Hæstiréttur íslands
Mál nr. 222/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Fyrning
|
|
Föstudaginn 4. maí 2007. |
|
Nr. 222/2007. |
Helgi Jónsson(Valgeir Kristinsson hrl.) gegn Lánasjóði íslenskra námsmanna (Björn L. Bergsson hrl.) |
Kærumál. Fjárnám. Fyrning.
L leitaði 6. nóvember 2006 eftir endurupptöku á fjárnámi, sem gert hafði verið hjá H 10. október 2000, til tryggingar kröfu L samkvæmt stefnu, sem árituð hafði verið um aðfararhæfi 29. apríl 1996. Fjárnám var gert fyrir kröfunni 14. desember 2006 og krafðist H ógildingar gerðarinnar fyrir dómi. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að upphafleg beiðni um fjárnám hefði borist sýslumanni 20. maí 1996, en ekki orðið af gerðinni fyrr en 10. október 2000. Vegna þessa dráttar í meira en fjögur ár á framkvæmd gerðarinnar var ekki talið að beiðni um hana hafi getað leitt til slita fyrningar á kröfunni, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Þá var ekki talið að beiðni L um nauðungarsölu á grundvelli upphaflega fjárnámsins hafi getað slitið fyrningu kröfunnar, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Samkvæmt þessu var krafa L fallin niður fyrir fyrningu þegar endurupptökubeiðnin barst sýslumanni og fjárnámið því fellt úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. apríl 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2007, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá honum 14. desember 2006 fyrir kröfu varnaraðila að fjárhæð samtals 5.130.710 krónur, en sóknaraðili kveðst fyrst hafa fengið vitneskju um hinn kærða úrskurð 11. apríl 2007. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess aðallega að fjárnám þetta verði fellt úr gildi, en til vara að það verði látið taka til lægri fjárhæðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
I.
Samkvæmt gögnum málsins var stefna í máli, sem varnaraðili höfðaði á hendur sóknaraðila til heimtu kröfu samkvæmt skuldabréfi, árituð um aðfararhæfi í Héraðsdómi Reykjavíkur 29. apríl 1996. Með þessu varð aðfararhæf dómkrafa varnaraðila um greiðslu höfuðstóls skuldarinnar, 1.030.924 krónur, og dráttarvaxta samkvæmt III. kafla þágildandi vaxtalaga nr. 25/1987 af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. desember 1991 til greiðsludags en að frádreginni innborgun á 90.652 krónum, auk málskostnaðar að fjárhæð 25.000 krónur.
Beiðni varnaraðila um fjárnám fyrir kröfu samkvæmt þessari heimild, samtals að fjárhæð 1.380.934 krónur, barst sýslumanninum í Reykjavík 20. maí 1996. Eins og málið liggur fyrir verður ekki séð að sýslumaður hafi tekið fyrir þessa beiðni fyrr en fjárnám var gert á grundvelli hennar 10. október 2000 í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni Bauganesi 44 í Reykjavík. Varnaraðili leitaði 19. október 2000 nauðungarsölu með stoð í fjárnáminu og mun hún hafa farið fram 3. október 2001 án þess að hann fengi greiðslu af söluverði eignarinnar.
Varnaraðili beindi til sýslumanns beiðni um endurupptöku 6. nóvember 2006, þar sem krafist var fjárnáms hjá sóknaraðila fyrir sömu skuld og áður greinir, en fjárhæð hennar var sögð orðin samtals 5.130.710 krónur. Sýslumaður tók beiðnina fyrir 14. desember 2006 og var þar mætt af hálfu sóknaraðila, sem mótmælti framgangi gerðarinnar, svo og fjárhæðinni, sem fjárnáms var krafist fyrir. Bókað var við gerðina að varnaraðili féllist á að lækka fjárhæð málskostnaðar samkvæmt sundurliðun kröfu hans, en að fram kominni þeirri breytingu var mótmælum sóknaraðila hafnað og fjárnám gert eftir kröfu varnaraðila. Af gögnum málsins virðist mega ráða að við gerðina hafi legið fyrir skjal frá varnaraðila 14. desember 2006, þar sem greint var frá leiðréttingu á útreikningi dráttarvaxta í beiðni hans frá 6. nóvember sama ár, en með tilliti til hennar taldist krafa hans samtals að fjárhæð 2.378.419 krónur. Endurrit af gerðinni ber ekki með sér að litið hafi verið til þessa þegar fjárnám var gert. Sóknaraðili krafðist úrlausnar héraðsdóms um gerðina 21. desember 2006 og var þetta mál þingfest af því tilefni 12. janúar 2007.
