Hæstiréttur íslands

Mál nr. 548/2002


Lykilorð

  • Ómerking
  • Heimvísun


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. júní 2003.

Nr. 548/2002.

Haf hf.

(Jakob R. Möller hrl.)

gegn

Hilmi ehf.

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

 

Ómerking. Heimvísun.

H hf. krafðist staðfestingar á riftun kaupsamnings milli þess og H ehf., um kaup þess fyrrnefnda á hlutabréfum þess síðarnefnda í Frjálsri fjölmiðlun ehf., en til vara afsláttar af kaupverðinu. Tekið var fram, að við úrlausn málsins í héraðsdómi hefði ekki verið tekin afstaða til þeirrar málsástæðu H ehf. að tilgangur H hf. með kaupum á umræddum hlutabréfum hefði verið að greiða fyrir öðrum kaupum og þannig ekki leyst úr því, hvort það kynni ásamt öðru að leiða til þeirrar niðurstöðu, að verðlagning bréfanna gæti ekki raskað viðskiptunum. Þá þótti sýnt, að héraðsdómur hefði ekki í raun tekið efnislega afstöðu til þeirrar málsástæðu H hf., að hlutabréfin hefðu vegna umsamins gengis þeirra á söludegi verið haldin slíkum galla í skilningi kauparéttar, að hann gæti heimtað afslátt af kaupverði þeirra. Var héraðsdómur talinn haldinn þeim annmörkum, að ekki varð hjá því komist að ómerkja hann og vísa málinu heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. desember 2002. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda og staðfestingar á riftun kaupsamnings milli þeirra frá 8. apríl 2001 og verði stefnda gert að greiða sér 70.737.500 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. desember 2001 til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi þess, að stefnda verði gert að greiða sér 66.296.400 krónur sem afslátt af kaupverði. Komi þessi afsláttur sem skuldajöfnuður við kröfu stefnda um greiðslu á eftirstöðvum kaupverðs og verði stefndi dæmdur til að greiða sér mismun milli eftirstöðva kaupverðs og afsláttar. Þá krefst áfrýjandi þess, að stefnda verði gert að greiða sér dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af 24.163.466 krónum frá 16. desember 2002 til greiðsludags. Loks krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Það var ein af meginmálsástæðum gagnstefnda í héraði, stefnda hér fyrir dómi, að með kaupum áfrýjanda á hlutabréfum í Frjálsri fjölmiðlun ehf. 8. apríl 2001 hafi gagngert vakað fyrir fyrirsvarsmanni hans að greiða fyrir kaupum ESÓB ehf., þar sem hann var einn eigenda og stjórnarmanna, á 40% hlut fyrrnefnda félagsins í Útgáfufélagi DV ehf., sem fram fóru sama dag jafnhliða gerð hluthafasamnings í útgáfufélaginu, sem fól það meðal annars í sér, að fyrirsvarsmaðurinn og viðskiptafélagar hans hafi tekið við raunverulegum yfirráðum við útgáfu DV. Í lok ársins keypti ESÓB ehf. svo eftirstandandi hlut Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. í útgáfufélaginu eða 60%. Er gerð ítarleg grein fyrir þessari málsástæðu í greinargerð gagnstefnda í héraði og er hún reifuð í forsendum héraðsdóms. Í dóminum er hins vegar engin afstaða tekin til hennar við úrlausn málsins og þannig ekki leyst úr því, hvort framangreindur tilgangur áfrýjanda með hlutabréfakaupunum í Frjálsri fjölmiðlum ehf. kunni ásamt öðru að leiða til þeirrar niðurstöðu, að verðlagning bréfanna geti ekki raskað viðskiptunum.

Áfrýjandi gerir þá varakröfu í málinu, að sér verði dæmdur afsláttur af umsömdu kaupverði hlutabréfanna í Frjálsri fjölmiðlun ehf. Héraðsdómur hafnaði því, að kaupsamningi aðila yrði rift, en um hann fór eftir ákvæðum þágildandi laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, sbr. 99. gr. núgildandi laga nr. 50/2000 um sama efni, sem tóku gildi 1. júní 2001. Þá féllst héraðsdómur ekki á, að ógildingarreglur III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga gætu átt við um samningssamband aðila. Að svo búnu hafnaði héraðsdómur því „með sömu rökum og greinir hér að framan“, að áfrýjandi gæti átt tilkall til afsláttar af kaupverðinu. Með þessu er sýnt, að héraðsdómur hefur ekki í raun tekið efnislega afstöðu til þeirrar málsástæðu áfrýjanda, að hlutabréfin hafi vegna umsamins gengis þeirra á söludegi verið haldin slíkum galla í skilningi kauparéttar, að hann geti heimtað afslátt af kaupverði þeirra, en um skilyrði riftunar samkvæmt kaupalögum og ógildingarannmarka löggerninga samkvæmt samningalögum gilda önnur sjónarmið en um afslátt í lausafjárkaupum.

Samkvæmt framansögðu er héraðsdómur haldinn þeim annmörkum, að ekki verður hjá því komist að ómerkja hann og vísa málinu heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju. Gefst héraðsdómara þá jafnframt kostur á að taka afstöðu til nýrra gagna, sem lögð voru fyrir Hæstarétt.

Rétt er, að á þessu stigi beri hvor aðila sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. 

 

 

Dómsorð:

Héraðsdómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2002.

Mál þetta, sem dómtekið var 22. október s.l., er höfðað með stefnu birtri 19. nóvember 2001.

Aðalstefnandi er Hilmir ehf., kt. 620169-5959, Laugavegi 7, Reykjavík.

Aðalstefndi er Haf hf., kt. 631184-0309, Fornuströnd 19, Seltjarnarnesi.

Dómkröfur aðalstefnanda eru þær í aðalsök að aðalstefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð kr. 42.132.934 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 12. september 2001 og málskostnað samkvæmt reikningi.

