Hæstiréttur íslands

Mál nr. 271/2014


Lykilorð

  • Skuldamál
  • Lausafjárkaup


                                     

Fimmtudaginn 29. janúar 2015.

Nr. 271/2014.

Kron ehf.

(Daníel Isebarn Ágústsson hrl.)

gegn

Salvador Sapena SL

(Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)

Skuldamál. Lausafjárkaup.

K ehf. var gert að greiða spænska félaginu S skuld samkvæmt nánar tilgreindum reikningum, vegna skófatnaðar sem fyrrgreinda félagið hafði pantað frá hinu síðargreinda. K ehf. var ekki talið hafa tekist sönnun um galla á skófatnaði umfram það sem S hafði gengist við, né heldur að félagið ætti rétt til skaðabóta úr hendi S vegna ætlaðrar óheimillar smásölu S á skóm með vörumerki K ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. apríl 2014. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi voru aðilar í viðskiptasambandi þar sem áfrýjandi pantaði skó hjá stefnda, sem var spænskur skóframleiðandi. Áfrýjandi hefur haldið því fram að einungis hluti þeirra reikninga sem krafa stefnda byggist á, sé útgefinn á sig og eigi stefndi því ekki kröfu á hendur sér vegna þeirra viðskipta. Af gögnum málsins verður ráðið að í sumum tilvikum óskaði áfrýjandi eftir því að varan yrði send tilgreindum erlendum verslunum, en ekki hefur verið sýnt fram á annað en að hann hafi verið kaupandi vörunnar og borið ábyrgð á greiðslu hennar gagnvart stefnda.

Með þessum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

 Eftir þessum úrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Kron ehf., greiði stefnda, Salvador Sapena SL, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2014.

Mál þetta sem dómtekið var 8. janúar 2014 var höfðað 27. desember 2012 af hálfu Salvador Sapena SL, Av de Ronda, 67, 03600 Elda (Alicante), Spáni, á hendur Kron ehf., Laugavegi 48, Reykjavík, til greiðslu skuldar.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 51.441,08 evrur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 19. maí 2011 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða eftir mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi þess að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, að teknu tilliti virðisaukaskatts.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi er skóframleiðandi á Spáni, stofnaður árið 1987. Stefndi hannar og selur skó sem stefnandi framleiðir fyrir stefnda til verslana og í smásölu hér á landi. Stefndi keypti skó frá stefnanda á árinu 2008 fyrir 62.888,26 evrur, á árinu 2009 fyrir 111.209,10 evrur, árið 2010 fyrir 286.255,11 evrur og á árinu 2011 fyrir 168.571,08 evrur samkvæmt reikningum stefnanda. Stefndi greiddi inn á útgefna reikninga, að teknu tilliti til kreditreikninga, að fullu á árunum 2008 – 2010, en árið 2011 námu innborganir stefnda 117.130,00 evrum. Eftir stendur ógreidd skuld samtals að fjárhæð 51.441,08 evrur, sem stefnandi krefur stefnda um greiðslu á í máli þessu. Síðasta innborgun stefnda barst stefnanda í september 2011.

Þegar engar frekari innborganir höfðu borist þann 10. nóvember 2011 innti stefnandi stefnda í tölvubréfi eftir efndum. Í svari stefnda 11. nóvember 2011 kemur fram að stefndi hygðist greiða skuld sína en það væri einfaldlega ekki forgangsatriði. Í tölvupósti stefnanda 21. nóvember 2011 er bent á að þá væru níu mánuðir liðnir frá því að stefnandi afhenti stefnda þær vörur sem skuldin lúti að og óskað er upplýsinga um hvenær stefndi muni greiða skuldina. Sú ósk var ítrekuð í tölvubréfi stefnanda 2. desember 2011. Engin svör bárust frá stefnda. Stefnandi sendi stefnda innheimtuviðvörun 23. apríl 2012 vegna skuldarinnar. Sama dag var stefnda send innheimtuviðvörun vegna skuldar við annað félag, Sapena Trading Company SL, sem er tengt stefnanda. Mál til innheimtu þeirrar skuldar er rekið hér við dómstólinn samhliða máli þessu.

