Hæstiréttur íslands

Mál nr. 400/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Vistun barns
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Málshraði
  • Aðfinnslur
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
  • Gjafsókn


Miðvikudaginn 24. júní 2015.

Nr. 400/2015.

Sveitarfélagið A

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

gegn

B

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

Kærumál. Börn. Vistun barns. Lögvarðir hagsmunir. Málshraði. Aðfinnslur. Frávísun frá héraðsdómi að hluta. Gjafsókn.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem felldur var úr gildi úrskurður félagsmálanefndar sveitarfélagsins A um að dóttir B skyldi vistuð utan heimilis hennar í tvo mánuði og jafnframt hafnað kröfu sveitarfélagsins um að vistun barnsins yrði framlengd í tólf mánuði. Í dómi Hæstaréttar kom fram að við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar hefði verið liðinn sá tveggja mánaða tími sem kveðið hafði verið á um í úrskurði félagsmálanefndarinnar. Af þeim sökum hefði B ekki lengur haft lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurðinn felldan úr gildi og var þeirri kröfu hennar því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi. Með hliðsjón af gögnum málsins var talið ljóst að dóttir B ætti við að etja verulega örðugleika sem meðal annars tengdust máltöku og félagsþroska hennar. Yrði stúlkunni ekki veitt viðeigandi hjálp gætu áhrif þess reynst margvísleg og langvarandi á þroska og uppvöxt hennar. Hún þarfnaðist mikillar örvunar, sem B hefði ekki reynst fær um að veita henni, væri tekið mið af þeim áætlunum, sem gerðar hefðu verið en ekki borið tilætlaðan árangur, ekki síst vegna afstöðu og aðgerðarleysis B. Teldist því fullreynt að hún gæti ekki sinnt skyldum sínum gagnvart dóttur sinni og mætt þörfum hennar sem skyldi. Þá lægi fyrir að föðurmóðir stúlkunnar hefði lýst sig reiðubúna til að hún yrði vistuð hjá sér, en það sem fram hefði komið í málinu benti til að dvöl hennar hjá ömmu sinni fyrr á árinu hefði reynst henni mjög vel. Var því fallist á þá kröfu sveitarfélagsins að heimilt væri með vísan til b. liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga að vista stúlkuna utan heimilis B lengur en tvo mánuði. Að teknu tilliti til sjónarmiða um meðalhóf skyldi vistunin þó aðeins vara í allt að átta mánuði. Loks var talið að sá dráttur sem hefði verið á meðferð málsins í héraði hefði verið aðfinnsluverður.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júní 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 2. júní 2015 þar sem felldur var úr gildi úrskurður félagsmálanefndar sóknaraðila 27. mars sama ár um að dóttir varnaraðila, C, skyldi vistuð utan heimilis hennar í tvo mánuði og jafnframt hafnað kröfu sóknaraðila um að vistun barnsins yrði framlengd í tólf mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreindur úrskurður félagsmálanefndar haldi gildi sínu og að fallist verði á þá kröfu „að fósturráðstöfun skv. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga standi í 12 mánuði frá uppkvaðningu dóms.“ 

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

I

Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar 2. júní 2015 var liðinn sá tveggja mánaða tími sem kveðið var á um í úrskurði félagsmálanefndar sóknaraðila 27. mars sama ár að gilda skyldi um vistun dóttur varnaraðila utan heimilis hennar. Af þeim sökum hafði varnaraðili ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurðinn felldan úr gildi og verður þeirri kröfu hennar því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.

II

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði munu barnaverndaryfirvöld hafa haft afskipti af málefnum dóttur varnaraðila frá því í júlí 2011 í kjölfar tilkynninga um slæman aðbúnað hennar á heimili móður sinnar, en stúlkan er fædd í mars sama ár. Í tilefni af áhyggjum yfirvalda af þroska stúlkunnar, ekki síst málþroska hennar, og félagslegum og heilsufarslegum aðstæðum hjá varnaraðila var 9. júlí 2014 gerð áætlun um meðferð máls samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga í því skyni að bæta stöðu barnsins. Áætlunin gilti frá áðurnefndum degi til 15. ágúst 2014 og skrifaði varnaraðili undir hana. Sams konar áætlanir voru síðar gerðar með samþykki varnaraðila 7. ágúst og 21. október 2014 sem tóku annars vegar til tímabilsins frá 16. ágúst til 15. október sama ár og hins vegar frá 21. þess mánaðar til 1. febrúar 2015.

Þrír starfsmenn sóknaraðila gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi, en þeir höfðu allir komið að málefnum varnaraðila og dóttur hennar á árinu 2014 og framan af árinu 2015. Í skýrslum þeirra kom meðal annars fram að aðbúnaði stúlkunnar á heimili varnaraðila hafi verið verulega ábótavant og hún alls ekki sinnt uppeldi dóttur sinnar sem skyldi, til dæmis hafi hún vanrækt að fara með stúlkuna í læknisskoðun og mæta með hana til talmeinafræðings þrátt fyrir að búið væri að panta þar tíma fyrir hana. Í september 2014 hafi komið í ljós að varnaraðili þurfti á meiri stuðningi að halda en áætlað var í fyrstu og því hafi starfsmaður sóknaraðila farið á heimili varnaraðila fimm sinnum í viku til að aðstoða hana við að sinna daglegum þörfum dóttur sinnar. Hins vegar hafi varnaraðili ekki sinnt ráðleggingum og leiðbeiningum og hún ýmist viljað fá aðstoð eða afþakkað hana.

