Hæstiréttur íslands
Mál nr. 150/2006
Lykilorð
- Bifreið
- Umferðarlög
- Skaðabótamál
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 9. nóvember 2006. |
|
Nr. 150/2006. |
Bjarkar Sæbjörn Adolfsson(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Kristín Edwald hrl.) |
Bifreiðir. Umferðarlög. Skaðabótamál. Vátrygging. Sératkvæði.
B varð fyrir slysi er hann var að losa óökufæra bifreið frá dráttarbifreið sinni. Deilt var um hvort slysið væri bótaskylt úr ökumannstryggingu dráttarbifreiðarinnar á grundvelli 2. mgr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Slysið varð með þeim hætti að hluti dráttarútbúnaðar bifreiðarinnar slengdist af miklu afli í B. Umræddur búnaður mun hvorki hafa verið knúinn sérstaklega af aflvél dráttarbifreiðarinnar né verið áfastur við hana. Hann var eigi að síður hluti af sérhæfðum fylgibúnaði slíkra dráttarbifreiða og meðal annars notaður þegar dregnar eru bifreiðar með laskaðan hjólabúnað. Hæstiréttur taldi losun bifreiðar frá dráttarbifreið vera þátt í notkun hennar. Yrði því talið að slys B hefði orsakast af notkun tækis sem heyrði til nauðsynlegs útbúnaðar dráttarbifreiðar til venjulegra nota bifreiðarinnar sem dráttarbifreiðar. Taldist B hafa verið við stjórn bifreiðarinnar í skilningi 92. gr. umferðarlaga þegar slysið varð. Bar S því fébótaábyrgð á tjóni hans. Krafa S um lækkun bótagreiðslna á grundvelli 2. mgr. 2. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 var of seint fram komin og gegn mótmælum B kom hún ekki til álita í málinu hvað varðaði aðalsök.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. mars 2006. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 13.784.757 krónur nú með 4,5% ársvöxtum frá 10. maí 1999 til 27. júní 2003 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum var veitt á báðum dómstigum.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður fyrir Hæstarétti felldur niður.
Eins og nánar er rakið í héraðsdómi varð áfrýjandi fyrir slysi er járnstöng, á útbúnaði sem notaður er við flutning óökufærra bifreiða, skall á hann. Um er að ræða hjólastell sem nefnt er „dolly“. Aðilar máls eru sammála lýsingu héraðsdóms á umræddum búnaði að öðru leyti en því, að áfrýjandi kveður annars vegar ekki hafa þurft að setja sérstaka öryggisfestingu á þegar búnaðinum hafði verið lyft, heldur hafi hún læst sjálfkrafa og hins vegar hafi stöng sú sem skall á áfrýjanda einnig verið notuð við vissar aðstæður til þess að slaka niður búnaðinum en ekki einvörðungu til að hífa hann upp. Er hvort tveggja í samræmi við framburð áfrýjanda og vætti Hennings Ólafssonar sem einnig vann hjá fyrirtækinu. Umræddur búnaður er hvorki knúinn sérstaklega af aflvél dráttarbifreiðarinnar né er hann áfastur við hana. Hann fylgir hins vegar dráttarbifreiðum eins og þeirri sem áfrýjandi átti og vann við og er hluti af sérhæfðum fylgibúnaði slíkra dráttarbifreiða. Hann er nauðsynlegur þegar dregnar eru bifreiðar með laskaðan hjólabúnað, eins og var í tilviki því sem hér um ræðir. Eins og fram kemur í héraðsdómi hafði áfrýjandi dregið skemmda bifreið á áfangastað og var að losa hana frá dráttarbifreiðinni er slysið varð. Mun þverbiti á dráttarbúnaðinum hafa setið fastur undir hinni löskuðu bifreið er hún var látin síga. Þurfti áfrýjandi því að hífa bifreiðina upp á nýjan leik til þess að ná búnaðinum undan, en fram er komið í málinu að þetta komi stundum fyrir við affermingu eða losun bifreiðar. Var affermingu bifreiðarinnar því ekki lokið þegar slysið varð. Afferming skemmdrar bifreiðar frá dráttarbifreið er þáttur í notkun þeirrar síðarnefndu. Samkvæmt framanrituðu varð slys áfrýjanda við notkun tækis sem heyrði til eðlilegs og nauðsynlegs búnaðar dráttarbifreiðar og við venjubundin not hennar sem slíkrar. Áfrýjandi átti dráttarbifreiðina og notaði hana í rekstri sínum. Í umrætt sinn var hann að afferma laskað ökutæki sem hann var að flytja með dráttarbifreiðinni og var því við stjórn hennar í skilningi 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Eins og aðstæðum er hér háttað skulu stefndu bera fébótaábyrgð á tjóni áfrýjanda samkvæmt 2. mgr. 92. gr., sbr. 88. gr. umferðarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 32/1998.