Dómkröfur aðalstefnda í aðalsök eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og (a) staðfest verði með dómi að samningi aðila dagsettum 8. apríl 2001 sé rift vegna verulegra vanefnda aðalstefnanda, (b) að aðalstefnanda sé skylt að endurgreiða aðalstefnda greitt kaupverð, kr. 65.000.000 og (c) að aðalstefnanda verði auk þess gert að greiða aðalstefnda skaðabætur að fjárhæð kr. 5.737.500 vegna tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna vanefnda aðalstefnanda, sbr. gagnsök.  Þess er krafist að endurgreiðsla kaupverðs og skaðabætur beri dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 15. desember 2001 til greiðsludags.  Til vara eru gerðar þær kröfur að aðalstefndi verði sýknaður af öllum kröfum aðalstefnanda og honum verði veittur afsláttur af höfuðstóli sem nemi 62,9% af kaupverði eða alls kr. 66.296.400, sbr. gagnsök.  Komi afslátturinn sem skuldajöfnuður við kröfu aðalstefnanda um greiðslu á eftirstöðvum kaupverðs og verði aðalstefnanda gert að greiða aðalstefnda mismuninn milli eftirstöðva kaupverðsins og hins dæmda afsláttar ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001.  Til þrautavara er krafist verulegrar lækkunar á dómkröfum aðalstefnanda að mati dómsins.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi.

Í gagnsök gerir gagnstefnandi þá kröfu aðallega (a) að staðfest verði með dómi að samningi aðila dagsettum 8. apríl 2001 sé rift vegna verulegra vanefnda gagnstefnda, (b) að gagnstefnda sé skylt að endurgreiða gagnstefnanda greitt kaupverð, kr. 65.000.000 og (c) að gagnstefnda verði gert að greiða gagnstefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 5.737.500 vegna tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna vanefnda gagnstefnda.  Þess er krafist að endurgreiðsla kaupverðs og skaðabætur beri dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 15. desember 2001 til greiðsludags.  Til vara eru gerðar þær kröfur að  gagnstefnanda verði veittur afsláttur af höfuðstóli sem nemi 62,9% af kaupverði eða alls kr. 66.296.400.  Komi afslátturinn sem skuldajöfnuður við kröfu gagnstefnda um greiðslu á eftirstöðvum kaupverðs og verði gagnstefnda gert að greiða stefnda mismuninn milli eftirstöðva kaupverðsins og hins dæmda afsláttar ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001.

Dómkröfur gagnstefnda í gagnsök eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum gagnstefnanda í málinu og honum verði dæmdur málskostnaður samkvæmt reikningi.

Með úrskurði upp kveðnum 25. mars s.l. var dráttarvaxtakröfu gagnstefnanda með varakröfu í gagnsök vísað frá dómi.

Málavextir.

Málavextir eru þeir að með samningi dagsettum 8. apríl seldi aðalstefnandi aðalstefnda hlutafé að nafnverði kr. 3.400.000 í Frjálsri fjölmiðlun ehf., kt. 550282-0469.  Hinn seldi hlutur var 5% af heildarhlutafé félagsins og var kaupverðið miðað við gengið 31 og var því kr. 105.400.000.  Var svo um samið að kaupverðið greiddist í tvennu lagi, kr. 65.000.000 fyrir lok aprílmánaðar 2001 og kr. 40.400.000 fyrir 1. september sama ár.  Í kaupsamningnum var ákvæði þess efnis að hin seldu hlutabréf skyldu afhent við undirritun samningsins.  Samningurinn er undirritaður af Sveini R. Eyjólfssyni, fyrirsvarsmanni aðalstefnanda og Ágústi Einarssyni, fyrirsvarsmanni aðalstefnda.  Aðalstefndi greiddi kr. 60.000.000 þann 30. apríl sama ár og kr. 5.000.000 þann 12. september sama ár.  Aðalstefndi hefur ekki fengist til að greiða meira og ritaði aðalstefnandi honum innheimtubréf 16. október sama ár.  Í svarbréfi lögmanns aðalstefnda kom fram að hann teldi sig ekki vera í vanskilum við aðalstefnanda, í fyrsta lagi sökum þess að aðalstefndi hefði ekki fengið afhent hin seldu hlutabréf og í öðru lagi á grundvelli brostinna forsendna og vanefnda aðalstefnanda.  Taldi aðalstefndi sig ekki hafa vitað hve alvarleg og neikvæð fjárhagsstaða Frjálsrar fjölmiðlunar hafi verið og þessi atriði ásamt þeim vandkvæðum sem komið hefðu upp í samskiptum aðila leiddi til þess að aðalstefndi liti svo á að forsendur kaupanna væru brostnar.  Aðalstefnandi svaraði mótbárum aðalstefnda með bréfi dagsettu 31. október sama ár.  Segir þar svo meðal annars:  „Mótbárum umbj. yðar er vísað á bug.  Hann hefur allt frá gerð samningsins notið allra þeirra réttinda í félaginu, sem bréfin veita.  Var nafn hans fært í hlutaskrá samkvæmt 19. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 með tilkynningu umbj. míns dags. 30. apríl 2001, þar sem að umbj. yðar hafði ekki sjálfur gert ráðstafanir til þess, svo sem 4. mgr. 19. gr. laganna ráðgerir.  Samkvæmt lögunum er ekki skylt að gefa út hlutabréf í einkahlutafélögum.  Orð samningsins um afhendingu þeirra við undirskrift þýða ekkert meira en að eigendaskiptin teljist hafa orðið þann dag.  Hafi umbj. yðar viljað fá útgefin hlutaskírteini skv. 3. mgr. 19. gr. laganna um einkahlutafélög gat hann látið þess getið.  Það gerði hann ekki. ........ Í kaupsamningnum um bréfin er hvergi vikið að neinum sérstökum forsendum umbj. yðar fyrir kaupunum.  Öllum sjónarmiðum hans um slíkt er hafnað.  Þessi kaupsamningur var algerlega sjálfstæður og skuldbindandi án þess að viðskipti Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. og ESÓBs ehf. sama dag hafi komið því máli við.  Fyrirsvarsmaður umbj. yðar, Ágúst Einarsson forseti viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands, er einn snjallasti viðskiptamógúll þjóðarinnar.  Hann vissi því vel að honum bar að tilgreina skýrt í hinum skriflega kaupsamningi sérstök skilyrði sem hann segist nú hafa viljað binda skuldbindingar sínar við, þar sem viðsemjandi hans átti rétt á að fá vitneskju um þau.”