II.
Samkvæmt 1. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sbr. 2. mgr. 113. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, fyrnist krafa samkvæmt stefnu, sem árituð hefur verið um aðfararhæfi, á tíu árum. Sýslumanninum í Reykjavík barst 20. maí 1996 beiðni varnaraðila um fjárnám á grundvelli áritaðrar stefnu í máli hans gegn sóknaraðila. Ekkert liggur fyrir í málinu um að sýslumaður hafi tekið fyrir þessa beiðni fyrr en 10. október 2000. Vegna þessa dráttar í meira en fjögur ár á framkvæmd gerðarinnar, sem varnaraðili hefur í engu réttlætt svo að áhrif geti haft að lögum, gat beiðni um hana ekki leitt til slita fyrningar á kröfu hans samkvæmt 52. gr. laga nr. 90/1989. Beiðni varnaraðila um nauðungarsölu á grundvelli fjárnámsins gat heldur ekki slitið fyrningu kröfunnar, enda fékkst þar ekki fullnusta hennar, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Varnaraðili hefur ekki borið fyrir sig að annað hafi gerst, sem valdið gæti fyrningarslitum, frá því að stefnan var árituð um aðfararhæfi 29. apríl 1996 fram að því að hann leitaði aftur fjárnáms hjá sóknaraðila með beiðni, sem barst sýslumanni 17. nóvember 2006. Krafa varnaraðila var því á þeim tíma fallin niður fyrir fyrningu og óheimilt að gera fjárnám fyrir henni án þess að sóknaraðili lýsti yfir að hann bæri það ekki fyrir sig, sbr. 9. gr. laga nr. 90/1989. Samkvæmt þessu verður að taka til greina kröfu sóknaraðila um að fjárnámið verði fellt úr gildi.
Eftir þessum úrslitum málsins verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Fellt er úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði 14. desember 2006 hjá sóknaraðila, Helga Jónssyni, samkvæmt kröfu varnaraðila, Lánasjóðs íslenskra námsmanna.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, 29. mars 2007.
Í máli þessu er borin undir héraðsdóm aðfarargerð sem sýslumannsembættið í Reykjavík gerði hjá sóknaraðila hinn 14. desember 2006. Beiðni sóknaraðila var móttekin í Héraðsdómi Reykjavíkur 21. desember 2006. Málið var þingfest 12. janúar 2007 og tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð 1. mars 2007.
Sóknaraðili er Helgi Jónsson, [kt.], Bauganesi 44, 101 Reykjavík.
Varnaraðili er Lánasjóður íslenskra námsmanna, [kt.], Borgartúni 21, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að aðfarargerð, nr. 011-2006-16882, sem framkvæmd var 14. desember 2006 af sýslumanninum í Reykjavík, gegn sóknaraðila, verði felld úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst sýknu af öllum kröfum sóknaraðila. Jafnframt krefst hann málskostnaðar.
Í aðfararbeiðni varnaraðila var krafist endurupptöku aðfarargerðar hjá sóknaraðila í eignarhlut hans í fasteigninni Bauganesi 44, fastanúmer 202-9607, Reykjavík. Krafa varnaraðila studdist við fjárnám sem gert var hjá sóknaraðila hinn 10. október 2000, sbr. 1. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu og 5. tl. 1. mgr. 66. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989. Er krafan sögð að höfuðstól 1.229.502 krónur, en sögð nema samtals 5.130.710 krónum, en samkvæmt leiðréttingu á endurupptökubeiðni, dagsettri 14. desember 2006, 2.378.419 krónur. Fjárnám var gert á skrifstofu sýslumanns 14. desember 2006. Sóknaraðili mætti ekki. Var fjárnám gert í þinglesinni eign sóknaraðila.
