Hæstiréttur íslands

Mál nr. 799/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni


Dómsatkvæði

                                     

Föstudaginn 31. janúar 2014.

Nr. 799/2013.

Vilhjálmur Bjarnason

(Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)

gegn

Hauki Þór Haraldssyni og

(enginn)

Björgólfi Thor Björgólfssyni

(Reimar Pétursson hrl.)

 

Kærumál. Vitni.

 

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi um skyldu vitnisins HÞH, fyrrum starfsmanni fjármálafyrirtækisins L hf., til að gefa skýrslu í héraði í tengslum við öflun VB á sönnunargögnum án þess að mál hefði verið höfðað samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Fyrir Hæstarétti var ágreiningur milli aðila um fjórar nánar tilgreindar spurningar sem VB beiddist að HÞH yrði gert skylt að svara. Hæstiréttur vísaði til þess að allar spurningarnar vörðuðu lögboðna upplýsingagjöf auk þess sem almennur aðgangur væri að upplýsingum þar að lútandi samkvæmt fyrirmælum laga, með sama hætti og í dómi Hæstaréttar 27. janúar 2014 í máli nr. 811/2013. Að þessu virtu taldi rétturinn þagnarskylduákvæði laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og b. og d. liða 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ekki standa því í vegi að HÞH yrði gert skylt að svara tilgreindum spurningum VB. Á hinn bóginn taldi Hæstiréttur að HÞH væri ekki skylt að svara spurningu, er laut að aðkomu hans að aflandsfélögum sem L hf. hefði stofnað til að taka við hlutabréfum vegna kaupréttarsamninga við starfsmenn, að því marki sem slíkt kynni að fella á hann ábyrgð af því tagi sem greindi í 3. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. og 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2013 þar sem leyst var úr ágreiningi um skyldu varnaraðilans Hauks til að gefa skýrslu í héraði í tengslum við öflun sóknaraðila á sönnunargögnum án þess að mál hafi verið höfðað samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðilanum verði gert skylt að svara þeim fjórum spurningum sem greinir í úrskurðarorðum hins kærða úrskurðar og héraðsdómari taldi honum óskylt að svara. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Haukur hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Varnaraðilinn Björgólfur krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Með dómi Hæstaréttar 15. maí 2013 í máli nr. 259/2013 var sóknaraðila, sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni þegar hlutabréf hans í Landsbanka Íslands hf. urðu verðlaus við fall bankans 7. október 2008, heimilað að leita sönnunar fyrir dómi samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991. Um er að ræða heimild til öflunar sönnunargagna um tiltekin atriði sem sóknaraðili álítur að ráðið geti niðurstöðu um hvort hann láti verða af málshöfðun gegn varnaraðilanum Björgólfi. Telur sóknaraðili að tjón sitt megi að minnsta kosti að hluta rekja til ólögmætra og saknæmra athafna í starfsemi bankans sem varnaraðilinn Björgólfur hafi stuðlað að eða átt þátt í og hafi að lokum leitt til þess að bankinn var tekinn til slita. Sóknaraðili hyggst leita sönnunar um þessi atriði með því að leiða 16 vitni til skýrslugjafar fyrir dómi, auk þess að kalla eftir tilgreindum gögnum. Varnaraðilinn Haukur var eitt þeirra vitna sem sóknaraðili hugðist leiða fyrir dóm í framangreindu skyni. Var hann boðaður á dómþing Héraðsdóms Reykjavíkur 4. nóvember 2013 með skriflegri kvaðningu þar um samkvæmt 2. mgr. 54. gr. laga 91/1991. Þann dag komu á dómþingi fram andmæli frá varnaraðilum við því að lagðar yrðu fyrir varnaraðilann Hauk þær fimm spurningar sem tilgreindar eru í hinum kærða úrskurði. Var bókað að andmælin væru reist á ákvæðum 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki en eins og greinir í hinum kærða úrskurði var af hálfu varnaraðilanna jafnframt vísað til b. og d. liða 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991. Sóknaraðili krafðist þess að úrskurður gengi um skyldu varnaraðilans Hauks til að svara spurningunum. Með hinum kærða úrskurði var komist að þeirri niðurstöðu að honum væri óheimilt að svara fjórum spurningunum en skylt að svara þeirri fimmtu. Laut síðastgreind spurning að því hvaða starfsmenn Landsbanka Íslands hf. hefðu komið að mati á því innan bankans hvort varnaraðilinn Björgólfur skyldi talinn tengdur bankanum í skilningi alþjóðlegs reikningsskilastaðals (IAS 24). Er ekki lengur ágreiningur um skyldu varnaraðilans Hauks til að svara þeirri spurningu.

