Hæstiréttur íslands
Mál nr. 363/2005
Lykilorð
- Verksamningur
- Matsgerð
|
|
Fimmtudaginn 2. febrúar 2006. |
|
Nr. 363/2005. |
JM Trésmíðaverkstæði ehf. (Valgeir Kristinsson hrl.) gegn Byggingarfélaginu Boga ehf. (Sigurbjörn Magnússon hrl.) |
Verksamningur. Matsgerð.
B krafði J um greiðslu vegna vinnu við sumarhús. Sönnunarbyrði fyrir því að samið hefði verið fyrirfram um greiðslu vegna vinnunnar var lögð á J. Ekki var talið að sú sönnun hefði tekist og var því lagt til grundvallar að J bæri að greiða það verð sem B setti upp nema telja mætti það ósanngjarnt. Fyrir lá mat dómkvadds matsmanns þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að tímafjöldi sá sem B áskildi sér gæti fyllilega átt við rök að styðjast. J reyndi ekki að hnekkja niðurstöðu matsins með því að fá dómkvadda yfirmatsmenn og var ekki talið að honum hefði tekist að sýna fram á að það verð sem B krafðist væri ósanngjarnt. Var krafa B því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. ágúst 2005. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur stefnda verði lækkaðar og málskostnaður látinn falla niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi lét byggja sumarhúsið sem deila aðila lýtur að og ætlaði það til endursölu.
Áfrýjandi ber sönnunarbyrði fyrir þeirri fullyrðingu sinni, að samið hafi verið um það fyrirfram, að stefndi fengi greitt fyrir 220 klukkustunda vinnu við sumarhúsið og að þannig hafi átt að greiða samtals 602.580 krónur fyrir verkið miðað við umsamið tímagjald 2.200 krónur að viðbættum virðisaukaskatti. Þessa sönnun hefur hann ekki fært fram í málinu og fer því um lögskipti aðila eftir þeirri meginreglu sem meðal annars kemur fram í 45. gr., sbr. 47. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 og felur það í sér að greiða skuli það verð sem seljandi setur upp nema telja megi það ósanngjarnt. Hafa báðir málsaðilar raunar vísað til þessara lagaákvæða í málflutningi sínum.
Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi lét áfrýjandi dómkveðja matsmann til að meta hæfilegt „verðmæti vinnu“ sem stefndi lét áfrýjanda í té við sumarhúsið og deilt er um í málinu. Niðurstaða matsins var meðal annars sú, að tímafjöldi sá sem stefndi áskildi sér gæti fyllilega átt við rök að styðjast. Matsgerðin gat því ekki gagnast áfrýjanda til stuðnings þeim málflutningi að krafa stefnda væri ósanngjörn. Áfrýjandi reyndi ekki að hnekkja þessari niðurstöðu með því að fá dómkvadda yfirmatsmenn, svo sem honum hefði verið unnt samkvæmt 64. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hefur hann látið við það sitja að freista þess að hnekkja matinu með því að gera athugasemdir við einstaka þætti þess, sem hann telur að ekki fái staðist. Verður ekki fallist á að honum hafi tekist á þennan hátt að hnekkja niðurstöðum matsins og sýna fram á að verðið sem stefndi krefst teljist ósanngjarnt.
Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, JM Trésmíðaverkstæði ehf., greiði stefnda, Byggingarfélaginu Boga ehf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 19. maí 2005, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Byggingarfélaginu Boga ehf., kt. 600100-2620, Nýbýlavegi 6, Kópavogi, gegn JM Trésmíðaverkstæði ehf., kt. 610302-3190, Ármúla 19, Reykjavík, með stefnu sem birt var 24. febrúar 2004.
Dómkröfur stefnanda eru að hið stefnda einkahlutafélag verði dæmt til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.191.002 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af sömu fjárhæð frá 19. janúar 2004 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar og hvernig sem málið fer verði stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Helstu málavextir eru að stefnandi tók að sér fyrir stefnda að ljúka við byggingu sumarbústaðar í landi Tjarnar í Bláskógabyggð Árnessýslu. Af hálfu stefnda segir að aðilar hafi samið í upphafi um að greiða sem fullnaðargreiðslu fyrir 220 tíma vinnu á 2.200 krónur á tímann auk virðisaukaskatts sem geri samtals 602.580 krónur, en stefndi hafi greitt stefnanda 1.000.000 króna. Af hálfu stefnanda er haldið fram að samið hefði verið um að stefnandi ynni verkið í tímavinnu.
Með reikningi, dags. 19. janúar 2004, krafði stefnandi stefnda um greiðslu fyrir vinnu, efni og akstur stefnanda samtals að fjárhæð 1.191.002 krónur, sem stefndi kveðst hafa mótmælt með bréfi 3. febrúar sama ár. Með bréfi, dags. 6. apríl 2004, til Héraðsdóms Reykjavíkur fór stefndi þess á leit að dómkvaddur yrði einn hæfur og óvilhallur sérfróður matsmaður til að skoða og meta annars vegar umfang og hæfilegt verðmæti vinnu sem stefnandi vann í þágu stefnda við lokauppsetningu, smíði og frágang á sumarhúsi stefnda að Tjörn Bláskógabyggð (Biskupstungum) sem unnin var í október og nóvember 2003, miðað við útselda vinnu stefnanda, 2.200 kr. á tímann auk virðisaukaskatts, og hins vegar til að meta galla við verkið og kostnað við úrbætur á þeim.
Í matsbeiðninni er verkefni stefnanda lýst þannig:
Verkefnið fólst í því að ljúka uppsetningu á 74 fermetra sumarhúsi gert úr tilbúnum forsmíðuðum einingum og flutt inn sem einingahús frá Danmörku. Einingarnar voru útveggir fullbúnir að utan með einangrun, lagnagrind og rakasperru.
Áður en matsþoli kom að verkinu var búið að setja undirstöður, búið var að setja upp burðarbita og gólfbita, setja músarnet, reisa útveggi, setja límtrésbita og þaksperrur voru komnar en eftir var frágangur við hluta þeirra. Gluggaísetning og glerjun var lokið, nema á gafli, allir gluggar komu glerjaðir frá framleiðanda. Byrjað var að klæða sólpall.
Einnig var búið að setja tilsniðnar plötur innanhúss milli gólfbita að mestu ofan á netið, það átti eftir að festa 3-4 sperrur við útbyggingu. Það þurfti að taka upp 3 borð á pallinum til að halda svo áfram við að klæða allan pallinn. Búið var að setja alla glugga í húsið og glerja, nema á gaflinum sem matsþoli annaðist, en hann var forsmíðaður.
Fyrsta verk matsþola var að festa niður 3-4 þaksperrur og ganga frá þeim.
