Hæstiréttur íslands
Mál nr. 66/2012
Lykilorð
- Lánssamningur
- Gengistrygging
|
|
Fimmtudaginn
1. nóvember 2012. |
|
Nr.
66/2012. |
P. Árnason fasteignir ehf. (Jónas
Þór Guðmundsson hrl.) gegn Arion banka hf. (Andri
Árnason hrl.) |
Lánssamningur.
Gengistrygging.
A hf. höfðaði mál gegn P ehf. til innheimtu
eftirstöðva gjaldfallins lánssamnings. Aðilar deildu um hvort lánið hefði verið
í íslenskum krónum og bundið gengi erlendra mynta með ólögmætum hætti eða í
erlendum myntum. Hæstiréttur féllst á með A hf. að lánið hefði verið í erlendum
myntum einkum með vísan til heitis lánssamningsins, tilgreiningar
lánsfjárhæðarinnar og vaxta auk tilhögunar útborgunar lánsfjárhæðarinnar og
greiðslu afborgana og vaxta, enda var talið sýnt að samningsaðilar hefðu samið
á þann veg að skyldur bæri að efna með því að fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum skiptu
um hendur. Var krafa A hf. því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson,
Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg
Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. janúar 2012. Hann
krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Í
báðum tilvikum krefst hann málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar
fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandi gerði sem lántaki lánssamning 22. nóvember 2007
við Kaupþing banka hf. Í grein 2.1. í samningnum sagði að lántaki lofaði að
taka að láni og lánveitandi að lána „að jafnvirði íslenskar krónur 20.000.000,-
... í eftirfarandi myntum: USD 25% CHF 30% JPY 20% EUR 25%“. Samkvæmt greinum 2.2. og 2.3. átti lánið að koma
til útborgunar eftir skriflegri beiðni lántakans og yrði það greitt inn á fjóra
tilgreinda gjaldeyrisreikninga hans, sem hver væri í einum af fyrrnefndum
erlendum gjaldmiðlum, en tilgangur lánsins væri „fjármögnun kaupa á
fasteigninni Gylfaflöt 20, Reykjavík“ og væri lántakinn skuldbundinn til að
verja fénu til þess verkefnis. Í grein 2.4. var kveðið á um að lánið yrði
endurgreitt með 60 mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 10. janúar 2008, og
ætti hver þeirra fram að síðasta gjalddaga að nema 1/300
hluta höfuðstóls skuldarinnar, en eftirstöðvar að koma þá til greiðslu í einu
lagi nema lánið yrði framlengt eftir nánari skilmálum í 4. grein samningsins.
Samkvæmt grein 2.5. skyldi greiðslustaður vera hjá lánveitandanum, sem væri
heimilt að skuldfæra áðurnefnda fjóra gjaldeyrisreikninga ásamt tékkareikningi
lántakans í íslenskum krónum fyrir greiðslu afborgana og vaxta. Skuldfærsla
færi fram án undangenginnar tilkynningar til lántakans og bæri honum „að hafa
ávallt innstæðu á reikningnum til greiðslu afborgana.“ Í grein 2.7. sagði síðan
eftirfarandi: „Lánið ber að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstendur
af, en greiði lántaki afborganir, vexti, dráttarvexti eða aðrar greiðslur í
íslenskum krónum sem hann skal greiða í erlendum myntum, þá skal hann greiða
samkvæmt sölugengi bankans.“
Í 3. grein samningsins sagði meðal annars að aðrir hlutar
lánsins en í evrum skyldu bera svonefnda LIBOR vexti
„fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni“ með 2% álagi, en lánshluti í evrum
bæri EURIBOR vexti með sama álagi. Yrðu vanefndir af
hendi lántakans skyldi hann greiða dráttarvexti, sem vegna lánshluta í erlendum
gjaldmiðlum yrðu sömu vextir og að framan greinir með 10% álagi, en um
dráttarvexti vegna lánshluta í íslenskum krónum færi eftir 1. mgr. 6. gr. laga
nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Tekið var fram að lánveitanda væri
heimilt vegna vanskila „að umreikna allt lánið í íslenskar krónur miðað við
sölugengi bankans í þeim myntum sem lánið samanstendur af“ og hefði hann val um
hvort hann krefðist „dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt eða af allri
skuldinni breyttri í íslenskar krónur.“ Samkvæmt 5. grein var lántaka heimilt
að óska eftir „myntbreytingu á láninu“, væri það í skilum, og skyldi þá
„höfuðstóll lánsins umreiknaður til jafnvirðis í annarri mynt.“ Ætti þá að nota
„sölugengi þeirrar myntar sem horfið er frá og kaupgengi þeirrar myntar eða
mynta sem við taka.“ Í 6. grein var kveðið á um að fyrir skuldinni bæri lántaka
að gefa út til lánveitandans tryggingarbréf að fjárhæð 25.000.000 krónur, sem
bundin yrði vísitölu neysluverðs, og yrði veittur með því veðréttur í
áðurnefndri fasteign, sem lántakinn hugðist kaupa með lánsfénu. Loks er þess að
geta að í 11. og 12. grein samningsins voru fyrirvarar vegna endurfjármögnunar
lánveitandans og óviðráðanlegra ytri atvika, sem kynnu að girða fyrir að hann
gæti aflað sér lánsfjár með sambærilegum kjörum og gengið hafi verið út frá við
gerð samningsins, en við þær aðstæður gæti lánveitandinn boðið lántakanum önnur
lánskjör eða eftir atvikum gjaldfellt eftirstöðvar skuldarinnar.
