Hæstiréttur íslands

Mál nr. 148/2014


Lykilorð

  • Veðsamningur
  • Tryggingarráðstöfun
  • Aðilaskipti


                                     

Fimmtudaginn 13. nóvember 2014.

Nr. 148/2014.

Reykjavíkurborg

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

gegn

MP banka hf.

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

og

MP banki hf.

gegn

Reykjavíkurborg og

Friðgeiri Indriðasyni

(Anton Björn Markússon hrl.)

Veðsamningur. Tryggingarráðstöfun. Aðilaskipti.

A setti M hf. að handveði innstæðu sína á nánar tilgreindum reikningi hjá bankanum. Með yfirlýsingu nokkru síðar veitti A bankanum jafnframt veð í almennum kröfum sem A átti á hendur R vegna tveggja verksamninga í tengslum við fasteignir R. Var R og tilkynnt um veðsetninguna sama dag og tekið fram að greiðslur samkvæmt verksamningunum skyldu lagðar inn á fyrrgreindan bankareikning. Ágreiningur reis um efndir verksamninganna og rituðu A og R undir samkomulag um lokauppgjör þar sem fram kom að R greiddi 50.150.000 krónur inn á reikning A hjá Í hf. M hf. höfðaði í kjölfarið mál gegn R og krafðist, á grundvelli fyrrgreindrar veðsetningar, greiðslu á 28.281.218 krónum, sem nam yfirdrætti á reikningi A hjá M hf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að R hafi borið að standa skil á greiðslum vegna uppgjörsins við A í samræmi við fyrrnefnda tilkynningu um veðsetningu og hafi ekki getað losnað undan efndaskyldu með því að greiða beint til A. Var krafa M hf. því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. febrúar 2014. Hann krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 3. mars 2014. Hann gerir þá kröfu á hendur aðaláfrýjanda aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að öðru leyti en því að dæmd fjárhæð beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. júlí 2012 til greiðsludags, en til vara að aðaláfrýjanda verði gert „að leggja hina umkröfðu fjárhæð, ásamt dráttarvöxtum ... frá 13. júlí 2012 til greiðsludags, inn á bankareikning með nr. 0701-26-17009 hjá gagnáfrýjanda.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi aðaláfrýjanda. Á hendur stefnda gerir gagnáfrýjandi þá kröfu að málskostnaður þeirra á milli falli niður ef kröfur hans á hendur aðaláfrýjanda verða teknar til greina. Verði aðaláfrýjandi hins vegar sýknaður krefst gagnáfrýjandi þess að stefnda verði gert að greiða sér 28.281.218 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. júlí 2012 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi gagnáfrýjanda.

I

Aðaláfrýjandi gerði tvo verksamninga við litháíska félagið Adakris UAB. Fyrri samningurinn var gerður 17. september 2008 um uppsteypu og fullnaðarfrágang Sæmundarskóla en verklaun samkvæmt honum voru 1.164.950.746 krónur. Síðari samningurinn var gerður 20. nóvember 2009 um sams konar verk við Norðlingaskóla, en verklaun fyrir það voru 1.389.089.728 krónur. Aðaláfrýjandi fól stefnda umsjón með verkefninu af hálfu verkkaupa, en stefndi starfaði á mannvirkjaskrifstofu framkvæmda- og eignasviðs aðaláfrýjanda.

Adakris UAB starfrækti útibú hér á landi og var það í bankaviðskiptum hjá gagnáfrýjanda. Með yfirlýsingu 4. apríl 2011 var innstæða verktakans hjá gagnáfrýjanda á reikningi nr. 0701-26-017009, eins og hún var á hverjum tíma, sett að handveði til tryggingar öllum skuldum hans við gagnáfrýjanda. Jafnframt veitti verktakinn gagnáfrýjanda veð með yfirlýsingu 12. sama mánaðar til tryggingar á öllum skuldum sínum við gagnáfrýjanda í almennum kröfum sem hann ætti „samkvæmt útgefnum reikningum, á hendur Framkvæmda- og eignasviði Reykjavíkurborgar ... á grundvelli verksamnings um Sæmundarskóla, uppsteypu og fullnaðarfrágang, dags. 17. september 2008 ... og verksamnings um Norðlingaskóla, uppsteypu og fullnaðarfrágang, dags. 20. nóvember 2009“.

Aðaláfrýjanda barst tilkynning 12. apríl 2011 um veð gagnáfrýjanda í almennum fjárkröfum, sbr. 46. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð, en hún var bæði undirrituð af gagnáfrýjanda sem veðhafa og Adakris UAB sem veðsala. Í tilkynningunni var tekið fram að gagnáfrýjanda hefðu verið veðsettar allar fjárkröfur sem verktakinn ætti eða eignaðist „á hendur Framkvæmda- og eignasviði Reykjavíkurborgar ... á grundvelli verksamnings um Sæmundarskóla, uppsteypu og fullnaðarfrágang, dags. 17. september 2008 ... og verksamnings um Norðlingaskóla, uppsteypu og fullnaðarfrágang, dags. 20. nóvember 2009.“ Einnig sagði í yfirlýsingunni að greiðslur frá aðaláfrýjanda samkvæmt verksamningunum skyldu lagðar inn á fyrrgreindan reikning hjá gagnáfrýjanda, sem hafði verið settur honum að handveði 4. apríl 2011. Þá var tekið fram í tilkynningunni að aðaláfrýjanda yrði tilkynnt ef breyting yrði á réttarsambandinu. Loks sagði að án slíkrar tilkynningar væri aðaláfrýjanda óheimilt að gera nokkrar breytingar sem gengju gegn efni tilkynningarinnar. Stefndi undirritaði sama dag svohljóðandi áritun á tilkynninguna: „Framkvæmda- og eignasvið Reykjavíkurborgar staðfestir hér með ofangreinda handveðsetningu og mun sjá til þess að andvirði umbeðinna greiðslna gangi inn á ofangreindan reikning.“

Eftir að stefndi hafði undirritað tilkynninguna mun hann hafa komið henni til fjármálaskrifstofu aðaláfrýjanda. Í kjölfarið bárust 62 greiðslur frá aðaláfrýjanda inn á handveðsettan reikning verktakans hjá gagnáfrýjanda, samtals að fjárhæð 1.132.349.510 krónur, á tímabilinu 19. maí 2011 til 5. apríl 2012.

Vorið 2012 reis ágreiningur milli verktakans og aðaláfrýjanda um efndir á báða bóga samkvæmt verksamningunum og urðu nokkur bréfaskipti af því tilefni. Fór svo að verktakinn rifti samningunum með bréfum 15. maí 2012 vegna vanefnda aðaláfrýjanda. Aðaláfrýjandi hafnaði því að skilyrði riftunar væru fyrir hendi en rifti síðan samningunum fyrir sitt leyti með bréfum 1. júní sama ár vegna þess sem hann taldi vanefnd verktakans. Að lokum varð samkomulag 5. júní 2012 um uppgjör vegna verksamninganna sem fól í sér að aðaláfrýjandi greiddi 12.438.700 krónur vegna samningsins um Sæmundarskóla og 37.666.300 krónur vegna Norðlingaskóla eða samtals 50.150.000 krónur. Í hvoru samkomulagi fyrir sig var því lýst yfir að um lokauppgjör vegna verksins væri að ræða. Þá sagði að lokagreiðsluna ætti að inna af hendi með því að leggja hana inn á tilgreindan reikning verktakans í Íslandsbanka hf. fyrir 15. júní 2012 en frá þeim degi yrðu reiknaðir dráttarvextir. Aðaláfrýjandi innti greiðsluna af hendi 13. sama mánaðar með því að leggja fjárhæðina inn á þann bankareikning.

Eftir að gagnáfrýjanda bárust upplýsingar um að aðaláfrýjandi hafði innt af hendi lokagreiðslur vegna verksamninganna inn á reikning verktakans í Íslandsbanka hf. krafðist hann þess með bréfi 15. ágúst 2012 að aðaláfrýjandi greiddi sér 28.281.218 krónur auk dráttarvaxta og kostnaðar. Svaraði höfuðstóll kröfunnar til yfirdráttar á þeim reikningi verktakans hjá gagnáfrýjanda sem leggja átti inn á greiðslur frá aðaláfrýjanda samkvæmt fyrrgreindri tilkynningu 12. apríl 2011. Þessari kröfu hafnaði aðaláfrýjandi með bréfi 6. september 2012.

Með úrskurði héraðsdóms Klaipeda í Litháen 11. desember 2012 var bú Adakris UAB tekið til gjaldþrotaskipta. Útibú félagsins var síðan 20. júní 2013 tekið til gjaldþrotaskipta hér á landi.

II

Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga nr. 75/1997 er heimilt að veðsetja almennar fjárkröfur á hendur nafngreindum skuldara. Það sama á við um almenna fjárkröfu sem kröfuhafi kemur til með að eignast á hendur skuldara í sérstöku réttarsambandi. Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laganna öðlast veðréttur í almennum kröfum réttarvernd við það að skuldarinn fær tilkynningu um veðsetninguna, annað hvort frá veðsala eða veðhafa.

Gagnáfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á hendur aðaláfrýjanda á því að hann hafi ekki losnað undan greiðsluskyldu sinni samkvæmt verksamningunum með því að inna af hendi greiðslu samkvæmt samkomulagi um lokauppgjör vegna samninganna beint til Adakris UAB. Á grundvelli veðsetningar almennra krafna krefst gagnáfrýjandi greiðslu úr hendi aðaláfrýjanda á kröfu samkvæmt verksamningunum að því marki sem nauðsynlegt er til að standa skil á yfirdrætti verktakans á reikningi hjá gagnáfrýjanda. Gagnstætt því sem miðað er við í hinum áfrýjaða dómi krefst gagnáfrýjandi ekki skaðabóta úr hendi aðaláfrýjanda heldur greiðslu á efndagrundvelli.   

Með veðsetningu á almennum fjárkröfum samkvæmt verksamningunum við aðaláfrýjanda voru réttindi verktakans til greiðslu sett til tryggingar á öllum skuldum hans við gagnáfrýjanda. Þessi ráðstöfun var ekki háð því að aðaláfrýjandi samþykkti hana fyrir sitt leyti heldur öðlaðist hún réttarvernd við það eitt að aðaláfrýjanda barst tilkynning 12. apríl 2011 um hana. Í kjölfarið bar aðaláfrýjanda að standa skil á greiðslum í samræmi við tilkynninguna og gat upp frá því ekki losnað undan efndaskyldu með því að greiða beint til verktakans. Verður ekki fallist á það með aðaláfrýjanda að veðsetningin hafi í kjölfar riftunar á verksamningunum fallið niður og að stofnast hafi óveðsettar kröfur á grundvelli samkomulagsins 5. júní 2012 um lokauppgjör milli aðaláfrýjanda og verktakans. Leiðir þetta þegar af því að samkomulagið fól í sér uppgjör á verksamningunum og breyttu yfirlýsingar um riftun á báða bóga engu í því tilliti. Samkvæmt þessu og með því að ekkert hald er í andmælum aðaláfrýjanda við fjárhæð aðalkröfu gagnáfrýjanda verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að taka hana til greina, þó með þeirri breytingu að dráttarvextir reiknast frá 15. júní 2012 þegar greiðsla samkvæmt samkomulagi um lokauppgjör verksamninganna gjaldféll eftir því, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Af þessari niðurstöðu leiðir að ekki kemur til úrlausnar krafa gagnáfrýjanda á hendur stefnda ef frá er talin krafa um að málskostnaður þeirra á milli vegna meðferðar málsins í héraði verði felldur niður.

Eftir þessum úrslitum verður aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er hæfilega ákveðinn í einu lagi eins og greinir í dómsorði. Ákvæði hins áfrýjaða dóm um málskostnað úr hendi gagnáfrýjanda til stefnda verður staðfest. Þá verður gagnáfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður að teknu tilliti til þess að málsóknin á hendur honum hefur verið að ófyrirsynju frá öndverðu.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Reykjavíkurborg, greiði gagnáfrýjanda, MP banka hf., 28.281.218 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. júní 2012 til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi, Friðgeir Indriðason, er sýkn af kröfu gagnáfrýjanda.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað til stefnda úr hendi gagnáfrýjanda eru staðfest. Gagnáfrýjandi greiði stefnda 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2013.

                Mál þetta, sem dómtekið var hinn 9. október sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af MP banka hf., á hendur Reykjavíkurborg, Adakris UAB, útibúi á Íslandi og Friðgeiri Indriðasyni, með stefnu birtri 26. október 2012 og áritaðri um birtingu 16. október 2012 og sakaukastefnu áritaðri um birtingu 27. febrúar 2013.

                Dómkröfur stefnanda á hendur stefndu Reykjavíkurborg eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 28.281.218 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 13. júlí 2012 til greiðsludags, en til vara, að stefnda verði dæmd til að leggja hina umkröfðu fjárhæð með vöxtum, frá sama degi til fullnustudags, inn á bankareikning með nr. 0701-26-17009, hjá stefnanda.

                Dómkröfur stefnanda á hendur stefnda, Adakris UAB, útibúi á Íslandi, eru þær, að viðurkennt verði að stefnanda sé heimilt að ráðstafa greiðslu frá stefndu Reykjavíkurborg samkvæmt framangreindum dómkröfum, til greiðslu á skuld þess stefnda við sig vegna yfirdráttar hans á framangreindan bankareikning.

                Þá krefst stefnandi málskostnaðar, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, úr hendi þessara stefndu in solidum.

                Dómkröfur stefnanda í sakaukamálinu, á hendur sakaukastefnda eru þær, að málin verði sameinuð og stefndi, Friðgeir Indriðason, verði, ef Reykjavíkurborg verður sýknuð, dæmdur til að greiða stefnanda 28.281.218 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 13. júlí 2012 til greiðsludags. 

                Verði ekki fallist á kröfu um sameiningu málanna krefst stefnandi þess að stefndi Friðgeir greiði stefnanda 28.281.218 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 28/2001, um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá 13. júlí 2012 til greiðsludags.

                Þá krefst stefnandi málskostnaðar auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun úr hendi stefnda Friðgeirs.

                Stefnda Reykjavíkurborg krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða borginni málskostnað.

                Stefndi, Adakris UAB, útibú á Íslandi, krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað.

                Sakaukastefndi, Friðgeir Indriðason, krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda og málskostnaðar, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, úr hendi stefnanda.

                Þingsókn stefnda, Adakris UAB, útibú á Íslandi féll niður í þinghaldi hinn 1. október sl.

                Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.

II

                Málavextir eru þeir, að stefndi Adakris UAB, útibú á Íslandi, hafði bankareikning með nr. 0701-26-17009 hjá stefnanda, sem er viðskipta- og fjárfestingarbanki.  Stefnandi veitti stefnda Adakris yfirdráttarheimild á reikninginn gegn handveði í reikningnum.  Þá veitti stefndi Adakris stefnanda jafnframt 1. veðrétt í almennum kröfum sínum á hendur stefnda Reykjavíkurborg á grundvelli verksamninga um Sæmundarskóla og Norðlingaskóla í Reykjavík, sem Adakris vann að smíði að.  Veðrétturinn skyldi einnig ná til vaxta, verðbóta og dráttarvaxta af kröfunni.  Í þeirri yfirlýsingu stefnda kemur fram, að stefndi Reykjavíkurborg skyldi leggja allar greiðslur samkvæmt verksamningnum inn á áðurgreindan reikning stefnda Adakris hjá stefnanda. 

Stofnaði stefndi með yfirdrætti til skuldar á reikningnum, samtals að fjárhæð 28.281.218 krónur.

Í tilkynningu stefnanda til stefnda Reykjavíkurborgar kemur fram að stefnda Adakris sé óheimilt, án samþykkis stefnanda, að breyta ráðstöfun þeirri er þar um ræði, svo sem að greiðslurnar yrðu lagðar inn á annan reikning að hluta eða öllu leyti.  Yrðu breytingar á réttarsambandi stefnanda við stefnda Adakris skyldi stefnandi tilkynna stefnda Reykjavíkurborg um það.  Án slíkrar tilkynningar væri stefndu Reykjavíkurborg óheimilt að gera nokkrar breytingar á ráðstöfun greiðslna.  Tilkynningin er undirrituð af sakaukastefnda, Friðgeiri Indriðasyni, af hálfu stefndu Reykjavíkurborgar.

Stefnandi kveður, að þrátt fyrir þessa tilhögun hafi hann fengið vitneskju um að greiðslu og lokauppgjöri hefði verið ráðstafað með öðrum hætti en umsamið hefði verið.  Hafi hann síðar fengið þessa vitneskju sína staðfesta frá Kristbjörgu Stephensen hrl., borgarlögmanni, þar sem fram hefði komið að borgin hefði greitt stefnda Adakris uppgjör fyrir framangreinda verksamninga að fjárhæð 50.000.000 króna.  Greiðslunum hefði verið ráðstafað inn á annan reikning en þann sem hefði verið handveðsettur eða inn á bankareikning í Íslandsbanka hf., nr. 515-26-700908.  Af þessum sökum hafi stefnandi kært til lögreglu forráðamenn stefnda Adakris og þá starfsmenn Reykjavíkurborgar sem komið hafi að þessari ráðstöfun uppgjörsgreiðslunnar.

Krafa stefnanda sé vegna áðurgreindrar yfirdráttarskuldar stefnda Adakris á bankareikning nr. 0701-26-17009, að fjárhæð 28.281.218 krónur.  Vaxta sé krafist frá síðustu hreyfingu á reikning stefnda Adakris, hinn 13. júlí 2012.