Matsþoli setti þakkant.
Matsþoli einangraði loft, gólf og í lagnagrind og milliveggi, matsþoli gekk frá rakasperru í loft og panelklæddi lofti og veggi að innan.
Matsþoli einangraði gólf og lagði gólfborðin.
Allar innréttingar komu samsettar og matsþoli setti þær upp og innihurðir (3 stk).
Matsþoli setti úthurð sem kom fullglerjuð með karmi.
Milliveggir (grindur) komu samsettir og matsþoli setti þá upp og klæddi.
Öll vinna rafvirkja og pípara voru matsþola óviðkomandi.
Sólpallur og handrið. Búið var að festa borðin á pallinn að mestu, eftir var að fullskrúfa borðin niður.
Allt efni sem nota átti í bústaðin var á staðnum, matsþoli keypti út á reikning efni fyrir tæpar 50.000,- sem er inni í stefnufjárhæð og að auki fékk matsþoli efni út á reikning matsbeiðanda. Matsbeiðandi mótmælir þeim óhæfilega tíma sem matsþoli reiknar eða 50 klst. í ýmisskonar snatt og snúninga. John Erlingsson f.h. matsbeiðanda keypti efni og matsþoli vitjaði þess á leiðinni á verkstað. Matsmanni er falið að meta hvað telst hæfilegt í þeim efnum.
Ítrekað er að allt efni kom með húsinu, hugsanlega getur verið um að ræða skrúfur og naglar hafi verið af skornum skammti, hugsanlega er líka um að ræða að allt of mikið af efninu hafi farið til spillis þar sem verktaki hafi ekki haft nógu góða yfirsýn yfir verkið frá upphafi og þurft að breyta vinnubrögðum sínum, svo virðist sem skipulagsleysi hafi ríkt á verkstað á háu stigi og er það alfarið á kostnað matsþola. Matsmaður reikni ekki sem vinnutíma, ferðir til og frá vinnustað á virkum dögum sem kostnað við verkið.
Handriðastaurar eru að umfangi 30 staurar sem eru 120 cm háir og klæðning á pallinn 30 m2. Hér skal lagt til grundvallar að allir bitar voru þegar uppsetti og vinna matsþola fólst eingöngu við klæðninguna.
Gallar við verkið.
Eftir að verki matsþola lauk komu í ljós nokkur atriði sem matsbeiðandi telur ekki standast eðlilegar og faglegar kröfur til smiða og er nánar tiltekið:
1. Frágangur á gaflglugga rangur og hurð út á verönd er á röngum stað, er ekki í samræmi við teikningar, það vantar eins sentímetris millibil á milli glugga sem leiðir til útlitsskekkju í kringum gluggana, hurð getur aðeins opnast 90 gráður vegna rangrar staðsetningar.
2. Frágangur á kverklistum (skuggalistum) á samskeytum inni eru vitlaust settir, snúa öfugt, veggurinn er rammaður inn en ekki loftið eins og vera ber.
3. Frágangur á panel í þakskeggi fyrir ofan verönd of þétt saman og hefur sprengt sig.
Matsmaður skili lýsingu á þessum annmörkum með tilliti til vinnu og efnis sem fer til að bæta úr þessum atriðum og reikni út kostnað við úrbætur.
Matsbeiðandi lagði matsþola til afnota á verktímanum, sumarbústað sem er á næstu aðliggjandi lóð og var ætlast til að hann héldi þar til og færi ekki af verkstað til og frá Reykjavík að loknum vinnudegi á virkum dögum eins og verktaki gerði.
Matsmaður meti umfang og sundurliði hvað er eðlilegt magn vinnu sem fer í það verkefni sem hér að framan hefur verið lýst.
Matsmaður meti einnig hvað er hæfilegt verð fyrir verkefnið sem að ofan greinir.
Af hálfu stefnanda voru fjölmargar athugsemdir gerðar við matsbeiðnina og þeim komið skriflega á framfæri við dómkvaddan matsmann. Þar segir m.a.:
Ástæðan fyrir því að matsbeiðandi kom að máli við matsþola var sú, að tveir iðnaðarmenn höfðu unnið að uppsetningu sumarhúss sem matsbeiðandi hafði flutt inn frá Danmörku. Um var að ræða fyrsta sumarhús sinnar tegundar á Íslandi en matsbeiðandi hugðist hefja innflutning og uppsetningu á húsum sem þessum á Íslandi. Að sögn matsbeiðanda var hann mjög ósáttur við þá vinnu sem unnin hafði verið af hálfu þessara tveggja iðnaðarmanna og hefði hann því ákveðið að fá nýja verktak að verkinu.
Á fundi Johns [Mars Erlingssonar, fyrirsvarsmanns matsbeiðanda] og Þórhalls [Mássonar, fyrirsvarsmanns matsþola] var ákveðið að matsþoli tæki að sér verkið og lyki við það. Á þeim fundi var fullyrt af hálfu Johns að uppsetning hússins yrði mjög fljótleg þar sem einfalt væri að setja það upp og allt byggingarefni væri að finna í gámi á byggingarstað. Af þessum sökum var samið um að matsþoli myndi vinna verkið í tímavinnu. Þar sem um nýtt sumarhús var að ræða, sem flutt var inn frá Danmörku, var ákveðið að ekki yrði gert fast tilboð í byggingu hússins, heldur að einungis yrði miðað við tímagjald. Á sama fundi aðila var tekið fram að matsbeiðandi hefði keypt tvær lóðir en hann hefði forkaupsrétt að þrem öðrum og til stæði að byggja sambærileg sumarhús á þeim. Ef af því yrði þá kæmi til greina að matsþoli ynni þau verk gegn föstu gjaldi, enda væri þá komin endanleg reynsla á það hversu langan tíma tæki að reisa sumarhús af því tagi sem hér um ræddi. ... Áréttað var að vinna ætti sumarhúsið í tímavinnu.
Þegar matsþoli kom að verkinu höfðu iðnaðarmenn á vegum matsbeiðanda þegar lokið við eftirfarandi hluta verksins:
undirstöður voru uppsettar,
uppsetning burðarbita og gólfbjálka var lokið,
uppsetning músanets var lokið,
útveggir höfðu verið reistir,
límtrésbitar og sperrur voru komnar upp en frágangur við hluta þeirra var eftir,
byrjað var að klæða sólpall.
Þann 7. október 2003 hófust tveir menn, þ.e. Þórhallur Másson og Pétur Snorrason, handa við verkið. Fyrstu tvo dagana leiðbeindu Jörgen Erlingsson og danski iðnaðarmaðurinn [er áður var getið] starfsmönnum matsþola við verkið, en svo fór að lokum að þeir fóru af verkstað þann 9. október 2003 og komu ekki frekar að verkinu. Þá aðstoðaði John Erlingsson ekki matsþola við verkið, að undanskildu því að hann sótti stöku sinnum rusl sem til féll vegna vinnu starfsmanna matsþola.
