Hæstiréttur íslands
Mál nr. 1/2001
Lykilorð
- Vinnuslys
- Sjómaður
- Skaðabætur
- Örorka
- Fyrirvari
- Fyrning
|
|
Miðvikudaginn 23. maí 2001. |
|
Nr. 1/2001. |
Halldór Magnússon (Þorsteinn Hjaltason hdl.) gegn Útgerðarfélagi Akureyringa hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Vinnuslys. Sjómenn. Skaðabætur. Örorka. Fyrirvari. Fyrning.
H, sem starfaði sem háseti á skipi í eigu Ú, klemmdi hönd sína er verið var að draga inn veiðarfæri skipsins. Krafði H Ú um skaðabætur vegna þess líkamstjóns sem hann varð fyrir og byggði meðal annars á því að bremsur á togspili skipsins hefðu ekki verið í lagi. Með hliðsjón af gögnum og framburði vitna var á það fallist og voru nægilegar líkur taldar hafa verið leiddar að því að þeim vanbúnaði mætti kenna um hvernig fór. Bar stefndi því bótaábyrgð á tjóni H vegna varanlegrar örorku hans og tapaðra lífeyrisréttinda. Vegna túlkunar á fyrirvara, sem H gerði við fyrra uppgjör bóta, var hins vegar ekki talið að hann ætti rétt til frekari bóta vegna varanlegs miska og tímabundinnar örorku.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. janúar 2001. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.043.000 krónur með 7% ársvöxtum frá 7. október 1991 til 11. sama mánaðar, 4% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóvember sama árs, 3,75% ársvöxtum frá þeim degi til 21. sama mánaðar, 3,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. desember sama árs, 3% ársvöxtum frá þeim degi til 1. febrúar 1992, 2,5% ársvöxtum frá þeim degi til 11. sama mánaðar, 2% ársvöxtum frá þeim degi til 21. mars sama árs, 1,25% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí sama árs, 1% ársvöxtum frá þeim degi til 11. ágúst 1993, 1,25% ársvöxtum frá þeim degi til 11. nóvember sama árs, 0,5% ársvöxtum frá þeim degi til 9. janúar 1995, allt samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá 9. janúar 1995 til greiðsludags. Auk þess krefst áfrýjandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.507.000 krónur samkvæmt framhaldssök í héraði með nánar tilgreindum vöxtum „eða að stefnda verði gert að greiða áfrýjanda til viðbótar við frumsök í héraði kr. 1.471.300“ með nánar tilgreindum vöxtum frá 7. október 1991 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt fyrir báðum dómstigum.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti. Réttargæslustefndi tekur undir sjónarmið stefnda í málinu.
I.
Kröfur áfrýjanda eru til komnar vegna slyss, sem hann varð fyrir 7. október 1991 um borð í fiskiskipinu Harðbaki EA-303, þar sem hann starfaði sem háseti. Var skipið þá að veiðum norðaustur af Langanesi í átta vindstigum og allmiklum sjó. Þegar verið var að draga inn veiðarfæri skipsins klemmdist hönd áfrýjanda milli svokallaðs grandaraleiðara og borðstokksins með þeim afleiðingum að hann missti allan þumalfingur vinstri handar og stóran hluta miðhandarbeins sama fingurs. Var skipinu haldið til Þórshafnar og voru áfrýjandi og annar maður, sem einnig slasaðist á hendi um leið og áfrýjandi, fluttir þaðan til aðhlynningar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Atvikum að slysinu og meiðslum áfrýjanda er nánar lýst í héraðsdómi.
Er Harðbakur kom til Akureyrar 10. október 1991 hlutaðist skipstjórinn til um að lögregla rannnsakaði atvikið og voru þann dag og næstu daga teknar skýrslur af nokkrum skipverja og Aðalsteini Jóhannssyni, vélaeftirlitsmanni hjá stefnda. Síðar í sama mánuði var jafnframt haldið sjópróf fyrir bæjarþingi Akureyrar, þar sem skýrslur voru teknar af sömu skipverjum á Harðbaki, sem áður höfðu gefið skýrslu fyrir lögreglu. Fulltrúi rannsóknarnefndar sjóslysa var viðstaddur sjóprófið.
Í málinu liggja fyrir tvö örorkumöt, sem gerð voru á áfrýjanda 1992. Hið fyrra gerði Júlíus Valsson læknir 6. júní á því ári, þar sem áfrýjanda var metin 100% tímabundin örorka í sex mánuði frá slysinu, en eftir það 25% varanleg læknisfræðileg örorka. Hið síðara gerði Atli Þór Ólason bæklunarskurðlæknir 16. júlí 1992. Var niðurstaða hans sú að tímabundin örorka áfrýjanda væri 100% í sex mánuði frá slysdegi, síðan 50% í þrjá mánuði, en eftir það taldi hann varanlega læknisfræðilega örorku áfrýjanda vera 25%. Í forsendum fyrir niðurstöðu hans segir meðal annars að rétt sé að nota hefðbundna örorkumatstöflu og að varanleg örorka fyrir missi þumalfingurs og miðhandarbeins sé sú, sem áður greinir. Réttargæslustefndi greiddi áfrýjanda bætur 16. nóvember 1992, en stefndi hafði keypt hjá honum ábyrgðartryggingu. Er óumdeilt að bótauppgjörið hafi farið fram á grundvelli síðastnefnda örorkumatsins og er á yfirlitsblaði réttargæslustefnda áðurnefndan dag vísað til útreikninga Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings um örorkutjón áfrýjanda, en þeir útreikningar liggja ekki fyrir í málinu. Sundurliðun bótafjárhæðar á yfirlitsblaðinu ber með sér að áfrýjanda hefur verið greitt fyrir tímabundna og varanlega örorku, töpuð lífeyrisréttindi, miska og vexti auk útlagðs kostnaðar og innheimtulauna, samtals 4.424.917 krónur. Hafði þá verið dregið frá varanlegu örorkutjóni og lífeyrisréttindum 25% vegna skattfrelsis bótanna. Á kvittun fyrir móttöku fjárins ritaði þáverandi lögmaður áfrýjanda: „M. fyrirvara um óbreytt örorkustig“. Á sömu kvittun er einnig ritað að réttargæslustefndi greiddi bæturnar án þess að viðurkenna bótaskyldu.
