Hæstiréttur íslands
Mál nr. 13/2012
Lykilorð
- Þjónustukaup
- Matsgerð
- Tómlæti
|
|
Fimmtudaginn 4. október 2012. |
|
Nr. 13/2012.
|
Örn Svavarsson (Stefán Geir Þórisson hrl.) gegn Trésmiðjunni Höfða ehf. (Björn Jóhannesson hrl.) og gagnsök |
Þjónustukaup. Matsgerð. Tómlæti.
T ehf. krafði Ö um greiðslu eftirstöðva vegna vinnu T ehf. við byggingu íbúðarhúss fyrir Ö. Deildu aðilar um það hvort T ehf., sem vann verkið í tímavinnu, hefði reiknað sér of margar vinnustundir vegna þess. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að Ö hefði athugasemdalaust greitt 8 af þeim 12 reikningum sem útgefnir voru af hálfu T ehf. Hefði Ö ekki sýnt fram á það með matsgerð að umkrafið verð fyrir verkið væri með þeim frávikum að ósanngjarnt teldist í skilningi 28. gr. laga nr. 42/2000. Var honum því gert að greiða T ehf. umkrafða fjárhæð að fullu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. janúar 2012. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 20. mars 2012. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 6.594.221 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.753.847 krónum frá 17. október 2008 til 20. desember sama ár, af 4.325.060 krónum frá þeim degi til 15. janúar 2009, af 5.477.626 krónum frá þeim degi til 27. febrúar sama ár, en af 6.594.221 krónu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 2.080.074 krónum miðað við 19. október 2011. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst gagnáfrýjandi staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og nánar er rakið í héraðsdómi tók gagnáfrýjandi að sér að reisa íbúðarhús fyrir aðaláfrýjanda að Hrófá í Strandabyggð. Vinna hófst við verkið í ágúst 2007 en lauk í byrjun febrúar 2009. Deila aðilanna stendur um hvort gagnáfrýjandi, sem vann verkið í tímavinnu, hafi reiknað sér of margar vinnustundir vegna þess. Á hinn bóginn er hvorki ágreiningur um tímagjald né um annan kostnað vegna verksins, en við meðferð málsins í héraði féll aðaláfrýjandi frá kröfu um afslátt vegna ætlaðra verktafa sem athugasemdir hans meðan á verki stóð höfðu einkum lotið að.
Gagnáfrýjandi gaf út reikninga eftir því sem verkinu miðaði. Hafði aðaláfrýjandi greitt jafnharðan og athugasemdalaust átta reikninga, sem útgefnir voru frá 2. nóvember 2007 til 3. september 2008, vegna 3.024 klukkustunda vinnu við verkið þegar til þess kom að hann neitaði að greiða reikning sem útgefinn var 2. október 2008. Aðilar voru eftir sem áður sammála um að gagnáfrýjandi skyldi ljúka verki sínu og gerði hann aðaláfrýjanda þrjá aðra reikninga, útgefna 5. og 30. desember 2008 og 12. febrúar 2009. Síðastgreindir fjórir reikningar, sem kváðu á um 1.243 vinnustundir, voru ekki greiddir. Tveimur dögum fyrir aðalmeðferð málsins greiddi aðaláfrýjandi á hinn bóginn 2.080.074 krónur inn á kröfu gagnáfrýjanda sem breytti kröfugerð sinni því til samræmis. Með greiðslu þessari taldi aðaláfrýjandi sig hafa gert upp við gagnáfrýjanda á grundvelli fyrirliggjandi undirmatsgerðar í málinu.
Samkvæmt beiðni aðaláfrýjanda hafði verið dómkvaddur sérfróður maður til að meta: „Hvert telst vera sanngjarnt og eðlilegt endurgjald (gangverð), í skilningi 45. gr. laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup, og 28. gr. laga nr. 40/2000, um þjónustukaup, fyrir vinnu við að byggja framangreint hús“. Að gengnu undirmati fékk gagnáfrýjandi dómkvadda tvo sérfróða menn til yfirmats á grundvelli sömu matsspurningar. Eins og spurningin var orðuð var matsmönnum ekki falið að meta hvort skráðar vinnustundir gagnáfrýjanda í vinnuskýrslum varðandi einstaka verkþætti væru of margar. Samkvæmt því voru verkþættir í matsgerðum settir upp með öðrum hætti en skráning samkvæmt reikningum og vinnuskýrslum gagnáfrýjanda. Við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi kom fram hjá öðrum yfirmatsmanna að reikningar gagnáfrýjanda hafi ekki verið hafðir til hliðsjónar við mat þótt sundurliðun þeirra og vinnuskýrslur hafi legið fyrir. Aðrir matsmenn voru ekki spurðir sérstaklega um þetta atriði fyrir dómi.
Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum og var að meginstefnu reistur á yfirmatsgerð, komst að þeirri niðurstöðu að draga bæri 451 vinnustund frá umkröfðum vinnustundum gagnáfrýjanda. Var vinnuliður þannig lækkaður frá reikningum gagnáfrýjanda úr 15.172.871 krónu í 13.884.722 krónur eða um 8,5%.
Um viðskipti aðilanna gildir sú meginregla, sem fram kemur í 28. gr. laga nr. 42/2000, að hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu skuli neytandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er. Hvílir sönnunarbyrði fyrir því að umkrafið verð sé ósanngjarnt á þeim sem slíku heldur fram. Við úrlausn um það hvort aðaláfrýjanda hafi tekist sú sönnun verður ekki framhjá því horft að hann hafði um nálega tíu mánaða skeið greitt gagnáfrýjanda útgefna reikninga vegna þess verks, sem mál þetta snýst um, þar af hafði hann án athugasemda greitt fyrir meira en tvo þriðju hluta af þeim vinnustundum sem gagnáfrýjandi krefur hann um vegna alls verksins. Verður ekki talið, með vísan til alls þess sem að framan greinir, að sýnt hafi verið fram á að umkrafið verð fyrir verkið sé með þeim frávikum að ósanngjarnt teljist í skilningi 28. gr. laga nr. 42/2000. Samkvæmt því verður krafa gagnáfrýjanda á hendur aðaláfrýjanda tekin til greina að fullu.
Sérstök andmæli aðaláfrýjanda við upphafstíma dráttarvaxta í kröfu gagnáfrýjanda komu fyrst fram við flutning málsins fyrir Hæstarétti. Koma þau því ekki til álita við úrlausn málsins, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verða dráttarvextir dæmdir í samræmi við kröfu gagnáfrýjanda svo sem nánar greinir í dómsorði.
Eftir þessum úrslitum verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Örn Svavarsson, greiði gagnáfrýjanda, Trésmiðjunni Höfða ehf., 6.594.221 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.753.847 krónum frá 17. október 2008 til 20. desember sama ár, af 4.325.060 krónum frá þeim degi til 15. janúar 2009, af 5.477.626 krónum frá þeim degi til 27. febrúar sama ár, en af 6.594.221 krónu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 2.080.074 krónum miðað við 19. október 2011.
Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 2.400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 17. nóvember 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var 21. október sl., höfðaði stefnandi, Trésmiðjan Höfði ehf., Höfðagötu 15, Hólmavík, hinn 23. nóvember 2009 gegn stefnda, Erni Svavarssyni, Sævargörðum 6, Seltjarnarnesi.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 6.594.221 krónu með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.753.847 krónum frá 17. október 2008 til 20. desember 2008, en af 4.325.060 krónum frá 20. desember 2008 til 15. janúar 2009, en af 5.477.626 krónum frá 15. janúar 2009 til 27. febrúar 2009, en af 6.594.221 krónum frá 27. febrúar 2009 til greiðsludags, allt að frádregnum 2.080.074 krónum innborguðum 19. október 2011. Stefnandi krefst þess jafnframt að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 17. október 2009, en síðan árlega miðað við gjalddaga kröfunnar, í samræmi við ákvæði 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað.
I.
Á fyrri hluta árs 2007 tókst samkomulag með málsaðilum um að stefnandi tæki að sér byggingu íbúðarhúss fyrir stefnda að Hrófá í Strandabyggð. Óumdeilt er í málinu að verkið skyldi unnið í tímavinnu.