Með tölvubréfi 9. maí 2012 frá lögmanni stefnda til stefnanda hafnaði stefndi allri greiðsluskyldu. Þessi afstaða var rökstudd annars vegar með því að vörur sem stefnandi framleiddi fyrir stefnda hefðu verið að stórum hluta gallaðar og ekki hægt að selja þær, en stefnandi hefði verið upplýstur um þessa galla og viðurkennt þá. Hins vegar að stefnandi hefði einnig brotið gegn samningsskyldum sínum gagnvart stefnda og valdið stefnda öðru tjóni sem enn sé ósótt.

Mótbárur stefnda um galla lúta ekki að reikningum útgefnum af stefnanda heldur að reikningum útgefnum af fyrrgreindu félagi, Sapena Trading Company SL. Mótbárur stefnda um meint samningsbrot stefnanda og bótarétt stefnda, byggir stefndi á því að viðskiptasamband aðila hafi tekið snöggan endi í nóvember 2011 þegar stefnda hafi verið bent á að stefnandi væri að selja skó, sem hannaðir voru af stefnda og báru hans vörumerki, en þegar þetta hafi spurst út hafi viðskiptavinir stefnda á Spáni nánast alveg hætt að panta vörur frá stefnda. Þessi ábending til stefnda var um skósölu í verslun Sapena Trading Company SL, en stefnandi rekur ekki útsöluverslun á Spáni.

Af hálfu stefnda er á því byggt að réttur hans til þess að hafa uppi mótmæli og kröfur vegna galla, afsláttar, skaðabóta o.fl. ráðist ekki af því hvernig stefnandi og Sapena Trading Company SL hafi ákveðið að haga sínu bókhaldi og uppgjöri innbyrðis, eða í hvaða nafni samskipti og reikningar voru gerðir. Stefndi hafi talið að viðskiptum og samskiptum aðila væri endanlega lokið. Stefnandi byggir á því að um aðskilda lögaðila sé að ræða og að stefnda beri að gera upp viðskiptaskuld sína við stefnanda.

Málsástæður og lagarök stefnanda

1) Um höfuðstól dómkröfu stefnanda

Krafa stefnanda um að stefndi greiði honum 51.441,08 evrur sé byggð á mismun á útgefnum reikningum stefnanda til stefnda og mótteknum innborgunum stefnda á viðskiptareikning hans hjá stefnanda. Stefnandi hafi á tímabilinu 8. nóvember 2010 til 9. september 2011 gefið út reikninga og kreditreikninga til stefnda að fjárhæð samtals 168.571,08 evrur. Innborganir stefnda nemi hins vegar einungis 117.130,00 evrum. Mismunurinn, 51.441,08 evrur, myndi höfuðstól dómkröfu stefnanda.

Á viðskiptayfirlitinu sjáist að innborganir stefnda stemmi ekki við fjárhæðir einstakra útgefinna reikninga heldur hafi verið greitt inn á viðskiptareikninginn, gjarnan í heilum þúsundum evra. Fram komi á viðskiptayfirlitinu, sbr. töflu 1 hér að neðan, að stefnandi hafi bakfært á árinu 2011 fimm af reikningum sínum til stefnda, þ.e. reikninga nr. 1427, 474, 478, 944 og 1055. Þá hafi stefnandi að auki gefið út til stefnda kreditreikninga samtals að fjárhæð 12.789,24 evrur. Þar sem ekki liggi fyrir hvaða reikninga stefndi hugðist greiða með innborgunum sínum telji stefnandi rétt að miða við að með þeim hafi verið greiddir þeir reikningar sem fyrst hafi verið gefnir út. Líti stefnandi því svo á að með þeim kreditreikningum, að viðbættum áðurnefndum innborgunum stefnda, teljist reikningar á viðskiptayfirlitinu til og með reikningi nr. 620 vera fullgreiddir, auk þess sem greiddar hafi verið 625,84 evrur upp í reikning nr. 621. Eftir standi því ógreiddar eftirstöðvar þess reiknings að fjárhæð 187,36 evrur auk ellefu annarra reikninga, að fjárhæð 51.253,72 evrur, þ.e. samtals 51.441,08 evrur, sem sé því stefnufjárhæð máls þessa, sbr. töflu 1 hér að neðan.

Dags.

Reikn. nr.