Þegar áðurnefnd örorkumöt voru gerð var ljóst að frekari læknisaðgerðir kynnu að verða gerðar á áfrýjanda til að bæta ástand handar hans. Til álita kom að græða tá af fæti hans eða vísifingur vinstri handar á stúf miðhandarbeins þumalfingurs og fá þannig nokkurt grip í hendina. Var gerð aðgerð á áfrýjanda á Borgarspítalanum í Reykjavík 25. mars 1994 og vinstri vísifingur tekinn af og græddur á þar sem þumalfingur hafði verið. Um líkt leyti mat Júlíus Valsson örorku áfrýjanda á ný og komst nú að þeirri niðurstöðu að varanleg læknisfræðileg örorka væri 30%, en í mati hans er ekki getið um áðurnefnda fingurágræðslu. Örorka hans var metin á ný 11. mars 1995 af læknunum Sigurjóni Sigurðssyni og Guðmundi Björnssyni, sem töldu varanlega læknisfræðilega örorku nema 30%. Við það mat voru meðal annars hafðar í huga afleiðingar fingurágræðslunnar, sem áður er getið. Höfðaði áfrýjandi síðan mál þetta 17. september 1998 og krafðist bóta fyrir 5% varanlega viðbótarörorku og samsvarandi tap lífeyrisréttinda á grundvelli tjónsútreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar 28. september 1995. Undir rekstri málsins var örorka áfrýjanda enn metin 29. október 1999 og í þetta sinn af dómkvöddum matsmönnum, þeim Þorvaldi Ingvarssyni og Júlíusi Gestssyni bæklunarlæknum. Var niðurstaða þeirra sú að tímabundin örorka áfrýjanda hafi verið 100% í 6 mánuði, 25% í 23,5 mánuði og aftur 100% í 10,5 mánuði, en frá 6. febrúar 1995 var varanleg læknisfræðileg örorka hans metin 30%. Var þá meðal annars litið til afleiðinga aðgerðarinnar á Borgarspítalanum í mars 1994. Höfðaði áfrýjandi síðan framhaldssök í málinu 19. apríl 2000 með kröfu um bætur fyrir aukna tímabundna örorku og miska. Var stuðst við útreikning Jóns Erlings Þorlákssonar 3. mars 2000 um bætur fyrir tímabundna örorku að fjárhæð 507.000 krónur, en fyrir miska var krafist 1.000.000 króna.
II.
Svo sem áður er getið varð áfrýjandi fyrir slysinu meðan verið var að draga inn veiðarfæri Harðbaks. Voru þau enn í sjó, en toghlerar komnir í gálga og hafði togvinda verið fest í bremsu miðað við mesta átak. Tóku tveir hásetar við hvorum hlera og lá fyrir þeim að losa grandaraleiðara úr þeim og tengja þá við keðju, svokallaðan dauðalegg, sem festur var á hvorn hlera. Verkið gekk erfiðlega hjá þeim, sem tóku á móti hleranum bakborðsmegin, þar eð dauðaleggurinn hafði losnað úr þar til gerðri festingu og hékk fastur milli hlerans og skipsins. Áfrýjandi kom þeim þá til aðstoðar og toguðu mennirnir í leiðarann til að freista þess að losa þannig dauðalegginn. Sá, sem stóð næstur borðstokknum, teygði hægri hönd sína út fyrir hann og niður með hleranum til að ná upp dauðaleggnum. Þegar alda reið undir skut skipsins féll hlerinn skyndilega niður við það að bremsa á togspilinu gaf eftir. Strekktist þá á leiðaranum, sem tengdur var í hlerann, og klemmdist vinstri hönd áfrýjanda og þess manns, sem næstur stóð hleranum, milli leiðarans og borðstokksins. Slösuðust báðir mikið við þetta. Atvikum að slysinu er nánar lýst í héraðsdómi.
Áfrýjandi reisir bótakröfu sína á því í fyrsta lagi að bremsur á togspili skipsins hafi ekki verið í lagi og að slysið megi rekja til þess. Í öðru lagi hafi verklag ekki verið rétt í umrætt sinn og megi einnig því um kenna hvernig fór. Þannig hafi aðeins einn maður verið í brú skipsins og stjórnað bæði togspili er veiðarfæri voru dregin inn og jafnframt stjórntækum skipsins. Slíkt sé í andstöðu við settar reglur og vísar áfrýjandi um það til greinar 1.2.9. í reglum nr. 413/1988 um vinnuöryggi á fiskiskipum stærri en 15 m að lengd. Þá hafi verið óforsvaranlegt að halda skipinu að veiðum við þau slæmu veðurskilyrði, sem þarna voru, en flest önnur skip á svæðinu hafi verið hætt veiðum vegna veðurs. Við mat á því verði jafnframt að líta til þess að togspilið hafi ekki verið í lagi, sem feli í sér að enn varhugaverðara hafi verið að halda áfram veiðum í jafn slæmu veðri og orðið var. Hafi togvindur auk þess verið gerðar með það fyrir augum að draga léttari veiðarfæri og minni hlera en notaðir voru á skipinu er slysið varð. Loks hafi ekki verið hafður slaki á grandaraleiðaranum eftir að hlerinn hafði verið hífður í gálga, en þannig hefði verið unnt að komast hjá slysinu, jafnvel þótt hlerinn félli niður við það að bremsan gæfi eftir.
Stefndi neitar bótaskyldu og telur að slysið hafi orðið fyrir óhapp eða gáleysi áfrýjanda, sem hann verði sjálfur að bera ábyrgð á. Hlutverk áfrýjanda hafi ekki verið að taka á móti hleranum og auk þess verið óvarlegt af honum að hafa hendur á leiðaranum, eins og á stóð, þar eð búast hafi mátt við að bremsa gæti gefið eftir og hlerinn fallið niður. Þá hafi bremsubúnaðar á togspili verið í góðu lagi og er um það einkum vísað til skýrslu Aðalsteins Jóhannssonar hjá lögreglu, sem áður er getið. Hafi bremsa gefið eftir vegna þess gífurlega átaks, sem myndaðist við það að alda reið undir skipið meðan veiðarfæri voru enn í sjó, en einnig vegna þess að bremsuborði blotnaði þegar sjór gekk yfir togspilið og ókleift hafi verið að koma í veg fyrir það. Stefndi mótmælir því að rekja megi slysið á nokkurn hátt til þess að sami maður stjórnaði bæði togspili og stjórntækjum skipsins, enda hafi hann ekki unnið við að stjórna spilinu þegar slysið varð. Loks er því mótmælt að veður hafi verið svo slæmt að óforsvaranlegt hafi verið að halda áfram veiðum, enda hafi mörg önnur skip verið að veiðum á svæðinu á sama tíma.
III.
Fram er komið að síðla árs 1992 var Harðbakur sendur til Póllands, þar sem verulegar endurbætur voru gerðar á skipinu. Kom það aftur til landsins í byrjun árs 1993 og höfðu þá meðal annars verið settar í það nýjar togvindur í stað þeirra, sem fyrir voru þegar áfrýjandi slasaðist.
Við aðalmeðferð málsins var tekin skýrsla af Stefáni Stefánssyni, sem var vélstjóri á Harðbaki í umræddri veiðiferð. Hafði hann ekki gefið skýrslu þegar slysið var áður rannsakað af lögreglu og fyrir dómi. Kvað hann togvindur skipsins og bremsur þeirra hafa verið orðnar slitnar þegar slysið varð. Aðspurður um það hvort þessi búnaður hafi verið í fullkomnu lagi svaraði hann á þann veg að þegar tækin séu orðin slitin verði ekki úr því bætt, jafnvel þótt þess sé gætt að halda þeim vel við. Vegna slits á togvindunni, sem um ræðir í málinu, hafi sá flötur á henni, sem bremsuborðinn lagðist að, ekki verið lengur hringlaga, heldur egglaga. Hafi þess vegna verið erfitt að stilla bremsuna og „sviðið sem við höfðum var orðið voðalega erfitt að finna það í stillingu og við vorum alltaf í hálfgerðu basli með að finna þetta rétta bil þannig að bremsan tæki ekki út í annars vegar þegar fríhjólaði en klemmdi hins vegar nógu vel þegar þurfti á því að halda. Þetta var ákveðið vandamál og við vorum undanfarna túra ef ég man rétt, búnir að vera ansi mikið úti á dekki og svona vera að stilla þetta og reyna að finna þetta fríbil og það gekk ágætlega og ég man þegar slysið varð þá höfðum við einmitt, ég man ekki hvort það var í þeim túr eða á undan, fundið mjög góða meðalstöðu sem virtist duga vel.“ Kvaðst vitnið hafa nefnt við verkstjóra á verkstæði stefnda að ekki væri viðunandi að vera með búnað, sem ekki væri í fullkomnu lagi. Sagðist hann jafnframt hafa bent á þá leið til úrbóta „að taka tromluna og setja hana í stóran rennibekk og rennan þennan flöt. Það náttúrulega var talin talsvert mikil aðgerð, en þá náttúrulega hefði þessi flötur hætt að vera egglaga og bremsurnar virkað betur og við getað haft meiri spennu á bremsu og þetta vandamál ekki verið til staðar ef það hefði verið gert, en það var ekki gert.“ Kvað hann sér alltaf hafa fundist skrýtið hvernig hlerarnir gátu sigið niður, eins og stundum gerðist, en það hafi ekki átt að geta gerst.
