Hæstiréttur íslands
Mál nr. 549/2012
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorð
- Skilorðsrof
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 13. desember 2012. |
|
Nr. 549/2012. |
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn Guðmundi
Frey Böðvarssyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Líkamsárás. Skilorð. Skilorðsrof. Skaðabætur.
G
var sakfelldur fyrir líkamsárás með því að hafa tekið þátt í atlögu tveggja
annarra manna að A, en talið var sannað að G hefði snúið A niður með þeim
afleiðingum að hann féll í götu. Var háttsemi hans talin varða við 217. gr.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar G var litið til þess
að með brotinu hefði hann rofið skilorð eldri dóms. Voru bæði málin því dæmd í
einu lagi, sbr. 60. gr. laga nr. 19/1940, og hliðsjón höfð af 77. gr. sömu
laga. Einnig var höfð hliðsjón af 3. mgr. 218. gr. b og 2. mgr. 70. gr. laga
nr. 19/1940. Var refsing G ákveðin fangelsi í 45 daga, en fullnustu
refsingarinnar frestað skilorðsbundið í þrjú ár einkum með hliðsjón af ungum
aldri hans.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál
þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg
Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari
skaut málinu til Hæstaréttar 24. júlí 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um
áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði
krefst aðallega sýknu og að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til
vara að refsing verði milduð og fjárhæð kröfunnar lækkuð.
A
hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Er því litið svo á að
hann krefjist þess að staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu
hans.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin
málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti
eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera
óraskaður.
Ákærði, Guðmundur Freyr Böðvarsson,
greiði áfrýjunarkostnað málsins, 287.212 krónur, þar með talin málsvarnarlaun
skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000
krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 18. júní 2012.
Mál þetta,
sem þingfest var þann 22. mars 2012 og dómtekið þann 23. maí sama ár, er höfðað
með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 27. febrúar 2012, á hendur X, kt. [...], til heimilis að [...],[...], Y, kt. [...], til heimilis að [...],[...], Z, kt. [...], til heimils að [...],[...]og Guðmundi Frey
Böðvarssyni, kt. [...], til heimilis að [...],[...];
„fyrir líkamsárás með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 10. apríl
2011 á bifreiðastæði við verslun N1 við Hrísmýri á
Selfossi, sameiginlega veist að A, kt. [...] þannig
að hann féll í götuna þar sem ákærðu gengu í skrokk á honum og m.a. spörkuð [sic] ítrekað í
hann þ. á. [sic]
m. í andlit brotaþola, allt með þeim afleiðingum að A hlaut brot á vinstri
framhandlegg, mar hægra og vinstra megin á höfði, kúlu fyrir ofan hægra
gagnauga og mar fyrir ofan vinstra eyra, glóðarauga, skurð við hægra auga,
marbletti á hrygg og bólgu og mar á nefi.
Telst brot ákærðu varða við 1. mgr.
218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 2. mgr. 70. gr. sömu
laga.
Þess er krafist að ákærðu verði
dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Í ákæru er
tekin upp einkaréttarkrafa A, en krafan
er svohljóðandi:
„Einkaréttarkrafa
Í málinu gerir Óðinn Elíasson hrl.
kröfu f.h. brotaþola um að ákærðu verði gert að greiða samtals kr. 700.000 in solidum í skaða- og
miskabætur, með vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 10. apríl 2011, en
síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá þeim
degi sem mánuður er liðinn frá því að árásarmönnum var kynnt krafan til
greiðsludags. Þá er jafnframt krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt síðar
framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti.“
Við þingfestingu málsins þann 22. mars sl.
neituðu ákærðu Y og Z sök og að þeirra ósk voru þeim skipaðir verjendur og
málinu frestað ótiltekið. Með bréfi dags. 23. mars sl., voru ákærðu X og
Guðmundi, að þeirra ósk, skipaðir verjendur. Í samráði við sakarflytjendur og
lögmann brotaþola var aðalmeðferð ákveðin þann 29. maí sl., en var síðan flýtt
utan réttar til 23. maí sl., eins og áður er rakið. Ákæra var kynnt ákærðu X og
Guðmundi við upphaf aðalmeðferðar. Ákærði X játaði sök að hluta en ákærði Guðmundur
neitaði sök.
Af hálfu
ákærða X er þess aðallega krafist að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar
sem lög frekast leyfa og bótakrafa verði lækkuð. Þá krefst verjandi ákærða X málsvarnarlauna
sér til handa að mati dómsins.
Af hálfu
ákærða Y er þess aðallega krafist að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum
ákæruvaldsins og miskabótakröfu vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að
ákærði verði sýknaður af broti gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr.
19/1940, en brot hans eingöngu heimfært undir 217. gr. sömu laga og ákærða
verði ekki gerð sérstök refsing og sýknaður af
bótakröfunni. Til þrautavara er þess krafist að ákærða verði gerð sú
vægasta refsing sem lög frekast leyfa og bótakrafa lækkuð stórlega. Þá krefst
verjandi ákærða Y málsvarnarlauna sér til handa að mati dómsins.
Af hálfu
ákærða Z er þess aðallega krafist að refsing ákærða verði felld niður með vísan
til 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Til vara er þess
krafist að ákvörðun um refsingu ákærða verði frestað skilorðsbundið með vísan
til heimildar í 1. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Til
þrautavara er þess krafist að ákærði verði einungis dæmdur til vægustu
refsingar sem lög frekast leyfa. Aðalkrafa ákærða er að bótakröfu verði vísað
frá dómi. Til vara er gerð krafa um að ákærði verði sýknaður af bótakröfunni og
til þrautavara að bótakrafa verði lækkuð verulega. Þá krefst verjandi ákærða Z málsvarnarlauna
sér til handa að mati dómsins sem greiðist úr ríkissjóði.
Af hálfu
ákærða Guðmundar er þess aðallega krafist að ákærði verði sýknaður af öllum
kröfum ákæruvaldsins, sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð og bótakröfu
vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að ákærði verði einungis dæmdur til
vægustu refsingar sem lög frekast leyfa, og bótakrafa verði lækkuð verulega. Þá
krefst verjandi ákærða Guðmundar málsvarnarlauna sér til handa að mati dómsins.
Af hálfu
brotaþola eru gerðar sömu kröfur og í bótakröfunni sjálfri greinir og vísað er
til greinargerðar lögmanns brotaþola.
Málsatvik
Samkvæmt
frumskýrslu lögreglu kom hún á vettvang á bifreiðastæðið við verslun N1 við Hrísmýri á Selfossi laust eftir klukkan fjögur
aðfaranótt sunnudagsins 10. apríl 2011. Á bifreiðastæðinu hafi verið tvær
bifreiðar, önnur af gerðinni Subaru og hin Chevrolet Suburban. Fram kemur að
við bifreiðarnar hafi verið hópur æstra manna, nokkur ringulreið, háreysti,
hótanir um frekara ofbeldi og talsverð ölvun. Á staðnum hafi lögreglu borist
tilkynning um að brotaþoli, A, væri staddur inni á skemmtistaðnum Hvíta húsinu og
hafi hann fyrst verið færður á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og síðan á
slysadeild Landsspítala í Fossvogi.
Ákærðu
að undanskildum ákærða Z voru auk annarra handteknir þá um nóttina og vistaðir
í fangageymslu lögreglunnar á Selfossi og voru yfirheyrðir síðdegis sama dag. Á
sama tíma mætti ákærði Z einnig í yfirheyrslu hjá lögreglu sem og brotaþoli, A.
Í málinu
liggja frammi tvö læknisvottorð er varða brotaþola í máli þessu, A. Annars
vegar vottorð undirritað af Ómari Ragnarssyni, lækni, dags. 19. maí 2011, sem
byggist annars vegar á upplýsingum sem vakthafandi læknir ritaði í sjúkraskrá
Heilbrigðisstofnunar Suðurlands aðfaranótt 10. apríl 2011 og hins vegar
upplýsingum um komu brotaþola á sömu stofnun þann 11. apríl 2011 þegar
áðurnefndur Ómar Ragnarsson tók á móti brotaþola. Hins vegar liggur frammi
vottorð Más Kristjánssonar, sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala -
háskólasjúkrahúsi í Fossvogi, dags. 1. júlí 2011.
Í vottorði
Ómars Ragnarssonar segir að við komu brotaþola á sjúkrahúsið klukkan 04.30 hafi
komið í ljós marblettir á höfði og höfðukúpu og
blæðingar aðallega hægra megin á gagnaugasvæði og eymsli við þreifingu. Þá er
lýst bólgu og mari á nefi og mari á hægri síðu og baki og að vinstri úlnliður
hafi verið mjög aumur og hafi brotaþoli verið sendur á bráðamóttöku LSH.
Í vottorði
Más Kristjánssonar kemur fram m.a. að brotaþoli hafi verið með áverka á höfði,
sérstaklega hægra megin. Þá hafi verið stór haematoma
posteriort við gagnauga og einnig anteriort
við gagnauga yfir hægra auga en augað hafi verið sokkið og mikil bólga. Smá
skurður hafi verið neðan við hægri augabrún, rispur í framan aðallega hægra
megin og mar á kinnbeinum. Niður eftir mjóhrygg hafi verið mar báðum megin og
þá hafi vinstri úlnliður verið mölbrotinn. Tekin hafi verið tölvusneiðmynd af
höfði og andlitsbeinum og komið hafi í ljós mjúkvefja áverkar víðs vegar, en
enginn áverki eða blæðing og hvorki höfuðkúpubrot né hálsbrot. Í kafla um
greiningu segir orðrétt: „Brot á neðri enda sveifar, S52.5.
Yfirborðsáverki á öðrum hlutum höfuðs, S00.8.
Yfirborðsáverki á bol, hæð ótilgreind, T09.0.“ Greint
er frá endurkomum 19. apríl og 11. maí 2011 og kemur fram að brotalega á vinstri
úlnlið hafi verið góð en brotaþola sem stundi lyftingar og vinni við
bílaréttingar hafi verið ráðlagt að fara rólega af stað í lyftingum og vinnu.
Þá megi búast við að brotaþoli muni ná sér að fullu.
Þá liggur
frammi í málinu vottorð um komu ákærða Z á slysa- og bráðamóttöku
Heilbrigðisstofnunar Suðurlands síðdegis þann 10. apríl 2011. Þar kemur fram að
ákærði hafi lent í slagsmálum/líkamsárás nóttina áður. Við skoðun hafi ákærði
verið með blæðingu undir húð upp við hársvörð vinstra megin á enni, annað hafi
verið 2x3 cm að stærð og hitt 1x2 cm.