Vinna matsþola hófst á því að festa niður sperrur og ganga frá þeim. Losa þurfti sumar upp sem þegar var búið að festa og haka meira úr þeim svo ekki væri allt of mikill munur á þeim. Þetta var aðallega á útbyggingunni. Vegna einstakra verkþátt verksins ber að taka eftirfarandi fram:
1) Þakklæðning: Gekk vel, en ekki var nægilegt magn af skrúfum þannig að fara þurfti á Selfoss til að ná í fleiri.
2) Gluggar: Búið var að setja í alla glugga nema gaflinn. Það var mikið verk vegna þess að sá gólfbiti sem glugginn átti að sitja á hallaði. Vegna þessa þurfti að lyfta glugganum töluvert upp öðru megin þannig að hann væri réttur. Þá var hallinn á útveggjaklæðningunni sem dekka átti yfir gluggann að ofanverðu rangur þannig að taka þurfti alla klæðninguna af öðru megin og klæða upp á nýtt og dugði ekki til. auk þess má nefna að göt voru með öllum gluggum, sem þegar höfðu verið setnir í, og skóf snjó inn um þau.
3) Gólf: Það sperruefni sem notað var sem gólf var mjög snúið, undið og misbreitt. Á milli þeirra átti að vera masonit sem kom með bústaðnum. Vegna þess hve illa var gengið frá músaneti á mörgum stöðum þurfti að setja inn laska yfir öll samskeyti og frauða í kring. Á endum var sett plötubútur sem ekki var nógu breiður og þurfti að frauð þar einnig. Þegar á heildina var litið var mikil vinna lögð í að þétta undir einangrun í gólfi til að tryggja sem best að ekki kæmust mýs upp í einangrunina.
4) Einangrun gólfs og lofts: Gekk vel og án vandkvæða.
5) Klæðning lofts: Gekk nokkuð vel. Gengið var vel frá rakasperru, límt yfir öll samskeyti og rakasperran kíttuð upp við límtrésbita. Þó þurfti að leggja vinnu í að spá í nýtingu panels á þessu stigi, allt efni sem viðkom húsinu var komið á gólf, en það hafði verið flutt úr gámi af hálfu matsbeiðanda inn í bústaðinn þrátt fyrir að ekki væri búið að leggja gólfborðin. Þannig þurfti að hafa plötur undir stillasinum og færa þær milli þeirra staða sem unnið var við.
6) Klæðning gólfs: Gekk ágætlega. Mikil vinna var þó að forfæra allan panel og innréttingar sem allt var komið inn í hús. fyrst var klæddur annar helmingur hússins, síðan var allt fært yfir á þann hluta og síðan klæddur hinn helmingurinn.
7) Milliveggir: Grindur í milliveggi voru geymdir úti. Þegar átti að taka þær inn kom í ljós að saga þurfti þrjár þeirra í sundur til að koma þeim inn í hús. síðan þurfti að laska þær saman. Þær áttu allar að vera merktar saman en merkingu vantaði á meirihlutann. Mál sem gefin voru upp á teikningum pössuðu ekki við stærð grindanna, hurðagötin í tveimur þeirra voru of lítil og hallinn á þeim að ofan mjög vitlaus. Auk þess ber að taka fram að grindurnar voru allar mjög losaralegar og héldust illa samana á öllum samskeytum.
8) Panelklæðning: Gekk nokkuð vel. Þegar hér var komið við sögu var ennþá ekkert rafmagn komið í húsið. Rafstöðin bilaði og þurfti að ná í aðra sem var minni og annaði þar með minna. Kalt var í húsinu, allur panellinn á miðju gólfi í mörgum lengdum. Af þeim sökum þurfti að athuga vel alla nýtingu.
9) Uppsetning innréttinga: Gekk vel, en þó voru gerðar smábreytingar sem töfðu vinnuna lítillega.
10) Innihurðir: Gekk vel.
11) Frágangur kringum glugga: Hér þurfti að leggja mikla vinnu til þess að frágangur yrði viðunandi. Ekki lá ljóst fyrir hvernig frágangurinn ætti að vera í kringum gluggana að innanverðu en ákveðið var að saga aðfellingar úr panel á gluggana og setja gerekti utan á það. Mjög mismunandi mál voru frá panel og út í gluggana. Þurfti því að sniðsaga allar aðfellinga og hefla og pússa svo ekki væru of miklar rifur.
12) Sólpallur og handrið: Búið var að setja upp hluta af borðum niður á pallinn þegar matsþoli kom að verkinu, en eftir var að fullskrúfa og ganga frá endum. Á langhliðinni voru borðin svo skakkt sett á að losa varð þau öll upp og setja niður aftur. Mjög mikill hæðarmunur var á bitunum undir borðunum og margir þeirra voru mjög undnir. Því þurfti að losa nokkra þeirra upp og laga eða skipta þeim hreinlega út. Þegar kom að því að setja handriðið þá var mjög erfitt að setja niður stólpa í láréttri línu eftir gólfi sem var mjög ójafnt. Því þurfti að lóða hvern staur fyrir sig. Margir bitar sem staurarnir festust á voru svo undir í annan endann að hefla þurfti þá til svo að staurinn stæði réttu. Um leið var sett grind vegna lokunar fyrir neðan pallinn. Klæðning á staurana gekk vel en að neðanverðu varð töluvert púsluspil því efni var orðið af skornum skammti.
Vegna fullyrðinga í kaflanum „Meintir gallar við verkið“ ber að taka eftirfarandi fram:
a) Í matsbeiðni er tekið fram að svalahurð sé á vitlausum stað. Matsþoli mótmælir þessu. Ástæðan fyrir þessari staðsetningu er sú að matsþola fannst ekki hægt að hafa lamir hurðarinnar fastar við næsta gluggapóst heldur var skynsamlegra að festa hurðina lamamegin á burðarsúluna sem heldur límtrésbitanum uppi.
b) Hvernig kverklistar áttu að snúa gat matsþoli ekki vitað. Listar þessir fylgdu með húsinu og voru miklar vangaveltur um hvar þeir ættu að koma. Matsbeiðandi upplýsti að þetta væru kverklistar á loft. Engar leiðbeiningar komu um það hvernig þeir ættu að snúa.
c) Panel [í] þakskeggi var settur þétt svo ekki myndi koma skafrenningar upp í einangrunina sem var að hluta til fyrir ofan. Að panel sem ætlaður er til inninota springi getur alltaf komið fyrir að mati matsþola.