Aðalstefndi lýsir málavöxtum svo að forsvarsmenn aðila málsins hafi setið saman í stjórn Dagsprents hf., en það félag hafi gefið út dagblaðið Dag.  Þrátt fyrir erfiðan rekstur hafi samstarf þeirra verið með ágætum og traust ríkt á milli þeirra.  Hafi það vakið athygli stefnda að Frjáls fjölmiðlun ehf. hafi tekið á sig ábyrgðir og útgjöld sem hlotist hafi af útgáfu Dags og því hafi aðalstefndi haft sérstaka ástæðu til að ætla að Frjáls fjölmiðlun ehf. væri vel stætt fyrirtæki.  Þegar forsvarsmaður aðalstefnanda hafi boðið forsvarsmanni aðalstefnda 5% hlut í Frjálsri fjölmiðlun ehf. hafi stefndi enga ástæðu haft til að ætla að fullyrðingar hans væru rangar.  Hafi aðalstefnandi tilkynnt aðalstefnda að Saxhóll ehf. hefði keypt umtalsverðan hlut í Frjálsri fjölmiðlun ehf. á genginu 31.  Auk þess hafi hann fullvissað aðalstefnda um að sér hefði borist tilboð í félagið sem bent hafi til þess að verðmæti fyrirtækisins væri tveir milljarðar króna.  Hafi samningur aðila því verið byggður á gagnkvæmu trausti milli aðila.  Aðalstefndi segist aldrei hafa fengið afhenta ársreikninga félagsins þrátt fyrir að eftir því hafi verið leitað og þá hafi hann ekki verið boðaður á aðalfund þess. 

Aðalstefndi er hluthafi og stjórnarmaður í Fjárfestingarfélaginu ESÓB ehf., sem átt hafi 40% í Útgáfufélaginu DV ehf., en Frjáls fjölmiðlun ehf. hafi átt 60% hlut í því félagi.  Fjárfestingarfélagið ESÓB ehf. hafi 8. desember 2001 keypt allan hlut Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. í Útgáfufélaginu DV ehf.  Segist aðalstefndi með þátttöku sinni í ofangreindum félögum hafa orðið þess áskynja hversu slæm fjárhagsstaða Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. hafi verið.  Njóti félagið engrar lánafyrirgreiðslu hjá helstu lánastofnunum hér á landi og hafi það leitt til þess að Útgáfufélagið DV ehf. hafi ekki fengið lán meðan meirihluti félagsins var í eigu Frjálsrar fjölmiðlunar ehf.  Hafi lánastofnanir sett það ófrávíkjanlega skilyrði fyrir lánveitingu að Útgáfufélag DV ehf. yrði ekki lengur hluti af samstæðu Frjálsrar fjölmiðlunar ehf.  Sé þetta óræk vísbending og í raun sönnun þess að raunverulegt verðmæti Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. hafi verið fjarri því sem kaupgengið 31 hafi gefið til kynna.  Aðalstefnandi hafi látið þess ógetið við aðalstefnda að 3p fjárhús hafi aldrei lagt fram tilboð í Frjálsa fjölmiðlun ehf og þá hafi endurskoðendur staðfest að verðmæti Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. sé miklum mun minna en aðalstefnandi hafi gefið til kynna.

Með bréfi lögmanns aðalstefnda til lögmanns aðalstefnanda dagsettu 16. nóvember 2001 var lýst yfir riftun samkomulags aðila og segir svo meðal annars í bréfinu:  „Eins og fram kom í bréfi undirritaðs, dags. 23. október sl., er því hafnað að umbjóðandi minn, Ágúst Einarsson f.h. Hafs hf., sé í vanskilum gagnvart umbjóðanda yðar, Hilmi ehf. vegna kaupa á hlutabréfum í Frjálsri fjölmiðlun.  Hafnaði umbjóðandi minn kröfum umbjóðanda yðar á grundvelli brostinna forsendna og vanefnda umbjóðanda yðar.  Auk þess má nefna að umbjóðandi minn hefur ekki fengið afhent þau hlutabréf sem hann hefur þegar greitt fyrir og skyldu afhent við undirritun kaupsamnings, sbr. 1. mgr. 3. gr.”

Með bréfi dagsettu 20. nóvember sama ár hafnaði aðalstefnandi riftunarkröfu aðalstefnda.