Eins og áður er rakið var áfrýjandi við venjubundna notkun á ökutækinu er slysið varð og er ósannað að hann hafi sýnt af sér ógætni eða staðið ranglega að verki. Verður því ekki fallist á með stefnda að áfrýjandi eigi að bera tjón sitt að einhverju leyti sjálfur.
Málatilbúnaður áfrýjanda er um sumt óljós en af stefnu í héraði verður ekki annað ráðið en að kröfugerð hans miðist við skaðabótalög nr. 50/1993 eins og þau voru áður en breytingarlög nr. 37/1999 tóku gildi. Lög þau höfðu hins vegar öðlast gildi er umrætt slys varð. Með þeim breytingarlögum var aukið við frádrátt vegna greiðslu frá þriðja manni samkvæmt 2. mgr. 2. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga og hækkuðu ársvextir samkvæmt 16. gr. þeirra úr 2% í 4,5%. Í greinargerð sinni í héraði krafðist stefndi til vara lækkunar á dómkröfu. Í rökstuðningi hans vegna kröfugerðar var þó ekki minnst á frádrátt samkvæmt framangreindum lagaákvæðum þar um, heldur lækkunar einungis krafist á þeim grunni að örorka áfrýjanda væri metin of mikil og að tekjuviðmið væri óljóst. Í þinghaldi 3. september 2004 lagði áfrýjandi fram skriflega sókn og lækkaði upphaflega dómkröfu sína með tilliti til tekjuviðmiðs. Í þinghaldi 10. september 2004 voru að beiðni stefnda dómkvaddir matsmenn sem skiluðu mati 29. desember það ár. Þar var varanleg örorka áfrýjanda hækkuð úr 65% í 75%, en annað var óbreytt frá fyrra áliti lækna um tjón hans. Það var fyrst í þinghaldi 15. apríl 2005, um ári eftir þingfestingu málsins, að bókuð var af hálfu stefnda áskorun til áfrýjanda um að upplýsa um greiðslur er dragast ættu frá skaðabótum samkvæmt framangreindum lagaákvæðum. Af hálfu áfrýjanda var bókað að umbeðinna gagna yrði aflað en að þau væru þýðingarlaus þar sem stefndi hefði ekki gert kröfu um að greiðslur þessar yrðu dregnar frá skaðabótum. Með framhaldsstefnu birtri 26. apríl 2005 krafðist áfrýjandi mismunar á grundvelli hinnar nýju matsgerðar. Var stefnufjárhæð í framhaldssök 1.560.809 krónur að höfuðstól en nú krafðist áfrýjandi 4,5% ársvaxta á þá fjárhæð frá stöðugleikapunkti 10. desember 1999 til 27. júní 2003 og dráttarvaxta eftir það. Í greinargerð sinni í framhaldssök hafði stefndi fyrst formlega uppi varnir reistar á þeim sjónarmiðum sem hann hafði látið bóka um í þinghaldinu 15. apríl 2005.
Samkvæmt héraðsdómi krafðist áfrýjandi einungis 2% ársvaxta á höfuðstól samanlagðrar kröfu sinnar frá 10. maí 1999 til 27. júní 2003 og var ekki í dóminum getið að höfuðstóll kröfu samkvæmt framhaldssök skyldi bera 4,5% vexti, þrátt fyrir framanritað. Þá var krafa um 2% ársvexti á allan höfuðstól umrætt tímabil ítrekuð af hálfu áfrýjanda, bæði í áfrýjunarstefnu og greinargerð hans fyrir Hæstarétti. Krafa hans um 4,5% ársvexti umrætt tímabil á alla fjárhæðina kom hins vegar fram við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti. Samkvæmt öllu framanrituðu og með hliðsjón af 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður ekki byggt á þessari breytingu á kröfugerð áfrýjanda við úrslausn málsins fyrir Hæstarétti.
Þrátt fyrir að málatilbúnaður áfrýjanda í stefnu í aðalsök í héraði hafi verið með þeim hætti sem að framan er lýst var stefnda unnt að krefjast í greinargerð í aðalsök lækkunar bóta á grundvelli greiðslu frá þriðja manni. Eins og áður er rakið gerði hann það ekki fyrr en löngu síðar. Hér er um að ræða sakarefni sem stefndi hefur ráðstöfunarrétt á og gegn mótmælum áfrýjanda koma mótbárur hans ekki til álita að því marki sem þær teljast of seint fram bornar. Andmæli stefnda á þessum grunni við kröfu í aðalsök voru of seint fram komin. Hins vegar hafði stefndi uppi slíkar varnir í greinargerð í framhaldssök og verða þær að fullu teknar til greina að því er þá fjárhæð varðar er í framhaldssök greinir. Upplýst er að áfrýjandi naut verulega hærri greiðslu úr almannatryggingum og lífeyrissjóðum en sem nemur fjárhæð kröfu í framhaldssök, eða 5.641.484 krónur. Kemur því sú fjárhæð til frádráttar sem nemur fjárhæð framhaldssakar.
