Hæstiréttur íslands

Mál nr. 41/2000


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. apríl 2000.

Nr. 41/2000.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Margréti Þorbjörgu Johnson

(Othar Örn Petersen hrl.)

 

Líkamsárás. Skilorð.

M var ákærð fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa slegið E nokkrum sinnum í andlitið og rifið í hár K og slegið hana í andlitið. Með vísan til 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, þótti ekki verða hróflað við þeirri niðurstöðu héraðsdómara, að M hefði framið þá háttsemi, sem lýst var í ákærunni, en niðurstaðan var reist á mati á munnlegum framburði M og vitna. Var héraðsdómur staðfestur um sakfellingu M og ákvörðun refsingar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu að fengnu áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar 14. janúar 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærðu, en henni ákveðin refsing.

Ákærða krefst sýknu og málsvarnarlauna í héraði og fyrir Hæstarétti verði sakarkostnaður felldur á ríkissjóð.

Í málinu er ákærðu gefin að sök líkamsárás aðfaranótt 20. september 1998 á tvær nafngreindar konur, sem kærðu árásina til lögreglu 21. og 22. sama mánaðar. Síðdegis þann dag, er atburðurinn varð, leituðu kærendurnir til slysadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur. Meðal málskjala eru læknisvottorð, þar sem lýst er áverkum, sem konurnar báru þá. Getur sú lýsing á áverkum samrýmst framburði kærendanna og eins annars vitnis hjá lögreglu og fyrir dómi um hvernig ákærða hafi slegið til þeirra og hárreitt aðra þeirra þannig að stór blettur á höfði hennar var hárlaus eftir.

Mikið ber á milli frásagnar vitna og ákærðu um aðdraganda atburðanna umrædda nótt. Rannsókn lögreglu á málinu var um margt áfátt. Ákærða hefur hins vegar viðurkennt að hafa lent í átökum við kærendurna. Telja verður sannað að hún hafi veitt þeim þá áverka, sem lýst er í fyrrnefndum læknisvottorðum. Hefur héraðsdómari lagt mat á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærðu og vitna og verður ekki hróflað við þeirri niðurstöðu fyrir Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, eins og þeim var breytt með 19. gr. laga nr. 37/1994. Eru ekki efni til að beita þeim úrræðum, sem um ræðir í 5. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærðu, svo og að ákvörðun refsingar skuli frestað skilorðsbundið.

Samkvæmt þessum úrslitum verður ákærða dæmd til að greiða sakarkostnað í héraði og kostnað af áfrýjun málsins. Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð yfirlýsing verjenda hennar í héraði og fyrir Hæstarétti, þar sem þeir afsala sér málsvarnarlaunum verði sakarkostnaður felldur á ákærðu. Verða málsvarnarlaun samkvæmt því ekki dæmd.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en sakarkostnað.

Ákærða, Margrét Þorbjörg Johnson, greiði allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                                           

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 1999.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 17. ágúst 1999 á hendur: “Margréti Þorbjörgu Johnson, kt. 110253-5409, Drápuhlíð 7, Reykjavík, fyrir líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 20. september 1998, á Ingólfstorgi í Reykjavík, slegið Evu Bergmann Guðlaugsdóttur, kt. 200872-5689, nokkrum sinnum í andlitið og rifið í hár Kolbrúnar Gísladóttur, kt. 270951-4659, og slegið hana í andlitið með þeim afleiðingum að Eva hlaut mar og tvö lítil fleiður á miðju enni, bólgu og eymsli við þreifingu hægra megin á nefi og út á kinn, eymsli á hálsi yfir VII. hálslið, tvö til þrjú fleiður á hvorri hönd og svo marbletti við vinstra hné, og Kolbrún hlaut sár á nef og hár losnaði af 2 x 3 cm stórum bletti á hvirfli hennar.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981 og 100. gr. laga nr. 82, 1998.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar.”

 

Verjandi ákærðu krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði felld niður og til þrautavara að ákærðu verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa.  Í öllum tilvikum er þess krafist að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun,  verði greiddur úr ríkissjóði.

