Hæstiréttur íslands
Mál nr. 243/2008
Lykilorð
- Skuldamál
- Fyrning
- Tryggingarbréf
|
Fimmtudaginn 18. desember 2008. |
|
|
Nr. 243/2008. |
Sigfús Leví Jónsson og Sláturfélagið Ferskar afurðir ehf. (Steingrímur Þormóðsson hrl. ) gegn Sparisjóðnum í Keflavík (Sveinn Sveinsson hrl.) |
Skuldamál. Fyrning. Tryggingabréf.
K krafðist greiðslu peningaláns sem F hafði fengið að láni með yfirdrætti á tékkareikningi á grundvelli samnings sem aðilar gerðu í september 1988. Fyrir Hæstarétti héldu F og S því fram að ekki hefðu verið skilyrði til endurskráningar F í hlutafélagaskrá en félagið var afskráð úr hlutafélagaskrá í mars 2007. Samkvæmt vottorði fyrirtækjaskrár 8. desember 2008, um skráningu félagsins, uppfyllti það skilyrði til að geta átt aðild að dómsmáli samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga 138/1994. Talið var að F og S hefðu ekki fært haldbær rök fyrir því að endurskráning félagsins hefði verið óheimil. K byggði kröfu sína á reikningsyfirlitum þar sem skráðar voru færslur um inn- og útborganir af umræddum reikningi árin 1999 og 2000. S og F byggðu sýknukröfu sína meðal annars á því að krafa K væri fyrnd. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 14/1905 fyrnast slíkar kröfur á 10 árum og var því ekki fallist á þessa málsástæðu S og F. Þá byggðu S og F á því að K hefði ekki sent þeim mánaðarlegt reikningsyfirlit varðandi tékkareikninginn. Í málinu lá fyrir að K hefði sent reikningsyfirlit á starfsstöð F og óumdeilt var að F hefði ekki tilkynnt K um nýtt heimilisfang sem senda ætti reikningsyfirlit til eftir að hlutafélagið hætti starfsemi. Samkvæmt þessu var það talið á áhættu F og S að þeim hefðu ekki borist reikningsyfirlitin. Þá mótmæltu F og S að K gæti byggt málssókn sína á reikningsyfirlitum í stað þess að leggja fram frumgögn. Í ljósi þess að F og S höfðu ekki með afdráttarlausum hætti byggt vörn sína á þeirri málsástæðu að tilteknar færslur væru rangar var málið ekki talið þannig vaxið að sérstakt tilefni hefði verið fyrir K að leggja fram slík gögn. F og S bentu á að í mars 2001 hefði tiltekin fjárhæð verið lög inn á reikning þeirra hjá K og sama dag hefði K tekið fjárhæðina út af reikningi félagsins án útskýringa. Varakrafa F og S byggðist á því að krafa K yrði lækkuð sem fjárhæðinni næmi. Þar sem K lagði ekki fram gögn sem sýndu hvernig þessum fjármunum hefði verið varið þrátt fyrir áskorun F og S var fallist á varakröfu þeirra. Samkvæmt þessu voru F og S dæmdir til greiðslu skuldarinnar að frádreginni umræddri fjárhæð sem K tók út af reikningi F í mars 2001.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 30. apríl 2008. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnda, en til vara að fjárkrafa hans verði lækkuð um 2.342.530 krónur. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Kröfu stefnda á hendur áfrýjanda, Sláturfélaginu Ferskum afurðum ehf., var vísað frá Hæstarétti með dómi 13. september 2007 í máli nr. 38/2007 þar sem félagið var ekki talið hafa aðildarhæfi samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, en félagið hafði 7. mars 2007 verið afskráð úr hlutafélagaskrá á grundvelli 83. gr. sömu laga. Samkvæmt gögnum málsins mun félagið hafa verið skráð á nýjan leik í hlutafélagaskrá. Áfrýjendur halda því fram að ekki hafi verið skilyrði til endurskráningar þess samkvæmt 3. mgr. 83. gr. sömu laga.
