Hæstiréttur íslands

Mál nr. 577/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Mánudaginn 12

 

Mánudaginn 12. október 2009.

Nr. 577/2009.

Ákæruvaldið

(Júlíus Magnússon fulltrúi)

gegn

X

(Björgvin Jónsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms, um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, samkvæmt b. lið 1. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. október 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stendur en þó eigi lengur en til mánudagsins 26. október 2009 klukkan 13. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

 Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. október 2009.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag gert þá kröfu að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði á þá leið að dómfellda X, sem er litháískur ríkisborgari kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi í allt að 4 vikur eða til föstudagsins 6. nóvember 2009 kl. 16.00.

Dómfelldi mótmælir kröfunni. Af hálfu dómfellda er þess aðallega krafist að kröfu lögreglustjóra verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist sé. Þá lýsti dómfelldi því yfir að hann samþykkti að sæta farbanni á áfrýjunarfresti. 

Kröfuna um að dómfelldi verði látinn sæta gæsluvarðhaldi áfram byggir lögreglustjóri á því að dómfelldi hafi í dag verið dæmdur í 30 daga fangelsi, en hann hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 26. september sl. til dagsins í dag samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjaness sem staðfestur hafi verið í Hæstarétti.

Krafan sé byggð á b-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 3. mgr. 97. gr. sömu laga. Dómfelldi hafi takið sér frest samkvæmt 199. gr. laga nr. 88/2008 við dómsuppsögu í dag til að taka ákvörðun um áfrýjun málsins. Dómfelldi hafi í dag verið dæmdur fyrir brot gegn endurkomubanni sem ákveðið hafi verið af útlendingastofnun og staðfest af Dómsmálaráðuneyti. Það sé mat lögreglustjóra að ekki geti komið til greina að maður sem brýtur gegn slíku banni gangi laus á meðan hann ákveður hvort hann áfrýi 30 daga fangelsisdómi. Sé því nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi þennan tíma og telji lögreglustjóri farbann ekki koma til greina í þeirri stöðu sem upp sé komin.

Af hálfu dómfellda er talið að skilyrði til að beita gæsluvarðhaldi séu ekki fyrir hendi.

Eins og að framan getur var dómfelldi sakfelldur í Héraðsdómi Reykjaness í dag fyrir brot gegn banni við endurkomu til Íslands samkvæmt lögum nr. 96/2002 um útlendinga. Var dómfelldi dæmdur til að sæta fangelsi í 30 daga og tekið fram að refsingu til frádráttar kæmi með fullri dagatölu gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 26. september sl.

Dómfelldi lýsti því yfir við uppkvaðningu dómsins í dag að hann tæki sér lögmæltan frest til að ákveða hvort hann áfrýjaði málinu til Hæstaréttar.

Samkvæmt 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2009 er heimilt eftir kröfu ákæranda að úrskurða að gæsluvarðhald sem dómfelldi hefur sætt en lauk við uppkvaðningu héraðsdóms, skuli haldast meðan á áfrýjunarfresti samkvæmt 199. gr. laganna stefndur. Slíka kröfu gerði ákærandi í dag. Að mati dómsins þykja skilyrði til að úrskurða dómfellda til að sæta gæsluvarðhaldi áfram með vísan tl. b-liðar 1. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008. Þykir ekki koma til greina með hliðsjón af broti dómfellda að hann gangi laus meðan áfrýjunarfrestur líður. Þykir ekki koma til greina að úrskurða farbann í stað gæsluvarðhalds. Á hinn bóginn er ekki unnt að fallast á fjögurra vikna gæsluvarðhald, enda væri það andstætt síðari málslið 3. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um að eftir föngum skuli gæta þess að sakborningur verði ekki látinn sæta gæsluvarðhaldi lengur en sýnt þykir að fangelsisrefsing verði dæmd. Eins og áður getur var í dómnum yfir ákærða kveðið á um að gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 26. september sl. komi með fullri dagatölu til frádráttar refsingunni, 30 daga fangelsi. Því gæti  dómfelldi þurft að sæta gæsluvarðhaldi eftir að afplánun lyki ef fallist yrði á kröfu lögreglustjóra. Samkvæmt þessu verður dómfelldi úrskurðaður til að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan áfrýjunarfresti stendur, en þó eigi lengur en til mánudagsins 26. október 2009, kl. 13:00, en þá  væri dómfelldi búinn að sitja í gæsluvarðhaldi í 30 daga.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður úrskurðinn upp.

ÚRSKURÐARORÐ

Dómfelldi, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stendur en þó eigi lengur en til mánudagsins 26. október 2009 kl. 13:00.