Fjárhæð reiknings

Bakfærðir reikningar

Greitt með kreditreikn

Mótteknar innborganir

Ráðstöfun innborgana

Ógreitt

0,13

0,13

8.11.2010

1366

1.805,00

1.805,00

13.12.2010

1426

4.129,65

4.129,65

14.12.2010

1427

4.775,65

4.775,65

4.2.2011

160

1.259,70

1.259,70

22.2.2011

5.000,00

22.2.2011

269

665,00

665,00

22.2.2011

270

2.759,75

2.759,75

22.2.2011

271

3.929,20

3.929,20

22.2.2011

272

2.196,40

2.196,40

22.2.2011

273

1.656,80

1.656,80

23.2.2011

5.000,00

24.2.2011

4.000,00

25.2.2011

5.000,00

28.2.2011

325

3.401,00

322,39

3.078,61

3.3.2011

354

8.925,00

8.925,00

4.3.2011

380

2.880,40

2.880,40

7.3.2011

393

1.665,35

1.665,35

10.3.2011

460

4.168,60

4.168,60

10.3.2011

471

1.073,50

1.073,50

10.3.2011

472

2.948,80

2.948,80

11.3.2011

473

1.607,40

1.607,40

11.3.2011

474

813,20

813,20

11.3.2011

478

801,80

801,80

11.3.2011

479

775,20

775,20

15.3.2011

512

724,85

724,85

16.3.2011

11.500,00

18.3.2011

534

2.786,35

2.786,35

18.3.2011

536

2.360,75

2.360,75

21.3.2011

549

70.938,00

70.938,00

22.3.2011

10.000,00

23.3.2011

598

2.924,10

2.924,10

23.3.2011

599

1.736,60

1.736,60

23.3.2011

600

1.496,25

1.496,25

23.3.2011

601

3.648,00

3.648,00

23.3.2011

620

2.766,40

2.766,40

23.3.2011

621

813,20

625,84

187,36

24.3.2011

655

2.371,20

2.371,20

24.3.2011

656

1.467,75

1.467,75

25.3.2011

658

3.545,40

3.545,40

30.3.2011

9.500,00

4.4.2011

799

2.312,00

2.312,00

14.4.2011

903

1.246,40

1.246,40

19.4.2011

918

1.657,57

1.657,57

19.4.2011

916

1.419,30

1.419,30

19.4.2011

917

1.404,10

1.404,10

26.4.2011

928

714,00

714,00

26.4.2011

927

-4.775,65

-4.775,65

28.4.2011

944

38.765,22

38.765,22

17.5.2011

979

-38.765,22

-38.765,22

18.5.2011

981

32.211,00

32.211,00

19.5.2011

987

2.905,00

2.905,00

25.5.2011

994

-801,80

-801,80

25.5.2011

995

-813,20

-813,20

26.5.2011

998

-4.775,65

-4.775,65

26.5.2011

1000

-767,60

-767,60

11.7.2011

10.000,00

12.7.2011

1039

-5.040,57

-5.040,57

19.7.2011

8.000,00

20.7.2011

1043

-7.033,55

-7.033,55

22.7.2011

10.000,00

4.8.2011

3.700,00

10.8.2011

10.000,00

12.8.2011

20.000,00

31.8.2011

1054

-724,85

-724,85

31.8.2011

1055

4.775,65

4.775,65

6.9.2011

5.000,00

6.9.2011

430,00

9.9.2011

1060

-5.157,45

-5.157,45

 

 

168.571,08

0,00

0,00

117.130,00

117.130,00

51.441,08

Tafla 1: Ógreiddir reikningar stefnanda til stefnda

Umræddir tólf reikningar beri með sér að þeir séu gefnir út vegna sölu og afhendingu á skófatnaði stefnanda. Stefnandi byggi á því að fyrir liggi viðurkenning stefnda á greiðsluskyldu sinni, sbr. niðurlag tölvubréfs stefnda til stefnanda 11. nóvember 2011, þar sem stefndi lýsi því yfir að hann muni borga en það sé „einfaldlega ekki forgangsatriði“.

Þrátt fyrir innheimtutilraunir stefnanda, sbr. einkum tölvubréf 10. og 21. nóvember 2011, tölvubréf 2. desember 2011 og innheimtuviðvörun, dags. 23. apríl 2012, hafi engar frekari innborganir borist frá stefnda. Umrædd fjárkrafa sé því ógreidd og stefnanda nauðsynlegt að höfða mál til innheimtu skuldarinnar.