Fram kemur að bólga og eymsli hafi ekki verið teljandi og engin merki um
beináverka og taugaskoðun eðlileg.
Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði, X, kvaðst hafa verið á bifreiðastæði N1 umrædda nótt ásamt meðákærðu og fleira fólki og verið
undir áhrifum áfengis. Aðspurður um þátt hans í ætlaðri atlögu að brotaþola
kvaðst ákærði hafa komið smávegis að henni undir lokin en það sem hann gerði
hafi ekki skaðað brotaþola. Nánar tiltekið viðurkenndi ákærði að hafa sparkað
tvisvar í brotaþola liggjandi og taldi ákærði nokkuð víst að spörkin hafi lent
í maga eða síðu brotaþola og að ekki hafi verið um að ræða föst spörk. Ákærði
neitaði að hafa sparkað í höfuð brotaþola og að hafa kýlt brotaþola í bakið
eins og haft er eftir ákærða í lögregluskýrslu og gaf þá skýringu á breyttum
framburði sínum að hann muni atvik betur nú en þegar hann gaf skýrslu hjá
lögreglu þann 10. apríl 2011. Síðar í skýrslutökunni kom fram hjá ákærða að
hann hafi sparkað á fullu en spörkin hafi lent á röngum manni, þ.e. meðákærða
Guðmundi. Ákærði X hafi því ekki náð að koma nema einu eða tveimur spörkum í
brotaþola í lokin.
Um
aðdraganda og ástæður átakanna kvaðst ákærði hafa verið reiður eftir að
brotaþoli veitti ákærða högg en brotaþoli hafi komið óboðinn inn í bifreið þá
sem ákærði og vinir hans voru í á umræddu bifreiðastæði. Upphaf átakanna hafi
verið með þeim hætti að kallað hafi verið á eftir brotaþola, sem hafi verið
þarna með systur sinni og vini, „drullaðu þér í burtu homminn þinn“. Þá hafi
brotaþoli komið aftur að bifreiðinni reiður, öskrandi og sýnilega viljað stofna
til óláta og spurt hver hafi viðhaft umrætt orðbragð. Þessu hafi lokið með því
að ákærði hafi sagt brotaþola að hann, þ.e. ákærði, hafi kallað á eftir
brotaþola. Þá hafi brotaþoli löðrungað ákærða, líklega í gegnum opna rúðu. Þá
kvaðst ákærði hafa farið út úr bílnum og beðið meðákærða Z að koma með en tók
fram að það hafi tekið sig nokkurn tíma að komast út úr bifreiðinni þar sem
hann hafi setið aftast í bifreiðinni.
Þegar út úr
bifreiðinni hafi verið komið hafi rifrildið verið byrjað og meðákærðu Y og
Guðmundur komnir út úr bifreiðinni, en ákærði X tók fram að hann hafi hvorki
orðið vitni að rifrildinu né átt frumkvæði að átökum við bílinn. Síðar í
yfirheyrslunni kom fram hjá ákærða að hann hafi séð meðákærða Guðmund og
brotaþola vera að kýtast við bílinn, eins og ákærði X orðaði það, og hafi
meðákærði Guðmundur slegið brotaþola sem hafi fallið niður. Eftir að brotaþoli reis
upp hafi hann, þ.e. brotaþoli, slegið meðákærða Z og kýlt ítrekað út í loftið.
Ákærði X kvaðst ekki hafa séð umrætt högg þó hann hafi staðið við hliðina á
meðákærða Z en séð Z hníga niður og einnig hafi ákærði X heyrt í högginu, eins
og hann orðaði það.
Þá lýsti
ákærði því að átökin hafi færst frá bifreiðinni og að brotaþoli og meðákærði
Guðmundur hafi fallið í götuna við nokkuð háan kant sem þar sé á
bifreiðastæðinu en ákærði X gat ekki greint frá því hvernig brotaþoli féll.
Þegar ákærði var spurður hvort hann hafi séð einhverja aðra sparka í brotaþola
bar ákærði fyrir sig minnisleysi og því hve langt væri um liðið. Hann lét þess
þó getið að hafa lítið séð til meðákærða Z og hvorki séð hann sparka né kýla,
en tók fram að Z hafi verið gargandi. Aðspurður kvaðst ákærði X hafa séð
meðákærða Z hlaupa bak við hús og komið að honum þar en þá hafi meðákærði Z verið
að kasta upp eftir höggið. Þá kvaðst ákærði muna eftir að hafa talað lengi við
meðákærða Z. Ákærði X kvaðst hafa reynt að rifja upp hvað hann sjálfur hafi
gert og hvar hann hafi verið en tók fram að atburðarásin hafi verið mjög hröð.
Ákærði greindi frá því að brotaþoli hafi í lokin sagt „ég gefst upp“ og hafi B
þá komið að og stoppað þetta og í framhaldi af því hafi brotaþoli hlaupið í
burtu. Ákærði tók fram að slagsmálin hafi hætt þegar brotaþoli hafi sagst
gefast upp.
Ákærði, Guðmundur Freyr Böðvarsson, kvaðst hafa
verið í bifreið á bifreiðastæði N1 umrædda nótt ásamt
meðákærðu og fleira fólki og verið blindfullur. Ákærði kvaðst lítinn þátt hafa
átt í atlögu að brotaþola en kvaðst hafa snúið brotaþola niður nálægt
bifreiðinni og tók fram að brotaþoli hafi átt frumkvæðið með því að rífa í
ákærða og rífast við B. Þegar brotaþoli hafi kreppt hnefann að B kvaðst ákærði
hafa ýtt við brotaþola með flötum lófa, ákærði hafi ekki ætlað að láta
brotaþola vaða yfir sig. Um hafi verið að ræða léttan ýting eins og ákærði
orðaði það. Upptökin sagði ákærði hafa verið þau að brotaþoli hafi komið að
bifreiðinni sem ákærði og félagar hans sátu inni í og boðið þeim í partý.
Systir brotaþola eða vinkona hafi verið með honum sem og vinur hans og hafi
stelpan lagst blindfull ofan á þá sem í bílnum voru. Svo hafi brotaþoli byrjað
að garga og spurt hver hafi kallað sig „homma“. Þessu hafi síðan lokið með því
að brotaþoli hafi líklega slegið til meðákærða X, sem sat inni í bílnum, og þá
hafi ákærði og nokkrir aðrir verið komnir út úr bifreiðinni og minnti ákærða að
þar hafi hann snúið brotaþola niður. Aðspurður hvernig hann hafi staðið að því
gat ákærði ekki lýst því en tók fram að það hafi ekki þurft mikil átök til
þess. Ákærði upplýsti að hann væri 1,75 á hæð og um 82-83 kg. á þyngd en líklega
hafi hann verið þyngri í fyrra. Aðspurður kvaðst ákærði einnig hafa fallið í
götuna þegar hann snéri brotaþola niður og minnti ákærða að hann hafi lent ofan
á brotaþola. Aðspurður hvort það gæti verið að brotaþoli hafi meiðst við fallið
kvað ákærði þetta ekki hafa verið mikinn hasar en hann hafi ekki séð hvernig
brotaþoli féll á götuna og ekki séð hvort hann bar fyrir sig hendurnar í
fallinu. Brotaþoli hafi ekki virst slasaður því hann hafi staðið upp og kýlt
einhvern, líklega meðákærða Z þarna nálægt bifreiðinni. Ákærði Guðmundur kvaðst
líklega líka hafa lent undir brotaþola
því meðákærði Y hafi rifið brotaþola ofan af ákærða Guðmundi.
Ákærði var
spurður um það hvernig brotaþoli hafi verið í hátt þegar hann kom að
bifreiðinni og hver hafi kallað brotaþola homma. Ákærði kvað brotaþola hafa
verið ógnandi og greinilega að leita eftir átökum enda geri það enginn
heilbrigður maður að ganga framhjá bíl fullum af strákum og byrja á því að
spyrja hver hafi kallað sig „homma“. Ákærði sagði orðrétt, „við svörum auðvitað
fyrir okkur, við látum ekki berja okkur“.
Ákærði
kvaðst ekki minnast þess að hafa séð brotaþola detta á bifreiðastæðinu. Ákærði
viðurkenndi að hafa líklega slegið brotaþola eitthvað með „opnum“ hnefa, en
neitaði að hafa kýlt eða sparkað í brotaþola. Ákærði gat ekki lýst
atburðarásinni eftir að hann snéri brotaþola niður og bar því við að þarna hafi
allt verið í kös. Nánar aðspurður kvaðst ákærði eingöngu hafa skammtímaminni en
tók fram að það stafaði þó ekki af sjúkdómi. Aðspurður hvort hann hafi séð
einhverja berja eða sparka í brotaþola sagðist ákærði hafa verið drukkinn og
ekkert verið að spá í það sem var að gerast í kringum hann, brotaþoli hafi
tekið alla hans athygli og ákærði ekkert séð nema malbikið. Líklega hafi
einhver sparkað í sig þegar hann lá á götunni með brotaþola og aðspurður kvað
ákærði það vel geta verið að þá hafi einnig verið sparkað í brotaþola en það
hafi ákærði þó ekki séð. Ákærði greindi frá því að án efa hafi brotaþoli
handleggsbrotnað þegar hann datt um kantinn milli bílastæðanna en það hafi
verið eftir að ákærði snéri brotaþola niður. Brotaþoli hafi verið að bakka,
líklega af því að strákarnir hafi verið að elta hann, en þá hafi hann, þ.e.
ákærði, verið í alla vega 5 metra fjarlægð frá brotaþola en ákærði tók fram að
hann myndi lítið eftir atvikum. Sérstaklega aðspurður ítrekaði ákærði að hann
gæti ekki tjáð sig um hvort meðákærðu X,
Y og Z hafi slegið eða sparkað í brotaþola enda hafi ákærði ekkert séð nema
malbikið þar sem hann lá á götunni með brotaþola.
Ákærði, Y, kvaðst hafa verið í bifreið á
bifreiðastæði N1 umrædda nótt ásamt meðákærðu og
fleira fólki og verið mjög drukkinn. Aðspurður
hvort hann hafi tekið þátt í slagsmálum eða átökum í umrætt sinn kvaðst ákærði
ekki beint hafa tekið þátt í þeim, hann hafi aðeins verið að verja vini sína.