Magnús Traustason stýrimaður á Harðbaki gaf einnig skýrslu fyrir dómi. Aðspurður um ástand á togvindum og bremsum þeirra svaraði hann: „Það var orðið dapurt, enda stóð til að skipta þessu út, var farið að koma inn í umræðuna að skipta þessu út, ef ég man rétt og þetta varð eiginlega til þess að þessu var skipt út alveg endanlega held ég.“ Sagði hann jafnframt að yfirleitt hafi verið unnið að því í hverri landlegu skipsins að halda þessum búnaði gangandi. Við skýrslugjöf hjá lögreglu kom fram hjá vitninu að rétt áður en slysið varð hafi það lokið við að hífa bakborðshlerann í gálga. Hafi vitnið síðan „læst spilinu með því að setja það í bremsu en þær séu settar á með þrýstilofti. Síðan kúpli hann í sundur og allt sé með eðlilegum hætti. Spilið sé kyrrt í sinni stöðu eins og eðlilegt sé.“ Síðan hafi „góð alda“ komið undir skipið aftanvert og lyft því talsvert að aftan. Við það hafi bakborðshlerinn fallið niður um 4 til 6 fet eða um það bil hálfa lengd sína. Ástæða þess hafi verið sú að bremsur togspilsins hafi ekki haldið þegar skipið fór upp á ölduna.
Stjórnandi leiðaraspilsins og þeir skipverjar á Harðbaki, sem auk áfrýjanda unnu við að taka á móti toghlerum í umrætt sinn, gáfu skýrslu hjá lögreglu og við sjópróf. Skýrðu þrír þeirra svo frá að þeir hafi fyrir slysið aldrei heyrt rætt um að bremsa í togvindu gæti gefið eftir og að engin viðvörum hafi verið gefin út um það. Bar áfrýjandi á sama veg. Tveir þeirra töldu sig hins vegar hafa vitað að hlerar hafi áður sigið, en þó aldrei jafn mikið og gerðist í umrætt sinn. Einn þessarra manna sagði hlerann hafa fallið að minnsta kosti tvo metra og annar lýsti því svo að það hafi gerst eldsnöggt.
Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt bréf rannsóknarnefndar sjóslysa 21. nóvember 2000, þar sem svarað var beiðni áfrýjanda um nánari skýringar á því áliti nefndarinnar, sem getið er í héraðsdómi. Í niðurlagi bréfsins segir: „Bremsur á vindu sem halda ekki ef bleyta kemur á þær þá er vindan ekki í fullkomnu lagi.“
Samkvæmt öllu framanröktu er ljóst að togvindan, sem um ræðir, var orðin slitin. Vitni, sem þekktu gjörla til, hafa lýst ástandi hennar og hvernig það getur hafa haft áhrif á bremsubúnað vindunnar. Búnaðurinn gaf sig og hafa nægilegar líkur verið leiddar að því að vanbúnaði á tækinu megi um kenna hve illa fór. Vindan var ekki í lagi og á þeim vanbúnaði verður stefndi að bera ábyrgð gagnvart áfrýjanda. Reynir þá ekki á aðrar málsástæður, sem áfrýjandi reisir kröfur sínar á. Ekki er hald í þeirri málsástæðu stefnda að áfrýjandi hafi í umrætt sinn gengið til verks, sem hann hafi ekki átt að koma nærri. Hefur heldur ekki verið stutt gildum rökum að áfrýjandi hafi borið sig rangt að við verk sitt og átt þannig sjálfur þátt í rás atburða með þeim hætti að efni séu til að hann beri hluta tjóns síns sjálfur.
IV.
Að framan var getið bótauppgjörs 16. nóvember 1992 vegna slyssins milli áfrýjanda og réttargæslustefnda og fyrirvara um óbreytt örorkustig, sem hinn fyrrnefndi gerði við móttöku bótafjárins. Ber stefndi fyrir sig að hvað sem öðru líði sé tjón áfrýjanda endanlega uppgert með þessum samningi, sem hann sé bundinn af, og geti hann engar frekari kröfur gert. Breyti fyrirvari hans engu um það, enda sé aukning á varanlegri örorku áfrýjanda hvorki veruleg né hafi ófyrirsjáanlegar breytingar orðið á heilsu hans til hins verra frá því samið var um bætur á grundvelli mats um 25% varanlega örorku.
Fyrir liggur vottorð setts yfirlæknis á bæklunardeild FSA 15. september 1994 um heilsufar áfrýjanda. Af því verður ráðið að óþægindi hans og önnur einkenni handarmeinsins hafi heldur aukist miðað við lýsingu í örorkumötum tveimur árum áður. Þar er einnig fjallað um fingurágræðsluna í mars 1994. Kemur fram að ekki hafi náðst jafn gott grip milli fingranna og vonir höfðu staðið til, en jafnframt hafi aðgerðin leitt af sér aðra annmarka við notkun handarinnar og óþægindi. Um sömu atriði var fjallað þegar örorka var metin 1995 og 1999, þar sem niðurstaðan var í báðum tilvikum 30% varanleg örorka. Í niðurlagi síðarnefnda matsins segir: „Við mat á læknisfræðilegri örorku var tekið tillit til aukinna lýta á hendinni eftir fingurflutningsaðgerðina 24.03.94, mjókkun handarinnar eftir flutning miðhandarbeins vísifingurs á gamla miðhandarbein þumals, áframhaldandi blóðrásartruflana og mjög takmörkuðum ávinningi hvað varðar bætta gripgetu handarinnar eftir aðgerðina. Læknisfræðileg örorka er talin sambærileg við einfaldan missi þumals og vísifingurs vinstri handar um hnúaliði.“ Samkvæmt þessu er ljóst að afleiðingar slyssins hafa orðið enn alvarlegri en fram var komið 1992 og að hluta vegna læknisaðgerðar, sem ráðist var í, en skilaði ekki tilætluðum árangri.
