Hæstiréttur íslands
Mál nr. 351/2004
Lykilorð
- Líkamsárás
- Brot gegn valdstjórninni
- Hegningarauki
- Samverknaður
|
|
Fimmtudaginn 20. janúar 2005. |
|
Nr. 351/2004. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Kristjáni Halldóri Jenssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Líkamsárás. Brot gegn valdstjórninni. Hegningarauki. Samverknaður.
K var sakfelldur fyrir líkamsárás og alvarlegar hótanir í garð lögreglumanns og fjölskyldu hans. Refsing hans, að teknu tilliti til 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 77. gr. sömu laga auk 2. mgr. 70. gr. laganna, var með vísan til 1. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ákveðin fangelsi í 3 mánuði. Ekki þótti efni til að skilorðsbinda refsinguna. Kröfu brotaþola um greiðslu á tannlæknakostnaði var vísað frá dómi þar sem hún var byggð á áætlun en engin önnur gögn lágu fyrir um þennan kostnað. Að öðru leyti var skaðabótakrafan tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. ágúst 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvalds en til vara að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess að bótakröfu Ó verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.
Í héraðsdómi er lýst málavöxtum og framburði vitna. Kemur þar meðal annars fram að lögreglumennirnir F og B, voru vitni að þeirri árás sem mál þetta fjallar um. Með framburði þeirra, vætti brotaþolans Ó og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms þykir sannað að ákærði hafi í félagi við meðákærða D ráðist á Ó með höggum og spörkum, eins og nánar er lýst í ákæru. D unir héraðsdómi. Þegar litið er til vættis vitna og framburðar ákærða þykir hins vegar ósannað að Ó hafi legið í götunni er ákærði sparkaði í hann. Ákærða Kristjáni er meðal annars gefið að sök að hafa valdið brotaþola sári á enni. Ó hefur kannast við að hann hafi hlotið þetta sár áður en til þeirrar árásar kom sem ákæran lýtur að. Verður ákærði þegar af þeirri ástæðu sýknaður af því að hafa valdið þessum áverka. Með framburði áðurnefndra tveggja lögreglumanna og brotaþola, sem fær stoð í læknisvottorðum 22. september 2003 og 8. mars 2004 og öðrum gögnum málsins þykir sannað að afleiðingar árásarinnar hafi að öðru leyti en að framan getur verið þær sem í ákæru greinir. Er brotið rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um brotið, sem honum er að sök gefið í II. kafla ákæru, en það varðar við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann hlotið sjö refsidóma. Á árinu 1998 var hann tvívegis dæmdur, annars vegar í mars í 15 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir þjófnað, gripdeild og rán, en hins vegar í desember í 16 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár fyrir þjófnað. Refsing samkvæmt fyrra dóminum var dæmd með í þeim síðari. Í október 2002 og júní 2003 var hann dæmdur til sektargreiðslna vegna fíkniefnalagabrota. Þá var hann dæmdur 24. nóvember 2003 til greiðslu sektar fyrir líkamsárás, brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981, og loks 14. apríl 2004 til greiðslu sektar fyrir fíkniefnalagabrot og ýmis brot gegn vopnalögum.
Brot ákærða, sem fjallað er um í máli þessu, eru framin áður en tveir síðastgreindir dómar voru upp kveðnir. Við ákvörðun refsingar hans er því litið til 78. gr. almennra hegningarlaga og einnig 77. gr. sömu laga. Til þyngingar refsingunni ber að líta til þess að ákærði framdi brotið samkvæmt I. kafla ákæru í félagi við annan mann, sbr. 2. mgr. 70. gr. laganna. Ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir fólskulega líkamsárás og alvarlegar hótanir í garð lögreglumanns og fjölskyldu hans. Þegar allt framangreint er virt og með vísan til þess að ákæruvaldið hefur ekki krafist þyngingar á refsingu ákærða, verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um refsingu hans, sbr. 1. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum. Þegar brot ákærða og sakaferill hans eru virt þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.