Ákærði kvað þá félaga hafa farið inn í bifreið eftir að dansleik á
skemmtistaðnum Hvíta húsinu lauk og kvaðst ákærði hafa verið síðastur að
bifreiðinni. Þá hafi brotaþoli verið kominn hálfur inn í bifreiðina og verið að
rífast við meðákærða X vegna þess að X átti að hafa kallað eitthvað á eftir
honum. Systir brotaþola hafi einnig verið komin inn í bifreiðina. Þá kom fram
hjá ákærða Y að honum hafi verið sagt frá því að brotaþoli hafi slegið
meðákærða X inni í bifreiðinni. Eftir það hafi allir farið út úr bifreiðinni og
þá hafi allt farið í eina kássu og allt gerst svo hratt. Ástæða þess að
brotaþoli sló meðákærða X hafi líklega verið sú að X kallaði eitthvað á eftir
brotaþola sem ákærði vissi ekki hvað var. Brotaþoli hafi verið æstur og ætlað
að slást við þá alla og hafi brotaþoli meðal annars snúið sér að ákærða en
ákærði kvaðst þá hafa hörfað. Þá hafi brotaþoli einnig kýlt meðákærða Z og hafi
það verið talsvert högg. Z hafi haldið fyrir andlitið og beygt sig niður en
síðan hafi hann allt í einu verið horfinn.
Aðspurður
hvort hann hafi séð brotaþola verða fyrir einhverjum höggum og þá frá hverjum,
sagðist ákærði Y ekki muna vel eftir atvikum enda hafi hann verið mjög ölvaður.
Ákærði lýsti því að meðákærði X hafi ekki gert mikið, hann, þ.e. meðákærði X,
hafi verið hræddur eftir höggið frá brotaþola.
Nánar
aðspurður um þátt sinn í átökunum ítrekaði ákærði Y að hann hafi komið meðákærða
Guðmundi til hjálpar þegar brotaþoli lá ofan á Guðmundi. Ákærði Y kvaðst hafa
togað í bol brotaþola, sem við það hafi rifnað, en þar sem það hafi ekki dugað
hafi ákærði þurft að grípa til annarra ráða og því sparkað tvisvar í þind
brotaþola hægra megin. Ákærði kvaðst hvorki hafa kýlt brotaþola né komið nálægt
höfði hans eða úlnlið. Brotaþoli hafi verið mun stærri en meðákærði Guðmundur
og hafi ákærði Y ekki getað látið brotaþola liggja ofan á Guðmundi. Um þátt
meðákærða Guðmundar sagði ákærði Y að Guðmundur hafi ef til vill slegið
eitthvað pínulítið í öxl brotaþola eða tekið einhvern veginn í hann til að
reyna að ná brotaþola af sér enda brotaþoli mun stærri en Guðmundur. Ákærði Y kvaðst
ekki hafa séð meðákærða Guðmund slá brotaþola hnefahöggi eða sparka í andlit,
höfuð eða líkama brotaþola enda hafi brotaþoli legið ofan á Guðmundi.
Eftir að
þessum átökum lauk kvaðst ákærði Y hafa séð brotaþola bakka í áttina frá bílnum
og þá hafi brotaþoli rekið hælinn í kantsteininn og fallið aftur fyrir sig en
ákærði gat ekki greint nánar frá því hvernig brotaþoli féll á malbikið
hinumegin við kantsteininn. Aðspurður um ástæðu þess að brotaþoli hafi bakkað
sagði ákærði að eftir að brotaþoli hafi kýlt meðákærða Z hafi allir reynt að verja
sig og sótt að brotaþola. Þá hafi brotaþoli áttað sig á því að hann gæti ekki
lamið sjö til átta manns og því bakkað.
Ákærði, Z, kvaðst hafa verið í bifreið á
bifreiðastæði N1 umrædda nótt ásamt meðákærðu og
fleira fólki og verið mjög ölvaður og vel geti verið að hann hafi drukkið einn
lítra af vodka eins og hann greindi frá í yfirheyrslu hjá lögreglu. Ákærði lýsti því að brotaþoli hafi komið að
bifreiðinni alveg brjálaður og spurt þá hvort einhver hafi verið að kalla hann
einhverju nafni sem ákærði vissi ekki hvað var. Ákærði kvaðst hafa setið aftast
í bifreiðinni þegar brotaþoli hafi opnað bifreiðina og slegið eða potað í
meðákærða X. Við það hafi allt orðið vitlaust inni í bifreiðinni og allir hafi
farið út. Ákærði Z kvað það hafa tekið sig nokkurn tíma að komast út úr bílnum.
Ákærði kvaðst hafa staðið fyrir framan brotaþola og reynt að róa hann en það
hafi ekki dugað. Þá hafi meðákærði Guðmundur komið að og ýtt við brotaþola en
þá hafi brotaþoli kýlt ákærða Z og kvaðst hann hafa fengið far eftir hring á
höfuðið eftir höggið. Nánar aðspurður um þátt meðákærða Guðmundar sagði ákærði Z
að Guðmundur hafi slegið brotaþola einu sinni, voðalega laust með lófanum og
hafi höggið lent framan á brotaþola. Þegar borinn var undir ákærða framburður
hans hjá lögreglu þar sem hann lýsti því að meðákærði Guðmundur hafi komið á
einhverju stökki og kýlt brotaþola, kvaðst ákærði Z muna atvik betur núna en
þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu síðar um daginn enda hafi hann verið
þunnur. Og ákærði ítrekaði að höggið frá meðákærða Guðmundi hafi lent í maga
eða bringu brotaþola og ekki verið mikið því brotaþoli hafi strax á eftir
slegið sig, þ.e. ákærða Z, þungu höggi.
Þá lýsti ákærði Z því að brotaþoli hafi bakkað
eða gengið til baka, líklega af því að ákærði hafi gengið að brotaþola til að
hefna fyrir höggið enda láti ákærði menn ekki kýla sig að óþörfu. Þá hafi
brotaþoli dottið um kant sem þarna var. Nánar lýsti ákærði því þannig að
brotaþoli hafi dottið og síðan staðið upp og en stuttu síðar hafi meðákærði
Guðmundur snúið brotaþola niður að því er ákærði Z hafi síðar frétt. Síðar kom
fram hjá ákærða að honum hafi verið sagt að meðákærði Guðmundur hafi komið og
snúið brotaþola niður eftir að hann féll um kantinn. Þá kvaðst ákærði Z hafa
sparkað einu sinni í brotaþola neðarlega í síðuna enda reiður eftir höggið en
gengið síðan í burtu og kastað upp. Þá hafi C vinur ákærða komið og dregið hann
í burtu upp að bílasölunni og eftir það viti ákærði ekki hvað hafi gerst.
Ákærði var ítrekað spurður um fall brotaþola um kantinn og lýsti ákærði því að
brotaþoli hafi fallið kylliflatur aftur fyrir sig og lent beint á höfðinu og að
brotaþoli hafi ekki getað borið fyrir sig hendurnar. Ákærði gat hvorki sagt til
um hlut meðákærðu X né Y í átökunum.
Vitnið, D, barnsmóðir ákærða X, var í
bifreiðinni á bifreiðastæði við N1 ásamt ákærðu
umrædda nótt. Vitnið, sem var undir áhrifum áfengis, kvaðst muna eftir að hópur
af fólki hafi verið fyrir utan bifreiðina en vitnið kvaðst ekki hafa farið út
úr bifreiðinni og því ekkert séð. Vitnið mundi eftir að læti voru fyrir utan
bifreiðina en gat ekki greint frá því sem þar gerðist eða hverjir hefðu þar átt
hlut að máli og tók fram að myrkur hafi verið.
Vitnið, A, brotaþoli í máli þessu, kvaðst ekki
muna vel eftir atvikum umrædda nótt enda langt um liðið. Aðspurður kvaðst
brotaþoli hafa verið undir áhrifum áfengis en þó ekki meira en svo en að hann
hafi getað gengið að bifreið ákærðu á bifreiðastæðinu við N1
og rætt við þá sem þar voru. Brotaþoli kvaðst hafa verið að koma af dansleik í Hvíta
húsinu og verið á leið í bifreið sem lagt hafði verið í áðurnefndu
bifreiðastæði ásamt vini sínum E, systur sinni, F, og bílstjóranum G, vinkonu
systur brotaþola. Á bifreiðastæðinu hafi hann gefið sig á tal við stráka, sem
brotaþoli þekkti ekki og muni ekki hvernig litu út, og voru í bifreið á umræddu
bifreiðastæði. Samræður þeirra hafi verið á góðum nótum og m.a. hafi hann spurt
strákana hvort þeir vissu um partý og kvaðst vitnið hafa staðið við bílhurðina
þegar þetta átti sér stað. Þegar hann hafi verið á leiðinni frá bifreið
strákanna hafi einhver þeirra kallað á eftir honum „hommi“ eða eitthvað
viðlíka. Brotaþoli kvaðst hafa snúið við og farið að bifreið strákanna og spurt
hver hefði kallað hann þessu uppnefni en þeir hafi allir neitað. Brotaþoli
mundi ekki hvort einhver strákanna hafi verið fyrir utan bifreiðina og ekki
heldur hvort hann hafi farið inn í bifreiðina á einhverjum tímapunkti. Kvaðst
brotaþoli hafa hugsað að þetta skipti engu máli og ákveðið að fara heim. Þá
hafi verið ráðist á hann án þess að hann gæti nokkuð gert og áður en hann vissi
af hafi hann legið í götunni og spörk frá öllum dunið á honum. Sérstaklega
aðspurður um tilefni þess að ráðist var á hann sagði brotaþoli að það hefði þá
ekki verið vegna annars en að hann kom pirraður, reiður og æstur að bifreiðinni
og spurði hver hefði kallað á eftir honum. Brotaþoli kvaðst hins vegar hafa
upplifað árásina eins og þrumu úr heiðskíru lofti þó svo líklega hafi hann ekki
gert rétt í því að öskra á fólkið. Brotaþoli kvaðst hafa beðist vægðar aftur og
aftur en strákarnir hafi hins vegar haldið áfram. Hann hafi reynt að verja
andlitið með höndunum en strákarnir hafi haldið áfram að sparka í bak hans og
um allan líkamann og taldi brotaþoli að úlnliðurinn hafi brotnað undan höggum
þegar hann lá á grúfu á götunni og hafi haldið höndunum fyrir andlitið til að verja
það og kvaðst brotaþoli hafa orðið var við sársauka í úlnliðnum þegar hann
komst undan árásarmönnunum. Brotaþoli upplýsti að hann væri 1,84 á hæð og um
100 kg að þyngd og líklega hafi hann verið svipaður að þyngd þegar umræddir
atburðir áttu sér stað. Aðspurður um það sem haft er eftir honum í
læknisvottorði um að hann hafi verið sleginn með flöskum og grjóti sagðist
brotaþoli hafa verið nánast út úr heiminum eftir árásina og ruglaður. Þá
kannaðist brotaþoli ekki við það sem haft er eftir honum í frumskýrslu lögreglu
þess efnis að hann hafi séð einhverja vera að berja lítinn strák. Sérstaklega
aðspurður kvaðst brotaþoli ekki geta tilgreint hvað hver og einn hinna ákærðu
hefðu gert á hans hlut og ítrekaði að hann hafi engan þeirra þekkt.
