Hæstiréttur íslands

Mál nr. 113/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. apríl 2003.

Nr. 113/2003.

Ákæruvaldið

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

Pétri Þór Gunnarssyni

(Sigríður Rut Júlíusdóttir hdl.)

 

Kærumál. Vitni.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu P um að ákæruvaldinu yrði bannað að leiða átján nafngreind vitni við aðalmeðferð máls ákæruvaldsins gegn P. Í dómi Hæstaréttar segir að ráðið verði af gögnum málsins að tíu af þeim átján einstaklingum, sem P hafi krafist að ákæruvaldinu væri meinað að kveðja fyrir dóm sem vitni í málinu, hafi unnið að sérfræðilegum rannsóknum fyrir lögreglu við rannsókn málsins, sbr. 70. gr. laga nr. 19/1991. Af þeim sökum yrði talið heimilt að leiða umrædda einstaklinga fyrir dóm sem vitni, í því skyni að skýra þær rannsóknir sem þeir höfðu komið að, eða atriði sem þeim tengdust. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. mars 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2003, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að sóknaraðila yrði bannað að leiða átján nafngreind vitni við aðalmeðferð máls sóknaraðila gegn varnaraðila og öðrum manni. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að sóknaraðila „verði synjað um að leiða eftirtalin vitni fyrir dóm til skýrslugjafar um atriði sem varða álit þeirra, skoðanir og ályktanir, sem byggðar séu á sérþekkingu þeirra eða meintri sérþekkingu þeirra á atriðum sem varða það hvort málverk teljast upprunaleg eða ekki, breytt eða ekki eða hverjir séu réttir höfundar málverka og mynda sem ákæra í málinu snýst um, en teljast ekki til sakaratriða málsins í skilningi 2. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991.“ Nöfn umræddra vitna eru talin upp í hinum kærða úrskurði.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt 70. gr. laga nr. 19/1991 leitar rannsóknari til kunnáttumanna, þegar þörf er á sérfræðilegri rannsókn vegna opinbers máls. Getur slík rannsókn á málsatvikum verið nauðsynleg til þess að ákveða hvort sækja skuli mann til sakar og afla nauðsynlegra gagna til undirbúnings málsmeðferðar, sbr. 67. gr. laganna. Af þessu leiðir einnig að nauðsynlegt kann að vera að kveðja þann, er veitt hefur slíka sérfræðilega aðstoð, sem vitni fyrir dóm til þess að skýra þau gögn málsins, er frá honum stafa eða atriði, sem þeim tengjast. Verður að telja slíka vitnaleiðslu sérfræðings heimila, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991, sbr. einnig dóm Hæstaréttar í dómasafni 1999, bls. 2452. Af gögnum málsins verður ráðið að tíu af þeim átján einstaklingum, sem varnaraðili hefur krafist að sóknaraðila verði meinað að kveðja fyrir dóm sem vitni í máli þessu, hafi unnið að sérfræðilegum rannsóknum fyrir lögreglu við rannsókn málsins, sbr. 70. gr. laga nr. 19/1991. Af þeim sökum verður talið heimilt að leiða umrædda einstaklinga fyrir dóm sem vitni í því skyni að skýra þær rannsóknir sem þeir hafa komið að, eða atriði sem þeim tengjast.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2003.

Málavextir

                Ákærðu eru saksóttir fyrir skjalafals og fjársvik í sambandi við sölu rúmlega eitt hundrað myndverka, sem talin eru fölsuð, á árunum 1992 til 1999, ýmist hér á landi eða í Kaupmannahöfn.  Var málið þingfest 16. janúar sl. og ráðgert að aðalmeðferð þess standi dagana 1. til 11. apríl nk.  Í þinghaldi í dag var af hálfu ákærða Péturs Þórs gerð krafa um það að ákæruvaldinu verði synjað um það að leiða fyrir dóm 18 af þeim vitnum sem það hyggst leiða, þau Sigurð Jakobsson, Viktor Smára Sæmundsson, Kristínu Guðnadóttur, Peter Bower, Harald Árnason, Rannver Hannesson, Júlíönu Gottskálksdóttur, Halldór Björn Runólfsson, Aðalstein Ingólfsson, Hrafnhildi Schram, Ólaf Kvaran, Eirík Þorláksson, Guðmund Axelsson, Hörð Ágústsson, Thor Vilhjálmsson, Ástu Kristínu Eiríksdóttur, Svavar Guðna Svavarsson og Karl Ómar Jónsson, “um atriði sem varða álit þeirra, skoðanir og ályktanir, sem byggðar séu á sérþekkingu þeirra eða meintri sérþekkingu þeirra á atriðum sem varða það hvort málverk teljast upprunaleg eða ekki, breytt eða ekki eða hverjir séu réttir höfundar málverka og mynda sem ákæra í málinu snýst um, en teljast ekki til sakaratriða málsins í skilningi 2. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála”.