Vinna við byggingu hússins hófst í ágúst 2007 og er framkvæmdir voru stöðvaðar vegna veðurs í nóvember það ár hafði verið lokið við grunn og gólfplötu hússins, auk þess sem u.þ.b. helmingur útveggja hafði verið steyptur. Nánast ekkert mun hafa verið unnið við verkið um veturinn. Í byrjun maí 2008 hóf stefnandi vinnu að nýju og um miðjan júní var öllum mótauppslætti og steypuvinnu lokið. Var þá enn fremur hafin vinna við að setja upp sperrur, klæða þak og setja upp þakkassa.
Í júní 2008 kom stefndi á byggingarstað og lýsti yfir óánægju sinni með framvindu verksins. Í nóvember ákvað stefndi síðan að greiða hvorki gjaldfallin reikning stefnanda, dagsettan 2. október 2008, né frekari reikninga stefnanda fyrr en hann hefði lokið verkinu. Á þeim tímapunkti mun frágangi utanhúss að mestu hafa verið lokið. Stefnandi hélt áfram vinnu sinni þrátt fyrir þessa afstöðu stefnda og í desember 2008 unnu starfsmenn félagsins við frágang innanhúss og uppsetningu innréttinga. Í janúar 2009 lauk blikksmíðameistari verkefnum í húsinu og í kjölfarið luku starfsmenn stefnanda við uppsetningu gluggalista utanhúss, sem og svala og handriðs. Lauk framkvæmdum stefnanda við húsið í byrjun febrúar 2009.
Við útgáfu lokareiknings stefnanda vegna verksins voru eftirtaldir fjórir reikningar, að lokareikningnum meðtöldum, ógreiddir:
|
Reikningsnr. |
Útgáfudagur |
Eindagi |
Fjárhæð |
|
362 |
02.10.2008 |
17.10.2008 |
2.753.847 kr. |
|
387 |
05.12.2008 |
20.12.2008 |
1.571.213 kr. |
|
389 |
30.12.2008 |
15.01.2009 |
1.152.566 kr. |
|
415 |
12.02.2009 |
27.02.2009 |
1.116.595 kr. |
Stefndi neitaði að greiða reikningana þar sem hann taldi þá of háa og gerði stefndi meðal annars athugasemdir við reikningsfærðar yfirvinnustundir. Í kjölfarið leitaði hann til VSÓ ráðgjafar ehf. og var Maríusi Þ. Jónassyni, starfsmanni félagsins, falið að meta verk stefnanda. Í upphaflegri skýrslu Maríusar voru áætlaðir 2.055 tímar (+/- 10%) í verkið en eftir að hafa fengið nánari upplýsingar hjá einum forsvarsmanna stefnanda, Jóni Gísla Jónssyni, leiðrétti hann sitt fyrra mat þannig að hann bætti 540 tímum við verkið. Endanleg niðurstaða Maríusar var því 2.595 vinnustundir (+/- 10%). Í niðurlagi skýrslu Maríusar frá 11. mars 2009 er tekið fram að eingöngu sé um að ræða mat á vinnutíma á verkstað. Ekki hafi verið metinn tími vegna ferða til og frá vinnustað vegna efnisöflunar eða annarra þátta tengdum framkvæmdinni.
Stefnandi taldi óásættanlegt að tilvitnuð skýrsla VSÓ ráðgjafar ehf. yrði lögð til grundvallar við uppgjör milli málsaðila. Með bréfi 8. júní 2009 skoraði lögmaður stefnanda á stefnda að greiða hina ógreiddu reikninga, samtals að fjárhæð 6.594.221 króna, innan tíu daga. Að öðrum kosti yrði krafan tekin til formlegrar innheimtumeðferðar. Í kjölfarið var innheimtubréf sent stefnda 25. sama mánaðar. Með bréfi fjórum dögum síðar svaraði stefndi bréfi lögmanns stefnanda frá 8. júní þar sem hann reifaði sína hlið á málinu og bauð stefnanda jafnframt uppgjör á grundvelli mats VSÓ ráðgjafar ehf. að viðbættum 10% vinnustundafjölda. Stefnandi sætti sig ekki við þær málalyktir og höfðaði félagið mál þetta gegn stefnda 25. nóvember 2009.