Varnaraðilinn Björgólfur hefur með afskiptum sínum af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti gengið inn í mál sóknaraðila og varnaraðilans Hauks þannig að jafna má til meðalgöngu í skilningi 20. gr. laga nr. 91/1991 og telst hann því aðili málsins.

II

Spurningar þær sem kæra málsins lýtur að varða með hvaða hætti staðið var að því innan Landsbanka Íslands hf. að leggja mat á hvort varnaraðilinn Björgólfur skyldi talinn tengdur bankanum í skilningi alþjóðlegs reikningsskilastaðals (IAS 24) og hvaða áhrif eignabreytingar á Samson eignarhaldsfélagi ehf. (Samson ehf.) gætu haft á birtingu upplýsinga um tengda aðila í reikningsskilum bankans. Óskar sóknaraðili jafnframt eftir svörum um hvaðan varnaraðilinn Haukur hafi fengið upplýsingar um beinan eða óbeinan eignarhlut varnaraðilans Björgólfs í Samson ehf. Loks spyr hann hvort varnaraðilinn Haukur geti lýst aðkomu sinni að þeim aflandsfélögum sem Landsbanki Íslands hf. hafi stofnað til að taka við hlutabréfum vegna kaupréttarsamninga við starfsmenn.

Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 kemur fram að stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins séu bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi. Þá segir í 2. mgr. sömu greinar að sá sem veiti viðtöku upplýsingum af því tagi sem um geti í 1. mgr. sé bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greini. Sá aðili sem veiti upplýsingar skuli áminna viðtakanda um þagnarskylduna. Samkvæmt b. lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 er vitni óheimilt án leyfis þess sem í hlut á að svara spurningum um einkahagi manns sem því hefur verið trúað fyrir eða það hefur komist að á annan hátt í starfi sem endurskoðandi, félagsráðgjafi, lögfræðingur, lyfsali, læknir, prestur, sálfræðingur eða aðstoðarmaður einhvers þessara, eða í öðru starfi sem viðlíka trúnaðarskylda fylgir. Þá er í d. lið málsgreinarinnar lagt fyrir sams konar bann við svörum vitnis ef um er að ræða leyndarmál um viðskipti, uppgötvanir eða önnur slík verk sem það hefur komist að í starfi.     

Samkvæmt gögnum málsins sótti Samson ehf. um samþykki Fjármálaeftirlitsins  fyrir kaupum félagsins á virkum eignarhlut í Landsbanka Íslands hf. með bréfi 12. nóvember 2002. Féllst eftirlitið á umsóknina með ákvörðun 3. febrúar 2003. Mun Samson ehf. hafa verið stærsti hluthafi Landsbanka Íslands hf. með rúmlega 40% af hlutafé í bankanum. Í upphafi árs 2005 munu hluthafar í Samson ehf. hafa verið þrír og eignarhlutföll skipst þannig að Björgólfur Guðmundsson átti 42,5% hlutafjár, varnaraðilinn Björgólfur 42,5% og Magnús Þorsteinsson 15%. Í tilkynningu til Kauphallar Íslands 9. ágúst 2005 var upplýst um sölu Magnúsar á hlut hans í félaginu. Í kjölfar þess munu hafa vaknað spurningar um það innan bankans hvort þetta breytti einhverju um fyrri niðurstöðu hvað varðar upplýsingar um tengda aðila í reikningsskilum bankans. Mun hafa verið álitið að bæði Samson ehf. og Björgólfur Guðmundsson væru tengdir aðilar í skilningi 9. gr. IAS 24, Samson ehf. á grundvelli þess að félagið ætti það stóran eignarhlut í bankanum að það hefði svokölluð mikilvæg áhrif á rekstur og stefnu Landsbanka Íslands hf. en Björgólfur Guðmundsson á grundvelli þess að hann var bankaráðsformaður. Hins vegar mun hafa verið komist að þeirri niðurstöðu að hvorki varnaraðilinn Björgólfur né Magnús væru tengdir aðilar. Varnaraðilinn Haukur var framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landsbanka Íslands hf. og mun hann hafa heyrt beint undir bankastjóra. Samkvæmt gögnum málsins kom varnaraðilinn að mati á því hvort varnaraðilinn Björgólfur teldist tengdur Landsbanka Íslands hf. og að mati á þörf á upplýsingagjöf um tengda aðila í reikningsskilum bankans með tilliti til alþjóðlegs reikningsskilastaðals. Í því skyni sátu varnaraðilinn Haukur og Þór Þorláksson aðstoðarframkvæmdastjóri lögfræðisviðs og útlánaeftirlits bankans fund 20. október 2005 með Birgi Má Ragnarssyni framkvæmdastjóra Samsonar ehf. og Vigni Rafni Gíslasyni og Hjalta Schiöth löggiltum endurskoðendum hjá PricewaterhouseCoopers ehf. Gert var minnisblað um fund þennan og er efni þess rakið í dómi Hæstaréttar 27. janúar 2014 í máli nr. 811/2013.