Af hálfu stefnanda segir að þannig hafi komið í ljós skömmu eftir að vinna við verkið hófst að þær forsendur sem gefnar hefðu verið af hálfu stefnda hafi ekki verið réttar. Á fundi Þórhalls Mássonar og John Erlingssonar hafi m.a. komið fram að allt efni ætti að vera til staðar og hafi í því sambandi verið bent á gám sem staðsettur hafi verið á verkstað. Þetta hafi ekki verið rétt og starfsmenn stefnanda hafi iðulega þurft að fara á Selfoss eða til Reykjavíkur til að ná í efni svo að vinna gæti gengið eðlilega fyrir sig.
Stefnandi mótmælti því að ætlast hefði verið til að starfsmenn stefnanda færu ekki af verkstað til og frá Reykjavík á virkum dögum heldur héldu til í sumarbústað, er staðið hefði á næstu lóð. Hið rétta sé að umræddur sumarbústaður stóð til boða í eina viku en þá hafi stefnandi þurft að skila honum af sér. Raunar hafi aldrei staðið til né verið um það samið að starfsmenn héldu til á verkstað í sumarbústað að vetrarlagi.
Af hálfu stefnanda er bent á að matsmanni sé í matsbeiðni eingöngu gert að meta endurgjald fyrir vinnu sem stefndi gefur sér að stefnandi eigi rétt á greiðslu fyrir.
Í niðurstöðu matsmanns segir m.a.:
Samkvæmt útreikningum matsmanns er umfang og hæfilegt verðmæti vinnu sem matsþoli vann í þágu matsbeiðanda við lok uppsetningu eftirfarandi:
(skáletraði textinn hér að neðan er tekinn beint upp úr matsbeiðni).
Festa þaksperrur og ganga frá þeim 10 klst
Matsþoli setti þakkant 40 klst
Matsþoli einangraði loft, gólf og í lagnagrind og milliveggi,
matsþoli gekk frá rakasperru í loft og panelklæddi loftið
og veggi að innan (panelklæðning innveggja er innr. hér) 245 klst
Matsþoli einangraði gólf og lagði gólfborðin 50 klst
Allar innréttingar komu samsettar og matsþoli setti þær upp
og innihurðir (3 stk) 20 klst
Matsþoli setti útihurð sem kom fullglerjuð með karmi 5 klst
Milliveggir (grindur) komu samsettir og matsþoli setti þá upp
og klæddi (panelklæðning innreiknuð í lið 3) 20 klst
Öll vinna rafvirkja og pípara voru matsþola óviðkomandi 0 klst
Frágangur á palli 30 klst
Frágangur á þakdúk, lektum og þakstáli 60 klst
Ísetning glugga 10 klst
Klæða gluggagöt að innanverðu 20 klst
Samtals 510 klst
Í framlögðum gögnum matsþola segir að hann hafi aðstoðað bæði rafvirkja og pípara við vinnu sína. Matsmaður hefur áætlað 10 klst. á þennan lið og innreiknað hann undir lið 3 hér að ofan.
Samkvæmt framlögðum gögnum matsþola þurfti hann að smíða og ganga sérstaklega frá aðfellingum að gluggum að innanverðu. Algengt er í einingarhúsum sem þessu að lokanir og aðfellingar að glugga- og hurðargötum fylgi forunnar með, þannig að einungis þurfi að skera þær að lengd og breidd. Ekki var nót í þessum gluggum svo byrja þurfti á því að setja lista á alla gluggana til að festa klæðninguna í. Síðan þurfti að sníða klæðninguna inn í gluggana. Matsmaður áætlar að um 20 klst. hafi farið í að ganga frá þessum verkþætti. Þessi þáttur er innreiknaður í lið 3 í samantekt tíma hér að ofan.
Í ofangreindri samantekt gerir matsmaður ráð fyrir að mismunandi verkþættir séu aðgengilegir og geti unnist með tiltölulega greiðum hætti, ...
Ekki er minnst á uppsetningu og frágang á þakrennum í gögnum matsbeiðninnar og hefur matsmaður því ekki tekið tillit til þess.
Í niðurstöðu matsgerðarinnar er rakið að á matsfundi [25. maí 2004] hafi af hálfu matsþola verið haldið fram að frágangur og lokun milli gólfbita við útveggi hafi verið óunninn, þegar matsþoli kom að verkinu, og mikil vinna hafi verið lögð í lokafrágang á músaneti og vindþéttingu gólfs, þar sem matsþoli hafi ekki treyst þeim frágangi sem þegar hafði verið unninn. Greint er frá því að matsmaður taki ekki sérstakt tillit til þessa í samantekt sinni þar sem hann telji sig ekki hafa nokkrar forsendur aðrar en lauslega frásögn matsþola til að meta umfang þessa liðar.
Þá segir að matsmaður taki ekki í samantekt sinni tillit til þess tíma sem farið hafi í ferðir til og frá vinnustað, en ályktar, að um tvo tíma á dag hafi verið að ræða, 74 vinnudaga eða samtals 148 klukkustundir. Þá er tekið fram að matmaður hafi ekki í samantekt sinni tíma „í ýmsa snúninga, efnisútvegun og fl.“ En hann telur að þessi tími geti numið allt að 10% af vinnutímafjöldanum og 40-50 klst. sé ekki ofmat í þessu tilfelli.
Þá segir frá því að samkvæmt framlögðum gögnum matsþola hafi talsvert verið um forfæringar á efni að ræða, þar sem búið hafi verið að færa allt efni, sem nota átti innanhúss úr gámi og inn í hús. Kveðst matsmaður ekki með nokkru móti geta áætlað þann fjölda tíma sem í vinnu þessa hafi farið, ómögulegt sé að sannreyna nokkuð um umfang verksins, en þessi vinna gæti þó hæglega snúist um nokkurra daga vinnu.
Matsmaðurinn reiknar með að 510 vinnustundir hafi farið í að klára húsið auk 200 klukkustunda í efnisútvegun og ferðatíma. Hafi hann þá ekki reiknað með „óvissuþáttum s.s. efnisforfæringum o.þ.h.“ Telji hann því að tímafjöldi, sem matsþoli reikni sér, geti fyllilega átt við rök að styðjast. Hann áréttar að hann taki ekki tillit til aksturskostnaðar í matsgerðinni og setur síðan dæmið um kostnað við frágang hússins „samk. matsbeiðni“ þannig: 510 klst x 2.739 = 1,396,890,000.- með vsk. (2,200 án vsk = 2,739 með vsk).
