Hæstiréttur íslands

Mál nr. 647/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
  • Farbann


                                     

Þriðjudaginn 16. október 2012.

Nr. 647/2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi. Farbann

Hafnað var kröfu ákæruvaldsins um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundelli b. liðar 1. mgr. og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Honum var aftur á móti gert að sæta farbanni samkvæmt 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. október 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. október 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 1. nóvember 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í kröfu lögreglu um gæsluvarðhald er varnaraðila gefin að sök líkamsárás aðfaranótt 12. október 2012 á horni Bankastrætis og Lækjargötu í Reykjavík með því að hafa barið aftur fyrir sig af miklu afli með skærum án þess að hafa nokkru um það skeytt hvar höggið myndi lenda eða hvaða tjóni það kynni að valda. Fyrir högginu varð A og hlaut hann 4 cm langan skurð ofarlega á enni auk tveggja minni skurða. Telur lögregla sterkan grun leika á að varnaraðili hafi framið brot sem varði við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með hinum kærða úrskurði var varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt því ákvæði verður sakborningur úrskurðaður í gæsluvarðhald ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Samkvæmt þessu er ekki nægilegt að tvö fyrstnefndu skilyrðin séu fyrir hendi svo gæsluvarðhald verði úrskurðað á grundvelli ákvæðisins, heldur verður brotið, sem sakborningi er gefið að sök, jafnframt að vera þess eðlis, með hliðsjón af atvikum máls hverju sinni, að frelsissvipting í formi gæsluvarðhalds sé nauðsynleg með tilliti til hagsmuna almennings. Að virtu því broti sem varnaraðila er gefið að sök verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að nauðsyn beri til að úrskurða varnaraðila í gæsluvarðhald með tilliti til almannahagsmuna svo sem áskilið er í fyrrgreindu ákvæði.

Krafa um gæsluvarðhald var einnig reist á því að fyrir hendi væru skilyrði b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að úrskurða varnaraðila í gæsluvarðhald þar sem ætla mætti að hann myndi reyna að komast úr landi fengi hann að ganga laus. Þótt varnaraðili sé ekki með lögheimili hér á landi eru ekki nægar ástæður til að gera honum að sæta svo íþyngjandi úrræði. Á hinn bóginn þykir í ljósi málsatvika og með vísan til 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 rétt að banna honum brottför af landinu þar til dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 1. nóvember 2012 klukkan 16.

Dómsorð:

Varnaraðila, X, er bönnuð för af landinu þar til dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 1. nóvember 2012 klukkan 16.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. október 2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X, [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 9. nóvember 2012 kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að aðfaranótt 12. október sl. hafi fjarskiptamiðstöð lögreglunnar borist tilkynning um hópslagsmál á horni Bankastrætis og Lækjargötu í Reykjavík og jafnframt verið tilkynnt um að einn maður hafi verið skorinn með skærum eða hníf í átökunum. Á vettvangi hafi lögregla hitt A, B og C. Á vettvangi hafi verið mikið blóð og hafi A haldið flík þéttingsfast um enni sér en aðspurður kvaðst hann hafa verið skorinn með skærum í ennið. Hafi verið að sjá um 4 sm langan skurð á höfði A. Þá hafi B einnig verið með sjáanlega áverka á andliti.

C hafi sagst hafa verið farþegi í aftursæti bifreiðar sem B hafi ekið en A hafi setið í farþegasæti fram í bifreiðinni. Er þeir hafi stöðvað bifreiðina á rauðu ljósi á gatnamótum Bankastrætis og Lækjargötu hafi önnur bifreið stöðvað við hliðina á þeim en í þeirri bifreið hafi verið kærði, X, ásamt D og einhverjum fleiri aðilum. Þá hafi D farið út úr bifreiðinni og beðið B um að ræða við sig og er B hafi stigið út úr bifreiðinni hafi 3-4 aðilar úr hinni bifreiðinni einnig stigið út en þá hafi hann og A jafnframt farið út úr bifreiðinni sem þeir hafi setið í og þá hafi brotist út slagsmál. Hafi hann  sagt að maður sem hann þekki ekki, kærði, hafa skorið A í andlitið með skærum en hann kveðist geta þekkt hann aftur í útliti og hafi sýnt lögreglumanni mynd af kærða á Facebook. Þá hafi hann ekki séð þegar kærði hafi stungið hann heldur hafi hann allt í einu séð A útataðan í blóði og kærða með einhvern geðveikissvip, haldandi á skærum á lofti og hafi skærin öll verið blóðug.

B hafi greint frá því að hann hafi séð hvar kærði hafi dregið upp skæri og stungið A í andlitið. Hafi hann lýst því þannig að hann hafi stungið hann einhvern veginn aftur fyrir sig.