III

Varnaraðilinn Haukur hefur sem fyrr segir vikist undan því að svara spurningum þeim sem kæra málsins lýtur að með vísan til þagnarskylduákvæða í lögum nr. 161/2002 og b. og d. liða 2. mgr. 53. laga nr. 91/1991. Eins og nánar er rakið í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar 27. janúar 2014 fékk Samson ehf. á árinu 2003 heimild Fjármálaeftirlitsins til þess að fara með virkan eignarhlut í Landsbanka Íslands hf. Til að fá slíka heimild þurftu eigendur Samsonar ehf. að veita eftirlitinu ítarlegar upplýsingar samkvæmt VI. kafla laga nr. 161/2002, þar á meðal um eignarhald félagsins og tengsl þess við aðra lögaðila. Jafnframt hvíldi sú viðvarandi skylda á Samson ehf. og eigendum þess að veita Fjármálaeftirlitinu allar upplýsingar um breytingar á eignarhaldinu og atriði sem að því lutu. Inntaki þeirrar upplýsingaskyldu, sjónarmiðum að baki henni og reglum um aðgengi að þeim upplýsingum, sem til verða á grundvelli upplýsingaskyldunnar, er nánar lýst í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar.

Eins og áður greinir fór fram innan Landsbanka Íslands hf. mat á hvaða áhrif þær breytingar, sem orðið höfðu á eignarhaldi í Samson ehf., hefðu á tilgreiningu tengdra aðila í reikningsskilum Landsbanka Íslands hf. og hvernig fullnægt skyldi lögbundinni upplýsingagjöf til Fjármálaeftirlitsins af sama tilefni. Þegar virtar eru framangreindar reglur um skyldu fyrirsvarsmanna Samsonar ehf. og Landsbanka Íslands hf. til að veita réttar upplýsingar af þessu tilefni og hafðar í huga þær reglur sem giltu um aðgang að þeim upplýsingum verður ekki talið að þar sé um að ræða upplýsingar sem leynt skyldu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, svo sem nánar greinir í títtnefndum dómi Hæstaréttar. Samkvæmt þessu voru ekki efni til að sérstök leynd skyldi vera um það hverjir innan bankans komu að framangreindu mati og hvernig aflað var lögboðinna upplýsinga við það mat. Af þessu leiðir að spurningar um hvort varnaraðilinn Björgólfur skyldi talinn tengdur Landsbanka Íslands hf., hvaða áhrif eignabreytingar á Samson ehf. gætu haft á birtingu upplýsinga um tengda aðila í reikningsskilum bankans og hvaðan varnaraðilinn Haukur hafi fengið upplýsingar um beinan eða óbeinan eignarhluta varnaraðilans Björgólfs í Samson ehf., falla hvorki undir ákvæði 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 né b. og d. liða 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991. Verður varnaraðilanum Hauki því með vísan til meginreglu 1. mgr. 51. gr. laganna gert að svara þessum þremur spurningum.