Áfrýjandi undirritaði 5. desember 2007 beiðni um útborgun
láns samkvæmt framangreindum samningi um „jafnvirði íslenskar krónur
20.000.000,- í USD, CHF, JPY og EUR“ og óskaði þar eftir
því „í samræmi við ákvæði samningsins“ að það yrði greitt út sama dag. Kaupþing
banki hf. gerði svonefnda kaupnótu 17. sama mánaðar vegna útborgunar lánsins og
var þar greint frá fjárhæðum einstakra hluta þess í evrum, japönskum jenum,
svissneskum frönkum og bandaríkjadölum, sem 1,5% lántökugjald var í hverju
tilviki dregið frá. Að auki kom til greiðslu samkvæmt nótunni þóknun vegna
ráðgjafar og gerð lánssamnings að fjárhæð 50.000 krónur, sem gerð var upp með
553,40 evrum. Að teknu tilliti til þessara útgjalda var loks tekið fram í
nótunni að tilteknar fjárhæðir í fyrrnefndum fjórum erlendum gjaldmiðlum hafi
verið lagðar inn á sömu gjaldeyrisreikninga áfrýjanda og getið var í
lánssamningnum. Samkvæmt yfirlitum vegna gjaldeyrisreikninganna voru þessar
fjárhæðir lagðar inn á þá 17. desember 2007, en teknar aftur út af reikningunum
næsta dag og andvirði þeirra í íslenskum krónum lagt inn á tékkareikning
áfrýjanda hjá Kaupþingi banka hf.
Fyrir liggur í málinu að Kaupþing banki hf. sendi áfrýjanda
27. desember 2007 tilkynningu um greiðslu af framangreindri skuld á fyrsta
gjalddaga 10. janúar 2008. Í tilkynningunni var skuld áfrýjanda skipt í fjóra
hluta, sem tilgreindir voru í evrum, japönskum jenum, svissneskum frönkum og
bandaríkjadölum, með upplýsingum um „upphaflegt nafnverð“ í hverjum hluta,
hundraðshluta vaxta og fjárhæð afborgunar af höfuðstól, vaxta og eftirstöðva
eftir greiðslu. Fram kom samtala vegna greiðslu í hverjum þessara fjögurra
gjaldmiðla, en að auki fjárhæð í íslenskum krónum vegna greiðslugjalds. Neðan
við þessar upplýsingar stóð að „skuldfært verður af ISK
reikningi þann 10.01.2008“ og greint síðan frá númeri á þeim tékkareikningi
áfrýjanda hjá bankanum, sem heimilt var að skuldfæra greiðslur af eftir
áðurnefndu ákvæði í lánssamningnum. Samkvæmt gögnum málsins voru 145.395 krónur
teknar af þeim tékkareikningi 10. janúar 2008 til greiðslu á skuld áfrýjanda.
Af gögnunum verður ekki annað ráðið en að áfrýjandi hafi staðið í skilum með
afborganir af skuldinni á gjalddögum til og með mars 2009 og hefur því ekki
verið haldið fram að þær hafi verið inntar af hendi með öðru móti en gert var á
fyrsta gjalddaganum samkvæmt framansögðu.
Fjármálaeftirlitið neytti 9. október 2008 heimildar í 100.
gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008,
til að taka yfir vald hluthafafundar í Kaupþingi banka hf., víkja stjórn
félagsins frá og setja yfir það skilanefnd. Í framhaldi af því
var stofnaður Nýi Kaupþing banki hf., sem nú ber heiti stefnda. Stefndi tók
við ýmsum réttindum og skyldum eldri bankans og er óumdeilt að hann hafi þar á
meðal tekið yfir kröfu á hendur áfrýjanda samkvæmt lánssamningnum frá 22.
nóvember 2007.
