Hæstiréttur íslands
Mál nr. 494/2010
Lykilorð
- Einkahlutafélag
- Tilkynning
- Virðisaukaskattur
- Staðgreiðsla opinberra gjalda
- Stjórnsýsla
|
|
Fimmtudaginn 9. desember 2010. |
|
Nr. 494/2010. |
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir settur saksóknari) gegn X (Ólafur Eiríksson hrl.) |
Einkahlutafélög. Tilkynning. Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Stjórnsýsla.
X var ásamt fyrrum eiginmanni sínum ákærð fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum við rekstur einkahlutafélags, en X var skráð framkvæmdastjóri félagsins og varamaður í stjórn þess. Upplýst var í málinu að X hefði ritað undir stofnfundargerð félagsins, þar sem meðal annars kom fram að samþykkt væri að ráða hana sem framkvæmdastjóra þess, og viðeigandi eyðublað um tilkynningu til fyrirtækjaskrár, þess efnis að Á tæki sæti í varastjórn félagsins. Hins vegar hefði X ekki ritað nafn sitt í nafnreit tilkynningarinnar fyrir framkvæmdastjóra félagsins. Einnig var upplýst að starfsmenn fyrirtækjaskrár hefðu að eigin frumkvæði leiðrétt skráningu framkvæmdastjóra félagsins til samræmis við efni stofnfundargerðar félagsins og skráð X sem framkvæmdastjóra þess. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að ákvörðun um skráningu einkahlutafélags væri stjórnvaldsákvörðun og að aðgerð fyrirtækjaskrár hefði ekki verið heimil að lögum. Fyrirtækjaskrá hefði borið að rannsaka meint ósamræmi milli tilkynningar og stofnfundargerðar um hver væri framkvæmdastjóri félagsins og veita stjórn þess færi á að koma viðhorfum sínum að og eftir atvikum bæta úr skráningunni, sbr. 10., gr. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 124. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Hæstiréttur taldi að ákæruvaldið hefði ekki sannað að X hefði gegnt skyldum hjá félaginu sem leitt gætu til refsiábyrgðar samkvæmt ákæru. Var X því sýknuð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. ágúst 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærða krefst aðallega sýknu, en til vara þess að refsing hennar verði milduð.
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi er ákærðu, sem skráðum framkvæmdastjóra og varastjórnarmanni, gefið að sök meiri háttar brot gegn skattalögum við rekstur einkahlutafélagsins A. Þá var fyrrum eiginmaður hennar, Y, sem starfandi framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi, ákærður fyrir sömu brot. Framburður beggja ákærðu við aðalflutning málsins í héraði er rakinn í hinum áfrýjaða dómi, en þeim ber saman um að ákærða hafi ekki tekið þátt rekstri félagsins. Með hinum áfrýjaða dómi voru þau bæði fundin sek samkvæmt ákæru.
Stofnfundur A ehf. var haldinn 12. janúar 2006. Samkvæmt fundargerð var meðákærði í héraði kjörinn formaður stjórnar, en ákærða varamaður í stjórn. Ákærða var fundarstjóri en ritari B, sem var kjörinn annar af skoðunarmönnum félagsins. Á fundinum var jafnframt bókað að Y skyldi hafa prókúruumboð fyrir félagið en samþykkt væri að ráða ákærðu sem framkvæmdastjóra þess og væri framkvæmdastjóra falið að tilkynna félagið til fyrirtækjaskrár Ríkisskattstjóra. Sú tilkynning er undirrituð af Y og ákærðu og barst hún fyrirtækjaskrá 3. febrúar 2006. Við skýrslugjöf hjá Ríkislögreglustjóra 26. febrúar 2009 kom fram hjá ákærðu að hún hefði ritað undir framangreinda stofnfundargerð. Þá hafi hún ritað undir viðeigandi eyðublað um tilkynningu til fyrirtækjaskrár þess efnis að hún tæki sæti í varastjórn félagsins, en hún hafi ekki ritað nafn sitt í nafnreit fyrir framkvæmdastjóra þess. Í framhaldi af bréflegri fyrirspurn Ríkislögreglustjóra um málefnið barst honum bréf fyrirtækjaskrár 5. mars 2009 þar sem fram kom að starfsmenn fyrirtækjaskrár hafi rekið augun í að fundargerð stofnfundar hefði verið ítarlegri en venja væri til en þar hafi komið fram hver hafi verið „kjörinn framkvæmdastjóri félagsins.“ Á hinn bóginn hafi Y samkvæmt tilkynningarblaði „ranglega verið skráður framkvæmdastjóri“ og hafi það verið „leiðrétt“ af starfsmanni fyrirtækjaskrár. Fyrir liggur að óbreytta tilkynninguna sem send var inn er ekki lengur að finna í vörslum fyrirtækjaskrár, þar sem frumgerð hennar var breytt af starfsmönnum þar á framangreindan hátt.
