.
Í ljósi niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, skal varnaraðili greiða sóknaraðila málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.
Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Bú varnaraðila, Vestra ehf., er tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili greiði sóknaraðila, Landsbankanum hf., 250.000 krónur í málskostnað.