II
Aðfararheimildin í málinu er árituð stefna í héraðsdómsmáli milli varnaraðila og sóknaraðila fyrir höfuðstól 1.030.924 krónur auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Málið var þingfest 19. mars 1996 og stefna árituð 29. apríl 1996 um aðfararhæfni dómkrafna ásamt málskostnaði, 25.000 krónur. Til skuldarinnar hafði verið stofnað með útgáfu skuldabréfa árin 1985 til 1988. Hinn 10. október 2000 gerði varnaraðili fjárnám hjá sóknaraðila í fasteigninni Bauganesi 44 Reykjavík. Varnaraðili óskaði eftir nauðungarsölu í eigninni sem var seld á nauðungaruppboði 3. október 2001, án þess að greiðsla kæmi upp í fjárnámskröfuna. Krafa varnaraðila nam 1.380.934 krónum þegar fjárnámið fór fram hinn 10. október 2000. Fyrir liggur að afsal fyrir fasteigninni Bauganesi 44 til handa sóknaraðila var svo ekki fært inn í þinglýsingarbók fyrr en hinn 4. desember 2006. Sóknaraðili var því ekki skráður fyrir fasteign eða vitað um aðrar eignir sem dygðu til tryggingar og fullnustu kröfu varnaraðila á þeim tíma.
Varnaraðili óskaði svo eftir endurupptöku aðfarar hinn 6. nóvember 2006, sem lauk með fjárnámi hinn 14. desember 2006 í fasteign sóknaraðila að Bauganesi 44. Krafa varnaraðila nam samkvæmt endurupptökubeiðninni 5.130.710 krónum. Varnaraðili lagði fram nýjan útreikning hinn 14. desember 2006 og krafa varnaraðila talin 2.378.419 krónur, en þá var málskostnaður þar talinn 69.507 krónur, en samkvæmt árituðu stefnunni er hann kr. 25.000.
Við gerðina mótmælti sóknaraðili kröfum varnaraðila á þeim forsendum að krafan væri fyrnd eða fallin niður fyrir tómlæti, sem og dráttarvextir væru of hátt reiknaðir.
III
Sóknaraðili heldur því fram að krafa varnaraðila sé fallin niður sökum fyrningar og/eða tómlætis. Fyrningartími hinnar árituðu stefnu, sem sé aðfararheimild kröfunnar, sé 10 ár frá áritun hennar að telja hinn 29. apríl 1996. Krafan hafi því verið fyrnd þegar beiðni hafi komið fram um nýtt fjárnám hjá sóknaraðila hinn 6. nóvember 2006.
Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðili hafi ekki uppfyllt ákvæði 52. gr. aðfararlaga um að halda málinu áfram án ástæðulauss dráttar, svo sem með því að óska eftir endurupptöku fljótlega eftir að uppboðsmálinu í Bauganesi 44 lauk í janúar 2002.
Sóknaraðili telur tómlæti varnaraðila ótvírætt. Krafan hafi stofnast með skuldabréfum sem gefin hafi verið út árin 1985 til 1988. Vanskil hafi hafist hinn 1. september 1991 og ekkert hafi verið greitt inn á skuldina um árabil. Stefna hafi svo verið árituð á hendur sóknaraðila sem hafi verið ábyrgðarmaður að skuldabréfunum hinn 29. apríl 1996, um fjórum og hálfu ári eftir að vanskil hófust. Fjárnám og uppboðsbeiðni séu svo dagsett 10. október 2000, fjórum árum eftir að stefnan var árituð. Frá því að uppboðsmálinu lauk í janúar 2002 séu liðin tæp fimm ár. Frá því að til skuldanna stofnaðist séu því liðin 21 ár og frá því vanskil hófust séu liðin 15 ár. Á þeim tíma hafi farið fram eitt fjárnám í fasteign sem ekki hafi borið árangur. Tómlæti varnaraðila hafi verið svo stórkostlegt að hann hafi látið undir höfuð leggjast að verða sér út um aðfararhæfa heimild til að ganga að aðalskuldara í málinu, Astrid Helgadóttur. Sóknaraðili hafi mátt ganga út frá því frá upphafi, að hann sem ábyrgðarmaður, þyrfti ekki að greiða skuld nema aðalskuldari kæmist í greiðsluþrot. Aldrei hafi hins vegar reynt á greiðslugetu aðalskuldara.