2) Um kröfu um dráttarvexti

Kröfu sína um dráttarvexti byggi stefnandi á 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Svo sem hinir ógreiddu reikningar beri með sér hafi aðilar ýmist samið um að greiða skyldi 50% söluverðs áður en framleiðsla viðkomandi skófatnaðar hæfist og þau 50% sem eftir stæðu skyldi greiða áður en hann yrði afhentur eða um að greiða skyldi 30% fyrir fram og 70% innan 60 daga. Því til samræmis sé gjalddagi hvers reiknings sérstaklega tiltekinn á honum.

Stefnandi miði upphafsdag dráttarvaxtakröfu sinnar við 19. maí 2011, gjalddaga síðasta ógreidda reiknings stefnanda til stefnda, reikning nr. 987. Í 1. mgr. 5. gr. laganna sé kveðið á um að hafi gjalddagi verið fyrir fram ákveðinn sé kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti sem reiknist af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi. Stefnanda sé því heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti frá 19. maí 2011 til greiðsludags.

3) Um kröfu um málskostnað

Stefnandi vísi til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, varðandi kröfu sína um málskostnað. Þar sem stefnandi geti ekki nýtt sér greiddan virðisaukaskatt sem innskatt í rekstri sínum sé þess krafist að tekið verði tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar.

Tilvísun til helstu lagaraka

Stefnandi byggi kröfu sína á almennum reglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða og greiðslu skulda. Auk þess styðjist krafa stefnanda við ákvæði laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, með áorðnum breytingum, einkum VI. og VII. kafla og við meginreglur íslensks réttar, einkum kröfu- og samningaréttar.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi mótmæli öllum kröfum og málsástæðum stefnanda.

Rangur og ósannaður málsgrundvöllur stefnanda

Stefndi byggi sýknukröfu sína á því að málatilbúnaður stefnanda sé rangur og ósannaður. Stefnandi byggi mál sitt á því að hann eigi kröfu á hendur stefnda. Í stefnu sé þó ekki nema að mjög takmörkuðu leyti gerð grein fyrir meintum kröfum stefnanda. Þar fullyrði stefnandi einfaldlega að hann eigi kröfu á stefnda vegna framleiðslu á skóm. Vísað sé til reikninga sem stefnandi staðhæfi að hafi verið gefnir út en ekki greiddir að öllu leyti. Hvorki í stefnu né fylgiskjölum hennar sé þó að finna sönnun fyrir því hvað búi að baki þeim reikningum sem stefnandi byggi á. Í stefnu sé ekki gerð grein fyrir samningssambandinu sem liggi til grundvallar reikningunum og í fylgiskjölum sé hvorki að finna samninga né önnur sönnunargögn fyrir því að stefndi hafi beðið um alla þá framleiðslu sem stefnandi byggi kröfu sína á.

Stefnandi byggi þannig málatilbúnað sinn fyrst og fremst á eigin fullyrðingum og töflum sem hann hafi sjálfur útbúið. Stefndi hafni því að ósannaðar fullyrðingar og töflur stefnanda hafi nokkurt sönnunargildi í málinu.

Almennar reglur samningaréttar og réttarfars leiði til þess að sá sem haldi fram samningi beri að sýna fram á tilurð hans, aðila, efni og annað sem hann telji felast í samningnum. Stefnandi hafi ekki útskýrt hvaða lagareglur gildi um viðskipti aðila en stefnandi sé spænskur. Verði ekki betur séð en að stefnandi byggi málatilbúnað sinn algerlega á íslenskum reglum án þess að víkja að ákvæðum laga nr. 43/2000, um lagaskil á sviði samningaréttar, eða annars sem ráðið geti lagavali.

Stefndi hafni því að í tölvupóstum á dómskjali komi fram viðurkenning á kröfu stefnanda. Í mesta lagi felist í þessum samskiptum viðurkenning á því að aðilar hafi átt í viðskiptasambandi, enda sé það óumdeilt. Samskiptin feli þó ekki í sér neina viðurkenningu á tilteknum kröfum, fjárhæðum þeirra, bakgrunni eða útreikningum.

Verði talið að stefndi sé í skuld við stefnanda sé sú skuld aðeins brot af þeirri kröfu sem stefnandi geri í málinu. Þá eigi stefndi auk þess gagnkröfur til skuldajafnaðar. Verði fallist á kröfur stefnanda að einhverju leyti sé þess krafist að til skuldajafnaðar gagnvart kröfu stefnanda komi gagnkröfur stefnda. Gagnkröfur stefnda séu mun hærri en krafa stefnanda, sé hún einhver.

