Hæstiréttur íslands

Mál nr. 54/2013


Lykilorð

  • Vátryggingarsamningur
  • Ábyrgðartrygging
  • Kröfugerð


                                     

Fimmtudaginn 30. maí 2013.

Nr. 54/2013.

Hafþór Ingi Jónsson

(sjálfur)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og

(Kristín Edwald hrl.)

Jóni G. Þórissyni

(sjálfur)

Vátryggingarsamningur. Ábyrgðartrygging. Kröfugerð.

Í málinu krafðist H viðurkenningar á greiðslu bóta úr stjórnendaábyrgðartryggingu V hf. sem félagið hafði haft hjá S hf. á tímabilinu 23. júní 2008 til 22. júní 2009. Var krafa H reist á því að J, fyrrverandi forstjóri V hf., bæri persónulega bótaskyldu á fjártjóni sem H taldi sig hafa orðið fyrir í tengslum við skuldabréfakaup á árinu 2007. Talið var að lög nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga stæðu því ekki í vegi að S hf. gæti borið fyrir sig ákvæði í skilmálum tryggingarinnar um að krafa á hendur stjórnanda V hf. þyrfti að koma fram á gildistíma hennar og breytti engu í því sambandi þótt H hefði ekki átt aðild að samningi milli V hf. og S hf. um trygginguna, sbr. 4. mgr. 44. gr. laganna. Þá var ekki fallist á það með H að með tveimur erindum, annars vegar til Fjármálaeftirlitsins 18. desember 2008 og hins vegar til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki 16. febrúar 2009, hefði H gert kröfu á hendur J eða öðrum stjórnendum bankans, sem vátryggingin tók til, vegna umræddra viðskipta. Var ábyrgðartryggingin því fallin úr gildi þegar H gerði fyrst kröfu á hendur stjórnendum V hf., með erindi til S í apríl 2010 og krafa H of seint fram komin. Voru S hf. og J því sýknuð af kröfu H í málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. janúar 2013. Hann krefst þess að viðurkennt verði að hann eigi rétt á bótum úr stjórnendaábyrgðartryggingu VBS fjárfestingarbanka hf., hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf., vegna persónulegrar bótaskyldu stefnda Jóns G. Þórissonar á því fjártjóni sem áfrýjandi varð fyrir í viðskiptum sínum við VBS fjárfestingarbanka hf. um skuldabréfakaup 27. ágúst 2007. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst félagið þess að bótaskylda þess verði einungis viðurkennd að hluta og málskostnaður verði felldur niður.

Stefndi Jón G. Þórisson krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt ákvæði A.1. í III. kafla skilmála fyrrgreindrar stjórnendaábyrgðartryggingar tók við 30 daga tímabil eftir að eiginlegum gildistíma tryggingarinnar lauk, en óumdeilt er að það var 22. júní 2009. Í ákvæðinu var mælt svo fyrir um að ef tryggingin væri ekki endurnýjuð á því tímabili, með þeim hætti sem þar var kveðið á um, rynni hún sitt skeið á enda. Óumdeilt er að það var ekki gert og féll hún því úr gildi.

Niðurstaða hins áfrýjaða dóms var á því reist að stjórnendaábyrgðartryggingin hefði verið fallin úr gildi er krafa áfrýjanda á hendur stjórnendum VBS fjárfestingarbanka hf. kom fyrst fram. Ekki var tekin afstaða til ætlaðrar bótaskyldrar háttsemi stefnda, Jóns, en það helgaðist af kröfugerð áfrýjanda í héraði. Eins og kröfugerð áfrýjanda er háttað verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður milli aðila.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. desember 2012. 

I.

         Mál þetta, sem var dómtekið 12. nóvember sl., er höfðað 2. mars 2012 af Hafþóri Inga Jónssyni, Þórðarsveig 2 í Reykjavík, gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5 í Reykjavík, og Jóni G. Þórissyni, Unnarbraut 2 á Seltjarnarnesi.

         Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að hann eigi rétt á bótum úr stjórnendaábyrgðartryggingu VBS Fjárfestingarbanka hf., kt. 621069-3039, skírteinisnúmer FJ-19261, hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 650909-1270, vegna persónulegrar bótaskyldu stefnda Jóns G. Þórissonar út af því fjártjóni, sem stefnandi varð fyrir í viðskiptum hans við VBS Fjárfestingarbanka hf. um skuldabréfakaup hinn 27. ágúst 2007. Þá gerir stefnandi kröfu um að stefndu verði in solidum gert að greiða honum málskostnað skv. sérstökum málskostnaðarreikningi, sem lagður verður fram af hálfu stefnanda eigi síðar en við aðalmeðferð málsins, þar með taldar 812.500 krónur, sem áskilda þóknun vegna vinnu við málskot nr. 236/2010 fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum eða eftir mati dómsins.

         Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að hann verði dæmdur til að greiða sér málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins. Til vara er þess krafist að stefndi verði aðeins dæmdur skaðabótaskyldur að hluta vegna tjóns stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður.

         Stefndi, Jón G. Þórisson, krefst sýknu af kröfum stefnanda og að hann verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar auk virðisaukaskatts.

         Í öndverðu krafðist stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., þess að málinu yrði vísað frá dómi. Eftir að stefnandi lagði fram breytta kröfugerð í þinghaldi 8. júní sl., með samþykki beggja stefndu, var fallið frá frávísunarkröfunni.

         Mál var höfðað milli sömu aðila í desember 2010, mál nr. E-7400/2010, þar sem stefnandi gerði tiltekna fjárkröfu úr hendi beggja stefndu vegna viðskipta hans við VBS Fjárfestingarbanka hf. 27. ágúst 2007. Því máli var vísað frá dómi með úrskurði 12. september 2011 og var frávísunin staðfest með dómi Hæstaréttar 10. október sama ár í máli nr. 533/2011.

II.

         Málavextir eru þeir að stefnandi gerði samning við VBS Fjárfestingarbanka um svokallaða öryggisvörslu 2. október 2006. Með samningnum mun bankinn hafa tekið að sér að annast kaup og sölu verðbréfa samkvæmt fyrirmælum stefnanda, en þau skyldu gefin með sannanlegum hætti. Stefnandi gaf bankanum einnig umboð til að kaupa verðbréfi í sínu nafni, samkvæmt fyrirmælum hans, fyrir fjármuni sem hann afhenti bankanum. Bankinn fékk enn fremur umboð til að innleysa verðbréf og selja, veita veðleyfi og fleira, svo og til að framselja verðbréf stefnanda.

         Á grundvelli fyrrgreinds samnings lagði stefnandi 80.670.000 krónur inn á vörslureikning hjá VBS Fjárfestingarbanka 2. október 2006. Sama dag voru keypt í nafni stefnanda 23 skuldabréf, hvert að nafnvirði 4.000.000 króna, á 3.501.293 krónur hvert. Útgefandi bréfanna var Hörðukór 3 ehf. Bréfin voru tryggð með fyrsta veðrétti í einstökum eignarhlutum í fasteigninni að Hörðukór 3 í Kópavogi. Gjalddagi bréfanna var 15. september 2007. Skuldabréf þessi voru seld 27. ágúst 2007 á 3.925.060 krónur hvert. Sama dag keypti stefnandi alls 39 skuldabréf, hvert að nafnvirði 2.700.000 krónur á 2.295.511 krónur hvert. Bréfin voru tryggð með veði í landi Laugardæla og Uppsala í Flóahreppi í Árnessýslu. Útgefandi bréfanna var Fjárfestingarfélagið Ferjuholt ehf. Dótturfélag VBS Fjárfestingarbanka, Fremd ehf., mun hafa verið eigandi 28% hlutafjár í félaginu, auk þess sem starfsmaður bankans var stjórnarformaður og annar starfsmaður sat í stjórn félagsins. Gjalddagi bréfanna var 20. ágúst 2008. Þau voru ekki greidd á gjalddaga. Þau munu hins vegar hafa verið keypt af VBS Fjárfestingarbanka 12. og 13. nóvember 2008 á 2.295.510 krónur hvert bréf, samtals 89.524.890 krónur. Samkvæmt framansögðu fékk stefnandi ekki greidda vexti af skuldabréfunum. Þá kemur fram í gögnum málsins að söluverð þeirra hafi að hluta verið greitt með reiðufé, 14.649.485 krónur, en að öðru leyti með veðskuldabréfum að nafnvirði 78.100.000 krónur.

         Stefnandi vildi ekki una við þessi málalok. Hann sendi Fjármálaeftirlitinu kvörtun 18. desember 2008 vegna viðskipta sinna með ofangreind skuldabréf. Erindinu var svarað af hálfu Fjármálaeftirlitsins 16. febrúar 2009 þar sem vísað var til þess að stofnunin færi með almennt eftirlitshlutverk með eftirlitsskyldum aðilum en ekki úrskurðarvald í einstaka málum viðskiptavina gagnvart þeim. Hins vegar var vakin athygli á því að Fjármálaeftirlitið hefði tekið eignastýringarsvið VBS Fjárfestingarbanka hf. til athugunar með heimsókn 15. ágúst 2008. Hefði Fjármálaeftirlitið m.a. gert athugasemdir við ófullnægjandi upplýsingar bankans til viðskiptavina um áhættu tengda einstökum fjármálagerningum, sbr. 14. gr. laga nr. 108/2007.