Í greinargerð í gagnsök gerir gagnstefndi ýmsar athugasemdir við málavaxtalýsingu gagnstefnanda.  Gagnstefndi segir fyrirsvarsmann gagnstefnanda, prófessor Ágúst Einarsson, hafa átt frumkvæði að viðskiptum aðila með hlutaféð í Frjálsri fjölmiðlun ehf.  Sama dag hafi fyrirtækið ESÓB ehf. keypt 40% hlut Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. í Útgáfufélagi DV ehf.  Ágúst sé einn af aðaleigendum ESÓB og í stjórn félagsins.  Sama dag hafi verið gerður hluthafasamningur í Útgáfufélaginu sem hafi falið það m.a. í sér að Ágúst og viðskiptafélagar hans hafi tekið við útgáfu DV.  Hafi kaupin á 5% hlut í Frjálsri fjölmiðlun gengið þannig fyrir sig að Ágúst hafi komið að máli við fyrirsvarsmann gagnstefnda, Svein R. Eyjólfsson, og tjáð honum áhuga sinn á að kaupa hlut í DV ásamt fleiri mönnum.  Hafi Ágústi verið tjáð að Sveinn vildi ekki selja útgáfuna á DV út úr Frjálsri fjölmiðlun ehf. þar sem sá þáttur starfseminnar skipti svo miklu máli fyrir afkomu fyrirtækisins.  Vekti fyrir Ágústi með kaupunum að greiða fyrir samningum um útgáfufélagið.  Hafi orðið úr að báðir samningarnir hafi gengið eftir.  Sveinn hafi tjáð Ágústi að hann hefði ekki aðrar forsendur um verðið heldur en síðustu sölu hlutabréfa, en þá hefði fyrirtækið Saxhóll keypt á genginu 31.  Þá hafi Sveinn sýnt Ágústi drög að samningi þar sem til stóð að aðilar tengdir Íslandssíma hf. keyptu alla hluti í Frjálsri fjölmiðlun ehf.  Sveinn hafi ekki viljað selja þessum mönnum þar sem engar tryggingar fyrir greiðslu kaupverðs hefðu verið boðnar fram.  Hann hafi hins vegar talið að Ágústi væri vel treystandi til að efna skuldbindingar sínar, enda væri hann virtur maður í samfélaginu og á allra vitorði væri að hann hefði efnast vel vegna aðildar fjölskyldu sinnar að atvinnurekstri í sjávarútvegi.

Gagnstefndi heldur því fram að aldrei hafi staðið á því að gagnstefnandi fengi, áður en gengið væri til samninga, allar þær upplýsingar sem hann óskaði eftir og tiltækar væru um rekstur og efnahag félagsins.  Endanlegur ársreikningur fyrir árið 2000 hafi ekki legið fyrir á þessum tíma, en legið hefði fyrir að félagið hefði orðið að taka á sig verulegt tap vegna útgáfu Dags á Akueyri.  Hafi Ágústi verið þetta vel kunnugt, enda hafi gagnstefnandi verið næst stærsti hluthafinn í Dagsprenti hf. og Ágúst átt sæti í stjórn þess félags.  Þá hefði verið minnst á þetta væntanlega tap Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. í ársreikningi fyrir árið 1999.  Gagnstefndi neitar því ekki að erfiðleikar í rekstri félagsins hafi farið vaxandi á árinu 2001 eftir að gagnstefnandi keypti hlutafé sitt.  Hafi það meðal annars verið vegna þess að ESÓB hafi ekki staðið við 300 milljón króna greiðslu 15. júní sama ár og hafi þetta valdið verulegum vandræðum og auknum kostnaði.  Endanlegur ársreikningur félagsins hafi verið tilbúinn í lok ágúst 2001 og upplýsingar um afkomu fyrri helming ársins 2001 hafi legið fyrir stuttu síðar.  Hafi Ágúst fengið þessar upplýsingar í hendur strax og hann bað um þær í september sama ár, eða áður en hann greiddi hluta kaupverðsins án fyrirvara 12. september sama ár.  Þá segir gagnstefndi rangt að Ágúst hafi ekki fengið ársreikninga í hendur og einnig sé rangt að hann hafi ekki verið boðaður á aðalfund félagsins.

Í samræmi við matsbeiðni lögmanns aðalstefnda voru Jóhann Unnsteinsson og Geir Geirsson, löggiltir endurskoðendur, dómkvaddir 29. apríl s.l. til þess að svara eftirfarandi spurningum:

1.  Hvert er virði Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. skv. kaupsamningi hinn 8. apríl 2001 þar sem hlutir að nafnverði kr. 3.400.000 eru taldir kr. 105.400.000 að virði og að allir hlutir í félaginu séu jafn verðmætir?  Tekið var fram að útistandandi hlutafé félagsins hinn 8. apríl 2001 var óbreytt frá því í árslok 2000 þ.e. kr. 61.860.000.

2.  Hvert var virði Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. hinn 8. apríl 2001 skv. sjóðstreymisaðferð?  Miða skal við þær upplýsingar sem gera megi ráð fyrir að stjórnendur félagsins hafi haft á fyrrgreindum tíma og þá ávöxtunarkröfu sem gerð hafi verið til félaga í sambærilegri stöðu og Frjáls fjölmiðlun ehf. á þeim tíma.

3.  Hvert var upplausnarvirði Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. hinn 8. apríl 2001?

4.  Hvert var eðlilegt og sanngjarnt mat á heildarverðmæti fyrirtækisins hinn 8. apríl 2001?

Svar matsmanna við fyrstu spurningu var að útistandandi hlutafé félagsins þann 8. apríl 2001 hafi verið kr. 61.860.000.  Megi því álykta að heildarvirði Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. við umrædd kaup hafi verið metið kr. 1.917.660.000.

Svar matsmanna við annarri spurningu var það að virði félagsins hinn 8. apríl 2001 samkvæmt sjóðflæðisaðferð hafi verið kr. 711.439.000.  Við ákvörðun ávöxtunarkröfu litu matsmenn til þess að þegar kaupin hafi verið gerð hafi markaðsaðstæður á hlutabréfamarkaði breyst verulega frá því sem verið hafði fram til fyrri hluta árs 2000.  Hefðu hlutabréf lækkað í verði frá fyrri hluta árs 2000 þar sem ávöxtunarkrafa eigin fjár hefði hækkað töluvert og eftirspurn hefði slaknað.  Að því er ávöxtunarþátt lánsfjármagns varðaði miðuðu matsmenn við þá vexti sem ætla mætti að fyrirtækjum á borð við Frjálsa fjölmiðlun ehf. hefði boðist á lánsfjármarkaði.

Matsmenn töldu sig ekki hafa forsendu til þess að svara þriðju spurningu þar sem þeir hefðu hvorki fengið í hendur fyrningarskýrslur né eignaskrár fyrir félagið og dótturfélög þess.

