Hæstiréttur íslands

Mál nr. 648/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Þinghald


Miðvikudaginn 7. desember 2011.

Nr. 648/2011.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Daníel Pálmason hdl.)

Kærumál. Þinghald.

Úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að þinghöld í málinu yrðu lokuð, á grundvelli 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. desember 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2011, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að þinghald í málinu yrði lokað. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Krefst varnaraðili þess að þinghöld málsins verði lokuð.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, skulu dómþing háð í heyranda hljóði. Frá því má þó víkja, meðal annars til að gæta hagsmuna málsaðila, sbr. a. lið 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008, sbr. og 2. mgr. þeirrar greinar, þar sem dómara er veitt heimild til að ákveða að þinghöld í sakamáli skuli vera lokuð til hlífðar sakborningi. Eins og aðrar undantekningar frá fyrrgreindri meginreglu íslensks réttarfars ber að skýra þetta ákvæði þröngt. Að því gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar ber að staðfesta hann.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2011.

Ákærðu er gefið að sök manndráp með því að hafa banað nýfæddu barni sínu 2. júlí síðastliðinn. Hún neitar sök. Verjandi ákærðu hefur krafist þess að þinghöld verði lokuð. Krafan var fyrst sett fram við þingfestingu málsins 10. nóvember og hafnaði dómarinn henni að svo stöddu. Í næsta þinghaldi 16. nóvember ítrekaði verjandinn kröfuna, en dómarinn hafnaði henni aftur að svo stöddu og krafðist verjandinn þess þá að úrskurðað yrði að öll þinghöld málsins yrðu lokuð. Var krafan tekin til úrskurðar eftir að málflytjendur höfðu tjáð sig um hana. Lögmaður kröfuhafa tók undir kröfu verjandans, en sækjandinn lagði það í mat dómara hvort orðið yrði við kröfunni eða ekki.

Verjandinn byggir kröfu sína á 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008 og bendir á að það yrði ákærðu þungbært ef fjölmiðlar fjölluðu um málið. Það gæti valdið henni vandræðum á vinnustað auk þess sem fyrrum sambýlismaður hennar og fjölskylda hans gætu orðið fyrir áreiti fjölmiðla.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008 er það meginregla við meðferð sakamála að þinghöld skuli háð í heyranda hljóði. Dómari getur þó, bæði að eigin frumkvæði og eftir kröfu aðila, ákveðið að þinghöld skuli fara fram fyrir luktum dyrum. Í a lið nefndrar greinar kemur fram að loka megi þinghaldi til hlífðar sakborningi og öðrum, sem málið varða, og þar eru greindir. Það er á grundvelli þessa ákvæðis sem þess er krafist að þinghöld verði lokuð.

Það þurfa að vera ríkar ástæður til þess að víkja frá meginreglunni um að þinghöld í sakamálum séu opin. Nær öllum sakborningum er það erfitt, og sumum mikil raun, að sitja í þinghaldi þar sem fjallað er um ákærur á hendur þeim. Þótt ákærða sé ákærð fyrir mjög alvarlegan glæp er það út af fyrir sig ekki næg ástæða til að loka þinghaldinu. Ekki verður séð af málatilbúnaði verjanda hennar eða gögnum málsins að fyrir hendi séu einhver önnur atriði sem ættu að valda því að hlífa ætti henni um fram aðra sakborninga sem þurfa að sæta því að sitja í opnum þinghöldum þar sem fjallað er um mál þeirra. Samkvæmt þessu er því hafnað að loka þinghöldum við meðferð málsins.

Ágreiningsefnið var tekið til úrskurðar 16. nóvember síðastliðinn. Í þinghaldi sama dag voru dómkvaddir matsmenn til að meta geðhagi ákærðu. Þar eð ljóst var að málið myndi frestast þar til matsgjörð yrði skilað var ekki fylgt boði 2. mgr. 181. gr. laga nr. 88/2008 um að kveða upp úrskurð svo fljótt sem verða mátti, enda næg önnur aðkallandi verkefni til úrlausnar fyrir dómarann.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um að þinghöld í málinu verði lokuð.