Málsaðilar sömdu 30. mars 2009 um breytingar á skilmálum
lánssamningsins þannig að þær 45 afborganir, sem eftir stæðu af skuld
áfrýjanda, kæmu til greiðslu á mánaðarlegum gjalddögum frá og með 10. október
2009, en áfallnir vextir yrðu þó greiddir 10. apríl sama ár. Þá skuldbatt
áfrýjandi sig til að greiða mánaðarlega 200.000 krónur inn á nánar tilgreindan
reikning sinn hjá stefnda frá síðastnefndri dagsetningu að telja og var stefnda
veittur handveðréttur yfir innstæðu á reikningnum til tryggingar á skuld
áfrýjanda samkvæmt lánssamningnum. Fyrir liggur að áfrýjandi hafi greitt fyrstu
tvær afborganirnar af skuldinni eftir þessum breyttu skilmálum, en ekki innt af
hendi greiðslur, sem fallið hafa í gjalddaga frá og með 10. desember 2009.
Stefndi höfðaði mál þetta 16. ágúst 2010 til heimtu eftirstöðva skuldar
áfrýjanda, sem nemi nánar tilgreindum fjárhæðum í evrum, japönskum jenum,
svissneskum frönkum og bandaríkjadölum, ásamt dráttarvöxtum af skuldinni í þeim
gjaldmiðlum eftir áðurgreindu ákvæði lánssamningsins. Í málinu ber áfrýjandi
einkum fyrir sig að skuldbinding sín samkvæmt lánssamningnum sé í íslenskum
krónum og þannig andstætt ákvæðum 13. gr. og 14. gr. laga nr. 38/2001 að binda
fjárhæð hennar við gengi erlendra gjaldmiðla, svo sem felist í dómkröfu
stefnda. Ágreiningur stendur á hinn bóginn ekki um fjárhæð kröfunnar verði
fallist á með stefnda að í samningnum 22. nóvember 2007 hafi verið kveðið á um
lán til áfrýjanda í erlendum gjaldmiðlum.
II
Í dómi Hæstaréttar
15. júní 2012 í máli nr. 3/2012 var leyst úr ágreiningi milli stefnda í þessu
máli og gagnaðila hans þar um hvort samningur, sem gerður hafði verið um lán að
„jafnvirði“ tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum, teldist vera um lán í
erlendum gjaldmiðlum, sem þar voru tilgreindir, eða í innlendri mynt og þá háð
ólögmætum skilmála um gengistryggingu skuldar. Orðalag í samningnum, sem á
reyndi í því máli, var nánast það sama og í lánssamningi áfrýjanda við Kaupþing
banka hf. 22. nóvember 2007 um þau atriði, sem rakin eru hér að framan, ef frá
eru taldar dagsetningar, tilteknar tegundir erlendra gjaldmiðla, bankareikninga
eða annað, sem eðli máls samkvæmt voru eingöngu bundin við viðskipti þeirra.
Munur er þó á fyrirsögn þessara tveggja samninga, sem í fyrra málinu var sagður
vera „lánssamningur í erlendum myntum“, en eingöngu „lánssamningur“ í þessu
máli. Sá munur getur einn út af fyrir sig ekki ráðið niðurstöðu um skýringu
þessara samninga. Verður því hér, á sama hátt og í dómi í máli nr. 3/2012, sbr.
og dóm Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011, að gæta að því hvernig
háttað var ákvæðum samningsins um efndir aðilanna og hvernig að þeim var staðið
í raun.