Samkvæmt vottorði úr fyrirtækjaskrá 8. desember 2008 er félagið nú skráð í hlutafélagaskrá og uppfyllir það því skilyrði til að geta átt aðild að dómsmáli, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1994. Áfrýjendur hafa ekki fært haldbær rök fyrir þeirri staðhæfingu sinni að óheimilt hafi verið að endurskrá Sláturfélagið Ferskar afurðir ehf. í hlutafélagaskrá á grundvelli 3. mgr. 83. gr. laga nr. 138/1994.
Stefndi hefur upplýst að Sparisjóður Húnaþings og Stranda og Sparisjóðurinn í Keflavík hafi ásamt fleiri sparisjóðum runnið saman og séu þeir nú reiknir saman undir heitinu Sparisjóðurinn í Keflavík, sem taki við aðild málsins.
II
Krafa stefnda, sem tekin var til greina í hinum áfrýjaða dómi, er á því byggð að áfrýjandi, Sláturfélagið Ferskar afurðir ehf., hafi ekki staðið í skilum með greiðslu peningaláns sem það hafi fengið hjá stefnda með yfirdrætti á tékkareikningi á grundvelli samnings sem það gerði við stefnda 13. september 1988. Stefndi hefur upplýst að hlutafélagið hafi einnig haft rafrænan aðgang að þessum reikningi í heimabanka sínum. Þá hafa áfrýjendur upplýst að í ákveðnum tilvikum hafi prókúruhafi félagsins farið á starfsstöð stefnda með ákveðinn lista af kröfum á félagið sem stefndi hafi verið beðinn um að greiða út af reikningnum.
Stefndi byggir kröfu sína á reikningsyfirlitum þar sem skráðar eru færslur um inn- og útborganir af umræddum reikningi árin 1999 og 2000. Af hálfu stefnda er á það bent að 31. desember 2000 hafi skuldin á umræddum reikningi verið 9.368.240,31 krónur. Inn í þeirri fjárhæð séu allar innborganir og útborganir ásamt kostnaði sem til féll vegna reikningsins á árunum 1999 og 2000. Stefndi skýrir kröfu sína svo að þessi kostnaður hafi verið felldur niður. Þannig séu felldar niður 321.283,77 krónur vegna vaxta, þjónustugjalda og annars kostnaðar árið 1999 og 1.184.536,57 krónur vegna sambærilegra kostnaðarliða árið 2000. Samtals séu því felldar niður 1.505.820 krónur og nemi stefnufjárhæðin því 7.862.420 krónum.
Áfrýjendur byggja sýknukröfu sína meðal annars á því að krafa stefnda sé fyrnd. Krafa stefnda á hendur áfrýjanda, Sláturfélaginu Ferskum afurðum ehf., er vegna peningaláns en slíkar kröfur fyrnast á 10 árum samkvæmt 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Verður því ekki fallist á þessa málsástæðu áfrýjenda.
Áfrýjendur bera einnig fyrir sig að stefndi hafi ekki sent þeim mánaðarleg reikningsyfirlit varðandi tékkareikninginn. Fyrir liggur að stefndi sendi reikningsyfirlit á starfsstöð Sláturfélagsins Ferskra afurða ehf. Óumdeilt er að áfrýjendur tilkynntu stefnda ekki um nýtt heimilisfang sem senda bæri reikningsyfirlit til eftir að hlutafélagið hætti starfsemi sinni. Það var því á áhættu áfrýjenda að þeim bárust ekki reikningsyfirlit.