Í XVII. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög eru reglur um skráningu einkahlutafélaga og tilkynningu til fyrirtækjaskrár, sem Ríkisskattstjóri starfrækir nú samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 17/2003 um fyrirtækjaskrá. Í 1. mgr. 124. gr. laga nr. 138/1994 kemur fram að synja skuli skráningar ef tilkynningar fullnægja ekki fyrirmælum laganna eða samþykkta einkahlutafélags eða ákvarðanir eru ekki teknar á þann hátt sem ákveðið er í lögum. Í 2. mgr. greinarinnar segir að bæta megi úr göllum á einfaldan hátt með ákvörðun hluthafafundar eða samþykkt stjórnar og skuli gefa félaginu hæfilegan frest til úrbóta. Ef ekki sé úr bætt innan frestsins skuli synja skráningar.
Ákvörðun um skráningu einkahlutafélags samkvæmt XVII. kafla laga nr. 138/1994 er stjórnvaldsákvörðun og gilda því stjórnsýslulög nr. 37/1993 um undirbúning og meðferð máls. Þar sem talið var vera ósamræmi milli tilkynningar og fundargerðar stofnfundar um hver væri framkvæmdastjóri félagsins bar að rannsaka málið nánar á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga og veita stjórn félagsins færi á að koma að viðhorfum sínum og bæta eftir atvikum úr skráningunni, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 124. gr. laga nr. 138/1994. Sú aðgerð fyrirtækjaskrár sem lýst er hér að framan var ekki heimil að lögum. Verður ekki á henni byggt við úrlausn málsins. Samkvæmt framansögðu hefur ákæruvaldið ekki sannað að ákærða hafi gegnt skyldum hjá umræddu einkahlutafélagi sem geti leitt til þess að hún beri refsiábyrgð á þeim brotum sem í ákæru ræðir. Ákærða verður því sýknuð af kröfu ákæruvaldsins og allur sakarkostnaður í héraði hvað hana varðar og áfrýjunarkostnaður málsins felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærða, X, er sýkn saka.
Allur sakarkostnaður í héraði að því er varðar ákærðu og áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hennar fyrir Hæstarétti, Ólafs Eiríkssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júlí 2010.