Samkvæmt lögregluskýrslu dags. 20. september 1998 kl. 03:33 voru lögreglumenn sendir að Hlöllabátum við Ingólfstorg, þar sem konur voru sagðar eiga í slagsmálum.  Í skýrslunni segir að er lögreglan kom á staðinn hafi þeir séð ákærðu slást við Evu og Kolbrúnu.  Mikið af fólki hafði safnast í kring og mikill æsingur verið.  Samkvæmt frásögn Evu og Kolbrúnar var atburðarásin þannig, að þær voru staddar í biðröð við Hlöllabáta en Eva hafi brugðið sér úr röðinni. Þegar hún kom til baka og ætlaði að smeygja sér inn í röðina aftur til að aðstoða Kolbrúnu með pöntun þá hafi aðrir í röðinni orðið æstir og tekið að skamma Evu.  Ákærða, sem var aftar í röðinni, réðst á Evu.  Þegar Kolbrún reyndi að róa ákærðu og ganga á milli réðst ákærða á hana einnig.  Þær Eva og Margrét reyndu þá að forða sér, en ákærða elti.  Í skýrslunni segir að Eva hafi haft minniháttar áverka á andliti, sennilega eftir klór.  Ekki voru sýnilegir áverkar á Kolbrúnu.  Ákærða var með sprungna vör og klóruð á höndum og kvað Evu hafa hrint sér eða Evu verið hrint á sig.  Við svo búið lauk afskiptum lögreglu á vettvangi.

Mánudaginn 21. september 1998 kærði Eva Bergmann Guðlaugsdóttir ákærðu fyrir líkamsárás og Kolbrún Gísladóttir gerði það daginn eftir.  Ekki var haft samband við ákærðu fyrr en 1. júní sl. og neitaði hún sök.

Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi.

Ákærða neitar sök.  Hún lýsir atburðum svo að hún hafi verið á heimleið þessa nótt, en komið við í Hlöllabátum og staðið þar í biðröð og 8-10 manns fyrir framan hana í röðinni.  Hún varð strax vör við ólæti framar í röðinni og að fólk væri að reyna að ýta konu frá, en sú vildi ekki færa sig, en ákærða kvaðst ekkert hafa skipt sér af þessu.  Er röðin var komin að ákærðu stóð þessi kona fyrir lúgunni og bað ákærða hana um að færa sig.  Konan sneri sér þá við og tók að ausa fúkyrðum og skömmum yfir ákærðu.  Endaði þetta með því að ákærða kvaðst hafa sagt konunni að koma sér heim og leggja sig.  Við þessi ummæli trylltist konan og réðst á ákærðu og reif í hár henni með báðum höndum og keyrði niður meðan ákærða reyndi að losa sig.  Hún kvaðst hafa orðið vör við fólk sem reyndi að losa konuna og tókst það.  Þær voru þá komnar út úr mestu þvögunni og rifust og ýttu hvor í aðra, en konan hafi þá skyndilega ráðist á ákærðu aftur og tekið hana taki, klipið, klórað og rifið í hár ákærðu og fleira.  Ákærða reyndi að losa sig og sló frá sér og vissi ekki hvar högg hennar lentu, en þá varð hún vör við það að einhver gekk á milli og sá hún að það var eldri kona, sem var í fylgd hinnar.  Mikill æsingur var í fólkinu og að lokum var hringt í lögregluna, sem kom skömmu síðar og þá lauk átökunum.  Ákærða kvað yngri konuna hafa verið Evu Bergmann Guðlaugsdóttur og hin var Kolbrún Gísladóttir, móðir Evu.  Ákærða lýsti því að lögreglan hefði rætt við sig afsíðis og hún þar greint frá því að Eva hefði átt upptökin.  Hún kvað par hafa komið þarna að og staðfest sína frásögn um atburðina.  Þá greindi ákærða frá því, að strax eftir þessa helgi hefði hringt í sig maður og kynnt sig sem rannsóknarlögreglumann og hann sagst hringja vegna atburða helgarinnar og spurt ákærðu að því hvort hún hygðist kæra, sem hún hafði ekki í hyggju.

Eva Bergmann Guðlaugsdóttir kvað atburði hafa verið þannig að móðir hennar var að versla í Hlöllabátum þessa nótt og var fremst í röðinni er Eva kom móður sinni til aðstoðar og ætlaði að taka við því sem hún keypti, en hún var að kaupa fyrir þrjár manneskjur.  Ákærða hafi greinilega talið að hún ætlaði að troðast fram fyrir í röðina og sams konar athugasemd kom frá pari, sem var í röðinni næst á eftir móður hennar.  Eva sagði ákærðu þá að hún væri þarna einungis til að aðstoða móður sína, en þá tók ákærða að hrinda henni til hliðar og réðst síðan á hana og sló ákærða hana eins og lýst er í ákærunni og með afleiðingum sem þar er lýst.  Móðir hennar kom til aðstoðar, en þá réðst ákærða heiftarlega á hana og sló og reif í hár henni svo hárflygsa losnaði.  Eygló móðursystir kom þá til aðstoðar, en ákærða veittist einnig að henni og brotnuðu gleraugu Eyglóar við þetta.