III

Stefnandi byggir aðalkröfu sína á hendur stefndu Reykjavíkurborg á því, að með framangreindum athöfnum hafi stefnda Reykjavíkurborg brotið í bága við skriflegt samkomulag um að hin veðsetta fjárkrafa yrði greidd inn á hinn handveðsetta reikning og þannig brotið gegn skýlausum rétti stefnanda til fjárins.  Með því að greiða hina veðsettu kröfu inn á annan bankareikning í eigu stefnda Adakris, en þann handveðsetta, eins og fyrirmæli hafi verið um, hafi stefnda Reykjavíkurborg brotið gegn veðsamningi aðila sem borginni hafi verið kunnugt um og hafi virt fram til þess dags.  Borginni hafi mátt vera ljóst að með þessu broti á samningsskyldum sínum bakaði hún stefnanda tjóni.  Tjónið liggi fyrir, það sé hin umkrafða fjárhæð, þ.e. staðan á yfirdráttarskuld stefnda Adakris á bankareikningi hans hjá stefnanda.  Ljóst sé að stefnandi muni ekki fá kröfu sína greidda frá Adakris þar sem fjöldi árangurslausra fjárnáma hafi verið gerður hjá fyrirtækinu.  Ljóst sé að stefndi Friðgeir Indriðason verkefnastjóri og starfsmaður framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar, sá er ritað hafi undir tilkynninguna, hafi haft fullkomið stöðuumboð til þess að skuldbinda stefndu Reykjavíkurborg, með þeim hætti sem hann hafi gert.  Þá liggi fyrir að eftir að samningurinn hafi verið gerður hafi sá framgangsmáti, sem þar sé kveðið á um, verið viðtekin venja í viðskiptum aðila, sem staðfesti enn frekar skuldbindingargildi samninganna.

Ef ekki verður fallist á að stefnandi eigi beinan kröfurétt á hendur stefndu Reykjavíkurborg svo sem krafist sé í aðalkröfu, sé byggt á því til vara að stefnda Reykjavíkurborg beri að greiða umstefnda fjárhæð inn á bakareikning þann sem samkomulag aðila segi til um en fyrir liggi að stefndi Reykjavíkurborg hafi móttekið tilkynningu frá stefnanda um að almennar fjárkröfur stefnda Adakris vegna greindra verksamninga væru veðsettar stefnanda og stefnda Reykjavíkurborg hafi því verið skuldbundin því að greiða kröfurnar inn á tilgreindan reikning.  Annar greiðslumáti hafi því ekki verið stefndu Reykjavíkurborg heimill, enda öðlist stefnandi réttarvernd með tilkynningu sinni til Reykjavíkurborgar, samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga um samningsveð nr. 75/1997.

Stefnandi krefst þess að stefndi Adakris verði dæmdur til að þola dómkröfur stefnanda.  Stefndi Adakris hafi með yfirdrætti á bankareikning stofnað til skuldar við stefnanda, en yfirdrátturinn hafi verið veittur með því skilyrði að stefnanda yrði veitt handveð í umræddum reikningi og hafi sá ádráttur yfirdráttarheimildarinnar verið tengdur þeim verkefnum sem um hafi verið rætt í samningum aðila.  Stefndi, Adakris hafi jafnframt veitt stefnanda 1. veðrétt í almennum kröfum sínum á hendur stefndu Reykjavíkurborg á grundvelli verksamninga milli stefndu.  Stefndi Adakris hafi ásamt stefndu Reykjavíkurborg undirritað yfirlýsingu og tilkynningu þess efnis að stefnda Reykjavíkurborg skyldi leggja greiðslur vegna samninganna inn á reikning stefnda Adakris.  Þrátt fyrir það hafi stefndi Adakris fengið greitt fyrir samningana inn á annan reikning en þann sem hafi verið handveðsettur.  Því sé þess krafist að stefndi Adakris verði dæmdur til að þola dómkröfur stefnanda með þeim hætti sem í dómkröfum greini.

Kröfur sínar á hendur varastefnda byggir stefnandi á því, að í greinargerð stefndu Reykjavíkurborgar, sé því haldið fram að undirritun stefnda Friðgeirs undir umrædda tilkynningu hafi ekki skuldbundið Reykjavíkurborg.  Noti sveitarfélagið stefnda Friðgeir sem mannlegan skjöld og haldi því ranglega fram, að hann hafi ekki haft umboð.  Byggir stefnandi kröfu sína á því, að reynist varastefndi vera umboðslaus beri honum að bæta stefnanda það tjón sem hann hafi orðið fyrir í máli þessu.  Þegar varastefndi hafi komið fram fyrir hönd Reykjavíkurborgar hafi hann ábyrgst að hann hefði nægjanlegt umboð.  Sanni stefndi Friðgeir ekki, að hann hafi haft nægilegt umboð eða að gerningurinn sem hann hafi gert hafi verið samþykktur af Reykjavíkurborg eða ef gerningurinn sé af öðrum ástæðum ekki skuldbindandi fyrir borgina skuli varastefndi Friðgeir bæta það tjón sem stefnandi hafi orðið fyrir við það að gerningnum verði ekki beitt gagnvart Reykjavíkurborg, en varastefndi hafi látið eins og hann kæmi fram fyrir hönd Reykjavíkurborgar.  Um þetta gildi ákvæði 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1936, um samningsveð, umboð og ógilda löggerninga.  Samkvæmt ákvæðinu hvíli sönnunarbyrðin um að varastefndi Friðgeir hafi haft umboð á varastefnda, sbr. orðalag ákvæðisins „sanni hann eigi“.  Með þessu lagaákvæði sé sönnunarbyrðinni því snúið við stefnanda í hag.

Stefnandi kveður að engin ástæða hafi verið fyrir hann að ætla að varastefndi Friðgeir hefði ekki nægilegt umboð.  Varastefndi gegni stjórnunarstöðu hjá Reykjavíkurborg.  Málefnið heyri undir verksvið hans.  Ætla megi að varastefndi hafi áður undirritað slíkar yfirlýsingar og aðrir menn í sambærilegum stöðum hjá Reykjavíkurborg.

Jafnframt byggir stefnandi á því að varastefndi hafi sjálfur tekið þátt í athöfnum stefndu Reykjavíkurborgar og Adakris við að svíkja peninga út úr stefnanda og sé því bótaskyldur með beinum hætti samkvæmt hinni almennu sakarreglu.

Stefna í máli stefnanda á hendur stefndu Reykjavíkurborg og Adakris UAB, útibúi á Íslandi, hafi verið þingfest 30. október 2012 og greinargerð stefndu Reykjavíkurborgar hafi verið skilað 11. desember 2012 og stefndi Adakris hafi lagt fram greinargerð sína hinn 8. janúar 2013.  Í stefnu í því máli hafi verið gerður áskilnaður um að stefna Friðgeiri Indriðasyni ef stefnda Reykjavíkurborg héldi uppi vörnum um að hann hefði ekki haft umboð til að undirrita skjalið.  Þar sem það hafi komið á daginn að stefnda Reykjavíkurborg hyggist verja sig með þeim hætti, verði það ekki metið stefnanda til vanrækslu í skilningi 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að hafa ekki stefnt varastefnda við þingfestingu málsins á hendur Reykjavíkurborg og Adakris.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna samninga- og veðréttar, laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, og laga nr. 75/1997.  Stefnandi vísar og til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en reglan fái m.a. stoð í 45. og 51. gr. laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup.  Um gjalddaga kröfunnar vísar stefnandi til meginreglu laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup. 

Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.  Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefndu.

IV

                Stefndi, Adakris UAB, útibú á Íslandi, byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi í góðri trú tekið við umþrættri greiðslu, dag. 13. júní 2012, á annan bankareikning í sinni eigu hjá Íslandsbanka, í samræmi við ákvæði samkomulags við meðstefndu, Reykjavíkurborg, dags. 5. júní 2012, um lúkningu ágreinings þeirra á milli.  Hafi stefnandi ekki átt neinn rétt til þeirrar greiðslu umfram aðra kröfuhafa.

                Sýknukrafan byggi hins vegar ekki á því að stefndi skuldi ekki stefnanda í samræmi við fjárhæð höfuðstóls dómkröfu heldur eingöngu á því að umþrætt greiðsla til stefnda frá meðstefnda hafi ekki verið veðsett stefnanda.  Stefnanda hafi verið veðsettar aðrar greiðslur samkvæmt vörureikningum og almennum fjárkröfum samkvæmt þeim vörureikningum grundvölluðum á tilgreindum verksamningum milli stefnda og meðstefnda.  Viðurkenni stefndi því skuld við stefnanda að fjárhæð höfuðstóls dómkröfu vegna ádráttar á reikning nr. 0701-26-17009 sem og þær veðtryggingar sem að baki þess ádráttar standi vegna útgefinna vörureikninga og almennra fjárkrafna á þeim byggðum.