Sóknaraðili fékk nafngreindan sálfræðing til að leggja mat á forsjárhæfni varnaraðila. Í niðurstöðum sálfræðiálitsins 20. janúar 2015 kom meðal annars fram að um væri að ræða seinfæra móður sem byggi yfir ýmsum styrkleikum í uppeldislegu tilliti. Hún hefði myndað góð tengsl við dóttur sína, sýndi henni hlýju og kærleika og beitti hana aga. Veikleikar að því er vörðuðu foreldrahæfni varnaraðila tengdust öryggi, líkamlegri umönnun og atlæti. Veikleikar í lífsstíl hennar hefðu áhrif, væntanlega til hins verra, á hana sem fyrirmynd dóttur sinnar. Varnaraðili hafi verið greind á tornæmismörkum og til þess að hún hefði vald á foreldrahlutverkinu og gæti sinnt þörfum stúlkunnar, örvað hana og veitt henni öryggi og gott atlæti þyrfti móðirin leiðsögn, en hún ætti erfitt með að meðtaka og fara eftir fyrirmælum. Hún jánkaði og samþykkti, en færi oftast sínar leiðir og væri oft tvísaga um daglegt líf og umönnun dóttur sinnar. Í lok álitsgerðar sálfræðingsins sagði: „Forsjárhæfni B er verulega skert. Hún hefur fengið margvísleg tilboð um stuðning sem ekki hafa skilað þeim árangri sem til var ætlast. Reynslan sýnir að B hefur litla getu til að nýta sér þá þjónustu sem henni stendur til boða til að styrkja stöðu sína sem foreldri. Hún á erfitt með að sjá samband milli orsakar og afleiðingar og stendur ekki við skuldbindingar sínar. Hún hefur lítið innsæi í vanda sinn, er óraunsæ, á erfitt með að standa við það sem hún segist ætla að gera og telur sig hæfari en hún í raun er til að búa barninu góðar aðstæður, öryggi, atlæti og vera góð fyrirmynd fyrir hana. Tilboð sem henni eru gerð eru ekki líkleg til að skila frekari árangri ... Mat á persónuleika og sagan sýnir að ... hún hafi ekki úthald til að ljúka því sem hún byrjar á. Frekari tilboð um stuðning og eða meðferð eru því ekki líkleg til að skila árangri. Niðurstöður greindarmats, mats á persónuleika og klínískt mat ... gefa ... ekki tilefni til að álykta að þetta muni breytast.“ Sálfræðingurinn kom fyrir dóm og staðfesti þetta álit sitt.

Hinn 24. febrúar 2015 var enn á ný gerð áætlun samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga og ástæðan sögð áhyggjur af velferð dóttur varnaraðila. Markmið áætlunarinnar var „að fullreyna stuðning barnaverndar við móður þannig að móðir nái að sinna forsjárskyldum sínum með fullnægjandi hætti.“ Síðan voru talin upp ýmis úrræði og aðgerðir til að ná því markmiði. Þar kom meðal annars fram að varnaraðili samþykkti að stúlkan færi aðra hverja helgi til stuðningsfjölskyldu, sem barnavernd útvegaði, en um væri að ræða dvöl hjá föðurmóður hennar, D. Skyldi áætlunin gilda frá áðurnefndum degi til 21. apríl 2015 og skrifaði varnaraðili undir hana. Þegar gengið var frá áætluninni mun hafa verið farið yfir það með varnaraðila að mikilvægt væri að hún færi eftir því, sem þar kæmi fram og varðaði dóttur hennar, svo sem að stúlkan færi vikulega til talmeinafræðings og á hverjum virkum degi í leikskóla. Þá mun varnaraðili hafa verið hvött til að nýta sér aðstoð sem henni byðist og fara að ráðum sem henni væru gefin. Í samantekt félagsráðgjafa sóknaraðila um tilsjón með varnaraðila á tímabilinu frá 24. febrúar til 24. mars 2015 kom fram að á þeim tíma hafi hún ekki farið eftir áætluninni, þar á meðal ekki þeim ráðleggingum sem henni voru gefnar um umönnun dóttur sinnar.