         Stefnandi kvartaði til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki 16. febrúar 2009. Nefndin lauk umfjöllun um málið með úrskurði 17. september 2009. Þar eru rakin símtöl stefnanda við starfsmann VBS Fjárfestingarbanka í aðdraganda að viðskiptunum 27. ágúst 2007. Þess er jafnframt getið að auk þeirra bréfa sem stefnanda keypti hafi 393 önnur veðskuldabréf að sömu fjárhæð hvílt á öðrum veðrétti. Því hafi samtals 1.169.100.000 krónur hvílt á þeim veðrétti, en 1.145.200.000 krónur á fyrsta veðrétti. Hafi starfsmaður svarað spurningu stefnanda um hvort bréfin hvíldu á fyrsta veðrétti þannig að þau hvíldu á öðrum veðrétti, en væru „tæknilega“ á fyrsta veðrétti. Í úrskurðinum segir síðan um þetta atriði: „Vísaði starfsmaðurinn þar til þess að samanlagðar veðskuldir á 1. og 2. veðrétti næmu einungis um 45% af áætluðu verðmæti hinna veðsettu landspildna. Í málinu liggur frammi mat löggiltra fasteignasala á verðmæti umræddra landspildna, dagsett 14. ágúst 2007, þ.e. sama dag og umþrætt skuldabréf voru gefin út. Kemur þar fram að markaðsverð byggingaréttar á hinu metna landi sé kr. 5.935.000.000. Er það mat miðað við deiliskipulagstillögu arkitekta, […]. Ekki verður séð að sóknaraðila hafi verið kynnt umrætt mat eða þær forsendur sem það studdist við, fremur en önnur gögn um hið svonefnda þróunarverkefni. Þá liggur heldur ekki fyrir að umrædd deiliskipulagstillaga hafi verið lögð fyrir skipulagsyfirvöld í Flóahreppi þá er nefnd skuldabréf voru keypt í nafni sóknaraðila. Hlaut varnaraðila því að vera ljóst að verðmæti umræddra landspildna væri ekki hið sama og verið hefði ef deiliskipulag samkvæmt framlagðri tillögu arkitekta hefði verið samþykkt af hálfu sveitarstjórnar. / Af gögnum málsins verður hvorki ráðið að sóknaraðila hafi verið gerð grein fyrir hvernig vinnu við skipulag var háttað eða hversu langt hún væri komin. Þá verður heldur ekki séð að varnaraðili hafi gert sóknaraðila grein fyrir því hversu háar skuldir hvíldu á 1. veðrétti eða samhliða skuldabréfum sóknaraðila á 2. veðrétti. Var þetta þeim mun mikilvægara þegar litið er til þess að verðmat miðaðist við deiliskipulagt land, en engin tillaga þess efnis hafði verið lögð fram og því síður afgreidd af hálfu skipulagsyfirvalda í Flóahreppi. Liggur fyrir að umrætt 200 hektara land í nágrenni Selfoss þurfti að standa undir skuldum að höfuðstól kr. 2.314.300.000 til að skuldabréf sóknaraðila fengjust greidd að fullu. Verður heldur ekki séð að sóknaraðili hafi verið upplýstur um að varnaraðili væri kröfuhafi samkvæmt öllum áhvílandi skuldabréfum á 1. og 2. veðrétti.“

         Í úrskurðinum er enn fremur tekið fram að stefnanda hafi ekki verið gerð grein fyrir eignaraðild bankans eða dótturfélags hans að útgefanda umræddra skuldabréfa eða aðkomu hans að stjórn þess félags. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að verulega hafi skort á upplýsingagjöf bankans áður en til umræddra viðskipta kom. Hefði VBS Fjárfestingarbanki því farið á svig við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og hagsmuni sóknaraðila, sbr. 4. gr. þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti og 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þætti því rétt að stefnandi yrði eins settur og ef aldrei hefði orðið af kaupum hans á umræddum veðskuldabréfum 27. ágúst 2007. Var VBS Fjárfestingarbanka því gert að greiða stefnanda 89.524.929 krónur með nánar tilgreindum vöxtum, en til frádráttar kæmu innborganir að fjárhæð 14.649.485 krónur 12. nóvember 2008 og 23.132.086 krónur 3. febrúar 2009, auk þess sem stefnandi skyldi framselja varnaraðila ellefu verðtryggð skuldabréf sem hann fékk við uppgjör aðila, hvert að fjárhæð 5.000.000 króna.

         Hinn 26. október 2009 undirrituðu stefnandi og stefndi Jón, fyrir hönd VBS Fjárfestingarbanka, samkomulag um skuldauppgjör á grundvelli úrskurðarins. Þar skuldbatt bankinn sig til að greiða skuldina með ellefu mánaðarlegum greiðslum, fyrst 10. febrúar 2010, og skyldu fyrstu tíu greiðslurnar nema 8.500.000 krónum. Til tryggingar á greiðslum skyldi stefnandi hafa þau ellefu veðskuldabréf, sem greindi í úrskurðarorði, að handveði þar til skuldin væri að fullu greidd. Gögn málsins bera með sér að VBS Fjárfestingarbanki hafi gefið út sérstakt skuldabréf af þessu tilefni til stefnanda að nafnverði 89.697.000 krónur. Engin greiðsla barst inn á skuldabréfið. Um það leyti sem inna átti fyrstu greiðsluna af hendi, mun bankinn hafa verið tekinn til gjaldþrotaskipta. Stefnandi hefur lýst kröfu í búið á grundvelli skuldabréfsins.

         VBS Fjárfestingarbanki hafði svonefnda stjórnendaábyrgðartryggingu (D&O tryggingu) hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Vátryggingin var gefin út 23. júní 2008. Óumdeilt er að gildistími hennar hafi verið eitt ár og gilti hún því til 22. júní 2009. Sérstaklega var tekið fram í samriti vátryggingarskírteinis að vátryggingin myndi ekki endurnýjast. Einnig liggur fyrir að ekki var keypt ný stjórnendaábyrgðartrygging þegar hún féll úr gildi. Samkvæmt fyrirliggjandi skilmálum umræddrar tryggingar, sem liggja fyrir í málinu bæði á ensku og í íslenskri þýðingu, bætir vátryggingin tjón sem stjórnarmenn og stjórnendur hins vátryggða félags bera persónulega ábyrgð á. Þar segir enn fremur að sé annað ekki tekið fram gildi tryggingin aðeins um kröfur sem „fyrst eru gerðar á hendur“ ofangreindum aðilum „á gildistíma vátryggingarinnar“.

         Stefnandi hafði samband við hið stefnda vátryggingarfélag vegna viðskipta sinna við VBS Fjárfestingarbanka símleiðis í lok apríl 2010 og skriflega með bréfi 3. maí sama ár. Í bréfinu er því haldið fram að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri bankans hafi bakað sér persónulega ábyrgð gagnvart stefnanda. Eins og gögn málsins bera með sér urðu nokkur bréfaskipti milli aðila í kjölfarið. Svo fór að stefnandi skaut málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum 12. ágúst 2010. Nefndin lauk umfjöllun um málið með áliti, dags. 2. nóvember 2010. Þar er vísað til þess að í upphafi skilmálanna segi að kröfu þurfi að gera á hendur stjórnendum og stjórnarmönnum á gildistíma tryggingarinnar. Síðan segir eftirfarandi í álitinu: „Í II. kafla skilmálanna í lið A er svo skilgreint hvað felist í kröfu. Hugtakið krafa er skilgreint mjög rúmt í skilmálunum, sbr. lið A iv) any administrative or regluatory proceeding or official investigation og v) an arbitration proceeding. Með tilliti til þess að sóknaraðili leitaði til Fjármálaeftirlitsins þann 18. desember 2008 og skaut máli sínu til Úrskurðarnefndar um viðskipti með fjármálafyrirtæki þann 16. febrúar 2009 telur nefndin að krafan hafi komið fram nægilega snemma í skilningi skilmálanna. Í þessu tilliti er hallinn af vafaatriðum við túlkun skilmálanna metinn varnaraðila í óhag.“ Nefndin taldi enn fremur að verulega hefði skort á að alla upplýsingagjöf til stefnanda af hálfu starfsmanna og stjórnenda VBS Fjárfestingarbanka varðandi viðskiptin. Var talið að forstjóra bankans, stefndi Jón, hafi borið að gera viðhlítandi ráðstafanir til þess að viðskiptavinum væru veittar fullnægjandi upplýsingar um viðskiptin með umrædd skuldabréf, sbr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Hafi forstjóranum verið kunnugt um þessi viðskipti. Sem stjórnanda bæri hann ábyrgð á þessari ófullnægjandi upplýsingagjöf sem hafi leitt til tjóns stefnanda. Því taldi nefndin að hann ætti kröfu á grundvelli stjórnendaábyrgðartryggingarinnar hjá stefnda Sjóvá.

         Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar 15. nóvember 2010 tilkynnti stefndi Sjóvá að félagið ætlaði ekki að hlíta niðurstöðu nefndarinnar. Eins og fram hefur komið höfðaði stefnandi mál í desember 2010 á hendur báðum stefndu, ásamt Páli Þ. Magnússyni, fyrrum stjórnarformanni VBS Fjárfestingarbanka, til greiðslu skaðabóta í tilefni af fyrrgreindum viðskiptum.

III.