Brotaþoli
kannaðist ekki við það sem fram kom í framburði ákærðu um að brotaþoli hafi
verið að angra þá. Þá kannaðist brotaþoli hvorki við að hafa slegið ákærða X inni
í bifreiðinni né að hafa slegið einhvern strákanna fyrir utan bifreiðina.
Ítrekaði brotaþoli að hann minntist þess ekki að hafa slegið nokkurn mann í
umrætt sinn. Árásin hafi verið mikið áfall fyrir hann og þrátt fyrir að
atburðarásin sé í hálfgerðri móðu fyrir honum sé hann viss um að hann hafi
engan slegið. Þegar brotaþola var kynntur sá framburður ákærða X að hann hafi
viðurkennt að hafa kallað brotaþola homma og í framhaldi af því hafi brotaþoli
löðrungað ákærða X, tók brotaþoli fram, að ef svo hefði verið myndi hann muna
það í dag og tók brotaþoli fram í þessu sambandi að enginn strákanna hafi
viðurkennt að hafa kallað hann homma.
Brotaþoli
sagðist ekki geta tjáð sig um þann framburð ákærðu að hann, þ.e. brotaþoli,
hafi fallið um einhvern kant milli bifreiðastæða, eina sem hann hafi tekið
eftir hafi verið endalaus högg frá strákunum sem hafi fylgt honum fast eftir.
Nánar aðspurður kvaðst brotaþoli ekki muna eftir að hafa dottið umrædda nótt
nema í framangreindum átökum. Sérstaklega aðspurður um framburð ákærða
Guðmundar þess efnis að ákærði hafi tekið brotaþola niður eða slegið hann í öxlina,
sagði brotaþoli að atlagan gegn sér hafi byrjað sem stimpingar og brotaþoli þá
reynt að forða sér en strákarnir hafi allir fylgt honum eftir og hann fallið á
götuna. Þó geti verið að hann hafi verið kýldur og staðið upp og síðan verið
sleginn niður aftur síðar.
Brotaþoli
kvað árásinni ekki hafa linnt fyrr en eftir dágóða stund þegar einhver af
strákunum hafi sagt „er ekki komið gott“. Þegar hann hafi staðið upp, að því er
brotaþola minnti með aðstoð frá einhverjum strákanna, hafi höggin byrjað aftur
að dynja á honum en þá hafi hann tekið til fótanna og hlaupið við illan leik,
kvalinn í hendi og andliti, inn á skemmtistaðinn Hvíta húsið, í rifnum
gallabuxum og hengilrifnum bol. Í framhaldi af því hafi hann verið fluttur með
sjúkrabifreið á sjúkrahúsið á Selfossi og síðan til Reykjavíkur. Fram kom hjá
brotaþola að þegar senda hafi átt hann af sjúkrahúsinu hafi liðið yfir hann og
hann lent á salerninu. Aðspurður um líðan í dag kom fram hjá brotaþola að hann
sé enn stífur í úlnliðinum, hafi verki og áverkinn hái honum í tómstundum, þ.e.
lyftingum og mótorhjólasporti. Þá upplifi hann óþægindi þegar einhver er fyrir
aftan hann í verslun sem og ef hávaði sé úti á götu að næturlagi hrökkvi hann
upp auk þess sem hann dreymi árásina oft.
Vitnið, C,
vinur ákærðu kvaðst umrædda nótt hafa verið undir áhrifum áfengis og setið
í farþegasæti frammi í bifreiðinni sem hann og félagar hans voru í umrædda
nótt. Þegar allir farþegar hafi verið komnir inn í bifreiðina hafi brotaþoli
komið að, opnað bílhurðina bílstjóramegin að aftan og kallað eitthvað. Vitnið
kvaðst ekki hafa séð það sem gerðist inni í bílnum en þegar hann hafi verið
kominn út úr bifreiðinni hafi hann séð brotaþola kýla ákærða Z í andlitið. Þá
hafi allir nema H, I og D farið út úr bílnum. Þegar vitnið kom út úr
bifreiðinni hafi allir verið komnir aftur fyrir bifreiðina að kanti sem þar
hafi verið. Vitnið tók fram að það hafi tekið hann nokkurn tíma að komast út úr
bifreiðinni þar sem hurðarhúnninn hafi verið bilaður. Þegar út var komið kvaðst
vitnið hafa séð brotaþola detta niður kantinn og næst séð brotaþola hlaupa í
átt að Hvíta húsinu. Aðspurður kvaðst vitnið hafa verið staddur við bifreiðina
þegar hann varð vitni að þessum atburðum, líklega 10 metra eða meira frá, en
lýsing hafi verið við húsið. Nánar aðspurður kvaðst vitnið ekki vita hvernig
brotaþoli datt um áðurnefndan kant en fram kom hjá honum þegar hann var spurður
hver ákærðu hafi verið nálægt brotaþola að það hafi allir verið að öskra á alla.
Vitnið kvaðst ekki hafa séð hvort einhver hafi ýtt brotaþola, en ítrekaði að
allir hafi verið þarna í kring. Síðar kom fram hjá vitninu að tildrög falls
brotaþola um kantinn hafi verið þau að ákærðu hafi gengið í átt að brotaþola og
brotaþoli bakkað en síðan snúið sér við rétt hjá kantinum og við það fallið
aftur á bak eða á hliðina niður af kantinum. Aðspurður hvort brotaþoli hafi
borið fyrir sig hendurnar í fallinu sagði vitnið að svo hafi verið. Um ástæðu
þess að brotaþoli hafi verið að bakka sagði vitnið að allir hafi verið í hrúgu
á bak við bílinn og rifist. Sama hafi verið upp á teningnum við áðurnefndan
kant en vitnið tók þó fram að hann hafi ekki verið að fylgjast svo mikið með.
Aðspurður hvort þeir sem fóru út úr bifreiðinni á undan vitninu hefðu elt
brotaþola uppi sagði vitnið að svo hafi ekki verið. Vitnið kannaðist við að
hafa dregið ákærða Z í burtu ásamt H. Síðar í skýrslutökunni sagðist vitnið
hafa verið inni í bifreiðinni þegar hann sá brotaþola kýla ákærða Z en
aðspurður kvaðst vitnið ekki hafa séð brotaþola slá ákærða X. Vitnið kvaðst
ekki hafa séð ákærða Guðmund slá eða sparka í brotaþola og ítrekaði vitnið að
hann hafi hvorki séð slagsmál eða átök milli manna, aðeins séð þetta fyrsta
högg sem brotaþoli veitti ákærða Z.
Vitnið H, bróðir ákærða Z kvaðst umrædda nótt
hafa verið ölvaður og setið inni í bifreiðinni þegar einhver hafi kallað á
eftir brotaþola, hommi eða eitthvað slíkt. Þá hafi brotaþoli komið að
bifreiðinni og rifið upp hurðina og slegið ákærða X og í framhaldi af því hafi
allir rokið út úr bifreiðinni. Þegar ákærði Z hafi staðið fyrir framan
brotaþola hafi brotaþoli kýlt Z en um annað kvaðst vitnið ekki geta tjáð sig
frekar enda hafi hann ekki farið út úr
bifreiðinni fyrr en lögreglan kom á staðinn. Þar sem svört filma hafi verið í
gluggum bifreiðarinnar hafi hann ekkert séð. Vitnið tók þó fram að hann hafi
séð brotaþola hlaupa í burtu í átt að Hvíta húsinu og þá hafi bolur hans verið
rifinn.
Vitnið G, vinkona brotaþola, kvaðst umrædda
nótt hafa verið bílstjóri og ekki undir áhrifum áfengis og verið á
bifreiðastæðinu ásamt brotaþola, E og F. Vitnið kvað brotaþola hafa stoppað við
stóra bifreið og rætt við fólk í bifreiðinni og þegar vitnið sá til hafi
brotaþoli staðið fyrir utan bifreiðina. Vitnið kvaðst ekkert hafa fylgst með
brotaþola nánar heldur farið inn í sína bifreið og ekið að stóru bifreiðinni
til að fá félaga sína til að koma inn í bifreiðina. Vitnið kvaðst ekki hafa séð
upphaf slagsmálanna en hafa heyrt orðaskipti og síðan séð þegar ráðist hafi
verið bæði á E og brotaþola. Sér hafi virst E fá eitt högg, sem hafi fellt
hann, en E síðan farið frá eða sloppið og sagði vitnið að sér hafi virst sem
athygli strákanna í stóru bifreiðinni hafi fyrst og fremst snúið að brotaþola.
Vitnið lýsti atburðum þannig að hún hafi séð hóp af strákum, sem vitnið þekkti
ekki, elta brotaþola eftir að honum hafi tekist að sleppa frá þeim. Strákarnir
hafi fylgt brotaþola eftir en vitnið kvaðst hafa fært bifreiðina til að verða
ekki fyrir átökunum. Vitnið kvaðst síðan hafa farið út úr bifreiðinni og beðið
strákana um að hætta og það hafi F vinkona hennar einnig gert. Hún sagðist muna
best eftir því þegar hún sá brotaþola liggja í fósturstellingu á götunni
haldandi um höfuðið til að reyna að verja sig en þeir sem þarna voru að verki
hafi tekið tilhlaup til að sparka í brotaþola og hafi spörkin lent í baki
brotaþola og reyndar allsstaðar á honum auk þess sem brotaþoli hafi einnig
verið kýldur. Hún hafi heyrt brotaþola hrópa „ég gefst upp, ég gefst upp“ en
ekkert hafi verið hlustað á hann og höggin dunið allsstaðar á honum. Vitnið
kvaðst hafa kallað og beðið strákana um að hætta en þá hafi einn þeirra komið
að sér, að því er vitninu fannst ögrandi, og því kvaðst vitnið hafa haldið sér
í svolítilli fjarlægð. Þegar hér hafi verið komið sögu hafi átökin borist
svolítið langt frá N1 húsinu þar sem þau hófust, þ.e.
