Hæstiréttur íslands

Mál nr. 815/2015

Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari)
gegn
Hildiþóri Jónassyni (Guðmundur Ágústsson hrl.)

Lykilorð

  • Bifreið
  • Ölvunarakstur
  • Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
  • Ökuréttarsvipting
  • Refsiákvörðun
  • Dómvenja
  • Ítrekun

Reifun

H var sakfelldur í héraði fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot með því að hafa ekið bifreið undir áhrifum bæði áfengis og fíkniefna og á sama tíma haft í vörslum sínum fíkniefni. Var refsing hans ákvörðuð sekt auk þess sem hann var sviptur ökurétti í átta mánuði. Í dómi Hæstaréttar kom fram að H hefði tvisvar áður hlotið refsingu sem máli skipti við ákvörðun refsingar hans. Annars vegar sekt og sviptingu ökuréttar í 12 mánuði fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og hins vegar fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi og sviptingu ökuréttar í þrjú ár fyrir ölvunarakstur og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna auk fleiri brota. Talið var að þótt H hefði staðist skilorð þess dóms breytti það engu um ákvörðun refsingar hans nú þar sem brot gegn 45. gr. og 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987 hefðu ekki ítrekunaráhrif í skilningi 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga var refsing H ákveðin fangelsi í 30 daga. Þá var hann sviptur ökurétti ævilangt og gert að sæta upptöku á fíkniefnum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Karl Axelsson hæstaréttardómari og Hjördís Hákonardóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. október 2015, að fengnu áfrýjunarleyfi. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd, honum ákvörðuð frekari ökuréttarsvipting og staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um upptöku.

Ákærði krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.

Ákærði játaði sök við þingfestingu málsins og var farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærða er gefið að sök að hafa ekið undir áhrifum bæði áfengis og fíkniefna og að hafa haft fíkniefni á sér. Mældist 0,84‰ vínanda í blóði ákærða og 50 ng/ml metamfetamín í þvagsýni er hann gaf. Þá hafði hann í vörslum sínum 0,04 grömm af amfetamíni sem lögregla lagði hald á. Eru brot þessi rétt heimfærð til 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingar á þeim lögum, og til 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni með áorðnum breytingum, sbr. og tilgreindar reglugerðir settar samkvæmt þeim.

Ákærði hefur tvisvar hlotið refsingu sem skiptir máli við mat á refsingu nú. Sekt með viðurlagaákvörðun 11. febrúar 2009 fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, og var hann þá sviptur ökurétti í 12 mánuði frá sama degi. Með dómi 28. október 2011 var hann dæmdur í fimm mánaða fangelsi skilorðbundið fyrir ölvunarakstur og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna auk fleiri brota, og sviptur ökurétti í þrjú ár frá þeim degi. Ákærði stóðst skilorð þess dóms, en það breytir engu um ákvörðun refsingar hans nú þar eð brot gegn 45. gr. og 45. gr. a. umferðarlaga hafa ekki ítrekunaráhrif í skilningi 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Að framangreindu athuguðu og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga ákveðst refsing hans fangelsi í 30 daga og skal hann sviptur ökurétti ævilangt frá uppsögu hins áfrýjaða dóms 2. september 2015 samkvæmt 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Með dómi þessum er lagfærð ákvörðun hins áfrýjaða dóms um refsingu og ökuréttarsviptingu ákærða í samræmi við dómvenju og er því rétt að áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem greinir í dómsorði.

Það athugast að frágangur ákæru er ekki í samræmi við ákvæði c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Ákærði, Hildiþór Jónasson, sæti fangelsi í 30 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá 2. september 2015.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað eru staðfest.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Guðmundar Ágústssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. september 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglu­stjóranum á höfuðborgarsvæðinu 18. ágúst 2015, á hendur Hildiþóri Jónassyni, kennitala [...], Háaleitisbraut 42, Reykjavík, fyrir umferðar- og fíkniefna­laga­brot í Reykjavík með því að hafa, fimmtudaginn 23. apríl 2015, ekið bifreiðinni NK-115 undir áhrifum áfengis og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist vínandi 0,84 ‰ og metamfetamín 50 ng/ml, í þvagsýni fannst amfetamín) um Lágmúla, inn Ármúla og austur Háaleitisbraut uns aksturinn var stöðvaður á Háaleitisbraut og á sama tíma haft í vörslum sínum 0,04 grömm af amfetamíni sem lögregla lagði hald á.

Teljast brot þessi varða 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997, 5. gr. laga nr. 66/2006 og 3. gr. laga nr. 24/2007, og við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.  Jafnframt er þess krafist að 0,04 grömm af amfetamíni, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

   Ákærði hefur skýlaust játað brot sín.  Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

   Ákærði er fæddur í desember 1983.  Ákærði er í máli þessu fundinn sekur um að aka undir áhrifum áfengis og óhæfur til að stjórna bifreið örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna.  Ákærði er jafnframt fundinn sekur um vörslu ávana- og fíkniefna.  Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 12. ágúst 2015, hefur ákærði tvívegis áður verið fundinn sekur um að aka undir áhrifum áfengis eða óhæfur til að stjórna bifreið örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, síðast með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 28. október 2011.  Ákærði var þá einnig fundinn sekur um brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og var gert að sæta fangelsi í fimm mánuði, skilorðsbundið í tvö ár.  Þar eð ákærði stóðst skilorð dómsins er sú refsing sem ákærða var þá dæmd niður fallin.  Dómurinn hefur þar af leiðandi ekki ítrekunaráhrif, sbr. 61. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Í ljósi framangreinds verður, við ákvörðun refsingar, við það miðað að ákærði sé nú í fyrsta sinn fundinn sekur um að aka undir áhrifum áfengis eða óhæfur til að stjórna bifreið örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, sbr. 1. og 3. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1940.  Með hliðsjón af sakarefni þessa máls og ákvæðum 77. gr. laga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 185.000 króna sekt til ríkissjóðs, sem ákærða ber að greiða innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja en sæta ella fangelsi í fjórtán daga.

   Með vísan til lagaákvæða í ákæru er ákærði sviptur ökurétti í átta mánuði, frá birtingu dóms þessa að telja.

   Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru gerð upptæk til ríkissjóðs 0,04 grömm af amfetamíni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

   Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ágústssonar hrl., 80.600 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 78.808 krónur í annan sakarkostnað.

   Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Halldór Rósmundur Guðjónsson fulltrúi.

   Valborg Steingrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð:

   Ákærði, Hildiþór Jónasson, greiði 185.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja en sæti ella fangelsi í fjórtán daga.

   Ákærði er sviptur ökurétti í átta mánuði, frá birtingu dóms þessa að telja.

   Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 0,04 grömm af amfetamíni.

   Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ágústssonar hrl., 80.600 krónur og 78.808 krónur í annan sakarkostnað.