I
Málið, sem dómtekið var 10. júní síðastliðinn, er höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra, útgefinni 19. mars 2010 á hendur „Y, kennitala [...], [...], Reykjavík og X, kennitala [...], [...], Reykjavík fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum framin í rekstri einkahlutafélagsins A, sem ákærði Y var starfandi framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi fyrir og X var skráður framkvæmdastjóri og varastjórnarmaður til 24.07.2007 fyrir, með því að hafa:
1. Eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins vegna uppgjörstímabilanna september-október 2006 til og með maí-júní 2008, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, samtals að fjárhæð kr. 9.851.503, sem sundurliðast sem hér greinir:
|
Uppgjörstímabil: |
|
Vangoldinn VSK: |
|
Árið 2006 september-október nóvember-desember Samtals: |
|
kr. 686.064 kr. 1.279.313 kr. 1.965.377 |
|
Árið 2007 janúar-febrúar mars-apríl maí-júní júlí-ágúst september-október nóvember-desember Samtals:
Árið 2008 janúar-febrúar mars-apríl maí-júní Samtals:
Samtals 2006, 2007 og 2008: |
|
kr. 605.540 kr. 1.284.838 kr. 1.086.771 kr. 709.033 kr. 926.713 kr. 822.823 kr. 5.435.718
kr. 560.424 kr. 1.296.408 kr. 593.576 kr. 2.450.408
kr. 9.851.503 |
2. Eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna tímabilanna nóvember 2006 til og með júlí 2008, samtals að fjárhæð kr. 4.441.056 hvað varðar Y og samtals að fjárhæð kr. 2.234.136 hvað varðar X, sem sundurliðast sem hér greinir:
|
Greiðslutímabil: staðgreiðsla |
Vangoldin staðgreiðsla hvað varðar Y |
Vangoldin hvað varðar X: |
|
Árið 2006 |
|
|
|
nóvember |
kr. 215.001 |
kr. 274.482 |
|
desember |
kr. 193.754 |
kr. 253.235 |
|
|
kr. 408.755 |
kr. 527.717 |
|
|
|
|
|
Árið 2007 |
|
|
|
janúar |
kr. 274.909 |
kr. 328.858 |
|
febrúar |
kr. 140.427 |
kr. 194.376 |
|
mars |
kr. 174.043 |
kr. 227.992 |
|
apríl |
kr. 211.820 |
kr. 265.769 |
|
maí |
kr. 352.906 |
kr. 406.855 |
|
júní |
kr. 228.620 |
kr. 282.569 |
|
júlí |
kr. 248.199 |
|
|
ágúst |
kr. 0 |
|
|
september |
kr. 270.277 |
|
|
október |
kr. 313.176 |
|
|
nóvember |
kr. 300.748 |
|
|
desember |
kr. 276.292 |
|
|
Samtals: |
kr. 2.791.417 |
kr. 1.706.419 |
|
|
|
|
|
Árið 2008 |
|
|
|
janúar |
kr. 49.106 |
|
|
febrúar |
kr. 287.948 |
|
|
mars |
kr. 291.324 |
|
|
apríl |
kr. 201.558 |
|
|
maí |
kr. 196.465 |
|
|
júní |
kr. 105.748 |
|
|
júlí |
kr. 108.735 |
|
|
Samtals: |
kr. 1.240.884 |
|
|
Samtals 2006, 2007 og 2008: |
kr. 4.441.056 |
kr. 2.234.136 |
Framangreind brot ákærðu teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig:
a) 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005 að því er varðar 1. tölulið ákæru.
b) 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005 að því er varðar 2. tölulið ákæru.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Ákærðu neita sök. Þau krefjast aðallega frávísunar málsins, en til vara sýknu og til þrautavara að dæmd verði vægasta refsing. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
II
Samkvæmt gögnum málsins var einkahlutafélagið A stofnað 12. janúar 2006 og var tilgangur þess alhliða málningarstarfsemi sem verktaki, rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Stofnandi félagsins og stjórnarmaður var ákærði Y, en ákærða X var varastjórnarmaður. Í fundargerð stofnfundar félagsins kemur og fram að samþykkt hafi verið að ráða ákærðu framkvæmdastjóra félagsins. Ákærðu rita bæði undir fundargerðina svo og undir tilkynningu til fyrirtækjaskrár um stofnun félagsins. Með tilkynningu til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, sem móttekin var 24. júlí 2007, sagði ákærða sig úr stjórninni og sagði af sér sem framkvæmdastjóri. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 19. desember 2008.