Áfrýjendur mótmæla því að stefndi geti byggt málsókn sína á reikningsyfirlitum í stað þess að leggja fram þau frumgögn sem færslur á þau eru byggðar á. Í ljósi þess að áfrýjendur hafa ekki með afdráttarlausum hætti byggt vörn sína á þeirri málsástæðu að tilteknar færslur í framlögðum reikningsyfirlitum séu rangar er málið ekki þannig vaxið að sérstakt tilefni hafi verið fyrir stefnda til að leggja fram slík gögn. Í greinargerð í héraði bentu áfrýjendur hins vegar á að 14. mars 2001 hefði verið greitt inn á reikning Sláturfélagsins Ferskra afurða ehf. 2.342.530 krónur. Sama dag hefði stefndi tekið fjárhæðina út af reikningi félagsins án þess að grein hefði verið gerð fyrir því hvernig henni hefði verið ráðstafað. Kröfðust áfrýjendur þess að krafa stefnda yrði lækkuð sem fjárhæðinni næmi. Fyrir Hæstarétti er varakrafa áfrýjenda byggð á þessum grunni. Stefndi hefur ekki lagt fram gögn sem sýna hvernig þessum fjármunum var varið. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti var af hans hálfu staðhæft að fjárhæðin hefði verið notuð til greiðslu á víxilskuld áfrýjandans Sláturfélagsins Ferskra afurða ehf. Þar sem stefndi hefur ekki fært fram gögn um ráðstöfun umræddrar fjárhæðar þrátt fyrir áskorun áfrýjenda verður fallist á varakröfu þeirra. Krafa stefnda um staðfestingu veðréttar fyrir hinni tildæmdu kröfu verður tekin til greina á þann hátt sem í dómsorði segir.
Samkvæmt úrslitum málsins verða áfrýjendur með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 dæmdir til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Sláturfélagið Ferskar afurðir ehf., greiði stefnda, Sparisjóðnum í Keflavík, 5.519.890 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. nóvember 2007 til greiðsludags.
Staðfestur er 1. veðréttur í fasteign áfrýjanda, Sigfúsar Leví Jónssonar, að Lindarbrekku, Laugarbakka, Ytri Torfustaðahreppi, nú Smáragrund 6, Laugarbakka, Húnaþingi vestra, samkvæmt tryggingabréfi útgefnu 30. september 1996, fyrir framangreindri fjárhæð auk tildæmdra dráttarvaxta.
Áfrýjendur greiði stefnda óskipt samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. apríl 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 1. apríl 2008, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sparisjóði Húnaþings & Stranda, kt. 610269-6729, Hvammstangabraut 5, Hvammstanga, á hendur Sigfúsi Leví Jónssyni, kt. 031138-2059, Jörfabakka 24, Reykjavík, og Sláturfélaginu Ferskar afurðir ehf., kt. 670988-1479, Brekkugötu 4, Hvammstanga, með stefnu er birt var 16. nóvember 2007.
Dómkröfur stefnanda eru:
- að stefndi Sláturfélagið Ferskar afurðir ehf. greiði stefnanda skuld að fjárhæð 7.862.420 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 22. nóvember 2007 til greiðsludags.
- að veitt verði viðurkenning fyrir 1. veðrétti í fasteign stefnda Sigfúsar, að Lindarbrekku, Laugabakka, Ytri Torfustaðahreppi, nú Samáragrund 6, Laugarbakka, Húnaþingi vestra, fyrir höfuðstól að fjárhæð 6.000.000 kr. skv. tryggingabréfi útg. þann 30. september 1996, auk dráttarvaxta í samræmi við þá dráttarvexti sem krafa stefnanda á hendur Sláturfélaginu Ferskar afurðir ehf. ber.
- Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu samkvæmt mati dómsins vegna kröfugerðar í lið 1 og lið 2. Auk þess er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefndu eru að þau verði sýknuð af dómkröfum stefnanda og dæmdur málskostnaður að skaðlausu samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.
Stefnandi lýsir málsatvikum og málsástæðum sínum í einu lagi með eftirfarandi hætti:
Krafa stefnanda er byggð á reikningsyfirliti af tékkareikningi nr. 1005-26-001170, sem stefndi Sláturfélagið Ferskar afurðir ehf. stofnaði hjá stefnda þann 13. september 1988. Var reikningurinn í fullri notkun frá þeim tíma og var staðan á honum þann 31. desember 2000 kr. 9.368.240,31. Reikningnum var síðar lokað.