í átt að bílasölunni. Nánar aðspurð um upphaf átakanna kvaðst vitnið hafa séð
högg lenda á brotaþola í byrjun eftir að strákarnir voru komnir út úr
bifreiðinni en síðan hafi hún misst úr atburðarrásinni þegar hún færði
bifreiðina og hringdi á lögreglu. Aðspurð hvort hún hafi séð brotaþola falla
yfir kant kvaðst vitnið ekki geta tjáð sig um það og þá gat vitnið ekki sagt
til um hversu margir strákar hafi verið þarna að verki en hún hafi munað það
þegar skýrsla var tekin hjá lögreglu. Lok árásarinnar hafi verið þau að einhver
strákanna hafi dregið úr atlögunni, e.t.v. hafi hróp hennar borið árangur, og
þá hafi brotaþoli komist undan. Vitnið gat ekki sagt nánar hvert brotaþoli fór
en stuttu síðar hafi hún fundið hann í Hvíta húsinu. Vitnið kvaðst ekki muna
hvort hún hafi séð brotaþola slá einhvern en tók fram að hún hafi ekki séð alla
atburðarásina þar sem hún hafi ekið bifreiðinni í burtu til að forðast átökin.
Það sem hún muni skýrast sé þegar brotaþoli var að reyna að verja sig. Vitnið
minnti að átökunum hafi lokið á N1 bifreiðastæðinu en
kvaðst þó ekki hafa verið mikið að velta fyrir sér staðsetningum. Hún kvaðst þó
muna eftir að F hafi í lokin verið á hinu bifreiðastæðinu en einhver hafi ýtt
við henni.
Vitnið E, vinur brotaþola og vinnufélagi,
kvaðst hafa verið á umræddu bifreiðastæði ásamt brotaþola, F systur brotaþola
og G. Vitnið kvaðst hafa neytt áfengis á ballinu en hætt snemma að drekka. Hann
hafi ekki verið allsgáður en ekki undir miklum áhrifum áfengis þegar umræddir
atburðir áttu sér stað. Vitnið greindi frá því að þegar þau voru á leið í
bifreið sína hafi brotaþoli gefið sig á tal við stráka í stórri bifreið sem þar
hafði verið lagt og hafi þær samræður verið vingjarnlegar. Þegar þau hafi verið
á leið frá umræddri bifreið hafi einhver í bifreiðinni kallað, að því er vitnið
minnti, „hommi“ á eftir brotaþola. Við það hafi brotaþoli, sem ekki hafi verið
ánægður með þetta, snúið við og gengið hratt aftur að bifreið strákanna og
spurt, að því er vitnið minnti, inn um opinn glugga bifreiðarinnar „hver sagði
þetta, hver sagði þetta“. Þungt hafi verið í brotaþola en hann þó ekki
trylltur. Eftir að hafa kallast á hafi flestir, fyrir utan bílstjórann, verið
komnir út úr stóru bifreiðinni og veist að brotaþola. Nánar aðspurður minnti
vitnið að fimm til sex strákar hafi komið út úr bifreiðinni. Vitnið kvaðst hafa
reynt að stilla til friðar og hafi hann og einn strákur úr hópnum farið aðeins frá bifreiðinni. Þegar
vitnið hafi verið að reyna að róa strákinn hafi hann ýtt við vitninu og hafi
þessu lokið með því að strákurinn hafi slegið vitnið niður. Fram kom að höggið
hafi ekki haft neinar afleiðingar fyrir vitnið og hann ekki kært geranda. Þegar
vitnið leit upp kvaðst hann hafa séð að áflogin hafi verið komin frá bifreiðinni,
eiginlega út á annað bifreiðastæði, og þar kvaðst vitnið hafa séð brotaþola
liggjandi á götunni og að strákarnir úr bifreiðinni hafi staðið yfir brotaþola
og látið spörk dynja á brotaþola. Lýsti vitnið því að hafa séð einn strákinn taka tilhlaup áður en hann
sparkaði í bak brotaþola. Brotaþoli hafi kallað hátt og endurtekið „ég gefst
upp, ég gefst upp“. Í því að vitnið kom að, hafi strákur, líklega sá sem sló
vitnið, verið að biðja strákana um að hætta og hafi þessi strákur hjálpað
brotaþola á fætur sem hafi við það forðað sér inn í Hvíta húsið, en í því hafi
lögregla komið á staðinn. Vitnið kvað árásina á brotaþola hafa verið fólskulega
en brotaþoli, sem hafi verið liggjandi á götunni og átt í höggi við fjóra til
fimm stráka, ítrekað beðist vægðar. Aðspurður hvort brotaþoli hafi fallið um
kant sagðist vitnið ekki geta sagt til um það en þegar vitnið kom að, hafi
brotaþoli verið hinum megin við kantinn, þ.e. brotaþoli hafi legið á
bifreiðastæði við hliðina á bifreiðastæði við N1 og
þar kvaðst vitnið hafa séð þegar strákarnir spörkuðu í brotaþola sem legið hafi
á götunni og haldið höndunum fyrir höfuð sitt til að reyna að verja sig. Vitnið
kvaðst ekki hafa séð brotaþola slá eða kýla einhvern af strákunum í stóru
bifreiðinni en tók fram að hann hafi ekki fylgst með atburðarásinni meðan hann
átti sjálfur í höggi við einn af strákunum.
Vitnið F, systir brotaþola kvaðst hafa verið
ásamt brotaþola, E og G á umræddu bifreiðastæði og verið undir nokkuð miklum
áhrifum áfengis. Vitnið kvað minni sitt vera nokkuð brotakennt en lýsti atvikum
þannig að hún og brotaþoli hafi rætt í vinsemd við stráka sem voru í bifreið á
bifreiðastæðinu. Vitnið kvaðst ekki muna hvort hún hafi sest inn í bifreiðina.
Síðan hafi átök byrjað og nokkrir strákar hafi ráðist að brotaþola og síðan
kvaðst vitnið muna eftir að nokkrir strákar hafi sparkað og kýlt í brotaþola
þegar brotaþoli lá í fósturstellingu á götunni, haldandi höndum fyrir höfði sér
til að hlífa andlitinu og ítrekað kalla „ég gefst upp, ég gefst upp“ en
strákarnir hafi þó haldið áfram. Vitnið minnti að þarna hafi verið þrír til
fjórir strákar að verki. Vitnið tók fram að strákarnir hafi verið mjög reiðir.
Vitnið kvaðst hafa reynt að stöðvað árásina en þá hafi hún verið slegin í
burtu. Síðan kvaðst vitnið hafa séð brotaþola hlaupa í burtu og síðan séð hann
inni á skemmtistaðnum Hvíta húsinu kvalinn í hendi og blóðugan í andliti.
Vitnið kvaðst ekki hafa séð brotaþola slá eða kýla neinn af umræddum
strákum.
Vitnið B, vinur ákærðu kvaðst hafa verið í
bifreið með ákærðu og fleira fólki umrætt sinn og mjög ölvaður. Hann greindi
frá því að brotaþoli hafi rætt um að bjóða þeim í partý. Þegar brotaþoli fór
frá bifreiðinni hafi einhver í bifreiðinni kallað á eftir brotaþola „hommi“ eða
„hommatittur“. Við það hafi brotaþoli snúið við og komið inn í bifreiðina eða
að glugga eða hurð bifreiðarinnar sem hafi verið opin. Einhver ágreiningur hafi
þá komið upp og allt orðið vitlaust eins og vitnið orðaði það. Þá hafi líklega
allir hlaupið út úr bifreiðinni og hafi verið mikil æsingur í mönnum fyrir utan
bifreiðina. Líklega hafi brotaþoli og ákærði Z verið kýldir. Vitnið kvaðst hafa
verið alveg brjálaður og ráðist í vitleysisgangi að vini brotaþola. Þegar hann
hafi litið við hafi hinir strákarnir verið komnir yfir klöpp eða kant sem þarna
hafi verið á bifreiðastæðinu. Vitnið kvaðst hafa hlaupið að og þá hafi hann
heyrt brotaþola öskra „ég gefst upp, ég gefst upp“ og rifið brotaþola upp. Það
hafi tekið á og líklega hafi einhver legið undir brotaþola og haldið honum.
Meðan á þessu stóð hafi einhverjir enn verið að sparka í brotaþola og síðan
hafi brotaþoli verið kýldur þegar hann var risinn upp og einnig kvaðst vitnið
hafa fengið högg í höfuðið enda þeir sem í kringum þá voru verið mjög æstir.
Aðspurður sagðist vitnið ekki geta sagt til um það hverjir hafi þarna verið að
verki, hann hafi ekki veitt því athygli en brotaþoli, sem hafi legið á hliðinni
og varið höfuð sitt með því að halda höndunum um höfuð sér, hafi verið umkringdur
og spörkin lent um allt á líkama brotaþola.
Þó kom fram hjá vitninu að
ákærði Z hafi ekki verið þarna, líklega hafi hann verið einhvers staðar
annarsstaðar að kasta upp, en vitnið minnti að hann hafi hrint ákærða X þegar
hann kom brotaþola til hjálpar. Fram kom hjá vitninu að hann hafi séð áverka á
höfði ákærða Z eftir að allt var afstaðið. Vitnið kvaðst hafa farið með
brotaþola, sem hafi verið í tættum bol, yfir kantinn en vitnið mundi ekki hvort
það var lögregla eða vinir brotaþola sem hafi tekið við honum. Vitnið kvað enga
aðra en þá sem voru í bifreiðinni með þeim félögum hafa verið þarna að verki.
Sérstaklega aðspurður kvaðst vitnið ekki hafa séð brotaþola kýla eða sparka í
aðra menn. Í upphafi átakanna hafi hann sjálfur ráðist að vini brotaþola og þá
ekki séð hvað um var að vera en þegar þeirri viðureign lauk hafi hann séð
brotaþola þar sem hann lá á götunni talsvert frá þeim stað sem átökin hófust
eins og rakið hefur verið hér að framan.
Vitnið I, vinur og kunningi ákærðu, lýsti
atvikum þannig að einhver sem í bílnum var hafi kallað „hommi“ eftir brotaþola
sem hafi við það orðið pirraður, komið að bifreiðinni og í framhaldi af því
hafi strákarnir hlaupið út úr bifreiðinni og rifrildi og ýtingar hafist en
síðan hafi hópurinn allur hlaupið af stað en vitnið, D, H og C hafi setið eftir
í bifreiðinni. Vitnið, sem kvaðst ekki hafa verið undir áhrifum áfengis enda
bílstjóri, kvaðst engin átök hafa séð.