1.             Í fyrsta lagi er á því byggt að samkvæmt. ákvæðum laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991 verði vitni í opinberum málum eingöngu spurð um atriði er varði sakaratriði málsins en ekki um önnur atriði.  Við túlkun á orðalagi 2. mgr. 59. gr. oml. og því hvað felist í orðalaginu "sakaratriði " skv. lagaákvæðinu hafi í íslenskri dómaframkvæmd iðulega verið litið til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og lagt að jöfnu orðalag 2. mgr. 59. gr. oml. og ákvæðis 51. gr. eml. þar sem kveðið er á um skyldu vitnis til að mæta fyrir dóm og svara munnlega spurningum sem beint er til vitnisins um málsatvik.  Orðalag 51. gr. laga um meðferð einkamála hafi í dómaframkvæmd verið skýrt svo að vitni geti einungis borið um málsatvik sem það hefur upplifað að eigin raun.  Svokölluð sérfræðivitni séu því óheimil í íslenskum rétti og ekki heimilt að spyrja vitni spurninga er varða skoðun vitnis á tilteknum atriðum sem vitnið hefur ekki upplifað sjálft af eigin raun.

2.             Þá er á því byggt að það væri mismunun gagnvart sakborningi að  heimila ódómkvöddum kunnáttumönnum á rannsóknarstigi að koma fyrir dóm sem vitni og þannig brot gegn 65. og 70.gr. stjórnarskrárinnar og 6. mgr. mann-réttindasáttmála Evrópu.  Í 70. gr. oml sé heimild fyrir rannsóknara að leita til kunnáttumanna þegar þörf sé sérfræðilegrar rannsóknar, svo sem blóðrannsókn og annarri læknisskoðun, efnafræðilegri rannsókn, letur- og skriftarrannsókn, bókhaldsrannsókn o.s.frv.  Að heimila slíkum ódómkvöddum kunnáttumönnum á vegum ákæruvaldsins að koma fyrir dóminn og gefa vitnaskýrslu er byggðist á sérfræðiþekkingu þeirra en varðaði ekki atvik málsins eða "sakaratriði" væri brot gegn jafnræði aðila og gegn mannréttindum sakborninga og yrði slík málsmeðferð seint talin réttlát. Augljós sé sú mismunun sem felist í því að heimila slíkum kunnáttumönnum, sem hafa hagsmunatengsl við rannsókn málsins, að bera vitni fyrir ákæruvaldið en að sama skapi yrðu slík ódómkvödd sérfræðivitni sakbornings útilokuð vegna þröngrar túlkunar íslenskra dómstóla á orðinu "sakaratriði" í 2. mgr. 59. gr. oml.  Sakborningur yrði hins vegar að láta dómkveðja kunnáttumenn á meðan ákæruvaldið geti einhliða valið sína kunnáttumenn, svo lengi sem þeir kunnáttumenn séu valdir á rannsóknarstigi málsins. Hvorki sakborningur né dómari velji  kunnáttumennina og ómögulegt sé fyrir dómara og sakborning að koma í veg fyrir það að rannsóknari velji kunnáttumenn sem eigi hagsmuni undir málinu, eins og raun hafi orðið í þessu máli.