Um kröfugerð stefnanda

Jafnvel þótt litið verði svo á að stefnandi eigi einhverja kröfu á hendur stefnda þá sé útreikningur dómkröfunnar rangur. Stefnandi taki ekki tillit til þess að stefndi eigi gagnkröfur á hendur stefnanda sem komi til lækkunar kröfum stefnanda. Auk þess séu útreikningarnir óljósir.

Skór, sem stefnandi hafi ekki afhent

Stefndi hafni kröfum og málatilbúnaði stefnanda með öllu enda hafi stefnandi engin gögn lagt fram sem sýni fram á réttmæti þeirra reikninga sem hann byggi kröfu sína á. Af málatilbúnaði og gögnum stefnanda megi auk þess sjá að stefnandi krefjist greiðslna fyrir skó sem hann viðurkenni sjálfur að hafa aldrei afhent. Stefnandi hafi ekki skilað þeim skópörum sem send hafi verið til hans til að sýna fram á galla í framleiðslunni. Skórnir séu tískuvara og tímabilið, sem þessum skóm hafi verið ætlað, sé nú löngu liðið og skórnir séu því einskis virði fyrir stefnda í dag. Stefndi hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að hann hafi ekki getað selt skóna. 

Stefnandi hafi borið ábyrgð á ýmsum smásöluverslunum

Stefnandi sé staðsettur á Spáni og stefndi hafi selt hluta af framleiðslu stefnanda til Spánar. Í hagræðingarskyni hafi orðið að samkomulagi að stefnandi sendi skósendingar beint til nokkurra fyrirtækja á Spáni og sæi einnig um að rukka þau fyrirtæki. Stefnandi taki þó ekkert tillit til þessa samkomulags í kröfugerð sinni. Stefnandi nefni það ekki í málatilbúnaði sínum að stefnandi hafði skuldbundið sig til þess að innheimta hjá ýmsum smásöluverslunum á Spáni. Ekki nóg með það heldur hafi stefndi ábyrgst greiðslur frá tilteknum smásöluverslunum.

Gallar á vörum frá stefnanda

Stefnandi viti af því að fjöldi skópara hafi verið gallaður en kjósi þó að taka ekki tillit til þess í kröfugerð sinni og málatilbúnaði, nema að örlitlu leyti í varakröfu (svo). Skór sem beri vörumerki stefnda séu bæði gæða- og tískuvörur. Gallar á skónum, jafnvel smávægilegir, leiði þannig til þess að skórnir verði ónothæfir enda enginn markaður fyrir lítillega gallaða eða viðgerða skó. Stefndi hafi gert kröfu um 100% afslátt af nánast öllum gölluðum skóm og stefnanda sé ekki rétt að leggja eigið mat á afsláttinn. Þar sem stefndi geti ekki selt gölluð skópör verði afslátturinn að vera 100%. Stefnandi hafi ekki skilað skónum sem hann hafi fengið senda til að kanna galla. Engu að síður geri stefnandi nú m.a. kröfu um greiðslu fyrir þá skó. Auk þess hafi stefnandi ekki greitt kostnað vegna sendingarinnar eins og honum hafi borið að gera.

Skaðabætur

Komið hafi í ljós að stefnandi hafi framleitt vörur stefnda til eigin nota. Stefnandi hafi framleitt skó eftir hönnun stefnda, Kron by Kronkron, og selt þá í útsöluverslunum sínum. Stefndi hafi að sjálfsögðu aldrei samþykkt að stefnandi mætti framleiða og selja Kron by Kronkron skóna í sína þágu. Háttsemi stefndanda feli þannig í sér gróft brot gegn trúnaðarskyldu stefnanda sem framleiðanda eftir hönnun stefnda. Stefndi hafi orðið fyrir gríðarmiklu tjóni í kjölfar þessarar ólögmætu háttsemi stefnanda enda hafi stefndi misst viðskiptavini sína á Spáni í kjölfarið. Stefndi eigi því kröfu um skaðabætur vegna þess tjóns. Krafan byggi á almennu skaðabótareglunni og séu öll skilyrði hennar uppfyllt. Háttsemi stefnanda sé saknæm og ólögmæt og hafi valdið stefnda tjóni. Tjón stefnda sé í orsakasambandi við háttsemi stefnanda og sennileg afleiðing af henni. Stefndi telji að tjón sitt nemi a.m.k. 200.000 evrum.