Vitnið Már Kristjánsson, læknir, staðfesti
framlagt læknisvottorð dagsett 1. júlí 2011. Vitnið, sem skoðaði brotaþola og
skráði niður lýsingu hans á árásinni, sagði að brot á framhandlegg gæti bent
til þess að brotaþoli hafi fallið og borið fyrir sig hendina.
Að öðru leyti hafi hann verið með svokallaða yfirborðsáverka á höfði og bol sem
gætu hafa komið með ýmsum hætti m.a. við fall. Áverkarnir hafi borið með sér að
brotaþoli hafi fengið högg á andlit og slíkir áverkar geti komið vegna áhalds,
falls á jörðu eða vegg sem og að sparkað hafi verið í brotaþola. Einnig kom fram hjá vitninu að þar sem
nokkurn fjölda áverka brotaþola hafi verið um að ræða sé ólíklegt að þeir hafi
komið við venjulegt fall á jafnsléttu. Aðspurður hvort brotaþoli muni ná sér að
fullu vegna úlnliðsbrotsins kvað vitnið að svo muni vera en þó kunni að koma
síðkomnar breytingar í úlnlið eftir brot sem þetta ef brotalega sé ekki
fullkomin og um sé að ræða erfiðisvinnumenn eða menn sem stunda lyftingar eins
og í tilviki brotaþola. Sérstaklega aðspurður sagði vitnið að hægt sé að sparka
í höfuð manns án þess að það leiði til brots eða áverka á heila. Í þessu máli
hafi verið tekin mynd af heila og engin ummerki hafi verið um heilahristing eða
blæðingar og þar sem svo hafi ekki verið bendi áverkar á höfði til þess að spörk
hafi verið minni en brotaþoli hafi sjálfur upplifað. Aðspurður um það hvort
úlnliðsbrot á brotaþola hafi getað komið við það að hann hafi borið hendi fyrir
sig í falli af kanti sagði vitnið að brotið hafi verið dæmigert brot eftir fall
á útrétta hendi eins og algengt sé í hálkuslysum.
Vitnið Ómar
Ragnarsson, læknir, staðfesti framlagt læknisvottorð dagsett 19. maí
2011. Fram kom hjá vitninu að Guðmundur
Benediktsson, vakthafandi læknir, hafi tekið á móti brotaþola umrædda nótt.
Hins vegar kvaðst vitnið hafa tekið á móti brotaþola þegar hann kom á vaktina
daginn eftir. Vitnið kvað áverka eins og brotaþoli fékk á framhandlegg geta
komið við fleira en fall á hendi líkt og algengt sé í hálkuslysum, t.d. við
högg eða spörk á hendi eða ef þungur hlutur fellur á hendi. Fram kom að við
skoðun um nóttina hafi þótt ólíklegt að brotaþoli væri handleggsbrotinn en þar sem erfitt sé, ef ekki ómögulegt, að
greina slíkt nema með myndatöku hafi verið ákveðið að senda hann suður í myndatöku
á hendi og höfði.
Vitnið Heiðar Bragi Hannesson, lögreglumaður,
kvaðst hafa sinnt útkalli rétt eftir lokun skemmtistaðarins Hvíta hússins ásamt
Elínu Jóhannsdóttur. Komið hafi í ljós að vettvangur var á N1
bifreiðastæðinu við Hrísmýri þar sem tveimur bifreiðum hafi verið lagt. Þar
hafi verið fjöldi fólks og mikil ringulreið, læti og ölvun. Tekið hafi smá
stund að stía fólki í sundur og greina hvað gerst hafi en komið hafi í ljós að
maður hafði verið laminn. Vitnið minnti að tildrögin hafi verið þau að einhver
hafi sagt eitthvað sem öðrum hafi mislíkað og í framhaldinu af því hafi komið
til átaka. Vitnið kvaðst hafa hitt brotaþola í Hvíta húsinu og hafi hann verið
það illa leikinn að vitnið hringdi á sjúkrabifreið. Fram kom hjá vitninu að
allir sem þarna voru hafi verið undir áhrifum áfengis.
Vitnið Elín Jóhannsdóttir, lögreglumaður, lýsti
aðkomu á vettvang með svipuðum hætti og vitnið Heiðar Bragi. Fram kom að um
hafi verið að ræða tvo hópa í tveimur bifreiðum. Vitnið kvaðst ekki hafa rætt
við brotaþola og gat ekki lýst ástandi hans.
Niðurstaða.
Hér að
framan hefur ítarlega verið rakinn framburður ákærðu og átta vitna sem voru á
bifreiðastæði við verslun N1 við Hrísmýri eftir að
dansleik lauk á skemmtistaðnum Hvíta húsinu aðfaranótt 10. apríl 2011. Fyrir
liggur að fólkið var allt undir áhrifum áfengis að undanskildum bílstjóra Chevrolet-bifreiðar, sem ákærðu og vinir hans voru í, og
bílstjóra Subarubifreiðar sem brotaþoli, vinur hans
og systir brotaþola voru í. Einnig liggur fyrir að framangreindir vinahópar
þekktust ekki.
Af
framburði ákærðu og vitna fyrir dómi þykir ekki óvarlegt að leggja til
grundvallar að um hafi verið að ræða tvískipta atburðarás. Fyrst atvik við eða
aftan við Chevrolet -bifreiðina og í beinu framhaldi
af því atvik undir lok atburðarásarinnar við eða nálægt steinsteyptum kanti sem
skilur á milli bifreiðastæðis við verslun N1 og
bifreiðastæðis bílaverkstæðis sem stendur sunnan við áðurgreinda verslun. Nánar
tiltekið er framangreindur kantur u.þ.b. 56 cm hár
þeim megin sem snýr að bílaverkstæðinu en kanturinn er hins vegar mun lægri
þeim megin sem snýr að bifreiðastæðinu við verslun N1.
Kant þennan má sjá á framlögðum myndum í málinu og er hann þar sagður vera
u.þ.b. 25 metrum sunnan við N1 verslunina. Í
munnlegum málflutningi við aðalmeðferð málsins kom fram hjá sækjanda málsins að
atvikalýsing í ákæru tæki til síðari hluta atburðarásarinnar.
Ákærðu ber
öllum saman um að upphaf þessa máls megi rekja til átaka milli vinahópsins í Chevrolet-bifreiðinni, sem ákærðu tilheyrðu, og hóps sem
brotaþoli tilheyrði. Ákærði X greindi frá því fyrir dómi að kallað hafi verið á
eftir brotaþola „hommi“ eða eitthvað í þá veru og ákærði Guðmundur greindi frá
því að brotaþoli hafi gargað hver hafi kallað sig „homma“. Framangreinda
frásögn staðfestu vitni úr vinahópi ákærðu þeir I, B og H, sem og vinur
brotaþola, E, og brotaþoli sjálfur, A. Þá liggur fyrir í málinu að brotaþoli
hafi komið að Chevrolet-bifreiðinni í tilefni þessa
og báru ákærðu X og Z fyrir dómi að brotaþoli hafi átt upphaf að átökunum með
því að slá eða pota í ákærða X inni í bifreiðinni, en ákærði Guðmundur sagði að
líklega hafi brotaþoli slegið til ákærða X. Ákærði Y greindi hins vegar frá því
að honum hafi verið sagt að brotaþoli hafi slegið ákærða X. Í framhaldinu hafi
allir farið út úr Chevrolet-bifreiðinni og báru
ákærðu Z, X og Y að brotaþoli hafi slegið eða kýlt ákærða Z við Chevrolet-bifreiðina, en ákærði Guðmundur sagði að líklega
hafi brotaþoli slegið ákærða Z. Vitnið C, vinur ákærðu, bar fyrir dómi að
brotaþoli hafi kýlt ákærða Z í andlitið og vitnið H, bróðir ákærða Z, að
brotaþoli hafi slegið ákærða X og síðan kýlt ákærða Z við bifreiðina.
Framburður
brotaþola er á annan veg. Hann viðurkenndi að hafa verið pirraður, reiður og
æstur í kjölfar þess að kallað hafði verið á eftir honum. Hann hafi gengið að
bifreiðinni og spurt hver hafi verið þar
að verki en þá hafi verið ráðist að honum og hafi hann upplifað árásina eins og
þrumu úr heiðskíru lofti þó svo líklega hafi hann ekki gert rétt í því að öskra
á fólkið í bifreiðinni. Brotaþoli kannaðist ekki við að hafa angrað ákærðu og
hafnaði því að hafa slegið ákærðu X og Z.
Vitnið E,
vinur ákærða, kvað þungt hafi verið í brotaþola þegar hann hafi gengið hratt að
Chevrolet-bifreiðinni. Eftir hróp og köll hafi
flestir sem voru í Chevrolet-bifreiðinni
farið út úr bifreiðinni og veist að brotaþola. Nánar gat vitnið ekki greint frá
atvikum við bifreiðina og liggur fyrir í málinu að vitnin E, vinur
brotaþola, og vitnið B, vinur ákærðu,
tókust á eftir að farþegar Chevrolet-bifreiðinnar voru komnir út og gátu þeir því ekki borið um
atvik við Chevrolet-bifreiðina. Þá gátu vitnin I,
bílstjóri Chevrolet-bifreiðarinnar
og vinur ákærðu, D, barnsmóðir ákærða X, F, systir brotaþola og G, vinkona brotaþola,
hvorki borið um upphaf átakanna né hvort brotaþoli hafi veist að ákærðu X og Z.
Ákærðu
lýstu upphafi atburðarásarinnar með nokkuð nákvæmum hætti, þ.e. höggum sem
brotaþoli á að hafa veitt annars vegar ákærða X meðan ákærði var enn inni í Chevrolet-bifreiðinni, og hins vegar ákærða Z fyrir utan
bifreiðina. Af framburði ákærðu verður ekki annað ráðið en að þeir hafi reiðst
brotaþola fyrir að hafa slegið ákærða X og stuttu síðar ákærða Z og að vakað
hafi fyrir þeim að hefna sín á brotaþola. Til marks um það bar ákærði Guðmundur
fyrir dómi að hann hafi ekki ætlað að láta brotaþola vaða yfir sig, „við svörum
fyrir okkur, við látum ekki berja okkur“, sagði ákærði orðrétt fyrir dómi.
Ákærði Z lýsti því að hafa gengið á eftir brotaþola til að hefna sín, enda láti
ákærði menn ekki kýla sig að óþörfu, eins og ákærði Z sagði orðrétt fyrir dómi.