Hinn 16. mars 2015 sendi félagsmálanefnd sóknaraðila bréf til varnaraðila þar sem henni var tilkynnt að nefndin myndi taka málefni dóttur hennar til meðferðar á fundi síðar í mánuðinum. Á fundinum yrði tekið til athugunar hvort tilefni væri til að úrskurða um töku barnsins af heimili hennar og væri henni gefinn kostur á að koma að andmælum sínum við þeirri fyrirætlan nefndarinnar. Á fundi með félagsmálanefnd 26. mars 2015 lýsti varnaraðili sig andvíga því að dóttur sín yrði vistuð utan heimilis hennar. Í bréfi til nefndarinnar 27. sama mánaðar kvað varnaraðili þau skilyrði, sem sér hafi verið gert að undirgangast, bæði hafa verið umfangsmikil og íþyngjandi. Nær allar þær kröfur, sem gerðar hafi verið til sín, hafi beinst að sér og samstarfsvilja sínum, en minna hafi farið fyrir athugasemdum um líðan dóttur sinnar. Á fundi félagsmálanefndar síðar sama dag var kveðinn upp úrskurður á grundvelli b. liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga um að dóttur varnaraðila skyldi ráðstafað í fóstur í allt að tvo mánuði.

Stúlkan var vistuð hjá föðurmóður sinni frá 27. mars til 2. júní 2015 þegar hinn kærði úrskurður var kveðinn upp. Samkvæmt gögnum málsins, þar á meðal upplýsingum sem aflað var hjá sóknaraðila að frumkvæði Hæstaréttar samkvæmt 2. mgr. 56. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. barnaverndarlaga, mætti stúlkan reglulega í leikskóla á þessum tíma og starfsmenn hans sáu umtalsverða breytingu á högum hennar til hins betra, þar á meðal hefði málþroski hennar og félagsþroski eflst á þessum tíma. Þá hafi exemblettir, sem hún hafi verið með, alveg horfið. Í vottorði talmeinafræðings, sem mun hafa verið gefið í lok maí 2015, sagði að stúlkan hafi mætt vikulega í tíma frá því í byrjun apríl og væri um að ræða miklar framfarir á málþroska hennar frá þeim tíma.

Í greinargerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti er tekið fram að dóttir varnaraðila hafi ávallt þekkt föðurmóður sína og dvalist hjá henni um skemmri tíma þegar varnaraðili hafi óskað þess. Ef vista þurfi stúlkuna utan heimilis móður hennar sé það talið henni fyrir bestu að dvelja hjá ömmu sinni þar sem hún þekki allt umhverfi. Hafi amma hennar lýst sig reiðubúna að vista barnið hjá sér í allt að tólf mánuði til viðbótar ef til þess kæmi. Í greinargerðinni segir enn fremur að eftir að stúlkan hafi farið aftur heim til varnaraðila hafi móðirin ekki fengist til að gera áætlun um meðferð málsins með félagsráðgjafa, enda hafi hún ekki mætt til viðtala. Samkvæmt upplýsingum frá leikskóla hafi allt yfirbragð stúlkunnar breyst á ný eftir að hún fór aftur í umsjá móður sinnar. Breyting hafi orðið á aðbúnaði barnsins og það virðist vera mjög þreytt. Þá séu exemblettir, sem hafi verið horfnir, að koma aftur.

III

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Eftir 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, skal það sem barni er fyrir bestu ávallt hafa forgang, meðal annars þegar félagsmálastofnanir eða dómstólar gera ráðstafanir sem varða börn. Samkvæmt b. lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga getur barnaverndarnefnd, ef brýnir hagsmunir barns mæla með því, kveðið á um töku barns af heimili í allt að tvo mánuði til að tryggja öryggi þess eða til að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á barninu og veita því nauðsynlega meðferð og aðhlynningu. Þá segir í 1. mgr. 28. gr. laganna að telji barnaverndarnefnd nauðsynlegt að ráðstöfun samkvæmt b. lið 27. gr. þeirra standi lengur en þar er kveðið á um skuli hún gera kröfu um það fyrir héraðsdómi.

Með skírskotun til framangreindrar meginreglu 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga og 1. mgr. 3. gr. samningsins um réttindi barnsins skulu stjórnvöld og dómstólar ávallt hafa hagsmuni barns í fyrirrúmi þegar málefnum þess er ráðið til lykta. Þótt mikilvægt sé að varðveita tengsl barnsins við móður sína og nánustu vandamenn, eins og ráðið verður af ákvæðum laganna og samningsins, verða þeir hagsmunir að víkja fyrir brýnum hagsmunum barnsins sjálfs ef þetta tvennt fer ekki saman. Þó ber að líta til tengsla barnsins við fjölskyldu sína þegar tekin er ákvörðun um málefni þess eftir því sem unnt er.