Stefndi hafi einnig orðið fyrir tjóni vegna galla í vörum stefnanda. Stefndi hafi m.a. þurft að bæta viðskiptavinum sínum tjón þeirra vegna þess að þeir hafi keypt gallaða skó. Einnig hafi stefndi þurft að senda skó í viðgerð á Íslandi með tilheyrandi kostnaði. Þá hafi stefndi orðið fyrir miklum tekjumissi vegna þess að ekki hafi verið hægt að selja gallaða skó. Gallaðir skór hafi tilheyrt vörumerkinu Kron by Kronkron en það séu söluhæstu skórnir í verslun stefnda og því sé tjónið vegna sölutaps mikið, eða rúmlega 21 milljón króna.

Stefnandi hafi ekkert gert til að takmarka tjón í viðskiptum aðila. Þannig hafi stefnandi t.d. neitað að afhenda skó nema stefndi greiddi að fullu reikninga, sem þó hafi verið gríðarmikill ágreiningur um. Stefnandi hafi vitað að stefnda var nauðsynlegt að fá vörurnar á réttum tíma enda um að ræða tískuvöru sem aðeins sé seljanleg á stuttu tímabili, sem spanni varla meira en hálft ár. Þetta, eitt og sér, hafi valdið stefnda tjóni. Skórnir séu tískuvara og verðmæti þeirra verði lítið sem ekkert komist þeir ekki í búðir fyrir það tímabil sem þeim sé ætlað.

Fjárhæð gagnkrafna stefnda

Öll framangreind atriði komi til lækkunar á kröfum stefnanda, séu þær yfirleitt til staðar. Ljóst sé að jafnvel þótt fallist yrði á kröfu stefnanda í heild sinni þá myndu framangreindar gagnkröfur leiða til þess að endanleg krafa stefnanda yrði engin. Í greinargerð áskildi stefndi sér rétt til að leggja síðar fram tölulega útreikninga á gagnkröfum sínum, eftir atvikum að fengnum frekari gögnum, en engir slíkir útreikningar hafa verið lagðir fram í málinu.

Dráttarvextir

Upphafstíma dráttarvaxtakröfu stefnanda sé mótmælt. Engin stoð sé fyrir því að krefjast dráttarvaxta frá 19. maí 2011. Dráttarvextir verði fyrst dæmdir af kröfu stefnanda, verði hún dæmd, frá dómsuppsögudegi. Málatilbúnaður stefnanda sé allur ósannaður og krafan svo óskýr að ekki sé hægt að gera ráð fyrir því að stefndi hefði getað lagt mat á hana fyrr en dómur falli, fari svo að krafan verði dæmd að einhverju leyti. Ósanngjarnt sé að stefnandi njóti þess í formi dráttarvaxta. Vísi stefndi að þessu leyti til 9. gr. laga nr. 38/2001.

Aðrar málsástæður og lagarök stefnda

Um rétt til skuldajafnaðar vísist til almennra reglna kröfuréttar, og 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Vísað sé til reglna samninga- og kröfuréttar að því er varði réttar efndir samninga og trúnaðarskyldu samningsaðila. Þá sé vísað til reglna um afpöntun, galla, afslátt og skaðabætur. Vísað sé til sönnunarreglna einkamálaréttarfars um að sá sem haldi fram kröfu beri að sýna fram á réttmæti kröfunnar, grundvöll hennar og umfang. Málskostnaðarkrafa stefnda eigi sér stoð í 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Sökum óvissu í málinu sé því mótmælt að stefnandi eigi rétt til málskostnaðar úr hendi stefnda þó að kröfur hans verði að öðru leyti teknar til greina, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ekki er í greinargerð stefnda að finna rökstuðning fyrir kröfu stefnda um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun.

Niðurstaða

Mál þetta er höfðað til innheimtu skuldar stefnda við stefnanda samkvæmt viðskiptayfirliti um útgefna reikninga stefnanda á tímabilinu frá 8. nóvember 2010 til 19. maí 2011 og innborganir stefnda á viðskiptareikninginn. Stefndi telur tilefni reikninganna ósannað og heldur því jafnframt fram að hann eigi gagnkröfur á hendur stefnanda til skuldajafnaðar. Stefndi viðurkennir að aðilar hafi átt í viðskiptasambandi og mótmælir því ekki að hafa innt af hendi þær innborganir sem tilgreindar eru í viðskiptayfirliti stefnanda.