Svar matsmanna við fjórðu spurningu var að eðlilegt og sanngjarnt mat á heildarverðmæti félagsins hinn 8. apríl 2001 hafi verið hið sama og samkvæmt sjóðflæðisaðferð eða kr. 711.439.000.  Töldu matsmenn að þegar nýr hluthafi kaupir u.þ.b. 5,5% af útistandandi hlutafé í félagi eins og Frjálsri fjölmiðlun ehf., sé tilgangurinn sá að ávaxta það fé sem hann leggur í félagið.  Möguleikar slíks hluthafa til þess að hafa áhrif á meiri háttar fjárráðstafanir, svo sem sölu eigna, séu takmarkaðir og töldu þeir aðrar aðferðir, svo sem útreikning á upplausnarvirði, síður eiga við.

Málsástæður og lagarök.

Aðalsök.

                Aðalstefnandi reisir kröfur sínar í aðalsök á samningi aðila og byggir á meginreglum samninga- og kröfuréttar, en þar sé ráð fyrir því gert að menn skuldbindi sig með loforðum og þurfi að efna skuldbindingar sínar.   Aðalstefnandi vísar til laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 og um málskostnaðarkröfu er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991. 

                Aðalstefnandi segist finna stefnukröfuna þannig að áföllnum dráttarvöxtum 12. september 2001 kr. 732.934 sé bætt við kröfuna áður er innborgun að fjárhæð kr. 5.000.000 þann dag komi til lækkunar.  Fari innborgunin fyrst til greiðslu áfallinna dráttarvaxta áður en hún dragist frá höfuðstól.  Séu eftirstöðvarnar þá kr. 42.132.934, en það sé stefnufjárhæðin.

                Aðalstefndi byggir á því í aðalsök að samkvæmt kenningum kröfuréttar um forsendur sé ekki nauðsynlegt að ávallt sé getið sérstaklega allra forsendna samninga heldur sé m.a. við það miðað hvort viðsemjandi hafi vitað eða mátt vita að samningur hafi verið gerður með tilteknum forsendum.  Það hafi verið forsenda fyrir samningi aðila að staða fyrirtækisins væri í samræmi við yfirlýsingar forsvarsmanns aðalstefnanda.  Hefði aðalstefnda verið kunnugt um hversu slæm staða fyrirtækisins væri hefði aldrei orðið af kaupunum.  Upplýsingar um að fjárhagsleg staða fyrirtækisins væri betri en síðar hafi komið í ljós hafi verið ákvörðunarástæða fyrir kaupunum.  Hafi eiganda og fyrirsvarsmanni aðalstefnanda verið þetta ljóst og því óþarft að taka þetta sérstaklega fram í samningi aðila.

             Aðalstefndi byggir á könnun sem Guðlaugur Guðmundsson, löggiltur endurskoðandi, hafi gert að beiðni aðalstefnda 16. desember 2001 og samkvæmt því hafi aðalstefnanda verið ljóst eða a.m.k. mátt vera ljóst að raunveruleg staða Frjálsrar fjölmiðlunar væri ekki jafn góð og aðalstefnda hafi verið gefið til kynna.  Hafi mat aðalstefnanda á verðmæti fyrirtækisins verið fjarri lagi og yfirlýsingar hans misvísandi og beinlínis rangar.  Aðalstefndi hafi byggt ákvörðun sína á þessum yfirlýsingum en ekki hafi verið til að dreifa öðrum gögnum til að meta raunverulega stöðu fyrirtækisins.  Hafi aðalstefnandi með yfirlýsingum sínum um verðmæti fyrirtækisins blekkt aðalstefnda með sviksamlegum hætti til kaupanna.  Hafi aðalstefnandi með röngum og misvísandi upplýsingum beitt aðalstefnda svikum í því skyni að fá hann til kaupanna.  Með vísan til 1. mgr. 30. gr. laga nr. 7/1936 sé samningurinn þegar af þessari ástæðu ógildanlegur og skuldbindi því ekki aðalstefnda.

             Verði ekki á það fallist að 1. mgr. 30. gr. laganna eigi við byggir aðalstefndi á því að 33. gr. laganna standi því í vegi að aðalstefnandi geti borið samninginn fyrir sig þar sem aðalstefnanda hafi verið ljóst að sú staðreynd að aðalstefndi hefði ekki gert umræddan samning hefði honum verið kunnugt um raunverulega stöðu fyrirtækisins.

             Aðalstefndi byggir á skýrslu áðurgreinds Guðlaugs Guðmundssonar, en samkvæmt henni séu færð rök fyrir því að verðmæti Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. hafi við undirskrift samningsins verið að hámarki kr. 700.000.000 og verðmæti hins selda því verið kr. 35.000.000.  Af þeim sökum sé ákvæði samningsins um kaupverð bersýnilega ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju og sé aðalstefnanda því með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 óheimilt að byggja rétt sinn á samningnum.  Þrátt fyrir að forsvarsmaður aðalstefnda sé ekki óreyndur í viðskiptum hafi hann ekki mátt eiga von á því að upplýsingar, sem hann byggði á, hafi verið svo misvísandi og rangar sem raun hafi borið vitni.  Sé samningurinn því ógildanlegur af þessari ástæðu.

             Aðalstefndi byggir á því að sú háttsemi aðalstefnanda sem hér hafi verið lýst sé refsiverð samkvæmt 1. mgr. 128. gr. laga nr. 138/1994 og þá sé einsýnt að slík háttsemi réttlæti riftun af hálfu aðalstefnda.

