Hæstiréttur íslands

Mál nr. 593/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara


Föstudaginn 23

 

Föstudaginn 23. október 2009.

Nr. 593/2009.

Þórsberg ehf.

(Björn L. Bergsson hrl.)

gegn

Kvóta og skipasölunni ehf.

(Jónas Þór Jónasson hrl.)

 

Kærumál. Hæfi dómara.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu Þ ehf. um að dómari málsins viki sæti. Ekki var talið að fyrri dómsúrlausnir dómara yllu vanhæfi í nýju máli, þótt sakarefni væri hliðstætt.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari viki sæti í máli varnaraðila gegn sóknaraðila. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að dómaranum verði gert að víkja sæti í málinu.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fyrri dómsúrlausnir dómara valda ekki vanhæfi í nýju máli, þótt sakarefni sé hliðstætt. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.

Kærumálskostnaðar er ekki krafist.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 2009.

Stefnandi, Kvóta-og skipasalan ehf., Fjarðargötu 11, Hafnarfirði, höfðaði mál þetta með stefnu birtri 16. mars 2009 á hendur Þórsbergi ehf., Strandgötu 25, Tálknafirði. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu á 73.442.470 krónum gegn afhendingu 25% aflahlutdeildar í Skagafjarðarrækju, auk dráttarvaxta og málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara krefst hann lækkunar á kröfu stefnanda, auk málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Í þinghaldi 24. júní 2009 vakti lögmaður stefnda máls á því hvort hugsanlegt væri að dómari væri vanhæfur til að dæma málið, þar sem hún hefði áður dæmt um sama sakarefni í máli því sem fór til Hæstaréttar og lauk með dómi réttarins 5. mars 2009, í máli nr. 392/2008.

Í þinghaldi 11. september sl., var lögmönnum aðila gefinn kostur á að reifa sjónarmið sín varðandi vanhæfi dómarans.

Stefndi kveður stefnu í máli því sem stefnandi hefur nú höfðað og því máli sem lauk með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar vera samhljóða. Hann kveður hættu á að dómari geti ekki litið óhlutdrægt á málavexti þar sem hann hafi í fyrra málinu dæmt um sama sakarefni, og beri því að víkja sæti í málinu á grundvelli g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991.

Lögmaður stefnanda kvað um sömu kröfu að ræða í máli þessu og því máli sem lauk með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 392/2008. Hins vegar væri mál þetta ekki milli sömu aðila og í hinu fyrra máli og málsástæður stefnda lúti því að öðrum atriðum en í fyrra málinu.

Niðurstaða.

Í máli því sem stefnandi hefur nú höfðað eru vissulega hafðar uppi sömu kröfur og í máli því sem lauk með dómi Hæstaréttar 5. mars 2009. Málið er hins vegar ekki milli sömu aðila og í fyrra málinu og hefur stefndi að hluta til teflt fram nýjum málsástæðum.

Forsendur fyrir dómsniðurstöðum dómara í hinu fyrra máli geta því ekki verið til þess fallnar að draga megi í efa hæfi hans til að fara með málið á nýjan leik og ekkert annað komið fram í málinu sem gefi tilefni til þess, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991.

                Samkvæmt ofangreindu er hafnað kröfu stefnda um að dómari víki sæti í málinu.

                Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu stefnda um að dómari víki sæti í málinu.