Stefnandi hefur lagt fram afrit reikninga þeirra sem hann byggir kröfur sínar á, upplýsingar um pantanir stefnda og tölvupóstsamskipti aðila um viðskiptin þar sem meðal annars kemur fram að stefndi hafði hug á að greiða skuld sína við stefnanda í október 2011, að fjárhæð 51.441,08 evrur, en þá hafði verið tekið tillit til kreditreikninga sem stefnandi gaf út á tímabilinu 15. maí til 9. september 2011. Upplýst er að sá afsláttur sem felst í kreditreikningunum var samkomulag aðila um uppgjör vegna galla á skóm í tilteknum sendingum frá stefnanda og að stefndi hefur engar frekari kröfur gert vegna galla á skóm í sendingum frá stefnanda.

Um viðskipti aðila fer að lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna, að teknu tilliti til ákvæða XV. kafla þeirra. Stefnandi þykir, með hliðsjón af þeim lögum og almennum reglum kröfuréttar og samningaréttar, hafa sýnt nægilega fram á að hann eigi þá kröfu á hendur stefnda sem hann krefst greiðslu á og að sú krafa sé ógreidd.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að hann eigi gagnkröfur á hendur stefnanda vegna galla í tilteknum sendingum og skaðabótakröfu vegna óheimillar smásölu stefnanda á skóm með vörumerki stefnda. Við meðferð málsins hefur komið fram að stefndi hafði á árinu 2011 viðskipti við annað fyrirtæki, Sapena Trading Company SL. Upplýst er í málinu að stefndi hætti að greiða inn á viðskiptareikning sinn hjá stefnanda, Salvador Sapena SL, þegar fyrirtækið Sapena Trading Company SL synjaði stefnda um frekari skósendingar nema það fengi fyrst greidda skuld vegna fyrri sendinga. Þá er upplýst að gallar þeir sem stefndi vísar til í máli þessu að heimili honum gagnkröfu eru á skóm í sendingum sem stefndi fékk frá fyrirtækinu Sapena Trading Company SL, en ekki frá stefnanda. Loks eru þær málsástæður stefnda sem byggja á því að stefnandi hafi valdið stefnda tjóni með því að hafa án heimildar selt vörur stefnda á útsöluverði í verslun sinni á Spáni þeim annmörkum háðar að ekki er upplýst um að stefnandi reki neinar smásöluverslanir á Spáni. Verslanir mun á hinn bóginn um tíma hafa rekið fyrrnefndur viðskiptaaðili stefnda, Sapena Trading Company SL, sem einnig hefur höfðað mál hér fyrir dóminum á hendur stefnda til greiðslu viðskiptaskuldar stefnda við sig. Þessar sömu málsástæður um gagnkröfur hefur stefndi einnig uppi til varnar í því dómsmáli.

Um tengsl félaganna er upplýst að fyrirsvarsmaður stefnanda, sem stofnað var 1987, er faðir fyrirsvarsmanns hins félagsins, sem stofnað var árið 2009. Stefndi hefur borið því við að félögin hafi komið fram sem einn og sami aðili gagnvart stefnda og að hann hafi ekki orðið var við þá breytingu sem varð þegar hluti viðskiptanna var fluttur yfir í nýtt félag. Stefnda hlaut þó að hafa verið ljóst að um tvö aðskilin fyrirtæki var að ræða. Um það bera vitni tölvupóstur með staðfestingu starfsmanns stefnda á skilningi á því að þetta séu aðskilin fyrirtæki, fyrirliggjandi upplýsingar um aðgreind samskipti stefnda við starfsmenn hvors um sig, móttaka sendinga frá hvoru fyrirtæki um sig og innborganir á reikninga hvors um sig. Hafna verður kröfum stefnda um að gagnkröfur sem hann kunni að eiga á hendur öðrum aðila komi til álita til skuldajafnaðar við kröfur stefnanda á hendur honum.