Samkvæmt öllu framanrituðu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 12.223.948 krónur (13.784.757 krónur - 1.560.809 krónur) með vöxtum eins og greinir í dómsorði.
Áfrýjanda var veitt gjafsókn í málinu bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Verður gjafsóknarkostnaður hans á báðum dómstigum ákveðinn í einu lagi svo sem greinir í dómsorði.
Stefndi verður dæmdur til að greiða í ríkissjóð málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Verður hann ákveðinn í einu lagi eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði áfrýjanda, Bjarkari Sæbirni Adolfssyni, 12.223.948 krónur með 2% ársvöxtum frá 10. maí 1999 til 27. júní 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, samtals 1.200.000 krónur.
Stefndi greiði í ríkissjóð málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 1.200.000 krónur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Í máli þessu reynir á, hvort slys áfrýjanda verði rakið til notkunar ökutækis hans VS 786 í skilningi 2. mgr. 92. gr. sbr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum, en það er skilyrði fyrir rétti hans til greiðslu úr slysatryggingu ökumanns, sem skylt er að kaupa samkvæmt 91. gr. laganna, að svo verði talið.
Í dómaframkvæmd hefur ekki verið fallist á að slys á mönnum sem vinna við kyrrstæð ökutæki verði talin stafa af notkun þeirra, nema rekja megi slys til notkunar á vélarafli ökutækjanna, sbr. dóma réttarins í dómasafni 1995, bls. 1727 og 1996, bls. 765 eða að öðrum sérstökum hættueiginleikum þeirra verði um slys kennt, sbr. dómasafn 1996, bls. 3141 og 2002, bls. 4254. Verði slys við sjálfstæðan búnað sem tengdur er við ökutæki hefur verið talið að ekki sé um notkun ökutækis að ræða í skilningi lagaákvæðanna, jafnvel þótt búnaðurinn hafi verið knúinn áfram af vélarafli þess, sjá dómasafn 1999, bls. 4983.
Áfrýjandi slasaðist er hann vann við að losa bifreið af dráttarbúnaði sem var laus frá bifreið hans og var ekki knúinn áfram af vélarafli hennar. Er með vísan til fyrrnefndrar dómaframkvæmdar ekki unnt að fallast á að slysið hafi hlotist af notkun bifreiðarinnar í skilningi lagaákvæðanna. Ég tel því að staðfesta beri hinn áfrýjaða dóm um sýknu stefnda, málskostnað og gjafsóknarkostnað. Miðað við málsatvik tel ég að fella beri niður málskostnað fyrir Hæstarétti en dæma áfrýjanda gjafsóknarkostnað úr ríkissjóði, þar með talda þóknun lögmanns hans, sem hæfileg telst 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 9. nóvember sl., er höfðað með stefnu birtri 12. mars 2004.
Stefnandi er Bjarkar Sæbjörn Adolfsson, Borgarvegi 50, Njarðvík.
Stefndi er Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda 13.784.757 krónur með 2% ársvöxtum frá 10. maí 1999 til 27. júní 2003, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda, líkt og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og dæmdur málskostnaður.
Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar, málskostnaður falli niður og dráttarvextir einungis dæmdir frá dómsuppsögudegi.
MÁLSATVIK
Stefnandi lýsir málasatvikum svo að hann hafi lent í alvarlegu umferðarslysi þann 10. maí 1999, er hann var við stjórn dráttarbifreiðarinnar VS-786, sem sé í eigu hans.
Dráttarbifreiðin VS-786 sé útbúin með krana til að draga óökufærar bifreiðar. Auk hans sé sérstök dráttarkerra (svokölluð „Dollý“) á bifreiðinni, sem sé sett undir framhjólabúnað óökufærra bifreiða, ef framhjólabúnaður bifreiðanna sé ekki í lagi. Nauðsynlegt sé að spenna hjól dráttarkerrunnar upp með járnstöng til að hífa bifreið með ónýtan framhjólabúnað upp á kerruna. Stöngin sé notuð til að hækka og lækka festingar kerrunnar og sé nauðsynlegur hluti dráttarkerrunnar. Þegar bifreið hafi verið komið fyrir á kerrunni sé járnstöngin fjarlægð.