Ákærði Y kvaðst hafa sparkað í brotaþola til að koma meðákærða Guðmundi til
hjálpar og ákærði X kvaðst hafa verið reiður brotaþola eftir höggið sem
brotaþoli veitti honum inni í bifreiðinni.
Um atvik
sunnar á bifreiðastæðinu greinir ákærðu og vin þeirra, vitnið C, annars vegar
og brotaþola og vitni úr vinahópi hans hins vegar, talsvert á um atburðarásina.
Hins vegar kváðust vitnin D, I og H, öll úr vinahóp ákærðu, hafa setið inni í Chevrolet -bifreiðinni og því ekki séð atburðarásina eftir
að hún færðist frá bifreiðinni suður eftir bifreiðastæðinu.
Almennt má
segja um framburð ákærðu fyrir dómi að hann sé nokkuð á annan veg en við
yfirheyrslu hjá lögreglu síðdegis þann 10. apríl 2011, að því leyti að ákærðu
gerðu fyrir dómi hver og einn sem minnst úr þætti sínum í máli þessu. Þá báru
ákærðu því við að muna atvik betur en við yfirheyrslur hjá lögreglu. Þá tjáðu
ákærðu sig ekki um þátt meðákærðu utan þess að ákærðu X, Y og Z lýstu
tiltekinni háttsemi meðákærða Guðmundar gegn brotaþola, sem þeir tóku þó allir
fram að hafi verið smávægileg. Nokkuð ber á milli í framburði ákærðu um atvik
við áðurnefndan kant milli bifreiðastæðanna en þó þykir ekki óvarlegt að leggja
til grundvallar, með vísan til framburðar ákærðu og vitna, að atburðarásinni
hafi lokið í nágrenni kantsins.
Ákærðu lýsa
allir tvískiptri atburðarás, annars vegar við Chevrolet-bifreiðina
og hins vegar í nágrenni eða við kantinn milli bifreiðastæðanna. Það var hins
vegar eingöngu ákærði X sem viðurkenndi fyrir dómi að hafa tekið þátt í ætlaðri
atlögu gegn brotaþola undir lokin með því að hafa sparkað tvisvar í brotaþola
liggjandi og taldi ákærði nokkuð víst að spörkin hafi lent í maga eða síðu
brotaþola en ekki hafi verið um að ræða föst spörk. Ákærði Guðmundur
viðurkenndi að hafa snúið brotaþola
niður við Chevrolet-bifreiðina í upphafi
atburðarásarinnar en kvaðst hafa verið í fimm metra fjarlægð frá brotaþola
eftir að brotaþoli hafi gengið aftur á bak, líklega undan strákunum, og af þeim
sökum fallið um kantinn milli bílastæðanna. Ákærði Y lýsti atburðarásinni
nokkuð á sama veg og ákærði Guðmundur. Að til átaka hafi komið milli meðákærða
Guðmundar og brotaþola við Chevrolet-bifreiðina og
viðurkenndi ákærði Y að hafa komið meðákærða Guðmundi til hjálpar með því að
toga í bol brotaþola, sem við það hafi rifnað. Þar sem það hafi ekki dugað
meðákærða Guðmundi til hjálpar hafi ákærði Y þurft að grípa til annarra ráða og
því sparkað tvisvar í þind brotaþola hægra megin. Eftir að þessum átökum lauk
kvaðst ákærði Y hafa séð brotaþola ganga aftur á bak í áttina frá bílnum og þá
hafi brotaþoli rekið hælinn í kantsteininn og fallið aftur fyrir sig. Ákærði Z lýsti
því hins vegar að sér hafi verið sagt að meðákærði Guðmundur hafi, eftir að
brotaþoli hafi dottið um kantinn, snúið brotaþola niður en óljóst var af
framburði ákærða Z hvort hann hafi sparkað einu sinni í brotaþola neðarlega í
síðuna undir lok atburðarásarinnar eða fyrr í atburðarásinni. Ákærði Z kvaðst
hafa verið reiður eftir högg frá brotaþola, sparkað í brotaþola en síðan gengið
í burtu og kastað upp. Hvað varðar framburð ákærðu X, Y og Z um spörk þau sem
þeir viðurkenna að hafa veitt brotaþola er til þess að líta að í ákæru eru
engir áverkar tilgreindir á maga brotaþola eða síðu, þó svo að áverkar á síðu
séu tilgreindir í læknisvottorði Ómars Ragnarssonar læknis.
Af
framburði vitnanna B, vinar ákærðu, og vina brotaþola, þeirra E og G, og
framburðar brotaþola, svo langt sem hann nær, og ítarlega er rakinn hér að
framan, þykir hafið yfir allan vafa að undir lok atburðarásarinnar hafi brotaþoli
orðið fyrir spörkum og höggum nokkurra manna þar sem hann lá á jörðinni og hélt
höndum um höfuð sitt sér til varnar og bað sér vægðar. Vitnið B var hins vegar
eina vitnið sem þekkti ákærðu og bar vitnið fyrir dómi að þeir sem þarna hafi
verið að verki hafi allir verið úr Chevrolet-bifreiðinni.
Hins vegar gat vitnið ekki greint frá því hverjir hafi þar átt hlut að máli að
því undanskildu að ákærði Z hafi ekki verið þeirra á meðal. Þá þykir ekki
óvarlegt að byggja á því að undir lok atburðarásarinnar hafi vitnin D, I og H öll
verið inni í bifreiðinni en að vitnið C hafi auk ákærðu og vitnisins B farið út
úr Chevrolet-bifreiðinni. Vitnin E, G og brotaþoli
sjálfur þekktu hins vegar ekki ökumann eða farþega í Chevrolet-bifreiðinni
og gátu því ekki borið um hverjir voru umhverfis brotaþola þegar hann lá á
jörðinni eins og áður er lýst. Að mati dómsins var framburður vitnisins C fyrir
dómi ruglingslegur og með ólíkindum að vitnið hafi getað séð greinilega hvað um
var um vera við margnefndan kant þegar haft er í huga að atvik áttu sér stað um
miðja nótt í byrjun apríl, vitnið kvaðst hafa staðið í nokkurri fjarlægð frá
umræddum kanti auk þess sem vitnið greindi frá því að hópur manna hafi verið
þar í kring.
Ákæra í
máli þessu byggir á því að ákærðu hafi sameiginlega veist að brotaþola þannig
að hann hafi fallið í götuna þar sem ákærðu gengu í skrokk á brotaþola eins og
það er orðað í ákæru. Þá lýsti sækjandi málsins því yfir við aðalmeðferð
málsins að atvikalýsing í ákæru tæki til síðari hluta atburðarásarinnar eins og
áður er rakið. Framburður ákærðu er ruglingslegur og um margt ótrúverðugur og
einkennist eins og áður greinir af því að ákærðu gerðu hver og einn sem minnst
úr sínum þætti málsins auk þess sem þeir upplýstu ekki um hlut meðákærðu. Fyrir
liggur þó að ákærðu töldu sig eiga harma að hefna gagnvart brotaþola og að þeir
hafi farið út úr bifreiðinni í þeim tilgangi og fylgt brotaþola eftir. Hins
vegar er ágætt samræmi um atvik undir lok atburðarásarinnar í framburði
vitnanna B, E og G bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Í framburði vitnisins B kom
fram að ákærði Z hafi ekki verið meðal þeirra sem tók þátt í atlögu gegn
brotaþola undir lokin og fær sá framburður vitnisins stoð í framburði ákærða Y um
að meðákærði Z hafi yfirgefið vettvang snemma sem og því sem fram kemur hjá
vitninu C, um að vitnið hafi dregið ákærða Z í burtu. Samkvæmt 108. gr. og
1.mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hvílir sönnunarbyrði um
sekt ákærða og atvik er telja megi honum í óhag. Þá er gerð sú krafa að fram sé
komin í máli nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, um
hvert það atriði sem varðar sekt sakbornings. Samkvæmt öllu framansögðu er því
að mati dómsins óhjákvæmilegt að sýkna ákærða Z af öllum kröfum ákæruvaldsins í
máli þessu.
Að mati
dómsins lýsa vitnin B, E og G atlögu að brotaþola, sem legið hafi í götunni,
sem fólskulegri og fær sá framburður stoð í framburði B og lögreglumannsins
Heiðars Braga Hannessonar um ástand brotaþola og aðstæður á vettvangi sem og í
lýsingu í framlögðum læknisvottorðum. Með vísan til þess sem að framan er
rakið, framburðar vitnanna B, E og G og játningar ákærðu X og Y fyrir dómi,
þykir fram komin lögfull sönnun þess að ákærðu X og Y hafi hvor um sig sparkað
tvívegis í líkama brotaþola þar sem hann lá á jörðinni undir lok
atburðarásarinnar. Hins vegar þykir ekki, eins og mál þetta er vaxið og gegn
eindreginni neitun ákærðu, fram komin lögfull sönnun þess að umrædd spörk hafi
lent í andliti brotaþola, hrygg eða vinstri framhandlegg og þannig valdið þeim
áverkum sem í ákæru greinir. Þó fram hafi komið í málinu að ákærðu hafi fylgt
ákærða eftir frá Chevrolet-bifreiðinni að umræddum
kanti á lóðamörkum bifreiðastæðanna er í því sambandi til þess að líta að
brotaþoli sjálfur hefur lýst því fyrir dómi að framhandleggur hans hafi brotnað
þegar hann hélt höndum um höfuð sitt til að verja höfuðið spörkum. Þykir því
ekki fram komin lögfull sönnun þess að sú háttsemi sem ákærðu X og Y eru
sakfelldir fyrir hafi verið þess valdandi að brotaþoli brotnaði á vinstri
framhandlegg. Með háttsemi sinni hafa ákærðu X og Y hins vegar gerst sekir um
líkamsárás, slíka sem í 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940,
greinir.
Kemur þá
til skoðunar hlutdeild ákærða Guðmundar í atlögunni að brotaþola. Ákærði hefur
fyrir dómi játað að hafa snúið brotaþola niður en heldur því fram að það hafi
átt sér stað við Chevroletbifreiðina í upphafi
atburðarásarinnar. Þá lagði ákærði áherslu á það í framburði sínum fyrir dómi
að brotaþoli hafi handleggsbrotnað við fall um kantinn milli bifreiðastæðanna.