Fyrirvari áfrýjanda lýtur einungis að óbreyttu örorkustigi, án þess að vikið sé á annan hátt að eðli breytinga á varanlegum afleiðingum slyssins. Eins og áður er rakið breyttist metið örorkustig til hækkunar frá því samið var um bætur 16. nóvember 1992. Umræddur fyrirvari af hálfu áfrýjanda tók samkvæmt orðanna hljóðan til þess. Verður hann ekki skilinn öðru vísi en svo að áfrýjandi áskildi sér rétt til að gera frekari bótakröfu vegna varanlegrar örorku ef aðstæður breyttust á þann veg, sem hér er lýst. Getur áfrýjandi samkvæmt því krafist bóta fyrir aukna varanlega örorku og missi lífeyrisréttinda, sem reiknast sem hlutfall af henni. Fyrirvarinn tekur hins vegar ekki til kröfu um bætur fyrir aukinn miska og hinu sama gegnir um bótakröfu fyrir frekari tímabundna örorku, sem einkum felst í því að lengja þann tíma, sem áður var lagður til grundvallar um rúmlega tvö og hálft ár. Koma samkvæmt því ekki til frekari álita þær kröfur, sem hafðar voru uppi í framhaldssök áfrýjanda í héraði.
Samkvæmt örorkutjónsútreikningi 29. september 1995 nemur óbætt tjón áfrýjanda fyrir 5% varanlega viðbótarörorku 1.672.100 krónum. Að teknu tilliti til skattfrelsis bótanna og hagræðis af eingreiðslu eru bætur til áfrýjanda fyrir þá örorku hæfilega ákveðnar með 1.260.000 krónum. Verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda eru í sama örorkutjónsútreikningi talið nema 100.300 krónum, sem stefnda verður gert að greiða áfrýjanda að fullu. Stefndi ber fyrir sig að vextir eldri en fjögurra ára frá birtingu stefnu séu fyrndir. Ekki liggur fyrir hvenær stefna var birt eða árituð af hálfu stefnda og verður lagt til grundvallar að eldri vextir en fjögurra ára miðað við þingfestingardag stefnu í héraði 17. september 1998 séu fyrndir.
Samkvæmt framansögðu verður krafa áfrýjanda tekin til greina með 1.360.300 krónum. Verður stefnda gert að greiða áfrýjanda þá fjárhæð með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Réttargæslustefndi synjaði frekari bótagreiðslum með bréfi 9. janúar 1995 eftir að áfrýjandi hafði framvísað örorkumati með niðurstöðu um 30% varanlegri örorku, en ekki liggur fyrir hvenær það var gert. Verða dráttarvextir dæmdir frá dagsetningu bréfs réttargæslustefnda.
Áfrýjanda var veitt gjafsókn í héraði og fyrir Hæstarétti. Verður gjafsóknarkostnaður hans greiddur úr ríkissjóði á báðum dómstigum, þar á meðal málflutningsþóknun lögmanns hans, sem ákveðin er í einu lagi eins og segir í dómsorði.
Stefndi verður dæmdur til að greiða í ríkissjóð málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og greinir í dómsorði.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Útgerðarfélag Akureyringa hf, greiði áfrýjanda, Halldóri Magnússyni, 1.360.300 krónur með 0,5% ársvöxtum frá 17. september 1994 til 9. janúar 1995, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, samtals 900.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 3. október 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 6. september s.l., hefur Halldór Magnússon, kt. 080471-3869, Gránufélagsgötu 16, Akureyri, höfðað hér fyrir dómi gegn Útgerðarfélagi Akureyringa, kt. 670269-4429, Akureyri og Vátryggingarfélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, til réttargæslu, með stefnu þingfestri þann 17. september 1998. Þann 19. apríl 2000 þingfesti stefnandi framhaldsstefnu í málinu.
Dómkröfur stefnanda í frumsök eru, að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda skaðabætur að upphæð kr. 2.043.000,-, auk 7 % vaxta frá slysdegi 7. október 1991 til 11. október 1991, 4 % frá þeim degi til 1. nóvember 1991, 3,75 % frá þeim degi til 21. nóvember 1991, 3,5 % frá þeim degi til 1. desember 1991, 3 % frá þeim degi til 1. febrúar 1992, 2,5 % frá þeim degi til 11. febrúar 1992, 2 % frá þeim degi til 21. mars 1992, 1,25 % frá þeim degi til 1. maí 1992, 1 % frá þeim degi til 11. ágúst 1993, 1,25 % frá þeim degi til 11. nóvember 1993, 0,5 % frá þeim degi til 9. janúar 1995, allt samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987 en með dráttarvöxtum samkvæmt 10. gr. vaxtalaga, sbr. 15. gr. vaxtalaga, frá 9. janúar 1995 til greiðsludags. Krefst stefnandi þess að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 7. október 1992, sbr. 12. gr. vaxtalaga.
Þá krefst stefnandi viðurkenningar á sjóveðrétti í Harðbaki EA-303, skipaskrárnúmer 1412, til tryggingar dómkröfum í frumsök.
Í framhaldssök gerir stefnandi aðallega þær kröfur, að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda kr. 1.507.000,-, auk dráttarvaxta af þeirri fjárhæð frá 19. apríl 2000 til greiðsludags samkvæmt 10. gr. vaxtalaga, sbr. 15. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987.
Til vara gerir stefnandi þær kröfur í framhaldssök, að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda kr. 1.471.300,- auk 7 % vaxta frá slysdegi 7. október 1991 til 11. október 1991, 4 % frá þeim degi til 1. nóvember 1991, 3,75 % frá þeim degi til 21. nóvember 1991, 3,5 % frá þeim degi til 1. desember 1991, 3 % frá þeim degi til 1. febrúar 1992, 2,5 % frá þeim degi til 11. febrúar 1992, 2 % frá þeim degi til 21. mars 1992, 1,25 % frá þeim degi til 1. maí 1992, 1 % frá þeim degi til 11. ágúst 1993, 1,25 % frá þeim degi til 11. nóvember 1993, 0,5 % frá þeim degi til 9. janúar 1995, 0,6 % frá þeim degi til 1. mars 1996, 0,9 % frá þeim degi til 1. maí 1996, 0,8 % frá þeim degi til 1. júní 1996, 0,7 % frá þeim degi til 1. nóvember 1996, 0,8 % frá þeim degi til 1. febrúar 1997, 0,9 % frá þeim degi til 1. júní 1997, 1 % frá þeim degi til 1. ágúst 1997, 0,9 % frá þeim degi til 1. september 1997, 0,8 % frá þeim degi til 1. janúar 1998, 0,9 % frá þeim degi til 1. mars 1998, 0,8 % frá þeim degi til 1. apríl 1998, 0,7 % frá þeim degi til 1. nóvember 1998, 0,6% frá þeim degi til 1. apríl 1999, 0,7 % frá þeim degi til 1. maí 1999, 0,8 % frá þeim degi til 1. júlí 1999, 0,9 % frá þeim degi til 1. október 1999, 1 % frá þeim degi til 1. nóvember 1999, 0,9 % frá þeim degi til 19. apríl 2000, allt samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987 en með dráttarvöxtum samkvæmt 10. gr. vaxtalaga, sbr. 15. gr. vaxtalaga, frá 19. apríl 2000 til greiðsludags. Krefst stefnandi þess, að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 7. október 1992, sbr. 12. gr. vaxtalaga.
Þá krefst stefnandi þess bæði í frumsök og framhaldssök, að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu, auk virðisaukaskatts. Stefnandi nýtur gjafsóknar í málinu og krefst hann þess sérstaklega, að málskostnaður verði honum dæmdur eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda í frumsök og framhaldssök eru aðallega, að stefnda verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og því dæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins, en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og stefnda dæmdur málskostnaður úr hans hendi.