Með bréfum 6. nóvember 2008 og 24. júní 2009 vísaði skattrannsóknastjóri til opinberrar rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra máli vegna ætlaðra brota ákærða Y og félagsins á ákvæðum laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, laga um virðisaukaskatt og, eftir atvikum, almennum hegningarlögum. Í fyrra bréfinu segir, eftir að gerð hefur verið grein fyrir félaginu og tengslum ákærðu við það, að rannsóknin hafi leitt „í ljós að vanrækt hafi verið, fyrir hönd skattaðilans, að standa skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimtum virðisaukaskatti skattaðilans vegna greiðslu- og uppgjörstímabila á rekstrarárunum 2006 og 2007, að því er virðist af ásetningi eða a.m.k. stórkostlegu hirðuleysi. Skattrannsóknarstjóri ríkisins tilkynnti A ehf., Y og X, með bréfum dags. 11. september 2007, um fyrirhugaða ákvörðunartöku um refsimeðferð í málinu, svo og leitaði eftir því að aðilar tjáðu sig um refsimeðferðina. Svar barst frá umboðsmanni X, Ingibjörgu Björnsdóttur hdl., með bréfi, dags. 9. október 2007, þar sem óskað var eftir að fallið yrði frá refsimeðferð á hendur X. Svar barst frá Y með bréfi, dags. 11. október 2007, þar sem hann óskaði eftir að refsimeðferð í málinu yrði lokið með sektargerð hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Með bréfum, dags. 29. janúar 2008, var félaginu og Y boðið að ljúka málinu með sektargerð hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. X var ekki gerð sekt í málinu. Var frestur til að gangast undir sektargerðina veittur til 12. febrúar 2008. Ekki var gengist undir sektargerðina. Með bréfum, dags. 26. júní 2008, var málið sent yfirskattanefnd og þess krafist að félaginu og Y yrði ákvörðuð sekt vegna brota vegna rekstraráranna 2006 og 2007. Ekki var gerð krafa af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins að X yrði gerð sekt í málinu. Þar sem afstaða aðila til meðferðar málsins fyrir yfirskattanefnd lá ekki fyrir, brustu skilyrði fyrir því að hægt væri að fjalla um málið fyrir yfirskattanefnd og var því vísað frá með úrskurði, dags. 22. október 2008.“ Í bréfum skattrannsóknarstjóra til efnahagsbrotadeildar er síðan gerð grein fyrir rannsókninni og tölulegum niðurstöðum hennar.
Skattrannsóknarstjóri ritaði ákærðu bréf 6. nóvember 2008 þar sem hann tilkynnti þeim að málinu hefði verið vísað til efnahagsbrotadeildar til opinberrar rannsóknar. Í niðurlagi bréfsins til ákærðu X segir: „Þér eruð ekki kærðar í málinu af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en forræði málsins og allar ákvarðanir um áframhaldandi refsimeðferð á hendur yður verða hér eftir í höndum ríkislögreglustjórans.“ Í bréfinu til ákærða Y sagði aðeins að forræði málsins og allar ákvarðanir um áframhaldandi refsimeðferð á hendur honum yrðu hér eftir í höndum ríkislögreglustjóra.
Í niðurstöðu yfirskattanefndar segir að í 2. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda og í samsvarandi ákvæði í 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt komi fram sú regla að skattrannsóknarstjóri geti „vísað máli til opinberrar rannsóknar af sjálfsdáðum, svo og eftir ósk sökunauts ef hann vill eigi hlíta því að mál verði afgreitt af yfirskattanefnd skv. 1. mgr. ákvæðisins. Ákvæði þetta ber að skilja svo að skattrannsóknarstjóri ríkisins geti ekki vísað máli til sektameðferðar fyrir yfirskattanefnd nema málið hafi áður verið borið undir gjaldanda og hann hafi gefið skattrannsóknarstjóra til kynna á sannanlegan hátt að hann mæli því ekki í gegn að málið hljóti sektarmeðferð fyrir yfirskattanefnd. Þar sem afstaða gjaldenda, Y og A ehf., til meðferðar málsins fyrir yfirskattanefnd liggur ekki fyrir eru ekki skilyrði til þess að fjalla um málið fyrir yfirskattanefnd og er málinu því vísað frá. Þessi niðurstaða breytir engu um heimild skattrannsóknarstjóra ríkisins til þess að ákveða af sjálfsdáðum hvort efni séu til þess að vísa máli til opinberrar rannsóknar og almennrar sakamálameðferðar fyrir dómstólum.“