Sú fjárhæð er þannig til komin að hún samanstendur af innborgunum, útborgunum og öllum kostnaði sem féll til á reikningnum á árinu 1999 og árinu 2000. Eins og fram kemur á reikningsyfirlitinu á árinu 1999 fór reikningurinn í varanlegan mínus þann 19. maí það ár og var það til loka árs 2000 sem hér er miðað við og var áfram í mínus allt þar til reikningnum var lokað.
Þegar dregnir hafa verið frá allir kostnaðarliðir skv. yfirlitinu og þar átt við vexti, þjónustugjöld og annar kostnaður, annars vegar á árinu 1999 kr. 321.283,29 og hins vegar á árinu 2000 nemur staðan á reikningnum stefnufjárhæðinni kr. 7.862.420. Koma frádráttarliðir þessir fram sem yfirstrikaðir með gulu í reikningsyfirlitinu og þeir lagðir saman á reiknivélastrimlum þeim sem fylgja yfirlitunum.
Þannig samanstendur stefnufjárhæðin af öllum þeim lántökum sem stofnast hafa á reikningnum fyrir tilstilli stefnda, Sláturfélagsins Ferskra afurða ehf., með millifærslum, tékkum og úrborgunum, að frádregnum öllum innborgunum sem greiddar hafa verið inn á reikninginn á sama tíma. Stefnufjárhæðin er þannig án alls kostnaðar og vaxtafjárhæða en byggir eingöngu á inn- og útborgunum.
Stefnandi heldur því fram að sú niðurstaðafjárhæð sé lán sem stefnandi hefur veitt stefnda á árunum 1999 og 2000.
Stefnandi vísar til þess að allt frá árslokum 2000 og þar til reikningnum var lokað hafi safnast eingöngu kostnaðarfjárhæðir inn á reikninginn utan þess að þann 14. mars 2001 var lagt inn á reikninginn kr. 2.342.530 en sú fjárhæð fór samdægurs aftur út af reikningnum. Eru engar kröfur gerðar til þessara fjárhæða.
Skuld þess hefur ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og er því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.
Til tryggingar skilvísri greiðslu á ofangreindri skuld skv. tékkareikningnum gaf stefndi, Sigfús Jónsson, út tryggingarbréf þann 30. september 1996 að fjárhæð kr. 6.000.000. Samkvæmt hljóðan bréfsins skyldi það tryggja skilvísa og skaðlausa greiðslu á skuldum þeim sem Sigfús og/eða Ferskar afurðir ehf. kt. 670988-1479 nú eða síðar, á hvaða tíma sem er, kann að skulda eða ábyrgjast Sparisjóði Vestur Húnavatnssýslu, nú Sparisjóði Húnaþings og Stranda, hvort sem eru víxilskuldir mínar/okkar, yfirdráttur af tékkareikningi, skuldabréfalán, erlend endurlán eða hvers konar skuldir við Sparisjóðinn. Til tryggingar samkvæmt tryggingarbréfinu setur stefndi, Sigfús, að veði fasteign sína, Lindarbrekku, Laugabakka, Ytri Torfustaðahreppi, sem nú er Smáragrund 6, Húnaþingi Vestra, tryggða með 1. veðrétti fyrir kr. 6.000.000 auk dráttarvaxta og kostnaðar.