Ákærði hefur ekki gert efnislegar athugasemdir við niðurstöðu héraðsdóms um skaðabótakröfu brotaþola að öðru leyti en því að hann hafnar að greiða tannlæknakostnað á þeim forsendum að sá kostnaður byggist á áætlun. Engin önnur gögn liggja fyrir um þennan kostnað og verður kröfu um hann því vísað frá dómi. Þar sem ákærði hefur ekki mótmælt kröfunni efnislega að öðru leyti verður hún tekin til greina með 132.385 krónum ásamt vöxtum eins og nánar segir í dómsorði.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað að því er varðar ákærða Kristján er staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Kristjáns Halldórs Jenssonar, og sakarkostnað.
Ákærði greiði Ó, 132.385 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. júní 2003 til 10. nóvember 2003, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmar Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 180.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 9. júlí 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 23. júní s.l., hefur ríkissaksóknari höfðað hér fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra með ákæru, útgefinni 2. febrúar 2004, á hendur D, kt. [...] og Kristáni Halldóri Jenssyni, kt. [...], Urðargili 17, Akureyri, fyrir eftirgreind brot framin aðfaranótt sunnudagsins 29. júní 2003 á Akureyri.
A.
„gegn ákærðu báðum fyrir líkamsárás, með því að ráðast á Ó, kt. [...], á Hólabraut og fella hann í götuna og slá hann mörg hnefahögg í andlit og líkama og sparka í hann liggjandi með því afleiðingum að hann nefbrotnaði, tvær framtennur í efri gómi brotnuðu, hann marðist og bólgnaði um augu, hlaut sár á enni og skurðsár á vinstri kinn og marðist og hruflaðist á vinstra hné.
Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 20, 1981 og lög nr. 82, 1998.“
B.
„gegn ákærða Kristjáni Halldóri fyrir brot gegn valdstjórninni á lögreglustöðinni, með því að hóta J, lífláti og ofbeldi og hóta að beita fjölskyldu hans ofbeldi.
Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.“
Af ákæruvaldsins hálfu er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.
Af hálfu Ó er krafist skaðabóta að fjárhæð 1.289.795, auk vaxta og dráttarvaxta, samkvæmt vaxtalögum nr. 38, 2001.
Af hálfu beggja hinna ákærðu er aðallega krafist sýknu af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu og að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara er af beggja hálfu krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og lækkunar á bótakröfu. Þá krefjast verjendur beggja hinna ákærðu þess að málskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði og að lokum krefjast þeir báðir hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa.
Skipaður réttargæslumaður Ó, krefst auk bótakröfunnar hæfilegra réttargæslulauna sér til handa.
I.
Samkvæmt lögregluskýrslum eru málsatvik þau að sunnudaginn 29. júní 2003, kl. 04:30 voru lögreglumenn á leið norður Geislagötu á Akureyri á lögreglubifreið, er þeir sáu hvar ákærði D var í átökum við Ó á bílastæði vestan Hólabrautar. Óku lögreglumennirnir áfram norður Geislagötu og vestur Gránufélagsgötu og síðan suður Hólabraut að þeim stað og sáu þá báða ákærðu hlaupa á eftir Ó og ráðast að honum. Segir í lögregluskýrslu að Ó hafi fallið, en þeir ákærðu D og Kristján, hafi haldið áfram barsmíðum þar til lögreglan kom á staðinn.
Lögreglumenn kölluðu eftir aðstoð og fengu fleiri lögreglumenn á staðinn. Þar sem Ó reyndist með mikinn áverka í andliti var kallað eftir sjúkrabíl og var hann fluttur á slysadeild FSA.
Ákærðu voru mjög æstir og voru með hótanir um að lífláta Ó samkvæmt lögregluskýrslu og töldu að hann hafi ráðist á ákærða D að tilefnislausu, en ákærði Kristján ætlað að koma honum til hjálpar.
Ákærðu voru báðir handteknir og færðir á lögreglustöðina og vistaðir í fangageymslu.
Samkvæmt lögregluskýrslu var ákærði Kristján blóðugur á höndum og inni í vinstra eyra og með blóð á hægri buxnaskálm, en ákærði D var með sprungna vör.