Ákærða X var yfirheyrð af lögreglu 26. febrúar 2009. Hún staðfesti að hafa verið varastjórnarmaður félagsins og framkvæmdastjóri og undirritað tilkynningu til fyrirtækjaskrár og stofnfundargerð um það. Hins vegar kvað hún meðákærða Y hafa verið hinn raunverulega framkvæmdastjóra og hann hafi annast öll fjármál, skattskil og annað þess háttar. Hún hafi aldrei komið nálægt slíku. Hún og meðákærði hafi verið í sambúð þegar félagið var stofnað og hafi hún fallist á að gegna þessum stöðum án þess að hún hafi gert sér grein fyrir hvaða þýðingu það hefði, enda hefði alltaf legið fyrir að meðákærði myndi annast alla framkvæmdastjórn félagsins. Ákærða kvaðst fyrst hafa gert sér grein fyrir stöðu sinni þegar hún var boðuð til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra og þá sagt af sér þeim stöðum sem hún gegndi hjá félaginu. Undir ákærðu voru bornar niðurstöður skattrannsóknarstjóra, en hún kvaðst ekkert geta tjáð sig um þær þar eð hún hefði ekki komið að rekstri félagsins.
Ákærði Y var yfirheyrður 25. júní 2009 og staðfesti það sem að framan var rakið um stjórn og framkvæmdastjórn félagsins. Hins vegar hafi hann einn farið með alla stjórn þess og meðákærða ekki komið þar nálægt. Hlutverk hennar hafi aðeins verið formlegs eðlis og það verið ljóst frá upphafi að hann var hinn raunverulegi framkvæmdastjóri. Það hafi því verið hans hlutverk að annast um fjármál og skattskil. Ákærði kvaðst ekki rengja þær tölulegu niðurstöður sem honum voru sýndar og síðar var byggt á í ákærunni. Þá kvað hann félagið hafa orðið gjaldþrota, eins og rakið var, og verið eignalaust á þeim tíma.
Lögreglan hafði samband við skiptastjóra þrotabús A ehf. og kvaðst hann engin gögn hafa um mögulegar kröfur félagsins né heldur gögn um tapaðar kröfur þess, sem kynnu að hafa verið grundvöllur virðisaukaskattsskýrslna sem eru meðal gagna málsins.
III
Við aðalmeðferð bar ákærði að hafa verið starfandi framkvæmdastjóri, stjórnarmaður of prókúruhafi einkahlutafélagsins A, eins og rakið er í ákæru. Hann kvaðst hafa unnið störf framkvæmdastjóra og staðið í þeirri meiningu að hann hefði verið skráður framkvæmdastjóri. Ákærða X hefði ekki unnið hjá félaginu og ekkert hlutverk haft hjá því og hann kvaðst ekki átta sig á því af hverju hún hafi verið skráð í störf hjá félaginu, en hann hefði ekki ráðið hana í starf framkvæmdastjóra. Hann kvað sér fyrst hafa orðið ljóst við rannsókn skattrannsóknarstjóra að meðákærða var skráð framkvæmdastjóri félagsins. Ákærða var bent á að ákærðu bæði hefðu ritað undir stofnfundargerð og tilkynningu til fyrirtækjaskrár og kvaðst hann ekki skilja hvernig á þessu gæti staðið, aldrei hafi verið ætlunin að meðákærða yrði skráð framkvæmdastjóri. Hann kvað endurskoðanda félagsins hafa samið stofnfundargerðina og hefðu bæði ákærðu verið á fundinum. Ákærði kvaðst ekki gera aðrar tölulegar athugasemdir við ákæruna en þær sem verjandi hans gerði í greinargerð og nánar verður gerð grein fyrir í næsta kafla. Hann kvað félagið ekki hafa getað staðið skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu vegna þess að peningar voru ekki til. Það sem inn kom hafi farið í laun og efniskostnað. Þá hafi félagið ekki fengið greitt fyrir verk sem það vann sem undirverktaki.
