Hæstiréttur íslands
Mál nr. 469/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Þrotabú
- Vanreifun
- Útivist
- Málsástæða
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta
|
|
Mánudaginn 22. september 2008. |
|
Nr. 469/2008. |
Þrotabú Snæbjörns Tryggva Guðnasonar(Helgi Birgisson hrl.) gegn Úlfhildi Elísdóttur (enginn) |
Kærumál. Þrotabú. Vanreifun. Útivist. Málsástæða. Frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi að hluta.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um frávísun frá héraðsdómi á aðalkröfu Þ á hendur Ú vegna vanreifunar. Með varakröfu sinni í héraði gerði Þ kröfu um riftun á afsali þrotamanns til Ú á helmings eignarhlutdeild í íbúðinni að L. Héraðsdómur vísaði þessari kröfu frá dómi með þeim rökum að málshöfðunarfrestur samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. hefði verið liðinn þegar málið var höfðað. Í dómi Hæstaréttar sagði að Ú hefði ekki haft málsástæðu sem að þessu laut uppi í héraði en um þetta hefði héraðsdómur ekki mátt dæma ex officio þar sem þing var í upphafi sótt af hálfu Ú. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi að því er varakröfuna varðaði og lagt fyrir héraðsdóm að taka hana til efnislegrar úrlausnar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. ágúst 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. ágúst 2008, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti, enda hafði þingsókn af hennar hálfu fallið niður í héraði 27. maí 2008, svo sem lýst er í hinum kærða úrskurði, og héraðsdómur því tekið málið til dóms samkvæmt 2. mgr. sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991.
Meðal gagna sem sóknaraðili lagði fram við þingfestingu málsins 29. apríl 2008 var endurrit úr þingbók Héraðsdóms Reykjaness 31. mars 2008 í máli sóknaraðila gegn DaPaCo ehf. og varnaraðila til réttargæslu. Í því máli kveðst sóknaraðili hafa haft uppi kröfu á hendur DaPaCo ehf. um riftun á þeirri ráðstöfun að setja fyrirtækinu að veði íbúð þrotamanns og varnaraðila að Laufengi 160, Reykjavík, fyrir viðskiptaskuld þrotamanns og Öríss ehf. Í þingbókinni er svofelld bókun: „Af hálfu stefnda er bókað að þróunarkostnaður vegna Öríss ehf. nýtist DaPaCo ehf. í þeim verkefnum sem félagið vinnur nú að. Skuldin sé hins vegar ógreidd en félagið muni ekki gera kröfur á hendur réttargæslustefndu Úlfhildi í málinu vegna skuldarinnar.“ Kveður sóknaraðili DaPaCo ehf. þá hafa verið búið að aflýsa tryggingabréfinu og ber ljósrit þess, sem er meðal skjala málsins, með sér stimpil um aflýsingu 5. mars 2008. Í endurritinu kemur fram að sóknaraðili hafi við svo búið fellt niður kröfur sínar á hendur DaPaCo ehf. aðrar en um málskostnað sem tekin hafi verið til úrskurðar.