Í lögregluskýrslu segir að er verið var að hafa afskipti af ákærða Kristjáni hafi hann haft uppi miklar hótanir í garð þeirra lögreglumann sem að málinu komu. Hafi hann m.a. hótað að berja og drepa lögreglumenn og ráðast á börn þeirra og fjölskyldur. Hafi hann jafnframt ausið skömmum og svívirðingum yfir alla sem nálægt honum komu. Hótanir þessar hafi aðallega beinst að Jóni Kristni Valdimarssyni varðstjóra.
Síðar um morguninn mætti Ó á lögreglustöðina og kærði líkamsárás ákærðu og gaf skýrslu hjá lögreglunni.
II.
Ákærði, D, skýrir svo frá að hann hafi farið í Sjallann kvöldið fyrir atburðinn. Hann hafi verið staddur hjá fatahenginu þegar Ó hafi hlaupið á sig. Kveðst ákærði hafa hrint honum frá sér og dyraverðirnir síðan hent honum út. Ákærði kveðst síðan hafa verið í Sjallanum það sem eftir var kvölds og ekki hugsað nánar út í þetta. Síðar um kvöldið hafi hann farið út og þá rekist á þennan sama mann. Kveður hann Ó hafa ráðist að sér og kýlt sig og rifið bol sem hann var í. Kveðst ákærði hafa náð að róa Ó niður og ekkert meira orðið úr þessu. Eftir þetta kveðst ákærði hafa hitt ákærða Kristján Halldór Jensson, vin sinn og þeir hafi síðan fyrir tilviljun rekist á þennan sama mann, þ.e. Ó og hafi hann ráðist á sig. Kveðst ákærði hafa tekið á móti, en ákærði Kristján hafi ekkert blandað sér í þetta. Kveðst ákærði hafa lamið manninn nokkrum sinnum, en síðan hafi lögreglan stöðvað þetta.
Ákærði neitaði að hafa hlaupið á eftir Ó svo sem segir í lögregluskýrslu, þá neitar ákærði að hafa veitt Ó spörk í andlit.
Kveður ákærði ákærða Kristján ekki hafa tekið þátt í átökunum, hann hafi einungis reynt að stöðva þau. Ákærði kveður Ó hafa kýlt sig nokkrum sinnum í hausinn.
Ákærði Kristján Halldór Jensson skýrir svo frá að hann hafi farið í Sjallinn umrætt kvöld. Eftir að hann kom út úr Sjallanum aftur kveðst ákærði hafa hitt meðákærða sem hafi sagt sér að Ó hefði ráðist á sig og hafi D meðákærði bent honum á manninn. Síðan hafi meðákærði D hlaupið í átt til Ó og kveðst ákærði hafa hlaupið á eftir honum. Maðurinn hafi síðan ráðist á D og þeir hafi byrjað að slást og hafi D verið kominn í götuna. Kveðst ákærði Kristján þá hafa þrifið í manninn og losað hann af D og hent honum í jörðina. D hafi risið á fætur og ráðist á manninn þar sem hann hafi legið og hafi bæði Ó og D barið hvorn annan. Kveðst ákærði hafa séð lögregluna og sagt D að hætta þessu og hafi D gert það. Lögreglan hafi svo komið á staðinn og handtekið þá.
Framburður ákærða Kristjáns er mjög á reiki um hvort hann hafi barið og sparkað í Ó, en hann kveðst hafa brugðið fyrir Ó fótum og þannig fellt hann niður. Ákærði neitar að hafa valdið meiðslum Ó.
Ákærði Kristján neitar að hafa hótað J lögreglumanni eða öðrum á lögreglustöðinni svo sem ákært er út af, en viðurkennir að hafa kallað lögregluna almennt öllum illum nöfnum.
III.