Af hálfu réttargæslustefnda eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur og jafnframt eru engar dómkröfur gerðar á hendur því.
Stefnandi lýsir málsatvikum þannig, að hann hafi verið skipverji um borð í Harðbak EA-303, sem gerður hafi verið út af stefnda. Þann 7. október 1991, um kl. 9:20, hafi stefnandi orðið fyrir slysi um borð í nefndu skipi. Hafi vinstri hendi stefnanda lent á milli svokallaðs leiðara og lunningar. Harðbakur hafi þá verið að veiðum norðaustur af Langanesi í mjög vondu veðri og hafi verið að hífa inn trollið og munu hlerarnir hafa verið komnir í gálga. Stefnandi og Sigurður Hermannsson skipsfélagi hans hafi unnið við að lása leiðara í svokallaðan dauðalegg á öðrum hlera skipsins og hafi þeir verið búnir að því, en átt eftir að losa dauðalegginn úr hleranum þegar alda hafi lyft skipinu upp. Við það hafi bremsa togvindunnar gefið eftir, hlerinn fallið niður og af þeim sökum strekkst á leiðaranum, sem klemmt hafi vinstri hendur stefnanda og Sigurðar við lunninguna.
Við slysið hafi stefnandi slasast illa á vinstri hendi og hafi hendin verið sundurtætt og þumalfingur handarinnar hangið á skinntægju og einni taug. Stefnandi hafi fengið aðhlynningu til bráðabirgða um borð í skipinu, en skipið haldið til Þórshafnar og stefnandi verið sendur þaðan til Akureyrar til aðgerðar. Reynt hafi verið að tengja þumalinn á höndina, en það hafi ekki tekist og hafi komið drep í fingurinn, sem tekinn hafi verið af þann 15. nóvember 1991.
Á árinu 1992, þ.e. áður en ráðist hafi verið í aðgerðir til að bæta úr fötlun stefnanda, hafi örorka hans verið metin af tveimur læknum, Júlíusi Valssyni og Atla Þór Ólasyni. Niðurstaða beggja matanna hafi verið sú að varanleg örorka stefnanda væri 25 %.
Réttargæslustefndi, sem selt hafði stefnda ábyrgðartryggingu, hafi fallist á að greiða stefnanda bætur á grundvelli 25 % varanlegrar örorku. Lögmaður stefnanda hafi kvittað fyrir bótunum með fyrirvara vegna þess að ekki hafi verið ljóst, að um endanlega örorku væri að ræða.
Stefnda kveður málsatvik hins vegar vera þau, að mánudaginn 7. október 1991, hafi stefnandi klemmt vinstri hönd sína milli grandaleiðara og lunningar á togaranum Harðbak, þegar verið hafi að hífa inn trollið norðaustur af Langanesi um kl. 9:20. Veður hafi verið NNA 8, all mikill sjór og hafi vindur staðið á bakborðshlið togarans. Hafi stefnandi verið háseti á togaranum. Hann hafi verið tvítugur að aldri og vanur sjómennsku. Er slysið hafi átt sér stað hafi hlerar verið komnir í gálga, búið að læsa togvindunni í bremsu við mesta átak og kúpla út. Tveir hásetar, Sigurður Hermannsson og Trausti Traustason, er tekið hafi á móti hleranum bakborðsmegin, hafi farið til að lása dauðalegg úr hleranum í grandaleiðarann. Þeir hafi lásað leiðaranum í hlerann og hafi Sigurður síðan ætlað að lása dauðalegginn úr hleranum í grandaleiðarann. Hafi leggurinn þá reynst hafa hrokkið úr eyranu á hleranum og lafað niður með honum. Sigurður hafi teygt hægri handlegginn út fyrir lunninguna til að ná dauðaleggnum en hafi haldið með vinstri hendi um grandaleiðarann. Jafnframt hafi Trausti togað í leiðarann til að fá slaka. Stefnanda hafi fundist tvímenningunum ganga brösuglega og hafi hann komið ótilkvaddur til aðstoðar og gripið báðum höndum um leiðarann milli þeirra. Stór alda hafi þá riðið undir togarann aftanverðan og lyft honum upp. Veiðarfærin hafi enn verið úti og hafi við þetta komið svo mikið átak á bakborðshlerann, að bremsa togvindunnar hafi gefið eftir og hlerinn sigið niður um einn faðm eða svo. Við það hafi strekkst á grandaleiðaranum, sem við það hafi lagst ofan á lunninguna. Sigurður og stefnandi, sem haldið hafi um grandaleiðarann, hafi við það klemmst með vinstri hendurnar á milli leiðarans og lunningarinnar. Báðir hafi þeir hlotið slæm handarmeiðsli. Trausti hafi hins vegar sleppt tökum á leiðaranum og ekki meiðst.
Trollið hafi strax verið híft upp og haldið til Þórshafnar þar sem hinum slösuðu hafi verið komið undir læknishendur. Hinn 10. október hafi lögreglurannsókn hafist á slysinu hjá lögreglunni á Akureyri. Hafi lögreglumenn farið um borð í togarann, tekið ljósmyndir og gert frumskýrslu. Þá hafi sjö skipverjar gefið framburðarskýrslu, þ. á m. skipstjóri, stýrimaður og stefnandi, auk vélaeftirlitsmanns ÚA. Fram hafi komið hjá yfirmönnum skipsins og vélaeftirlitsmanni stefnda, sem athugað hafi togvindubúnaðinn sérstaklega er togarinn hafi komið til Akureyrar 10. október, að bremsur togvindunnar höfðu verið í fullkomnu lagi og búnaðurinn nýyfirfarinn. Skýring þess að bremsukerfið hafi gefið eftir þegar slysið hafi orðið, sé einfaldlega sú, að svo feiknalegt átak hafi komið á kerfið, er aldan hafi riðið undir skipið, að búnaðurinn hafi ekki þolað það. Þá hafi komið fram, að þegar sjór gangi yfir skipið geti bremsuborðarnir blotnað og verði hald þeirra þá ekki eins gott.
Þann 23. október 1991 hafi farið fram sjópróf vegna slysanna. Hafi þar m.a. komið fram, að við fyrrnefndar aðstæður gætu bremsur gefið eftir og hlerar sigið. Skipstjóri hafi borið að hann hefði upplýst þá, sem lásuðu úr toghlerunum, um þá hættu. Sumir skipverjar hafi sagst hafa verið kunnugt um að hlerarnir hefðu sigið, en að sögn skipsjóra hefðu skipverjar ekki almennt verið varaðir við því við hvaða aðstæður bremsurnar gætu gefið eftir. Þá hafi stefnandi borið að hann hefði aldrei heyrt, að bremsa á spilum gæti gefið sig.
Fulltrúi Rannsóknarnefndar sjóslysa hafi verið viðstaddur sjóprófið og hafi nefndin gefið út skýrslu um slysið. Niðurstaða rannsóknarnefndarinnar hafi verið sú, að orsök slyssins mætti rekja til þess að bremsur á togspili héldu illa, þegar þær væru blautar, og að ekki mætti hafa hendur milli lunningar og víra eins gert hafi verið þegar slysið hafi átt sér stað.