Sóknaraðili byggir aðalkröfu sína á hendur varnaraðila á því að við aflýsingu tryggingabréfsins, með þeim skýringum sem gefnar voru af hálfu rétthafa þess í þinghaldinu 31. mars 2008, hafi að hans dómi orðið ljóst að varnaraðili skuldaði sóknaraðila helming höfuðstólsfjárhæðar tryggingabréfsins, 9.800.000 krónur, þar sem fram sé komið að varnaraðili hafi ekki þurft að greiða samsvarandi hluta kaupverðs helmingshluta eiginmanns síns Snæbjörns Tryggva Guðnasonar í fyrrgreindri íbúð að Laufengi 160, Reykjavík. Ljóst er að með yfirtöku skuldbindingar samkvæmt nefndu tryggingarbréfi við kaup á fasteignarhluta eiginmanns síns tók varnaraðili á sig skuldbindingu sem samsvaraði þeirri skuld sem að baki tryggingunni bjó. Fjárhæð bréfsins segir hins vegar ekki til um hver sú skuld var heldur aðeins hvert væri það hámark hennar sem skyldi njóta veðréttar í fasteigninni. Til þess að geta gert dómtæka kröfu á hendur varnaraðila á þessum grundvelli verður sóknaraðili að sanna hver raunveruleg skuld var eða að minnsta kosti að halda því fram að skuldin sem DaPaCo ehf. felldi niður hafi numið hámarksfjárhæð tryggingabréfsins, þannig að varnaraðila gæfist þá tilefni í málinu til að sýna fram á svo hafi ekki verið ef sú er raunin. Þetta hefur sóknaraðili ekki gert og verður því fallist á með héraðsdómi að aðalkrafa sóknaraðila sé vanreifuð og verður úrskurðurinn staðfestur um að vísa henni frá dómi.
Með varakröfu sinni í héraði gerði sóknaraðili kröfu um riftun á afsali þrotamanns til varnaraðila á helmings eignarhlutdeild í íbúðinni að Laufengi 160, Reykjavík. Héraðsdómur vísaði þessari kröfu frá dómi með þeim rökum að málshöfðunarfrestur samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. hefði verið liðinn þegar málið var höfðað. Varnaraðili hafði málsástæðu sem að þessu laut ekki uppi í héraði en um þetta mátti héraðsdómur ekki dæma ex officio þar sem þing var í upphafi sótt af hálfu varnaraðila. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi að því er varakröfuna varðar og lagt fyrir héraðsdóm að taka hana til efnislegrar úrlausnar.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila upp í kærumálskostnað svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um aðalkröfu sóknaraðila, þrotabús Snæbjörns Tryggva Guðnasonar, en felldur úr gildi að því er snertir varakröfu hans, og er lagt fyrir héraðsdóm að taka þá kröfu til efnislegrar meðferðar.
Varnaraðili, Úlfhildur Elísdóttir, greiði sóknaraðila 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 19. ágúst 2008.
Mál þetta var höfðað 23. apríl 2008 og dómtekið 27. maí sl.
Stefnandi er Þrotabú Snæbjörns T. Guðnasonar, Aðalstræti 6, Reykjavík, en stefnda er Úlfhildur Elísdóttir, Laufengi 160, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda verði dæmd til greiðslu eftirstöðva kaupverðs, 9.800.000 króna, með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. nóvember 2006 til greiðsludags.
Til vara krefst stefnandi þess að rift verði með dómi ráðstöfun þrotamanns, Snæbjörns T. Guðnasonar, til stefndu sem fór fram með afsali á 50% eignarhluta hans í íbúð merktri 04-0101 við Laufengi 160, Reykjavík, til stefndu 17. nóvember 2006, og að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda 9.800.000 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. nóvember 2006 til greiðsludags.
Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar.
Málsatvik og málsástæður:
Stefnandi lýsir atvikum svo að bú Snæbjörns T. Guðnasonar hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 5. mars 2007. Frestdagur hafi verið 17. nóvember 2006. Stefnandi segir innköllun hafa birst í Lögbirtingablaði 28. mars 2007 og kröfulýsingarfesti hafa lokið 28. maí 2007. Í þrotabúið var lýst kröfum sem voru samtals að fjárhæð 56.974.183 krónur.
Þrotamaður mætti til skýrslugjafar hjá skiptastjóra 12. mars 2007. Hann sagði svo frá að ástæðu gjaldþrotsins mætti rekja til gjaldþrots fyrirtækisins STG Trading. Eignir væru engar en hann byggi í íbúð eiginkonu sinnar, og fasteignin væri yfirveðsett.
Hinn 11. júní 2007 barst skiptastjóra erindi um að kanna afsal þrotamanns 17. nóvember 2006 til eiginkonu hans, stefndu, á helmings hluta af íbúð þeirra. Einnig var þess óskað að kannað yrði veðskuldabréf sem gefið hafði verið út til DaPaCo ehf.