3.             Loks er skírskotað til þess af hálfu ákærða að vitni þau sem um ræðir séu “óeðlilega hagsmunatengd máli þessu og rannsókn þess”.  Eru nefnd mörg dæmi þessa í greinargerð ákærða.  Ríkislögreglustjóri hafi t.d. óskað eftir tillögum, eins vitnanna, Ólafs Kvaran forstöðumanns Listasafns Íslands um rannsóknir sem unnt væri að gera til að ganga úr skugga um hvort tilteknar myndir séu falsaðar eða ekki.  Þá liggi fyrir að vitnin sem um ræðir séu eða hafi verið starfsmenn kærenda.  Til dæmis hafi Halldór B. Runólfsson listfræðingur opinberlega haldið fram því sama og Ólafur Ingi Jónsson og auk þess unnið listfræðilegt mat fyrir Ólaf Inga vegna mynda eftir Jón Stefánsson. Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur sé tengdur Unu Dóru Copley, dóttur Nínu Tryggvadóttur, vináttuböndum og hafi keypt fyrir hana málverk eftir Nínu á uppboðum um árabil.  Þá sjáist það af gögnum málsins að Ólafur Ingi Jónsson hafi haft áhrif á niðurstöður Aðalsteins, sbr. skjal II/A-20.1, þar sem Ólafur Ingi virðist tala Aðalstein til þangað til hann skiptir um skoðun.  Hrafnhildur Schram listfræðingur hafi unnið á Listasafni Íslands og orðið síðar forstöðumaður Ásgrímssafns sem sé í raun deild eða nokkurs konar útibú frá Listasafni Íslands.  Þá hafi hún skrifað bók með einu vitninu, Júlíönu Gottskálksdóttur.  Ólafur Kvaran listfræðingur sé forstöðumaður Listasafns Íslands, eins kæranda, og yfirmaður annars vitnis, Viktors Smára Sigurðssonar og segja megi að hann sé einnig í yfirmannsstöðu gagnvart Hrafnhildi Schram.  Ólafur Kvaran hafi vísað á Kristínu Guðnadóttur listfræðing til að vinna rannsóknarstörf fyrir lögregluna í máli þessu en hún hafi verið starfsmaður Kjarvalsstaða í mörg ár áður en hún varð forstöðumaður Ásmundarsafns sem sé deild innan Listasafns Reykjavíkur (sem er einn kærenda).  Eiríkur Þorláksson listfræðingur sé forstöðumaður Kjarvalsstaða, eins kæranda, og yfirmaður Kristínar Guðnadóttur.  Ólafur Ingi Jónsson sé forvörður Kjarvalsstaða.  Guðmundur Axelsson listaverkasali sé fyrrverandi samkeppnisaðili Gallerís Borgar og tengdur Morkinskinnu og eigendum þess fyrirtækis vináttu- og viðskiptaböndum til margra ára.  Hörður Ágústsson listamaður hafi unnið við að skipta dánarbúi Svavars Guðnasonar listamanns og verið vinur hans.  Júlíana Gottskálksdóttir listfræðingur byggingalistasögu hafi unnið á Listasafni Íslands, kærenda í málinu.  Svavar Guðni Svavarsson sé sonur Svavars Guðnasonar listamanns.  Karl Ómar Jóhannesson verkfræðingur sé tengdur Ástu Eiríksdóttur ekkju Svavars Guðnasonar vináttuböndum.  Sigurður Jakobsson hafi um langa tíð unnið að rannsóknum fyrir Ólaf Inga Jónsson og Viktor Smára Sigurðsson.  Viktor Smári Sigurðsson sé forvörður Listasafns Íslands, eins kærenda.  Hafi hann unnið frumrannsóknir áður en málin voru kærð til lögreglu og geti því ekki borið vitni með vísan til 70. gr. oml.  Peter Bower sé tengdur Ólafi Inga Jónssyni vináttuböndum og ákærði telur að þeir hafi jafnvel verið skólabræður.  Þá virðist Peter Bower einnig tengdur Arnari Jenssyni lögreglumanni vináttuböndum eins og sjá megi í skjali II/C-24.  Þá komi þar fram  að Arnar, Rannver Hannesson, Ólafur Kvaran, Viktor Smári Sæmundsson og Sigurði Jakobsen, sem fyrr eru nefndir, hafi veitt Peter Bower aðstoð, ráðleggingar og útvegað honum tæki og aðstöðu til rannsókna.  Þá hafi Rannver Hannesson unnið með Ólafi Inga Jónssyni á Þjóðminjasafni Íslands og að auki tengist hann einnig Viktori Smára Sigurðssyni vegna náins samstarfs að ýmsum verkefnum.  Leiði þetta allt til þess að skýrslur vitnanna og skoðanir geti ekki haft vægi í málinu og séu því vitnaskýrslur þeirra sýnilega þarflausar í skilningi 4. mgr. 128. gr. oml.

