Hæstiréttur íslands

Mál nr. 201/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gagn
  • Verjandi


                                                        

Þriðjudaginn 13. apríl 2010.

Nr. 201/2010.

Sérstakur saksóknari

(Hólmsteinn Gauti Sigurðsson saksóknari)

gegn

X

(Ólafur Eiríksson hrl.)

Kærumál. Gögn. Verjandi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu X um að ákæruvaldið yrði skyldað til að afhenda verjanda hans tiltekna skýrslu. Talið var að ákæruvaldið hafi haft skýrsluna í vörslu sinni í þrjá mánuði og ekkert aðhafst til að sýna fram á að efni skýrslunnar varði ekki það sakarefni sem beinist að X. Var því fallist á að ákæruvaldinu væri skylt að afhenda verjanda X skýrsluna og hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2010, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að sóknaraðili skyldi afhenda verjanda varnaraða skýrslu A sem nefnd er greinargerð vegna rannsóknar á starfsemi [...] og send var sóknaraðila 23. desember 2009. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til d. liðar 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Aðalkrafa varnaraðila er á því reist að ekki sé til staðar heimild fyrir kæru sóknaraðila þar sem í c. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 sé einungis heimilað að kæra synjun um að láta af hendi afrit af gögnum. Fallist er á með sóknaraðila að heimild til kæru sé að finna í d. lið ákvæðisins. Verður því ekki fallist á kröfu varnaraðila um frávísun málsins frá Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                  

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2010.

X, kt. [...], [...], [...], hefur með vísan til 2. mgr. 102 gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, gert kröfu , sem barst dóminum 18. þ.m., um að hann úrskurði að embætti sérstaks saksóknara skv. l. nr. 135/2008, kt. 520109-1960, Skuggasundi, 150 Reykjavík, verði gert skylt að afhenda verjanda sínum nánar tiltekin gögn; afrit af skýrslu A, kt. [...], ásamt fylgigögnum, nánar tiltekið „Greinargerð vegna rannsóknar á starfsemi [...]“, en skýrslan hafi verið send varnaraðila þann 23. desember 2009 í tengslum við rannsókn varnaraðila á máli nr. 009-2009-00017, en í málinu sæti sóknaraðili rannsókn sem sakborningur.  Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

I.

Ólafur Eiríksson hrl., sem setur fram kröfuna, kveðst vera verjandi sóknaraðila í rannsókn varnaraðila á málefnum félaganna [...], [...] og [...]. Hafi hann fengið aðgang að tilteknum rannsóknar­gögnum og óskað í kjölfar þess staðfestingar á að engin ný rannsóknargögn hefðu orðið til. Með tölvupósti þann 15. janúar 2010 hafi Birgir Jónasson, lögfræðingur hjá varnaraðila, staðfest að verjanda sóknaraðila hafi þá þegar verið send öll rannsóknar­gögn.

Stuttu síðar hafi sóknaraðili frétt af því að A, sem líkt og sóknaraðili hafi stöðu sakbornings í umræddri rannsókn, hefði afhent varnaraðila skýrslu, eða einskonar greinargerð, sem studd var fjölda gagna.  Sóknaraðili hafi einnig haft af því spurnir að efni umræddrar skýrslu varði meðal annars störf sóknaraðila fyrir þau félög sem umrædd rannsókn beinist að.

Verjandi sóknaraðila hafi í kjölfar þessa sett sig í samband við Birgir Jónasson, lögfræðing hjá varnaraðila, og óskað eftir að fá aðgang að skýrslu A. Þessari umleitan hafi verið hafnað á þeim grundvelli að ekki væri um rannsóknargögn að ræða.