Slysið hafi viljað þannig til að stefnandi var að vinna við dráttarfestingar á dráttarkerru bifreiðarinnar, fyrrnefnda „Dollý“. Stefnandi hafi dregið bifreið með ónýtan framhjólabúnað á áfangastað og verið búinn að lækka dráttarkerruna til að losa bifreiðina af henni. Það næsta sem stefnandi hafi ætlað að gera hafi verið að losa þverbita dráttarkerrunnar undan bifreiðinni, en bitinn þá setið fastur. Hafi stefnandi því neyðst til að lyfta bifreiðinni upp á dráttarkerruna að nýju, til að losa þverbitann. Stefnandi hafi komið dráttarkerrunni aftur undir bifreiðina, með vogarstangarafli líkt og ætíð sé gert þegar bifreið sé lyft upp á dráttarkerruna. Það sé gert með því að snúa hjólum dráttarkerrunnar undir bifreiðina með járnstönginni. Er stefnandi hafi lokið við að lyfta bifreiðinni upp á dráttarkerruna að nýju hafi ekki viljað betur til en svo að járnstöngin hafi losnað úr spennustöðu og slengst upp af miklu afli. Stöngin hafi lent í höfði stefnanda, sem hafi kastast við það aftur fyrir sig og misst meðvitund. Þegar stefnandi hafi rankað við sér hafi hann legið um tvo metra frá dráttarbifreiðinni.
Afleiðingar slyssins séu í stuttu máli þær að stefnandi sé með stöðugan höfuðverk, hann þjáist af miklum geðbrigðum í kjölfar slyssins, sem lýsi sér í depurð, kvíða, minnisleysi og framtaksleysi. Hann hafi auk þess óþægindi á milli herðablaða og upp í háls, verki og stirðleika í báðum öxlum og þjáist af svefnleysi.
Tímabundnar og varanlegar afleiðingar slyssins hafi verið metnar af læknunum Leifi Dungal og Sigurjóni Sigurðssyni, með matsgerð dags. 27. maí 2003. Niðurstaða þeirra sé að stefnandi hafi verið óvinnufær og veikur í sjö mánuði frá slysdegi, varanlegur miski hans sé 40% og varanleg örorka 65%.
Stefndi hafi ekki sætt sig við niðurstöður læknanna og óskaði hann eftir dómkvaðningu matsmanna til að meta afleiðingar slyssins. Skiluðu þeir matsgerð þann 29. desember 2004 og var niðurstaða þeirra að öllu leyti sú sama og Leifs Dungals og Sigurjóns Sigurðssonar, nema hvað þeir mátu varanlega örorku stefnanda 75%.
Stefndi hafnaði því að auknar kröfur stefnanda vegna matsgerðar dómkvaddra matsmanna kæmust að fyrir dómi í málinu og höfðaði stefnandi því framhaldssök með stefnu birtri 26. apríl 2004.
Bifreiðin VS-786 er tryggð lögboðinni slysatryggingu ökumanns hjá stefnda. Stefndi hefur hins vegar neitað því að bera bótaábyrgð á slysinu og höfðaði því stefnandi dómsmál þetta til innheimtu skaðabóta vegna umferðarslyssins.
Stefnandi tekur fram að málavöxtum sé ekki rétt lýst í vottorði Garðars Guðmundssonar, læknis, dags. 15. september 2000. Í vottorði læknisins segi að stefnandi hafi verið við störf „undir bíl“ þegar slysið hafi átt sér stað. Hið rétta sé að stefnandi hafi staðið við dráttarkerruna og verið að koma hjólafestingum dráttarkerrunnar undir óökufæra bifreið, í því skyni að losa svo bifreiðina af kerrunni. Við það hafi losnað spenna af járnstönginni á kerrunni og stöngin slengst upp, eins og sjáist á ljósmyndum sem liggja frammi í málinu. Stefnandi hefði ekki getað fengið hana í höfuðið hefði hann verið undir bifreiðinni. Stefnandi hafi kastast aftur á bak við höggið og lent um tvo metra frá dráttarbifreiðinni. Slíkt sé ómögulegt hefði hann legið undir bifreiðinni.
MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK
Stefnandi byggir á því að slys hans sé bótaskylt úr ökumannstryggingu bifreiðarinnar VS-786, sem sé sérútbúin dráttarbifreið, sbr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Því til stuðnings er í fyrsta lagi bent á, að dráttarfestingar séu eðlilegur tengibúnaður og nauðsynlegur hluti af bifreiðinni og starfrækslu hennar sem dráttarbifreiðar. Vinna ökumanns við þann búnað sé nauðsynlegur og alveg óhjákvæmilegur hluti af störfum ökumanns dráttarbifreiðarinnar í skilningi 92. gr. umferðarlaga, og í svo nánum tengslum við akstur og notkun bifreiðarinnar, að hún falli, rétt eins og aksturinn sjálfur, undir notkunarhugtak 2. mgr. 92. gr. sbr. 88. gr. umferðarlaga.
Sérstaklega er vísað til þess að með breytingum á 92. gr. umferðarlaga, með lögum nr. 32/1998, hafi verið stefnt að því marki að auka vátryggingarvernd vátryggingartaka sem slasist í eigin bifreið. Hin sérstaka slysatrygging skv. 92. gr. umferðarlaga, sem áður hafi aðeins tekið til ökumanns, hafi einnig verið látin ná til vátryggingartaka er slasist „sem farþegi í eigin ökutæki eða af völdum þess", sbr. 3. mgr. 92. gr. umferðarlaga. Með breytingunni hafi staða ökumanns verið gerð sambærileg stöðu tjónþola sem eiga skaðabótakröfu skv. 88. gr. umferðarlaga.