             Aðalstefndi byggir á þeirri skilgreiningu kröfuréttar að greiðsla teljist vera haldin galla hafi hún ekki þá eiginleika sem móttakandi hafi mátt ætla eða greiðandi lofaði að hún hefði.  Ekki hafi verið kveðið sérstaklega á um eiginleika hins selda hlutar að öðru leyti en því að miðað væri við gengið 31 sem svarað hafi til þess að verðmæti félagsins væri rúmir 1,9 milljarðar króna.  Í skýrslu umrædds endurskoðanda komi fram að ranverulegt verðmæti fyrirtækisins sé fjarri þeirri fjárhæð.  Því teljist hið keypta, 5% hlutur í Frjálsri fjölmiðlun ehf., vera haldið galla og því eigi við hinar almennu reglur kröfuréttar um riftun, afslátt og skaðabætur.

             Aðalstefndi byggir kröfu sína um riftun á reglum kröfuréttar, sbr. og 39. gr. laga nr. 50/2000  Segir aðalstefndi skilyrði til ógildingar samnings aðila og krefst þess að staðfest verði að riftunin þann 16. nóvember 2001 sé réttmæt.  Er þess krafist að réttaráhrif riftunar verði talin frá dagsetningu riftunaryfirlýsingar.

             Varakrafa aðalstefnda um afslátt er á því byggð að hinn keypti hlutur hafi ekki þá eiginleika sem aðalstefnandi hafi haldið fram við aðalstefnda og á grundvelli rangra upplýsinga hafi aðalstefndi greitt of hátt verð fyrir hlutinn.  Með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 og brostinna forsendna krefst aðalstefndi þess að verðákvæði samningsins verði leiðrétt svo samhengi haldist milli greiðslu og endurgjalds og afsláttur verði veittur, sbr. 38. gr. laga nr. 50/2000.  Skuli afslátturinn þannig reiknaður að hlutfallið milli hins lækkaða verðs og samningsverðsins svari til hlutfallsins milli verðgildis hlutarins í gölluðu og umsömdu ástandi á afhendingartíma.  Í skýrslu Guðlaugs Guðmundssonar, löggilts endurskoðanda, komi fram að miðað við fáanlegar upplýsingar í ársreikningum hafi verðmæti eða upplausnarvirði Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. á kaupsamningsdegi að hámarki verið kr. 700.000.000.  Samkvæmt 38. gr. laga nr. 50/2000 eigi aðalstefndi því rétt á 62,9% afslætti af kaupverði eða alls kr. 66.296.400.  Krefst aðalstefndi þess að afslátturinn komi sem skuldajöfnuður að fullu við kröfu aðalstefnanda um greiðslu á eftirstöðvum kaupverðs, þ.e.a.s. kr. 40.400.000 auk þess sem aðalstefnanda verði gert að greiða aðalstefnda mismuninn milli eftirstöðva kaupverðsins og hins dæmda afsláttar.

             Aðalstefndi reisir vaxtakröfur á III. kafla laga nr. 38/2001 og krafa um málskostnað er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Gagnsök.

             Gagnstefnandi byggir kröfu sína í gagnsök um riftun á reglum kröfuréttar, sbr. og 39. gr. laga nr. 50/2000.  Segir gagnstefnandi skilyrði til ógildingar samnings aðila og krefst þess að staðfest verði að riftunin þann 16. nóvember 2001 sé réttmæt.  Er þess krafist að réttaráhrif riftunar verði talin frá dagsetningu riftunaryfirlýsingar.

             Gagnstefnandi segist hafa orðið fyrir tjóni vegna saknæmrar háttsemi gagnstefnda við samningsgerð og fer fram á bætur til þess að verða eins settur og samningurinn hefði aldrei verið gerður.  Hafi tjón gagnstefnda falist í því að hafa greitt gagnstefnda kr. 65.000.000 fyrir 5% hlut í Frjálsri fjölmiðlun ehf.   Fer gagnstefnandi fram á að viðurkennt verð með dómi að gagnstefnda verði gert skylt að endurgreiða greitt kaupverð ásamt dráttarvöxtum frá 15. desember 2001 til greiðsludags.  Að auki krefst gagnstefnandi skaðabóta vegna glataðrar ávöxtunar af hinu greidda kaupverði, sbr. 40. gr. laga nr. 50/2000.  Við munnlegan flutning málsins gerði gagnstefnandi kröfu um greiðslu á kr. 5.737.500 á þessum grundvelli.

             Varakrafa gagnstefnanda um afslátt er á því byggð að hinn keypti hlutur hafi ekki þá eiginleika sem gagnstefndi hafi haldið fram við gagnstefnanda og á grundvelli rangra upplýsinga hafi hann greitt of hátt verð fyrir hlutinn.  Með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 og brostinna forsendna krefst gagnstefnandi þess að verðákvæði samningsins verði leiðrétt svo samhengi haldist milli greiðslu og endurgjalds og afsláttur verði veittur, sbr. 38. gr. laga nr. 50/2000.  Skuli afslátturinn þannig reiknaður að hlutfallið milli hins lækkaða verðs og samningsverðsins svari til hlutfallsins milli verðgildis hlutarins í gölluðu og umsömdu ástandi á afhendingartíma.  Í skýrslu Guðlaugs Guðmundssonar, löggilts endurskoðanda, komi fram að miðað við fáanlegar upplýsingar í ársreikningum hafi verðmæti eða upplausnarvirði Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. á kaupsamningsdegi að hámarki verið kr. 700.000.000.  Samkvæmt 38. gr. laga nr. 50/2000 eigi gagnstefnandi því rétt á 62,9% afslætti af kaupverði eða alls kr. 66.296.400.  Krefst gagnstefnandi þess að afslátturinn komi sem skuldajöfnuður að fullu við kröfu gagnstefnda um greiðslu á eftirstöðvum kaupverðs, þ.e.a.s. kr. 40.400.000 auk þess sem gagnstefnda verði gert að greiða gagnstefnanda mismuninn milli eftirstöðva kaupverðsins og hins dæmda afsláttar.