1. Málsástæður og lagarök stefnanda

         Til stuðnings kröfu sinni vísar stefnandi til niðurstöðu úrskurðarnefndar í vátryggingamálum og kveðst gera röksemdir hennar að sínum. Þannig beri að túlka hugtakið kröfu í skilmálunum fyrir umrædda D&O tryggingu rúmt og líta svo á að stefnandi hafi haldið kröfu sinni réttilega til haga eins og hægt hafi verið að gera á þessum tíma með því að leita til Fjármálaeftirlitsins 18. desember 2008 og skjóta síðan málinu til úrskurðarnefndar um viðskipti með fjármálafyrirtæki 16. febrúar 2009. Hins vegar liggi ekki fyrir nægar upplýsingar um fjártjón stefnanda. Því geri hann kröfu um viðurkenningu á þeirri niðurstöðu sem komi fram í úrskurði úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, en viðurkenningarkrafan sé höfð uppi á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. laganna.

         Stefnandi tekur fram að einnig sé unnt að fallast á kröfugerð hans með vísan til annarra málsástæðna sem hann tefli fram. Heildstætt sé á því byggt að fyrrverandi forstjóri VBS Fjárfestingarbanka, stefndi Jón, hafi með einstökum athöfnum sínum og/eða athafnaleysi uppfyllt öll nauðsynleg saknæmisskilyrði. Það leiði til persónulegrar bótaábyrgðar gagnvart stefnanda. Skoðist stefndi Jón sem vátryggður í máli þessu samkvæmt c-lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Svo að til greiðsluskyldu stefnda Sjóvár stofnist úr tryggingunni þurfi hún enn fremur að vera í fullu gildi og stefnandi að hafa komið kröfum sínum í þessu sambandi á framfæri innan eðlilegra tímamarka.

         Óháð því hvort fallist verði á röksemdir úrskurðarnefndar í vátryggingamálum um að kröfu hafi verið komið á framfæri innan tilskilins frests telur stefnandi að tryggingin hafi verið í fullu gildi hvað hann varðar alveg óháð því hvort vátryggingarsamningur milli stefnda Sjóvár og VBS Fjárfestingarbanka kunni að hafa fallið úr gildi 22. júní 2009. Hafi stefnandi réttarstöðu tjónþola og þriðja manns í skilningi laga nr. 30/2004. Til stuðnings þeirri afstöðu vísar stefnandi til þess að í 1. mgr. 3. gr. laganna komi fram sú almenna regla að ákvæði laganna séu ófrávíkjanleg nema um annað sé samið. Í 2. mgr. 3. gr. laganna segi að heimilt sé, að öðrum skilyrðum uppfylltum, svo sem nánar greini í a- til d-liðum 3. gr., að víkja frá ákvæðum þessa hluta, „þó ekki ákvæðum varðandi ábyrgðartryggingar í 46. gr.“. Óumdeilt sé að umrædd D&O trygging sé ábyrgðartrygging í þessu sambandi. Út af fyrir sig geri stefnandi ekki athugasemd við þá skoðun að VBS Fjárfestingarbanki hafi fullnægt t.d. skilyrði a-liðar um atvinnurekstur sem fari yfir fimm ársverk. Um það sé enginn ágreiningur. Stefnandi telur hins vegar meira þurfa til að koma svo að 2. mgr. 3. gr. laganna sé í heild sinni frávíkjanleg, en ekki sé heimilt að víkja frá ákvæðum laganna um ábyrgðartryggingar í 46. gr. Ákvæðið sé þannig með öllu ófrávíkjanlegt að þessu leyti, sbr. og niðurlagsákvæði greinarinnar. Út af þessari umræddu ábyrgðartryggingu vísar stefnandi enn fremur til 44. gr. um stöðu tjónþola við ábyrgðartryggingu, sem sé hin almenna regla og þá um leið ófrávíkjanleg. Fái stefndi Sjóvá trauðla borið fyrir sig, eða haft uppi mótbárur gegn stefnanda sem tjónþola, vegna nokkurrar háttsemi stefnda Jóns fyrir vátryggingaratburðinn 27. ágúst 2007, sbr. síðari málslið 4. mgr. 44. gr. laga um vátryggingarsamninga. Stefnandi telur að sönnunarbyrði um annað hljóti að hvíla á stefnda Sjóvá samkvæmt almennum reglum, enda nokkuð um liðið frá vátryggingaratburði. Þá tekur hann fram að ekkert í þessu máli sé til þess fallið að hann geti hagnast á kostnað stefnda Sjóvár umfram kröfugerð hans á hendur hinum vátryggða.

         Til stuðnings því að engu skipti fyrir rétt stefnanda hvort vátryggingarsamningurinn hafi fallið úr gildi 22. júní 2009 milli stefnda Sjóvár og VBS Fjárfestingarbanka vísar stefnandi til þess að hann hafi ekki verið aðili að vátryggingarsamningnum nema þá óbeint hvað varðar réttindi hans og hagsmuni sem tjónþoli og þriðji maður. Ákvæði laganna um þá réttarstöðu sína telur stefnandi að séu ófrávíkjanleg eins og fram hefur komið. Telur stefnandi að stefndi Sjóvá hafi ekki gert sér grein fyrir þessu. Þá séu skilmálar samningsins á ensku og hafi ekkert sjálfstætt gildi nema milli vátryggjandans og vátryggingartakans, sbr. 5. gr. laga nr. 30/2004. Í stað skilmálanna gildi þá hin almennu ákvæði laganna eftir því sem við á.

         Í þessu ljósi og samhengi kveður stefnandi að nánar tilgreindar málsástæður, sem taki mið af persónulegri bótaábyrgð stefnda Jóns sem aðalstjórnanda VBS Fjárfestingarbanka og af greiðsluskyldu stefnda Sjóvár úr D&O tryggingunni, komi til skoðunar. Kveðst stefnandi reisa kröfugerð sína að því leyti á þeirri meginmálsástæðu að hinn vátryggði stjórnandi, stefndi Jón, sé bótaskyldur vegna skorts á upplýsingagjöf frá VBS Fjárfestingarbanka og hagsmunaáreksturs, sbr. umfjöllun úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Þessi upplýsingaskortur hafi komið í veg fyrir að hann gæti tekið upplýsta ákvörðun um kaupin á skuldabréfunum á grundvelli réttra staðreynda. Á þessum misgjörðum beri hinn stefndi stjórnandi persónulega bótaábyrgð. Hafi hann í þessu sambandi borið húsbóndaábyrgð auk sjálfstæðrar ábyrgðar samkvæmt almennum skaðabótareglum. Útilokað sé fyrir hann að bera fyrir sig hina almennu starfsmenn og kenna þeim um hið bótaskylda framferði. Þar að auki hafi þessi stjórnandi komið með beinum hætti að málinu. Þar vísar stefnandi til þess að í rannsókn Fjármálaeftirlitsins í ágúst 2008 hafi verið gerðar allnokkrar athugasemdir við starfsemi VBS Fjárfestingarbanka. Æðsti stjórnandi bankans hljóti að hafa komið við sögu í þeirri rannsókn og að honum hafi að sjálfsögðu verið fullkunnugt um hana og niðurstöðuna. Þessi rannsókn og tilmæli um breytt vinnubrögð hafi þó litlu sem engu skilað í áframhaldandi starfsemi bankans.

         Þá vekur stefnandi hér athygli á stórfelldum hagsmunaárekstri sem hinn stefndi stjórnandi beri ábyrgð á. Hafi stefnandi ekki vitað betur en að VBS Fjárfestingarbanki kæmi fram gagnvart honum eins og venjulegur miðlari þar sem heiðarleiki væri hafður að leiðarljósi. Hafi hann talið að bankinn gætti hagsmuna hans í hvívetna, enda um að ræða eina af frumskyldum bankans í viðskiptasambandinu. Kveðst hann hafa greitt bankanum mánaðarlega þóknun fyrir umsýslustörf í hans þágu. Á síðari stigum málsins hafi hins vegar komið í ljós að bankinn hafi í raun setið beggja vegna borðsins. Hann hafi t.d. sem einn eigenda Ferjuholts ehf. (í gegnum dótturfélag sitt Fremd ehf.) haft mikla hagsmuni af því að lágmarka tjón sitt vegna verkefnisins. Telur stefnandi að hér sé um alvarlegt brot að ræða. Gangi þessi hagsmunaárekstur reyndar eins og rauður þráður í gegnum allt málið.

         Stefnandi tekur fram að þessi meginmálsástæða styðjist síðan enn frekar við nokkrar afleiddar og afmarkaðar málsástæður, sem tengist allar innbyrðis. Gerir stefnandi nánari grein fyrir þremur málsástæðum í þessu sambandi.