Stefnda kveður stefnanda hafa misst vinstri þumalfingur af völdum slyssins. Hafi stúfurinn verið mjög viðkvæmur og höndin mjög kulsækin yfir áverkastað og erfitt að beita henni. Júlíus Valsson læknir hafi hinn 6. júní 1992 metið varanlega örorku stefnanda 25 % af völdum slyssins auk 100 % tímabundinnar örorku í sex mánuði. Í mati Júlíusar hafi komið fram, að hugsanlega mætti búa til nýjan þumal og þar með nýtt grip fyrir hendina með flutningi táar á stað þumalfingurs. Atli Þór Ólason læknir hafi einnig metið örorku stefnanda hinn 16. júlí s.á. og hafi hann komist að sömu niðurstöðu og Júlíus eða að varanleg örorka stefnanda af völdum slyssins væri 25 %. Hafi þá verið miðað við töflumat fyrir missi þumalfingurs og miðhandarbeins. Stefnandi hafi krafist skaðabóta úr hendi stefndu fyrir slysið á grundvelli þessara örorkumata og líkindareiknings byggðum á örorkumötunum. Stefndu hafi hins vegar ekki talið slysið skaðabótaskylt. Vegna þrábeiðni hafi réttargæslustefnda samt fallist á að greiða stefnanda, auk bóta úr atvinnuslysatryggingu sjómanna, skaðabætur vegna slyssins úr ábyrgðartryggingu útgerðarinnar án viðurkenningar á bótaskyldu eða ex gratia. Gengið hafi verið frá bótauppgjöri í takt við það hinn 16. nóvember 1992. Bæturnar hafi numið rúmum fjórum milljónum króna auk vaxta og kostnaðar. Þáverandi lögmaður stefnanda hafi kvittað fyrir móttöku skaðabótanna með fyrirvara um óbreytt örorkustig, en að öðru leyti sem fullum og endanlegum bótum vegna slyssins og að fallið væri frá öllum frekari kröfum á hendur stefnda og réttargæslustefnda. Þá hafi sérstaklega verið tekið fram á bótakvittuninni, að bæturnar væru greiddar án viðurkenningar á bótaskyldu.
Stefnandi kveður réttargæslustefnda hafa, með því að selja stefnda ábyrgðartryggingu vegna Harðbaks EA-303, tekist á hendur að bæta þeim sem slasist við vinnu sína um borð í skipinu það tjón, sem af slysinu hljótist, ef stefndi beri á því skaðabótaábyrgð, líkt og hér sé raunin. Stefndi hafi í raun viðurkennt bótaskyldu sína með því að bæta stefnanda tjón hans miðað við þau örorkumöt sem fyrir hafi legið er uppgjör fór fram.
Kveður stefnandi á kvittun réttargæslustefnda vegna greiðslu bóta til stefnanda vera kvittað fyrir móttöku bótagreiðslu f.h. stefnanda með fyrirvara um örorkustig og geti stefndi því ekki borið fyrir sig að um fullnaðaruppgjör án fyrirvara hafi verið að ræða af hálfu stefnanda. Síðar hafi komið í ljós að örorka stefnanda sé verulega meiri, þ.e. 20 % hærri en gert hafi verið ráð fyrir í uppgjörinu og séu því allar forsendur til að taka málið upp að nýju á grundvelli nýrra upplýsinga, sérstaklega þar sem málið hafi verið gert upp í öndverðu með sérstökum fyrirvara varðandi örorkustigið.
Stefnandi kveður hinn bótaskylda atburð hafa orðið þegar verið hafi verið að losa toghlera skipsins frá togvírum áður en varpan hafi verið tekin um borð. Stefnandi hafi ásamt skipsfélögum sínum verið að vinna að því að lása leiðara í dauðalegg á toghlera skipsins bakborðsmegin. Þeir hafi staðið að öllu leyti rétt og eðlilega að því verki og framkvæmt það á þann eina sem hátt, sem mögulegt hafi verið, sbr. framburð 1. stýrimanns við sjópróf.
Kveður stefnandi orsök slyssins vera þá, að bremsur í spili skipsins hafi gefið eftir og við það hafi hlerinn fallið niður og um leið strekkst á leiðaranum og hafi stefnandi og Sigurður skipsfélagi hans orðið á milli leiðarans og lunningarinnar. Stefnandi kveður slíkan vanbúnað á spilbremsu vera á ábyrgð útgerðarinnar, þ.e. stefnda. Það hafi verið stefnda að sjá til þess að allur útbúnaður skipsins væri þannig að af honum stafaði eins lítil hætta fyrir skipverja og nokkur möguleiki væri. Kveður stefnandi koma fram í gögnum málsins, að hugsanlega sé ástæða þess að bremsur spilsins hafi gefið eftir sú, að sjór hafi komist á bremsuborða og þeir því ekki getað haldið spilinu. Hlífar hafi verið settar yfir borðana til að koma í veg fyrir þetta en þær ekki reynst duga í öllum tilfellum, s.s. þegar sjór gangi yfir skipið. Hafi 1. stýrimaður Harðbaks borið við sjópróf, að hann hafi vitað að stefndi hafi verið að leita fyrir sér með endurnýjun þess bremsubúnaðar, sem á spilunum hafi verið. Stefnda hafi því verið fyllilega meðvitað um að útbúnaðurinn væri ekki fullnægjandi enda hafi farið fram verulegar endurbætur á útbúnaði skipsins eftir slys stefnanda, þ. á m. hafi verið skipt um togspil.
Stefnandi kveður ljóst mega vera, að sú aukna áhætta sem því fylgi að vera að veiðum við tvísýn og erfið veðurskilyrði hvíli á útgerðarmanni skipsins. Hann beri ábyrgð á athöfnum þeirra sem hann feli stjórn skipsins og það að skipi sé haldið til veiða við hörðustu skilyrði, geti ekki á nokkurn hátt orðið til þess að rýra bótarétt einstakra skipverja, sem slasist af þeim sökum. Stefnandi kveður það vel þekkta meginreglu, sem ítrekað hafi verið staðfest af dómstólum, að sá sem standi í atvinnustarfsemi sem feli í sér hættulegar aðstæður fyrir starfsmenn, beri ríka bótaábyrgð gagnvart þeim, sem slasist við framkvæmd starfa í hans þágu.
Stefnandi kveður það hafa komið fram við sjópróf, að 1. stýrimaður hafi verið einn við að stýra skipinu og stjórna hífingu þegar slysið hafi orðið. Samkvæmt 1.2.9. gr. reglugerðar nr. 413, 1988 sé bannað að sami maður stjórni bæði skipi og hífingu á sama tíma, enda sé slíkt ekki á færi eins manns. Slíkar athafnir felli ábyrgð á útgerðarmann.
Rök fyrir miskabótakröfu kveður stefnandi vera þau, að slysið hafi valdið honum ómældum þjáningum og endurteknum aðgerðum, því sé tímabundinn miski mikill og varanlegur miski enn meiri þar sem stefnandi þurfi að lifa með mikil lýti á hendinni.
Kveður stefnandi dráttarvaxta af kröfum í aðalsök vera krafist frá og með 9. janúar 1995 en það sé dagsetning bréfs réttargæslustefnda þar sem greiðslu sé neitað eftir útreikningi tryggingafræðings. Dráttarvaxta krafna í framhaldssök sé hins vegar krafist frá þingfestingardegi sakaukastefnu.