Undir rekstri málsins lagði stefndi fram matsbeiðni, dagsetta 2. mars 2010, þar sem þess var óskað að dómkvaddur yrði einn hæfur, sérfróður og óvilhallur matsmaður til að skoða og meta: „Raunvirði vinnu við byggingu íbúðarhúss matsbeiðanda að Hrófá í Strandasýslu, hver sé áætlaður tímafjöldi við vinnu á verkinu og hvað teljist sanngjarnt endurgjald fyrir vinnu og útlagðan kostnað ...“. Var þess óskað að matsmaður léti í té ítarlega, rökstudda og skriflega álitsgerð um: „Hvert telst vera sanngjarnt og eðlilegt endurgjald (gangverð), í skilningi 45. gr. laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup, og 28. gr. laga nr. 40/2000, um þjónustukaup, fyrir vinnu við að byggja framangreint hús að Hrófá í Strandasýslu.“
Hinn 17. mars 2010 var Ásmundur Ingvarsson byggingarverkfræðingur dómkvaddur til að framkvæma hið umbeðna mat. Matgerð hans lá fyrir í september 2010 og var hún lögð fram í þinghaldi 6. október það ár. Skipti matsmaður viðfangsefni sínu niður í sex megin verkþætti og var samtala þeirra sem hér segir: 1) Kjallari og sökklar, 355 vinnustundir. 2) 1. hæð, 670 vinnustundir, 3) Þak, 530 vinnustundir. 4) Vinna við veggi að utan, 410 vinnustundir. 5) Innviðir, 860 vinnustundir. 6) Annað, 265 vinnustundir. Í niðurlagi matsgerðarinnar sagði síðan svo: „Matsmaður telur eðlilegt vinnuframlag vegna áðurtalinna verkþátta um 3.090 vinnustundir. Er þá innifalinn sá tími sem fer í efnistöku, efnispantanir og ferðir til og frá Hólmavík. Þegar metið er eðlilegt vinnuframlag í verki eins og hér um ræðir er ekki óeðlilegt að einhver óvissa og ónákvæmni sé í mati sem þessu og telur undirritaður að óvissan geti numið allt að 8%. Varðandi tímagjald þá telur matsmaður þau tímagjöld sem tilgreind eru á reikningum matsþola sanngjörn og eðlileg.“
Stefnandi vildi ekki una niðurstöðu matsgerðarinnar og fór hann því fram á það að dómkvaddir yrðu tveir hæfir og sérfróðir yfirmatsmenn til að taka til endurmats þau atriði sem undirmatsgerðin tók til. Í þinghaldi 15. desember 2010 voru dómkvaddir til að framkvæma umbeðið yfirmat Auðunn Elísson, byggingatæknifræðingur og húsasmíðameistari, og Helgi S. Gunnarsson, byggingaverkfræðingur og húsasmíðameistari. Matgerð þeirra lá fyrir 5. maí 2011 og var hún lögð fram við upphaf aðalmeðferðar í málinu 21. október sl. Settu yfirmatsmenn niðurstöður sínar fram með sama hætti og undirmatsmaður og skiptu viðfangsefninu niður í sex megin verkþætti. Niðurstaða yfirmatsmannanna var sem hér segir: 1) Kjallari og sökklar, 690 vinnustundir. 2) 1. hæð, 728 vinnustundir, 3) Þak, 481 vinnustund. 4) Vinna við veggi að utan, 752 vinnustundir. 5) Innviðir, 1.099 vinnustundir. 6) Annað, 266 vinnustundir. Í niðurlagi yfirmatsgerðarinnar sagði svo: „Yfirmatsmenn telja eðlilegt vinnuframlag vegna framangreindra 6 verkhluta vera 4.016 vinnustundir. Við ákvörðun á sanngjörnu og eðlilegu endurgjaldi fyrir vinnu starfsmanna Trésmiðjunnar Höfða ehf. við byggingu íbúðarhúss að Hrófá í Strandasýslu beri því að nota þann fjölda vinnustunda. Yfirmatsmenn eru sammála niðurstöðu undirmats að þau tímagjöld sem tilgreind eru á reikningum yfirmatsbeiðanda séu sanngjörn og eðlileg.“
II.