Vitnið B lýsti fyrir dómi að erfitt hefði verið að ná brotaþola upp af götunni
þegar vitnið kom brotaþola til hjálpar og líklega hafi einhver legið undir
brotaþola og haldið honum. Ákærði Y bar fyrir dómi að ástæða þess að hann
sparkaði í brotaþola hafi verið sú að brotaþoli hafi legið ofan á meðákærða
Guðmundi. Til að koma meðákærða Guðmundi til hjálpar kvaðst ákærði Y hafa
sparkað í brotaþola. Ákærði X bar fyrir dómi að hafa sparkað á fullu en að
spörkin hafi lent á röngum manni, þ.e. meðákærða Guðmundi, og því kvaðst ákærði
X ekki hafa náð að sparka í brotaþola nema einu eða tvisvar sinnum í lokin.
Ákærði Guðmundur lýsti því fyrir dómi að brotaþoli hafi gengið aftur á bak eða
bakkað, eins og ákærði orðaði það, líklega af því að strákarnir hafi verið að
elta brotaþola en þá kvaðst ákærði Guðmundur hafa verið í alla vega fimm metra
fjarlægð frá brotaþola. Þá verður ekki annað ráðið af framburði ákærða
Guðmundar, líkt og framburði hinna ákærðu, en að ákærði Guðmundur hafi talið
sig eiga harma að hefna gagnvart brotaþola eins og áður er rakið. Með vísan til
alls þessa þykir ekki óvarlegt að telja framkomna nægilega sönnun, sem ekki
verði vefengd með skynsamlegum rökum, fyrir því að ákærði Guðmundur hafi tekið
þátt í atlögunni að brotaþola með því að snúa brotaþola niður með þeim
afleiðingum að brotaþoli féll í götuna, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008
um meðferð sakamála. Með vísan til 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. áðurnefndra
laga hefur ákæruvaldinu hins vegar að mati dómsins ekki tekist að færa fram
lögfulla sönnun þess að brot á vinstri framhandlegg brotaþola megi rekja til
þess falls og verður í því sambandi að líta til framburðar brotaþola sjálfs um
það með hvaða hætti hendin hafi brotnað. Með vísan
til alls þessa verður háttsemi ákærða Guðmundar því eingöngu heimfærð undir
217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvörðun refsingar.
Eins og áður er rakið
töldu ákærðu að brotaþoli hafi átt upptök að átökunum með því að slá ákærða X meðan
ákærði var enn inni í Chevrolet-bifreiðinni og síðan
ákærða Z fyrir utan bifreiðina. Í málinu liggur frammi vottorð um komu ákærða Z
á slysa- og bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunarinnar á Selfossi síðdegis þann 10.
apríl 2011 þar sem tilgreind er blæðing undir húð á tveimur stöðum upp undir
hársverði. Framangreind frásögn ákærðu er studd vitnisburði vitnisins C, vinar
ákærðu, sem kvaðst hafa séð brotaþola kýla ákærða Z og vitnisins H, bróður
ákærða Z, sem kvaðst hafa séð brotaþola slá ákærðu X og Z. Með vísan til þessa,
framburðar ákærðu um ástæðu þess að þeir fóru allir út úr bifreiðinni eftir að
brotaþoli krafði þá svara um það hver hafi kallað á eftir honum „hommi“,
framburðar brotaþola sjálfs um að hann hafi verið pirraður, reiður og æstur
þegar hann kom að bifreið ákærðu, sem fær stoð í framburði vitnisins E, þykir
ekki varhugavert að leggja til grundvallar að aðdraganda atlögu ákærðu að
brotaþola megi rekja til þess að brotaþoli hafi átt upptökin að átökunum með
árás eða ertingu í garð ákærðu. Verður því við ákvörðun refsingar ákærðu X, Y og
Guðmundar litið til 3. mgr. 218. gr. b. ákærðu til málsbóta. Á hinn bóginn
verður ekki litið fram hjá því að ákærðu X, Y og Guðmundur réðust að brotaþola
þar sem hann lá á jörðinni og baðst vægðar og teljast þeir þannig hafa unnið
verkið í félagi og horfir það ákærðu til refsiþyngingar, sbr. 2. mgr. 70. gr.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði
X hefur verið sakfelldur fyrir brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga nr.
19/1940. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði ekki sætt refsingum svo
kunnugt sé, en ákærði var 17 ára þegar hann framdi brot það sem hann hefur
verið sakfelldur fyrir í máli þessu. Með vísan til 2. tl.
74 .gr.,3. mgr. 218. gr. b og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr.
19/1940, og þess að ákærði hefur ekki áður sætt refsingu fyrir líkamsárás,
þykir refsing ákærða X hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga en fresta skal
fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í tvö ár frá birtingu dómsins að telja
og falli refsingin niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57.
gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði Y er nú
sakfelldur fyrir brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Samkvæmt framlögðu sakavottorði gekkst ákærði undir 20.000 króna sektargreiðslu
hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 25. nóvember 2011 fyrir
umferðarlagabrot. Með vísan til ungs aldurs ákærða, en ákærði var 18 ára þegar
hann framdi brot það sem hann er nú sakfelldur fyrir í máli þessu, og 3. mgr.
218. gr. b og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og þess að
ákærði hefur ekki áður sætt refsingu fyrir líkamsárás, þykir refsing ákærða Y,
sbr. og 78. gr. almennra hegningarlaga, hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga en
fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í tvö ár frá birtingu
dómsins að telja og falli refsingin niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði
almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga
nr. 22/1955.
Ákærði Guðmundur Freyr Böðvarsson
er nú sakfelldur fyrir brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Samkvæmt framlögðu sakavottorði gekkst ákærði undir 37.500 króna sektargreiðslu
hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 12. janúar 2009 fyrir
fíkniefnalagabrot. Þá var ákærði dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi í
þrjú ár fyrir þjófnað með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 14. janúar 2010.
Ákærði Guðmundur hefur með broti því sem hann er nú sakfelldur fyrir í máli
þessu rofið skilorð dómsins frá 14. janúar 2010 og ber því nú að dæma í einu
lagi bæði málin sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og hafa
hliðsjón af 77. gr. sömu laga við refsiákvörðun. Þá er einnig við refsiákvörðun
litið til 3. mgr. 218. gr. b og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr.
19/1940, og þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 45 daga fangelsi, en rétt
þykir með vísan til ungs aldurs ákærða og þess að ákærði hefur ekki áður sætt
refsingu fyrir líkamsárás að ákveða að fresta skuli fullnustu refsingarinnar
skilorðsbundið í þrjú ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsingin niður
að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga
nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Einkaréttarkrafa
Brotaþoli, A, gerir
skaða- og miskabótakröfu í málinu fyrir ófyrirleitna og hættulega aðför sem
hafi haft í för með sér mikla áverka fyrir brotaþola, m.a. handleggsbrot. Auk
þess gerir brotaþoli kröfu um vexti og
málskostnað samkvæmt 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð
sakamála.
Samkvæmt greinargerð
brotaþola er gerð miskabótakrafa á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga að fjárhæð
700.000 krónur. Þá vísar brotaþoli um vexti til 8. gr. laga um vexti og
verðtryggingu nr. 38/2001 en um dráttarvexti til 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr.
sömu laga.
Með vísan til 176. gr.
laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er miskabótakröfu á hendur ákærða Z vísað
frá dómi.
Verjandi ákærða X krefst
þess að bótakrafa verði lækkuð. Verjandi ákærða Y krefst þess aðallega að
bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara sýknu og til þrautavara lækkunar
kröfunnar. Verjandi ákærða Guðmundar krefst þess að bótakröfu verði vísað frá
dómi en til vara að krafan verði lækkuð. Að mati
dómsins þykja miskabætur hæfilega ákvarðaðar 150.000 krónur sem ákærðu X, Y og
Guðmundur greiði brotaþola in soldium.
Vextir af tildæmdum bótum skulu reiknast samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um
vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 10. apríl 2011 til 6. apríl 2012, en
síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr.
sömu laga, frá 6. apríl 2012, en þann dag var liðinn mánuður frá birtingu
bótakröfunnar, til greiðsludags. Þá greiði ákærðu X, Y og Guðmundur brotaþola in soldium 238.450 krónur að
meðtöldum virðisaukaskatti í málskostnað, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr.
88/2008 um meðferð sakamála.
Sakarkostnaður
Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð
sakamála, sbr. 216. gr. sömu laga greiði ákærðu X, Y og Guðmundur sameiginlega
49.200 krónur í sakarkostnað samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti og málsvarnarlaun
skipaðra verjenda sinna vegna vinnu við meðferð málsins fyrir dómi sem hér
segir: Ákærði X greiði Sveini Andra Sveinssyni hæstaréttarlögmanni, 326.300
krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ákærði Y greiði Guðmundi St. Ragnarssyni
héraðsdómslögmanni, 326.300 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ákærði
Guðmundur greiði Vilhjálmi Hans Vilhjálmssyni hæstaréttarlögmanni, 326.300
krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Með vísan til 2. mgr.
218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 216. gr. sömu laga skulu
málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Z, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur
hæstaréttarlögmanns, 326.300 krónur, greidd úr ríkissjóði.
Ólafur
Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Selfossi, flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Ragnheiður
Thorlacius héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Z, er sýkn af
kröfum ákæruvaldsins. Einkaréttarkröfu á hendur ákærða Z er vísað frá dómi.
Ákærði,
X, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar
skilorðsbundið í tvö ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsingin niður
að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga
nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði,
Y, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar
skilorðsbundið í tvö ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsingin niður
að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga
nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði,
Guðmundur Freyr Böðvarsson, sæti fangelsi í 45 daga en fresta skal fullnustu
refsingarinnar skilorðsbundið í þrjú ár frá birtingu dómsins að telja og falli
refsingin niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærðu X, Y og
Guðmundur Freyr greiði sameiginlega 49.200 krónur í sakarkostnað. Ákærðu greiði
málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna vegna vinnu við meðferð málsins fyrir
dómi sem hér segir: Ákærði X greiði Sveini Andra Sveinssyni
hæstaréttarlögmanni, 326.300 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ákærði Y greiði
Guðmundi St. Ragnarssyni héraðsdómslögmanni, 326.300 krónur að meðtöldum
virðisaukaskatti. Ákærði Guðmundur greiði Vilhjálmi Hans Vilhjálmssyni
hæstaréttarlögmanni, 326.300 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Málsvarnarlaun skipaðs
verjanda ákærða Z, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, 326.300
krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Ákærðu X, Y og Guðmundur Freyr Böðvarsson, greiði in solidum A, kt. [...], 150.000 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 10. apríl 2011 til 6. apríl 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. sömu laga, frá 6. apríl 2012 til greiðsludags og 238.450 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti í málskostnað.