Líkt og losun og lestun vörubifreiðar sé þáttur í notkun hennar, sé losun og lestun dráttarbifreiðar þáttur í notkun hennar. Dráttarkerra fyrir framhjólabúnað óökufærra bifreiða sé nauðsynlegur hluti af dráttarbifreiðinni. Án þess búnaðar væri ekki unnt að flytja bifreiðar með ónýtan framhjólabúnað. Járnstöngin sem slegist hafi í stefnanda sé nauðsynlegur hluti af dráttarkerrunni, en hún sé notuð við að koma óökufærum bifreiðum upp á dráttarkerruna og af henni aftur. Er slysið hafi átt sér stað hafi bifreiðin verið í venjulegri og eðlilegri notkun sem dráttarbifreið og stefnandi að störfum við notkun hennar í skilningi 92. gr. umferðarlaga. Því sé umrætt slys bótaskylt úr slysatryggingu ökumanns.
Rétt sé að vekja sérstaka athygli á því hvernig dráttarbifreiðin VS-786, sem stefnandi hafi verið að vinna við umrætt sinn, sé útbúin. Aftur úr bifreiðinni gangi stór tengill sem ætlaður sé fyrir dráttarkerruna. Þegar dráttarkerran sé ekki í notkun sé hún geymd á palli dráttarbílsins og tengillinn dreginn inn undir pallinn. Við notkun kerrunnar sé tengillinn dreginn aftan úr bílnum með vökvatjakki sem sé í dráttarbifreiðinni og gangi allir hlutar dráttarkerrunnar fyrir vökvatjökkum sem knúnir séu af aflvél bifreiðarinnar. Þannig sé einungis unnt að nota dráttarkerruna þegar aflvél dráttarbifreiðarinnar er í gangi. Þegar slysið hafi orðið hafi stefnandi verið að losa bifreið af dráttarkerrunni og notað til þess útbúnað dráttarbílsins. Dráttarbíllinn hafi því verið í gangi þegar slysið hafi átt sér stað og dráttarkerran gengið fyrir aflvél bifreiðarinnar. Frekari skýringar megi sjá á framlögðum ljósmyndum, m.a. myndir af bifreiðinni sem stefnandi var að draga umrætt sinn.
Sérstök athygli skuli vakin á því, að úr dómaframkvæmd fyrir gildistöku laga nr. 32/1998 megi lesa að henni hafi einkum verið ætlað að skilja frá annars vegar þau slys á ökumönnum sem áttu ekkert skylt við þá hættueiginleika sem fylgja bifreiðum og hins vegar slys sem stöfuðu af eðlilegum búnaði bifreiðanna. Töldu dómstólar t.a.m. að slys sem yrði við að ökumaður félli af palli bifreiðar félli utan gildissviðs ökumannstryggingar samkvæmt umferðarlögum.
Slys stefnanda sé annars eðlis, enda hafi slysið orðið vegna vinnu hans við tengibúnað bifreiðarinnar, eins og áður sé rakið, en notkun þess búnaðar sé órjúfanleg forsenda fyrir notkun bifreiðarinnar sem dráttarbifreiðar. Því eigi slysið undir notkunarhugtak 92. gr. umferðarlaga.
Í öðru lagi sé byggt á því að bifreiðin sem stefnandi slasaðist við að stjórna, VS-786, hafi sérstaklega verið tryggð hjá stefnda sem dráttarbifreið. Þegar stefnandi hafi fest kaup á bifreiðinni hafi hann haft samband við stefnda, tilkynnt um kaupin og óskað sérstaklega eftir því að bifreiðin yrði tryggð sem dráttarbifreið, en þannig hafi bifreiðin verið tryggð hjá fyrri eigendum hennar.
Iðgjald dráttarbifreiða sé hærra en venjulegra bifreiða. Slys stefnanda hafi orðið við stjórn dráttarbifreiðarinnar og þar sem stefnandi hefði keypt lögboðna slysatryggingu vegna starfa sinna við dráttarbifreiðina af stefnda, beri stefndi bótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir í slysinu.
Stefndi hagi verðlagningu á slysatryggingum ökumanns eftir því hvernig ökutæki tryggingartakinn stjórni. Því verði að líta til eðlis starfa hvers ökumanns sjálfstætt. Í tilviki stefnanda hafi hann verið að stjórna dráttarbifreið og í þeim störfum felist óhjákvæmilega vinna við dráttarkerru bifreiðarinnar, eins og annan þann búnað sem sé eðlilegur og nauðsynlegur búnaður bifreiðarinnar. Stefnanda sé gert að greiða hærra iðgjald en af venjulegri bifreið, þar sem starf við að stjórna dráttarbifreið sé umfangsmeira og hættumeira en stjórn venjulegra bifreiða. Þar af leiðandi falli öll slys sem verði við venjuleg og nauðsynleg störf við stjórnun dráttarbifreiðarinnar undir trygginguna.