Stefnandi kveðst fyrst og fremst byggja kröfur sínar á grundvallarreglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir loforða. Að samkomulagi hafi orðið með aðilum að stefnandi tæki að sér ákveðna vinnu við byggingu íbúðarhúss stefnda að Hrófá í Strandabyggð. Óumdeilt sé að stefnandi skyldi vinna verkið í tímavinnu og stefndi inna greiðslur reglulega af hendi eftir framvindu þess. Tekur stefnandi fram að hann hafi gert stefnda grein fyrir því við upphaf verksins að um kostnaðarsama framkvæmd yrði að ræða þar sem teikningar og byggingarlýsing hússins gæfu það til kynna.
Stefnandi vísar til þess að hann hafi haldið nákvæma tímaskráningu vegna verksins þar sem tímafjöldi hafi verið sundurliðaður á einstaka verkþætti við bygginguna, svo og á þá starfsmenn sem unnið hafi við verkið, sbr. framlagða vinnuseðla. Þá hafi efni, akstur og verkfæragjald verið sérstaklega tilgreint í hverjum útgefnum reikningi eftir því sem slíkur kostnaður hafi fallið til. Einnig hafi sérstaklega verið tilgreint í reikningunum ef stefnandi greiddi fyrir vinnu annarra við verkið, svo sem flutningskostnað eða vélavinnu.
Að mati stefnanda sé ekkert fram komið í málinu sem gefi tilefni til að ætla að tímafjöldi sé of talinn eða reikningarnir séu á annan hátt ósanngjarnir. Reikningarnir séu þvert á móti sanngjarnir og ekkert sé fram komið sem bendi til annars en umkrafið endurgjald fyrir vinnu stefnanda sé sanngjarnt með hliðsjón af þeirri vinnu sem unnin hafi verið og hvers eðlis hún var, sbr. 28. gr. laga nr. 42/2000.
Stefnandi segir svo virðast sem athugasemdir stefnda snúi eingöngu að fjölda vinnustunda og að unnar hafi verið yfirvinnustundir við verkið. Hið síðarnefnda sé nokkuð athyglisvert í ljósi þess að stefndi hafi sérstaklega óskað eftir því að verkinu yrði hraðað. Einnig hafi reynst nauðsynlegt að vinna yfirvinnu í tengslum við aðkomu annarra verktaka að verkinu. Vísar stefnandi jafnframt til þess að stefnda hafi í upphafi verksins verið gerð grein fyrir því að starfsmenn stefnanda kæmu alla jafna til með að vinna tíu tíma á dag við verkið, átta dagvinnustundir og tvær yfirvinnustundir. Hafi flestar yfirvinnustundir starfsmanna stefnanda, sem unnar hafi verið við verkið, verið þannig til komnar. Engar athugasemdir hafi komið fram af hálfu stefnda við þá vinnutilhögun. Segir stefnandi engar athugasemdir hafa komið fram af hálfu stefnda við vinnustundafjöldann meðan á verktímanum stóð. Þá hafi hann athugasemdalaust greitt reikninga sem samtals hafi tilgreint 444 yfirvinnustundir.
Af hálfu stefnanda er á það bent að stefndi hafi á tímabilinu september 2007 fram til nóvember 2008 greitt stefnanda átta reikninga vegna verksins, án athugasemda. Á þeim reikningum hafi efni og vinna verið sundurliðuð, sem og aðrir kostnaðarliðir, svo sem verkfæragjald, akstur o.fl. Hafi stefndi hvorki gert athugasemdir við reikningana sjálfa né þá sundurliðun sem í þeim hafi komið fram. Við höfðun málsins hafi fjórir reikningar, samtals að fjárhæð 6.594.221 króna, verið ógreiddir, en þeir skiptist í vinnuliði samtals að fjárhæð 4.567.117 krónur, efni samtals 1.821.181 króna, akstur samtals 118.773 krónur og verkfæragjald samtals 87.150 krónur.
Stefnandi kveðst ekki geta fallist á þær niðurstöður sem fram komi í undirmatsgerð og minnisblaði Maríusar Þ. Jónassonar varðandi mat að vinnutíma við byggingu húss stefnda. Í báðum tilvikum vanti ákveðna verkþætti, auk þess sem vinnutímafjöldi sé verulega vanáætlaður. Framlagða yfirmatsgerð segir stefnandi ganga framar báðum þessum gögnum. Þá fari niðurstaða yfirmatsgerðarinnar svo nærri þeim tímafjölda sem stefnandi krefji um greiðslu fyrir að dæma beri stefnda til greiðslu reikninganna að fullu, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 167/2006, sem kveðinn hafi verið upp 30. nóvember 2006.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi einkum til grundvallarreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir loforða. Jafnframt vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 42/2000 um þjónustukaup, einkum 28. gr. laganna.
