Hæstiréttur íslands

Mál nr. 656/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Þinglýsing
  • Kæra
  • Frávísun frá Hæstarétti


Þriðjudaginn 7. desember 2010.

Nr. 656/2010.

Herra Garðar ehf.

Kristján Stefánsson og

Magnús Björn Brynjólfsson

(Magnús B. Brynjólfsson hrl.)

gegn

Aðaleign ehf.

(Jón Einar Jakobsson hrl.)

Kærumál. Þinglýsing. Kæra. Frávísun máls að hluta frá Hæstarétti.

H ehf., K og M kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík að vísa frá þinglýsingu afsali þar sem H ehf. afsalaði til M og K nánar tilgreindum eignarhluta í fasteigninni Aðalstræti 9. Talið var að kæra H ehf., M og K uppfyllti ekki skilyrði c. liðar 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem segir að í kæru skuli m.a. greina ástæður þær sem hún er reist á. Ekki var talið að úr þeim annmarka yrði bætt þótt málsástæðum hefði verið gerð skil í greinargerð fyrir Hæstarétti. Var ekki talið hjá því komist að vísa málinu frá Hæstarétti að því er varðar kæru H ehf., K og M. A hafði fyrir sitt leyti kært úrskurð héraðsdóms til endurskoðunar á niðurstöðu um málskostnað. Var krafa A tekin til greina og hinn kærði úrskurður staðfestur um annað en málskostnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 18. nóvember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2010, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að hrundið yrði ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 27. júlí sama ár um að vísa frá þinglýsingu nánar tilgreindu skjali og að lagt yrði fyrir hann að þinglýsa því. Kæruheimild er í 5. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Sóknaraðilar krefjast þess að „staðfest verði að Sýslumanninum í Reykjavík sé skylt að þinglýsa skjali nr. 411-U-003604/2010.“ Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 23. nóvember 2010. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti að því er varðar kæru sóknaraðila, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Í kæru sóknaraðila var því lýst yfir að kærður væri úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2010 í máli þessu og tiltekið heiti þess og ályktunarorð úrskurðarins. Að öðru leyti var meginmál þessa skjals svohljóðandi: „Dómkröfur: Fyrir Hæstarétti Íslands setja kærendur fram þá dómkröfu að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að staðfest verði að Sýslumanninum í Reykjavík sé skylt að þinglýsa umræddu skjali nr. 411-U-003604/2010. Krafist er málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti Íslands. Kæruheimild er skv. 4. mgr. 3. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 og 143. gr. laga nr. 91/1991. Kærendur munu senda greinargerð til Hæstaréttar, þar sem dómkröfur verða útlistaðar nánar, þegar gögn hafa borist dómnum.“ Samkvæmt c. lið 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem gildir um meðferð þessa máls, sbr. 5. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga, skal í kæru meðal annars greina ástæður, sem hún er reist á. Þessa gættu sóknaraðilar í engu, en úr þeim annmarka var ekki bætt þótt málsástæðum þeirra hafi verið gerð skil í greinargerð hér fyrir dómi. Verður því ekki komist hjá að vísa málinu frá Hæstarétti að því er varðar málskot sóknaraðila.

Varnaraðili hefur sem fyrr segir kært úrskurð héraðsdóms til endurskoðunar á niðurstöðu hans um málskostnað. Með vísan til 1. mgr. og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður sóknaraðilum gert að greiða varnaraðila málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði, sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði, en að öðru leyti stendur hinn kærði úrskurður óraskaður.

Dómsorð:

Málinu er vísað frá Hæstarétti að því er varðar kæru sóknaraðila, Herra Garðars ehf., Kristjáns Stefánssonar og Magnúsar Björns Brynjólfssonar.

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Sóknaraðilar greiði í sameiningu varnaraðila, Aðaleign ehf., samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2010.

Í þessu máli er borin undir Héraðsdóm Reykjavíkur ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík, frá 27. júlí 2010, um að vísa frá þinglýsingu afsali dagsettu 29. maí 2007.

 Málið, sem var dómtekið 5. nóvember, barst dóminum 13. ágúst 2010. Sóknar­aðilar, Herra Garðar ehf., Magnús Björn Brynjólfsson og Kristján Stefánsson, krefjast þess að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að vísa frá þinglýsingu skjali nr. 411-U-003604/2010 verði hrundið og lagt verði fyrir sýslumann að þinglýsa umræddu skjali.

Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr ríkissjóði.

Varnaraðili, Aðaleign ehf., krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að ákvörðun sýslumanns verði staðfest. Varnaraðili krefst jafnframt máls­kostnaðar óskipt og að skaðlausu úr hendi sóknaraðila að viðbættum virðisaukaskatti.

I

Í þessu máli er deilt um það hvort þinglýsa megi afsali dagsettu 29. maí 2007 þar sem Herra Garðar ehf. afsalar til Magnúsar Björns Brynjólfssonar og Kristjáns Stefánssonar, eignar­hluta með fastanúmerið 229-6400 í húsinu við Aðalstræti 9, Reykjavík. Þann 30. maí 2007 var afsalinu þinglýst án athugasemda. Samkvæmt dómi Hæstaréttar 13. nóvember 2007 í máli nr. 586/2007 bar sýslumanni að afmá ofangreint afsal úr þing­lýsinga­bókum. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 195/2009 uppkveðnum 10. desember 2009 var viðurkennt að varnaraðili, Aðaleign ehf., ætti forkaups­rétt að umræddri eign. Sóknaraðilar töldu varnaraðila ekki hafa nýtt sér forkaupsrétt sinn innan lögboðins frests og freistuðu þess því að fá afsalinu þinglýst á ný með kröfu þess efnis þann 14. júní sl. Þann 27. júlí ákvað sýslumaður að vísa afsalinu frá þing­lýsingu. Með erindi til héraðsdóms þann 13. ágúst kærðu sóknaraðilar þessa ákvörðun sýslumanns. Tilkynning sókn­ar­aðila um þetta málskot var móttekin hjá sýslumanni 24. ágúst af aðalgjaldkera sem setti upp­hafs­stafi sína á tilkynninguna því til staðfestingar, en móttökustimpill embættisins var ekki notaður. Þann 3. september var síðan frumrit tilkynningarinnar stimplað móttekið til þinglýsingar.

Varnaraðili lét mál þetta til sín taka með bréfi dagsettu 13. september sl.

II

Með dómi Hæstaréttar 10. desember 2009 í máli nr. 195/2009 var viður­kenndur for­kaups­réttur varnaraðila að þeirri eign sem afsala átti milli sóknaraðila þessa máls. Vegna þessa forkaupsréttar varnaraðila er hann talinn hafa hagsmuni af málinu og því fallist á að hann geti átt aðild að því.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi þar sem fjögurra vikna málshöfðunarfrestur samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 hafi verið liðinn þegar tilkynning sóknaraðila hafi verið afhent sýslumanni þann 3. september. Telur hann að máls­höfðun­ar­frestur verði ekki rofinn með tilkynningu til héraðsdóms.

Sýslumanni barst tilkynning samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna þann 24. ágúst eða áður en fjórar vikur voru liðnar frá því að þinglýsingarstjóri tók hina umdeildu ákvörðun. Því verður ekki fallist á að vísa beri þessu máli frá dómi á þeim grunni að úrlausn sýslumanns hafi ekki verið borin undir dóm innan tilskilins málshöfðunar­frests.

III

Sýslumaður byggir ákvörðun sína á því að útgefanda skjalsins, sóknaraðila Herra Garðar ehf., bresti heimild til allrar séreignarinnar sem afsala á þar sem Frjáls­lyndi flokkurinn sé einnig þinglýstur eigandi eignarinnar. Samkvæmt framlögðum gögnum meti þinglýsingar­stjóri það svo að hvor afsalshafi um sig eigi ákveðna hluta séreignar­innar en ekki sé getið um þessa séreignarhluta í eignaskiptayfirlýsingu sem gerð hafi verið til bráðabirgða 1994.

Þinglýsingarstjóri byggir ákvörðun sína einnig á dómi Hæstaréttar í máli nr. 195/2009 þar sem viðurkenndur var forkaupsréttur varnaraðila þessa máls, Aðaleignar ehf., að áður­nefndri eign gegn greiðslu með sömu kjörum og skilmálum og greini í dómsorðinu. Í málinu hafi ekki verið lögð fram nein gögn um það að forkaups­réttar­hafi hafi ekki reynt að nýta sér forkaupsrétt sinn. Þvert á móti hafi forkaupsréttarhafi lagt fyrir sýslumann beiðni um innsetningu til útgáfu afsals á eigninni til sín.