Eins og áður greinir var lánið, sem um ræddi í samningi
áfrýjanda við Kaupþing banka hf., greitt út 17. desember 2007 með því að
bankinn lagði tilteknar fjárhæðir í evrum, japönskum jenum, svissneskum frönkum
og bandaríkjadölum inn á fjóra gjaldeyrisreikninga áfrýjanda í þeim
gjaldmiðlum. Þessi aðferð við útborgun lánsfjárins var í samræmi við ákvæði í
samningnum 22. nóvember 2007, sem vísað var til í fyrrnefndri beiðni áfrýjanda
5. desember sama ár. Fé í erlendum gjaldmiðlum skipti því í reynd um hendur
þegar Kaupþing banki hf. efndi aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningnum. Eftir
því, sem ráðið verður af gögnum málsins, greiddi áfrýjandi á hinn bóginn ekki
afborganir af skuld sinni með fé í sömu erlendu gjaldmiðlunum. Að því verður þó
að gæta að eftir hljóðan lánssamningsins bar að endurgreiða lánið „í þeim
gjaldmiðlum sem það samanstendur af“, bankanum var heimilt að skuldfæra meðal
annars gjaldeyrisreikninga áfrýjanda fyrir afborgunum og hann hafði jafnframt
skuldbundið sig til að eiga þar ávallt innstæðu í því skyni. Samkvæmt þessu
verður að líta svo á að í samningnum hafi verið gengið út frá því að fé í
erlendum gjaldmiðlum myndi einnig skipta um hendur við efndir áfrýjanda á
aðalskyldu sinni, þótt svo hafi ekki farið í raun. Að þessu öllu virtu verður
að leggja til grundvallar að lánið til áfrýjanda hafi verið í erlendum
gjaldmiðlum og skiptir þá ekki máli í hvaða tilgangi hann tók það. Með því að
slíkt lán fellur ekki undir reglur VI. kafla laga nr. 38/2001 um heimildir til
verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum og fallist verður á með héraðsdómi
að ekki séu efni til að víkja til hliðar skuldbindingu áfrýjanda með stoð í 36.
gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með síðari
breytingum verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir
Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, P. Árnason fasteignir ehf., greiði stefnda, Arion banka hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir
Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2011.
I
Mál þetta,
sem dómtekið var miðvikudaginn 5. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi
Reykjavíkur af Arion banka hf., kt.
581008-0150, Borgartúni 19, Reykjavík, með stefnu, birtri 16. ágúst 2010, á
hendur P. Árnasyni fasteignum ehf., kt. 701265-0259,
Gylfaflöt 20, Reykjavík.
Dómkröfur
stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda
skuld, að fjárhæð EUR 52.293,42, JPY
6.810.387,00, CHF 104.006,09, USD
75.153,47, ásamt dráttarvöxtum, sem eru 12,45688% af EUR
52.293,42, frá 10.12. 2009 til greiðsludags, 12,1675% af JPY
6.810.387,00, frá 10.12. 2009 til greiðsludags, 12,11167% af CHF 104.006,09, frá 10.12. 2009 til greiðsludags og
12,23469% af USD 75.153,47, frá 10.12. 2009 til
greiðsludags. Þá er krafizt málskostnaðar að mati
dómsins, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Dómkröfur
stefnda eru þær aðallega,
að hann verði sýknaður af dómkröfum stefnanda, en til vara, að dómkröfur verði lækkaðar verulega. Í báðum
tilfellum er krafizt málskostnaðar að skaðlausu úr
hendi stefnanda að mati réttarins.
II
Málavextir
Stefnandi byggir kröfuna á
lánssamningi nr. 6740 milli stefnda P. Árnasonar fasteigna ehf., sem lántaka og
Kaupþings banka hf., kt. 560882-0419 (nú Arion banki hf., kt. 581008-0150)
sem lánveitanda. Með lánssamningnum, dags. 22.11. 2007 hafi lánveitandi lánað
stefnda jafnvirði ÍSK 20.000.000 í eftirfarandi
myntum og hlutföllum, USD 25% CHF
30% JPY 20% og EUR 25%.
Samkvæmt 2. gr. lánssamningsins skyldi lántaki endurgreiða
lánið með 60 greiðslum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn þann 10.01. 2008.
Samkvæmt 3. gr. samningsins skyldu vextir reiknast frá útborgunardegi lánsins
og greiðast eftir á, á gjalddögum lánsins. Hvert vaxtatímabil skyldi vera einn
mánuður. Vextir skyldu reiknast þannig, að á ársgrundvelli sé margfaldað með
raunverulegum fjölda daga og deilt í með 360.
Þann 30.03. 2009 var gerður viðauki við lánsamninginn, þar
sem lánveitandi samþykkti að fresta gjalddögum lánsins í sex mánuði.
Eftirstöðvar lánsins skyldu þá endurgreiddar með 45 greiðslum á eins mánaðar
fresti, fyrst þann 10.10. 2009. Vextir skyldu greiðast 10.04. 2009, 10.10. 2009
og síðan áfram á gjalddögum lánsins út lánstímann.
