Hæstiréttur íslands
Mál nr. 388/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Flýtimeðferð
|
|
Mánudaginn 27. ágúst 2007. |
|
Nr. 388/2007. |
Mjólkursamsalan ehf. Auðhumla svf. og Osta- og smjörsalan sf. (Þórunn Guðmundsdóttir hrl.) gegn Samkeppniseftirlitinu (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Flýtimeðferð.
Fallist var á að skilyrðum 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri fullnægt til útgáfu stefnu til flýtimeðferðar á máli, sem M o.fl. hugðust höfða á hendur S, með kröfu um að forstjóri hans og aðrir starfsmenn víki sæti við rannsókn sem stendur yfir á ætluðum brotum M o.fl. gegn samkeppnislögum nr. 44/2005.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. júlí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júlí 2007, þar sem synjað var beiðni sóknaraðila um útgáfu stefnu til flýtimeðferðar á máli, sem þeir hyggjast höfða á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að gefa út stefnu til flýtimeðferðar á málinu.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Sóknaraðilar hyggjast höfða mál á hendur varnaraðila með kröfu um viðurkenningu á að forstjóra hans og öðrum starfsmönnum sé skylt að víkja sæti við „meðferð stjórnsýslumáls þess sem hófst með húsleit stefnda hjá stefnendum 5. júní 2007.“ Þeir höfðu sent varnaraðila bréf 15. júní 2007 með kröfu um þetta en varnaraðili synjað kröfunni með svarbréfi 22. júní sama ár. Hafa sóknaraðilar óskað eftir að fyrirhugað dómsmál sæti flýtimeðferð eftir ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991. Héraðsdómur Reykjavíkur synjaði beiðninni með bréfi 9. júlí 2007 og var hinn kærði úrskurður kveðinn upp að undangenginni kröfu sóknaraðila þar um, sbr. 3. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991.
Samkvæmt 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 er það meðal annars skilyrði fyrir flýtimeðferð einkamáls að mál sé höfðað vegna ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds. Málssókn sóknaraðila beinist eingöngu að því að fá hnekkt synjun varnaraðila á að víkja sæti við rannsókn á ætluðum brotum þeirra gegn ákvæðum samkeppnislaga nr. 44/2005. Fallist verður á með sóknaraðilum að synjun varnaraðila á erindi þeirra hér að lútandi teljist vera ákvörðun í skilningi ákvæðisins og varði hagsmuni þeirra sem telja verði stórfellda í þeirri merkingu sem lagaákvæðið geymir. Samkvæmt þessu eru skilyrði 1. mgr. 123. laga nr. 91/1991 uppfyllt til að heimila flýtimeðferð á máli sóknaraðila á hendur varnaraðila og verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að gefa út réttarstefnu til flýtimeðferðar á málinu.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að gefa út stefnu til flýtimeðferðar á máli sem sóknaraðilar, Mjólkursamsalan ehf., Auðhumla svf. og Osta- og smjörsalan sf., hyggjast höfða á hendur varnaraðila, Samkeppniseftirlitinu, með kröfu um að forstjóri hans og aðrir starfsmenn víki sæti við rannsókn sem stendur yfir á ætluðum brotum sóknaraðila gegn samkeppnislögum nr. 44/2005.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júlí 2007.
Með bréfi Þórunnar Guðmundsdóttur hrl., dags. 4. júlí sl., var óskað eftir flýtimeðferð vegna fyrirhugaðrar málshöfðunar Mjólkursamsölunnar ehf., Auðhumlu svf. og Osta- og smjörsölunnar sf., þar sem gerð verður sú krafa að viðurkennt verði að forstjóra Samkeppniseftirlitsins og öðrum starfsmönnum stofnunarinnar sé skylt að víkja sæti við meðferð þess stjórnsýslumáls sem hófst með húsleit Samkeppniseftirlitsins hjá stefnendum 5. júní 2007.
Með bréfi, dags. 9. júlí sl., hafnaði dómstjórinn í Reykjavík framangreindri beiðni og synjaði um útgáfu stefnu. Með bréfi, dags. sama dag, var þess óskað, í samræmi við 3. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991, að kveðinn yrði upp úrskurður um synjunina.