         Í fyrsta lagi þá telur stefnandi að VBS Fjárfestingarbanki hafi beitt blekkingum varðandi verðmat á veðandlaginu í landi Laugardæla, eins og það hafi verið kynnt honum. Þannig kveður stefnandi að við kaupin hafi honum verið tjáð án nokkurs fyrirvara að á bak við bréfin væri mjög tryggt veð í umræddu landi. Fjárhæð skuldabréfanna á fyrsta og öðrum veðrétti væri liðlega 2,3 milljarðar króna en verðmat á byggingarrétti landsins væri rúmlega 5,9 milljarðar króna. Hafi hann ekki haft neina ástæðu til að rengja þetta verðmat. Þá hafi honum verið tjáð að landið væri tilbúið til framkvæmda samkvæmt samþykktu deiliskipulagi og þar að auki væri væntanleg ný brú inn á landið sem myndi auka verðgildi þess verulega. Stefnandi hafi ekki fengið verðmatið í hendur fyrr en undir rekstri málsins fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Hafi þá komið í ljós að verðmatið hafi miðast við fullgert og samþykkt deiliskipulag en ekki einhverjar tillögur í þeim efnum. Á þessu sé grundvallarmunur og afgerandi þegar litið sé til verðmætis hins veðsetta lands. Samþykkt deiliskipulag sé nánari útfærsla á aðalskipulagi og hinn lagalegi grundvöllur fyrir útgáfu bygginga- og framkvæmdaleyfa á viðkomandi landssvæði, sem sé harla lítils virði án deiliskipulags.

         Stefnandi hafnar því að hrunið hafi valdið því að verðgildi veðandlagsins hafi rýrnað svo mjög. Það standist enga skoðun og útskýri ekki þá staðreynd að veðið hafi í raun frá byrjun verið næsta verðlítið og í engu samræmi við það verðmat sem VBS Fjárfestingarbanki hafi byggt á og kynnt stefnanda og öðrum kaupendum Laugardælabréfanna. Stefnandi heldur því fram að skuldabréfin hafi verið næsta verðlaus alveg frá upphafi og það hafi ekkert með „hrun“ o.fl. í þeim dúr að gera. Verðmatið, sem liggi frammi í málinu, hafi byggst á deiliskipulagstillögu einhverrar arkitektastofu, sem hafi síðan aldrei farið lengra t.d. með kynningu fyrir viðkomandi sveitarstjórn ásamt beiðni um samþykki tillögunnar. Hafi verðmatið frá upphafi alfarið byggst á röngum forsendum og hafi miðast við samþykkt deiliskipulag og þar með til væntanlegra bygginga- og framkvæmdaleyfa í samræmi við það. Sýnist stefnanda sem bankinn hafi nánast blindandi treyst því að úr rættist. Staðan á landinu í dag sé alveg sú sama og þegar stefnandi festi kaup á skuldabréfunum 27. ágúst 2007. Í opinberum skrám flokkist hinn veðsetti landskiki sem „annað land“, sem gæti t.d. átt við beitiland, úthaga og þess háttar. Samkvæmt fasteignamati sé hann nú metinn á 907.000 krónur, en það sé ansi langt frá hinum draumóralegu hugmyndum bankans um verðmat veðandlagsins. Stefnandi telur að ekki þurfi að fara mörgum orðum um ábyrgð stefnda Jóns í þessum efnum, sem aðalstjórnanda VBS Fjárfestingarbanka, hvað varði alla kynningu á þessum grundvallarþáttum í matinu og þar með raunverulegt verðmæti skuldabréfanna.

         Í öðru lagi vísar stefnandi hér til samstarfs VBS Fjárfestingarbanka og nafngreinds manns um Laugadælaverkefnið. Kveður stefnandi að nefndur maður hafi hlotið nokkra refsidóma. Stefnandi kveðst ekki hafa vitað af samstarfi bankans og mannsins og um brotaferil hans fyrr en um áramótin 2009 til 2010 þegar fréttir birtust um það í fjölmiðlum. Heldur stefnandi því fram að maðurinn hafi verið aðalforsvarsmaður Ferjuholts ehf., útgefanda skuldabréfanna. Stefnandi telur að bankanum hafi borið að upplýsa um þessi atriði áður en bréfin voru seld honum. Hafi stjórnendur VBS Fjárfestingarbanka tekið mikla áhættu með samstarfi sínu við téðan mann, en tapinu hafi síðan verið velt yfir á hinn venjulega viðskiptamann bankans. Telur stefnandi að með því að veita ekki upplýsingar um þessi atriði hafi hinn stefndi aðalstjórnandi bankans bakað sér persónulega skaðabótaábyrgð gagnvart sér. Því beri hið stefnda vátryggingarfélag greiðsluskyldu á fjárhagslegu tjóni stefnanda úr D&O tryggingunni. Í því sambandi tekur stefnandi fram að orsakatengsl séu til staðar milli háttsemi stjórnandans og þess fjárhagslega tjóns sem hann hafi orðið fyrir. Augljóst sé að engin viðskipti með Laugardælaskuldabréfin hefðu átt sér stað ef hann hefði haft vitneskju um þessi atriði.

         Í þriðja lagi vísar stefnandi til þess að strax sumarið 2007 hafi verið farið að halla undan fæti í starfsemi VBS Fjárfestingarbanka áður en komið hafi að gjalddaga skuldabréfanna sem hvíldu á Hörðukór. Gögn málsins bendi til þess að Hörðukórsverkefnið hafi verið komið í miklar ógöngur. Því hafi verið reynt með flestum tiltækum ráðum að fá eigendur þeirra bréfa til að skipta þeim upp í Laugardælabréfin og losna þannig a.m.k. tímabundið undan greiðsluskyldu. Tæpast þurfi að taka það fram að með vitneskju um vandamál í Hörðukórsverkefninu hefði stefnandi aldrei hugleitt að kaupa Laugardælabréfin. En þessum upplýsingum um Hörðukórsvandræðin hafi verið haldið leyndum. Skorti hér mjög á alla eðlilega varúð og upplýsingaskyldu og heldur stefnandi því fram að um vítaverða vanrækslu hafi verið að ræða og þá sérstaklega hjá æðsta stjórnanda VBS Fjárfestingarbanka, stefnda Jóni. Leiði þessi afglöp sjálfstætt og óháð til persónulegrar bótaábyrgðar hans, enda m.a. brotið gegn reglum skaðabótaréttar.

         Stefnandi byggir á því að með framangreindri háttsemi sinni, athöfnum og/eða athafnaleysi, eins og henni hafi hér verið lýst, hafi hinn stefndi stjórnandi meðal annars brotið gegn ýmsum ákvæðum laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti svo sem 5. gr. og 8. gr., sbr. 4. gr. og 13. gr. eldri laga um sama efni nr. 33/2003, en þau hafi verið í gildi við upphaf viðskipta stefnanda við VBS Fjárfestingarbanka, 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, sbr. 134. gr. sömu laga. Hvað lagarök varðar vísar stefnandi að öðru leyti til laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga (einkum 2. gr., 3. gr., 5. gr., 6. gr., 44. gr., 46. gr. og 50. gr.); laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu (5. gr., 6. gr. og 12. gr.) og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála (einkum 25. gr., sbr. 80. gr., 71. gr. og 130. gr.). Enn fremur sé vísað til óskráðra reglna skaðabótaréttar.

         Stefnandi tekur fram að krafa um bótaábyrgð sé nú höfð uppi einungis á hendur stefnda Jóni. Telur stefnandi að þáttur hans og aðkoma í málinu sé nægileg til þess að uppfylla bótagrundvöllinn í málinu að þessu leyti, enda liggi ábyrgð hans í augum uppi og sé raunar borðliggjandi. Stefndi Jón hafi sem forstjóri bankans séð um allan daglegan rekstur hans og haft alla þræði í starfsemi hans í hendi sér. Hins vegar sé bótaskylda einstakra stjórnarmanna ekki eins ljós. Upphaflega kveðst stefnandi hafa til einföldunar ætlað að krefjast bóta beint frá stefnda Sjóvá, svo sem heimilt hefði verið samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004. Eftir kröfu stefnda Sjóvár hafi hann hins vegar þurft að höfða málið einnig gegn vátryggðum, sbr. 3. mgr. 44. gr. laganna.

         Stefnandi áréttar í lokin kröfu um að stefndu greiði honum málskostnað in solidum. Málskostnaðarkrafan sé sett fram með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá komi hér til sérstakur liður að fjárhæð 812.500 krónur, sem stefnandi kveður vera sanngjarnt endurgjald vegna vinnu við málskot nr. 236/2010, sbr. áskilnað um þennan kröfuþátt í athugasemdum á málskotseyðublaði. Telst stefnanda til að vinna sín í þessum málsþætti sé um 65 klukkustundir. Stefnandi sé lögfræðingur að mennt með innlögð málflutningsréttindi og ekki með opna skrifstofu. Telur hann ekki ósanngjarnt að reikna sér um það bil helming af algengu tímagjaldi lögmanna. Krafa hans samkvæmt þessum lið sé þannig 812.500 krónur (65 klst. x 12.500 krónur). Þá heldur stefnandi því fram að D&O tryggingin taki einnig til þessa kröfuliðar ásamt öðrum málskostnaði, enda um afleiddan kostnað að ræða í tengslum við bótakröfu stefnanda að öðru leyti.

2. Málsástæður og lagarök stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf.

         Sýknukrafa stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf., er í fyrsta lagi reist á því að krafa stefnanda um greiðslu skaðabóta úr ábyrgðartryggingu stjórnar og stjórnenda VBS Fjárfestingarbanka hf. sé of seint fram komin.

         Um þessa málsástæðu vísar stefndi Sjóvá til þess að í upphafi vátryggingarskilmálanna komi fram að kröfugerðarregla vátryggingarréttar gildi um vátrygginguna. Þá taki hún til krafna sem gerðar séu fyrst á hendur stjórnendum persónulega á vátryggingartímanum. Því fari gildissvið vátryggingarinnar eftir því hvenær krafa sé gerð á hendur stjórnanda persónulega en ekki eftir því hvenær tjón verði.