Samkvæmt 1. lið 3. gr. lánssamningsins skyldu lánshlutar
lánsins, í öðrum myntum en evrum, bera breytilega vexti, sem skyldu vera LIBOR-vextir, eins og þeir ákvarðast fyrir viðkomandi
gjaldmiðil hverju sinni fyrir viðkomandi vaxtatímabil, tveimur virkum
bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils, að viðbættu 2,0% vaxtaálagi.
Lánshlutar lánsins í evrum skyldu bera breytilega vexti, sem skyldu vera EURIBOR-vextir, eins og þeir ákvarðast fyrir viðkomandi
gjaldmiðil hverju sinni fyrir viðkomandi vaxtatímabil, tveimur virkum
bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils að viðbættu 2,0% vaxtaálagi.
Samkvæmt 6. lið 3. gr. lánasamningsins hafi stefnda borið að
greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð, í erlendum myntum, frá gjalddaga
til greiðsludags. Dráttarvextir lánsins skyldu vera vaxtagrunnur, auk 2,0%
vaxtaálags, sbr. gr. 3.1., að viðbættu dráttarvaxtarálagi sem skyldi vera 10%.
Vaxtagrunnur sé LIBOR/EURIBOR-vextir,
eins og þeir ákvarðist fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni fyrir
viðkomandi vaxtatímabil, tveimur bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils.
Tveimur bankadögum fyrir gjalddaga lánsins hafi LIBOR-vextir
fyrir USD verið 0,23469%, CHF
0,11167% og JPY 0,1675%. Tveim bankadögum fyrir
gjalddaga lánsins hafi EURIBOR-vextir fyrir EUR verið 0,45688% sbr. dskj. nr.
8. Vaxtagrunnur auk vaxtaálags að viðbættu dráttarvaxtaálagi sé fyrir USD 12,23469%, CHF 12,11167%, JPY 12,1675% og EUR 12,45688%.
Stefndi kveður málavexti vera þá, að í
nóvember árið 2007 hafi félagið leitað eftir lánsfjármögnun hjá stefnanda vegna
fyrirhugaðra kaupa þess á fasteigninni Gylfaflöt 20, Reykjavík. Um hafi verið
að ræða rúma 50% lánsfjármögnun, en stefndi hafi lagt eigið fé til kaupanna,
samtals kr. 18.000.000, af kr. 38.000.000 kaupverði.
Eftir hrun íslenzks
efnahagskerfis í október 2008 hafi félaginu reynzt
afar erfitt að standa í skilum, enda hafi tekjur þess dregizt
mjög saman, en útgjöld aukizt, m.a. vegna
óðaverðbólgu og hríðversnandi stöðu íslenzku
krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Síðasta afborgun lánsins hafi verið
innt af hendi í desember 2009.
Fyrirsvarsmenn stefnda hafa í tæpt ár
fyrir samningu greinargerðar reynt árangurslaust að semja við stefnanda um
sanngjarna lúkningu hinnar umkröfðu skuldar.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir kröfur
sínar á því, að gjalddagi lánsins þann 10.12. 2009 hafi ekki verið greiddur.
Skuld samkvæmt lánssamningum þann 10.12. 2009 hafi verið EUR
52.293,42, JPY 6.810.387,00, CHF
104.006,09, og USD 75.153,47, sbr. dskj. nr. 4. Stefnda hafi verið tilkynnt um vanskilin með
innheimtubréfi, dags. þann 09.06. 2010, sbr. dskj.
nr. 5. Skuld þessi hafi ekki fengizt greidd, þrátt
fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu
hennar. Varðandi varnarþing vísist til 1. liðar 17. gr. lánssamningsins.
Með heimild í lögum nr. 125/2008 hafi Fjármálaeftirlitið
tekið þá ákvörðun að taka yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka hf., kt. 560882-0419, og víkja stjórn bankans og skipa
skilanefnd yfir hann. Ákvörðun þessi sé dagsett 9. október 2008. Með ákvörðun
Fjármálaeftirlitsins, dagsettri 22. október 2008, hafi ráðstöfun eigna og
skulda Kaupþings banka hf. til Arion banka hf. verið
ákveðin.
Stefnandi vísar til almennra reglna kröfuréttarins og
meginreglna samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að
efna samninga, en reglur þessar fái m.a. stoð í lögum nr. 7/1936. Kröfur um
dráttarvexti styður stefnandi við 3. gr. í samningi aðila, sbr. 6. gr. laga nr.
38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafan um málskostnað er studd við 1. mgr.
130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af
málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi kveðst ekki vera
virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti
þessum úr hendi stefndu. Um aðild vísar stefnandi til 100. gr. a. laga nr.