Varðandi mat á göllum og kostnað við úrbætur svo sem matsbeiðandi fer fram á í eftirfarandi þremur þáttum:
1. Frágangur á gaflglugga rangur og hurð út á verönd er á röngum stað, er ekki í samræmi við teikningar, það vantar eins sentímetra millibil á milli glugga sem leiðir til útlitsskekkju í kringum gluggana, hurð getur aðeins opnast 90 gráður vegna rangrar staðsetningar.
2. Frágangur á kverklistum (skuggalistum) á samskeytum inni eru vitlaust settir, snúa öfugt, veggurinn er rammaður inn en ekki loftið eins og vera ber.
3. Frágangur á panel í þakskeggi fyrir ofan verönd of þétt saman og hefur sprengt sig.
Komst matsmaður að þeirri niðurstöðu að kostnaður vegna liðar nr. 1, væri 60.382 kr., liðar nr. 2, að ekki væri um kostnað vegna galla að ræða, og liðar nr. 3, væri kostnaður 10.956 kr. Og rökstuddi hann ítarlega í matsgerðinni hvers vegna hann kæmist að þessari niðurstöðu.
Stefnandi byggir á því að hafa unnið fyrir stefnda við sumarbústað að Tjörn í Biskupstungum frá 7. október til og með 26. nóvember 2003 í tímavinnu. Við verkið hafi unnið alls fjórir smiðir, oftast tveir í einu, stundum þrír en sjaldnast einn eða fjórir þessa daga. Samtals hafi tímar þeirra allra við vinnuna verið 734, en tímakaupið 2.200 kr. Stefnandi hafi einnig lagt 49.851 kr. út fyrir efni fyrir stefnda. Þá hafi akstur starfsmanna til og frá vinnustað kostað 130.725 kr. Stefndi hafi greitt stefnanda 1.000.000 kr. og sé hann nú krafinn um eftirstöðvarnar, samtals að fjárhæð 1.191.002 kr.
Stefndi byggir á því að hafa greitt stefnanda 1.000.000 kr., þegar umsamið verð hafi verið 602.580 kr. og allt innifalið.
Stefán Ómar Oddsson gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann væri annar eigandi stefnanda, Byggingarfélagsins Boga ehf., og kvaðst hann vera í stjórn félagsins.
Stefán sagði að byggingarfélagið hafi komið að umræddu verki að beiðni stefnda. John [Mar Erlingsson] hafi haft símasamband við hann seinni partinn í september 2003 og tjáð honum að hann þyrfti nauðsynlega á smiðum að halda þar eð íslenskir smiðir við verkið hefðu ekki reynst vel. Hafi hann beðið þá [Stefán og félaga hans, Þórhall Másson] að koma og bjarga sér og ljúka smíði á viðkomandi sumarbústað. Ekki hafi verið rætt í þessu símtali um greiðslu fyrir þessa vinnu.
Stefán sagði að Þórhallur hafi skömmu síðar farið á staðinn til fundar við John. Á þeim tíma hafi John verið með smið frá Danmörku, sem var á förum af landi brott. Hafi þessi smiður einungis ætlað að dvelja hér í skamman tíma til að kynna mönnum verklagið við smíði sumarbústaðarins og John hafi viljað að smiðurinn kynnti þeim verkið.
Stefán mótmælti því að stefnandi hafi samið við stefnda um fasta þóknun fyrir verkið. Kvað hann ekkert hafa verið rætt um þóknun í fyrrgreindu samtali sínu við John. Hann vísaði til þess að síðar - þegar verkinu var lokið - hafi hann og Þórhallur fundað með John og lagt fram alla tíma og allt um verkið og sett fram kaupkröfu; 2.300 kr. á tímann að viðbættum virðisaukaskatti. John hafi beðið þá um að lækka kaupið og vísað til þess að það væru fleiri sumarbústaðir sem stæði til að byggja. Hafi þeir þá lækkað kaupkröfuna niður í 2.200 kr. á tímann. Um þetta hafi orðið samkomulag. Hafi þeir í framhaldi gert stefnda reikning.
Stefán tók fram og fullyrti að venja væri „þegar unnið væri úti á landi með þessum hætti“ að innheimta fæðisgjald, en það hafi þeir látið ógert. Hafi þeim þótt sem stefndi fengi góðan afslátt með þessu og lækkun kaupkröfunnar.
Stefán kvaðst sjálfur ekki hafa unnið mikið við smíði á sumarbústaðnum. Hafi hann unnið við að setja upp milliveggi, klæða loft og frágang úti á geymslum og sólpöllum og ýmislegt annað tilfallandi. Af hálfu stefnanda hafi, auk hans, komið að verkinu, Þórhallur og starfsmenn stefnanda, Pétur Snorrason og Jón Arnar.
Stefán sagði að þeir hafi haft yfrin önnur verkefni þegar þeir ákváðu að hjálpa stefnda við að reisa umræddan sumarbústað.
Aðspurður kvaðst Stefán ekki hafa farið með Þórhalli á umræddan fund við John á verkstað áður en þeir tóku að sér verkið. Stefán kvaðst vera framkvæmdastjóri félagsins. Hann kvað stefnanda ekki hafa átt viðskipti við stefnda áður, en hafa unnið ásamt stefnda fyrr á sama vinnusvæði. Aðspurður kvaðst hann sjálfur ekki hafa skoðað teikningar af sumarbústaðnum, áður en stefnandi hóf verkið, en Þórhallur hafi gert það.
Aðspurður kvað Stefán aldrei hafa komið til greina að starfsmenn stefnanda dveldust næturlangt á vinnustað. Hafi John látið það afskiptalaust meðan á verkinu stóð.
Lagt var fyrir Stefán dskj. nr. 20, sem hefur fyrirsögnina Sumarbústaður Tjörn Biskupstungum og síðan: Greinargerð. Kvað hann Þórhall hafa ritað þetta skjal.
Stefán sagði að John hafi enga athugsemd gert við þann fjölda tíma, sem stefnandi byggir kröfur sínar á, og birtar voru honum á fundi aðila, er stefnandi lækkaði tímagjaldið úr 2.300 kr. niður í 2.200 kr. John hafi á fundinum tjáð þeim að honum fyndist tímagjaldið hátt en engar athugsemdir gert við fjölda vinnustunda.
Aðspurður kvað Stefán engar athugsemdir hafa verið gerðar af hálfu stefnda þegar stefndi greiddi reikning stefnanda að fjárhæð 1.000.000 kr.
Þórhallur Másson gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann væri annar eigandi stefnanda og stjórnarformaður félagsins.