Sóknaraðili heldur því fram að hafna beri dráttarvöxtum nema í fyrsta lagi frá þeim tíma sem beiðni um endurupptöku hafi komið fram, þar sem ekki hafi verið aðhafst neitt af hálfu varnaraðila frá janúar 2002. Dráttarvextir séu of hátt reiknaðir jafnvel þótt miðað sé við 4 ár frá beiðni um endurupptöku að telja. Það sjáist á endurútreikningi sem varnaraðili hafi lagt fram, svo og því að dráttarvextir af kostnaði séu hlutfallslega hærri en dráttarvextir af höfuðstól.
Endurrit staðfestra framlagðra gagna hafi sóknaraðili fengið í hendur 19. desember 2006.
Um lagarök vísar sóknaraðili til 7. kafla laga um aðför nr. 90/1989, einkum 52. gr., laga um fyrningu nr. 14/1905, og réttarreglna um tómlæti.
IV
Varnaraðili heldur því fram að krafan sé ófyrnd og að hún sé ekki fallin niður fyrir tómlæti. Kröfu um niðurfellingu vegna fyrningar mótmælir varnaraðili sem rangri á grundvelli þess að hinn 10. október 2000 hafi verið gert fjárnám hjá sóknaraðila vegna kröfunnar og því hafi fyrning verið rofin þá, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1989. Innheimtan hafi verið án ástæðulauss dráttar. Ekkert í gögnum málsins bendi til þess að aðfarargerð þeirri sem lokið hafi verið með fjárnámi í eignarhluta sóknaraðila í Bauganesi 44 hinn 10. október 2000, hafi ekki verið fram haldið án ástæðulauss dráttar frá því að beiðni um aðför hafi verið lögð fyrir sýslumann. Varnaraðili mótmælir röksemdum sóknaraðila um að krafan sé fyrnd, sbr. síðari málslið 52. gr. laga nr. 90/1989 þar sem ekki hafi orðið ástæðulaus dráttur á innheimtu úr hendi hans. Þá heldur varnaraðili því fram að orðalagið „án ástæðulauss dráttar“ í 52. gr. laga nr. 90/1989 geti ekki átt við varðandi þann tíma sem líði frá því að aðför hafi verið lokið og þangað til að hún sé endurupptekin með heimild í 5. tl. 66. gr. laga nr. 90/1989, eins og gert hafi verið í þessu máli. Í millitíðinni hafi verið rekið uppboðsmál sem hafi staðið frá því að beiðni um nauðungarsölu hafi verið lögð fram hinn 17. apríl 2001 þar til húsið var selt hinn 3. október 2001, en eftir söluna hafi sóknaraðili verið eignalaus eftir því sem best hafi verið vitað og því engin úrræði tiltæk til þess að fullnusta kröfuna úr höndum sóknaraðila.
Varnaraðili byggir enn fremur á því að hér sé ekki um sömu aðfarargerðina að ræða og þá, sem hafi lokið hinn 10. október 2000, enda sé það beinlínis tekið fram í athugasemdum við 5. tl. 66. gr. laga nr. 90/1989 að það skipti ekki teljandi máli hvort sú aðgerð, að gerðarbeiðandi leiti fjárnáms í frekari eignum, af þeim sökum að ekki hafi tekist að fullnusta kröfuna með söluandvirði, sé nefnd endurupptaka fyrri gerðar eða verði talin ný fjárnámsgerð fyrir eftirstöðvum kröfunnar.
Varnaraðili byggir á því að orðalagið „án ástæðulauss dráttar“ í 52. gr. laga nr. 90/1989 verði ekki skilið þannig að átt sé við tímann sem líði frá því að upphaflegri aðför lauk og þangað til að endurupptöku sé krafist á grundvelli 66. gr. laga nr. 90/1989. Varnaraðili mótmæli því að krafan sé fyrnd á grundvelli 66. gr. laga nr. 90/1989, enda hafi sannarlega farið fram aðför hinn 10. október 2000 og þar með hafi fyrning verið rofin, sbr. 52. gr. laganna.