Varnaraðili, Aðaleign ehf., byggir á því fyrst og fremst að með dómi 13. nóvember 2007 í máli nr. 586/2007 hafi Hæstiréttur kveðið á um það að umrætt afsal skyldi afmáð úr þinglýsingabók. Þegar sóknaraðilar hafi freistað þess að fá skjalinu þinglýst á ný hafi af þessari ástæðu borið að vísa því frá þinglýsingu.

Sóknaraðilar byggja á því að sýslumaður hafi þinglýst margnefndu afsali 30. maí 2007. Sýslumaður verði að fylgja fyrri ákvörðunum sínum. Þinglýsingu sem fram hafi farið í sama lagaumhverfi og nú gildi sé ekki hægt að hafna af þeim ástæðum sem þinglýsingarstjóri byggi á. Eignin sé nægjanlega tilgreind í þinglýsingarvottorði og eignaskiptasamningur frá 1994 hafi verið metinn löglegur af Hæstarétti í dómsmálum milli málsaðila.

Sóknaraðilar telja synjun sýslumanns ómálefnalega þar sem hann hafi ekki gætt meðal­hófs þegar hann vísaði skjalinu frá þinglýsingu. Síðla árs 2009 hafi fjár­námi á þessa eign verið þinglýst án athugasemda sýslumanns þrátt fyrir mótmæli sóknar­aðila. Að auki hafi kaupsamn­ingum og afsölum verið þinglýst athuga­semda­laust á fjöleignarhúsið að Aðalstræti 9, undan­farna mánuði og ár án athuga­semda af hálfu sýslumanns.

Sóknaraðilar telja sýslumann enn fremur brjóta jafnræðisregluna þar sem aðrir kaup­endur og seljendur eigna í húsinu njóti annarra og rýmri réttinda til þinglýsingar skjala en sóknaraðilar. Sé skráning þess eignarhluta sem sóknaraðili Herra Garðar ehf. vilji afsala til kaupenda röng sé skráning allra annarra eignarhluta einnig röng.

Sóknaraðilar vísa til þess að milli þeirra og varnaraðila hafi staðið ágreiningur um hvort varnaraðili ætti forkaupsrétt að eignarhlutanum. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 195/2009 hafi verið viðurkennt að varnaraðili ætti forkaupsrétt. Varnaraðili hafi hins vegar ekki beitt forkaups­rétti sínum innan tímamarka 2. mgr. 9. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup sem mæli fyrir um 15 daga frest til að lýsa yfir að hann hyggist nýta sér forkaupsrétt sinn.

Sóknaraðilar byggja einnig á því að þeir hafi orðið fyrir tjóni við það að ákvörðun sýslumanns var tekin einum og hálfum mánuði eftir að afsalið barst til þinglýsingar en ekki innan tveggja vikna eins og borið hafi samkvæmt 5. mgr. 7. gr. þinglýsingalaga.

IV

Varnaraðili á þinglýstan forkaupsrétt að eign sem afsala átti með því skjali sem sýslumaður vísaði frá þinglýsingu. Vegna þessa forkaupsréttar varð sýslumaður að hafa fyrir því óyggjandi sönnur að rétturinn væri fallinn niður. Með málsaðilum er ágreiningur um tilvist forkaupsréttarins. Af þeim sökum gat sýslumaður ekki þinglýst afsali á eignina þar sem henni var afsalað til annars en forkaupsréttarhafa enda er sýslumaður ekki í stöðu til að taka efnislega afstöðu til þess hvort forkaupsrétturinn sé fallinn niður. Ákvörðun sýslumanns verður því staðfest.

Tekið er fram að samkvæmt 2. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gilda þau ekki um þinglýsingu.

 Rétt þykir að hvor málsaðila um sig beri sinn kostnað af málinu fyrir héraðsdómi.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

ÚRSKURÐARORÐ:

Staðfest er sú ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík frá 27. júlí 2010 að vísa frá þinglýsingu skjali nr. 411-U-003604/2010.

 Málskostnaður fellur niður.