Áðurnefnd sjónarmið eiga einnig við um skyldu varnaraðilans Hauks til að svara  fjórðu spurningunni um hvort hann geti lýst aðkomu sinni að þeim aflandsfélögum sem Landsbanki Íslands hf. mun hafa stofnað til að taka við hlutabréfum vegna kaupréttarsamninga við starfsmenn. Á hinn bóginn er til þess að líta að varnaraðilinn Haukur hefur með vísan til 3. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991 vikist undan að svara þessari spurningu á þeim grunni að sérstakur saksóknari hafi til rannsóknar ætluð brot vegna afskipta varnaraðilans að þessum félögum. Samkvæmt ákvæðinu getur vitni skorast undan því að svara spurningu ef ætla má að í svari þess gæti falist játning eða bending um að það hafi framið refsiverðan verknað eða atriði sem valdi því siðferðislegum hnekki eða tilfinnanlegu fjártjóni. Almenn lýsing á aðkomu að stofnun og starfrækslu félaga í lögmætum tilgangi fellur ekki undir tilvik sem ákvæðið tekur til. Af ákvæðinu leiðir þó að hafi með stofnun og starfrækslu umræddra félaga með einhverjum hætti verið farið á svig við lagareglur og varnaraðilinn Haukur átt aðkomu að því getur hann vikist undan að svara spurningunni að því marki sem slíkt kann að fella á hann ábyrgð af því tagi sem greinir í ákvæðinu.   

Eftir þessum málsúrslitum verður varnaraðilanum Björgólfi gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Það athugast að í hinum kærða úrskurði er ítrekað rætt um vitnastefnanda og vitnastefnda en þessi hugtök eiga sér ekki stoð í réttarfarslögum eftir gildistöku laga nr. 91/1991.

Dómsorð:

Varnaraðilanum Hauki Þór Haraldssyni er skylt að svara eftirtöldum spurningum sóknaraðila, Vilhjálms Bjarnasonar: 1. Með hvaða hætti var staðið að því að leggja mat á það innan Landsbanka Íslands hf. hvort varnaraðilinn Björgólfur Thor Björgólfsson skyldi talinn tengdur bankanum í skilningi alþjóðlegs reikningsskilastaðals IAS 24. 2. Hvaða áhrif gátu eignabreytingar á Samson eignarhaldsfélagi ehf. haft á birtingu upplýsinga um tengda aðila í reikningum Landsbanka Íslands hf. 3. Hvaðan fékk varnaraðilinn Haukur upplýsingar um beinan eða óbeinan eignarhlut varnaraðilans Björgólfs í Samson eignarhaldsfélagi ehf.

Varnaraðilanum Hauki er ekki skylt, að því marki sem slíkt kann að fella á hann ábyrgð af því tagi sem greinir í 3. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að svara eftirfarandi spurningu: Getur varnaraðilinn Haukur lýst aðkomu sinni að þeim aflandsfélögum sem Landsbanki Íslands hf. stofnaði til að taka við hlutabréfum vegna kaupréttarsamninga við starfsmenn.

Varnaraðilinn Björgólfur greiði sóknaraðila 250.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2013.

 Með beiðni, móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 21. september 2012, fór vitna­stefn­andi, Vilhjálmur Bjarnason, Hlíðarbyggð 18, Garðabæ, þess á leit við dóminn að honum yrði heimilað, á grundvelli 2. málsliðar 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með vitnaleiðslu og öflun skjala fyrir dómi, að leita sönnunar um atvik sem vörðuðu lögvarða hagsmuni hans og gætu ráðið úrslitum um máls­höfðun á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni, 55 Clarendon RoadNotting Hill, London, Bretlandi.

Við þingfestingu málsins 29. október 2012 krafðist vitnastefndi þess að beiðni vitnastefnanda yrði hafnað. Með dómi Hæstaréttar Íslands 15. maí sl. í máli nr. 259/2013 féllst rétturinn á að vitnastefnanda væri heimilt að leita sönnunar samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um þau atriði sem kröfugerð hans tæki til, að því undanskildu að vitnastefnda yrði ekki gert að gefa skýrslu fyrir dómi.