 Af því sem rakið hefur verið að framan er ljóst að dóttir varnaraðila á við að etja verulega örðugleika sem meðal annars tengjast máltöku og félagsþroska hennar. Verði stúlkunni ekki veitt viðeigandi hjálp geta áhrif þess reynst margvísleg og langvarandi á þroska og uppvöxt hennar. Hún þarfnast mikillar örvunar, sem varnaraðili hefur ekki reynst fær um að veita henni, sé tekið mið af þeim áætlunum, sem gerðar hafa verið en ekki borið tilætlaðan árangur, ekki síst vegna afstöðu og aðgerðaleysis varnaraðila. Telst því fullreynt að hún getur ekki sinnt skyldum sínum gagnvart dóttur sinni og mætt þörfum hennar sem skyldi, sbr. 2. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga. Þá liggur fyrir að föðurmóðir stúlkunnar hefur lýst sig reiðubúna til að hún verði vistuð hjá sér, en það sem fram er komið í málinu bendir til að dvöl hennar hjá ömmu sinni fyrr á þessu ári hafi reynst henni mjög vel. Samkvæmt öllu þessu er fallist á þá kröfu sóknaraðila eftir 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga að heimilt sé með vísan til b. liðar 1. mgr. 27. gr. laganna að vista stúlkuna utan heimilis varnaraðila lengur en tvo mánuði. Að teknu tilliti til sjónarmiðs um meðalhóf, sbr. 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skal vistunin þó ekki vara lengur en átta mánuði frá uppsögu dóms þessa að telja.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður, en um gjafsóknarkostnað varnaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.

Í samræmi við 2. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga krafðist varnaraðili þess 7. apríl 2015 að úrskurður félagsmálanefndar sóknaraðila 27. mars sama ár yrði felldur úr gildi. Í XI. kafla sömu laga er mælt fyrir um meðferð slíks máls fyrir dómi. Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laganna skal héraðsdómari, þegar honum hefur borist krafa um ógildingu úrskurðar, ákveða stað og stund til þinghalds innan viku og eftir 2. mgr. sömu lagagreinar veita varnaraðila frest, sem skal að jafnaði ekki vera lengri en tvær vikur, til að leggja fram greinargerð og afla sönnunargagna. Að gagnaöflun lokinni skal mál sótt og varið munnlega að jafnaði innan tveggja vikna, sbr. 5. mgr. sömu greinar. Mál þetta var fyrst tekið fyrir á dómþingi 20. apríl 2015 og þá frestað til 4. maí sama ár. Í því þinghaldi voru lögð fram gögn og málinu síðan frestað til 18. sama mánaðar þegar aðalmeðferð skyldi háð. Þrátt fyrir það fór hún fyrst fram 28. maí 2015, þegar liðinn var sá tveggja mánaða tími sem kveðið var á um í úrskurði félagsmálanefndar, án þess að nokkur skýring væri á því gefin. Úrskurður var svo loks kveðinn upp 2. júní sama ár. Eins og mál þetta bar að hvíldi sú skylda á héraðsdómara að hraða meðferð þess svo sem kostur væri. Það gerði hann hins vegar ekki og er sá dráttur á málsmeðferð sem að framan greinir aðfinnsluverður.  

Dómsorð:

Vísað er frá héraðsdómi þeirri kröfu varnaraðila, B, að úrskurður félagsmálanefndar sóknaraðila, Sveitarfélagsins A, 27. mars 2015 verði felldur úr gildi.

Sóknaraðila er heimilt að vista C utan heimilis varnaraðila í átta mánuði frá uppsögu dóms þessa að telja.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.

Kærumálskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður varnaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 2. júní 2015.

                Með kæru dagsettri 7. apríl sl. og barst dóminum daginn eftir kærði sóknaraðili, B, kt. [...], [...], [...], úrskurð félagsmálanefndar varnaraðila, sveitarfélagsins A, kt. [...], [...], [...], frá 27. mars sl. þess efnis að dóttur sóknaraðila, C, kt. [...], skyldi ráðstafað í fóstur í allt að tvo mánuði á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Gerði sóknaraðili þá kröfu að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt reikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en sóknaraðila var veitt gjafsókn með bréfi innanríkisráðuneytisins dagsettu 10. apríl sl.

                Málið var þingfest þann 20. apríl sl. og var varnaraðila veittur frestur til að skila greinargerð til 4. maí sl. Varnaraðili skilaði greinargerð þann dag og gerði þær kröfur að kröfum sóknaraðila yrði hafnað og að fósturráðstöfun varnaraðila skv. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. úrskurð varnaraðila frá 27. mars sl., yrði framlengd í 12 mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar með vísan til 28. gr. sömu laga. Aðalmeðferð fór fram þann 28. maí sl. og var málið tekið til úrskurðar að því búnu.

Málavextir.