Ákærða bar að hún hefði skrifað undir stofnskjöl félagsins þar eð hún hefði haldið að þurft hefði tvo til að stofna það. Það hefði hins vegar legið fyrir frá upphafi að hún myndi aldrei koma nálægt rekstri félagsins. Hún hafi ekki gert sér grein fyrir hvaða stöðu og ábyrgð hún hafi tekið að sér með undirskriftinni, en hún kannaðist við að hafa undirritað skjöl þar að lútandi sem eru meðal gagna málsins. Við stofnun félagsins hafi henni ekki verið gerð grein fyrir ábyrgð sinni. Þá hafi hún aldrei unnið fyrir félagið, hvorki sem framkvæmdastjóri né annað. Rekstur félagsins hafi alfarið verið í höndum meðákærða. Ákærða kvaðst þar af leiðandi ekki geta tekið afstöðu til talnanna sem koma fram í ákærunni.
IV
Krafa ákærða Y, um að málinu verði vísað frá dómi byggist í fyrsta lagi á því að skattayfirvöld hafi þegar gert honum álag eða viðurlög á virðisaukaskatt og staðgreiðslu af launum starfsmanna félagsins. Honum hafi því þegar verið refsað fyrir það sem hann er ákærður fyrir. Vísar ákærði til 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 2. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008.
Í framangreindu ákvæði mannréttindasáttmálans segir að enginn skuli sæta lögsókn né refsingu að nýju í sakamáli innan lögsögu sama ríkis fyrir brot sem hann hefur þegar verið sýknaður af eða sakfelldur um með lokadómi samkvæmt lögum og sakamálaréttarfari viðkomandi ríkis. Gögn málsins bera með sér að skattayfirvöld hafi lagt álag á þau gjöld félagsins sem þau töldu vangoldin, sbr. 27. gr. laga nr. 50/1988 og 28. gr. laga nr. 45/1987. Þetta eru úrræði sem tengjast innheimtu gjaldanna og fela ekki í sér lokadóm í skilningi framangreinds ákvæðis mannréttindasáttmálans. Kröfu ákærða um frávísun vegna þess er því hafnað.
Í öðru lagi byggir ákærði frávísunarkröfuna á því „að hann hafi gert reikninga á fyrirtæki, sem hafi farið í gjaldþrot á sama tíma og A ehf. og ekkert liggi fyrir um það í gögnum málsins að þau hafi sætt rannsókn vegna greiðslna til ákærða eða fyrirtækis hans eða vegna virðisaukaskattskila sinna. Um sé að ræða tapaðar kröfur og hafi allan tímann verið fyrir hendi ómöguleiki til að standa skil á virðisaukaskatti.“ Það hefur ekki áhrif á lögsókn ákæruvaldsins gegn ákærða hvort aðrir sæti rannsókn vegna hugsanlega tengdra atvika eða ekki. Krafa um að málinu verði vísað frá dómi vegna þess að ákærða hafi verið ómögulegt að standa skil á virðisaukaskattinum byggir á málsástæðu sem leiða myndi til sýknu ef við henni yrði orðið. Samkvæmt þessu er frávísunarkröfu ákærða hafnað.
Ákærða X byggir frávísunarkröfu sína á því að skattayfirvöld hafi tekið ákvörðun um það að lokinni rannsókn að ekki væri ástæða til að refsa henni. Þetta hafi verið staðfest þrívegis og því telji hún að ekki sé hægt að taka sama málið upp aftur gegn sér eins og gert sé með ákærunni, enda sé um að ræða sömu sakarefni. Vísar ákærða til sömu lagaraka og meðákærði, sem rakin voru að framan. Þá vísar hún og til réttmætra væntinga sinna um að hún hefði mátt ætla að málinu væri lokið gagnvart sér. Í II. kafla var gerð grein fyrir gangi málsins hjá skattayfirvöldum og tilkynningum þeirra til ákærðu. Þrátt fyrir að ákærða hefði mátt draga þær ályktanir af þessum tilkynningum að hún myndi ekki sæta viðurlögum af hálfu skattayfirvalda gat hún ekki með réttu litið svo á að þau gætu bundið hendur ákæruvaldsins, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008, færi svo að málið yrði sent þangað. Það eru því ekki efni til að verða við kröfu ákærðu um að vísa málinu frá dómi.