Vitnið Ó skýrir svo frá, að hann hafi verið að skemmta sér í Sjallanum í greint sinn og verið lítils háttar undir áfengisáhrifum en vel áttaður. Um kl. 02:00 - 02:30 hafi fjórir menn ráðist að honum í anddyri hússins. Dyraverðirnir hafi vísað sér út úr húsinu og skýrt það þannig að þeir vildu með því forðast frekari vandræði. Kveðst hann ekki hafa gert neitt veður út af þessu heldur farið á annan skemmtistað. Hann hafi síðan verið að labba frá þeim skemmtistað u.þ.b. er honum var lokað og hafi hann verið á leiðinni heim. Hafi hann þá mætt einum þeirra er réðst á hann í Sjallanum, þ.e. ákærða D, og hafi þeir talast við. Í fyrstu hafi þeir rifist, en svo hafi þeir róast og farið að tala saman. Ákærði D hafi orðið vinsamlegur og þeir talast við drjúga stund bak við Búnaðarbankann. Þeir hafi skilið sáttir og tekist í hendur og hafi D gengið til austurs, milli Búnaðarbankans og Strandgötu 3. Vitnið kveðst ekki hafa verið ákveðinn í hvort hann ætti að fara heim eða reyna að halda áfram að skemmta sér. Hann hefði síðan gengið út í Geislagötu og séð þá að D stóð þar og var að tala við þrjá vini sína á bílastæðinu á bak við Kaffi Akureyri. Skyndilega hafi ákærði D og dökkhærður maður, sem með honum var, tekið á rás og hlaupið í átt til sín. Vitnið kveðst hafa reynt að hlaupa burtu og forða sér frá mönnunum. Við Borgarbíó hafi þeir náð honum og ráðist á hann. Þeir hafi fellt hann í götuna og látið högg og spörk dynja á líkama sínum. Flest höggin og spörkin hafi lent í andliti hans. Vitnið kveðst hafa náð að standa upp og hlaupið í átt að myndbandaleigu, sem sé gegnt Borgarbíói. Mennirnir hafi hlaupið á eftir honum og náð honum fyrir utan myndbandaleiguna. Þar hafi þeir fellt hann í jörðina og haldið áfram að láta högg og spörk dynja á andliti sér. Dökkhærði maðurinn hafi hótað honum með ókvæðisorðum. Vitnið kveðst ekki vita hversu lengi árásin stóð, en lögreglan hafi komið þarna á staðinn og stöðvað hana. Vitnið kveðst hafa verið alveg varnarlaus fyrir árásum mannanna. Mennirnir hafi verið sitt hvoru megin við hann og sparkað í fætur hans til að fella hann niður. Þegar hann hafi verið kominn í jörðina hafi þeir slegið hann og sparkað í hann. Flest höggin og spörkin hafi lent í andliti hans.
Vitnið kveðst síðan hafa verið fluttur í sjúkrahúsið í sjúkrabifreið. Vitnið segir að báðar framtennur hans hafi brotnað, einnig hafi hann nefbrotnað og skorist í andliti og fengið glóðaraugu báðum megin. Þá hafi hann fengið áverka á fingrum og talsvert mar á brjóstkassa og bringu auk þess að vera marinn á vinstri mjöðm og hægra hné. Vitnið kveðst hafa rifist við ákærða D hjá Búnaðarbankanum og hafi það rifrildi verið út af því að hann ásamt vini sínum hafi ráðist á sig í Sjallanum, en ákærði D hafi verið hinn ljúfasti að loknu því samtali. Í upphafi samtalsins hafi þeir að vísu rifið hver í annan og við það hafi bolur D rifnað og hafi D krafið hann um 7.000 krónur en vitnið kveðst enga áverka hafa fengið við fyrri árásina, þ.e. árásin í Sjallanum, nema minni háttar kúlu á enni hægra megin.