Um bótaábyrgð kveðst stefnandi vísa til 171. og 172. gr. siglingalaga nr. 34, 1985 og almennra meginreglna skaðabótaréttar, þ.m.t. sakarreglunnar og reglunnar um húsbóndaábyrgð. Um miskabótakröfu vísist til 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Til stuðnings kröfum í framhaldssök sé vísað til samþykkis gagnaðila og jafnframt til 29. gr laga nr. 91, 1991, sbr. 1. mgr. 27. gr. s.l. Varðandi sjóveð sé vísað til 2. tl. 197. gr. siglingalaga nr. 34, 1985. Þá vísist jafnframt til reglugerðar nr. 413, 1988, greinar 1.2.9. Um vaxtakröfu sé vísað til ákvæða vaxtalaga nr. 25, 1987, 7., 12. og 15. gr. Varðandi málskostnað sé vísað til ákvæða 129. og 130. gr. laga nr. 91, 1991 og um virðisaukaskatt vísist til laga nr. 50, 1988.
Stefnda kveður að um skaðabótaábyrgð á slysi stefnanda fari eftir sakarreglu 171. gr. siglingalaga nr. 34, 1985. Hlutlægar bótareglur vegna áhættusams eða hættulegs atvinnurekstrar eigi hins vegar ekki við, enda sé margdæmt að fiskveiðar teljist ekki hættulegur atvinnurekstur.
Kveður stefnda sýknukröfu þess í fysta lagi byggja á því, að slysið verði hvorki rakið til sakar stefnda eða starfsmanna hans, bilunar eða vanbúnaðar á tækjum togarans Harðbaks eða annarra atriða, sem útgerðarmaður geti borið ábyrgð á. Kveður stefnda rangt að stefnda hafi viðurkennt skaðabótaskyldu sína á slysinu, svo sem stefnandi haldi fram. Hið rétta sé, að réttargæslustefndi hafi greitt stefnanda skaðabætur vegna slyssins án viðurkenningar á bótaskyldu og hafi hvorki stefndi né réttargæslustefndi viðurkennt bótaskyldu vegna slyssins.
Þá kveður stefnda það rangt og ósannað, að bremsur togvindunnar hafi verið vanbúnar. Það sé alþekkt að spilbremsur líkt og allar aðrar bremsur haldi ekki eins vel við og ella, ef bleyta komist inn á bremsuborðana og sé ógerningur á sjó að koma í veg fyrir slíkt. Orsaka slyssins sé öðrum þræði að rekja til þess eins og fram komi í áliti Rannsóknarnefndar sjóslysa, en ekki til vanbúnaðar eða bilunar á bremsubúnaðinum. Það hafi og ráðið úrslitum um að bremsan gaf eftir, hve mikið átak hafi komið á hlerann þegar stóraldan reið undir skipið. Stefnda kveður mannlegan tækjabúnað seint svo fullkominn, að vindar og stórsjóir geti ekki reynst honum ofviða. Enginn sérfróður og hlutlaus umsagnaraðili, hvorki Rannsóknarnefnd sjóslysa né aðrir, hafi heldur haldið því fram, að bremsubúnaður togvindunnar hafi verið vanbúinn og að slysið megi rekja til þess. Þá sé rangt hjá stefnanda, að endurnýjun á togspili skipsins löngu síðar hafi verið gerð vegna vanbúnaðar togspilsins. Hið rétta sé að gagngerar breytingar hafi verið gerðar á togaranum og systurskipi hans Kaldbak EA, vegna breytinga á veiðunum. Hafi m.a. verið settar nýjar fiskimóttökur og vinnslulínur í togarana, lunningar hækkaðar og verulegar breytingar gerðar á brú. Hafi ný togspil aðeins verið liður í þessum breytingum.
Stefnda kveður slysið ekki verða rakið til þess, að stýrimaður togarans hafi annast bæði um stjórn skipsins og jafnframt gripið í hífingu eftir að spilmaður hafi verið farinn úr brúnni. Búið hafi verið að fastlæsa bremsum miðað við mesta átak og kúpla frá þegar slysið hafi átt sér stað. Ekkert orsakasamband sé því milli slyssins og þess, að stýrimaður hafði fyrir slysið bæði séð um stjórntök skipsins og híft með togspilinu. Þannig sé ekki við stýrimann að sakast um slysið. Ekki verði skipstjórnarmönnum heldur metið til sakar að vera að veiðum í því veðri sem var umræddan dag. Fjöldi annarra skipa hafi verið á sömu slóðum á veiðum á sama tíma og hafi Rannsóknarnefnd sjóslysa ekki gert athugasemdir í þessu efni. Ekki sé því við útgerð og skipshöfn að sakast um slysið.
Kveður stefnda stefnanda hins vegar eiga sjálfan sök á slysi sínu, en hann hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Hann hafi farið að leiðaranum, án fyrirmæla yfirmanna skipsins, og gripið um hann báðum höndum við lunninguna, en það hafi verið stórháskalegt eins og á hafi staðið. Hafi stefnandi sem vanur sjómaður átt að vita betur. Ekki megi hafa hendur milli víra og lunningar eins og stefnandi hafi gert og megi öðrum þræði rekja slysið til þess eins og fram komi í áliti Rannsóknarnefndar sjóslysa. Ávallt geti slaknað eða strekkst á vírum þegar verið sé að taka inn veiðarfærin ekki síst í sjógangi. Stefnanda hafi, sem vönum togarasjómanni, hlotið að vera það ljóst og hafi stefnandi í öllu falli átt að vera viðbúinn því að sleppa tökum á leiðaranum ef svo bæri undir, en á því hafi líka orðið misbrestur.
Það er því álit stefnda að slysið megi rekja til óhappatilviljunar og eigin gáleysis stefnanda sjálfs.
Stefnda kveður sýknukröfu þess í annan stað vera byggða á því, að stefnandi sé bundinn við samningsuppgjör sitt á slysinu og fullnaðarkvittun lögmanns síns frá 16. nóvember 1992. Ósannað sé að heilsufarslegar afleiðingar slyssins hafi í verulegum mæli orðið aðrar og meiri en stefndandi hafi mátt reikna með þegar uppgjörið hafi farið fram, en það sé frumskilyrði réttar til viðbótarbóta. Í upphafi hafi legið fyrir að aðgerð kynni að verða gerð á hendinni í þeim tilgangi að búa til nýtt grip. Ósannað sé að stefnandi hafi hlotið meira en 25 % varanlega örorku af völdum slyssins, eins og læknarnir Júlíus Valsson og Atli Þór Ólason hafi upphaflega metið og sé í takt við töflumat fyrir missi þumalfingurs og miðhandarbeins. Einhliða örorkumat þeirra Sigurjóns Sigurðssonar og Guðmundar Björnssonar um 30 % varanlega örorku fái ekki staðist, þar sem stefnandi hafi við aðgerðina á hendinni fengið grip í hana, sem hann hafi ekki haft áður og hefði örorka hans því átt að hafa lækkað en ekki hækkað. Kveðst stefnda mótmæla örorkumatinu sérstaklega sem bersýnilega röngu. Þá hafi stefndu og ekki verið gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna við matið og verði það einnig af þeirri ástæðu ekki lagt til grundvallar. Þá geti hækkun á varanlegri örorku um aðeins 5 örorkustig ekki talist veruleg í skilningi skaðabótaréttar. Mat á örorku sé líka svo matskennt, að mismunur eftir matsmönnum um 5 örorkustig við mat á sömu slysaafleiðingum sé næsta eðlilegur, en sanni ekki breytingu eða aukna afleiðingu slyss. Ekkert liggi fyrir um að ófyrirsjáanlegar nýjar og verri afleiðingar slyss stefnanda hafi komið fram eftir að samkomulagið hafi verið gert, en hins vegar ætti aðgerðin á hendinni að hafa orðið til batnaðar í það minnsta þegar fram í sæki. Loks sé á það að líta, að uppgjörið hafi verið gert án viðurkenningar á bótaskyldu og hafi fyrirvari í kvittun um óbreytt örorkustig því enga þýðingu.