III.
Í upphafi tekur stefndi fram að hann mótmæli öllum málsástæðum og lagarökum stefnanda, sem og málavaxtalýsingu stefnanda að því leyti sem sú lýsing sé í ósamræmi við málsatvikalýsingu stefnda.
Sýknukröfu sína segir stefndi byggja að meginstefnu til á 28. gr. laga um þjónustukaup nr. 42/2000 er hljóði svo: „Hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu skal neytandi greiða það verð sem telja megi sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan sé mikil og hvers eðlis hún sé.“
Framlagða reikninga stefnanda kveður stefndi bersýnilega ósanngjarna og í engu samræmi við þann tímafjölda sem í raun hafi verið lagður í verkið. Samkvæmt framlögðu mati Maríusar Þ. Jónassonar og undirmatsgerð Ásmundar Ingvarssonar liggi fyrir að það verð sem stefnandi krefji stefnda um fyrir hið umdeilda verk sé engan veginn sanngjarnt. Því skuli ekki við það miðað í málinu.
Stefndi mótmælir því að framlögð yfirmatsgerð verði lögð til grundvallar við úrlausn málsins. Hann segir matsgerðina haldna verulegum ágöllum. Nefnir stefndi í því sambandi að yfirmatsmenn hafi tekið inn í mat sitt verkliði sem ekki hafi verið unnir af stefnanda. Þar sé um að ræða 200 vinnustundir. Þá sé í mörgum liðum yfirmatsins um ofáætlun að ræða.
Stefndi bendir á að niðurstaða undirmatsmanns hafi verið sú að 3.090 vinnustundir hefðu átt að fara í verkið. Frá þeim vinnustundafjölda dragist 200 vinnustundir sem stefnandi hafi viðurkennt undir rekstri málsins að séu of taldar hjá bæði yfir- og undirmatsmönnum. Í verkið hafi því átt að fara 2.890 vinnustundir, eða 1.377 vinnustundum minna en stefnandi hafi krafið stefnda um. Stefndi hafi nú gert upp við stefnanda miðað við þær forsendur sem hér hafi verið lýst, sbr. nú síðast innborgun að fjárhæð 2.080.074 krónur 19. október 2011. Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu.
Í ljósi krafna stefnanda, sem samkvæmt framansögðu séu í engu samræmi við gangverð fyrir sambærilega vinnu, kveðst stefndi gera kröfu um að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar. Hvað þá kröfu varðar tekur stefndi sérstaklega fram að hann sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og sé honum því nauðsynlegt að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefndu.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefndi til reglna samninga- og kröfuréttar, þar með talið laga um þjónustukaup nr. 42/2000, einkum 28. gr. laganna.
IV.
Svo sem áður er rakið tókst samkomulag með málsaðilum árið 2007 um að stefnandi tæki að sér byggingu íbúðarhúss fyrir stefnda að Hrófá í Strandabyggð og skyldi verkið unnið í tímavinnu. Að öðru leyti var ekki samið um hvernig greiðslu fyrir verkið skyldi háttað. Til grundvallar úrlausn ágreinings aðila skal því leggja ákvæði 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup, sem hér á við sbr. 2. tölulið 1. mgr. 1. gr. laganna, en þar segir að hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu skuli neytandi greiða það verð sem telja megi sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan sé mikil og hvers eðlis hún sé.
Skýrsla VSÓ ráðgjafar ehf., sem unnin var af starfsmanni félagsins, Maríusi Þ. Jónassyni, að beiðni stefnda, er ekki matsgerð í skilningi IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá er upplýst að nefndur starfsmaður fór ekki á vettvang að Hrófá í tengslum við gerð skýrslunnar. Þegar að þessu virtu þykir skýrslan ekkert gildi geta haft við úrlausn máls þessa.