         Stefndi Sjóvá tekur fram að í skilmálum tryggingarinnar sé gildissvið hennar skilgreint nánar. Þannig verði að gera kröfu um skaðabætur persónulega á hendur stjórnanda og tilkynna það vátryggingafélaginu á gildistíma vátryggingarinnar, sbr. VI. kafla skilmálanna. Almenn krafa gegn viðkomandi félagi, í þessu tilviki VBS Fjárfestingarbanka hf., dugi ekki, heldur verði að gera kröfu á hendur stjórnanda persónulega, sbr. skýrt orðalag skilmálanna. Séu þessi skilyrði ekki uppfyllt taki vátryggingin ekki til tjónsins.

         Stefndi Sjóvá bendir á að ábyrgðartryggingin hafi verið gefin út 23. júní 2008 og gilt til 22. júní 2009. Sérstaklega sé tekið fram í vátryggingarskírteininu að vátryggingin myndi ekki endurnýjast og að skilmálar ábyrgðartryggingarinnar væru á ensku. Ný vátrygging hafi ekki verið keypt og því engin stjórnendaábyrgðartrygging í gildi hjá stefnda eftir 22. júní 2009. Stefnandi hafi fyrst haft samband við stefnda í lok apríl 2010 eða um 10 mánuðum eftir að gildistíma vátryggingarinnar lauk. Þann 10. júní 2010 hafi stefnandi tilkynnt meðstefnda í fyrsta sinn að hann teldi hann bera persónulega skaðabótaábyrgð á meintu tjóni sínu. Þá hafi meðstefndi aldrei sjálfur tilkynnt stefnda Sjóvá um framkomna kröfu, eins og hann hafi verið skuldbundinn til, sbr. VI. kafla A1 í vátryggingarskilmálum, hefði krafa komið fram á gildistíma vátryggingarinnar. Það leiði til þess að vátryggingin bæti ekki meint tjón.

         Stefndi Sjóvá byggir jafnframt á því að félagið hafi með skilmálum vátryggingarinnar og tilgreiningu á vátryggingarskírteini samið svo að vikið væri frá ákvæðum um endurnýjun vátryggingar í 18. gr. I. hluta laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga á grundvelli heimildar í 3. gr. laganna. Samkvæmt 3. gr. laganna sé heimilt að víkja frá ákvæðum I. hluta þeirra m.a. ef umfang rekstrar svarar fleiri en fimm ársverkum. Óumdeilt sé að umfang rekstrar VBS Fjárfestingarbanka hf. hafi numið fleiri en fimm ársverkum. Stefndi byggir á því að félagið hafi samið sig undan ákvæðum um endurnýjun vátryggingar í 18. gr. laganna þar sem samið hafi verið um að vátryggingin endurnýjaðist ekki eins og skýrt komi fram á vátryggingarskírteininu og heimild standi til að gert sé, sbr. lokamálslið 2. mgr. 18. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Stefndi Sjóvá mótmælir því enn fremur að vátryggingaskilmálarnir hafi ekki sjálfstætt gildi gagnvart stefnanda.

         Stefndi Sjóvá heldur því fram að mótbára félagsins um að krafan sé of seint fram komin komist að í málinu. Í 4. mgr. 44. gr. sé kveðið á um að félagið geti haft uppi mótbárur gegn tjónþola, svo fremi þær eigi ekki rót sína að rekja til háttsemi vátryggðs eftir að vátryggingaratburður varð. Í athugasemdum við 44. gr. frumvarpsins, sem hafi orðið að lögum nr. 30/2004, sé sérstaklega tekið fram að félagið geti haft uppi aðrar mótbárur gegn tjónþola, þ.m.t. mótbárur byggðar á reglum vátryggingaréttar, nema þær eigi rætur að rekja til háttsemi vátryggðs eftir að vátryggingar­atburður varð. Í þessu felist að tjónþoli eigi ekki að geta öðlast betri réttarstöðu gegn félaginu en vátryggður hefði haft ef hann hefði kosið að greiða tjónþola skaðabætur og beina svo kröfu til félagsins. Félagið geti þannig borið fyrir sig að vátrygging hafi ekki verið í gildi þegar tjón varð, tjónið falli ekki undir þá áhættu sem vátryggt er gegn, því sé ekki skylt að greiða bætur því háttsemi vátryggðs fyrir vátryggingaratburð hafi leitt til þess að ábyrgð félagsins falli niður og að krafan sé ekki höfð uppi nægilega tímanlega eða í því horfi sem skylt sé samkvæmt skilmálum vátryggingarsamningsins. Það sé því hafið yfir allan vafa að sú mótbára, að krafa stefnanda sé of seint fram komin, komist að í máli þessu.

         Stefndi Sjóvá telur í ljósi framangreinds fyllilega ljóst að sýkna eigi félagið af öllum kröfum stefnanda þar sem krafa hans hafi komið of seint fram. Í þessu sambandi tekur stefndi Sjóvá fram að félagið sé ósammála rökstuðningi og niðurstöðu úrskurðar úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Í fyrsta lagi telur stefndi túlkun úrskurðarnefndarinnar á hugtakinu „kröfu“ vera ranga og því séu brostnar forsendur fyrir niðurstöðu nefndarinnar. Ekki sé unnt að líta á kæru stefnanda til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki sem kröfu í skilningi vátryggingarinnar. Í öðru lagi, væri litið á kæru stefnanda til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki sem kröfu í skilningi vátryggingarinnar, þá hafi hún ekki beinst að meðstefnda né hafi hans persónulegi þáttur að neinu leyti verið útskýrður eða hann verið talinn bera ábyrgð í úrskurði nefndarinnar. Raunar hafi ekki verið einu orði minnst á hann eða hans aðkomu í úrskurði nefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Krafan geti því aldrei talist hafa beinst að meðstefnda, sbr. orðalag skilmálanna þar sem vísað sé til gjörða eða athafnaleysis stjórnenda sjálfra. Í þriðja lagi telur stefndi að úrskurðarnefndin hafi með öllu litið fram hjá VI. kafla vátryggingarskilmálanna sem kveði á um tilkynningarskyldu til vátryggjanda. Leiði það til þess að jafnvel þótt talið yrði að stefnandi hafi sett kröfu fram á vátryggingartímabilinu sé ljóst að ekki hafi verið tilkynnt um kröfuna til vátryggjanda á vátryggingartímabilinu í samræmi við skilmála tryggingarinnar. Því hafi krafan í öllu falli verið of seint fram komin þegar stefnandi tilkynnti stefnda um kröfu sína um mánaðamótin apríl – maí 2010.

         Í öðru lagi er sýknukrafa stefnda reist á því að vátryggingin taki ekki til meints tjóns stefnanda þar sem ætluð háttsemi sé sérstaklega undanþegin bótaskyldu á grundvelli vátryggingarinnar samkvæmt skilmálum hennar. Í svokallaðri „Financial Institution Exclusion“ ákvæði, aftast í skilmálum vátryggingarinnar, en það ákvæði sé óaðskiljanlegur hluti skilmála vátryggingarinnar, segi að vátryggingin nái ekki til krafna í nánar tilteknum tilvikum. Í b-lið ákvæðisins segi að vátryggingin taki ekki til krafna vegna eða sem rekja megi til fjárfestingar í, umsjón með eða ráðgjöf varðandi fasteignir o.fl. Stefnandi hafi tekið þátt í fjárfestingaverkefnum og því eigi undanþágan við að mati stefnda Sjóvá. Í c-lið ákvæðisins segi að vátryggingin taki ekki til krafna vegna/eða, sem rekja megi til eða á nokkurn hátt feli í sér lækkun eða tap á fjárfestingu þegar gengislækkunin eða tap er afleiðing hvers konar breytinga á fjármála-, skuldabréfa- eða hrávörumarkaði þegar slíkar breytingar eru utan áhrifasviðs eða stjórnar viðkomandi stjórnanda. Ljóst sé að breytingar sem hafi orðið á skuldabréfa- og fjármálamarkaði hafi verið utan áhrifasviðs og stjórnar viðkomandi stjórnanda og því undanþegnar vátryggingarvernd. Í d-lið ákvæðisins segi að vátryggingin taki ekki til krafna vegna eða sem rekja megi til, eða feli í sér á nokkurn hátt skuldabréf, hrávöru eða fjárfestingu sem skili ekki þeim árangri sem kynnt hafi verið eða ætlast hafi verið til. Af þessu sé ljóst að tjón stefnanda falli ekki undir vátrygginguna, enda megi rekja það til þess að fjárfesting hans hafi ekki skilað tilætluðum árangri.

         Stefndi Sjóvá telur enn fremur að takmörkun vátryggingaverndar í g-lið IV. kafla vátryggingarskilmálanna eigi við. Þar sé kveðið á um að tryggingin nái ekki til krafna á grundvelli þess að stjórnendur hafi veitt sérfræðiþjónustu gegn gjaldi eða að misbrestur hafi verið á veitingu slíkrar sérfræðiþjónustu sem og allri háttsemi, yfirsjón eða vanrækslu þessu tengdu. Í öllu falli sé ljóst að meint tjón stefnanda falli undir þetta ákvæði skilmálanna og sé því ekki bótaskylt úr vátryggingunni.