Kveður stefnda því að framangreindu virtu ósannað, að forsendur hafi brostið fyrir samkomulaginu um greiðslu bóta, sem gert hafi verið þann 16. nóvember 1992, án viðurkenningar á bótaskyldu.
Þá kveðst stefnda mótmæla stefnukröfum sérstaklega sem svo vanreifuðum að varði frávísun ex officio.
Stefnda kveðst mótmæla kröfum stefnanda í framhaldssök sem röngum, ósönnuðum og allt of háum, auk þess sem miski af völdum slyssins sé þegar fullbættur. Tekur stefnda fram, að ekki verði séð að miski stefnanda hafi aukist neitt frá því bótauppgjörið fór fram.
Kveður stefnda ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir nokkru raunverulegu tímabundnu vinnutekjutapi eða hverju það hafi numið, ef um það hafi verið að ræða. Útreikningar Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings séu engin sönnun í því sambandi. Að því leyti sem líkindareikningur tryggingafræðings teljist hæfur til hliðsjónar við bótaákvörðun beri jafnframt að miða við útreiknað höfuðstólsverðmæti á slysdegi, en ekki á útreikningsdegi eins og stefnandi miði við í aðalkröfu.
Vexti eldri en fjögurra ára frá birtingardegi stefnu kveður stefnda vera fyrnda og þá sé upphafstíma dráttarvaxta mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi eins og málið sé vaxið.
Stefnda kveður sjóveðrétt fyrir kröfum stefnanda vera löngu fyrndan, en sjóveðréttur í skipi fyrnist sé honum ekki fylgt eftir með lögsókn innan árs frá því að krafa stofnast, sbr. 201. gr. siglingalaga nr. 34, 1985. Krafa stefnanda hafi í allra síðasta lagi stofnast á árinu 1995 er honum hafi verið metin viðbótarörorka og meint viðbótartjón reiknað út. Stefna sé hins vegar ekki birt fyrr en 1998.
Vegna kröfugerðar af hálfu stefnanda kveður stefnda bera að dæma stefnanda til greiðslu málskostnaðar hvernig sem málið fari, sbr. 131. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, en stefnda krefjist að öðru leyti málskostnaðar á grundvelli 130. gr. nefndra laga.
Skýrslur fyrir dómi gáfu auk stefnanda Júlíus Gestsson, Þorvaldur Ingvarsson, Stefán Stefánsson og Magnús Traustason.
Á kvittun dags. 16. nóvember 1992, sem lögmaður stefnanda gaf réttargæslu-stefnda fyrir móttöku á bótum vegna slyss stefnanda, kemur skýrlega fram, að bæturnar séu greiddar án viðurkenningar á bótaskyldu. Stefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn sem styðja þá fullyrðingu hans, að viðurkenning á bótaskyldu liggi fyrir. Verður með vísan til þessa og eindreginnar neitunar stefnda, að telja með öllu ósannað að fyrir liggi viðurkenning á bótaskyldu vegna slyss stefnanda.
Magnús Traustason, 1. stýrimaður á Harðbak, bar fyrir lögreglu og við sjópróf, að hann hafi híft bakborðshlerann upp um u.þ.b. eitt fet að ósk hleramannanna, eftir að Eiður Sigþórsson, starfandi 2. stýrimaður, hafi farið úr brúnni og niður á dekk, til að stjórna grandaraspilinu. Þá bar Magnús að að því loknu hafi hann sett bremsuna á og kúplað frá og allt verið með eðlilegum hætti.
Hvergi í gögnum málsins er þess að finna stoð, að Magnús Traustason hafi verið að stjórna togspilinu á þeirri stundu, sem slys stefnanda átti sér stað. Þvert á móti styður framburður Vals Sigurðssonar háseta, fyrir lögreglu og við sjópróf, frásögn Magnúsar, um hið gagnstæða. Er því með öllu ósannað, að slys stefnanda hafi orsakast af áður lýstu broti Magnúsar á 1.2.9. gr. reglugerðar nr. 413, 1988.
Er atvik máls gerðust var leiðindaveður, mikill sjór og norðnorðaustan 8 vindstig, sbr. það sem fram kemur um aðstæður í skýrslu Rannsóknarnefndar sjóslysa dags. 27. maí 1992. Samkvæmt framburði Magnúsar Traustasonar voru fjölmörg skip að veiðum á sömu slóðum og Harðbakur. Í áðurnefndri niðurstöðu Rannsóknarnefndar sjóslysa eru ekki gerðar neinar athugasemdir við að skipinu hafi verið haldið til veiða umrætt sinn. Er því að mati dómsins ósannað, að saknæmt hafi verið af stefnda, að halda skipinu til veiða við lýstar aðstæður.
Samkvæmt framburði Stefáns Stefánssonar, vélstjóra á Harðbak, fyrir dómi, var togspil skipsins orðið slitið er atvik máls gerðust. Það kom fram hjá Stefáni, að slitið hafi haft í för með sér, að erfitt hafi verið að stilla bremsubúnað spilsins. Hins vegar bar Stefán, að vel hefði tekist til við stillingu þess búnaðar fyrir umrædda veiðiferð.
Af nefndaráliti Rannsóknarnefndar sjóslysa vegna málsins verður ekki annað ráðið, en slys stefnanda megi rekja til bleytu í bremsuborða togspilsins og því hvernig stefnandi sjálfur bar sig að umrætt sinn. Ekkert í niðurstöðum nefndarálits Rannsóknarnefndarinnar bendir til þess, að nefndin hafi talið að slys stefnanda hafi mátt rekja til vanbúnaðar á togspili Harðbaks. Stefnandi hefur fyrir dómi ekki lagt fram gögn um að vanbúnaður togspils hafi orsakað slys stefnanda. Hefur niðurstöðum Rannsóknarnefndarinnar því ekki verið hnekkt.
Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið þykir verða að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Stefnanda var veitt gjafsókn með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins dags. 10. nóvember 1998. Gjafsóknarkostnaður stefnanda kr. 742.435,- greiðist því úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, Þorsteins Hjaltasonar hdl., kr. 500.000,- og er virðisaukaskattur innifalinn í þeirri fjárhæð.
Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.
D Ó M S O R Ð :
Stefnda, Útgerðarfélag Akureyringa hf., skal sýkn af öllum kröfum stefnanda, Halldórs Magnússonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda kr. 742.435,- greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, Þorsteins Hjaltasonar hdl., kr. 500.000,-.