Hæstiréttur íslands

Mál nr. 717/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Dómstóll
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Fimmtudaginn 27. janúar 2011.

Nr. 717/2010.

A

(Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.)

gegn

lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu

(enginn)

Kærumál. Kröfugerð. Dómstólar. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli A á hendur lögreglustjóranum L var vísað frá dómi en í málinu krafðist A að L yrði gert að afhenda sér gögn um rannsókn sakamáls á hendur sér. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að í lokamálslið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé tekið fram að bera megi undir dómara synjun lögreglu um að verða við beiðni verjanda um að fá afrit af öllum skjölum máls eða aðstöðu til kynna sér gögn í því en meðferð máls um það efni fari eftir fyrirmælum XV. kafla laganna. Kröfur A verði af þessum sökum ekki bornar upp í einkamáli sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með vísan til 2. mgr. 24. gr. laganna var niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. desember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 2010, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Sóknaraðili höfðaði mál þetta á hendur varnaraðila með stefnu 8. júní 2010, þar sem gerð var „krafa um afhendingu gagna og upplýsinga er varða rannsókn í máli lögreglu nr. [...] og/eða [...] eftir því sem snertir stefnanda“, en í 11 liðum var síðan í framhaldi af þessum orðum tilgreint að hverju þessi gögn og upplýsingar ættu að snúa. Af héraðsdómsstefnu verður ráðið að gagnvart sóknaraðila hafi ekki komið til saksóknar á grundvelli þessarar rannsóknar. Í greinargerð varnaraðila fyrir héraðsdómi var því meðal annars borið við að öll gögn, sem varðað hafi sóknaraðila og ætlaðan hlut hans að þessum málum, hafi 9. júlí 2009 verið afhent honum og verjanda hans við rannsóknina.

Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal verjandi jafnskjótt og unnt er fá afrit af öllum skjölum máls, sem varða skjólstæðing hans, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn í því. Í lokamálslið þessa lagaákvæðis er tekið fram að bera megi undir dómara synjun lögreglu um að verða við beiðni um þetta, en meðferð máls um það efni fer eftir fyrirmælum XV. kafla sömu laga. Að því leyti, sem kröfur sóknaraðila í þessu máli eru í því horfi að afstöðu mætti taka til þeirra fyrir dómi, verða þær af þessum sökum ekki bornar upp í einkamáli, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. sömu laga verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 2010.

Með stefnu, sem birt var stefnda 10. júní 2010, krafðist stefnandi, A, að stefndi, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, yrði dæmdur til að afhenda honum gögn og upplýsingar er varða rannsókn í máli lögreglu nr. [...] og/eða [...] eftir því sem snerti stefnanda svo sem hann greinir í 11 liðum í stefnu.

Málið var þingfest hinn 15. júní 2010.  Af hálfu stefnda sótti þing B aðstoðarlögreglustjóri og óskaði eftir að málinu yrði vísað frá ex officio með vísan til þess að fara skyldi með málið eftir lögum um meðferð sakamála.  Hann fékk að eigin ósk frest til að leggja fram greinargerð, sem og hann gerði á dómþingi hinn 16. september 2010.

Í greinargerð stefnda er vísað til þess að stefnandi hafi verið handtekinn [...] vegna rannsóknar lögreglu á umfangsmiklu sakamáli.  Á grundvelli rannsóknarhagsmuna hafi stefnandi setið í gæsluvarðhaldi frá [...] til [...] þá er hann var síðast yfirheyrður og í kjölfarið sleppt úr gæsluvarðhaldi; ekki hafi verið gefin út ákæra á hendur honum vegna málsins.  Hinn 9. júlí hafi stefnandi og lögmaður hans fengið gögn málsins afhent, líkt og fram komi í stefnu, og málið sent ríkissaksóknara til meðferðar í byrjun ágúst.  Ekki sé rétt, svo sem stefnandi heldur fram, að lögreglan hafi gögn undir höndum um rannsókn lögreglunnar á umræddu sakamáli er snerti stefnanda og hann hafi ekki fengið afhent.

Umræddum dómkröfur stefnanda í 11 liðum svarar stefndi í greinargerð sinni lið fyrir lið og lýsir sjónarmiði lögreglunnar á efni hvers og eins og afgreiðslu lögreglunnar á þeim.

Á dómþingi, hinn 22. nóvember 2010, lagði stefnandi fram gögn sem lögreglan hafði afhent honum, yfirlit yfir gögnin og yfirlýsingu um að „[g]ögn sem ekki hafa verið afhent en eru hvert að sínu leyti forsenda rannsóknarinnar, hljóta að vera til og skylt er að afhenda“.

Lögmaður stefnda ítrekaði hins vegar kröfu sína um að málinu yrði þegar í stað vísað frá dómi án kröfu, enda væri um að ræða viðfangsefni, sem ekki væri á færi dómstóla á þessu stigi málsins, en lög um meðferð sakamála nr. 88/2008 gerðu ráð fyrir að afhending gagna, er hér um ræðir, færi fram án atbeina dómstóla.  Þessi ágreiningur var við svo búið tekinn til úrskurðar.

Niðurstaða: 

Fallist er á kröfu stefnda um að vísa málinu frá dómi.  Ágreiningur aðila er um meðferð lögreglustjóra á sakamáli, sem héraðssaksóknara ber að fylgjast með að lögreglustjóri sinni skv. 2. mgr. 85. gr. laga nr. 88/2008.  Málið er því á stjórnsýslustigi svo sem stefndi heldur fram.

Af hálfu stefnda er ekki krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Máli þessu er vísað frá dómi.