                Sóknaraðili er móðir og forsjáraðili C, kt. [...], en barnaverndarnefnd varnaraðila mun hafa haft afskipti af málefnum stúlkunnar frá því í júlímánuði árið 2011 í kjölfar tilkynninga um slæman aðbúnað hennar á heimili sóknaraðila. Varnaraðila virtist sóknaraðili samvinnuþýð í byrjun en þegar liðið hafi á haustið það ár hafi dregið úr samvinnu hennar. Árið 2012 hafi verið rætt margsinnis við sóknaraðila um samvinnu og mikilvægi þess að barnið fengi viðunandi umönnun. Í júlí sama ár hafi verið tilkynnt að barnið fengi ekki nóg að borða, óregla væri á svefni og þá væri barnið með brunasár á hnakka án þess að sóknaraðili gæti gefið skýringar á því. Í gögnum frá leikskóla frá árinu 2014 hafi komið fram áhyggjur af þroska barnsins, almennum þroska, málþroska og félagslegum þroska. Í samræmi við ákvæði 23. gr. laga nr. 80/2002 gerðu sóknaraðili og varnaraðili áætlun þann 9. júlí 2014 með það að markmiði að meta aðstæður og þroska stúlkunnar og leiðbeina sóknaraðila í uppeldishlutverki sínu. Þann 7. ágúst sama ár mun önnur áætlun hafa verið gerð með það markmið að leiðbeina sóknaraðila í uppeldishlutverki og veita henni stuðning í tengslum við heilsufar og fjármál, svo og að meta forsjárhæfni hennar. Munu úrræði og aðgerðir að mestu leyti hafa snúið að sóknaraðila sjálfum og samstarfsvilja hennar gagnvart barnaverndarnefnd. Gert var ráð fyrir því að starfsmaður barnaverndar færi í vikulegar heimsóknir inn á heimili sóknaraðila og gæfi ráð og leiðbeiningar varðandi uppeldi barnsins. Einnig var gert ráð fyrir aðstoð við sóknaraðila varðandi heilsubrest hennar. Þá samþykkti sóknaraðili að barnavernd myndi útvega tilsjón inn á heimilið, til að byrja með þrisvar í viku, en fljótlega hafi orðið ljóst að þörf væri á meiri aðstoð. Þann 21. október 2014 var enn gerð ný áætlun og taldi tilsjónaraðili að barnið þyrfti sérhæft mataræði vegna hægðatregðu og stöðugt eftirlit þar sem stúlkan væri orkumikil og uppátækjasöm. Það var mat tilsjónaraðila að sóknaraðili næði ekki að nýta sér stuðninginn þannig að umönnun barnsins væri fullnægjandi. Samstarfsvilji hennar hafi farið þverrandi, hún hafi oft afboðað komur tilsjónaraðila og orðið tvísaga um umönnun barnsins. Barnið hafi ekki komið í 2 og ½ árs skoðun fyrr en 3 ára og 5 mánaða og hafi þroskamat komið illa út.

                E sálfræðingur skilaði forsjárhæfnismati 20. janúar sl. Þar kemur fram að heildargreind sóknaraðila mælist á tornæmismörkum og niðurstaða persónuleikaprófs bendi til þess að áhyggjur sóknaraðila af líkamlegum einkennum séu óvenjulegar og að hún sé gagntekin af líkamlegri virkni og heilsufarsvanda sem leiði til þess að dagleg virkni hennar sé skert. Þá sýni sóknaraðili ýmis einkenni áfallastreitu en engar vísbendingar séu um áráttuhegðun eða þráhyggjuröskun. Niðurstöður prófa sýni að kvíði, erfiðleikar í félagslegum tengslum, athyglisbrestur/ofvirkni og andfélagsleg hegðun sé í meðallagi en niðurstöður bendi til þess að sóknaraðili þurfi meðferð vegna depurðar og líkamlegra einkenna. Matsmaður telur sóknaraðila þurfa leiðsögn til þess að valda foreldrahlutverkinu, geta sinnt þörfum stúlkunnar, örvað hana, veitt henni öryggi og gott atlæti. Matsmaður útskýrði nánar niðurstöður sínar og taldi sóknaraðila hafa nýtt illa þau úrræði sem henni hafi verið boðin. Taldi matsmaður frekari tilboð um stuðning og/eða meðferð ekki líkleg til þess að skila árangri. Sóknaraðili hefði lítið innsæi í vanda sinn, hún sé óraunsæ og eigi erfitt með að standa við orð sín. Það sé því niðurstaða matsmanns að forsjárhæfni sóknaraðila sé verulega skert þar sem hún taki ekki við þeim stuðningi sem henni sé boðinn. Megi því leiða líkur að því að eftir því sem stúlkan eldist skerðist hún enn meira og af þeim sökum sé heilsu stúlkunnar og þroska hætta búin í umsjá sóknaraðila.

                Þann 24. febrúar 2015 var enn skrifað undir áætlun samkvæmt 23. gr. sömu laga og átti þá að fullreyna stuðning barnaverndar við sóknaraðila en hún benti á það að áætlunin væri einstaklega viðamikil og íþyngjandi. Hafi verið krafist daglegs eftirlits, bæði boðaðs og óboðaðs, reglulegra funda, áskilnaðar um samstarfsvilja, mætingar til sálfræðings og í starfsendurhæfingu og samþykkis fyrir því að barnið dveldist aðra hverja helgi hjá stuðningsfjölskyldu. Á fundi félagsmálanefndar þann 26. mars sl. var tekið til skoðunar hvort nauðsynlegt væri að vista barnið utan heimilis með vísan til b-liðar 1. mgr. 27. gr. laga nr. 80/2002. Sóknaraðili mótmælti þessum áformum en daginn eftir var sú ákvörðun tekin að stúlkunni skyldi ráðstafað í fóstur í allt að tvo mánuði með vísan til framangreindra lagaákvæða. Í framhaldi af þessu hefur lögmanni varnaraðila verið falið að gera kröfu um að ráðstöfunin stæði lengur eða í allt að eitt ár.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila.