Þórhallur sagði að John hafi hringt til þeirra í byrjun október 2003 að morgni dags. Hafi þá verið ákveðið að hann færi samdægurs á verkstað og skoðaði hvað um væri að ræða. John hafi sagt að hann hefði hafið byggingu sumarhúss [af tegund] sem bróðir hans væri að framleiða í Danmörku, en bróðir hans væri staddur á landinu og yrði fram á næstu helgi. Kvaðst John hafa verið með smiði við verkið en þeir hafi ekki verið starfinu vaxnir. Fór John þess á leit að þeir tækju við verkinu. Um hádegi þennan dag hafi hann ásamt John farið á verkstað og litið á verkið. Hafi þeir fundað ásamt bróður Johns og dönskum starfsmanni hans í aðliggjandi sumarbústað. Á þeim fundi hafi John lýst ætlun sinni varðandi verkið. Fyrir hafi legið að hann stefndi að því að flytja inn fleiri samskonar bústaði og hér um ræddi, en umræddur bústaður var fyrsti sinnar tegundar hér á landi. Hugmynd Johns hafi verið að þeir myndu reisa þennan bústað út á reikning og sjá hvernig það kæmi út og í kjölfarið semja um byggingu á fleiri húsum á föstu verði.
Þórhallur sagði að John hefði spurt hann hvort þeir gætu tekið að sér að fjármagna vinnu sína fram að þeim degi sem húsið væri fullklárað og hann hefði fengið á það brunabótamat. Því þá væri honum kleift að fá lán, sem hann myndi síðan nota til að greiða þeim fyrir verkið að fullu. Samið hafi verið um að þeir ynnu verkið í tímavinnu.
Þórhallur sagði að aldrei hafi komið til greina að semja um að starfsmenn stefnanda gistu í nærliggjandi sumarbústað, er stefndi hafi tekið á leigu, á meðan á verkinu stæði. Umræddur sumarbústaður hefði verið ætlaður til afnota fyrir starfsmenn stefnanda til að neyta matar og hafa þurrt afdrep, en bústaðurinn hafi verið kyntur. Húsið, sem var í byggingu, var ókynt og engin aðstaða í því til að borða eða til neins annars. Umræddan sumarbústað hafi þeir þó ekki haft til afnota nema til mánaðamóta október nóvember. Upp frá því hafi þeir orðið að sitja í nýbyggingunni.
Þórhallur sagði að útilokað hafi verið að John hafi ekki vitað að starfsmenn stefnanda óku frá Reykjavík á vinnustað og til baka á hverjum vinnudegi meðan á verkinu stóð. Margir dagar hafi byrjað með því að þeir hittu John á skrifstofu hans í Reykjavík til skrafs og ráðgerða. Þá hafi þeir nánast daglega verið í símasambandi. John hafi aldrei gert neinar athugsemdir við þessar ferðir, en þær hefðu enda oft og tíðum verið nauðsynlegar til flutninga á efni og hlutum sem skorti við verkið.
Þórhallur sagði að á þessum stuttu morgunfundum hafi verið farið yfir stöðu verksins, hvað næst yrði gert og hverju væri lokið, hvort efni skorti og hvernig brugðist yrði við því.
Þegar ákveðið var á upphaflegum fundi að stefnandi tæki að sér verkið, sagði Þórhallur, að það eina, sem talað hafi verið um greiðslur og tilhögun í þeim efnum, hafi verið að stefnandi myndi fjármagna sína vinnu upp að fullbúnu húsi. En um leið og því væri lokið, myndi John biðja um brunabótamat á húsið og taka það lán sem hann ætlaði að taka. Verkinu hafi lokið um mánaðamótin nóvember desember og umrætt lán hafi bara verið veitt að helmingi matsfjárhæðar húss. Og þegar til átti að taka kom þetta lán ekki fyrr en í lok janúar. Þetta hafi því ekki gengið upp.
Þórhallur sagði að eftir upphaflegan fund aðila [7. október 2003] hafi vinna stefnanda strax hafist daginn eftir. Honum hefði verið tjáð að allt efni væri á staðnum og gengið út frá því. Allt efni, sem nota átti utanhúss, hafi verið staðsett fyrir framan húsið og lá þar í grasinu. Allt efni, sem nota átti innanhúss, var í gámi við endann á afleggjaranum upp að húsinu, í þrjátíu til fjörutíu metra fjarlægð. Gámurinn hafi verið troðfullur af byggingarefni, allur panell, hurðir og innréttingar.
Þórhallur fullyrti að staðið hefði verið að verki eins fljótt og haglega og unnt var, en ekki hafi verið um flókið verk að ræða. Hann kvað John líklega hafa komið tvisvar á verkstað er starfsmenn stefnanda voru að verki, en hann hafi komið oftar um helgar þegar þeir voru ekki að vinna. Hafi hann séð um að fjarlægja rusl.
Þegar húsið var vindhelt, sagði Þórhallur að John hefði viljað losa umræddan gám og bera innihaldið inn í hús. Kvaðst Þórhallur hafa verið á móti þessu vegna þess að hann vissi að það myndi fylla húsið og gera þeim erfitt fyrir. Á þessu stigi hafi ekki verið búið að klæða gólf, loft né veggi. Hafi John gert það samt sem áður til að losna við að borga leigu af gáminum. Hafi hann hrúgað miklum stæðum af panel og gólfborðum inn á gólfið sem leiddi til þess að klöngrast hefði þurft um þetta efni og færa það til og frá til að skapa vinnurými og vinnuaðstöðu.
Þórhallur kvaðst í lok hvers vinnudags hafa skráð hjá sér hvað gert hefði verið og tímana sem í það fór. Dómskjal nr. 4, sem m.a. felur í sér yfirlit yfir vinnutíma við sumarbústaðinn við Tjörn í Biskupstungum, kvaðst Þórhallur hafa skrifað. Hafi John einnig verið afhent yfirlit yfir sömu tölu vinnutíma og þar koma fram. Nokkru síðar hafi hann haft samband við þá og spurt hvort þeir gætu ekki aðeins lækkað þetta, en þeir hafi upphaflega krafist hærra tímagjalds en fram komi á dskj. nr. 4, tímagjald, sem þeir hefðu verið að nota í öðrum verkum. Hafi hann og Stefán fundað með John. Út úr þeim fundi hafi komið að ekki þótti tækt að skerða tölu verktíma, enda hafi þetta verið þeir tímar sem fóru í verkið. En ákveðið hafi verið að lækka tímagjaldið um 100 kr., sem leiddi til u.þ.b. 100.000 kr. lækkunar. Þórhallur staðhæfði að John hafi samþykkt þessa niðurstöðu. Í framhaldi af þessu kvað Þórhallur reikninga hafa verið gefna út.