Kolbrún Gísladóttir kvaðst hafa verið stödd í röðinni við Hlöllabáta þessa nótt, er Eva, dóttir hennar, kom og bauð henni aðstoð. Ákærða greip þá í Evu og síðar í hana.  Ákærða hélt að Eva ætlaði að fara fram fyrir í röðinni, sem ekki var raunin.  Ekki var annar aðdragandi að því sem gerðist.  Kolbrún vissi ekki fyrr til en ákærða togaði skyndilega  rosalega í hárið á henni aftan frá svo stór flygsa losnaði.  Ákærða sló hana einnig í andlitið.  Er hún sneri sér við sá hún ákærðu ráðast á dóttur sína og kýla hana.  Hélt þetta áfram eftir að þær voru komnar úr röðinni.  Kolbrún kvað systur sína hafa komið til aðstoðar, en ákærða hefði hrint henni svo gleraugu hennar brotnuðu.  Eftir þetta kom lögreglan, en átökin voru þá hætt.

Eygló Gísladóttir lýsti atburðum þannig að er Kolbrún, systir hennar, var í biðröðinni hjá Hlöllabátum þessa nótt hefði Eva, dóttir Kolbrúnar, spurt móður sína hvort hana vantaði aðstoð.  Ákærða hafi greinilega talið að Eva ætlaði að ryðjast fram fyrir í röðinni og byrjað að lemja Evu í höfuðið og þannig hófust átökin.  Ákærða kýldi Evu í höfuð og efri hluta líkamans og þá tók hún í hár Kolbrúnar svo ákærða stóð eftir með hendur fullar af hári.  Ákærða sló Kolbrúnu einnig.  Eygló kvaðst hafa ætlað að ganga á milli en við það skemmdust gleraugu hennar.

Gísli Jökull Gíslason var einn lögreglumannanna sem kom á vettvang. Hann staðfesti frumskýrslu lögreglunnar sem vísað var til í upphafi.  Hann kvað engin átök hafa verið er lögreglan kom á vettvang, en mikill æsingur í fólkinu.  Hann taldi  starfsmann Hlöllabáta hafa hringt í lögreglu og bent á mæðgurnar sem haft var tal af og bentu þær á ákærðu og kváðu hana hafa átt upptökin.  Enginn gaf sig fram á vettvangi sem vitni.

Karl Jóhann Sigurðsson lögreglumaður kom fyrir dóminn, en hann var einn lögreglumannanna sem fór á vettvang.  Hann mundi ekkert eftir málinu.

Inger Soffía Ásgeirsdóttir, dóttir ákærðu, kom fyrir dóminn og staðfesti að hafa svarað í síma er hringt var í ákærðu frá lögreglunni, eins og ákærða lýsti og rakið var að framan.

 

Niðurstaða.

Sannað er með vitnisburði Evu Bergmann Guðlaugsdóttur, Kolbrúnar Gísladóttur og Eyglóar Gísladóttur, en gegn neitun ákærðu, að hún hafi framið þá háttsemi sem lýst er í ákærunni og með sama vitnisburði og læknisvottorðum Evu Bergmann og Kolbrúnar Gísladóttur er sannað að þær hlutu þá áverka sem lýst er í ákærunni. Ákærða hefur með þessu gerst brotleg við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga eins og í ákæru greinir.

Kærur á hendur ákærðu komu fram 21. og 22. september 1998.  Ákærða fékk fyrst að vita um kæruefnið í byrjun júní sl. eða rúmum 8 mánuðum eftir að kærurnar komu fram.  Þessi dráttur er ámælisverður, en rétt var af lögreglu að láta ákærðu vita að kæran væri komin fram, þótt ekki hafi unnist tími til að sinna kærunni fyrr en raun varð.

Ákærða hefur ekki áður gerst brotleg við almenn hegningarlög. Eftir atvikum þykir rétt að fresta ákvörðun refsingar ákærðu skilorðsbundið í 1 ár frá uppsögu dómsins að telja og skal refsingin falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærða greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 150.000 krónur í málsvarnarlaun til Hjördísar Halldórsdóttur héraðsdómslögmanns.

Elín Vigdís Hallvarðsdóttir deildarlögfræðingur flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Frestað er ákvörðun refsingar ákærðu, Margrétar Þorbjargar Johnson, skilorðsbundið í 1 ár frá uppsögu dómsins að telja og skal refsingin falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærða greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 150.000 krónur í málsvarnarlaun til Hjördísar Halldórsdóttur héraðsdómslögmanns.