Brotaþoli, A, hafi greint svo frá að D og B hafi verið að ræða saman en kærði hafi staðið fyrir aftan D og eitthvað verið að sperra sig. Hann kveðist hafa gengið aftan að manninum og sagt við hann „eigum við ekki að leyfa þeim að tala saman tveir” en þá hafi D kýlt B. Þá hafi hann sagt þeim að vera rólegir en þá hafi kærði snúið sér við og slegið hann í ennið en hann kveðst hafa fundið eitthvað hart og blóðið farið að fossa niður. Í fyrstu hafi hann talið að hann hafi verið með hnúajárn en síðar, er hann hafi farið frá, að hann héldi á hníf, en séð svo að hann hafi haldið á skærum. Hann hafi sagt kærða hafa kýlt aftur fyrir sig og ekki einu sinni litið við heldur bara neglt aftur fyrir sig með skærunum. Hann kveðst hafa brugðist við högginu með því að beygja sig örlítið niður en telji að hefði hann ekki gert það þá, hefði hann fengið skærin í andlitið eða í augun.

Kærði hafi í skýrslutöku hjá lögreglu lýst atburðum þannig að hann hafi verið sleginn hnefahöggum umrætt sinn og síðan séð skæri detta á jörðina. Kveðst hann hafa kastað sér niður til þess að ná þeim upp og ætlað að hræða viðstadda með þeim. Kveðst hann hafa staðið upp og sveiflað hendinni og að í þeirri sveiflu hafi hann greinilega rispað brotaþola. Segi hann þetta hafa verið óvart.

Vitnið D, bróðir kærða, kveðst hafa séð hvar brotaþoli hafi misst eitthvað á vettvangi,  sem kærði hafi tekið upp, og síðan hafi orðið einhver átök þeirra í milli. Kveður hann tvo stráka hafa í kjölfarið ráðist á sig og hann hafi því ekkert séð hvað gengið hafi á milli kærða og brotaþola.

Önnur vitni, E og F, hafi borið um átök á milli manna umrætt sinn en hafi ekki orðið vitni að þeirri atlögu sem hér um ræðir.

Rannsóknin sé á lokastigi. Að mati lögreglustjóra sé kærði undir sterkum grun um að hafa framið brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem varði allt að 16 ára fangelsi. Það sé mat lögreglustjóra að hér sé um verulega fólskulega árás að ræða og virðist vera sem kærði hafi með miklu afli barið með skærunum aftur fyrir sig án þess að hafa nokkuð um það skeytt hvar höggið myndi lenda eða hvaða tjóni það myndi valda. Þyki það mildi að ekki hafi farið verr, en ljóst megi vera að atlagan hafi verið lífshættuleg. Brotaþoli hafi hlotið langan og stóran skurð á enni auk tveggja minni skurða. Blóðstilling hafi verið vandasöm og saumaskapur.

Telji lögreglustjóri brot það sem hér um ræðir vera þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Óforsvaranlegt þyki að kærði gangi laus þegar sterkur grunur leiki á að hann hafi framið svo alvarlegt brot sem honum sé gefið að sök. Þyki brotið vera þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund manna að kærði gangi laus meðan mál hans sé til meðferðar. Þá beri að líta til þess að kærði sé búsettur í Svíþjóð og telji lögreglustjóri líkur fyrir því að hann reyni að koma sér úr landi og undan refsingu fái hann að ganga laus en lögregla hafi þurft að leita hans eftir árásina og sú leit staðið í allan gærdag en að lokum hafi kærði gefið sig fram í gærkvöldi ásamt bróður sínum D.

Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af því hversu alvarlega háttsemi kærði sé sakaður um, teljist uppfyllt skilyrði til að hann sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, enda geti brotið varðað að lögum 10 ára fangelsi og sé þess eðlis að telja verði nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að kærði sæti gæsluvarðhaldi.

Sakarefni málsins sé talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, en brot gegn ákvæðinu geti varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannist. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til b. liðar 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Kærði er undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem að lögum getur varðað allt að 16 ára fangelsi. Samkvæmt greinargerð lögreglustjóra, sem jafnframt er studd framlögðum gögnum, þykir ljóst að atlaga kærða gegn brotaþola, eins og henni er lýst í gögnum málsins, var sérlega fólskuleg og hættuleg og virðist sem hending ein hafi ráðið að ekki hlaust meiri skaði af. Tekið er undir það mat lögreglustjóra að það geti strítt gegn réttarvitund almennings að kærði gangi laus meðan mál hans er til meðferðar. Eru því uppfyllt skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Kærði er með lögheimili í Svíþjóð en hefur nú flutt til móður sinnar sem býr [...], að því er fram kom fyrir dómi. Að áliti dómsins er af þeim sökum ekki talin hætta á að hann muni reyna að komast úr landi, þannig að forsvaranlegt sé að fallast á kröfuna á grundvelli b-liðar 1. mgr. 95. gr. sömu laga. Til þess ber einnig að líta að rannsókn málsins er á lokastigi. Verður kröfunni því markaður skemmri tími en krafist er, eða til fimmtudagsins 1. nóvember nk. kl. 16:00.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, X, [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 1. nóvember nk. kl. 16:00.