                Sóknaraðili byggir á því að engin nauðsyn hafi borið til þess að beita svo íþyngjandi úrræði sem kveðið sé á um í b-lið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 80/2002, enda skorti á það frumskilyrði að brýnir hagsmunir barnsins krefjist þess. Því sé um ólögmæta ákvörðun að ræða sem fella beri úr gildi.

                Sóknaraðili bendir í fyrsta lagi á að málefni hennar og dóttur hennar hafi verið til meðferðar hjá barnaverndarnefnd allt frá fæðingarári stúlkunnar. Sumarið 2014 hafi nefndin farið að hlutast til um gerð áætlana í samráði við sóknaraðila sem snúið hafi að leiðbeiningum við hana í uppeldishlutverki og stuðning og ráðgjöf varðandi heilsufarslegar og félagslegar aðstæður. Sá langi tími sem málið hafi verið til meðferðar sýni að engin nauðsyn hafi borið til þess að úrskurða um vistun stúlkunnar utan heimilis sóknaraðila. Hafi nefndin talið að hagsmunum hennar væri hætta búin hjá sóknaraðila hefði nefndin þurft að bregðast við mun fyrr. Það hafi ekki verið gert og staðfesti það að ekki hafi verið talið að hagsmunum stúlkunnar hafi verið hætta búin í umsjá sóknaraðila.

                Í öðru lagi er byggt á því málsmeðferðartíminn sé í skýrri andstöðu við meginreglur stjórnsýsluréttar um hraða málsmeðferð, sbr. 9. gr. laga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 80/2002. Af síðargreindu ákvæði leiði að varnaraðila hafi verið óheimilt að beita úrræðinu enda skýrlega tekið fram að ákvörðun um beitingu viðeigandi úrræða skuli að jafnaði liggja fyrir innan þriggja mánaða og eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að ákvörðun hafi verið tekin um að hefja könnun á máli. Sé ákvörðunin því ólögmæt, hvort sem miðað verði við að könnun hafi hafist árið 2011 eða í júlí 2014.

                Þá byggir sóknaraðili á því að meðferð málsins sé í andstöðu við réttmætisreglu og rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Athygli barnaverndarnefndar hafi nær eingöngu beinst að sóknaraðila sjálfum en ekki að aðbúnaði dóttur hennar á heimili sóknaraðila. Hafi sóknaraðili þurft að gangast undir umfangsmiklar og íþyngjandi kröfur sem lotið hafi að nærri öllum þáttum daglegs lífs  hennar, hún hafi þurft að sæta daglegu eftirliti, boðuðu og óboðuðu og þá hafi henni verið gert að mæta reglulega á fund nefndarinnar og til félagsráðgjafa. Þá hafi henni verið gert að leita til sálfræðings og til VIRK starfsendurhæfingar. Þessi viðamiklu afskipti séu í andstöðu við 4. mgr. 4. gr. laga nr. 80/2002, þau hafi valdið sóknaraðila verulegri vanlíðan, kvíða og skerðingu á lífsgæðum hennar. Þá hafi hagsmunir barnsins fallið í skuggann af togstreitu milli sóknaraðila og barnaverndarnefndar. Sóknaraðili viðurkennir fúslega að ýmislegt megi betur fara í heimilishaldi eins og raunin sé hjá fleirum. Geti skoðanir barnaverndaryfirvalda á hegðun og heimilishaldi ekki ráðið því  hvort nauðsynlegt sé að vista dóttur hennar utan heimilis og þá geti skortur á samstarfsvilja af hálfu sóknaraðila ekki verið grundvöllur slíkrar ráðstöfunar, sbr. 1. mgr. 4. gr. sömu laga. Ótækt sé að byggja jafn íþyngjandi úrræði á slíkri málsmeðferð sem aldrei geti gefið rétta mynd af líðan og aðbúnaði barnsins. Nefndin geti ekki lagt að jöfnu hve vel sóknaraðila hafi tekist að fara eftir kröfum og skilyrðum nefndarinnar og hæfni hennar til að annast um dóttur sína. Sé því ljóst að úrskurðurinn byggi á ómálefnalegum og ólögmætum sjónarmiðum að þessu leyti og sé þar með í andstöðu við réttmætisreglu íslensks stjórnsýsluréttar. Hafi verulega skort á að fullnægjandi rannsókn hafi farið fram á aðbúnaði og líðan dóttur sóknaraðila en það sé í andstöðu við 10. gr. laga nr. 37/1993, sbr. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 80/2002.