             Gagnstefndi byggir á því að hann hafi ekki vanefnt kaupsamninginn.  Gagnstefnandi hafi keypt hlutafé og fengið það.  Þá sé ekkert fram komið um það að gagnstefndi hafi gefið gagnstefnanda rangar upplýsingar um hið selda.  Gagnstefndi segist ekki geta borið ábyrgð á forsendum sem gagnstefnandi segist hafa byggt á, enda hafi hann ekki óskað eftir því að taka slíkar forsendur með í samninginn. 

             Gagnstefndi byggir á því að gagnstefnandi hafi ekki fært fram neinar haldbærar sönnur á staðhæfingar sínar um verðmæti hlutafjárins á samningsdegi.  Byggist sjónarmið gagnstefnanda að hluta til á atburðum, sem orðið hafi eftir samningsdaginn og eigi m.a. rót að rekja til þess að fyrirtæki gagnstefnanda og viðskiptafélaga hans, ESÓB, hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt samningi við gagnstefnda um kaup á hlut í Útgáfufélagi DV.  Séu þess fjölmörg dæmi að verðmæti hlutafjár í hlutafélögum hafi fallið á þessum tíma og dugi slíkir atburðir ekki til þess að menn geti horfið frá eldri skuldbindingum um kaup á hlutafé.  Jafnvel þótt gagnstefnanda takist að sanna að verð hlutafjárins hafi verið hærra en efni stóðu til á samningsdegi, geti það engu máli skipt í lögskiptum aðila.  Menn geti ekki komist hjá því að efna samningsskyldur sínar með því að sanna eftir á að samningur hafi verið óskynsamlegur og nota til þess upplýsingar sem ekki hafi legið fyrir við samningsgerð og enginn fyrirvari hafi verið gerður um.

             Gagnstefndi bendir á að fyrirsvarsmaður gagnstefnanda, prófessor Ágúst Einarsson, sé sérfræðingur í viðskiptum og þrautreyndur á því sviði.  Hann sé forseti hagfræði- og viðskiptadeildar Háskóla Íslands auk þess að vera virkur þátttakandi á mörgum sviðum atvinnulífsins.  Virðist málatilbúnaður hans í gagnsök byggjast á því að Sveinn R. Eyjólfsson hafi blekkt hann til viðskipta með hlutaféð.  Að mati gagnstefnda seilist Ágúst ótrúlega langt til að reyna að komast hjá því að efna skuldbindingar sínar.  Hann gjörþekki aðstæður við samningsgerð um hluti í atvinnufyrirtækjum og viti manna best að kaupendur geti gert alls konar fyrirvara.  Hann hafi enga fyrirvara gert en komið hafi fram í máli hans við Svein að kaupin væru gagngert gerð í því skyni að greiða fyrir viðskiptunum með Útgáfufélagið.  Nú sé eins og Ágúst telji að Sveini hafi verið skylt að leiðbeina sér um hvernig hann hafi átt að standa að málum við samningsgerðina.  Telji Sveinn það jaðra við móðgun að ætla sér að fara að segja slíkum hálærðum viðskiptajöfri til við samningsgerðina.

             Gagnstefndi byggir á því að ástæðurnar sem gagnstefnandi beri fram fyrir riftunarkröfu sinni séu ástæður sem samkvæmt III. kafla hanHa

laga nr. 7/1936 geti leitt til ógildingar á samningi og í vissum tilvikum til breytingar á efni hans.  Gagnstefnandi geri hins vegar ekki slíka kröfu, heldur krefjist hann riftunar.  Hann telji því að samningurinn hafi verið gildur um tiltekinn tíma, þrátt fyrir annmarka við samningsgerð, sem að lögum geti leitt til ógildingar á skuldbindingu.  Gagnstefndi mótmælir þessum málatilbúnaði gagnstefnanda og telur hann ekki geta byggt á því að samningurinn sé í gildi um ákveðinn tíma en að þeim tíma loknum sé honum orðið heimilt að rifta honum.

             Gagnstefndi mótmælir því sérstaklega að hann sé skaðabótaskyldur vegna kaupanna.  Hafi gagnstefnandi ekki sýnt fram á neitt bótaskylt tjón og ekki komi til greina að hann geti gert ávöxtunarkröfu til fjárins, sem hann krefjist endurgreiðslu á, fyrir tímabil fram að riftun samnings.  Nái riftun fram að ganga stofnist réttur gagnstefnanda til endurgreiðslu og geti hann ekki notið ávaxta af henni fyrir þann tíma.

             Gagnstefndi byggir á því að gagnstefnandi hafi greitt inn á kaupin 12. september 2001 án þess að gera nokkurn fyrirvara um þau réttindi sín sem hann nú leiti staðfestingar á.  Gagnstefnandi segi sjálfur í gagnstefnu að þennan dag hafi honum verið orðið kunnugt um að staða félagsins væri önnur og verri en gagnstefndi hefði gefið til kynna.  Byggir gagnstefndi á því að með fyrirvaralausri greiðslu þegar þannig stóð á að gagnstefnanda var orðið kunnugt um annmarka, sem hann taldi á hinu selda, hafi hann fyrirgert rétti sínum til að byggja rétt á þeim ætluðu annmörkum, hvort sem er með riftunar-, afsláttar- eða skaðabótakröfu.

             Gagnstefndi mótmælir varakröfu gagnstefnanda um afslátt af kaupverði hlutafjárins, fyrst og fremst á þeirri forsendu að ekki hafi verið um að ræða galla á hinu selda í skilningi kauparéttar, en einnig með vísan til þeirra sjónarmiða er hér hafi þegar verið rakin.

             Gagnstefndi vísar til laga nr. 50/2000, laga nr. 7/1936, laga nr. 138/1994, laga nr. 38/2001 og laga nr. 91/1991.

Niðurstaða.