Þórhallur sagði að gefnir hefðu verið út tveir reikningar, en John hafi sagt þeim að á þessu stigi gæti hann aðeins greitt þeim 1.000.000 kr. og yrði hann að fá að greiða þeim eftirstöðvar í einhverjum hlutum. Þórhallur kvað þá ekkert val hafa haft annað en að samþykkja það þó að samið hafi verið um annað, þ.e. að allt yrði greitt í einu. Hafi því einn reikningur verið gefinn út fyrir 1.000.000 kr. og annar fyrir eftirstöðvunum.
Þórhallur sagði að hann hefði talið með verktímunum þann tíma sem tók að fara úr Reykjavík á vinnustað og frá vinnustað til Reykjavíkur, en matartími á vinnustað hafi verið dreginn frá svo sem venja er.
Þórhallur kvaðst hafi byrjað að vinna við húsasmíði 1987. Hann hafi búið á árunum 1996 til 2000 í Noregi þar sem hann hafi unnið hjá litlu fyrirtæki eingöngu við byggingu timburhúsa og við tréverk. Hafi hann fengið meistararéttindi í Noregi.
Þórhallur sagði að hann og John hefðu unnið töluvert saman og þekkst áður en stefnandi tók að sér umrætt verk fyrir stefnda. Kynni hans af John hafi verið góð. Hann hafi því ekki talið ástæðu til að gera skriflegan samning, enda ekki venja að gera skriflegan samning um tímavinnuverk. Hann sagði að þeir hefðu ekki unnið beint fyrir John áður en haft samstarf við hann og hafi John m.a. haft milligöngu um verk er þeir hefðu unnið fyrir aðra.
Þórhallur sagði að á fundinum með John og bróður Johns áður en verkið hófst, hafa honum verið tjáð að í Danmörku færu 360 tímar að reisa þessi hús frá grunni, en bróðir Johns hafi framleitt þessi hús í Danmörku. Kvaðst hann þá engar forsendur hafa haft til að rengja það. En við réttar aðstæður væri sjálfsagt unnt að reisa svona hús á þeim tíma. Hann kvaðst ekki muna hvort hann hefði tekið skýrt fram að tími, sem færi í að koma og fara af vinnustað yrði reiknaður með, en John hafi mátt vita að svo væri. Varðandi efni sem skorti til verksins, sagði Þórhallur, að að mestu leyti hafi verið um að ræða festingar. Þá hafi vantað klæðningu í útigeymslu.
Þórhallur sagði að auk þess efnis, sem skorti er stefnandi lagði út fyrir, hafi hann tíu til fimmtán skipti fengið efni frá John í Reykjavík.
Lagt var fyrir Þórhall dskj. nr. 20. Kvaðst Þórhallur hafa samið þetta skjal. Þórhallur sagði að skort hefði efni frá framleiðanda hússins og hefði stefndi átt að fá afslátt af húsinu þaðan til að mæta þessum kostnaði. Hafi þetta skjal verið samið af því tilefni til framvísunar fyrir stefnda þar.
Þórhallur sagði aðspurður að John hafi fengið í hendur tímaskýrslu stefnanda yfir vinnustundir í desember fyrir jól 2003. Dregist hafi að fá brunabótamat á húsið til að fá lán út á það, en komið hafi í ljós að það hvíldi veð á landinu, sem húsið var byggt á, sem varð að losa áður en lánið fengist. Þannig að þegar komist hafi verið að samkomulagi og John ætlaði inna umsamda greiðslu af hendi, voru umræddir tveir reikningar gerðir og útgefnir 19. janúar 2004, annar aftur í tímann og hinn á þeirri dagsetningu.
John Mar Erlingsson gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að upphaf þessa mál hafi verið umrætt símtal [við Stefán Ómar Oddsson]. Í framhaldi hafi hann og Þórhallur farið á vinnustað og hitt Jörgen bróður hans, sem framleiðir húsin, og umræddur fundur verið haldinn.
John sagði að á fundinum hafi verið talað um áætlaðan tíma til að klára húsið og hvernig Þórhallur tæki við því og hafi Þórhallur skoðað teikningar. Ætlað hafi verið að Þórhallur tæki við húsinu þegar Jörgen og Daninn, sem var með honum, færu. Þórhalli hafi verið ljóst í hvaða ástandi húsið var.
John kvaðst hafa verið með aðra smiði, sem mætt hafi illa til vinnu. Hafi hann því þurft að fá menn í þetta til að drífa það af.
John sagði að Jörgen hafi nefnt að það tæki 220 tíma að klára húsið. Þórhallur hefði ekki andmælt því. Óljóst hafi verið hvort það yrðu fleiri eða færri tímar en ekki að það færi gróflega fram úr því. Samið hafi verið um tímagjald, 2.200 kr., sem var það sama og smiðirnir höfðu fengið, er unnið höfðu við húsið.
John kvaðst hafa tekið á leigu sumarbústað á næstu lóð, fyrir stefnanda, og hafi hann ætlast til að starfsmenn stefnanda héldu þar til, en ef þeir kysu að aka á milli Reykjavíkur og vinnustaðar væri það þeirra mál. Hann kvaðst ekki halda að þeir hafi notað húsið að næturlagi til gistingar. John kvaðst hafa sagt upp leigu á húsinu, líklega í byrjun nóvember 2003.
John kvaðst hafa litið svo á að allt efni væri á staðnum. Alltaf gæti það þó komið fyrir að eitthvað vantaði og sjálfsagt hafi það gert það. Ekki kvaðst hann þó vita nákvæmlega hvaða efni það var er skorti. John kvaðst hafa látið stefnanda í té skrúfur, frauð o.fl. sem stefnanda vantaði. John sagði að spónaplötur, sem Þórhallur hafi talað um sem klæðningu í útigeymslu, hafi verið sín ákvörðun, framleiðandi gerði ekki ráð fyrir að geymslan væri klædd að innan. Hann sagði að líklega hafi Þórhallur komið tíu til fimmtán sinnum til hans til að fá efni.
John kvaðst hafa komið á vinnustað meðan starfsmenn stefnanda voru við vinnu þar. Þá hafi hann þrifið húsið og hent rusli yfirleitt um helgar.
John sagði að í desember 2003 hefði legið fyrir hvaða kröfur um greiðslu stefnandi gerði. Kvaðst hann hafa fengið tvo reikninga samtímis í byrjun janúar 2004. Hann kvaðst þó hafa beðið um greinargerð um framkvæmdir stefnanda við húsið, þegar hann fékk tímaskýrslu stefnanda, og það sé greinargerðin sem fram kemur á dskj. nr. 20.