Samkvæmt öllu framansögðu telur stefnandi ljóst að slys hans falli undir 2. mgr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Því beri stefndi bótaábyrgð á slysinu.
Bótaútreikningur og bótafjárhæð.
Um útreikning skaðabótakröfu stefnanda á hendur stefnda fer að skaðabótalögum nr. 50/1993 eins og þau voru í gildi á slysdegi. Til grundvallar bótaútreikningi liggur örorkumat matsmannanna Júlíusar Valssonar læknis og Viðars Más Matthíassonar prófessors dagsett 29. desember 2004, Leifs Dungals og Sigurjóns Sigurðssonar, dags. 27. maí 2003.
Krafa stefnanda sundurliðast samkvæmt framansögðu þannig:
1. Tímabundið tekjutap til 10 desember 2005-12-16 kr. 791.476,-
2. Þjáningabætur í sjö mánuði þar af
rúmliggjandi í eina viku kr. 204.330,-
3. Varanlegur miski (40%) kr. 2.181.000,-
4. Varanleg örorka (75%) kr. 10.607.951.-
SAMTALS kr. 13.784.757,-
Um l. tölulið:
Samkvæmt matsgerð var stefnandi óvinnufær í sjö mánuði frá slysdegi. Stefnandi rak sitt eigið fyrirtæki, Pústþjónustu Bjarkars, er hann slasaðist, og hafði af því launatekjur. Tekjur stefnanda árið 1999, þ.e. fram til þess tíma sem hann slasaðist, námu kr. 452.272,-. Er um að ræða tekjur til 10. maí 1999, en stefnandi var óvinnufær út árið 1999 eftir slysið.
Stefnandi hafði því að meðaltali kr. 113.068,- í tekjur á mánuði árið 1999 og hefði vafalaust haldið þeim tekjum, hefði hann ekki lent í slysinu. Því er krafist í bætur vegna tímabundins tekjutaps skv. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993: kr. 113.068,- x 7 = kr. 791.476,-.
Um 2. tölulið:
Matsmenn telja að stefnandi hafi verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga í sjö
mánuði, eða 210 daga, og þar af rúmliggjandi í eina viku.
Samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga skal uppreikna fjárhæðir skv. 3. gr. laganna til þess tíma er bótafjárhæð er ákveðin. Stefnandi miðar uppreikning við lánskjaravísitölu við upphafsdag dráttarvaxta af kröfu stefnanda, í júní 2003, sem þá var 4474 stig. Uppreiknaðar nema því bætur vegna þjáninga:
kr. 700,- x 4474/3282 = kr. 950,-
kr. 1.200,- x 4474/3282 = kr. 1.640,-
Samkvæmt framansögðu nema bætur fyrir þjáningar skv. 3. gr. skaðabótalaga: kr. 1.640,- x 7 = kr. 11.480,- kr. 950,- x 203 = kr. 192.850,-
Samtals er því krafist í þjáningabætur kr. 204.330,-.
Um 3. tölulið:
Matsmenn telja varanlegan miska stefnanda vegna umferðarslyssins nema 40%.
Uppreiknaðar miskabætur fyrir 100% miska skv. 4. gr. skaðabótalaga, sbr. 15. gr. laganna, nema í júní 2003: kr. 4.000.000,- x 4474/3282 = kr. 5.452.500,-.
Krafa stefnanda um bætur vegna varanlegs miska nema því: kr. 5.452.500,- x 40% = kr. 2.181.000,-.
Um 4. tölulið:
Krafa stefnanda um bætur vegna varanlegrar örorku fer eftir 5.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eins og þau voru á slysdegi. Stefnandi var með matsgerð dómkvaddra matsmanna, dags. 29. desember 2004, metinn til 75% varanlegrar örorku.
Stefnandi hafði að meðaltali kr. 113.068,- í tekjur á mánuði þegar hann slasaðist, eða kr. 1.356.816,- á ársgrundvelli. Lágmarkslaun skv. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga námu á stöðugleikapunkti kr. 1.681.000,- (kr. 1.200.000,- x 184,0 (launavísitala í desember 1999) / 131,3 (launavísitala í júlí 1993)). Verður því við útreikning bóta fyrir varanlega örorku stuðst við lágmarkslaun skv. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.
Stefnandi var 48 ára og 29 daga gamall á stöðugleikapunkti. Stuðull skv. 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga reiknast því þannig:
8,440 (stuðull 48 ára) - 8,116 (stuðull 49 ára) = 0,324
0,324 x 29/365 = 0,026
8,440 - 0,026 = 8.414
Bætur fyrir varanlega örorku nema því: kr. 1.681.000,- x 8,414 x 75% = kr. 10.607.951,-.
Aðrar kröfur.