Vitnið J lögreglumaður skýrir svo frá, að hann hafi í greint sinn verið á eftirlitsferð í lögreglubifreið ásamt lögreglumönnunum BÁ og BB. Hafi þau verið búin að sjá þá Ó og ákærða D vera að ræða saman við norð-vestur horn Búnaðarbankans og hefðu þau farið fram hjá þeim í 2 eða 3 skipti. Segir vitnið að ekki hafi verið að sjá að neitt væri að á milli þeirra, þeir hafi e.t.v. verið að leggja áherslu á orð sín og þeir lögreglumennirnir hafi ekki séð ástæðu til að skipta sér af þeim. Nokkru síðar hafi áhöfn annarar lögreglubifreiðar kallað eftir aðstoð að bifreiðastæðinu vestan Hólabrautar. Þegar á staðinn kom kveður vitnið engin átök hafa verið í gangi og búið hafi verið að aðskilja málsaðila. Komið hafi fram að þeir ákærðu Kristján og D hefðu ráðist á Ó, sem stóð þarna alblóðugur. Kveður vitnið greinilegt að Ó hafi verið illa útleikinn og talsvert slasaður. Illa hafi gengið að ræða við þá ákærðu sökum ástands þeirra. Ákærði Kristján hafi sagst hafa verið að hjálpa ákærða D að verjast árás frá Ó. Hafi ákærði Kristján sagst hafa hlaupið á eftir Ó og sparkað undan honum fótunum. Vitnið kveður í framhaldi af þessu að ákærðu hafi verið handteknir og fluttir á lögreglustöðina. Kveðst vitnið hafa verið að færa ákærða Kristján í fangaklefa ásamt Gunnari Jóhannssyni og hafi ákærði Kristján þá haft uppi hótanir í þeirra garð á sama hátt og hann var búinn að hafa uppi á leiðinni á lögreglustöðina. Hafi ákærði Kristján í fyrstu hótað lögreglunni en síðan sér og G, en að lokum hafi hótanir hans beinst að vitninu persónulega og fjölskyldu þess. Segir vitnið að ákærði Kristján hafi hótað að drepa sig og fjölskyldu sína eða valda þeim öðrum skaða, ef lögreglan léti hann ekki í friði. Hafi ákærði gefið í skyn að hann ætti eftir að sjá eftir þessu og hann ætti eftir að ná sér niðri á vitninu síðar. Kveðst vitnið hafa skilið hótanirnar þannig að hann ætlaði að ráðast á sig og konu sína og börn og valda þeim tjóni.
Vitnið G lögreglumaður skýrir svo frá, að hann hafi verið á lögreglustöðinni í greint sinn þegar komið var með ákærðu Kristján og D þangað, eftir að þeir voru handteknir vegna líkamsárásarmáls. Fyrst hafi verið farið með ákærða D og hann færður í fangaklefa, en á meðan hafi ákærði Kristján verið vistaður í biðherbergi. Hafi verið byrjað að ræða við ákærða Kristján í biðherberginu, en hann hafi verið frekar æstur og strax byrjað með hótanir og svívirðingar út í lögregluna. Hann hafi síðan verið leiddur niður í fangaklefa og hafi hann verið með hótanir á leiðinni þangað. Hótanir hafi í fyrstu beinst að lögreglunni almennt en síðan aðallega að J persónulega, en vitnið kveður þá Jón hafa verið saman í að setja ákærða Kristján í fangaklefa. Hafi ákærði Kristján þá enn verið með hótanir og hafi þær aðallega beinst að J. Kveður vitnið ákærða hafa tönnlast á því sama og sagt m.a.: „[J] ég veit hvar þú átt heima. Þú skalt sjá eftir þessu. Þú átt börn, það er ekkert mál að finna hvar þú átt heima. Ég skal drepa þig helvítið þitt. Ég skal ná mér niður á fjölskyldu þinni.“ Þessu hafi fylgt síðan alls konar blótsyrði og svívirðingar inn á milli. Vitnið kveður ekki óalgengt að lögreglan verði fyrir almennum hótunum, en ekki sé algengt að fjölskyldur lögreglumanna séu dregnar inn í það eins og í þessu tilviki.