161/2002 um fjármálafyrirtæki og ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins. Varðandi
varnarþing vísast til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda
Stefndi
byggir kröfur sínar á því, að hið umdeilda lán sé í raun og veru gengistryggt
lán í íslenzkum krónum, klætt í búning erlends láns.
Gengistrygging lánsfjár, sem veitt sé í íslenzkum
krónum, sé ólögmæt og þannig óskuldbindandi, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í
málum nr. 92/2010 og 153/2010.
Þá fjárhæð, sem stefndi sé krafinn um,
megi að stærstum hluta rekja til gengisbreytinga, í andstöðu við ákvæði 13. og
14. gr. laga nr. 38/2001
Í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 38/2001
segi, að heimilt sé að verðtryggja sparifé og lánsfé samkvæmt 13. gr. laganna,
ef grundvöllur verðtryggingarinnar sé vísitala neyzluverðs,
sem Hagstofa Íslands reikni samkvæmt lögum, sem um vísitöluna gildi, og birti
mánaðarlega í Lögbirtingablaði. Þá segi í frumvarpi til laga nr. 38/2001 í
athugasemdum um 13. og 14. gr., að samkvæmt téðum greinum verði ekki heimilt að
binda skuldbindingar í íslenzkum krónum við dagsgengi
erlendra gjaldmiðla. Jafnframt segi í athugasemdum við frumvarp það, sem síðar
varð að lögum nr. 38/2001, að rétt sé að taka af allan vafa þar að lútandi, að ekki
sé heimilt að binda lánsfé í íslenzkum krónum við
annað en vísitölu neyzluverðs, sbr. þó þröngar
undantekningar í 14. gr. laga nr. 38/2001, sem ekki eigi við í þessu máli.
Fyrrgreind ákvæði laga nr. 38/2001 séu ófrávíkjanleg, sbr. 2. gr. s.l.
Hið umdeilda lán, sem stefndi tók hjá
stefnanda, sé, samkvæmt grein 2.1. samningsins, í íslenzkum
krónum, eða eins og þar segi orðrétt „...jafnvirði íslenzkar
krónur 20.000.000“. Þá segi eftirfarandi í grein 2.2 samningsins: „Lánið, að
uppfylltum útborgunarskilyrðum kemur til útborgunar í einni greiðslu.“ Sú hafi og verið raunin, þ.e.
lánsfjárhæðin, að frádregnum kostnaði, hafi verið greidd út stefnda til
ráðstöfunar í einni greiðslu í íslenzkum krónum.
Hafi erlendur gjaldeyrir verið greiddur
inn á þá gjaldeyrisreikninga, sem upp séu taldir í greinum 2.3 og 2.4
samningsins, sé að mati stefnda ljóst, að einungis hafi verið um
málamyndafærslur að ræða og inneignir á fyrrgreindum gjaldeyrisreikningum, hafi
þær verið fyrir hendi, aldrei verið stefnda til frjálsrar ráðstöfunar.
Stefndi byggi á því, að stefnandi hafi
einhliða sett upp alla skilmála lánasamningsins, án þess að stefndi hafi haft
möguleika á því að koma að athugasemdum eða mótmælum. Stefnandi og forveri hans
séu fjármálafyrirtæki, sem starfi samkvæmt opinberu starfsleyfi og búi yfir
sérfræðiþekkingu á sviði lánastarfsemi. Stefnanda hafi því verið í lófa lagið
að gæta að því, að ekki væri brotið á rétti stefnda með ólögmætum
samningsákvæðum eða samningsskilmálum, sem væru ósanngjarnir og verulega
íþyngjandi fyrir hann. Stefndi hafi mátt treysta því, að samningurinn væri
lögmætur og að áhættan væri ekki þess eðlis, að hún væri tengd ólögmætum
samningsskilmálum.
Ljóst sé, að óskýra og íþyngjandi
skilmála staðlaðra samninga beri að túlka þeim aðila í óhag, sem semji þá eða
láti semja. Samningsstaða aðila hafi verið ójöfn, enda stefnandi sérhæft
fjármögnunarfyrirtæki og skyldur hans þá enn ríkari en ella að misnota ekki þá
aðstöðu sína til þess að ná óeðlilega hagstæðum kjörum.
Stefnandi hafi frá upphafi vitað, eða
mátt vita, að gengistrygging lánsfjár í íslenzkum
krónum væri ólögmæt og verði því að bera hallann af því, að það hafi síðar
verið staðfest af dómstólum.