Eins og mál þetta er vaxið verður ekki leyst úr aðalsökinni fyrr en tekin hefur verið afstaða til kröfugerðar gagnstefnanda í gagnsök.  Það athugast að aðalstefndi hefur í aðalsök uppi sömu kröfur á hendur aðalstefnanda og í gagnsök og krefst hann sjálfstæðs dóms fyrir kröfum sínum í aðalsök.  Með vísan til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 er honum þetta ekki heimilt og verður því að líta svo á að kröfugerð aðalstefnda í aðalsök lúti auk málskostnaðarkröfu aðallega að sýknu af öllum kröfum aðalstefnanda og til vara verulegrar lækkunar á dómkröfunum.

Í gagnsök krefst gagnstefnandi í fyrsta lagi riftunar á samningi aðila vegna verulegra vanefnda gagnstefnda, í öðru lagi endurgreiðslu á greiddu kaupverði og í þriðja lagi skaðabóta sem nemi 15% ávöxtun af hinu greidda kaupverði vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna vanefnda gagnstefnda og glataðrar ávöxtunar af hinu greidda kaupverði.  Til vara krefst hann 62,9% afsláttar af kaupverðinu.

Samkvæmt kaupsamningi þeim er mál þetta snýst um keypti gagnstefnandi hlutafé að nafnverði kr. 3.400.000 í fyrirtækinu Frjálsri fjölmiðlun ehf. hinn 8. apríl 2001 á genginu 31 og bar því samkvæmt samningi að greiða kr. 105.400.000 fyrir hlutaféð.  Hann hefur hins vegar einungis greitt kr. 65.000.000 og ber fyrir sig að hann hafi verið fenginn til kaupanna með svikum.  Hefði honum ekki verið ljóst hve slæm staða fyrirtækisins var fyrr en eftir að kaupin voru gerð og hafi gagnstefndi með röngum og misvísandi upplýsingum beitt svikum í því skyni að fá hann til kaupanna.  Telur gagnstefndi að um verulega vanefnd af hálfu gagnstefnda sé að ræða sem réttlæti riftun samningsins.  Þá hafi upplýsingar forsvarsmanns gagnstefnda um að fjárhagsstaða fyrirtækisins væri betri en raun bar vitni verið ákvörðunarástæða gagnstefnanda fyrir kaupunum og því hafi hann hafnað frekari greiðslum á grundvelli brostinna forsendna. 

Í samningi aðila var enginn fyrirvari gerður er laut að könnun á verðmæti hins selda.  Þá hafa að mati dómsins ekki verið færð fram gögn sem sýna fram á að gagnstefndi hafi beitt gagnstefnanda blekkingum við söluna.  Ber sérstaklega að hafa í huga að forsvarsmaður gagnstefnanda, Ágúst Einarsson, sá ekki ástæðu til að gefa skýrslu fyrir dómi í tengslum við mál þetta.  Við mat á því hvort heimila beri riftun kaupanna verður ekki fram hjá því litið að ekki hafa verið bornar brigður á þær fullyrðingar gagnstefnda að Ágúst sé alvanur viðskiptum af þessu tagi og var honum því í lófa lagið að afla sér eða krefjast nánari upplýsinga um hag félagsins.  Þá ber að hafa í huga að gagnstefnandi greiddi hluta kaupsverðsins, eða kr. 5.000.000, þann 12. september 2001 án nokkurs fyrirvara, en á því tímamarki segir hann sér hafa verið orðið kunnugt um að staða fyrirtækisins væri önnur og verri en gagnstefndi hefði gefið til kynna.  Verður því ekki talið að gagnstefnanda hafi tekist að sýna fram á að rifta beri samningi aðila.  Verður þeirri kröfu hans því hafnað.

  Gagnstefnandi ber einnig fyrir sig að samningurinn skuldbindi ekki gagnstefnanda þar sem hann hafi verið fenginn til samningsgerðarinnar með svikum,  sbr. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 7/1936.  Með vísan til þess sem að framan er rakið er ósannað að gagnstefndi hafi beitt gagnstefnanda svikum við samningsgerðina og verður kröfu gagnstefnanda að þessu leyti því hafnað.  Með sömu rökum ber að hafna því að 33. gr. sömu laga, sbr. lög nr. 11/1986, eigi við um samningssamband aðila.

Gagnstefnandi byggir einnig á því að víkja beri umræddum samningi til hliðar þar sem ákvæði hans um kaupverð sé bersýnilega ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. lög nr. 11/1986 og lög nr. 14/1995.  Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laganna skal við mat skv. 1. mgr. líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.  Eins og rakið hefur verið er forsvarsmaður gagnstefnanda forseti hagfræði- og viðskiptadeildar Háskóla Íslands.  Þá hefur komið fram að hann er þaulvanur viðskiptum af þessu tagi.  Verður því fráleitt talið að á gagnstefnanda hafi hallað við samningsgerðina og þar sem ekki er í ljóst leitt að önnur atvik leiði til þess að víkja beri samningi aðila til hliðar verður kröfum gagnstefnanda að þessu leyti því hafnað.  Með sömu rökum og greinir hér að framan ber einnig að hafna kröfum gagnstefnanda um afslátt af kaupverði.  Niðurstaðan í gagnsök verður því sú að gagnstefndi verður sýknaður af öllum kröfum gagnstefnanda.  Um ákvörðun málskostnaðar vísast til aðalsakar.

Af þessari niðurstöðu leiðir að taka ber kröfur aðalstefnanda í aðalsök til greina, en aðalstefndi hefur ekki gert athugasemdir við útreikning aðalstefnanda á kröfu sinni.

Í samræmi við þessa niðurstöðu ber að dæma aðalstefnda til að greiða aðalstefnanda kr. 1.500.000 í málskostnað.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Aðalstefndi, Haf hf., greiði aðalstefnanda, Hilmi ehf. í aðalsök kr. 42.132.934 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 12. september 2001 til greiðsludags og kr. 1.500.000 í málskostnað.  Gagnstefndi skal vera sýkn af öllum kröfum gagnstefnanda í gagnsök.