Hæstiréttur íslands
Mál nr. 637/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 26. nóvember 2008. |
|
Nr. 637/2008. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum(Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fulltrúi) gegn X (Unnar Steinn Bjarndal hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi var staðfestur með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. nóvember 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. desember 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til skýrslu sem tekin var af dóttur varnaraðila fyrir dómi 18. nóvember 2008 verður fallist á með héraðsdómi að fram sé kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi framið brot gegn barninu sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi og að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, eins og þau hafa verið skýrð af Hæstarétti, sé að öðru leyti fullnægt fyrir gæsluvarðhaldi varnaraðila. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. nóvember 2008.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjanes úrskurði að X, kt. [...], verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. desember nk. kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að málsatvik séu með þeim hætti að lögreglustjóranum á Suðurnesjum hafi hinn 4. nóvember sl. borist beiðni um lögreglurannsókn á ætluðu kynferðisbroti gegn A, þriggja ára dóttur kærða. Lýtur barnið forsjá kærða. Hafi strax þótt rökstuddur grunur um að kærði, faðir barnsins, hefði brotið gegn barninu kynferðislega. Hafi kærði verið handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald frá 6. nóvember sl. til dagsins í dag, kl. 16:00. Er vísað til meðfylgjandi gagna málsins svo og til úrskurða dómsins í málum nr. R-546/2008, R-549/2008 og R-556/2008, svo og til dóma Hæstaréttar Íslands í máli nr. 608/2008 og nr. 624/2008.
Aflað hafi verið mikilla gagna í málinu og þar á meðal hafi verið teknar skýrslur af fjölda vitna, en eðli málsins samkvæmt hafi verið örðugt að nálgast innsta hring barnsins þar sem eini forsjáraðili barnsins sé grunaður í málinu. Þá hafi verið framkvæmdar nokkrar húsleitir og rannsökuð haldlögð gögn. Þá hafi bæði kærði og barnið sætt læknisrannsókn og sé sérstaklega vísað til niðurstöðu og læknisvottorðs Jóns R. Kristinssonar barnalæknis. Enn sé beðið niðurstöðu rannsókna, þar á meðal niðurstöðu lífssýna og DNA greiningar. Þá hafi kærði sætt geðrannsókn og sé niðurstöðu hennar beðið.
Með hliðsjón af þeirri rannsókn sem fram hafi farið hjá lögreglu og enn sé í fullum gangi þyki lögreglu sterkur rökstuddur grunur fyrir því að barnið hafi sætt kynferðislegu ofbeldi. Með vísan til gagna málsins og atvika allra þyki lögreglu jafnframt sterkur rökstuddur grunur fyrir því að kærði, faðir barnsins, hafi beitt barnið kynferðislegu ofbeldi.
Lögreglustjóri telur meinta háttsemi kærða mjög alvarlega og að öðrum börnum kunni að vera hætta búin gangi kærði laus. Lögreglustjóri telur að sterkur rökstuddur grunur sé til að ætla að kærði hafi brotið gegn barni sínu á sérstaklega ófyrirleitinn hátt, sem eini forsjáraðili barnsins, og því séu sérstaklega ríkir almannahagmunir fyrir hendi sem krefjist þess að kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Þá vísar lögreglustjóri sérstaklega til greinargerða til Hæstaréttar í kærumálum kærða vegna mála nr. R-549/2008 og nr. R-556/2008 og til þeirra læknisfræðilegu rannsókna sem framkvæmdar hafi verið. Fram hafi komið í skýrslum, bæði af kærða og af núverandi sambýliskonu kærða að vilji þeirra standi til þess að þau haldi áfram sambúð, en sambýliskona hans eigi tvær ungar dætur. Telur lögregla þeim sérstök hætta búin gangi kærði laus.
Lögreglustjóri telur að meint brot kærða kunni að varða við XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum, 200. gr. laganna, með áorðnum breytingum, en slíkt brot geti varðað fangelsi allt að 12 árum.
Með vísan til framangreinds, hjálagðra gagna, almannahagsmuna, 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, er þess farið á leit að fallist verði á framkomna kröfu.
Kærði hefur setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Rannsókn málsins er ekki lokið. Samkvæmt rannsóknargögnum er kærði undir sterkum grun um sérlega alvarleg kynferðisbrot gegn ungu barni sínu. Brot hans gætu varðað allt að 12 ára fangelsi. Með hliðsjón af eðli ætlaðra brota eru uppfyllt skilyrði þess að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi, vegna almannahagsmuna á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Er því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. desember nk. kl. 16:00