                Sóknaraðila virðist að þær áhyggjur sem barnaverndaryfirvöld hafi einna helst af dóttur hennar lúti einkum að mál- og félagsþroska stúlkunnar. Þá hafi komið fram áhyggjur af líkamlegum þroska hennar. Óumdeilt sé að stúlkan sé á eftir jafnöldrum sínum að því er þetta varði en það verði ekki undir nokkrum kringumstæðum rakið til sóknaraðila eða umönnunar hennar. Gögn málsins sýni að stúlkan taki verulegum framförum í bæði mál- og félagsþroska, staða hennar í barnahópi í leikskólanum sé góð og hún sé vinsæl í hópnum. Henni gangi mun betur að taka þátt í leikjum eftir að hún hafi byrjað að tala og getað tjáð sig og þá sé orðaforði hennar að aukast. Stúlkunni líði vel og tengsl hennar við sóknaraðila séu mikil og góð. Þá sé tekið fram í bréfi frá leikskóla hennar að ekki sé annað að sjá en að henni líði vel þar. Hún komi glöð í leikskólann og þá sé hún glöð þegar sóknaraðili sæki hana í lok dags. Gögn  málsins sýni einnig að sóknaraðila þyki mjög vænt um dóttur sína og sýni henni ástúð og hlýju. Það sé í samræmi við forsjárhæfnismat E en þar komi fram að ekki sé annað að sjá en að sóknaraðili hafi tengst dóttur sinni góðum geðtengslum, sinni grunnþörfum hennar og að stúlkan hafi myndað öryggistengsl. Þá séu þeir sem þekki til sóknaraðila sem móður sammála um að hún hafi sinnt dóttur sinni vel og að góð tengsl séu milli þeirra.

                Sóknaraðili byggir á því að ljóst sé að hagsmunir stúlkunnar hafi ekki staðið til umræddrar ákvörðunar og verði að hafa í huga hvað barninu sé fyrir bestu, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 76/2003. Það sé henni fyrir bestu að dvelja á heimili sóknaraðila þar sem hún fái notið þeirrar ástúðar og umhyggju sem henni sé nauðsynleg. Þá sé veruleg hætta á að vistun stúlkunnar utan heimilis verði fremur til ills en góðs. Úrskurðurinn sé því rangur og í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1993 og 7. mgr. 4. gr. laga nr. 80/2002, enda hefði auðveldlega mátt grípa til vægari úrræða en að vista stúlkuna utan heimilis.

                Sóknaraðili telur þá annmarka á forsjárhæfnismati E að það grundvallist að mestu á þáttum sem varði sóknaraðila og þá einkum vilja hennar til samstarfs og að taka ráðleggingum frá barnaverndaryfirvöldum. T.d. séu gerðar athugasemdir við reykingar sóknaraðila og með hvaða hætti hún hagi fjármálum sínum, jafnvel fundið að því að hún noti ekki innlegg í skó sína. Slík sjónarmið geti ekki verið grundvöllur ákvörðunar um að vista barnið utan heimilis, enda verður ekki gripið til slíks úrræðis nema brýnir hagsmunir barnsins krefjist þess. Leiði þessi annmarki á forsjárhæfnismatinu til þess að ekki hafi verið tækt að byggja á niðurstöðu við við hina umþrættu ákvörðun.

                Sóknaraðili byggir á ákvæðum barnaverndarlaga nr. 80/2002, einkum 4., 23., 24., 25., 26. 27., 38. og 41. gr. laganna. Þá vísar sóknaraðili til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 9., 10., 12. og 13. gr. laganna. Þá vísar sóknaraðili til meginreglna stjórnsýsluréttar og barnaréttar, sem og til barnalaga nr. 76/2003, einkum 1. gr. laganna. Þá er vísað til stjórnarskrárinnar og ákvæða Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, sbr. XI. kafla laga nr. 80/2002.

Málsástæður og lagarök varnaraðila.

                Varnaraðili byggir á því að ljóst sé af gögnum málsins að barnið hafi dregist verulega aftur úr jafnöldrum sínum í þroska, málþroska, félagslegum þroska og almennum þroska. Ítrekað hafi verið reynt að fá sóknaraðila til þess að vera í samvinnu við starfsmenn barnaverndar um örvun barnsins heima fyrir og mætingu í nauðsynleg stuðningsúrræði, s.s. til talmeinafræðings en án árangurs. Í þessu ljósi hafi verið talið nauðsynlegt að barnið færi í tímabundið fóstur þannig að hægt væri að fylgja því eftir að það fengi þá aðstoð sem þyrfti til þess að ná fullnægjandi árangri. Sé vandi barnsins stærri en svo að tveir mánuðir séu nægur tími til þess og því sé gerð krafa um lengri vistun barnsins utan heimilis skv. 28. gr. laga nr. 80/2002. Á þeim tíma gæfist sóknaraðila einnig tækifæri til þess að styrkja stöðu sína sem uppeldisaðila og sýna samvinnu við barnavernd þannig að hún geti verið fær um að veita barninu viðunandi uppeldisaðstæður til framtíðar.