Þann 25. febrúar 2010 hafi verjandi sóknaraðila ritað varnaraðila bréf þar sem beiðni hans um aðgang að skýrslunni sé ítrekuð. Erindi þessu hafi varnaraðili svarað með bréfi dags. 2. mars 2010 þar sem því sé haldið fram að þrátt fyrir að varnaraðili hafi umrædda skýrslu undir höndum hafi ekki verið lagt á það sérstakt mat hvort hún kunni að hafa sönnunargildi og rannsókn málsins byggi því ekki á skýrslunni. Af þessari ástæðu telji varnaraðili að skýrslan sé ekki hluti af rannsóknargögnum málsins og hafni verjanda sóknaraðila um aðgang að skýrslunni. 

Sóknaraðili telji augljóst að skýrslan teljist til gagna málsins og telji sér nauðsynlegt að fá aðgang að henni, meðal annars til að honum sé unnt að meta hvort hann telji hana hafa sönnunargildi við rannsóknina og hvort þörf sé á að afla gagna eða aðhafast nokkuð annað sökum þess sem fram kemur í henni.

Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 eigi verjandi manns, sem hafi fengið stöðu sakbornings við rannsókn sakamáls, rétt á því að fá afrit af öllum skjölum máls sem varði sakborning, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn í málinu. Þessi réttur sakbornings byggi á meginreglum sakamálaréttarfars og teljist til lágmarks­réttinda sakbornings skv. b-lið 3. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og njóti stjórnarskrárverndar skv. 1. mgr. 70. gr. Stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 auk þess sem gert sé ráð fyrir samskonar réttindum í öðrum alþjóðlegum mannréttindasáttmálum og í sakamálarétti annarra ríkja sem byggi á sömu grund­vallarreglum og sá íslenski.

Sóknaraðili byggi á því að þau gögn, sem um sé rætt, varði augljóslega það sakarefni sem að honum sé beint enda stafi gögnin frá aðila sem hafi ásamt sóknaraðila stöðu sakbornings við rannsóknina og séu afhent í tengslum við rannsókn þess máls. Hafi umræddur sakborningur, A, ítrekað, bæði í fjölmiðlum og í skýrslutökum hjá varnaraðila, borið af sér sakir með því að vísa ábyrgð yfir á aðra, ekki síst sóknaraðila. Verjandi sóknaraðila hafi auk þessa nú þegar fengið endurrit, sem gerð hafi verið af skýrslum sem teknar hafi verið af A hjá varnaraðila sem hafi því sjálfur ályktað að vitnisburður hans varði það sakarefni sem beint sé að sóknaraðila.  Ljóst sé að sóknaraðili verði að hafa tök á því að leggja sjálfstætt mat á það hvort skýrsla forstjóra félags, sem sóknaraðili var í fyrirsvari fyrir sem stjórnar­formaður og rannsókn beinist gegn, kunni að hafa sönnunargildi.

Í beiðni sóknaraðila, sem hafnað hafi verið með bréfi varnaraðila dags. 2. mars 2010, sé ekki verið að óska eftir afriti af öllum gögnum sem borist hafi varnaraðila í tengslum við rannsókn málsins heldur afriti af tilteknum og sérstaklega greindum gögnum sem sóknaraðili hafi rökstuddan grun um að varði það sakarefni sem beint sé að honum. Þetta tengist því að annar sakborningur málsins, B, hafi lesið umrædda skýrslu og upplýst sóknaraðila að hluta um innihald skýrslunnar.

Liðnir séu nokkrir mánuðir síðan varnaraðila hafi borist umrædd skjöl. Varnaraðili hafi því haft nægan tíma til að fara yfir efni meginskjalsins og ákvarða hvort það tengist því sakarefni sem beint sé að sóknaraðila eða aðhafast eitthvað til að sýna fram á að svo sé ekki.

II.

