Hæstiréttur íslands
Mál nr. 675/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Fimmtudaginn 8. október 2015. |
|
|
Nr. 675/2015.
|
Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari ) gegn X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. október 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. október 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 17. desember 2015 klukkan 17. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. október 2015.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], nú gæslufangi í fangelsinu á Akureyri, sæti áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 17. desember 2015, kl. 17:00.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að ríkissaksóknari hafi þann 12. september 2014 gefið út ákæru á hendur X, fyrir stórfellda líkamsárás unna gegn A í félagi með meðákærða Y aðfaranótt fimmtudagsins 17. júlí 2014 á hafnarsvæðinu í [...]. Í ákæru sé brot ákærða talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum.
Héraðsdómur Vesturlands hafi kveðið upp dóm í málinu þann 4. desember 2014, sbr. mál Héraðsdóms Vesturlands nr. S-[..]/2014. Hafi ákærði með þeim dómi verið sakfelldur og honum gert að sæta fangelsi í 4 ár. Áfrýjun hafi verið lýst yfir af hálfu ákærða með yfirlýsingu, dags. 22. desember 2014 og hafi áfrýjunarstefna verið gefin út þann 30. desember 2014. Greinargerð til Hæstaréttar hafi borist frá ákærða þann 13. apríl 2015 en greinargerðir ákæruvaldsins og réttargæslumanns brotaþola séu dagsettar 22. og 28. apríl 2015. Ætlunin hafi verið samkvæmt dagskrá Hæstaréttar Íslands að mál ákærða, hæstaréttarmál nr. 93/2015, yrði flutt föstudaginn 15. maí 2015. Síðar hafi verið gerð breyting á dagskrá réttarins og hafi þá ætlunin verið að málið yrði flutt mánudaginn 1. júní 2015.
Í fyrrnefndri greinargerð ákærða til Hæstaréttar hafi verið gerður sérstakur áskilnaður um yfirmat vegna tveggja matsgerða sem séu meðal gagna málsins, þ.e. annars vegar matsgerð læknanna B og C og hins vegar matsgerð D læknis. Það hafi síðan verið með bréfi verjanda ákærða til Hæstaréttar Íslands, dags. 22. maí 2015, sem upplýst hafi verið að ákærði óskaði yfirmats vegna matsgerðar þeirra B og C og að beiðni þess efnis hefði verið beint til Héraðsdóms Vesturlands. Í bréfi verjandans hafi þess jafnframt verið farið á leit að flutningi málsins fyrir Hæstarétti yrði frestað ótiltekið þar til matsgerð yfirmatsmanna lægi fyrir. Með bréfi Hæstaréttar, dags. 27. maí 2015, hafi verið tilkynnt að Hæstiréttur hefði ákveðið að fresta málflutningi í málinu til 23. september 2015. Beiðni ákærða um yfirmat hafi verið móttekin í Héraðsdómi Vesturlands þann 25. maí 2015 en þann 29. maí 2015 hafi Héraðsdómur Vesturlands framsent beiðni ákærða um yfirmat til Héraðsdóms Reykjavíkur. Í kjölfar tölvupóstssamskipta Héraðsdóms Reykjavíkur, sækjanda og verjanda ákærða hafi verið boðað til þinghalds í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 6. júlí 2015, þar sem þingfesta skyldi beiðni ákærða um yfirmat. Verjandi ákærða hafi ekki getað mætt þann dag og fór svo að beiðni ákærða um yfirmat var ekki tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr en í lok ágúst 2015. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn hafi verið upp þann 16. september 2015, hafi verið fallist á beiðni ákærða um að dómkvaddir yrðu yfirmatsmenn en orðalagi þeirra spurninga sem ákærði hafði óskað eftir að yfirmatsmenn svöruðu hafi verið breytt. Þann 21. september 2015 hafi yfirmatsmenn verið dómkvaddir í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ríkissaksóknari hafi sent yfirmatsmönnum afrit af málsgögnum með bréfi, dags. 23. september 2015 og hafa yfirmatsmenn boðað til matsfundar þann 19. október n.k. Með tölvupósti frá Hæstarétti þann 10. september sl., hafi verið tilkynnt um að málflutningi fyrir réttinum hefði verið frestað um ótiltekinn tíma.
Ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 17. júlí 2014, fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna en á grundvelli almannahagsmuna frá 24. júlí 2014, sbr. úrskurði Héraðsdóms Vesturlands í máli nr. R-[...]/2014, R-[...]2014, R-[...]/2014, R-[...]/2014, R-[...]/2014, R-[...]/2014 og S-[...]/2014, úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. [...]/2015 og úrskurð Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. R-[...]/2015, svo og dóma Hæstaréttar í málum nr. [...]/2014, [...]/2014 og [...]/2014.
Með vísan til dóms Héraðsdóms Vesturlands í máli nr. S-[...]/2014 og þess alvarlega brots sem sá dómur varðar telji ríkissaksóknari að uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 fyrir því að ákærði sæti gæsluvarðhaldi meðan mál hans sé til meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands, enda megi ætla að það valdi hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings ef sakborningur, sem dæmdur hafi verið fyrir jafn alvarlegt brot og ákærði, gangi laus áður en máli hans sé endanlega til lykta ráðið fyrir dómstólum. Sé það ætlun ákæruvaldsins að sömu sjónarmið eigi við nú og í framangreindum úrskurðum og dómum, auk þess sem það er ætlun ákæruvaldsins að sá dráttur sem orðið hafi á meðferð málsins fyrir Hæstarétti sé fyrst og fremst tilkominn vegna þess hversu seint beiðni ákærða um yfirmat kom fram og hvernig sú beiðni var úr garði gerð.
Sakarefnið sé talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. 3. mgr. 97. gr. sömu laga.
Verjandi ákærða lagði áherslu á að tafir á meðferð málsins mætti fyrst og fremst rekja til ákæruvaldsins og mótmælti ásökunum um að ákærði ætti þar nokkra sök. Þannig hafi í fyrstu engar athugasemdir verið gerðar við yfirmatsbeiðni heldur hefði einvörðungu verið tekist á frá lokum sl. um hverjir skyldu skipaðir sem matsmenn. Á seinni stigum hins vegar eða í þinghaldi 27. ágúst sl. hafi ríkissaksóknari mótmælt yfirmatsbeiðni krafist frávísunar hennar en til vara að henni yrði hafnað.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 16. september sl. var fallist á kröfu ákærða um dómkvaðningu yfirmatsmanna en matsspurningum breytt lítilsháttar. Ákæruvaldið ákvað að una þeim úrskurði og er matsferlið byrjað með boðunum á matsfund.
Niðurstaða:
Eins og rakið er að framan var varnaraðili sakfelldur í Héraðsdómi Vesturlands 4. desember 2014 fyrir stórfellda líkamsárás samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga aðfaranótt fimmtudagsins 17. júlí 2014. Ákærði var dæmdur til fjögurra ára fangelsisvistar. Hann áfrýjaði málinu til Hæstaréttar Íslands en málið hefur enn ekki verið flutt vegna beiðnar ákærða um yfirmat á ákveðnum þáttum í málinu. Með tilkynningu frá Hæstarétti 10. september sl. var málflutningi fyrir réttinum frestað um ótiltekinn tíma.
Með dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. [...]/2014, [...]/2014 og [...]/2014 var því slegið föstu áður en héraðsdómur gekk í máli ákærða að fullnægt væri skilyrðum til þess að hann sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Ekki er hægt að líta svo á að niðurstaða Héraðsdóms Vesturlands geti hnekkt því mati. Þegar metið er nú að gengnum dómi héraðsdóms hvort skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt verður því sem fyrr horft til eðli brotsins og þess refsiramma sem ákveðinn er í 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Þá ber að gæta þess að mál sé rekið með fullnægjandi hraða en það telst sjálfstætt skilyrði þess að 2. mgr. 95. gr. sé beitt. Þrátt fyrir að skort hafi á markviss vinnubrögð og viðbrögð ríkissaksóknara við beiðni ákærða um yfirmat verður ekki talið á þessu stigi að slíkar tafir hafi orðið á málsmeðferð að leiði til þess að hafnað verði kröfu um gæsluvarðhald þegar málsatvik og önnur lagaskilyrði eru metin heildstætt.
Samkvæmt 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2002 getur dómari úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan mál er til meðferðar fyrir Hæstarétti uns dómur er þar upp kveðinn. Er þá unnt að marka gæsluvarðhaldi lengri tíma en fjórar vikur, sbr. 3. málslið 1. mgr. 97. gr. laganna. Að þessu gættu verður fallist á kröfu sóknaraðila eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Dómfelldi, X, kt. [...], nú gæslufangi í fangelsinu á Akureyri, sæti áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 17. desember 2015, kl. 17:00.