Varnaraðili byggir á því að þó ekki hafi verið óskað endurupptöku strax í kjölfar þess að uppboðsmálinu vegna Bauganess 44 hafi verið lokið í janúar 2002 reyni ekki á tómlæti. Ekki hafi verið vænlegt til árangurs fyrir hann að krefjast endurupptöku, fyrr en það hafi verið gert, vegna þess að sóknaraðili hafi ekki orðið þinglýstur eigandi fasteignarinnar í Bauganesi 44, né þinglýstur eigandi nokkurra annarra eigna, fyrr en hinn 4. desember 2006. Átta dögum síðar hafi á ný verið gert fjárnám í eignarhluta sóknaraðila í Bauganesi 44. Fráleitt sé að telja að sá tími sem leið þar til aðförin hafi verið endurupptekin, eða þjónað hafi einhverjum tilgangi að endurupptaka fjárnámið, verði talinn svo langur að um tómlæti sé að ræða sem valdi niðurfellingu kröfunnar.
Þá byggir varnaraðili á því að hann hafi viðhaldið kröfunni eftir fremsta megni en það hafi verið afar erfitt, m.a. vegna greiðsluörðugleika skuldara og ábyrgðarmanna og þeirri staðreynd að aðalskuldari hafi verið búsett á Spáni um árabil. Um sé að ræða sjálfskuldarábyrgð og því hafi það enga þýðingu varðandi gildi þeirrar aðfarargerðar sem hér sé kærð hvort fyrst hefði verið reynt að fullnusta kröfuna á hendur aðalskuldara, enda felist það í eðli sjálfskuldarábyrgðar að ekki sé nauðsynlegt að ganga á aðalskuldara áður en ábyrgðarmaður sé krafinn um greiðslu.
Málareksturinn hafi teygst á langinn, m.a. vegna þess að í kjölfar hins áritaða dóms árið 1996 hafi móðir aðalskuldara óskað eftir því að vanskilum yrði skuldbreytt yfir á skuldabréf í þeim tilgangi að koma málinu í skil. Hafi af þeim sökum verið útbúið skuldabréf af varnaraðila sem aldrei hafi verið sótt eða greitt af stimpilgjald af hálfu aðalskuldara. Svo þegar ljóst hafi verið að ítrekuð loforð aðalskuldara og aðstandenda hans um greiðslu hafi verið byggð á sandi hafi málinu verið fram haldið af varnaraðila með fjárnámi því sem framkvæmt hafi verið 10. október 2000. Jafnvel eftir að sölu Bauganess 44 hafi verið lokið, án þess að nokkuð kæmi í hlut varnaraðila, hafi á nýjan leik verið óskað eftir því af aðalskuldara að skuldabréf vegna vanskila yrði undirbúið sem greiða ætti af, í fyrsta skipti hinn 4. janúar 2002, en eins og í fyrra skiptið hafi skuldabréfið aldrei verið sótt, aldrei verið greitt af því stimpilgjald og því aldrei byrjað að greiða af því af hálfu aðalskuldara þrátt fyrir umtalsverða eftirgangssemi.
Um lagarök vísar varnaraðili til meginreglna kröfuréttar og laga um aðför nr. 90/1989.
Kröfu um málskostnað byggir varnaraðili á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Varnaraðili leitaði fullnustu fyrir kröfu sinni hjá sóknaraðila, samkvæmt áritaðri stefnu 29. apríl 1996. Hinn 10. október 2000 var gert fjárnám hjá sóknaraðila fyrir skuldinni í fasteign hans Bauganesi 44, Reykjavík. Varnaraðili óskaði eftir nauðungarsölu á eigninni, sem var seld nauðungarsölu hinn 3. október 2001, án þess að greiðsla kæmi upp í kröfu varnaraðila. Sóknaraðili varð aftur eigandi sömu fasteignar síðar, og var afsali þinglýst á hann fyrir eigninni 4. desember 2006. Í kjölfar þess var óskað eftir endurupptöku fjárnámsgerðar hinn 6. nóvember 2006 , sem lauk með fjárnámi í fasteigninni hinn 14. desember 2006.
Sóknaraðili leitar eftir að gerðin verði felld úr gildi. Byggir hann bæði á því, að krafan sé fallin niður sökum fyrningar eða tómlætis, og að ekki séu uppfyllt skilyrði 52. gr. aðfararlaga um að halda skuli máli áfram án ástæðulauss dráttar.