Vitnið F lögreglumaður skýrir svo frá, að hann hafi, ásamt öðrum lögreglumönnum verið að aka norður Geislagötu í greint sinn og þá séð að á bifreiðastæðinu vestan við Hólabraut var verið að ráðast á Ó. Hafi þeir þá ekið norður Geislagötu og vestur Gránufélagsgötu og síðan suður Hólabraut. Hafi þeir þá séð að Ó kom hlaupandi norður bifreiðastæðið og tveir menn, ákærðu Kristján og D á eftir honum. Hafi þeir sparkað og hrint Ó einhvern veginn niður í götuna. Þar hafi þeir haldið áfram að lemja á honum. Kveður vitnið tvo menn hafa komið að sem ekkert aðhöfðust. Segir vitnið að þeir hafi rennt inn á bílastæðið og þá hafi árásinni á Ó hætt og hann komið að lögreglubílnum. Vitnið kveðst hafa farið út úr bílnum, en B hafi kallað eftir aðstoð á staðinn. Vitnið kveðst hafa farið á milli þeirra ákærðu og Ó, sem allir hafi verið æstir. Kveður hann þá B hafa talað við þá alla, Ó og ákærðu, og hafi ákærði D sýnt þeim rifinn bol sem hann var í og hafi þeir þrír rifist sín á milli þarna. Síðan hafi annar lögreglubíll komið á staðinn og ákærðu verið handteknir og færðir á lögreglustöðina, en Ó hafi verið eftir á staðnum meðan beðið var eftir sjúkrabifreið til að flytja hann á slysadeild til skoðunar. Nánar skýrir vitnið svo frá, að hann hafi fyrst séð að einhverjar hrindingar voru í gangi og síðan einnig hnefahögg, en ekki getað séð hverjir það voru sem réðust á Ó þarna. Þegar þeir hafi komið fyrir hornið hafi ákærðu verið hlaupandi á eftir Ó og náð honum síðan niður í götuna með því að sparka og hrinda honum og haldið honum niðri í götunni. Hafi þeir haldið áfram að lemja á honum með því að kýla í hann eftir að hann var kominn í götuna. Þegar lögreglumennirnir hafi komið á bílastæðið og þeir orðið varir við þá hafi þeir hætt að veitast að manninum. Vitnið kveður þá Kristján og D báða hafa átt þátt í að ráðast á Ó. Þeir hafi báðir staðið yfir honum og virst báðir hafa sig í frammi. Vitnið kveðst ekki hafa séð sparkað í Ó. Vitnið segir að ákærði Kristján hafi haft í hótunum við Ó.
Vitnið B skýrir svo frá, að hann hafi, ásamt öðrum lögreglumönnum, verið í lögreglubifreið á leið norður Geislagötu í greint sinn og séð vestur á bílastæðið við Hólabraut og séð að þar áttu sér stað átök. Þeir hafi ekið áfram norður Geislagötu og vestur Gránufélagsgötu og á stæðið þar sem átökin voru. Þegar þeir hafi komið vestur á Gránufélagsgötuna hafi þeir séð ákærðu hlaupa á eftir Ó norður stæðið. Þar hafi þeir ráðist á hann og við það hafi Ó fallið og kveðst vitnið hafa séð ákærðu halda áfram barsmíðum á honum þar til þeir lögreglumennirnir komu inn á stæðið, en þá hafi þeir strax hætt. Vitnið kveður ákærðu hafa verið með kjaft og hótanir og gert sig líklega til að hjóla í þá lögreglumennina eða Ó. Kveðst vitnið hafa kallað eftir aðstoð annarra lögreglumanna, sem komið hafi á staðinn og handtekið þá D og Kristján og fært á lögreglustöð, en vitnið kveðst ásamt vitninu Finnboga hafa beðið á vettvangi hjá Ó eftir að sjúkrabíll kom á staðinn. Vitnið segir að þegar þeir hafi fyrst séð til ákærðu hafi sér fundist það vera D sem var að ráðast á Ó. Vitnið segist ekki hafa séð þetta vel en bara séð að það voru átök í gangi. Vitnið kveðst hins vegar nánar aðspurt hafa séð ákærðu hlaupa á eftir Ó og ná honum á bifreiðastæðinu þar sem þeir hafi barið á honum og fellt hann í götuna. Segir vitnið að þeir hafi haldið áfram að berja Ó og sparka í hann þar til lögreglan kom að þeim. Vitnið segir að eftir því sem það best gat séð hafi báðir hinir ákærðu verið að lumbra á Ó. Vitnið kveður báða ákærðu hafa sparkað í og barið á Ó.
IV.
Lagt er fram vottorð Eiríks Sveinssonar, háls- nef- og eyrnalæknis, þar sem segir:
„Ó, [...] kemur á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri 29.06.03 kl. 05.08. Segist hafa verið staddur í Sjallanum um þar sem hann lenti í átökum vegna snótar. Hann segist hafa verið kýldur í andlit og fékk við það smá sár á enni. Ekkert varð meira úr þessu. Var vel kominn út af veitingastaðnum átti hann í löngu samtali við ungan mann. Eftir smá göngu kemur áðurnefndur ungur maður ásamt vini sínum og segir Ó að þeir hafi látið höggin dynja á honum. Gat hann ekki veitt mótspyrnu, enda við ofurefli að etja. Hann kemur á slysadeild FSA í fylgd sjúkraflutningsmanna.