Vitnið Haukur Þór  Haraldsson, kt. 110860-5369, var með vitnakvaðningu, útgefinni 21. október sl., kvaddur fyrir dóm 4. nóvember sl. kl. 11:20 til að gefa skýrslu í þessu máli. Við skýrslugjöfina, sem fór fram gegnum síma, mótmælti lögmaður vitnastefnda því að fyrir vitnið yrðu lagðar tilteknar spurningar, auk þess sem vitnið mótmælti því að sömu spurningar yrðu lagðar fyrir hann.

Nánar tiltekið var um eftirfarandi spurningar að ræða:

,,Með hvaða hætti var staðið að því að leggja mat á það innan [Landsbanka Íslands hf.] hvort [vitnastefndi] skyldi talinn tengdur bankanum í skilningi aðþjóðlegs reikningsskilastaðals IAS 24.

Hvaða starfsmenn [Landsbanka Íslands hf.] hafi komið að mati á því innan bankans hvort [vitnastefndi] skyldi talinn tengdur bankanum í skilningi alþjóðslegs reikningsskilastaðals IAS 24.

Hvaða áhrif eignabreytingar á Samson eignarhaldsfélagi gætu haft á birtingu upplýsinga um tengda aðila í reikningum [Landsbanka Íslands hf.].

Hvaðan vitnið hefði fengið upplýsingar um beinan eða óbeinan eignarhlut [vitnastefnda] í Samson eignarhaldsfélagi.“

Lögmaður vitnastefnda vísaði til 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 758/2009. Vitnið vísaði til þess að hann væri bundinn þagnarskyldu samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, sbr. einnig b- og d-liði 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991. Lögmaður vitnastefnanda krafðist þess að vitnið svaraði spurningunum.

Við skýrslugjöfina mótmælti vitnið því einnig að fyrir hann yrði lögð spurning um ,,hvort hann gæti lýst aðkomu sinni að aflandsfélögum sem [Landsbanki Íslands hf.] stofnaði til að taka við hlutabréfum vegna kaupréttasamninga við starfsmenn þar sem hann hafi stöðu grunaðs manns í málum sem varðar aflandsfélög og til rannsóknar eru hjá embætti sérstaks saksóknara“. Lögmaður vitnastefnanda krafðist þess að vitnið svaraði spurningunni.

Málið var tekið til úrskurðar í þinghaldinu um ofangreindar spurningar eftir að lögmenn aðila og vitnið höfðu tjáð sig.

Niðurstaða

                Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 gildir sú meginregla í íslensku einkamálaréttarfari að hverjum manni, sem er orðinn 15 ára, lýtur íslenskri lögsögu og er ekki aðili máls eða fyrirsvarsmaður aðila, sé skylt að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlega spurningum sem er beint til hans um málsatvik. Þessi skylda er þó ekki fortakslaus því að í 52. gr. sömu laga er mælt fyrir um aðstæður þar sem vitni er óskylt að svara spurningu og í 53. gr. laganna er lýst aðstæðum þar sem vitni er óheimilt að svara spurningu.