         Í þriðja lagi er sýknukrafa stefnda á því byggð að ósannað sé með öllu að þeir einstaklingar sem vátryggingin taki til hafi valdið stefnanda tjóni og að þeir beri persónulega skaðabótaábyrgð gagnvart honum. Því hafi réttur til greiðslu skaðabóta úr stjórnendaábyrgðartryggingunni ekki stofnast.

         Í þessu sambandi tekur stefndi Sjóvá fram að vátryggingin, sem hér sé deilt um, nái ekki til  vinnuveitandaábyrgðar heldur aðeins persónulegrar skaðabótaábyrgðar stjórnenda. Í þessu sambandi bendir stefndi á að úrskurður úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, kveði á um að fjármálafyrirtækið VBS Fjárfestingarbanki hf. hafi brotið gegn ákvæðum 4. gr. þágildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 og 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki en ekki sé einu orði vikið að háttsemi eða hugsanlegum brotum stjórnenda í þeim úrskurði. Af niðurstöðukafla úrskurðarins kunni sú ályktun þvert á móti að vera dregin að VBS Fjárfestingarbanki hf. beri vinnuveitandaábyrgð hafi starfsmenn bankans farið á svig við nefnd lagaákvæði og ekki upplýst stefnanda um atriði sem þeim hafi borið að upplýsa. Til þess að starfsmenn, eða eftir atvikum stjórnendur, verði taldir ábyrgir vegna brots á hegðunarreglum þurfi að sýna fram á saknæma háttsemi þeirra sjálfra. Stefnandi hafi í engu sýnt fram á bótaskylda háttsemi stjórnendanna sjálfra og sem fyrr segir gefi framangreindur úrskurður slíkt heldur ekki til kynna.

         Stefndi Sjóvá tekur fram af þessu tilefni að réttarsamband stefnanda og VBS Fjárfestingarbanka hafi byggst á samningi um öryggisvörslu og markaðsviðskipti en ekki falið í sér fjárfestingarráðgjöf eða að fjárfest yrði fyrir hönd stefnanda samkvæmt ákveðinni fjárfestingarstefnu af neinu tagi. Stefnandi hafi sjálfur tekið ákvörðun um umræddar fjárfestingar.

         Stefndi Sjóvá kveðst hafna því alfarið að stjórnendur VBS Fjárfestingarbanka hf., sem falli undir stjórnendaábyrgðartrygginguna, hafi bakað sér persónulega skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda með athöfnum eða athafnaleysi. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir persónulegri ábyrgð meðstefnda. Slík sönnun hafi ekki tekist. Því séu ekki uppfyllt skilyrði til greiðslu bóta úr tryggingunni. Því er einnig mótmælt af hálfu stefnda Sjóvá að meðstefndi hafi haldið leyndum ýmsum afgerandi upplýsingum, að um stórfelldan hagsmunaárekstur hafi verið að ræða eða að hann hafi brotið gegn starfsreglum eða sniðgengið skyldur sínar, enda hafi ekki verið lögð fram nein gögn sem sýni fram á persónulega ábyrgð meðstefnda.

         Af hálfu stefnda Sjóvá er því einnig hafnað að brotið hafi verið gegn ákvæðum 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, enda hafi stefnandi ekki leitt fram sannanir þess efnis. Skyldur samkvæmt fyrrnefndu ákvæði felist fyrst og fremst í því að setja viðeigandi innri starfsreglur og verkferla eða eftir atvikum sjá til þess að þær séu settar af forstjóra eða framkvæmdastjóra. Svo sem fyrr hefur verið bent á beri fyrirtækið sjálft vinnuveitandaábyrgð á tjóni sem starfsmenn þess valdi. Það séu því ekki stjórnendur sem beri ábyrgð ef ekki er farið eftir þeim reglum sem þeir hafi sett, heldur hvíli sú ábyrgð á félaginu sjálfu sem vinnuveitanda.

         Stefndi telur að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að stjórnendur hafi tekið þátt í meðferð máls síns, sem þeim sé í raun óheimilt að gera samkvæmt 55. gr. laga nr. 161/2002, eða hvernig þeir hafi með öðrum hætti sjálfir bakað sér bótaábyrgð. Í raun hafi stefnandi aðeins leitt líkum að vinnuveitandaábyrgð VBS Fjárfestingarbanka hf., en stjórnendaábyrgðartrygging taki ekki til þess konar ábyrgðar. Hvað varði meint persónuleg brot meðstefnda sé ekki um neitt nema órökstuddar og ósannaðar fullyrðingar að ræða. Í ljósi alls framangreinds telur stefndi Sjóvá að saknæm háttsemi, sem leitt geti til persónulegrar ábyrgðar stjórnenda sem vátrygging stefnda taki til, sé með öllu ósönnuð.

         Stefndi Sjóvá byggir einnig á því að orsakatengsl milli meintrar saknæmrar háttsemi stjórnenda og ætlaðs tjóns stefnanda séu alfarið ósönnuð. Stefndi Sjóvá byggir jafnframt á, styður og tekur undir þær málsástæður sem meðstefndi byggir á og lúta að höfnun þess að hann beri persónulega skaðabótaábyrgð á ætluðu tjóni stefnanda. Þó tekur hið stefnda félag fram að því sé ranglega haldið fram af hálfu meðstefnda að hann hafi ekki verið „vátryggður“ samkvæmt skilmálum vátryggingarinnar. Um það vísar stefndi Sjóvá til I. hluta fyrirliggjandi vátryggingarskilmála.

         Í fjórða lagi byggir stefndi kröfu sína um sýknu á því að meint tjón stefnanda verði rakið til þess að VBS Fjárfestingarbanki hf. hafi ekki staðið við samkomulag sem bankinn hafi gert við stefnanda 26. október 2009. Orsök meints tjóns stefnanda sé því eingöngu sú að bankinn hafi ekki innt af hendi afborganir samkvæmt skuldabréfi sem gefið hafi verið út til stefnanda. Tjónsorsökin hafi því ekki verið atvik eða háttsemi sem falli undir ábyrgðartryggingu stjórnenda.

         Af því sem hér hafi verið rakið telur stefndi vera fyllilega ljóst að skilyrði til greiðslu úr stjórnendaábyrgðartryggingu VBS Fjárfestingarbanka hf. séu ekki fyrir hendi og sýkna beri hann af öllum kröfum stefnanda.

         Varakröfu sína byggir stefndi á því að stefnandi skuli í öllu falli bera stærsta hluta tjóns síns sjálfur í ljósi menntunar sinnar og reynslu en stefnandi sé lögmaður og hafi eða mátti sem slíkur hafa fulla þekkingu á þeim áhættuþáttum sem fólust í umræddri fjárfestingu.

3. Málsástæður og lagarök stefnda Jóns

         Stefndi Jón kveður kröfu máls þessa sér með öllu óviðkomandi þar sem ekkert í skilmálum stjórnendaábyrgðartryggingarinnar geri ráð fyrir aðild starfsmanna vátryggingartaka að málum út af tryggingunni. Hér sé á ferðinni ábyrgðartrygging vegna mjög sérstakrar áhættu stjórnarmanna og stjórnenda fjármálafyrirtækisins VBS, sem bæði hafi verið vátryggingartaki og  vátryggður, sbr. c-lið 1. mgr. 2. gr.  laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Vátryggðu hafi m.ö.o. ekki verið einstakir stjórnendur og stjórnarmenn VBS heldur félagið sjálft.

         Stefndi Jón heldur því fram að vátryggingafélaginu hafi borið að tilkynna vátryggðum um það án ástæðulauss dráttar kæmi fram krafa um bætur úr ábyrgðartryggingu þessari og veita honum upplýsingar um meðferð kröfunnar, sbr. 44. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 30/2004.

         Samkvæmt þessu telur stefndi Jón sig því ekki eiga neina aðild að þessum þætti málsins og beri að sýkna hann af kröfu stefnanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Engu breyti þar um þó að stefnandi hafi sent stefnda Jóni bréf 10. júní 2010 þess efnis að hann teldi stjórnendaábyrgðartryggingu VBS taka til meints tjóns hans.

         Stefndi Jón byggir kröfu sína um sýknu af bótakröfu stefnanda á því að hann hafi ekki valdið stefnanda tjóni með ólögmætri og saknæmri háttsemi í starfi sínu sem forstjóri VBS. Hvorki almenna skaðabótareglan né reglan um húsbóndaábyrgð leiði til bótaskyldu hans. Almenna reglan sé sú að aðilar verði að bera tjón sitt sjálfir nema þeir geti sannað að rekja megi það til ólögmætrar og saknæmrar háttsemi þriðja manns. Það hafi stefnanda ekki tekist í þessu máli.

         Stefndi Jón kveðst hafa verið ráðinn forstjóri VBS 1. desember 2006 og hafi hann ekkert komið að Laugardælaviðskiptum stefnanda og VBS 27. ágúst 2007. Stefndi hafi heldur ekki gefið undirmönnum sínum svo sem verðbréfamiðlurum fyrirmæli um þessi viðskipti.