                Sýknukrafan byggist hins vegar á því að greiðsla sú sem hafi farið fram 13. júní 2012 á grundvelli samkomulags, dagsettu 5. júní 2012 hafi ekki verið veðsett stefnanda.  Efni yfirlýsingarinnar um veð í almennum fjárkröfum hafi ekki tekið til framangreinds samkomulags, dags. 5. júní 2012.  Umþrætt greiðsla meðstefnda til stefnda hafi hins vegar verið vegna þess samkomulags, rétt eins og samkomulagið kveði á um og stefndi og meðstefndi hafi fullyrt. 

                Almennar fjárkröfur samkvæmt útgefnum reikningum á hendur meðstefnda hafi verið veðseldar stefnanda en ekkert umfram þá takmörkun.  Útvíkkun takmörkunar veðandlagsins samkvæmt tilkynningu í „...allar almennar fjárkröfur sem veðsali á eða eignast...“ sem rituð hafi verið einhliða af stefnanda án viðræðna, samninga eða endurgjalds við stefnda, geti ekki verið talin skuldbindandi eða til útvíkkunar tilgreinds veðandlags sem sett hafi verið að veði með yfirlýsingunni, þ.e. almennra fjárkrafna sem veðsali eigi, samkvæmt útgefnum reikningum á grundvelli framangreindra verksamninga frá og með dagsetningu yfirlýsingarinnar.  Ekki annars.  Stefnandi verði að bera hallann af óskýru orðalagi og mismun milli yfirlýsingar um veðsetningu og tilkynningarinnar.

                Stefnandi sé lánastofnun, með starfsleyfi sem viðskiptabanki, sbr. 1. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.  Dómstólar hafi gert ríkar kröfur til lánastofnana um að þær tryggi sér skýrar og ótvíræðar sannanir fyrir tilvist veðréttinda sinna, umfangi og heimildum.  Hér sé um að ræða einhliða skjalagerð og samninga ritaða af hálfu stefnanda sem stefnandi sem lánastofnun verði að bera hallann af, ef orðalagið er óskýrt og jafnvel villandi.  Stefndi taki undir fullyrðingu meðstefnda Reykjavíkurborgar í greinargerð, þar sem fullyrt sé að hafi vilji stefnanda staðið til þess að afla sér veðréttinda í þessum nýju kröfum, sem samið hafi verið um 5. júní 2012, með áðurgreindri yfirlýsingu, hefði stefnanda verið í lófa lagið að semja svo um við stefnda og hafa efni yfirlýsingar og tilkynningar í samræmi.  Stefnandi beri hallann af því að hafa ekki gert það.

                Fyrrgreindum verksamningi hafi verið rift af hálfu stefnda 15. maí 2012.  Gagnkvæmum samningum sem legið hafi til grundvallar veðsetningu og veðandlagi hafi verið rift, bæði 15. maí 2012 og í síðasta lagi 1. júní 2012 og geti veðsetning vörureikninga eða veðsetning almennra fjárkrafna samkvæmt útgefnum reikningum grundvölluðum á framangreindum verksamningum hvorki hamlað rétti stefnda til að gera sátt við meðstefnda um lúkningu ágreinings þeirra á milli né heldur að taka við greiðslu frá meðstefndu Reykjavíkurborg hinn 13. júní 2012.

                Eftir 1. júní 2012, í síðasta lagi, hafi engar kröfur verið til sem stefnandi hafi átt veðrétt í í viðskiptum stefnda og meðstefnda.  Yfirlýsing um veðsetningu á almennum fjárkröfum hafi ekki tekið til greiðslna á grundvelli sáttar stefnda og meðstefnda og því ekki skapað stefnanda réttindi yfir þeim greiðslum.

                Stefndi telur ljóst að með sátt hans við meðstefnda Reykjavíkurborg hinn 5. júní 2012 hafi orðið til nýjar og óveðsettar kröfur sem Reykjavíkurborg hafi verið heimilt að greiða stefnda án þess að leggja inn á handveðsettan reikning hjá stefnanda.  Af því leiði að stefndi hafi ekki brotið gegn meintum betri rétti stefnanda þegar stefndi hafi móttekið umþrætta greiðslu, dagsetta 13. júní 2012, inn á reikning stefnda í Íslandsbanka.  Af þeim sökum beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

                Stefndi mótmælir sérstaklega kröfu stefnanda um dráttarvexti, með vísan til upphafsdags vaxta- og dráttarvaxta, eins og honum sé lýst í stefnu.

                Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna kröfuréttar, laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, og reglna samningaréttarins um stofnun og túlkun samninga.  Þá vísar stefndi til reglna veðréttar og laga nr. 75/1997 um samningsveð.

                Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

                Stefnda Reykjavíkurborg byggir kröfu sína um sýknu á því að hún hafi verið í góðri trú við ráðstöfun greiðslna til meðstefnda, Adakris UAB, útibús á Íslandi, hinn 13. júní 2012,  inn á þann reikning  sem stefndi Adakris hafi óskað eftir, enda hafi stefnda Reykjavíkurborg og meðstefndi Adakris bæði undirritað samkomulag, dagsett 5. júní sl., um lúkningu ágreinings þeirra í milli, þar sem greiðslustaður kröfunnar hafi sérstaklega verið tilgreindur.  Stefnda Reykjavíkurborg hafi ekki verið skuldbundin því að ráðstafa greiðslum inn á bankareikning í vörslu stefnanda, að viðlagðri ábyrgð.

                Sýknukrafa hennar sé aðallega byggð á því að hún hafi ekki tekist á hendur þær skuldbindingar sem stefnandi krefjist greiðslu vegna.  Sé á því byggt að undirritun verkefnastjóra á mannvirkjaskrifstofu stefndu, undir tilkynningu, hafi ekki skuldbundið stefndu til að ráðstafa greiðslum vegna verksamninga, auk viðauka, inn á bankareikning í vörslu stefnanda, nr. 0701-26-17009, að viðlagðri bótaábyrgð gagnvart stefnanda.

                Bendir stefnda á, að veðréttur í almennum fjárkröfum öðlist réttarvernd við það að skuldarinn fái tilkynningu um veðsetninguna, annað hvort frá veðsala eða veðhafa, og með sama hætti öðlist sjálf veðsetningin réttarvernd, sbr. 1. og 2. mgr. 46. gr. laga um samningsveð nr. 75/1997.  Þegar réttarverndar sé aflað með framangreindum hætti aukist ekki skyldur skuldara.

                Stefnda byggir á því, að umboð verkefnastjóra hennar hafi eðli máls samkvæmt takmarkast af efni umræddra verksamninga.  Hafi verkefnastjórinn fyrst og fremst borið ábyrgð á eftirliti með framvindu verksins, hvað varði að umfang þess, kostnaður og tímalengd væri í samræmi við verksamninginn.  Með undirritun sinni á tilkynningu hafi verkefnastjórinn einungis verið að kvitta fyrir það að stefnda hefði móttekið umrætt skjal, enda hafi verkefnastjórinn mátt ætla, m.a. vegna reglna um umboð, að samningsskilmálum sem ætlað væri að stofna til verulegra fjárhagslegra skuldbindinga af hálfu stefndu gagnvart viðskiptabanka eins og stefnanda yrði beint annað innan stjórnkerfis stefnda til samþykktar.

                Fullyrðingar stefnanda í stefnu um „fullkomið stöðuumboð“ verkefnastjórans og „viðtekna venju í viðskiptum aðila“ séu ekki studdar neinum gögnum eða rökum.  Þeim fullyrðingum sé með öllu mótmælt sem röngum og ósönnuðum.  Ljóst sé að umboð verkefnastjórans hafi ekki náð til þess að skuldbinda stefnda með þeim hætti sem stefnandi byggi á.  Að sama skapi hafi stefnandi enga ástæðu haft til að ætla að umboð verkefnastjórans væri svo víðtækt sem á sé byggt.  Þegar af þeim sökum beri að sýkna stefnu af kröfum stefnanda.  Ef ekki verður fallist á að orðalaga umræddrar tilkynningar sé svo skýrt að leiða megi meinta ábyrgð stefndu af henni, sé efni hennar ekki á þá leið að stefnda losni aðeins undan greiðsluskyldu sinni með því að greiða inn á þann reikning sem þar sé tiltekinn.  Þess sé ekki getið berum orðum í tilkynningunni að stefndu beri að ráðstafa greiðslum inn á tiltekinn bankareikning að viðlagðri bótaábyrgð gagnvart stefnanda.  Rík krafa sé gerð til aðgæsluskyldu stefnanda í tengslum við veðsetningar og beri hann hallann af sönnunarskorti sem sé uppi í málinu.