I

   Að því er varðar þær spurningar vitnastefnanda sem lögmaður vitnastefnda og vitnið mótmæltu að lagðar yrðu fyrir vitnið þykir ljóst af efni spurninganna að þau ákvæði 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 sem á reynir í þessu máli eru ákvæði b- og d-liðar. Samkvæmt b-lið er vitni óheimilt, án leyfis þess sem á í hlut, að svara spurningum um einkahagi manns sem því hefur verið trúað fyrir eða það hefur komist að á annan hátt í starfi, og eru síðan nokkur störf talin upp, eða öðru starfi sem viðlíka trúnaðarskylda fylgir. Orðin ,,einkahagi manns“ eru ekki skýrð í athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 91/1991. Sambærilegt ákvæði er í b-lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og fram kemur í athugasemdum við frumvarp sem varð að þeim lögum að fyrirmynd þeirra er sótt til b-liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991. Í dómi Hæstaréttar Íslands 8. október sl. í máli nr. 408/2013 var tekin afstaða til skýringar b-liðar 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008. Í dómi réttarins var því slegið föstu að undir ákvæðið gætu fallið einka-, fjárhags- og viðskiptamálefni einstaklinga jafnt sem lögpersóna, að því tilskildu að þeim sérfræðingum, sem taldir séu upp í ákvæðinu eða gegna öðrum störfum er jafn rík trúnaðarskylda fylgi, hafi verið trúað fyrir slíkum upplýsingum í starfi þeirra. Að mati dómsins verður að skýra hugtakið ,,einkahagi manns“ í b-lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 og b-lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 með sama hætti. Því verður að túlka ákvæði b-liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 á þann veg að það nái líka yfir einkahagi lögaðila. Í dómi Hæstaréttar var því einnig slegið föstu að við skýringu á b-lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008, sem feli í sér undantekningu frá vitnaskyldu, verði að líta til þess að því sé ætlað að vernda trúnaðarsamband sérfræðings og skjólstæðings, sem til hans leitar, þannig að skjólstæðingurinn geti almennt treyst því að upplýsingar, sem hann lætur sérfræðingnum í té um einkahagi sína, verði ekki síðar notaðar gegn honum í sakamáli án hans vilja. Að mati dómsins eiga sömu sjónarmið við um skýringu b-liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991.

Í d-lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um að vitni sé óheimilt án leyfis þess sem á í hlut að svara spurningum um leyndarmál um viðskipti, uppgötvanir eða önnur slík verk sem það hefur komist að í starfi.

Ákvæði 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki mælir fyrir um þagnarskyldu stjórnarmanna fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjóra, endurskoðenda, starfsmanna og hverra þeirra sem taki að sér verk í þágu fyrirtækisins, um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum og helst þagnarskyldan þótt látið sé af starfi.

Í athugasemdum við 58. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 161/2002 segir m.a. að upplýsingar sem leynt eigi að fara geti bæði verið viðskiptalegs og persónulegs eðlis.  Enda þótt beiting ákvæðisins hljóti ávallt að vera háð mati yrði í vafatilvikum að telja að upplýsingar sem fjármálafyrirtæki byggi yfir um viðskiptamann sinn féllu undir þagnarskyldu, nema atvik bentu til annars.

Samkvæmt þessu er ljóst að ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 er fyrst og fremst ætlað að vernda viðskiptahagsmuni viðskiptavinar fjármálafyrirtækis, en ekki hagsmuni fjármálafyrirtækisins, sbr. einnig dóm Hæstaréttar Íslands 20. janúar 2010 í máli nr. 758/2009.

Við skýrslutöku yfir vitninu kom fram að hann hefði frá 2003 og þar til hann hætti störfum verið rekstrarstjóri Landsbanka Íslands hf. Rekstrarstjóri hafi heyrt beint undir bankastjóra. Stór verkefni hefðu m.a. verið öryggismál, byggingarmál, utanumhald um áætlanagerð, uppgjörsmál og greiðslumál, auk tilfallandi sérverkefna.

A

Að mati dómsins varða spurningar, um það með hvaða hætti hafi verið staðið að því að leggja mat á það innan Landsbanka Íslands hf. hvort vitnastefndi skyldi talinn tengdur bankanum í skilningi alþjóðlegs reikningsskilastaðals IAS 24 og hvaðan vitnið hefði fengið upplýsingar um beinan eða óbeinan eignarhlut vitnastefnda í Samson eignarhaldsfélagi, störf vitnisins sem rekstrarstjóri Landsbanka Íslands hf. Að mati dómsins varða spurningarnar leyndarmál um viðskipti vitnastefnda sem vitnið hefur komist að í starfi í skilningi d-liðar sömu málsgreinar. Ekki er á það fallist að spurningarnar varði einkahagi vitnastefnda sem vitninu hefur verið trúað fyrir eða það hefur komist að í starfi sem trúnaðarskylda fylgir í skilningi b-liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991, enda er ekkert fram um það komið að vitnastefndi hafi leitað til vitnisins sem sérfræðings.