Fram kemur í stefnu að eftirgrennslan hafi leitt í ljós að þrotamaður og stefnda höfðu með tryggingarbréfi sett Dapaco ehf. íbúðina að veði fyrir viðskiptaskuld. Bréfið væri að fjárhæð 19.600.000 krónur. Stefnandi höfðaði mál á hendur Dapaco ehf. til riftunar á veðsetningunni. Áður hafði skiptastjóri gefið Dapaco ehf. kost á að aflýsa tryggingarbréfinu af íbúðinni, og Dapaco ehf. brást við málshöfðuninni með því að aflýsa tryggingarbréfinu og lýsa því yfir að félagið myndi ekki hafa uppi fjárkröfur á hendur stefndu. Stefnandi segir að félagið hafi þannig í raun efnt þær skyldur sem það var krafið um í riftunarmálinu og stefnandi hafi þar af leiðandi fellt málið niður.
Stefnandi segir að með bréfi 19. mars 2008 hafi skiptastjóri krafið stefndu um greiðslu á 9,8 milljónum króna. Kröfu sína hafi stefnandi byggt á því að þar sem tryggingarbréfinu hefði verið aflétt og stefnda þyrfti ekki að greiða skuldina væri ljóst að hún skuldaði þrotabúinu kaupverð sem svaraði til 9,8 milljóna króna. Væri það sá hluti lánsins sem hvíldi á 50% eignarhluta eiginmanns stefndu. Kveður stefnandi stefndu ekki hafa svarað bréfi skiptastjóra og sé málshöfðun því óumflýjanleg.
Stefnandi byggir aðalkröfu sína um greiðslu á því að stefnda skuldi hluta kaupverðs fyrir íbúðina við Laufengi 160. Kaupsamningi um eignarhlutann hafi ekki verið þinglýst en í afsali komi fram að stefnda kaupi helming fasteignarinnar af þrotamanni og greiði kaupverðið með yfirtöku eftirtalinna áhvílandi skulda:
1. Byggingasjóður verkamanna 8.607.600 kr.
2. Friðrik Haraldsson 222.623 kr.
3. Glitnir banki hf. 1.500.000 kr.
4. Glitnir banki hf. 3.500.000 kr.
5. Dapaco ehf. 19.600.000 kr.
Samtals 33.430.223 kr.
Samkvæmt þessu hafi eignarhluti þrotamanns í fasteigninni verið metinn á 50% af 33.430.223 krónum, það er 16.715.111 krónur, og skyldu þær greiðast með yfirtöku áhvílandi skulda. Með aflýsingu Dapaco ehf. á tryggingarbréfinu á 5. veðrétti og yfirlýsingu um að ekki yrði höfð uppi fjárkrafa á hendur stefndu á grundvelli þess hafi áhvílandi skuldir á eignarhlutanum lækkað um 9.800.000 krónur. Skuldi stefnda því stefnanda þessa fjárhæð sem hluta kaupverðs.
Verði ekki fallist á aðalkröfu byggir stefnandi á því að líta verði á ráðstöfunina á eignarhluta þrotamanns sem gjafagerning í þágu stefndu. Í ráðstöfuninni og eftirfarandi aflýsingu Dapaco ehf. á tryggingarbréfinu hafi falist ívilnandi gerningur fyrir stefndu þar sem hún fékk eignarhluta mannsins í fasteigninni án þess að greiða fyrir hann kaupverðið að fullu. Hafi þetta haft þær afleiðingar að eignin var ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Slík ráðstöfun sé riftanleg á grundvelli 131. gr. gjaldþrotalaga. Rástöfunin hafi farið fram sama dag og héraðsdómi barst krafa Glitnis um gjaldþrotaskipti á búi þrotamanns. Hafi þrotamaður því augljóslega verið ógjaldfær þegar ráðstöfunin átti sér stað.