                Miðað við framvindu verksins hafi stefnanda mátt vera það ljóst hinn 12. apríl 2011, þ.e. þegar stefndu hafi borist tilkynningin, að meðstefndi Adakris átti von á háum greiðslum á grundvelli verksamninganna.  Hafi þær greiðslur, eftir 12. apríl 2011, numið alls 1.262.792.818 krónum, þrátt fyrir að meðstefndi hafi farið frá ókláruðum verkum í kjölfar riftunar.  Af framangreindu leiði að mögulegt umfang þeirrar skuldbindingar sem stefnandi byggi ranglega á, að verkefnastjórinn hafi gengist undir fyrir hönd stefndu, nemi þeirri sömu fjárhæð.

                Málatilbúnaður stefnanda verði ekki skilinn öðruvísi en svo að hann telji að stefndu hafi, með móttöku tilkynningar, gengist undir svo umfangsmikla fjárskuldbindingu sem að framan greini, eða á annan milljarð króna, án nokkurra undanfarandi samningaviðræðna og án þess að krefjast eða eygja von um nokkurt endurgjald.  Um hreinan örlætisgerning hafi verið að ræða af hálfu stefndu.  Jafnframt byggi stefnandi á því að stefnda hafi gengist undir þessa meintu skuldbindingu með undirritun almenns starfsmanns, sem hafi enga sérstaka heimild haft til meintrar samningsgerðar, á skjal sem hafi borið með sér að vera um allt annað efni.

                Umfang, undanfari og örlætisbragur meintrar skuldbindingar stefndu samkvæmt tilkynningunni, auk annars þess sem rakið sé, sé ekki til þess fallinn að undirbyggja að túlkun stefnanda á efni tilkynningarinnar sé rétt.  Þá sé skýrleika tilkynningarinnar verulega ábótavant og beri stefnandi hallann af því.  Vegna þessa beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

                Stefndi byggir á því til vara að ef litið yrði svo á að samningur hafi komist á milli stefnanda og stefndu með undirritun um móttöku tilkynningarinnar hinn 12. apríl 2011, leiði aðdragandi þeirrar samningsgerðar sem og efni tilkynningarinnar til þess að það ákvæði tilkynningarinnar sem stefnandi beri fyrir sig skuli teljast ógilt með vísan til 33. gr. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.  Engar viðræður eða samtöl hafi átt sér stað milli stefnanda og stefnda um tilefni og efni meintrar skuldbindingar áður en stefndu hafi verið afhent skjalið.  Yfirskrift skjalsins sem stefnandi beri fyrir sig sé „Tilkynning um veð í almennum fjárkröfum“.  Ekkert í meginmáli skjalsins beri það með sér að því hafi verið ætlað að skuldbinda stefndu með þeim hætti sem stefnandi haldi fram.  Stefnandi beri aðeins fyrir sig ákvæði, sem sé að finna undir undirritun starfsmanns stefndu.  Stefnda telji því að stefnanda sé af þessum sökum óheimilt að bera gerninginn fyrir sig og því beri að sýkna hann af kröfum stefnanda.

                Stefnda byggir einnig sýknukröfu sína á því, að greiðsla sú sem fram fór hinn 13. júní 2012 á grundvelli samkomulags, dagsettu 5. júní 2012, hafi ekki verið veðsett stefnanda.  Efni tilkynningarinnar hafi ekki tekið til þeirra samninga.  Greiðsla stefndu hinn 13. júní 2012 inn á reikning meðstefnda Adakris í Íslandsbanka nr. 0515-26-700908, samtals að fjárhæð 50.150.000 krónur, hafi á hinn bóginn verið vegna þeirra samninga.  Af því leiði að ráðstöfun umræddrar greiðslu hafi ekki farið í bága við meintan betri rétt stefnanda.  Bendir stefndi á, að líkt og segi í stefnu, hafi meðstefndi Adakris veitt stefnanda 1. veðrétt í almennum fjárkröfum sínum á hendur stefnda á grundvelli verksamninga um Sæmundarskóla og Norðlingaskóla.  Stefndu hafi verið tilkynnt um veðsetningu með umræddri tilkynningu.  Veðandlagið hafi verið auðkennt með svohljóðandi hætti: „Almennar fjárkröfur sem veðsali á, samkvæmt útgefnum reikningum, á hendur Framkvæmda- og eignasviði Reykjavíkurborgar [...] á grundvelli verksamnings um Sæmundarskóla, uppsteypu og fullnaðarfrágangs, dags. 17. september 2008 og viðauka dags 20. nóvember 2009 og verksamnings um Norðlingaskóla, uppsteypu og fullnaðarfrágang dags. 20. nóvember 2009, frá og með dagsetningu þessarar yfirlýsingar með þeim hætti að veðsali tekur við greiðslu fyrir vöru eða þjónustu samkvæmt umræddum verksamningum.“  Veðandlagið sé auðkennt með sambærilegum hætti í tilkynningunni.  Nánar tiltekið segi þar að meðstefndi Adakris hafi veðsett stefnanda allar almennar fjárkröfur sem fyrrnefndi aðilinn eigi, eða kunni að eignast, á hendur framkvæmda- og eignasviði stefndu á grundvelli verksamninganna, auk viðaukans.  Jafnframt segi orðrétt í tilkynningunni: „Greiðslur Reykjavíkurborgar til veðsala [meðstefnda] samkvæmt ofangreindum verksamningum [þ.e. verksamningum á dskj. 20 og 22] skuli lagðar inn á eftirfarandi viðskiptareikning veðsala; 0701-26-017009.“

                Fyrir liggi að efni tilkynningarinnar taki einungis til þess veðandlags sem sett hafi verið að veði með yfirlýsingunni, þ.e. almennra fjárkrafna á grundvelli verksamninganna.  Meint skylda stefndu samkvæmt umræddri tilkynningu taki því ekki til greiðslna er grundvallist á öðrum gerningum og/eða atvikum, óháð því t.d. hvort slíkar greiðslur fari á milli sömu aðila.

                Títtnefndum verksamningum, auk viðaukans, hafi verið rift hinn 1. júní sl..  Þegar gagnkvæmum samningi hafi verið rift eigi hvorugur samningsaðila rétt á því að fá í hendur greiðslu samkvæmt samningnum eða ígildi hennar.  Eftir 1. júní sl. hafi meðstefndi því engar kröfur átt á hendur stefndu á grundvelli verksamninganna eða viðaukans.  Af framangreindu leiði jafnframt að eftir 1. júní sl., hafi engar þær kröfur orðið til sem stefndu hafi verið skylt að ráðstafa inn á bankareikning nr. 0701-26-017009 á grundvelli tilkynningarinnar.

                Með nýjum samningi, dagsettum 5. júní sl., hafi meðstefndi og stefnda náð samkomulagi um uppgjör sín á milli.  Samkomulagið hafi m.a. kveðið á um að stefnda skyldi greiða samtals 50.150.000 krónur inn á reikning meðstefnda í Íslandsbanka nr. 0515-26-700908.  Stefnda hafi efnt umrædda greiðsluskyldu sína hinn 13. júní 2012.

                Yfirlýsing meðstefnda um veðsetningu hafi samkvæmt efni sínu ekki tekið til greiðslna á grundvelli samninganna og hafi því ekki skapað stefnanda réttindi yfir þeim greiðslum.  Af því leiði jafnframt að tilkynningin hafi ekki tekið til síðastnefndra greiðslna.  Bendir stefnda á, að stefnandi hafi starfsleyfi sem viðskiptabanki, sbr. 1. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.  Dómstólar geri ríkari kröfur til þess að lánastofnanir tryggi sér skýrar og ótvíræðar sannanir fyrir tilvist veðréttinda sinna, umfangi og heimildum.  Lánastofnanir beri þannig hallann af því ef orðalag í veðskjölum er óskýrt.  Hafi vilji stefnanda staðið til þess að afla sér veðréttinda í þessum nýju kröfum með yfirlýsingunni hefði honum verið í lófa lagið að semja svo um við meðstefnda og þá jafnframt að haga efni tilkynningarinnar til samræmis.  Beri stefnandi hallann af því að hafa ekki gert það.  Það sé afstaða stefndu að með umræddum samningum, dagsettum 5. júní sl., hafi orðið til nýjar og óveðsettar kröfur.  Af framangreindu leiði að stefnda hafi ekki brotið gegn meintum betri rétti stefnanda þegar hann hafi greitt hina umþrættu samningsfjárhæð inn á reikning meðstefnda Adakris í Íslandsbanka hinn 13. júní 2012.

                Stefnda byggir og á því að tjón stefnanda sé ósannað.  Stefnandi byggi á því að ljóst sé að krafa hans á hendur meðstefnda Adakris vegna yfirdráttar á fyrrnefndum bankareikningi fáist ekki greidd þar sem fjöldi árangurslausra fjárnáma hafi verið gert hjá fyrirtækinu. 

                Stefnda mótmæli því að tjón stefnanda liggi fyrir, þar sem ekki liggi fyrir hver staðan er á umræddum bankareikningi nú, og að sama skapi liggi ekki fyrir upplýsingar um hreyfingar á reikningnum eftir 17. júlí sl.  Af þeim sökum verði ekki hjá því komist að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

                Stefnda mótmælir og sérstaklega fjárhæð dómkröfunnar, enda sé hún ekki studd neinum rökum og gögnum. 