Málsástæður stefnda, sem stefnandi hefur mótmælt, um að stefnandi krefjist greiðslna fyrir skó sem hann hafi aldrei afhent og um að stefnandi hafi skuldbundið sig til að innheimta kröfur fyrir stefnda hjá ýmsum smávöruverslunum á Spáni, hafa ekki verið studdar neinum gögnum eða rökum og verður þeim því hafnað. Stefndi hefur ekki fært fram nein gögn eða rök til stuðnings kröfum sínum um bætur vegna tjóns að fjárhæð rúmlega 21 milljón króna vegna sölutaps og viðgerðakostnaðar á skóm frá stefnanda. Þá hefur ekkert komið fram í málinu sem styðji þá fullyrðingu stefnda að stefnandi hafi valdið stefnda tjóni með því að neita að afhenda skó nema stefndi greiddi að fullu reikninga sem mikill ágreiningur hafi verið um. Stefndi hefur í máli þessu lagt fram fjölda skjala sem eingöngu eiga við um viðskipti stefnda við fyrirtækið Sapena Trading Company SL og er sú skjalaframlagning hvorki til gagns fyrir málatilbúnað stefnda né skýrleika málsins.

Stefndi hefur hvorki sýnt fram á að hann eigi gagnkröfur á hendur stefnanda til skuldajafnaðar, né að hann hafi greitt skuld sína við stefnanda. Réttmæti kröfu stefnanda hefur honum ekki tekist að hnekkja og verður því gert að greiða hana.

Stefnandi krefst dráttarvaxta á kröfu sína frá 19. maí 2011 og miðar þar við gjalddaga síðasta ógreidda reiknings sem hann gaf út. Stefndi mótmælir þeim upphafsdegi dráttarvaxta. Dráttarvaxtakröfu sína styður stefnandi við 1. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, sem heimilar kröfuhafa að reikna dráttarvexti frá og með gjalddaga peningakröfu, hafi gjalddagi verið fyrir fram ákveðinn. Upplýst er að í viðskiptasambandi aðila gaf stefnandi út reikninga fyrir pöntunum, gert var ráð fyrir að hluti greiddist fyrir fram og eftirstöðvar eftir afhendingu sendinga, en í raun greiddi stefndi ekki hvern reikning fyrir sig, heldur greiddi inn á viðskiptareikning sinn hjá stefnanda í slumpum. Í viðskiptasambandinu hafði þannig ekki verið lagt neitt upp úr skráðum gjalddaga á reikningum, eins og viðskiptayfirlitið sem stefnandi hefur lagt fram ber ljóslega með sér. Ekki verður séð að stefnandi hafi, við ráðstöfun innborgana stefnda inn á elstu skuld hverju sinni, svo sem honum var heimilt, reiknað dráttarvexti eða annars konar álag á höfuðstól frá skráðum gjalddaga þeirra reikninga. Að þessu virtu þykir eins og á stendur rétt að taka mið af reglu 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga, sem á við þegar ekki hefur verið samið um gjalddaga kröfu, og reikna dráttarvexti frá og með þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara með réttu um greiðslu.

Þótt fyrir liggi í málinu tölvupóstsamskipti starfsmanns stefnda og fyrirsvarsmanns stefnanda frá haustmánuðum 2011, þar sem rætt er um stöðu viðskiptaskuldarinnar að teknu tilliti til einstakra reikninga og innborgana og þar komi fram greiðslutilmæli af hálfu stefnanda, þykja þau ekki nægilega afgerandi til þess að unnt sé, gegn andmælum stefnda, að leggja þau samskipti til grundvallar um það tímamark þegar stefnandi sannanlega krafði stefnda með réttu um greiðslu. Með kröfubréfi 23. apríl 2012 var stefndi sannanlega krafinn um greiðslu og verður því fallist á kröfu stefnanda um dráttarvexti mánuði síðar eða frá 23. maí 2012.

Stefnda verður í samræmi við úrslit málsins og 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 gert að greiða stefnanda málskostnað, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Engin efni þykja til að fallast á þá málsástæðu stefnda að beita beri 3. mgr. 130. gr. laganna vegna óvissu í málinu. Málskostnaður, sem stefnda verður gert að greiða stefnanda, þykir hæfilega ákveðinn 852.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur.

Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Kron ehf., greiði stefnanda, Salvador Sapena SL, 51.441,08 evrur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 23. maí 2012 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 852.000 krónur í málskostnað, þar með talinn er virðisaukaskattur á málflutningsþóknun.