         Í málinu liggi fyrir að stefnandi hafi fyrir kaupin á Laugardælabréfunum átt í beinum viðræðum við verðbréfamiðlara hjá VBS. Í þeim samtölum hafi stefnandi fengið upplýsingar um allt sem viðvék skuldabréfunum. Stefnandi hafi líka rætt um viðskipti með Laugardælabréfin við fyrrum forstjóra VBS, Jafet S. Ólafsson. Stefnandi sé auk þess lögmaður og eigi honum að vera kunn skoðunarskylda kaupenda lausafjár, sem taki til verðbréfaviðskipta, þó við slík viðskipti gildi einnig sérlög um verðbréfaviðskipti. Þegar stefnandi hafi keypt Laugardælabréfin hafi gilt um verðbréfaviðskipti lög nr. 33/2003, sem hafi gert aðrar og vægari kröfur, m.a. um flokkun viðskiptamanna, en núgildandi  lög nr. 108/2007 geri. Þau hafi tekið gildi 1. nóvember 2007 en þá hafi kaupin á Laugardælabréfunum verið um garð gengin. Af öllum þeim gögnum sem lögð hafi verið fram í máli þessu verði ekki ráðið hvað upplýsingar stefnanda hafi skort frá stefnda áður en til viðskiptanna hafi verið stofnað.

         Þá liggi einnig fyrir að starfsmenn VBS hafi ekki lofað stefnanda því að Laugardælabréfin stæðu af sér algert hrun. Óþarfi sé að fjölyrða um að hér á landi hafi orðið algjört hrun í byrjun október 2008 þegar allir viðskiptabankar hafi orðið gjaldþrota og Fjármálaeftirlitið sett yfir þá skilanefndir. Í kjölfar bankahrunsins hafi verðmæti flestra rýrnað, ef ekki allra eigna á Íslandi. Byggingaland og byggingaréttur Fjárfestingarfélagsins Ferjuholts ehf. hafi ekki verið nein undantekning þó að stærð landsins hafi verið nær 200 hektarar.

         Stefndi Jón telur að stefnandi hafi sennilega einn allra þeirra sem fjárfestu í Laugardælabréfum engu tapað á þeim viðskiptum, enn sem komið er. Stefnandi hafi þegar fengið greiddar liðlega 37 milljónir króna upp í kröfu sína frá VBS, eigi í vændum vátryggingabætur úr hendi Sjóvá – Almennra trygginga hf. úr starfsábyrgðartryggingu verðbréfamiðlara og haldi á skuldabréfum að nafnverði 55 milljónir króna til tryggingar kröfu sinni, sem geti aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemi kaupverði Laugardælabréfanna, sem hafi verið 89.524.929 krónur. Krafa stefnanda vegna kaupa á Laugardælabréfunum sé því að mestu gerð upp. Stefndi kveður tjón stefnanda með öllu ósannað.

         Stefndi bendir á að allan rökstuðning vanti fyrir því í málinu á hvaða lagagrunni stefndi sé talinn geta borið solidariska ábyrgð á fjárkröfunni með meðstefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafi selt VBS stjórnendatryggingu til verndar hagsmunum þess vegna tjóns þriðja manns, sem hafi mátt rekja til starfsmanna VBS.  Bótaréttur viðskiptavina VBS á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf. á grundvelli vátryggingarinnar þurfi ekki að vera hinn sami og skaðabótaréttur viðskiptavina á hendur starfsmönnum, hvað þá endurkröfuréttur vátryggingafélags á hendur VBS. Um solidariska ábyrgð geti ekki verið að ræða með stefnda og meðstefnda Sjóvá–Almennum tryggingum hf.

         Stefndi kveður með öllu óljóst af úrskurði úrskurðarnefndar í vátryggingamálum á hvaða hátt starfsemi VBS undir hans stjórn hafi farið í bága við 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

         Í 19. gr. sagði það eitt árið 2007 að fjármálafyrirtæki skyldu starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Sá sem beri ákvæði eins og 19. gr. fyrir sig verði að sanna efni hennar. Enga vísbendingu sé að finna um það í úrskurðinum að hvaða leyti starfsemi VBS hafi farið í bága við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði þegar starfsmenn félagsins hafi kynnt fyrir stefnanda Laugardælabréfin í  ágúst 2007. Stefnandi hafi viljað mikla ávöxtun á fé sitt, eins og fram komi í gögnum málsins. Kröfu um mikla ávöxtum fylgi jafnan aukin áhætta. Stefnandi hljóti að hafa gert sér grein fyrir því. Á sömu lund hafnar stefndi þeirri fullyrðingu að starfsreglur og skyldur fjármálafyrirtækja hafi verið sniðgengnar.

         Stefnda Jóni sé með öllu óljóst til hvaða ráðstafana hann hafi ekki gripið í daglegum rekstri VBS sem honum hafi borið að grípa til sem ábyrgum stjórnanda samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga nr. 2/1995 og einkum 134. gr. þeirra laga sem stefnandi vísi til.

         Stefndi Jón vísar til þess að stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn um að staða VBS hafi farið versnandi á árinu 2007, eins og segi í úrskurðinum. Stefndi bendir í því sambandi á að VBS hafi í apríl 2007 verið sameinað Fjárfestingarfélagi sparisjóðanna hf. og nýir hluthafar fjárfest í VBS. Heldur stefndi því fram að varla hefðu þeir fjárfest í VBS og kosið fulltrúa sína í stjórn félagsins ef allt hefði verið þar á hverfanda hveli.

         Stefndi Jón andmælir því sem fram komi í stefnu að VBS hafi sætt sérstakri rannsókn FME í ágúst 2008. Af framlögðum gögnum um rannsóknina megi ráða að FME hafi tekið eignastýringarsvið VBS til athugunar með heimsókn í ágúst 2008, svokallaðri vettvangsheimsókn. Athugun af því tagi sem hér um ræði sé hluti af reglulegu eftirliti FME en öll fjármálafyrirtæki lúti því sem kunnugt er. Vettvangsheimsóknin að þessu sinni hafi tekið til eignastýringarsviðs, eins og áður greini, en stefnandi hafi ekki átt viðskipti við það svið þar sem hann hafi verið með öryggisvörslusamning en ekki eignastýringarsamning. Þau viðskipti sem stefnandi hafi átt hafi því verið af allt öðrum toga. Að öðru leyti hafi niðurstaða FME orðið sú að benda á atriði sem betur hafi mátt fara, en ekki hafi verið um alvarlegar athugasemdir að ræða, enda hefði FME þá gripið til viðeigandi ráðstafana.

         Stefndi Jón kveður stefnanda ekki hafa, með þeim gögnum sem hann hafi lagt fram í máli þessu, sannað eða gert sennilegt með neinum hætti að stefndi Jón hafi með einhverjum hætti ekki sinnt starfskyldum sínum sem forstjóri VBS og með þeirri vanrækslu valdið stefnanda tjóni.

         Þegar stefndi Jón hafi komið til starfa hjá VBS 1. desember 2006 hafi félögin Eignasmári ehf. og Stafna á  milli ehf. verið í viðskiptum við VBS. Hafi Þorgeir Jósefsson séð um samskipti þessara félaga við VBS, en hann hafi verið framkvæmdastjóri þeirra. Þorgeir hafi verið áhrifamaður í íslensku fjármálalífi m.a. vegna formennsku sinnar í stjórn Sameinaða lífeyrissjóðsins. Stefndi Jón kveður það engu skipta um ábyrgð sína á tjóni stefnanda þó að sá maður, sem stefnandi vísi til í stefnu, hafi tengst þessum félögum. Stefnandi virðist líta á nefndan mann sem afbrotamann, þar sem hann hafi á yngri árum komist í kast við lög og hlotið refsidóma. Af stefnu megi helst ráða að stefndi Jón hafi átt að reka félög úr viðskiptum sem hafi haft einhver tengsl við manninn.

         Stefndi Jón tekur fram að fari svo ólíklega að hann eigi að bera skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda sé þess krafist að dómurinn færi fjárhæð dæmdra bóta niður, sbr. 3. mgr. 134. gr. laga um hlutafélög, og eins vegna eigin sakar stefnanda sjálfs.

         Þá mótmælir stefndi Jón því að bótakrafa á hendur honum, ef dæmd verði, beri    dráttarvexti frá 1. febrúar 2010. Engin formleg krafa hafi verið gerð á hendur stefnda fyrr en við höfðun fyrra málsins í desember 2010 eins og áður sé lýst. Krafan geti því í fyrsta lagi borið dráttarvexti að liðnum einum mánuði frá málshöfðunardegi, sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Ákvæði þetta eigi ekki við hér þar sem stefnandi hafi ekki lagt fram þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu til að meta tjónsatvikið og fjárhæð bótakröfunnar. Verði bótakrafan á hendur stefnda tekin til greina verði dómurinn því að miða upphaf dráttarvaxta við eitthvert síðara tímamark s.s. dómsuppsögu, sbr. síðari málslið 9. gr. vaxtalaganna.

         Um lagarök vísar stefndi Jón til laga um hlutafélög nr. 2/1995, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, reglna skaðabótaréttar um skaðabætur utan samninga, laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Kröfu sína um málskostnað kveðst stefndi Jón byggja á lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 og lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

IV.

         Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að hann eigi rétt á bótum úr stjórnendaábyrgðartryggingu VBS Fjárfestingarbanka hf. hjá stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Eins og kröfugerð hans ber með sér er hún á því reist að stefndi, Jón G. Þórisson, beri persónulega bótaskyldu á fjártjóni sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir við skuldabréfakaup sín 27. ágúst 2007. Á þeim tíma var stefndi Jón forstjóri VBS Fjárfestingarbanka. Samkvæmt 1. tölul. í kafla I í skilmálum umræddrar vátryggingar ber vátryggingafélaginu að „greiða fyrir hönd stjórnarmanna og stjórnenda allt tjón“ sem hlýst af kröfu sem reist er á ólögmætu atferli þeirra. Stefndi Jón er samkvæmt þessu vátryggður í skilningi c-liðar 1. mgr. 2. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Framangreindri kröfu er því réttilega beint gegn stefnda Jóni ásamt vátryggingafélaginu, sbr. 3. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004. Ekki er því efni til að sýkna hann með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

         Af framlögðum vátryggingarskilmálum verður ráðið að umrædd vátrygging er reist á svonefndri kröfugerðarreglu. Þar er skýrt tekið fram að vátryggingin taki aðeins til kröfu sem gerð er á hendur stjórnarmönnum og stjórnendum á gildistíma hennar. Enginn ágreiningur er um að vátryggingin leið undir lok 22. júní 2009. Stefnandi byggir meðal annars á því að krafa í þessum skilningi hafi komið fram áður en vátryggingin féll úr gildi. Um það vísar hann annars vegar til erindis síns til Fjármálaeftirlitsins 18. desember 2008 og hins vegar til kæru til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki 16. febrúar 2009.

         Samkvæmt þeim gögnum sem lögð hafa verið fram um erindi þessi beindust þau almennt að viðskiptum stefnanda við VBS Fjárfestingarbanka með þau skuldabréf sem um ræðir. Þar er því ekki haldið fram að einstakir stjórnendur bankans beri ábyrgð á því tjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir í þessum viðskiptum. Telur dómurinn því ekki unnt að fallast á að stefnandi hafi með framangreindum erindum gert kröfu á hendur stefnda Jóni eða öðrum stjórnendum bankans, sem vátryggingin tekur til, vegna umræddra viðskipta. Breytir engu í því sambandi þó að túlka megi hugtakið kröfu rúmt samkvæmt A-lið II. hluta skilmálanna. Samkvæmt grein A.1 í VI. hluta vátryggingarskírteinisins var það einnig skilyrði skuldbindingar vátryggjanda að VBS Fjárfestingarfélag eða stjórnarmenn og stjórnendur félagsins tilkynntu honum ef raunhæft væri að bótakrafa á hendur stjórnarmönnum eða stjórnendum félagsins kæmi fram. Engin tilkynning barst stefnda Sjóvá um yfirvofandi kröfu á hendur stjórnendum bankans í tengslum við framangreind erindi. Virðist stefndi Sjóvá fyrst hafa mátt gera sér grein fyrir að stefnandi teldi sig eiga skaðabótakröfu á hendur stjórnendum vátryggingartaka í apríl 2010 þegar stefnandi leitaði til félagsins, en þá var gildistími vátryggingarinnar liðinn.

         Hvað sem þessu líður telur stefnandi sig óbundinn af ákvæðum vátryggingarsamningsins um að krafa þurfi að koma fram á hendur vátryggðum á gildistíma vátryggingarinnar. Þar vísar hann til þess að óheimilt sé að víkja frá ákvæðum laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga þegar reynir á rétt tjónþola samkvæmt ábyrgðartryggingu, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna. Því séu ákvæði 44. gr. og 46. gr. laganna, sem fjalla um réttarstöðu tjónþola samkvæmt ábyrgðartryggingu, ófrávíkjanleg. Þá vísar stefnandi til þess að skilmálar tryggingarinnar hafi verið á ensku, en það stangist á við 5. gr. laga nr. 30/2004.

         Almennt er óheimilt, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 30/2004, að víkja frá ákvæðum I. hluta laganna með samningi sem leiðir til lakari stöðu þess sem öðlast kröfu á hendur vátryggingafélagi samkvæmt vátryggingarsamningi, nema annað sé tekið fram í lögunum. Í 2. mgr. sömu greinar kemur þó fram að heimilt sé að víkja frá ákvæðum þessa hluta laganna, „þó ekki ákvæðum varðandi ábyrgðartryggingar í 46. gr.“, þegar vátrygging er tekin vegna atvinnurekstrar og einhverju af nánar tilgreindum fjórum skilyrðum er fullnægt. Meðal þeirra skilyrða er að umfang rekstraraðilans við gerð samningsins eða við endurnýjun hans samsvari fleiri en fimm ársverkum. Óumdeilt er að það skilyrði átti við um VBS Fjárfestingarbanka þegar samið var um umrædda stjórnendaábyrgðartryggingu. Því var heimilt að víkja frá fyrirmælum laganna við gerð vátryggingarsamnings milli bankans og stefnda Sjóvár, öðrum en 46. gr. laganna.

         Í 44. gr. laga nr. 30/2006 er fjallað almennt um stöðu tjónþola við ábyrgðartryggingu. Í 4. mgr. greinarinnar kemur fram sú almenna meginregla að vátryggingarfélag geti haft uppi sömu mótbárur gegn kröfu tjónþola og hinn vátryggði, sem og aðrar mótbárur svo fremi þær eigi ekki rót sína að rekja til háttsemi vátryggðs eftir að vátryggingaratburður varð. Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögunum kemur fram að hér sé mælt fyrir um að tjónþoli öðlist ekki betri stöðu gegn vátryggingafélaginu á grundvelli reglna skaðabótaréttar en hann njóti gegn vátryggðum. Geti félagið með öðrum orðum haldið uppi öllum sömu mótbárum gegn kröfu tjónþola og hinn vátryggði. Að auki geti félagið haft uppi aðrar mótbárur gegn tjónþola, þ.m.t. mótbárur sem reistar eru á reglum vátryggingaréttar, nema þær eigi rætur að rekja til háttsemi vátryggðs eftir að vátryggingaratburður varð. Í þessu felist að tjónþoli eigi ekki að geta öðlast betri réttarstöðu gegn félaginu en vátryggður hefði haft ef hann hefði kosið að greiða tjónþola skaðabætur og beina svo kröfu til félagsins. Félagið geti þannig t.d. borið fyrir sig að vátrygging hafi ekki verið í gildi þegar tjón varð eða að krafan sé ekki höfð uppi nógu tímanlega eða í því horfi sem skylt er samkvæmt skilmálum.

         Í 46. gr. laga 30/2004 er sérregla um stöðu tjónþola við ábyrgðartryggingu sem tekin er í tengslum við viðamikla atvinnustarfsemi. Eins og vikið hefur verið að er ákvæði þetta ófrávíkjanlegt jafnvel þó að almennt sé heimilt að semja um frávik frá lögunum þegar vátrygging er tekin vegna atvinnurekstrar, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna. Af 46. gr. laganna leiðir þó aðeins að bannað er að krafa vátryggðs á hendur félaginu verði grundvöllur fullnustu á öðrum kröfum en skaðabótakröfu tjónþola. Þá er þar mælt fyrir um að verði bú vátryggðs tekið til gjaldþrotaskipta gildi ákvæði 44. og 45. gr., sbr. og 2. og 3. mgr. 49. gr. laganna. Ekki verður með neinu móti séð að umrædd 46. gr. laga nr. 30/2004 hamli því að samið sé með þeim hætti milli vátryggingartaka og vátryggingafélags að krafa þurfi að koma fram á gildistíma tryggingar.

         Sérstaklega var tekið fram í vátryggingarskírteini að við lok gildistíma vátryggingarinnar myndi hún ekki endurnýjast. Heimilt var samkvæmt fyrrgreindri 2. mgr. 3. gr. laga nr. 30/2004, sem og niðurlagi 2. mgr. 18. gr. laganna, að víkja með þessum hætti frá almennum fyrirmælum 18. gr. um endurnýjun vátryggingarskírteinis. Í vátryggingarskírteininu var einnig vísað til þess að skilmálar tryggingarinnar séu á ensku, en sú tilhögun var heimil gagnvart VBS Fjárfestingarbanka, sbr. fyrrgreinda 2. mgr. 3. gr. og 5. gr. laganna. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður ekki séð að lög nr. 30/2004 hamli því að stefndi Sjóvá geti borið fyrir sig ákvæði í skilmálum ábyrgðartryggingarinnar um að krafa á hendur stjórnanda VBS Fjárfestingarbanka þurfi að koma fram á gildistíma tryggingarinnar. Breytir engu í því sambandi þó að stefnandi hafi sem tjónþoli ekki átt aðild að samningi milli VBS Fjárfestingarbanka og stefnda Sjóvár um ábyrgðartrygginguna, sbr. 4. mgr. 44. gr. laganna.

         Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að ábyrgðartryggingin hafi verið fallin úr gildi þegar krafa á hendur stjórnendum VBS Fjárfestingarbanka kom fyrst fram. Með vísan til skilmála tryggingarinnar, sem stefndu er heimilt að bera fyrir sig gagnvart stefnanda, var krafan of seint fram komin. Því er ekki unnt að fallast á að stefnandi geti átt rétt á bótum úr umræddri tryggingu. Þegar af þeirri ástæðu verða stefndu sýknaðir af öllum kröfum stefnanda.

         Í ljósi aðdraganda málshöfðunarinnar og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að hver málsaðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir dómi. Þá er ekki forsenda til að fjalla sérstaklega um kröfu stefnanda um greiðslu málskostnaðar vegna reksturs á ágreiningsmáli fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

         Stefndu, Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og Jón G. Þórisson, eru sýknaðir af kröfum stefnanda, Hafþórs Inga Jónssonar.

         Málskostnaður milli aðila fellur niður.