Í beiðninni kemur fram að kjarni málsins lúti að ummælum forstjóra Samkeppniseftirlitsins um málefni stefnenda bæði fyrir og eftir umrædda húsleit. Telja stefnendur að vegna þeirra ummæla og óviðeigandi framkomu hafi forstjóri Samkeppniseftirlitsins orðið vanhæfur til meðferðar málsins og aðrir starfsmenn stofnunarinnar þar með á grundvelli undirmannavanhæfis. Með bréfi, dags. 15. júní 2007, hafi stefnendur farið fram á að forstjóri Samkeppniseftirlitsins og aðrir starfsmenn þess vikju sæti við meðferð þess stjórnsýslumáls, sem stofnunin hefur nú til meðferðar vegna meintra brota stefnenda á samkeppnislögum. Samkeppniseftirlitið hafi hafnað þeirri kröfu með bréfi dags. 22. júní 2007.
Stefnendur telja að skilyrði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 fyrir því að málið hljóti flýtimeðferð séu uppfyllt og er það rökstutt með eftirfarandi hætti.
Tekið er fram að ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 áskilji ekki að um stjórnvaldsákvörðun þurfi að vera að ræða í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1933 til að mál hljóti flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum laganna. Heimildin nái þannig til ýmiss konar ákvarðana og athafna stjórnvalda sem ekki séu stjórnvaldsákvarðanir og þar með til þeirrar ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins að hafna kröfu um að allir starfsmenn stofnunarinnar víki sæti við meðferð stjórnsýslumálsins.
Ákvæði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 setji það skilyrði fyrir flýtimeðferð að brýn þörf sé á skjótri úrlausn í málinu. Stefnendur telja ótvírætt að svo sé í þessu máli. Það varði miklu fyrir þá að rannsókn stjórnsýslumálsins sé ekki í höndum vanhæfra aðila og skipti því miklu máli að rannsókn verði fengin óháðum og óhlutdrægum aðilum sem fyrst.
Ákvæði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 setji einnig það skilyrði að mál skuli varða stórfellda hagsmuni málsaðila til að fallist verði á að það sæti flýtimeðferð. Stefnendur telja ótvírætt að mál þetta varði stórfellda hagsmuni þeirra. Málið snúist um rannsókn á meintu broti þeirra gegn samkeppnislögum. Það varði miklu að óhlutdrægur aðili rannsaki málið þannig að þeir fái þá hlutlægu málsmeðferð sem þeim beri lögum samkvæmt. Telja þeir hættu á að niðurstaða rannsóknar verði lituð af því að Samkeppniseftirlitið hafi þegar komist að niðurstöðu um sekt þeirra, verði hún áfram í höndum Samkeppniseftirlitsins.
Samkvæmt framangreindu telja stefnendur ljóst að öllum skilyrðum 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 um flýtimeðferð sé fullnægt vegna fyrirhugaðrar málsóknar þeirra.
Af stefnu verður ráðið að aðilar séu sammála um að sú ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að hafna því að víkja sæti við meðferð þess stjórnsýslumáls, sem hér um ræðir, sé ekki stjórnvaldsákvörðun. Er sá skilningur í samræmi við sjónarmið í íslenskum stjórnsýslurétti. Samkvæmt 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 er það skilyrði fyrir því að mál sæti flýtimeðferð að fyrirhuguð málshöfðun sé vegna ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds. Þar sem ákvörðun um hæfi varðar meðferð máls, en lýtur ekki að efnislegri úrlausn þess, verður ekki talið að uppfyllt sé það skilyrði flýtimeðferðar að um sé að ræða ákvörðun eða athöfn stjórnvalds í skilningi lagaákvæðisins.
Samkvæmt framansögðu er beiðni um flýtimeðferð málsins hafnað og synjað um útgáfu stefnu.
Eggert Óskarsson varadómstjóri kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Beiðni Mjólkursamsölunnar ehf., Auðhumlu svf. og Osta- og smjörsölunnar sf., um flýtimeðferð í fyrirhuguðu máli þeirra gegn Samkeppniseftirlitinu er hafnað og synjað um útgáfu stefnu.