B

Að mati dómsins varðar spurning um hvaða áhrif eignabreytingar á Samson eignarhaldsfélagi gætu haft á birtingu upplýsinga um tengda aðila í reikningum bankans, störf vitnisins sem rekstrarstjóri Landsbanka Íslands hf. Að mati dómsins varða þessar spurningar leyndarmál um viðskipti Samsonar eignarhaldsfélags sem vitnið hefur komist að í starfi í skilningi d-liðar sömu málsgreinar. Ekki er á það fallist að spurningin varði einkahagi Samsonar eignarhaldsfélags sem vitninu hefur verið trúað fyrir eða það hefur komist að í starfi sem trúnaðarskylda fylgir í skilningi b-liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991, enda er ekkert fram um það komið að félagið hafi leitað til vitnisins sem sérfræðings.

C

Ekki hefur komið fram að þeir aðilar sem nefndir eru í fyrrnefndum spurningum hafi gefið vitninu leyfi til að svara þeim. Vitninu er því óheimilt að svara spurningunum samkvæmt d-lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991, nema skilyrði 3. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 séu uppfyllt.

Í 3. mgr. 53. gr. er gerð sú undantekning frá þessu banni að ef dómari telur hagsmuni aðila verulega meiri af því að upplýst verði um atriði samkvæmt b- til d-lið 2. mgr. en hagsmuni hlutaðeiganda af því að leynd verði haldið, geti hann þá eftir kröfu aðila lagt fyrir vitni að svara spurningu þótt leyfi sé ekki veitt til þess, enda feli þá svarið ekki í sér frásögn af einkahögum manns sem á ekki aðild að máli.

Hvað varðar spurningu um hvaða áhrif eignabreytingar á Samson eignarhaldsfélagi gætu haft á birtingu upplýsinga um tengda aðila í reikningum bankans er ljóst að þær fela í sér frásögn af einkahögum þess félags, þótt spurningin varði ekki málefni sem vitnið hefur komist að í starfi sem trúnaðarskylda fylgir. Fyrir liggur að bú Samsonar eignarhaldsfélags hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta, en skiptum mun ekki vera lokið. Þrotabú Samsonar eignarhaldsfélags á ekki aðild að þessu máli og er þegar af þeirri ástæðu ekki lagaheimild til að leggja fyrir vitnið að svara þessum spurningum án leyfis skiptastjóra.

Hvað varðar spurningar um það með hvaða hætti hafi verið staðið að því að leggja mat á það innan Landsbanka Íslands hf. hvort vitnastefndi skyldi talinn tengdur bankanum í skilningi alþjóðlegs reikningsskilastaðals IAS 24 og hvaðan vitnið hefði fengið upplýsingar um beinan eða óbeinan eignarhlut vitnastefnda í Samson eignarhaldsfélagi, verður að líta til þess að vitnastefnandi hefur höfðað þetta vitnamál í því skyni að afla gagna til mats á því hvort hann eigi kröfu um skaðabætur á hendur vitnastefnda vegna falls Landsbanka Íslands hf., en vitnastefnandi var á meðal hluthafa bankans. Vitnastefnandi rekur í beiðni sinni að hann telji að aðaleigendur bankans, vitnastefndi og faðir hans, Björgólfur Guðmundsson, hafi í gegnum Samson eignarhaldsfélag haft óeðlileg áhrif á starfsemi bankans og þeir hafi með skipulögðum og ólögmætum hætti notað þau áhrif til þess að leyna yfirráðum þeirra yfir bankanum og veita lán til vitnastefnda og félaga í hans eigu umfram heimildir.

Þegar metið er hvort hagsmunir vitnastefnanda séu verulega meiri af því að vitnið svari umræddum spurningum er óhjákvæmilegt að mati dómsins að líta til þess að vitnastefnandi hefur ekki haldið því fram að hann eigi kröfu um skaðabætur á hendur vitnastefnda, heldur rekur hann þetta mál í því skyni að meta hvort hann eigi slíka kröfu. Þótt þær spurningar sem að framan greinir varði ekki viðskipti vitnastefnda við Landsbanka Íslands hf., heldur eignarhald vitnastefnda á bankanum, gilda að mati dómsins sömu rök um að starfsmenn fjármálafyrirtækis séu bundnir trúnaði gagnvart hluthöfum. Þegar virt er hin ríka trúnaðarskylda sem starfsmenn fjármálafyrirtækja bera samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 verður ekki talið að vitnastefnandi hafi leitt að því líkur að hagsmunir hans séu verulega meiri af því að spurningunum verði svarað en hagsmunir vitnastefnda af því að leynd verði haldið. Verður því að hafna kröfu vitnastefnanda um að vitnið svari ofangreindum spurningum.