Stefnandi byggir á því að ráðstöfunin sé einnig riftanleg á grundvelli hinnar almennu riftunarreglu 141. gr. gjaldþrotalaga. Samkvæmt henni megi krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiði til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Þrotamaður og stefnda séu, sem áður er rakið, hjón.
Fjárkrafa stefnanda byggir á 142. gr. gjaldþrotalaga. Stefnandi telur ljóst að stefnda hafi haft hag af hinni umdeildu ráðstöfun, sem nemi 9.800.000 krónum. Sú fjárhæð svari einnig til þess tjóns sem þrotabúið hafi orðið fyrir vegna ráðstöfunarinnar þar sem samsvarandi eign sé ekki til reiðu í búinu til fullnustu kröfuhöfum. Einnig telur stefnandi ljóst að stefndu hafi vegna tengsla við þrotamann verið kunnugt um riftanleika ráðstöfunarinnar og beri því að greiða búinu skaðabætur vegna þess tjóns sem það hafi orðið fyrir.
Stefnandi byggir aðalkröfu sína á almennum reglum kröfuréttar um efndir. Varakröfu styður hann við 131. og 141. gr. laga nr. 21/1991 og fjárkröfuna við 142. gr. laganna. Um vaxtakröfu vísar stefnandi til laga nr. 38/2001 og málskostnaðarkrafa styðst við XXI kafla laga nr. 91/1991.
Niðurstaða:
Af hálfu stefndu var sótt þing við þingfestingu málsins 29. apríl sl. en þingsókn féll niður 27. maí og var málið þá dómtekið að kröfu stefnanda. Verður því skv. 96. gr. laga nr. 91/1991 að dæma málið eftir kröfum og málsástæðum stefnanda að því leyti sem þær eru í samræmi við framlögð gögn.
Aðalkrafa stefnanda byggist á því að stefnda skuldi hluta kaupverðs fyrir íbúðina að Laufengi 160, Reykjavík, 9.800.000 krónur, eins og fyrr greinir. Afsal eignarinnar liggur frammi í málinu. Þar segir að afsalshafi hafi kynnt sér veðbandayfirlit dags. 17. nóvember 2006 vegna Laufengis 160 og taki að sér greiðslu þeirra veðskuldbindinga sem þar komi fram. Á eigninni hvíldi tryggingarbréf Dapaco ehf. að fjárhæð 19.600.000 krónur, dags. 9. október 2006, en eignin var samkvæmt því bréfi sett að veði til tryggingar greiðslu á viðskiptaskuld Snæbjörns Tryggva Guðnasonar og Öríss ehf. Ekkert liggur frammi í málinu um þær skuldir sem bréfinu var ætlað að tryggja, ekki eru lagðir fram reikningar frá Dapaco ehf. og kröfu var ekki lýst í þrotabúið. Liggur þannig ekkert fyrir um þær kröfur, sem að baki tryggingarbréfinu búa, sem ætlað var að tryggja greiðslu á viðskiptaskuld, eins og hún væri á hverjum tíma. Er aðalkrafa stefnanda ekki nægilega reifuð og verður vísað frá dómi án kröfu.
Kröfulýsingarfresti lauk 28. maí 2007. Ekki er rökstutt í stefnu að miða skuli upphaf málshöfðunarfrests til riftunar við annan dag, sbr. 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Málið var höfðað með birtingu stefnu hinn 23. apríl sl., en þá var sex mánaða málshöfðunarfrestur samkvæmt 148. gr. laganna liðinn. Það á einnig við þótt upphaf frests væri miðað við 11. júní 2007 þegar skiptastjóra bárust upplýsingar um afsalið. Verður ekki hjá því komist að vísa varakröfu stefnanda einnig sjálfkrafa frá dómi.
Málskostnaður úrskurðast ekki.
Dóminn kvað upp Eggert Óskarsson varadómstjóri.
Dómsuppkvaðning hefur dregist vegna anna.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað sjálfkrafa frá dómi.
Málskostnaður úrskurðast ekki.