Stefndi byggi kröfur sínar og á því, að
allar forsendur, sem hafi legið að baki samningsgerðinni í upphafi, hafi breytzt og valdið því, að stefndi sé mun verr settur en
hann hafi verið við undirritun samningsins og staða aðila hafi breytzt í verulegum mæli frá því að samningurinn var
gerður. Það sé því bersýnilega ósanngjarnt af hálfu stefnanda að bera ákvæði
hans fyrir sig vegna atvika, sem síðar hafi komið til og hafi valdið því, að
verulega halli á stefnda, hvað þetta varði, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936.
Þannig beri að víkja þeim samningsskilmálum til hliðar, sem stefnda séu í óhag.
Um lagarök vísi stefndi til laga nr.
38/2001, einkum 13. og 14. gr. Þá vísi stefndi til laga nr. 7/1936, einkum 36.
gr. um heimildir til þess að víkja samningum til hliðar. Varðandi málskostnað
vísi stefndi til XXI. kafla laga nr. 19/1991. Krafa um virðisaukaskatt sé reist
á lögum nr. 50/1988.
IV
Forsendur og niðurstaða
Framkvæmdastjóri
stefnda, Jakob Þór Pétursson, gaf skýrslu fyrir dómi.
Ekki er ágreiningur um það í málinu, að
aðilar hafi gert með sér samning þann, sem stefnandi byggir kröfur sínar á, en
stefndi byggir sýknukröfu sínu á því í fyrsta lagi, að lánið hafi í raun verið
gengistryggt lán í íslenzkum krónum, dulbúið sem
erlent lán, og því ólögmætt og óskuldbindandi. Vísar stefndi því til stuðnings
til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 92/2010 og 153/2010.
Stefnandi mótmælir því að þessir dómar
hafi fordæmisgildi, þar sem lán stefnanda hafi verið ákveðið í erlendri mynt,
gagnstætt því sem var í umræddum dómum, samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar í þeim
málum.
Í lánssamningi aðila segir í grein 2.1,
að lántaki lofi að taka að láni og bankinn að lána að „jafnvirði íslenzkar krónur 20.000.000“, í eftirfarandi myntum: USD 25%, CHF 30%, JPY 20% og EUR 25%. Í grein 2.3
segir, að lánið skuli greiðast inn á tiltekna gjaldeyrisreikninga lántaka við
bankann. Þar kemur enn fremur fram, að tilgangur lánsins er fjármögnun kaupa á
tilgreindri fasteign í Reykjavík, og skuldbindur lántaki sig til þess að
ráðstafa láninu til þess verkefnis. Í gr. 2.5 kemur fram, að lántaki heimili
bankanum að skuldfæra áðurnefnda gjaldeyrisreikninga fyrir greiðslum afborgana
og vaxta samkvæmt samningnum, og í grein 2.7 segir að lánið beri að endurgreiða
í þeim gjaldmiðlum, sem það samanstandi af.
Fyrirsvarsmaður stefnda skýrði svo frá
fyrir dómi, að hann hefði lesið yfir samninginn og undirritað hann, en kvaðst
engu að síður hvorki hafa stofnað þrjá af fjórum tilgreindum
gjaldeyrisreikningum né gefið bankanum umboð til þess að stofna þá. Hafi hann
ekki haft hugmynd um, að þeir hefðu verið stofnaðir. Dollarareikninginn hefði
hann hins vegar átt fyrir og stofnað hann, að hann minnti, á árinu 2000. Hann
kvaðst hafa litið svo á, að lánið væri myntkörfulán, sem honum hefði verið
ráðlagt af hálfu bankans að taka, vegna þess að það væri svo hagstætt. Lánið
hefði verið fært yfir á tékkareikning stefnda daginn eftir að það var lagt inn
á gjaldeyrisreikningana, án þess að stefndi hefði óskað eftir því eða veitt
bankanum umboð til þess. Hann kvaðst aðspurður aldrei hafa gert athugasemdir
við lánsframkvæmdina.