D

Hvað varðar spurningu um hvaða starfsmenn Landsbanka Íslands hf. hafi komið að mati á því innan bankans hvort vitnastefndi skyldi talinn tengdur bankanum í skilningi alþjóðslegs reikningsskilastaðals IAS 24, verður ekki séð að spurningin varði einkahagi vitnastefnda sem vitninu hefur verið trúað fyrir eða það hefur komist að í starfi sem trúnaðarskylda fylgir í skilningi b-liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991, eða leyndarmál um viðskipti vitnastefnda sem vitnið hefur komist að í starfi í skilningi d-liðar sömu málsgreinar, enda er hér einungis spurt um það hvaða starfsmenn bankans hafi komið að tilteknu starfi eða verkefni innan bankans. Þótt þeim starfsmönnum sem um ræðir kunni að vera óheimilt að svara spurningum um starfið á grundvelli 58. gr. laga nr. 161/2002 leiðir það ekki til þess að vitninu sé óheimilt að greina frá nöfnum þeirra. Verði þess krafist síðar að skýrsla verði tekin af viðkomandi starfsmönnum á grundvelli ákvæða XII. kafla laga nr. 91/1991 er vitnastefnda mögulegt að gæta hagsmuna sinna við þær skýrslutökur, s.s. með því að krefjast úrskurðar dómara um spurningar sem hann telur þeim starfsmönnum óheimilt að svara. Verður því fallist á að vitninu sé skylt að svara spurningunni.

II

Að því er varðar þá spurningu vitnastefnanda sem vitnið mótmælti að fyrir sig yrði lögð, upplýsti vitnið að hann hefði réttarstöðu grunaðs manns í málum sem varðar aflandsfélög og til rannsóknar eru hjá embætti sérstaks saksóknara. Samkvæmt 3. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991 er vitni rétt að skorast undan því að svara spurningu ef ætla má að í svari þess geti falist játning eða bending um að það hafi framið refsiverðan verknað. Í umræddri spurningu er vitnið beðið um að lýsa aðkomu sinni að aflandsfélögum sem Landsbanki Íslands hf. stofnaði til að taka við hlutabréfum vegna kaupréttarsamninga við starfsmenn. Ekki verður annað séð en að spurningin varði það efni sem vitnið kveður að sé til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara. Svari vitnið spurningunni má því ætla að í svari þess geti falist játning eða bending um að það hafi framið refsiverðan verknað. Er vitninu því óskylt að svara spurningunni samkvæmt 3. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991.

                Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

                Vitninu Hauki Þór Haraldssyni er óheimilt að svara eftirfarandi spurningum:

                ,,Með hvaða hætti var staðið að því að leggja mat á það innan [Landsbanka Íslands hf.] hvort [vitnastefndi] skyldi talinn tengdur bankanum í skilningi aðþjóðlegs reikningsskilastaðals IAS 24.“

                ,,Hvaða áhrif eignabreytingar á Samson eignarhaldsfélagi gætu haft á birtingu upplýsinga um tengda aðila í reikningum [Landsbanka Íslands hf.].“

                ,,Hvaðan vitnið hefði fengið upplýsingar um beinan eða óbeinan eignarhlut [vitnastefnda] í Samson eignarhaldsfélagi.“

                Vitninu er skylt að svara eftirfarandi spurningu: ,,Hvaða starfsmenn [Landsbanka Íslands hf.] hafi komið að mati á því innan bankans hvort [vitnastefndi] skyldi talinn tengdur bankanum í skilningi alþjóðslegs reikningsskilastaðals IAS 24.“

                Vitninu er óskylt að svara spurningu um ,,hvort hann gæti lýst aðkomu sinni að aflandsfélögum sem [Landsbanki Íslands hf.] stofnaði til að taka við hlutabréfum vegna kaupréttasamninga við starfsmenn“.