                Stefnda mótmælir og sérstaklega kröfu um dráttarvexti, þar sem stefnandi hafi ekki enn fært fram nein haldbær gögn sem sýni fram á meinta kröfu hans á hendur stefnda, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Þá mótmælir stefnda einnig sérstaklega upphafsdegi vaxta og dráttarvaxta.

                Um lagarök vísar stefnda til laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, laga nr. 75/1997, um samningsveð og laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Þá vísar stefnda til reglna samningaréttarins um stofnun og túlkun samninga, meginreglna veðréttar og reglna kröfuréttar um sönnun tjóns.

                Kröfu um málskostnað byggir stefnda á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

VI

                Stefndi, Friðgeir Indriðason, byggir sýknukröfu sína á því, að dómkröfum sé ranglega beint að honum í málinu.  Hann eigi enga aðild að því.  Í maí og júlí árið 2008 hafi stefnda Reykjavíkurborg boðið út tvö verk á Evrópska efnahagssvæðinu.  Um hafi verið að ræða byggingu tveggja grunnskóla, Norðlinga- og Sæmundarskóla.  Samkvæmt útboðslýsingu fyrir Norðlingaskóla hafi verkið falið í sér alla þá verkþætti sem þyrfti til að fullgera byggingu botnplötu að fullnaðarfrágangi, þ.e.a.s. allt nema innréttingar og lausan búnað.  Í tilviki Sæmundarskóla hafi verið búið að grafa fyrir húsinu og gera púða til að steypa það á.  Að öðru leyti hafi útboðslýsingin verið sú sama og fyrir Norðlingaskóla.  Við opnun tilboða hafi komið í ljós að litháíska fyrirtækið Adakris UAB hafi verið lægstbjóðandi í verkin.  Á fundum innkauparáðs Reykjavíkurborgar 22. júlí og 30. september 2008 hafi verið samþykkt að taka tilboðum fyrirtækisins í bæði verkin.  Hafi yfirmaður sakaukastefnda setið báða fundina við meðferð málanna.  Sakaukastefndi hafi hins vegar hvergi komið nærri ákvörðunartöku.

                Verksamningur um Sæmundarskóla hafi verið undirritaður 17. september 2008.  Samkvæmt 2. gr. samningsins hafi fjárhæð verksins numið tæplega tólf hundruð milljónum króna.  Af hálfu verkkaupa hafi yfirmaður sakaukastefnda undirritað samninginn.  Sakaukastefndi hafi hvergi komið nærri samningsgerðinni.  Viðauki við verksamninginn hafi verið undirritaður 20. nóvember 2009, en meginefni hans hafi verið að seinka framkvæmdahraða og verklokum um rúmt ár.  Þennan viðauka undirritaði yfirmaður sakaukastefnda, einnig fyrir hönd verkkaupa.  Þann sama dag hafi yfirmaðurinn jafnframt undirritað verksamning um Norðlingaskóla.  Samkvæmt 2. gr. samningsins hafi fjárhæð verksins numið tæpum fjórtán hundruð milljónum króna.  Sakaukastefndi kveðst ekkert hafa komið að þessari samningsgerð.  Samanlagðar greiðslur vegna verkanna hafi því numið þremur og hálfum milljarði króna.

                Aðkoma sakaukastefnda að verkinu hafi hafist þegar hann hafi verið tilkynntur sem verkefnastjóri verkkaupa gagnvart fulltrúum Adakris.  Hlutverk hans hafi fyrst og fremst verið að koma fram fyrir hönd stefndu Reykjavíkurborgar í samskiptum við fyrirtækið.  Auk þess hafi hann séð um reikningslegt uppgjör, samþykkt alla reikninga, aukaverk og magnbreytingar til greiðsluferils.  Þá hafi hann séð um framkvæmdina sem slíka og tekið ákvarðanir varðandi einstaka verkþætti í samráði við hönnuði og aðra aðila.

                Sakaukastefndi byggir á því, að hann hafi ekki átt í neinu samningssambandi við sakaukastefnanda, hvorki með beinum né óbeinum hætti.  Einu tengsl hans við sakaukastefnanda hafi verið að undirrita, að beiðni fulltrúa verktaka, tilkynningu um veð í almennum fjárkröfum.  Í umræddri tilkynningu komi fram, að greiðslur Reykjavíkurborgar til veðsala samkvæmt ofangreindum verksamningi skyldu lagðar inn á nánar tilgreindan viðskiptareikning veðsala.  Alvanalegt sé í verkum af þessum toga að verktaki fari þess á leit við verkkaupa á framkvæmdatíma að samningsgreiðslum sé ráðstafað inn á annan reikning en tilnefndur sé í upphafi.  Í upphafi framkvæmda hafi stefndi Adakris óskað eftir því að samningsgreiðslum yrði ráðstafað inn á reikningsnúmerið 0515-26-700908 en sá reikningur sé hýstur hjá Íslandsbanka.  Eftir 11. apríl 2001 hafi vinnureglan verið sú að fulltrúi fyrirtækisins afhenti reikninga, oftast á verkfundum, þar sem eftirlitsmaður verksins hafi tekið við þeim og kvittað fyrir móttöku.  Í kjölfarið hafi sakaukastefndi og eftirlitsmaðurinn farið yfir reikninginn til samþykktar.  Þessi yfirferð hafi getað tekið nokkra klukkutíma enda reikningsgerðin flókin.  Mjög oft hafi reikningar verið endursendir til leiðréttingar en einnig hafi verið dæmi þess að reikningum væri hafnað.  Að lokinni yfirferð sakaukastefnda og eftirlitsmanns hafi reikningurinn verið sendur til bókunar.  Síðan hafi hann komið til sakaukastefnda til samþykktar í gegnum tölvutengt bókhaldskerfi.  Þegar sakaukastefndi hafi samþykkt reikninginn í tölvutæku formi hafi reikningurinn farið til næsta aðila til samþykktar og síðan til fjármálastjóra eða sviðstjóra til endanlegrar samþykktar.  Þaðan hafi reikningurinn farið til greiðslu, en þann þátt hafi fjármálaskrifstofa annast.  Hafi hún alfarið stýrt því, á grundvelli upplýsinga frá verktaka, inn á hvaða reikning væri greitt.  Í apríl 2011 hafi fulltrúi verktaka, Einar Ingason, komið á fund sakaukastefnda í þeim erindagjörðum að fá hann til að undirrita nefnda tilkynningu.  Að mati sakaukastefnda hafi það verið fullkomlega eðlilegt enda erfitt að sjá hver annar en verkefnastjóri ætti að taka við erindinu.  Sakaukastefndi kveðst þá hafa ráðfært sig við yfirmann sinn og fjármálastjóra Framkvæmda- og eignasviðs, um afgreiðslu erindisins.  Eftir athugun þeirra á erindinu hafi niðurstaðan orðið sú, að um tilkynningu á breyttum reikningsupplýsingum væri að ræða.  Sakaukastefndi kveðst hafa fengið fyrirmæli um að taka við skjalinu og koma því til fjármálaskrifstofu sem annaðist greiðslu reikninga.  Þar með hafi málið verið komið úr hans höndum og afskiptum af því lokið.  Í framhaldinu hafi hann sinnt starfi sínu sem verkefnastjóri, þ. á m. að fara yfir reikninga sem hafi borist frá verktaka og samþykkja þá til greiðslu eftir því sem verkinu hafi miðað áfram.  Samkvæmt upplýsingum sem fram komi í greinargerð Reykjavíkurborgar hafi eftirstöðvar verkfjárhæðar numið samtals 1.262.792.818 krónum, eftir að tilkynning hafi borist.  Það hafi ekki verið á ábyrgð sakaukastefnda hvort Reykjavíkurborg efndi greiðsluskyldu sína á grundvelli samþykkisins, enda hafi hann aðeins komið fram sem fulltrúi verkkaupa.  Sakaukastefndi byggir á því að tilkynningu þá sem um ræði hafi verið beint til Reykjavíkurborgar sem viðsemjanda verktaka en ekki hans persónulega.  Sakaukastefndi eigi ekki aðild að ein samningnum og lögskiptum sem standi til tryggingar fjárkröfum sakaukastefnanda.  Af því leiði að hann beri hvorki skyldur né njóti réttinda í lagalegum skilningi.  Þar sem sakaukastefndi geti aldrei talist skuldbundinn samkvæmt efni tilkynningar, geti hann aldrei talist brotlegur í skilningi hennar.  Dómkröfum sé því ranglega beint að honum, þar sem hann eigi ekki aðild að málinu.

