Hæstiréttur íslands
Mál nr. 184/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Hjördís Hákonardóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. mars 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. mars 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að honum verði með vísan til 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 gert að dvelja í Hlaðgerðarkoti, að því frágengnu að honum verði með vísan til sama lagaákvæðis gert að dvelja á annarri viðeigandi stofnun, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldinu verði markaður „hinn skemmsti tími.“
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2016.
Héraðssaksóknari hefur gert þá kröfu að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. mars nk. kl. 16:00.
Í greinargerð sækjanda kemur fram að mál þetta hafi borist héraðssaksóknara frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 29. febrúar sl. og sé málið þar nú til meðferðar og bíði ákvörðunar um saksókn. Að mati héraðssaksóknara sé kærði undir sterkum grun um að hafa gerst sekur um nauðgun, frelsissviptingu, hótanir, líkamsárás og blygðunarsemisbrot gagnvart sambýliskonu sinni A á heimili þeirra að [...] í [...]. Með því að hafa föstudaginn 5. febrúar sl. slegið hana ítrekað hnefahöggum í síðuna og höfuðið, rifið í hár hennar, tekið hana hálstaki og sparkað ítrekað í síðu hennar og fætur þar sem hún hafi legið á gólfinu. Einnig með því að hafa ítrekað skipað henni að setjast á stól og sparkað svo í stólinn þegar hún hafi sest þannig að hún hafi fallið í gólfið. Með því að hafa, á meðan á þessu hafi staðið, ítrekað hótað henni lífláti og meinað henni útgöngu úr íbúðinni og þvingað hana aftur inn í íbúðina með því að rífa í hárið á henni og slá hana hnefahöggum er hún hafi reynt að flýja. Kærði hafi síðan skipað henni að girða niður um sig og í kjölfarið tekið myndir af rassi henni og kynfærum gegn vilja hennar auk þess að skoða kynfæri hennar með vasaljósi. Kærði hafi svo þvingað hana til munnmaka og endaþarmsmaka. Kærði sé undir sterkum grun um að hafa haldið brotaþola nauðugri í íbúðinni og beitt hana framangreindu ofbeldi í rúmlega fjórar klukkustundir með þeim afleiðingum að hún hafi hlotið mar á höfði, bæði enni og hársverði og eymsli víða um líkamann auk þess sem jaxl í efri gómi vinstra megin hafi brotnað.
Að mati héraðssaksóknara geti þetta varðað við 1. mgr. 194. gr., 209. gr., 1. mgr. 218. gr., 226. gr., 225. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í gögnum málsins sé að finna framburði vitna, vottorð frá neyðarmóttöku, ljósmyndir, auk fjarskiptasamskipta og samskipta á facebook samskiptamiðlinum sem að mati héraðssaksóknari styðja við framburð brotaþola. Rannsókn málsins sé lokið fyrir utan að beðið sé áverkavottorðs frá tannlækni brotaþola. Auk þess hafi brotaþoli gefið skýrslu hjá lögreglu um að kærði og faðir hans hafi ítrekað reynt að hafa áhrif á framburð hennar í málinu með því að setja sig í samband við hana eftir að málið hafi komið upp. Kærði neiti sök og hafi gefið skýringar á tilkomu áverka brotaþola sem héraðssaksóknari meti ótrúverðuga.
Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 7. febrúar sl., fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna, en frá 10. febrúar á grundvelli almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sem síðar hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar nr. 98/2016, með vísan til forsendna hins kæra úrskurðar, þann 12. febrúar sl. Hafi Hæstiréttur þar komist að þeirri niðurstöðu að kærði væri undir sterkum grun um framangreind brot og að þau væru þess eðlis að varðhald væri nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Í dómi Hæstaréttar séu einnig rakinn efnisatriði málsins með nánari hætti og atriði sem fram hafa komið við skýrslutökur af aðilum og vitnum málsins og sé einnig vísað til þess til stuðnings kröfu þessari.
Brot þau sem kærði sé grunaður um geta varðað allt að 16 ára fangelsi. Með hliðsjón af alvarleika sakarefnis og þess að ríkir almannahagsmunir standi til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo standi á sé þess krafist að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans sé til meðferðar hjá dómstólum.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða:
Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 7. febrúar sl., fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna, en frá 10. febrúar sl. á grundvelli almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 12. febrúar sl. í máli nr. 98/2016. Í því máli taldi Hæstiréttur að skilyrði væru uppfyllt til þess að kærði sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 vegna brota sem hann væri undir sterkum grun að hafa framið gegn sambýliskonu sinni og að brotin væru þess eðlis að varðhald væri nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Mál kærða er nú til meðferðar hjá héraðssaksóknara og bíður ákvörðunar um saksókn.
Með vísan til framangreinds og þess sem fram kemur í greinargerð sóknaraðila er fallist á að kærði sé undir sterkum grun um að hafa svipt sambúðarkonu sína frelsi sínu og beitt hana líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi þannig að varðað geti við 1. mgr. 194. gr., 1. mgr. 218. gr. og 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk þess sem háttsemi hans er talin varða við 209. gr., 225. gr. og 233. gr. sömu laga. Brot sem kærði er undir sterkum grun um að hafa framið varða meira en 10 ára fangelsi. Þá er á það fallist að brot þessi séu þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er því fullnægt og er ekkert fram komið í málinu sem leitt getur til þess að talið verði að skilyrði ákvæðisins séu ekki lengur fyrir hendi frá því að dómur Hæstaréttar gekk í máli nr. 98/2016. Þá verður með vísan til framangreindra sjónarmiða, sérstaklega eðli þeirra brota sem kærði er sterklega grunaður um að hafa framið, ekki talin efni til að beita 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 og mæla fyrir um vistun hans á Hlaðgerðarkoti. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila um að kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi eins og í úrskurðarorði greinir.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. mars nk. kl. 16:00.