Skoðun leiddi í ljós alblóðugan mann eins og stendur í pappírum slysadeildar, með kliniskt nefbrot, bólgið nef og blæðingu úr báðum nösum. Við skoðun fannst engin hliðarfærsla á nefi en hann var bólginn umhverfis bæði augun og auk þess með maráverka fyrir ofan og neðan hæ. augað. Einnig var smá sár á enni og haematom þar undir. Einnig var smá skurður á vinstri kinn sem var límdur aftur með steristrip. Tvær fremstu efri framtennur voru brotnar. Hafði brotnað neðan úr þeim. Maráverki og yfirborðsfleiður var á vinstra hné og í IP-lið vinstra þumals. Ó var boðaður í endurskoðun 4 dögum seinna og kemur 30.06.03 kl. 14.01 vegna þess að honum versnaði og fékk komudaginn slæmt svimakast með sjóntruflunum að hann segir. Taldi sig sjá tvöfalt. Var einnig kominn með höfuðverk vinstra megin og smá ógleði. Fann einnig verk í hálsinum eins og hálsbólgu.
Skoðun á slysadeild var nokkuð samhljóða skoðun sem gert var 29.06. Ekki fannst neinn nystagmus og ekki var hægt að merkja sjóntruflanir. Hann hafði heldur engar blóðnasir og gat andað eðlilega í gegnum nefið. Smávegis þreifiaumur yfir kjálkaliðum og rétt aftan við vinstra eyra. Kvaðst vera aumur við að opna munninn en hreyfingar í kjálkaliðum voru mögulegar. Eyrnaskoðun var eðlileg, hreyfing í hálshrygg aðeins takmörkuð. Ákveðið var að taka röntgen mynd af nefbeini og andlitsbeinum.
01.07.03 kl. 09.30 kemur hann til undirritaðs í fyrsta skipti til mats á ástandi og skoðunar á röntgen myndum af nefbeini og andlitsbeinum, sem teknar voru daginn áður. Þar kom fram smávægileg, ótilfærð sprunga í nefbeini en hvergi annars staðar sáust brot á andlitsbeinum.
Í samráði við sjúkling var álitið að ekki þyrfti frekari læknismeðferðar við nema eitthvað breyttist í ástandi sjúklings. Hann átti eldri skoðunartíma 03.07.03 kl. 10.00 en mætti ekki.
Fleira kemur ekki fram í pappírum slysadeildar og sjúklingur hefur ekki komið aftur á slysadeild síðan 01.07.03.“
V.
Af framburði ákærðu og vitnisins Ó má ráða að væringar hafi orðið með þeim Ó og ákærða D umrætt kvöld, sem hófust í veitingahúsinu Sjallanum og héldu síðan áfram er þeir hittust í miðbæ Akureyrar eftir að veitingastaðnum var lokað og þá að frumkvæði Ó. Ekki varð um alvarleg átök þeirra á milli að ræða og virðist samskiptum þeirra hafa lokið með vinsemd. Með framburði lögreglumanna og vitnisins Ó þykir sannað, að í framhaldi af framangreindum samskiptum hafi báðir hinir ákærðu veitt Ó eftirför og ráðist á hann á bílaplaninu vestan við Borgarbíó, svo sem í ákæru greinir. Samkvæmt framburði framangreindra vitna þykir sannað að báðir hinir ákærðu hafi greitt Ó bæði hnefahögg og spörk þar sem hann var liggjandi í götunni eins og lýst er í ákæru. Afleiðingar árásar þessarar urðu þær sem greint er frá í vottorði Eiríks Sveinssonar læknis, sem rakið er að framan.
Að öllu framangreindu virtu þykir ekki vafi leika á að ákærðu hafi báðir gerst sekir um brot það, sem þeim er gefið að sök í ákæru og varðar brotið við tilgreint lagaákvæði. Þá þykir sannað, með vætti tveggja lögreglumanna, að ákærði Kristján hafi haft uppi hótanir þær, er honum eru gefnar að sök í ákæru og varðar það atferli hans við tilgreint lagaákvæði.
VI.
Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði, Kristján Halldór Jensson, nokkrum sinnum á undanförnum árum hlotið dóma vegna brota á hegningarlögum og fíkniefnalöggjöf, m.a. hlaut hann dóm hinn 24. nóvember 2003 fyrir brot á 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Þykri refsing ákærða Kristjáns Halldórs, m.a. með hliðsjón af sakaferli hans, hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði.
Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði D einu sinni hlotið dóm vegna brota á fíkniefnalöggjöf. Þykir refsing hans nú hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði, en rétt þykir að fresta fullnustu þeirrar refsingar og skal hún falla niður að 3 árum liðnum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.
Við munnlegan málflutning sundurliðaði réttargæslumaður Ó bótakröfu sína þannig:
|
1. Þjáningabætur í 7 daga sbr. 3. gr. skaðabótalaga kr. 820 á dag = |
kr. 5.440 |
|
2. Miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga |
kr. 982.000 |
|
3. Tannlæknakostnaður skv. mati og samkvæmt reikningi |
kr. 162.100 kr. 36.490 |
|
4. Ónýtur fatnaður |
kr. 19.470 |
|
5. Lækniskostnaður skv. reikningum (annar en tannlæknakostnaður) |
kr. 32.034 |
|
6. Annar kostnaður skv. reikningum og öðru mati á gögnum |
kr. 14.611 |
|
7. Þóknun fyrir ritun bótakröfu |
kr. 30.000 |
|
vaskur |
kr. 7.350 |
|
Samtals |
kr. 1.289.495 |
Eins og að framan er lýst veittu ákærðu báðir Ó áverka þá er hann fékk með saknæmum hætti og bera þeir því solidariska skaðabótaábyrgð á tjóni því er Ó varð fyrir af þeirra völdum.
Eins og áður segir hafa ákærðu krafist lækkunar á bótakröfum Ó.
Um lið 1. Liður þessi þykir nægjanlega rökstuddur með vísan til 3. gr. skaðabótalaga og verður því tekinn til greina með kr. 5.740.
Um lið 2. Bætur skv. þessum lið þykja hæfilega ákvarðaðar kr. 80.000.
Bætur skv. lið 3 þykja nægjanlega rökstuddar og verður sá liður tekinn til greina með kr. 198.590.
Um lið nr. 4. Krafa skv. þessum lið þykir ekki nægjanlega rökstudd og verða ákærðu því sýknaðir af henni.
Um lið nr. 5. Krafa skv. þessum lið þykir nægjanlega rökstudd og verður hún tekin til greina að fullu með kr. 32.034.
Um lið nr. 6. Krafa skv. þessum lið þykir nægjanlega rökstudd og verður hún tekin til greina með kr. 14.611.
Um lið nr. 7. Rétt þykir að krafa skv. þessum lið verði höfð í huga við ákvörðun réttargæsluþóknunar réttargæslumanns.
Er þá niðurstaðan sú að dæma ber ákærðu til að greiða Ó in solidum kr. 330.875 ásamt vöxtum eins og krafist er. Að lokum ber að dæma ákærðu til greiðslu alls sakarkostnaðar, þ.á.m. þóknun til skipaðs réttargæslumanns Ó, Ingibjargar Elíasdóttur hdl. kr. 70.000. Þá greiði ákærði D málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Þorsteins Hjaltasonar hdl. kr. 90.000 og ákærði Kristján Halldór Jensson greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Sigmundar Guðmundssonar hdl. kr. 90.000.
Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, D, sæti fangelsi í 2 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar og hún falla niður að 3 árum liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.
Ákærði, Kristján Halldór Jensson, sæti fangelsi í 3 mánuði.
Ákærðu greiði in solidum Ó, krónur 330.875 ásamt vöxtum og dráttarvöxtum samkv. vaxtalögum nr. 38, 2001.
Ákærðu greiði allan sakarkostnað, þ.á.m. þóknun réttargæslumanns Ó, Ingibjargar Elíasdóttur, hdl. kr. 70.000.
Ákærði D greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Þorsteins Hjaltasonar hdl. kr. 90.000 og ákærði Kristján Halldór Jensson greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Sigmundar Guðmundssonar hdl. kr. 90.000.