Lagt var fyrir John dskj. nr. 18, sem er afrit af bréfi stefnda til stefnanda 3. febrúar 2004. John kvaðst hafa greitt 1.000.000 kr. en hafa viljað skoða seinni reikninginn til ákvörðunar síðar. Eftir það hefði hann haft samband við Stefán Ómar, sem hefði tjáð honum, að það væri klárt að ekki yrði gefin króna eftir í afslátt.
John kvaðst aðspurður hafa komið tvisvar til fjórum sinnum á verkstað, þegar starfsmenn stefnanda voru að verki. John kvaðst hafa séð í þessum ferðum sínum á staðinn og ferðum þangað um helgar að starfsmenn stefnanda gistu ekki næturlangt í sumarbústaðnum, sem hann hafði leigt fyrir þá. John kvaðst ekki hafa gert athugsemdir við að starfsmenn stefnanda ækju fram og til baka frá Reykjavík og til vinnustaðar, en ekki talið að honum bæri að greiða fyrir það.
Lagt var fyrir John dskj. nr. 19, sem er skjal sem tjáist vera greining á hvaða tíma einstakir verkþættir, við að reisa sumarbústað af sömu tegund og hér um ræðir, taki. Skjalið er dagsett 31. janúar 2004 og undirritað af Jóni Lárussyni og Stefáni Erni Betúelssyni.
Lagt var fyrir John dskj. nr. 16, sem er framlögð matsgerð í málinu. Vísað var til þess að í matsbeiðninni sé farið fram á við matsmann, að hann reikni ekki sem vinnutíma, ferðir til og frá vinnustað á virkum dögum, sem kostnað við verkið, og spurt, hvort hann drægi í efa að starfsmenn stefnanda hefðu ekið á degi hverjum fram og til baka milli Reykjavíkur og vinnustaðar. Kvaðst John ekki draga það í efa.
Aðspurður kvað John, miðað við efni og aðstæður, ekki hafa tekið nema í hæsta lagi tíu tíma að forfæra efni innanhúss. Hann kvaðst ekki draga í efa að starfsmenn stefnanda hafi þurft að færa til efni inni í húsinu en raunar sé það eðlilegur hluti þess verks að smíða hús.
John sagði að tímakaupið hafi frá upphafi verið ákveðið 2.200 kr. Hann hafnaði því að hafa fengið forsvarsmenn stefnanda til að lækka fjárhæðina úr 2.300 kr. í 2.200 kr. svo sem haldið er fram af hálfu stefnanda. John kvaðst aðspurður ekki hafa gert neinar athugsemdir við þann reikning stefnanda sem stefndi greiddi [að fjárhæð 1.000.000 kr.].
Guðmundur Baldvin Ólason, byggingatæknifræðingur og húsasmíðameistari, staðfesti matgerð sína í málinu.
Þórhallur Másson gaf frekari skýrslu. Hann sagði m.a. að á fyrsta fundi sínum við John út af verkinu hafi ekki verið talað um hvert tímagjaldið yrði, en á fundinum sem hann og Stefán áttu við John eftir að verkinu lauk hafi verið samið um að lækka tímagjaldið. Hann sagði að 2.300 kr. á tímann sé það gjald sem stefnandi hafi krafist að jafnaði og það gjald sem m.a. Reykjavíkurborg hafi greitt stefnanda á þessum tíma.
Ályktunarorð: Í máli þessu er deilt um hluta af greiðslu fyrir að ljúka við að reisa timburhús, sem flutt var forsmíðað á byggingarstað í Árnessýslu. Af hálfu stefnda er haldið fram að aðilar hafi samið um að stefnandi fengi greiddar 602.580 kr. með virðisaukaskatti fyrir verkið, en af hálfu stefnanda er staðhæft að aðilar hafi samið um að stefnandi ynni verkið í tímavinnu.
Óumdeilt er að stefndi hefur greitt stefnanda 1.000.000 kr., og þá er ekki deilt um að verk stefnanda hófst 7. október 2003 og lauk 26. nóvember sama ár. En deilt er um kröfu stefnanda til 1.191.002 kr. með virðisaukaskatti, sem stefnandi krefur stefnda um til viðbótar fyrir vinnu, efni og akstur við að ljúka við að reisa húsið.
John Mar Erlingsson, forsvarsmaður stefnda, bar fyrir rétti að Þórhallur Másson, annar eigandi og fyrirsvarsmaður stefnanda, hafi ekki andmælt því, er hann ákvað að stefnandi tæki að sér verkið fyrir stefnda, að 220 tíma tæki að klára húsið, svo sem Jörgen, bróðir Johns, hafi orðað á fundi forsvarsmanna aðila við það tækifæri. En Jörgen mun hafa staðið fyrir framleiðslu í Danmörku á húsi því, er hér um ræðir, og húsum sömu tegundar. Þórhallur bar hins vegar fyrir rétti að á þessum fundi hafi verið samið um að stefnandi ynni verkið í tímavinnu og stefnandi tæki að sér að fjármagna vinnuna fram að þeim degi sem húsið yrði klárað.
Ekki er deilt um að John fylgdist án athugasemda með framkvæmdum stefnanda. Staðhæfing stefnda, um að samið hafi verið um að stefnandi fengi greiddar 602.580 kr. fyrir verkið, fær engan stuðning af gögnum málsins. Raunar liggur ekki fyrir í málinu með ótvíræðum hætti, hvað stefnandi átti að fá greitt fyrir að ljúka við að reisa umrætt sumarhús fyrir stefnda. Verður því að miða við það að stefnandi eigi rétt á að fá endurgjald sem sanngjarnt er, sbr. 45. gr. laga nr. 50/2000.
Matsmaður - er dómkvaddur var af stefnda til að skoða og meta umfang og hæfilegt verðmæti vinnu, sem stefnandi innti af hendi fyrir stefnda áleit að tímafjöldi, sem stefnandi reiknaði með að verkið hefði tekið, gæti fyllilega átt við rök að styðjast. Á hinn bóginn hefur stefnandi ekki hnekkt mati matsmannsins á ákveðnum göllum við verkið og kostnaði við úrbætur á þeim, samtals að fjárhæð 71.338 kr. Að þessu og öðrum gögnum málsins virtum hefur stefndi ekki sannað að endurgjald, samtals að fjárhæð 2.191.002 kr., sem stefnandi áskilur sér samkvæmt reikningum sínum fyrir vinnu við hús stefnda, sé svo ósanngjarnt að því verði hrundið eða lækkað nema um 71.338 kr.
Samkvæmt framangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 1.119.664 kr. með vöxtum eins og nánar segir í dómsorði.
Stefndi verður dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað eins og í dómsorði greinir.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, JM Trésmíðaverkstæði ehf., greiði stefnanda, Byggingarfélaginu Boga ehf., 1.119.664 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 19. febrúar 2004 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.