Vaxtakrafa stefnanda er byggð á 16. gr. skaðabótalaga. Dráttarvaxtakrafa stefnanda byggist á 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Vaxta er krafist frá slysdegi samkvæmt þágildandi 16. gr. skaðabótalaga. Þann 27. maí 2003 lá fyrir örorkumat matsmanna um afleiðingar slyssins, og lágu þá fyrir allar upplýsingar sem stefnda voru nauðsynlegar til að greiða stefnanda skaðabætur. Dráttarvaxta er því krafist frá 27. júní 2003, er mánuður var liðinn frá því að upplýsingar lágu fyrir til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, skv. 15. gr. þágildandi vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. 9. sbr. 1. mgr. 6. gr. núgildandi laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Um varnarþing vísast til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málskostnaðarkrafa stefnanda á sér stoð í 1. mgr. 129. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafist er málskostnaðar líkt og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og er því nauðsynlegt að taka tillit til greiðslu virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar.
Sýknukrafa stefnda Sjóvár-Almennra trygginga í málinu er í fyrsta lagi á því byggð að stefndi beri ekki ábyrgð sem vátryggjandi bifreiðarinnar VS-786 þar sem ekki sé um að ræða slys sem falli innan gildissvið 92. greinar umferðarlaga nr. 50/1987. Í 2. mgr. 92. grein umferðarlaga, eins og henni hafi verið breytt með lögum nr. 32/1998, sé mælt fyrir um bótarétt ökumanns sem slasist við stjóra ökutækis, enda verði slysið rakið til notkunar ökutækis í merkingu 88. greinar sömu laga.
Óumdeilt sé að stefndi hafi ekki verið við stjórn bifreiðarinnar VS-786 þegar slysið átti sér stað. Stefnandi hafi verið að eiga við sérstakan hjólabúnað (dolly) sem notaður sé þegar draga þurfi ökutæki sem séu með vanbúinn hjólabúnað að framan. Óumdeilt sé og að bifreiðin VS-786 hafi veirð kyrrstæð og stefnandi staðsettur aftan við bifreiðina VS-786 og til hliðar eða framan við óskráða bifreið sem dregin hefði verið á slysvettvang af VS-786. Stefnandi hafi því ekki verið undir stýri eða við stjórn bifreiðarinnar í þeim skilningi sem venja sé að leggja til grundvallar við túlkun á lagagreininni. Stefnandi hafi og ekki verið við stjórn sérstaks fasts búnaðar dráttarbifreiðarinnar.
Samkvæmt 2. mgr. 92. greinar umferðarlaga sé það og skilyrði að rekja megi slys til notkunar í merkingu 88. greinar umferðarlaga. Fræðimenn og dómstólar hafi sett hugtakinu notkun í merkingu 88. greinar tiltekin mörk og hafi þá einkum verið horft til hvort ökutækið sé á ferð eða slys verði vegna fasts búnaðar ökutækja við lestun eða losun. Óumdeilt er í máli þessu að bifreiðin VS-786 hafi ekki verið á ferð og slysið ekki orðið vegna fasts búnaðar bifreiðarinnar VS-786. Búnaðurinn, sem slysinu olli, sé ekki áfastur búnaður dráttarbifreiða. Ýmis laus búnaður fylgi dráttarbifreiðum, svo sem kaðlar, krókar og keðjur, og tilheyri dollý-búnaðurinn slíkum lausum búnaði. Slys af völdum slíks búnaðar falli ekki innan notkunarhugtaks 88. greinar umferðarlaga nema rekja megi slysið til eiginleika bifreiðar sem ökutækis. Dómstólar hafi sett notkunarhugtakinu þröngar skorður hvað varði lestun og losun. Losun dolly-búnaðar undan kyrrstæðri bifreið í drætti geti í engum tilvikum rúmast innan þess sem talið hafi verið felast í lestun og losun með áföstum búnaði.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að með breytingum á 92. gr. með lögum nr. 32/1998 hafi verið stefnt að marki að auka vátryggingarvernd. Þetta sé vissulega rétt hvað varði það afmarkaða tilvik sem varðar vátryggingartaka þegar hann er utan ökutækis og slasast af völdum bifreiðarinnar og til þess ráku sérstök réttlætis- og samræmissjónarmið. Í þessu sambandi sé vert að vekja athygli á að með breytingunni hafi fyrst og fremst verið stefnt að því að skýra gildissvið greinarinnar og hafi breytingin falið í sér ákveðnar breytingar til þrengingar á bótasviði frá því sem verið hefði samkvæmt túlkun dómstóla í einstökum tilvikum.
Í öðru lagi sé á því byggt að hugsanleg ábyrgð stefnda sem vátryggjanda bifreiðarinnar hafa fallið niður vegna stórkostlegs gáleysis stefnanda, sbr. 5. gr. skilmála fyrir slysatryggingu ökumanns og eiganda og 2. mgr. 18. grein laga nr. 20/1954, sbr. 124. grein sömu laga.
