Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-31

Múr- og málningarþjónustan Höfn ehf. (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)
gegn
Torfufelli 25-35, húsfélagi (Þórdís Bjarnadóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabætur
  • Sönnun
  • Verksamningur
  • Vanefnd
  • Fyrningarfrestur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 10. mars 2023 leitar Múr- og málningarþjónustan Höfn ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja til réttarins dómi Landsréttar 10. febrúar sama ár í máli nr. 668/2021: Múr- og málningarþjónustan Höfn ehf. gegn Torfufelli 25-35, húsfélagi og gagnsök. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um greiðslu skaðabóta úr hendi leyfisbeiðanda vegna tjóns sem hann telur að megi rekja til vanefnda á verksamningi frá 25. mars 2010 milli aðila, með því að leyfisbeiðandi hafi afhent gallaða glugga auk þess sem ísetning þeirra og frágangur hafi valdið gagnaðila tjóni. Kröfufjárhæð gagnaðila byggir á niðurstöðu dómkvadds manns. Leyfisbeiðandi telur kröfu gagnaðila fyrnda.

4. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um skaðabótaskyldu leyfisbeiðanda. Landsréttur vísaði til þess að við mat á því hvenær aðaláfrýjandi teldist hafa vanefnt verksamning aðila yrði litið til þess að málsaðilar hefðu samið sérstaklega um það sín á milli hvenær verkinu teldist lokið. Samkvæmt útboðs- og samningsskilmálum sem hefðu verið hluti verksamningsins skyldi við lok verks liggja fyrir úttekt eins og krafist væri frá opinberum aðilum sem hlut ættu að máli. Lagði Landsréttur til grundvallar að leyfisbeiðandi hefði fyrst vanefnt samninginn í skilningi 2. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda þegar vottorð um lokaúttekt byggingarfulltrúa vegna útveggjaklæðningar og endurnýjunar glugga hefði verið gefið út í janúar 2017 og fyrir hefði legið að ekki yrði um frekari efndir af hálfu leyfisbeiðanda að ræða.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins séu fordæmisgefandi og hafi verulega almenna þýðingu við beitingu 2. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007 hvað varðar bótakröfu sem stofnast við vanefndir á verksamningi og hversu lengi verktaki verði talinn geta borið ábyrgð á verki eftir skil þess. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni og formi til enda taki hann ekki sjálfstæða afstöðu til laga og reglugerða sem gilt hafi um sölu og markaðssetningu byggingarvara hér á landi.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.