                Verður ekki fallist á sýknu á grundvelli aðildarskorts byggir sakaukastefndi á því að hann hafi ekki tekist á hendur þær skuldbindingar sem sakaukastefndi krefji um greiðslu á.  Afskipti hans af málinu hafi fyrst hafist er hann hafi verið skipaður verkefnastjóri yfir framkvæmdunum.  Þá hafi samningsgerð verið að öllu leyti lokið, verksamningar við verkkaupa verið undirritaðir og framkvæmdir að hefjast.  Aldrei hafi vafi leikið á þætti hans í framkvæmdunum, allra síst gagnvart verktaka.  Honum hafi verið ljóst allt frá upphafi að verksvið sakaukastefnda væri að stýra verkum fyrir Reykjavíkurborg og vera fulltrúi hennar í samskiptum við verktaka.  Verktaki hafi enga ástæðu haft til að ætla að verksvið hans væri eitthvað öðruvísi, hvorki að umfangi eða efni, enda ekkert hvorki í framkomu sakaukastefnda né samskiptum hans við verktaka, sem hafi gefið tilefni til að ætla slíkt.  Verksvið sakaukastefnda í umræddum verkum hafi verið að koma fram fyrir hönd Reykjavíkurborgar í öllum samskiptum við verktaka.  Hann hafi einnig annast reikningslegt uppgjör, þ.e. tekið við, afgreitt og samþykkt alla reikninga, aukaverk og magnbreytingar til greiðsluferils.  Byggir sakaukastefndi á því að umboð hans sem verkefnastjóri hafi takmarkast við efndi umræddra verksamninga.  Umboð hans hafi falist í ábyrgð á eftirliti með framvindu verkefnisins í samræmi við verksamninginn, lengra hafi það ekki náð og það hafi allir vitað sem hlut áttu að máli.  Með undirritun sinni á tilkynninguna hafi sakaukastefndi einungis verið að kvitta fyrir að Reykjavíkurborg hefði móttekið skjalið.  Við túlkun á efni skjalsins verði að leggja til grundvallar þann skilning sakaukastefnda að teknu tilliti til stöðu hans í málinu.  Sakaukastefndi heldur því staðfastlega fram að með undirritun sinni í umrætt sinn hafi hann einungis verið að taka á móti nýjum greiðsluupplýsingum.  Líkt og efni tilkynningarinnar beri skýrlega með sér skyldi samningsgreiðslum framvegis ráðstafað inn á viðskiptareikning verktaka 0701-26-017009 hjá stefnanda.  Þetta hafi ekki gengið eftir og hafi fjármálaskrifstofa alfarið séð um þann hluta.  Fyrir liggi í málinu að á grundvelli tilkynningarinnar hafi rúmlega 11000 milljónir króna verið lagðar inn á umræddan reikning hjá stefnanda, eða allt til í júní 2012.  Sakaukastefndi bendir á að greiðslufyrirkomulagið hafi ekki verið óvenjulegt á neinn hátt.  Þver á mót sé það alvanalegt að verktakar óski eftir því á framkvæmdatíma að samningsgreiðslum sé ráðstafað inn á annan reikning en tilgreindur sé í upphafi.

                Sakaukastefndi kveðst ekki hafa gegnt stjórnunarstöðu hjá Reykjavíkurborg og málefnið hafi ekki heyrt undir verksvið hans.  Hann hafi ekki haft umboð til að skuldbinda Reykjavíkurborg fyrir einum milljarði króna.  Hvað sem öðru líði hafi stefnandi enga ástæðu haft til að ætla að umboð sakaukastefnda væri svo víðtækt, eins og byggt sé á.  Sakaukastefndi heldur því staðfastlega fram að með undirritun sinni á tilkynninguna hafi hann einungis verið að kvitta fyrir því að Reykjavíkurborg hafi móttekið skjalið annað ekki.  Í kvittuninni hafi falist að framvegis myndi Reykjavíkurborg ráðstafa samningsgreiðslum inn á reikning verktaka nr. 0701-26-017009 hjá sakaukastefnanda í stað reikningsnúmers 0515-26-700908, en sá reikningur hafi verið hýstur í Íslandsbanka.  Reykjavíkurborg hafi ekki verið að skuldbinda sig á nokkurn hátt með undirrituninni.  Einungis hafi verið um að ræða útfærslu og framkvæmd greiðslufyrirkomulags.  Af því leiði að tilvísun stefnanda í ákvæði 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1936 sé haldlaus.  Reglur ákvæðisins um umboðsleysi og/eða umboðsskort eigi ekki við og/eða umboðsskort eigi ekki við og á þeim verði ekki byggt.  Sakaukastefndi hafi ekki tekist á hendur þær fjárskuldbindingar sem stefnandi krefjist greiðslu á.  Beri því að sýkna hann af öllum dómkröfum stefnanda.

                Sakaukastefndi byggir einnig á því að skilyrði sakarreglunnar séu ekki uppfyllt í málinu.  Skaðabótakrafa stefnanda á hendur sakaukastefnda grundvallist á almennu sakarreglunni.  Til að bótaskylda stofnist á grundvelli reglunnar þurfi öll skilyrði hennar að vera uppfyllt.  Þannig þurfi tjónþoli að sýna fram á að hegðun hafi verið saknæm, auk þess sem hann þurfi að sýna fram á orsakasamhengi milli hinnar saknæmu háttsemi og tjónsins.  Þá þurfi tjónþoli einnig að sanna tjónið og sýna fram á umfang og eðli þess.  Í sakaukastefnu sé sakaukastefndi borinn þungum sökum.  Í ljósi þess hversu alvarlegar ávirðingar stefnanda séu verði að gera þá lágmarkskröfu að hann styðji þær áþreifanlegum sönnunargögnum.  Skylda stefnanda í þessu sambandi sé ríkari en almennt gerist þegar litið sé til stöðu hans.  Eins og framsetning stefnanda sé háttað í málinu sé augljóst að hann hafi ekki gert neina tilraun til að sanna hina meintu sviksamlegu háttsemi sakaukastefnda.  Hvað sem öðru líði hafi sú sönnunarfærsla ekki tekist.  Verði stefnandi að bera hallann af þeim sönnunarskorti.  Enn fremur hljóti að teljast ámælisvert af hans hálfu að fara fram með slíkum óhróðri gegn sakaukastefnda líkt og gert sé í málinu, án þess að hafa nokkuð fyrir sér í því sambandi.

                Sakaukastefnandi mótmælir sérstaklega dráttarvaxtakröfu stefnanda með vísan til þess að stefnandi hafi ekki enn fært fram nein haldbær gögn sem sýni fram á meinta kröfu hans á hendur sakaukastefnda, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Sakaukastefndi mótmælir sérstaklega kröfu stefnanda um upphafsdag dráttarvaxta, en það hafi fyrst verið með innheimtubréfi, dagsettu 12. febrúar 2013, sem sakaukastefnda hafi orðið það ljóst að stefnandi ætlaði að krefja hann um greiðslu hinnar meintu skuldar.

                Um lagarök vísar sakaukastefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttar, um stofnun og túlkun samninga.  Þá vísar hann til meginreglna skaðabótaréttar, einkum almennu sakarreglunnar, og 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

                Kröfu um málskostnað byggir sakaukastefndi á lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. 

                Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir sakaukastefndi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

V

                Ágreiningur máls þessa lýtur aðallega að því hvort stefndu Reykjavíkurborg hafi verið heimilt að greiða inn á bankareikning stefnda, Adakris UAB, útibús á Íslandi, í Íslandsbanka.  Byggir stefnandi á því að stefndu Reykjavíkurborg hafi verið óheimil sú ráðstöfun, þar sem stefnandi hafi átt 1. veðrétt í þeim kröfum.   Verður að skilja kröfugerð stefnanda á þann hátt að hann krefji stefndu Reykjavíkurborg um greiðslu skaðabóta, þar sem ráðstöfun greiðslunnar með framangreindum hætti hafi verið bæði saknæm og ólögmæt.

                Stefnda Reykjavíkurborg byggir á því, að hún hafi verið í góðri trú við ráðstöfun greiðslna til Adakris UAB, útibús á Íslandi, inn á þann bankareikning sem Adakris hafi óskað eftir.  Þá mótmælir stefnda Reykjavíkurborg því að hafa tekist á hendur þær skuldbindingar gagnvart stefnanda, að ráðstafa greiðslunum inn á bankareikning í vörslum stefnanda.  Hafi undirritun varastefnda undir tilkynninguna ekki skuldbundið stefndu til þeirrar ráðstöfunar, þar sem hann hafi ekki haft umboð til að skuldbinda stefndu Reykjavíkurborg með þeim hætti.  Til vara byggir stefnda á því að það ákvæði tilkynningarinnar sem stefnandi beri fyrir sig skuli teljast ógilt með vísan til 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, á grundvelli aðdraganda samningsgerðarinnar og efnis tilkynningarinnar.  Þá byggir stefnda á því að umdeild greiðsla hafi ekki verið veðsett stefnanda, þar sem efni tilkynningarinnar hafi ekki tekið til samnings stefndu Reykjavíkurborgar og Adakris, dagsetts 5. júní 2012, um uppgjör þeirra í milli.  Einnig byggði stefnda á því að tjón stefnanda sé ósannað.