Af hálfu ákæruvaldsins er kröfunni mótmælt og á það bent að í íslensku réttarfari sé sönnunarmat dómara er frjálst og óbundið eins og fram komi í VII. kafla oml.  Dómari meti af því sem fram er fært fyrir dómi við aðalmeðferð hvort nægileg sönnun sé fram komin um sekt, þ.e. skýrslum ákærða og vitna, mats-og skoðunargerðum, skjölum og öðrum sýnilegum sönnunargögnum.  Krafan um það að þessi tilgreindu vitni komi ekki fyrir dóm virðist byggja á því að þau hafi ekki séð eða verið viðstödd atburði þá sem málið fjallar um.  Ekki sé fallist á þennan takmarkandi skilning ákærða, enda sé t.d. í 70 gr. oml. lögð sú skylda á herðar rannsóknar- og ákæruvalds að láta fara fram rannsókn á sönnunargögnum og ýmsu því sem leiða má upplýsingar af auk þess sem 71. gr. geri ráð fyrir því að leitað sé til ýmissa sérfræðinga sem framkvæmt geta rannsóknir, svo sem á geðrænu ástandi ákærða.  Á grunni slíkra rannsókna sé ákæra ráðin. Ákæruvaldið beri sönnunarbyrði í refsimáli og því beri að færa fram fyrir dómi það sem þýðingu hafi fyrir hana.  Þar eigi sækjandi og verjandi tækifæri kost að prófa vitni og sönnunargögn fyrir dómaranum.

Um 1.      Vitni þau sem um ræðir hafa ýmist unnið sérfræðivinnu, gefið sérfræðiálit vegna rannsóknar málsins, veitt lögreglu upplýsingar varðandi málið eða þá gefið vitnaskýrslur hjá lögreglu undir rannsókn þess.  Verður ekki annað séð en að þessi atriði geti haft þýðingu fyrir málsúrslitin, sbr. 4. mgr. 128. gr. oml.  Skilja verður málsreifun ákærða svo þau ein geti talist sakaratriði máls í skilningi 2. mgr. 59. gr. laganna sem vitni hefur “upplifað sjálft af eigin raun”, væntanlega þegar brot var framið eða í sérstökum tengslum við það.  Ekki er unnt að fallast á þennan þrönga skilning ákærða á lagaákvæðinu og hljóta öll atvik, hvenær og hvar sem þau hafa gerst, að teljast sakaratriði í skilningi lagaákvæðisins, enda geti vitnið borið um þau af eigin raun og þau haft þýðingu fyrir málsúrslit.  Ber samkvæmt því að synja kröfu ákærða að ákæruvaldinu verði af þessari ástæðu bannað að leiða vitnin sem um ræðir.

Um 2.      Í 131. gr. laga um meðferð opinberra mála kemur fram það sjónarmið að dómari máls geti hvenær sem er ákveðið að afla gagna eða heyra vitni ef hann telur það nauðsynlegt til þess að hið rétta komi fram í því.  Hefur verið litið svo á að dómari geti mælt fyrir um rannsókn þeirra atriða sem greinir í 70. gr. oml.  Rík dómvenja er fyrir þessu og oft er þetta gert vegna kröfu eða ábendinga sökunauts en einnig hafa dómarar haft frumkvæðið að slíkum rannsóknaraðgerðum.  Hefur þetta tíðkast þetta á öllum stigum málsmeðferðarinnar.  Verður ekki séð að ákærðu sé mismunað með þeim hætti sem ákærði heldur fram.  Ber að synja kröfu ákærða að ákæruvaldinu verði af þeirri ástæðu bannað að leiða vitnin sem um ræðir.

Um 3.           Eins og segir hér að framan verður ekki annað séð en að framburður vitnanna sem um ræðir geti haft þýðingu fyrir úrslit máls þessa.  Á hinn bóginn kemur það sem ákærði heldur fram um tengsl vitnanna innbyrðis og við kærendur til álita þegar dómarar þurfa að meta skýrslur þeirra.  Er það og skylda verjendanna að reifa það í málflutningi.  Getur þetta ekki leitt til þess að ákæruvaldinu verði bannað að leiða vitnin og er synjað kröfu ákærða um það.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

Úrskurðarorð:

                Synjað er kröfu ákærða, Péturs Þórs Gunnarssonar, um það að ákæruvaldinu verði bannað að leiða vitnin Sigurð Jakobsson, Viktor Smára Sæmundsson, Kristínu Guðnadóttur, Peter Bower, Harald Árnason, Rannver Hannesson, Júlíönu Gottskálksdóttur, Halldór Björn Runólfsson, Aðalstein Ingólfsson, Hrafnhildi Schram, Ólaf Kvaran, Eirík Þorláksson, Guðmund Axelsson, Hörð Ágústsson, Thor Vilhjálmsson, Ástu Kristínu Eiríksdóttur, Svavar Guðna Svavarsson og Karl Ómar Jónsson.