Hæstiréttur íslands
Mál nr. 177/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Föstudaginn 7. apríl 2006. |
|
Nr. 177/2006. |
Ríkislögreglustjóri(Jón H. Snorrason saksóknari) gegn X (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanna.
Lagt var fyrir héraðsdómara að taka til efnismeðferðar kröfu R um dómkvaðningu matsmanna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 24. mars 2006, þar sem dómari ákvað að matsmenn skyldu dómkvaddir á grundvelli matsbeiðni sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinni kærðu ákvörðun verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka til efnismeðferðar mótmæli varnaraðila er lúta að efni matsbeiðni ríkislögreglustjóra 9. nóvember 2005 með áorðnum breytingum.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hinnar kærðu ákvörðunar.
Með dómi Hæstaréttar 14. mars 2006 í máli nr. 109/2006 var lagt fyrir héraðsdómara að taka til meðferðar beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna, en héraðsdómari hafði hafnað beiðninni af þeirri ástæðu að lög nr. 19/1991 heimiluðu ekki dómkvaðningu matsmanna á rannsóknarstigi opinbers máls. Tók héraðsdómari að öðru leyti ekki afstöðu til mótmæla varnaraðila við efni matsbeiðninnar. Eins og forsendur dóms Hæstaréttar og dómsorð bera með sér var ekki tekin afstaða til efnislegra athugasemda varnaraðila við matsbeiðni, en talið að ekkert væri því til fyrirstöðu að dómkvaðningar matsmanna yrði beiðst á þessu stigi máls. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna til efnislegrar meðferðar.
Dómsorð:
Hinn kærða ákvörðun er felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna til efnislegrar meðferðar.
Ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 24. mars 2006.
Fulltrúi ríkislögreglustjóra kveðst fella niður úr beiðni sinni á dskj. nr. 1, 2. msl. í lið 2 og úr fyrri hluta í lið 3, þannig að matsbeiðni byrji á orðunum “hvað skorti á...” og úr 5. lið orðin “til að uppfylla lögboðnar skyldur sínar.”
Fulltrúi ríkislögreglustjóra krefst þess að dómari dómkveðji matsmenn eins og krafist er í matsbeiðni á dskj. nr. 1, eins og henni hefur verið breytt á dskj. nr. 5 og í bókun fyrr í þessu þinghaldi. Vísar fulltrúinn að öðru leyti til dóms Hæstaréttar á dskj nr. 6,
Lögmaður matsþola mótmælir því að matsmenn verði dómkvaddir þar eð Hæstiréttur hafi aðeins lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfu um dómkvaðningu til meðferðar en ekki hafi með dóminum verið leyst úr efnislegum athugasemdum við matsbeiðni.
Dómari ákveður að matsmenn skuli dómkvaddir enda kveðst hann ekki skilja dóm Hæstaréttar á annan veg en að það skuli gert.
Málinu er frestað fram yfir kærufrest.
Dómþingi slitið
Arngrímur Ísberg héraðsdómari