Samkvæmt texta lánssamningsins, eins og
rakið er hér að framan, var lánið veitt í erlendum gjaldmiðlum, og bera gögn
málsins með sér, að það hafi verið greitt inn á gjaldeyrisreikninga stefnda
eins og samið var um. Framburður framkvæmdastjóra stefnda um, að hann hafi ekki
vitað um stofnun þriggja þeirra reikninga, og að greiðsla í gjaldeyri inn á
alla reikningana hafi verið án hans samþykkis, er ekki trúverðugur í ljósi hins
skýra orðalags samningsins þar að lútandi, sem framkvæmdastjóri stefnda las að
sögn og undirritaði. Þá liggur ekki fyrir, að stefni hafi á nokkru stigi gert
athugasemdir við þessa framkvæmd lánveitingarinnar. Liggur ekki annað fyrir en
að stefndi hafi gengið frjáls til þessarar samningsgerðar um lán í erlendri
mynt, sem talið var hagstætt á þessum tíma. Samkvæmt forsendum hæstaréttardóma
þeirra, sem stefndi vísar einkum til, máli sínu til stuðnings, og tilgreindir
eru hér að framan, falla lán í erlendri mynt ekki undir reglur um heimildir til
verðtryggingar lánsfjár í íslenzkum krónum í VI.
kafla laga nr. 38/2001. Er því ekki fallizt á með
stefnda, að umdeildur samningur fari í bága við ákvæði kaflans.
Stefndi heldur því fram, að greiðsla í
erlendum gjaldeyri hafi verið til málamynda og hafi aldrei staðið stefnda til
frjálsrar ráðstöfunar.
Það er meginregla íslenzks
réttar, að menn hafi frelsi til að undirgangast skuldbindingar samkvæmt
samningum, sem þeir gera við aðra, svo fremi sem þeir brjóti ekki gegn gildandi
lögum. Eins og að framan hefur verið rakið liggur ekki annað fyrir en að stefndi
hafi gengið frjáls til samninga um að taka lán í erlendri mynt. Samkvæmt
samningnum skuldbatt stefndi sig til þess að nota lánið til tiltekinna
fasteignakaupa. Ráðstöfunarréttur stefnanda yfir láninu var þannig
samningsbundinn. Liggur og ekki annað fyrir en að stefnandi hafi nýtt
greiðsluna eins og um var samið. Er því ekki fallizt
á þessa mótbáru stefnda.
Stefndi byggir á því, að samningsstaða
aðila hafi verið ójöfn.
Stefndi er fyrirtæki, sem hefur atvinnu
af fasteignaviðskiptum. Verður að ætla, þar sem annað hefur ekki komið fram í
málinu, að stefndi hafi nokkra reynslu af samningsgerð og fjárskuldbindingum,
en samkvæmt kennitölu fyrirtækisins er það stofnað á árinu 1965. Enda þótt
stefnandi búi yfir sérfræðiþekkingu á sviði lánastarfsemi, hefur stefndi ekki
sýnt fram á, að samningsstaða aðila hafi verið ójöfn á þann veg að leiði til
ógildingar á samningi aðila, eða að stefnandi hafi á einhvern hátt misnotað
aðstöðu sína gagnvart stefnda til þess að ná óeðlilega hagstæðum kjörum.
Stefndi byggir loks á því, að allar
forsendur, sem legið hafi að baki samningsgerðinni, hafi brostið, þannig að
stefndi sé mun verr settur en hann hafi verið við samningsgerð. Sé því
bersýnilega ósanngjarnt af hálfu stefnanda að bera samninginn fyrir sig vegna
atvika, sem síðar hafi komið til og hafi valdið því, að verulega halli á
stefnda, hvað það varði, og beri því að víkja þeim samningsskilmálum, sem
stefnda séu í óhag, til hliðar, með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936.
Stefndi rekur á engan hátt á hvern veg
forsendur hafi breytzt, eða hverjar hans forsendur
hafi verið við samningsgerð. Kemur þessi málsástæða því þegar af þeim sökum
ekki til álita.
Að öllu framangreindu virtu verða
kröfur stefnanda teknar til greina eins og þær eru fram settar, en stefndi
hefur ekki mótmælt vaxtakröfu stefnanda sérstaklega. Þá ber að dæma stefnda til
að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr.
600.000, þar með talinn virðisaukaskattur af málflutningsþóknun.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað
upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, P. Árnason fasteignir ehf., greiði stefnanda,
Arion banka hf., EUR
52.293,42, JPY 6.810.387,00, CHF
104.006,09, USD 75.153,47, ásamt dráttarvöxtum, sem
eru 12,45688% af EUR 52.293,42, frá 10.12. 2009 til
greiðsludags, 12,1675% af JPY 6.810.387,00, frá
10.12. 2009 til greiðsludags, 12,11167% af CHF
104.006,09, frá 10.12. 2009 til greiðsludags og 12,23469% af USD 75.153,47, frá 10.12. 2009 til greiðsludags. Þá greiði
stefndi stefnanda kr. 600.000 í málskostnað.