Málið var þingfest 22. þ.m. og því frestað um tvo daga til framlagningar greinargerðar varnaraðila og munnlegs flutnings en að honum loknum var það tekið til úrskurðar.  Með greinargerðinni var lagt fram afrit af bréfi lögmanns A, fyrrverandi forstjóra [...], dags. 23. desember 2009, til embættis sérstaks sak­sóknara.  Þar segir m.a.:  „A hefur nú af þessu tilefni tekið saman viðamikla greinar­gerð ásamt fylgiskjölum sem eru alls 155 að tölu.  Fylgja þau hjálagt erindi þessu.  Í greinargerðinni fer A ítarlega yfir starfstíma sinn hjá [...] á árunum 2005-2009, samskipti sín við eigendur og hluthafa félagsins, starfsmenn og millistjórnendur sem og þau stjórnvöld sem á umræddum tíma sinntu lögboðnu eftirliti með [...]starfsemi og fjármálamarkaðnum.“

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað, bæði um afhendingu gagna og greiðslu málskostnaðar.

Í greinargerð varnaraðila segir að hann standi fyrir umfangsmikilli rannsókn á ætluðum brotum sem varði m.a. lánveitingar [...] og dótturfélaga til [...] og tengdra félaga á árunum 2005-2008, aðkomu [...] að fjárfestingaverkefnum [...] og [...] og eignatilfærslur í [...]sjóðum [...].  Varnaraðili tekur fram að framangreind greinargerð ásamt fylgi­gögnum teljist ekki til skjala málsins samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 og sé honum hvorki skylt né heimilt að veita sóknaraðila afrit af þessum gögnum.  Um sé að ræða greinargerð einstaklings með réttarstöðu sakbornings sem hafi verið komið á framfæri við lögreglu að eigin frumkvæði og feli í sér úttekt viðkomandi til skýringar á störfum hans hjá [...].  Almennt sé ekki gert ráð fyrir að sakborningur leggi fram slíkt gögn nema þá eftir að ákæra hafi verið gefin út, sbr. 165. gr. sakamálalaga, þótt á hinn bóginn sé ekkert sem útiloki að slíkum gögnum sé komið á framfæri við lögreglu.  Í framkvæmd hafi verið stuðst við að afhendingarskylda 1. mgr. 37. gr. sml. taki aðeins til skjala og annarra gagna sem varði þann sem rannsókn beinist að.  Varnaraðili telur að brýnt sé að ætluðu sakarefni sé markaður eins skýr farvegur og kostur sé og það sé ótvírætt hlutverk lögreglu að skilgreina sakarefni lögreglurann­sókna, marka rannsókn sakamáls farveg og leggja mat á það hvaða gögn geti talist rannsóknargögn.

III.

Í 37. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 er að finna meginreglur er varða grundvallarréttindi sakaðra manns við rannsókn mála sem þá varða og ber að skýra undantekningar frá þeim þröngt.

Embætti sérstaks saksóknara hefur markað rannsókn máls nr. 009-2009-00017 farveg og beinist hún m.a. að ætluðu saknæmu atferli sóknaraðila og A. Um samþættingu þessa skal þess getið að sóknaraðili gegndi stöðu formanns stjórnar [...] og [...] og að verjandi hans hefur fengið endurrit skýrslna sem hafa verið teknar hjá varnaraðila af A sem gegndi stöðu forstjóra [...].

Varnaraðili hefur ekki endursent heldur haft í vörslu sinni í þrjá mánuði þau einstöku, afmörkuðu gögn, greinargerð A ásamt fylgiskjölum, sem um ræðir í málinu, og ekkert aðhafst til að sýna fram á að efni skýrslunnar varði ekki það sakarefni sem beint er að sóknaraðila.

Samkvæmt framansögðu er fallist á að varnaraðila sé skylt að afhenda verjanda sóknaraðila afrit af skýrslu A ásamt fylgigögnum,  „Greinargerð vegna rannsóknar á starfsemi [...]“, sem var send varnaraðila 23. desember 2009 í tengslum við rannsókn varnaraðila á máli nr. 009-2009-00017. Málskostnaður verður ekki dæmdur.

Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Varnaraðila, embætti sérstaks saksóknara, er skylt að afhenda verjanda sóknar­aðila, X, skýrslu A, „Greinargerð vegna rannsóknar á starfsemi [...]“, sem var send varnaraðila 23. desember 2009.  Málskostnaðarkröfu sóknaraðila er hafnað.