Kröfum vegna ofangreinds var stefnt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur og þingfest þar þann 18 apríl 2006. Fékk málið númerið E-2223/2006. Var í því máli gerð lokakröfugerð að fjárhæð kr. 9.368.240. Var þá reiknað með vöxtum og kostnaði í kröfufjárhæðinni. Héraðsdómur tók tillit til kröfunnar en Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í máli sínu nr. 38/2007 að því bæri að vísa frá hæstarétti þar sem félagið, Sláturfélagið Ferskar afurðir ehf. hafði verið afmáð úr hlutafélagaskránni en við það hafi félagið misst aðildarhæfi skv. lögum um einkahlutafélög en hins vegar að kröfunni á hendur stefnda Sigfúsi vísað frá héraðsdómi, þar sem ekki hafi verið gerð nægileg sundurgreining á höfuðstól og vöxtum í kröfugerðinni.
Að beiðni stefnanda hefur þess verið óskað að Sláturfélagið Ferskar afurðir ehf. verði aftur tekið inn á hlutafélagaskrána og hefur verið orðið við þeirri beiðni. Þá hefur hér í stefnukröfunni verið þannig að staðið að allir dráttarvextir og kostnaður hafa verið teknar úr en eingöngu byggt á höfuðstólsfjárhæðum sem mynda þau lán sem stefnandi veitti stefnda, Sláturfélaginu Ferskar afurðir ehf. á árunum 1999 og 2000.
Af hálfu stefndu er málavöxtum lýst á þann veg að reikningur nr. 1170 hjá stefnanda sé tékkareikningur. Prókúruhafi Ferskra afurða ehf. hafði tékkheftið. Í ákveðnum tilvikum hafi verið greitt af reikningnum þannig að prókúruhafinn kom með lista um kröfur á hendur félaginu sem stefnandi greiddi. Þá segir að stefndu hafi aldrei fengið yfirlit yfir reikninginn eða upplýsingar um stöðu hans.
Af hálfu stefndu er byggt á því að krafa á hendur þeim verði ekki reist á reikningsyfirliti stefnanda. Málið snúist um hlaupareikning, sem einnig hafi verið tékkareikningur skráður á hlutafélag. Sigfús Jónsson framkvæmdastjóri var eini prókúruhafi félagsins. Aðrir hafi ekki haft heimild til að skrifa undir þá tékka, sem félagið notaði til greiðslu og til að færa af reikningnum, eða til að heimila stefnanda að gera það.
Þá er byggt á því að stefnandi hafi ekki lagt fram þau frumgögn sem liggja til grundvallar greiðslum út af reikningnum. Ekki væri því unnt að ganga úr skugga um um hvaða greiðslur væri að ræða og hvort sá, sem stjórnaði færslum, hafði heimild til skuldbinda stefndu. Vísað er til þess að framkvæmdastjóri Ferskra afurða ehf. fullyrði að félagið hafi örugglega ekki notað reikninginn eftir árið 1998. Hins vegar sé stefnandi að krefja stefndu um fjárhæð sem greidd var út af reikningnum síðar.
Byggt er á því að stefnanda sé skylt að halda þeim gögnum til haga sem hann leggur til grundvallar viðskiptayfirliti sínu. Stefnanda beri að sanna að krafa hans sé réttmæt. Hann hafi ekki gert það.
Vísað er til þess að stefnandi sé bókhaldsskyldur og beri að halda til haga öllum gögnum sem liggja til grundvallar færslum á reikningsyfirliti sín. Alltaf eigi að vera hægt að rekja færslur í viðskiptamannabókhaldi til frumgagna.
Haldið er fram að af yfirliti stefnanda á dskj. nr. 3, sem er yfirlit tékkareiknings nr. 1170 á tímabilinu 31.12.1998 til 30.11.2000, megi ráða að Steingrímur Þormóðsson hrl. hafi greitt 2.342.530 krónur inn á reikninginn 14.03.2001 og virtist sem þessi fjárhæð hefði horfið af reikningnum sama dag án þess að tilgreint væri hvert. Meðan ekki væri gerð grein fyrir hvernig fjárhæðinni var varið hljóti hún að koma til lækkunar á stefnukröfunni.