                Varnaraðili byggir á því að á þeim stutta tíma sem barnið hafi verið í fóstri hafi það tekið nokkrum framförum að mati talmeinafræðings. Þá sjái starfsmenn leikskóla mikla breytingu á stúlkunni, hún virðist í betra jafnvægi og greinilegt að regla sé komin á svefn og matartíma. Hafi henni farið fram í málþroska á þessum stutta tíma og í félagslegum samskiptum. Þá séu horfin sár sem barnið hafi verið með undir hári og bak við eyru.

                Starfsmenn barnaverndar merki jákvæðar breytingar á sóknaraðila eftir að barnið var vistað utan heimilis. Hún leiti meira til félagsráðgjafa og sýni frumkvæði að því að hafa samband og leita eftir aðstoð. Þrátt fyrir þetta sé það mat varnaraðila að mikið verk sé óunnið til að sóknaraðili geti boðið dóttur sinni viðunandi uppeldisaðstæður.

Niðurstaða.

                Samkvæmt b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 getur barnaverndarnefnd, ef brýnir hagsmunir barns mæla með því, kveðið á með úrskurði gegn vilja foreldra um töku barns af heimili í allt að tvo mánuði. Hefur varnaraðili beitt þessari heimild gagnvart dóttur sóknaraðila og jafnframt gert þá kröfu hér fyrir dómi að vistunin verði framlengd í allt að tólf mánuði með vísan til 1. mgr. 28. gr. sömu laga, en umræddur tveggja mánaða tími er nú liðinn. Sóknaraðili telur enga nauðsyn hafa borið til þess að vista dóttur sína utan heimilis. Verulega skorti á að brýnir hagsmunir barnsins kalli á slíka ráðstöfun og þá telur sóknaraðili að um verulega íþyngjandi úrræði sé að ræða sem feli í sér verulegt inngrip í einkalíf og friðhelgi sóknaraðila. Varnaraðili byggir á því að ljóst sé af gögnum málsins að barnið hafi dregist verulega aftur úr jafnöldrum sínum í þroska, málþroska, félagslegum þroska og almennum þroska. Ítrekað hafi verið reynt að fá sóknaraðila til þess að vera í samvinnu við starfsmenn barnaverndar um örvun barnsins heima fyrir og mætingu í nauðsynleg stuðningsúrræði. Varnaraðili byggir á forsjárhæfnismati E sálfræðings frá 20. janúar sl. en hún kemst að þeirri niðurstöðu að forsjárhæfni sóknaraðila sé verulega skert. Hún hafi litla getu til að nýta sér þá þjónustu sem henni standi til boða til að styrkja stöðu sína sem foreldri. Tilboð sem henni séu gerð séu ekki líkleg til að skila frekari árangri. Matsmaður tekur þó fram að sóknaraðili búi yfir ýmsum styrkleikum í uppeldislegu tilliti, hún hafi myndað góð geðtengsl við dóttur sína, sýni henni hlýju og kærleika og beiti aga. Ekki er á því byggt í máli þessu að barnið sæti ofbeldi á heimilinu af hálfu sóknaraðila eða annarra og þá virðist sóknaraðili ekki glíma við vandamál sem tengja má við áfengis- eða vímuefnaneyslu. Þá er ekki annað að sjá en að barninu líði vel á heimili sóknaraðila. Hins vegar kemur fram í gögnum málsins að heimili sóknaraðila sé ósnyrtilegt og jafnframt að henni gangi illa að halda þar í horfinu. Þau vandamál sem barnið glímir við eru samkvæmt gögnum málsins á engan hátt sóknaraðila að kenna heldur eru þau líffræðilegs eðlis. Hins vegar er ljóst að sóknaraðili má sinna betur þörfum barnsins, sem er eftirbátur jafnaldra sinna í ýmsu tilliti, með því að nýta þau stuðningsúrræði sem barninu og sóknaraðila standa til boða.

                Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að hagsmunir dóttur sóknaraðila séu það brýnir að nauðsyn hafi borið til þess að taka hana af heimili sóknaraðila í allt að tvo mánuði.Voru því ekki lagaskilyrði til þess að beita b-lið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 80/2002 gagnvart sóknaraðila og dóttur hennar og ber því að fallast á þá kröfu sóknaraðila að framangreindur úrskurður frá 27. mars 2015 verði felldur úr gildi. Með sömu rökum ber að hafna því að fósturráðstöfunin verði framlengd í 12 mánuði eins og varnaraðili krefst.

                Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

                Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Teits Más Sveinssonar hdl., sem með hliðsjón af vinnuframlagi hans þykir hæfilega ákveðin 1.200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. 

                Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan. 

Úrskurðarorð:  

                Felldur er úr gildi úrskurður félagsmálanefndar Sveitarfélagsins A frá 27. mars 2015 um að C, dóttur sóknaraðila, B, skyldi ráðstafað í fóstur í allt að tvo mánuði. Einnig er hafnað kröfu varnaraðila þess efnis að fósturráðstöfunin verði framlengd í 12 mánuði.

                Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Teits Más Sveinssonar hdl., 1.200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.