Ekki er ágreiningur með aðilum um umkrafin tímagjöld stefnanda, enda kemur fram í yfir- og undirmatsgerðum það álit matsmanna að tímagjöld þau sem tilgreind séu á reikningum stefnanda séu sanngjörn og eðlileg.
Í málsatvikakafla greinargerðar stefnda eru gerðar athugasemdir við skráningu starfsmanna stefnanda á yfirvinnustundum. Athugasemdir í þá veru er einnig að finna í framlögðu bréfi stefnda til lögmanns stefnanda frá 25. júní 2009. Í ljósi þessa þykir rétt að taka fram, þó svo umfjöllun um þetta atriði sé ekki að finna í málsástæðnakafla greinargerðar stefnda, að dómendur hafa farið yfir framlagða reikninga stefnanda og vinnuseðla þá sem að baki þeim standa. Getur dómurinn ekki séð að framangreindar athugasemdir stefnda eigi við rök að styðjast, en í flestum tilvikum er yfirvinna ekki skráð fyrr en unnar hafa verið átta dagvinnustundir. Þá skýrist hluti yfirvinnustundanna af því að stefnandi hafði umsjón með verkinu og þurftu starfsmenn hans í sumum tilvikum að koma á verkstað í tengslum við aðkomu annarra verktaka að smíði hússins.
Undirmatsmaður fór þá leið við framkvæmd mats síns að verkþáttagreina hús stefnda og áætla síðan tímafjölda hvers verkþáttar. Var mat yfirmatsmanna unnið á sambærilegan hátt. Svo sem rakið er í kafla I hér að framan var það niðurstaða undirmatsmanns að eðlilegt vinnuframlag vegna áðurtalinna verkþátta væru 3.090 vinnustundir, +/- 8% frávik. Yfirmatsmenn komust hins vegar að þeirri niðurstöðu að eðlilegt vinnuframlag vegna framangreindra sex verkhluta væru 4.016 vinnustundir.
Fyrir liggur að bæði í undir- og yfirmati eru oftaldar vinnustundir vegna spörslunar og málunar, 120 stundir í undirmati og 180 stundir í yfirmati, en upplýst er að sú vinna var ekki unnin af stefnanda. Þá er í yfirmatsgerð einnig ofaukið um 20 vinnustundum vegna innihurða, en hvað þann verkhluta varðaði sá stefnandi eingöngu um máltöku.
Svo sem áður segir skiptist yfirmatsgerðin í sex verkþætti. Fyrsti verkþátturinn (kjallari og sökkull) inniheldur 25 matsliði. Hvað þann hluta verksins varðar er yfirmatsgerðin mun ítarlegri en undirmatsgerðin og fær dómurinn ekki annað séð en nefndir 25 matsliðir eigi rétt á sér. Verkþættir tvö, þrjú og sex (1. hæð, þak og annað) eru áþekkir í matsgerðunum tveimur að teknu tilliti til þeirrar +/- 8% óvissu sem undirmatsmaður gefur sér í niðurstöðu sinni. Fjórði verkþátturinn (vinna við veggi að utan), inniheldur hins vegar 8 matsliði hjá yfirmatsmönnum en 4 hjá undirmatsmanni. Að mati dómsins eru allir umræddir 8 matsliðir í yfirmatsgerðinni réttmætir. Fimmti verkhlutinn (innviðir) er áþekkur í báðum matsgerðunum hvað matsliði varðar. Yfirmatsmenn meta hins vegar réttan vinnustundafjölda vegna matsliðanna talsvert meiri en undirmatsmaður.
Eins og hér hefur verið rakið er mat yfirmatsmanna á vinnustundafjölda við umrætt verk nokkru hærra en mat undirmatsmanns. Er yfirmatsgerðin heilt yfir ítarlegri en undirmatsgerðin og jafnframt vantar nokkra matsliði í niðurstöðu undirmatsmanns. Þá voru svör yfirmatsmanna og skýringar sem þeir gáfu fyrir dómi á matsgerð sinni að mati dómsins nokkuð gleggri en þau svör og skýringar sem fram komu hjá undirmatsmanni.