Í 52. gr. laga nr. 90/1989 um aðför er ákvæði um fyrningu aðfararhæfrar kröfu svohljóðandi: „Fyrning aðfararhæfrar kröfu er slitið, ef aðfararbeiðni berst héraðsdómara eða sýslumanni fyrir lok fyrningartíma og gerðinni er síðan fram haldið án ástæðulauss dráttar.“ Samkvæmt 1. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905, um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, fyrnast dómkröfur á tíu árum. Samkvæmt því skyldi krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila fyrnast 29. apríl 2006.
Ljóst er af atvikum máls að fyrningarfresti var slitið þegar varnaraðili óskaði eftir aðför árið 2000.
Sóknaraðili byggir á að gerðinni hafi síðan í kjölfarið ekki verið haldið fram án ástæðulauss dráttar, þar sem varnaraðili hafi ekki aðhafst neitt í málinu í tæp 5 ár, þ.e. frá nauðungarsölu í janúar 2002, fram til 6. nóvember 2006 þegar beiðni um endurupptöku barst sýslumanni.
Í 5. tl. 66. gr. laga nr. 90/1989 er heimild fyrir endurupptöku fjárnámsgerðar ef söluandvirði hins fjárnumda við nauðungarsölu, hefur ekki hrokkið til fullrar greiðslu kröfu gerðarbeiðanda. Fyrir liggur að árið 2000 þegar fjárnám var gert hjá sóknaraðila og fasteignin hans Bauganes 44 seld nauðungarsölu fékk varnaraðili ekki greiðslur upp í kröfu sína. Eftir þann tíma og fram til 4. desember 2006 liggur ekki fyrir að sóknaraðili hafi verið skráður fyrir fasteign né hafi verið vitað um aðrar eignir sem dygðu til tryggingar og fullnustu kröfu varnaraðila. Ber því að fallast á það með varnaraðila að fyrir þann tíma hafi ekki verið ástæða til að óska eftir endurupptöku aðfarargerðarinnar og að skilyrði voru til endurupptöku málsins, samkvæmt ákvæðinu, hinn 4. desember 2006, er sóknaraðili var orðinn eigandi eignar, sem unnt var að gera fjárnám í. Verður því litið svo á að gerðinni hafi verið haldið áfram án ástæðulauss dráttar eftir að beiðni um aðför til að fullnægja henni hafði borist sýslumanni, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1989 og að varnaraðili hafi ekki sýnt af sér tómlæti við innheimtu kröfunnar. Ekki var heldur nauðsynlegt að leita fullnustu hjá aðalskuldara, samkvæmt skuldabréfinu, enda sóknaraðili sjálfskuldarábyrgðarmaður og varnaraðila því ekki þörf á að leita fyrst fullnustu hjá aðalskuldara og varnaraðili hafði dóm fyrir kröfu sinni samkvæmt fjárnáminu á hendur sóknaraðila.
Sóknaraðili kveður dráttarvaxtakröfu varnaraðila vera of háa. Endurupptökubeiðni sóknaraðila var leiðrétt, hinn 14. desember 2006, þar sem dráttarvaxtakrafa var lækkuð um rúmar tvær milljónir, og dráttarvaxta krafist í fjögur ár frá dagsetningu endurupptökubeiðni gerðarinnar. Vextir fyrnast á fjórum árum, samkvæmt 3. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Gat varnaraðili því krafist vaxta fyrir þann tíma af höfuðstól skuldarinnar, enda krafan í gjalddaga fallin og litið hefur verið svo á að varnaraðila hafi ekki sýnt af sér tómlæti við innheimtu kröfunnar.
Verður því fallist á kröfur varnaraðila um að staðfesta fjárnámsgerðina.
Eftir þessari niðurstöðu ber að úrskurða sóknaraðila til þess að greiða varnaraðila málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Hin kærða aðfarargerð, nr. 011-2006-16882, sem gerð var hjá sóknaraðila, Helga Jónssyni, hinn 14. desember 2006, er staðfest.
Sóknaraðili, Helgi Jónsson., greiði varnaraðila, Lánasjóði íslenskra námsmanna, 150.000 krónur í málskostnað.