Þá segir að byggt sé á því að stefnandi geti ekki, án þess að leggja fram fullgild skjöl fyrir kröfum sínum, fengið viðurkenningu fyrir 1. veðrétti í Smáragrund 6, Laugabakka, á grundvelli tryggingabréfs sem þinglýst hefur verið á eignina.
Þá er byggt á því að kröfur stefnanda séu fyrndar.
Við munnlegan flutning málsins var fallið frá þeirri málsástæðu að sýkna beri stefnda þar sem Ferskar Afurðir ehf. hafi verið afskráð úr fyrirtækjaskrá 7. mars 2007 en endurskráð 8. október sama ár.
Ályktunarorð: Hinn 13. september 1988 sótti stefndi, Sigfús Leví Jónsson, um stofnun tékkareiknings-hlaupareiknings f.h. Sláturfélagsins Ferskra afurða hf. hjá Sparisjóði Vestur-Húnavatnssýslu Hvammstanga sem nú er Sparisjóður Húnaþings & Stranda. Í umsókninni segir m.a. að umsækjandi skuldbindi sig til fara með tékkaeyðublöð, sem honum verði afhent til ávísunar á tékkareikningi hans, með ákveðnum öruggum hætti eins og þar er nánar tilgreint og einnig að hann samþykki bókunaraðferðir sparisjóðsins. Af hálfu sparisjóðsins var fallist á umsóknina og fékk sláturfélagið reikning nr. 1170 hjá sparisjóðnum.
Í reikningsyfirliti sparisjóðsins á tékkareikningi stefnda var staðan yfirdráttarskuld sláturfélagsins, að fjárhæð 9.368.240,31 kr., við sparisjóðinn hinn 29. desember 2000. En eins og lýst hefur verið af hálfu stefnanda dregur hann frá alla kostnaðarliði skv. yfirlitinu, þ.e. vexti, þjónustugjöld og annan kostnað, og verður fjárhæðin þá 7.862.420 kr., þ.e. stefnufjárhæðin.
Stefndu byggja á því að frumgögn skorti í málinu til grundvallar greiðslum út af reikningnum. Stefnandi hafi þannig ekki sannað að krafa hans sé réttmæt. Ekki verður á það fallist. Stefndu vísa ekki á nein gögn úr sínu bókhaldi sem andstæð eru reikningsyfirliti sparisjóðsins á umræddum tékkareikningi. Raunar liggur ekkert fyrir í málinu sem bendir til þess að bókunaraðferð sparisjóðsins hafi ekki verið með réttum og lögmætum hætti.
Þá verður ekki fallist á að krafa stefnanda sé fyrnd. Viðskipti aðila fólust í því að stefndi lagði fé inn á reikning sinn hjá stefnanda og stefnandi lánaði stefnda fé með skuldfærslu á reikninginn, ef því var að skipta, í óslitnum viðskiptum aðila svo árum skipti. Umdeild skuld stefnda við stefnanda verður því að teljast peningalán er fyrnist á 10 árum, sbr. 4. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905.
Samkvæmt framangreindu verður að telja að stefnda, sláturfélagið, skuldi stefnanda umkrafða fjárhæð. Og við svo búið verður að viðurkenna veðrétt stefnanda í fasteign stefnda, Sigfúsar Leví Jónssonar, svo sem stefnandi krefst.
Samkvæmt þessum málsúrslitum verða stefndu gert að greiða stefnanda óskipt 200.000 krónur í málskostnað.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefnda, Sláturfélagið Ferskar afurðir ehf., greiði stefnanda, Sparisjóði Húnaþings og Stranda, 7.862.420 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 22. nóvember 2007 til greiðsludags.
Staðfestur er veðréttur stefnanda í fasteign stefnda, Sigfúsar Leví Jónssonar, að Smáragrund 6, Laugabakka, Húnaþingi vestra, fyrir 6.000.000 króna af framangreindri fjárhæð auk dráttarvaxta.
Stefndu greiði stefnanda óskipt 200.000 krónur í málskostnað.