Ákærði Y hefur játað að hafa gegnt þeim trúnaðarstörfum fyrir umrætt einkahlutafélag sem rakin eru í ákæru. Hann kvaðst hafa verið hinn raunverulegi framkvæmdastjóri, en staða ákærðu X hefði verið til málamynda. Það var því hlutverk ákærða hjá félaginu að sjá til þess að gjöldum þeim, sem um getur í ákæru, væri skilað til ríkissjóðs, en það var ekki gert eins og rakið var. Samkvæmt þessu er sannað að ákærði hafi gerst sekur um það sem honum er gefið að sök í ákærunni og verður hann sakfelldur fyrir það, en brot hans eru þar rétt færð til refsiákvæða.
Ákærða X var ráðin framkvæmdastjóri félagsins á stofnfundi þess, auk þess að vera varastjórnarmaður, og það tilkynnt til hlutafélagaskrár eins og rakið var. Gegndi hún stöðunni þar til hún sagði af sér 24. júlí 2007. Hér að framan var rakinn framburður ákærðu um að staða hennar hjá félaginu hafi algerlega verið til málamynda og fær hann stoð í framangreindum framburði ákærða Y. Þrátt fyrir að ekki sé ástæða til að efast um að staða ákærðu hjá félaginu hafi verið með þeim hætti sem ákærðu bera bæði er ekki hægt að líta fram hjá því að lögum samkvæmt hvíla tilteknar skyldur á framkvæmdastjóra einkahlutafélags, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994. Meðal starfsskyldna framkvæmdastjóra samkvæmt lagagreininni er að annast daglegan rekstur félagsins, þar með talið að standa skil á álögðum virðisaukaskatti og afdreginni staðgreiðslu. Ákærðu mátti vera ljóst þegar hún undirritaði fundargerð stofnfundar, þar sem skráð er um ráðningu hennar sem framkvæmdastjóra, að á henni myndu hvíla tilteknar skyldur. Það er því ekki hægt að fallast á að sýkna beri hana vegna þess að staða hennar hafi eingöngu verið til málamynda. Ákærða verður því sakfelld á sama hátt og meðákærði.
Ákærðu hafa ekki áður sætt refsingum. Refsing ákærða Y er hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði sem bundin skal skilorði eins og segir í dómsorði. Þá verður ákærða gert að greiða 27.000.000 krónur í sekt og skal 210 daga fangelsi koma í stað sektar verði hún ekki greidd innan 4 vikna. Refsing ákærðu X er hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði sem bundin skal skilorði eins og segir í dómsorði. Þá verður ákærðu gert að greiða 11.000.000 krónur í sekt og skal 90 daga fangelsi koma í stað sektar verði hún ekki greidd innan 4 vikna. Við ákvörðun sektarfjárhæða var tekið tillit til innborgana á skattaskuldir. Þá er ákærðu X ekki gert að greiða sekt vegna þeirra greiðslna sem gjaldféllu eftir að hún sagði af sér sem framkvæmdastjóri félagsins.
Loks verða ákærðu dæmd til að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna eins og nánar greinir í dómsorði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, Y, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Einnig greiði ákærði 27.000.000 krónur í sekt og komi fangelsi í 210 daga í stað sektar verði hún ekki greidd innan 4 vikna.
Ákærða, X, sæti fangelsi í 3 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins, haldi hún almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Einnig greiði ákærða 11.000.000 krónur í sekt og komi fangelsi í 90 daga í stað sektar verði hún ekki greidd innan 4 vikna.
Ákærði Y greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Magnúsar Björns Brynjólfssonar hrl., 251.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og ákærða X greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Jóns Elvars Guðmundssonar hdl., 251.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.