                Eftir að mál þetta var höfðað var bú stefnda, Adakris UAB, útibús á Íslandi, tekið til gjaldþrotaskipta og kaus skiptastjóri þrotabúsins að halda ekki uppi vörnum í málinu.   Stefndi, Adakris UAB, útibú á Íslandi, mótmælti því ekki í greinargerð sinni að skulda stefnanda umstefnda fjárhæð, en kvaðst hafa tekið við umdeildri greiðslu frá stefndu Reykjavíkurborg í góðri trú.  Hins vegar byggði stefndi Adakris á því að greiðslan hefði ekki verið veðsett stefnanda.  Efni yfirlýsingarinnar um veð í almennum fjárkröfum hafi ekki tekið til samkomulagsins 5. júní 2012, en greiðslan hafi verið vegna þess samkomulags, og gagnkvæmum samningi sem legið hafi til grundvallar veðsetningu og veðandlagi hafi áður verið rift.

                Samkvæmt framlagðri yfirlýsingu, dagsettri 12. apríl 2011, um veð í almennum fjárkröfum samkvæmt 45. og 46. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð, setti stefndi, Adakris UAB, útibú á Íslandi, stefnanda að veði 1. veðrétt í: „Almennar fjárkröfur sem veðsali á, samkvæmt útgefnum reikningum, á hendur Framkvæmda- og eignasviði Reykjavíkurborgar, kt. 570480-0149, Borgartúni 10-12, 105 Reykjavík, á grundvelli verksamnings um Sæmundarskóla, uppsteypu og fullnaðarfrágang, dags. 17. september 2008 og viðauka dags. 20. nóvember 2009 og verksamnings um Norðlingaskóla, uppsteypu og fullnaðarfrágang dags. 20. nóvember 2009, frá og með dagsetningu þessarar yfirlýsingar með þeim hætti að veðsali tekur við greiðslu fyrir vöru eða þjónustu samkvæmt umræddum verksamningum.  Veðrétturinn nær einnig til vaxta, verðbóta og dráttarvaxta af kröfunum“.  Fyrir liggur og er óumdeilt að tilkynning um veðið, dagsett sama dag, var afhent á skrifstofu Framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar, þar sem kvittað var fyrir móttöku hennar af varastefnda, þar sem segir: „Framkvæmda- og eignasvið Reykjavíkurborgar staðfestir hér með ofangreinda handveðsetningu og mun sjá til þess að andvirði umbeðinna greiðslna gangi inn á ofangreindan reikning“, en í tilkynningunni kemur fram að greiðslur Reykjavíkurborgar til veðsala samkvæmt verksamningunum skyldu lagðar inn á viðskiptareikning veðsala nr. 0701-26-017009.   Kvaðst varastefni, sem var starfsmaður stefndu Reykjavíkurborgar, og hafði umsjón með umræddum verkframkvæmdum fyrir stefndu, hafa tekið við tilkynningunni og komið henni til fjármálaskrifstofu sem annaðist greiðslu reikninga.  Verður að líta svo á að stöðu sinnar vegna hafi hann haft umboð til þess, enda liggur fyrir að greiðslur samkvæmt áðurgreindum verksamningum voru eftir það greiddar inn á hinn handveðsetta reikning í vörslum stefnanda, eða allt til þess að stefndi Adakris fór frá verkunum og stefndu gerðu mér sér samkomulag um lokauppgjör þeirra í júní 2012.  

Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 75/1997 öðlast veðréttur í almennum kröfum réttarvernd við það að skuldarinn fær tilkynningu um veðsetninguna, annað hvort frá veðsala eða veðhafa.  Með því að fyrir liggur að tilkynning um veðsetninguna, samkvæmt framansögðu, var komið til stefndu Reykjavíkurborgar, var hún bundin af veðsetningunni og engin nauðsyn á sérstöku samþykki stefndu Reykjavíkurborgar í tengslum við veðsetninguna.  Er ekkert það fram komið í málinu um samskipti aðila sem bendir til þess að stefnda Reykjavíkurborg  hafi mátt ætla að veðrétturinn væri fallinn niður.  Í því ljósi gat stefndu Reykjavíkurborg ekki dulist að með því að greiða inn á reikning stefnda Adakris í Íslandsbanka gæti hún valdið stefnanda tjóni.  Ekki verður talið að sjónarmið um aðgæsluskyldu bankastofnana um að tryggja sér sönnur um tilvist veðréttinda sinna breyti framangreindri niðurstöðu.  Bar stefndu því að ráðstafa umræddum greiðslum á grundvelli samkomulags stefndu Reykjavíkurborgar og Adakris UAB, útibús á Íslandi, sem voru vegna uppgjörs á áðurnefndum verksamningum, inn á þann reikning sem tilgreindur var í tilkynningunni.  Hefur stefnda á engan hátt sýnt fram á það að efni tilkynningarinnar sé svo óvenjulegt eða íþyngjandi að skilyrðum 36. gr. laga nr. 7/1936 fyrir ógildi sé fullnægt.  Þá er ekkert það fram komið sem bendir til þess að starfsmenn stefnanda hafi haft vitneskju um einhver þau atvik sem leitt geti til þess að óheiðarlegt sé af stefnanda að bera löggerninginn fyrir sig.  Verður handveðsetningin og tilkynning þar um fráleitt talin ógild á grundvelli 33 gr. gr. laga nr. 7/1936. 

Fyrir liggur að stefndi Adakris er nú gjaldþrota og samkvæmt gögnum málsins er skuld á umræddum reikningi Adakris sem nemur hinni umstefndu fjárhæð.  Samkvæmt því verður fallist á að stefnandi eigi skaðabótakröfu á hendur stefndu Reykjavíkurborg, sem nemur þeirri fjárhæð sem er skuld stefnda Adakris UAB, útibús á Íslandi, á hinum handveðsetta bankareikningi nr. 0701-26-17009.  Verður stefnda Reykjavíkurborg því dæmd til að greiða stefnanda þá fjárhæð, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi sem krafist er í stefnu, eða 13. júlí 2012, en umrædd greiðsla var innt af hendi inn á reikning Adakris í Íslandsbanka, þrátt fyrir veðsetninguna, hinn 13. júní 2012, fram til 16. nóvember 2012, eða mánuði frá birtingu stefnu, en frá þeim degi til greiðsludags með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.

Stefnandi gerir og kröfu á hendur stefnda, Adakris UAB, útibúi á Íslandi, um að viðurkennt verði að stefnanda sé heimilt að ráðstafa greiðslu frá stefndu Reykjavíkurborg samkvæmt framangreindum dómkröfum, til greiðslu á skuld þess stefnda við sig vegna yfirdráttar hans á framangreindan reikning.   Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi af því hagsmuni að lögum að sérstaklega verði viðurkennt með dómi hvernig hann ráðstafar þeirri skaðabótagreiðslu.  Ber því að vísa viðurkenningarkröfu stefnanda frá dómi án kröfu, samkvæmt 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.   

Með því að fallist hefur verið á kröfu stefnanda á hendur stefndu Reykjavíkurborg, ber þegar af þeirri ástæðu, að sýkna varastefnda, Friðgeir Indriðason, af öllum kröfum stefnanda.

Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefndu Reykjavíkurborg til að greiða stefnanda, MP-banka hf., málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur.   Með vísan til niðurstöðu málsins og atvika allra, þykir rétt að dæma stefnanda til að greiða varastefnda, Friðgeiri Indriðasyni, málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur.  Málskostnaður milli stefnanda og stefnda, Adakris UAB, útibús á Íslandi, verður látinn falla niður.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Stefnda, Reykjavíkurborg, greiði stefnanda, MP banka hf., 28.281.218 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. júlí 2012 til 16. nóvember 2012, en frá þeim degi til greiðsludags með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. 

Stefnda greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.

Varastefndi, Friðgeir Indriðason, er sýkn af kröfum stefnanda, MP-banka hf.  Stefnandi greiði varastefnda 500.000 krónur í málskostnað.

Vísað er frá dómi kröfu stefnanda, á hendur stefnda, þrotabúi Adakris UAB, útibús á Íslandi, um að viðurkennt verði að stefnanda sé heimilt að ráðstafa greiðslu frá stefndu Reykjavíkurborg, að fjárhæð 28.281.218 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 13. júlí 2012 til greiðsludags, en til vara, að stefnda verði dæmd til að leggja hina umkröfðu fjárhæð með vöxtum, frá sama degi til fullnustudags, inn á bankareikning með nr. 0701-26-17009, hjá stefnanda, til greiðslu á skuld þess stefnda við sig vegna yfirdráttar hans á framangreindan bankareikning. 

Málskostnaður milli stefnanda og stefnda, þb. Adakris UAB, útibús á Íslandi, fellur niður.