Nokkuð sé óljóst með hvaða hætti slysið varð en þó sé ljóst að slysið hafi ekki getað orðið nema vegna stórkostlegs gáleysis. Hafi slysið orðið með þeim hætti að stefnandi hafi verið að slaka búnaðinum niður með þar til gerðri stöng, sé um að ræða stórkostlegt gáleysi.
Hafi slysið orðið með þeim hætti sem stefnandi lýsi sjálfur sé og augljóst að um stórkostlegt gáleysi hafi verið að ræða. Fyrir það fyrsta sé umrædd lyftingarstöng ávallt tekin úr þar til gerðri rauf og lögð til hliðar þegar búið sé að lyfta. Í öðru lagi séu til staðar á búnaðinum sérstakar öryggisfestingar sem komi í veg fyrir að búnaðurinn falli niður og virðist sem stefnanda hafi láðst að setja þær festingar á með þeim hörmulegu afleiðingum sem lýst sé. Í þriðja lagi sé óhjákvæmilegt að benda á að eftir að búið hafi verið að „fella“ dollý-búnaðinn hafi auðveldlega mátt ná búnaðinum undan með því að aka bifreiðinni áfram eða afturábak og sé það gert ef einhver fyrirstaða sé fyrir hendi, sem reyndar komi sjaldan fyrir. Í fjórða lagi sé því haldið fram að engum sérstökum vandkvæðum hafi verið bundið að losa dollý-búnaðinn eftir slysið, en það hafi Henning Ólafsson gert að beiðni lögreglunnar.
NIÐURSTAÐA
Búnaður sá sem stefnandi notaði til að setja undir framhjól bifreiðar þeirrar er hann hafði dregið samanstendur af tveimur dekkjum og tveimur járnslám, sem eru rúmlega bílbreidd á lengd. Við notkun er byrjað á því að koma járnslánum fyrir sitt hvorum megin við framdekk bifreiðar sem á að draga og liggja járnslárnar þá á jörðinni. Þessu næst er dekkjapari komið fyrir við enda járnstanganna sitt hvorum megin við bifreiðina sem á að draga. Járnslárnar eru festar í þar til gerða gróp á dekkjaparinu en dekkjaparið er fest saman með þar til gerðum ási með hjámiðju í festingunni við hvert dekk. Grópin til að festa járnslárnar er á ásnum. Ásinn milli dekkjanna er þannig gerður að hann má lækka og hækka um hjámiðjuna og er sérstök járnstöng notuð til að hækka hjámiðjuna. Til að hækka hjámiðjuna er stönginni stungið í sérstaka rauf á ásnum og þegar búið er að stinga stönginni í raufina vísar stöngin nánast lárétt út frá dekkinu. Til að hækka hjámiðjuna og þar með bifreiðina sem draga á er stönginni snúið í 180° og vísar þá í gagnstæða átt og liggur þá ofan á ásum milli dekkjanna. Sérstök öryggisfesting er síðan sett á til að hjámiðjan snúist ekki til baka og stöngin tekin úr og sé síðan hitt dekkið hækkað með sömu aðferð. Áður en hækkað er liggi ásinn milli dekkjanna við jörðu í sömu hæð og járnslárnar.
Samkvæmt 92. gr. umferðarlaga eins og henni var breytt með lögum nr. 32/1998 skal ökumaður sem stjórnar ökutæki tryggður slysatryggingu sem skal tryggja bætur fyrir líkamstjón af völdum slyss sem hann verður fyrir við stjórn ökutækisins, enda verði slysið rakið til notkunar ökutækisins í merkingu 88. gr.
Af framangreindri lýsingu á búnaði þeim sem stefnandi notaði við að draga bifreið í umrætt sinn er ljóst að hann er ekki hluti bifreiðarinnar VS 786 heldur stendur sjálfstætt og er á engan hátt tengdur henni, hvorki aflvél hennar eða með öðrum hætti. Verður engan veginn litið svo á að búnaðurinn sé hluti ökutækisins og að notkun hans sé liður í venjulegri og eðlilegri notkun ökutækisins. Þá þykir það ekki skipta máli hér að um er að ræða dráttarbifreið með því að umræddur búnaður er ekki sérstakur hluti hennar að heldur. Telur dómari að svo sem notkunarhugtak 88. gr. umferðarlaga hefur verið skýrt af dómstólum og fræðimönnum verði ekki fallist á það með stefnanda að reglur 92. gr. umferðarlaga taki til tilviks þessa og verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum hans en rétt þykir að málskostnaður á milli aðila falli niður.
Stefnandi hefur fengið gjafsókn í máli þessu og greiðist gjafsóknarkostnaður hans, 1.035.321 króna, úr ríkisjóði.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndi, Sjóvá - Almennar tryggingar hf., skal sýkn af öllum kröfum stefnanda, Bjarkar Adolfssonar.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, 1.035.321 króna, greiðist úr ríkissjóði.
Málskostnaður á milli aðila fellur niður.