Dómurinn fær ekki séð að yfirmatsgerðin sé haldin neinum þeim göllum sem dregið geta, svo nokkru nemi, úr gildi hennar. Verður að jafnaði að telja yfirmatsgerð tveggja matsmanna, sem ekki hefur verið hnekkt með framlagningu annarra gagna, vega þyngra við sönnunarmat en undirmatsgerð eins matsmanns. Athugasemdir lögmanns stefnda við einstaka þætti yfirmatsins við munnlegan málflutning, sem og svör fyrirsvarsmanna stefnanda við einstökum spurningum lögmannsins í því sambandi, eru ekki til þess fallnar að hnekkja rökstuddu og sundurliðuðu mati yfirmatsmanna.
Samkvæmt öllu framangreindu þykir stefnda ekki hafa tekist að hnekkja þeirri niðurstöðu yfirmatsmanna að við ákvörðun á sanngjörnu og eðlilegu endurgjaldi fyrir vinnu starfsmanna stefnda við hina umdeildu húsbyggingu beri að miða við 3.816 vinnustundir, sbr. fyrrnefnda 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup, en þá hafa verið dregnar frá áðurnefndar 200 vinnustundir vegna vinnu sem óumdeilt er að stefnandi vann ekki.
Skýrt er kveðið á um það í 28. gr. laga nr. 42/2000 að neytandi skuli greiða það verð sem telja megi sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan sé mikil og hvers eðlis hún sé. Samkvæmt áðursögðu verður að telja að sönnun á því verði liggi í raun fyrir með niðurstöðu yfirmatsmanna og verður hún því lögð til grundvallar við úrlausn málsins. Þykir dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 167/2006, sem kveðinn var upp 30. nóvember 2006, og byggt er á af hálfu stefnanda í málinu, ekki standa þeirri niðurstöðu í vegi, enda gengur hér umrætt sérákvæði laga nr. 42/2000 framar þeirri meginreglu sem vísað er til í dómnum.
Samkvæmt framansögðu ber að draga 451 vinnustund frá umkröfðum vinnustundafjölda stefnanda, 4.267 stundum. Rétt þykir að draga frá þeim stundafjölda dagvinnustundir og yfirvinnustundir í því hlutfalli sem stefnandi krefur um í málinu. Þá þykir við þann frádrátt rétt að miða við meðaltalsverð útseldra dagvinnu- og yfirvinnustunda stefnanda. Samkvæmt þessum forsendum dragast 1.042.922 krónur frá vegna dagvinnustunda og 245.227 krónur vegna yfirvinnustunda, eða samtals 1.288.149 krónur. Dregst sú fjárhæð frá stefnukröfunni miðað við gjalddaga elsta ógreidda reikningsins.
Um dráttarvexti fer svo sem í dómsorði greinir, en stefndi hefur ekki mótmælt dráttarvaxtakröfu stefnanda sérstaklega. Tekið skal fram að rétt stefnanda til höfuðstólsfærslu dráttarvaxta á tólf mánaða fresti má leiða beint af ákvæðum 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og er því óþarft að kveða á um slíka höfuðstólsfærslu í dómsorði.
Með vísan til úrslita málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, dæmist stefndi til að greiða stefnanda málskostnað. Samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi stefnanda er útlagður kostnaður stefnanda samtals 828.050 krónur, þar af kostnaður vegna yfirmatsgerðar 770.000 krónur. Með vísan til þessa og að virtu umfangi málsins og þess tíma sem fór í ferðalög hjá lögmanni stefnanda þykir málskostnaður stefnanda hæfilega ákvarðaður 1.700.000 krónur.
Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari ásamt meðdómsmönnunum Vífli Oddssyni verkfræðingi og Hjalta Sigmundssyni, byggingatæknifræðingi og húsasmíðameistara.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Örn Svavarsson, greiði stefnanda, Trésmiðjunni Höfða ehf., 5.306.072 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.465.698 krónum frá 17. október 2008 til 20. desember 2008, en af 3.036.911 krónu frá 20. desember 2008 til 15. janúar 2009, en af 4.189.477 krónum frá 15. janúar 2009 til 27. febrúar 2009, en af 5.305.072 krónum frá 27. febrúar 2009 til greiðsludags, allt að frádregnum 2.080.074 krónum innborguðum 19. október 2011.
Stefndi greiði stefnanda 1.700.000 krónur í málskostnað.