Hæstiréttur íslands
Mál nr. 594/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. ágúst 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. ágúst 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram farbanni þar til dómur fellur í máli hans, en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 20. september 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. ágúst 2016.
Héraðssaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram farbanni þar til dómur fellur í máli hans, en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 20. september 2016, kl. 16.00.
Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími en krafist er.
Í greinargerð héraðssaksóknara segir að þann 28. september sl. hafi lögreglan lagt hald á rúmlega 19,5 kg af amfetamíni og rúmlega 2,5 kg af kókaíni sem hafi fundist í bifreið sem staðsett hafi verið við [...] í [...]. Hafi tveir erlendir aðilar verið handteknir inni í húsnæðinu grunaðir um aðild að innflutningi fíkniefnanna hingað til lands en annar þeirra hafi komið með bifreiðina til landsins með ferjunni Norrænu þann 22. september s.l. Lögreglan hafi verið með eftirlit með bifreiðinni sem hafi innihaldið fíkniefnin í nokkra daga. Við það eftirlit hafi lögreglan ítrekað orðið vör við aðra bifreið sem hafi virst fylgja hinni eftir. Við frekari skoðun lögreglu hafi komið í ljós að um var að ræða bílaleigubifreiðar sem kærði X hafi verið skráður leigutaki að. Hafi ákærði verið handtekinn skammt frá gistiheimilinu á bifreiðinni [...] og hafi lögreglan fundið sjónauka, lambhúshettu og rúmlega 15.600 evrur sem svari til rúmlega 2,2 milljóna íslenskra króna í bifreiðinni. Lögregla telji að ákærði hafi þar verið að fylgjast með meðkærðu og bifreiðinni. Við rannsókn lögreglu hafi einnig komið í ljós að ákærði var staðsettur á [...] sama dag og Norræna kom til landsins þann 22. september.
Með ákæru héraðssaksóknara dagsettri 5. þ.m., sé ákærða gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa á árinu 2015 staðið saman ásamt meðákærðu að innflutningi á 19.448,96 g af amfetamíni og 2.597,44 g af kókaíni frá Hollandi til Íslands ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni, eins og nánar greinir í ákæruskjali.
Ákærði þykir vera undir sterkum grun um aðild að broti sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Að mati ákæruvalds þykir meint aðild ákærða mikil en hún er talin tengjast skipulagningu og flutningi fíkniefnanna hingað til lands. Þá sé einnig lagt til grundvallar kröfu að um mjög mikið magn hættulegra fíkniefna sé að ræða. Meti ákæruvald það svo að skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé fullnægt í því máli sem hér um ræðir en staða ákærða þykir sambærileg stöðu sakborninga á öðrum svipuðum málum, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 736/2015, 152/2013, 149/2013, 269/2010, 164/2010 og 91/2010, þar sem sakborningum hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna þegar legið hefur fyrir sterkur grunur um beina aðild að innflutningi að miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni.
Ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins frá 29. september, síðast með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. [...], en sá úrskurður hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar. Þar sem ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi í 12 vikur án þess að mál var höfðað á hendur honum hafi lögregla talið, í samræmi við 4. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, að ekki væri unnt að úrskurða ákærða áfram í gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna. Í samræmi við það hafi verið farið fram á og ákærði í kjölfarið verið úrskurðaður í farbann og hafi sá úrskurður verið staðfestur með dómi Hæstaréttar. Síðan hafi Hæstiréttur þrisvar staðfest úrskurði um áframhaldandi farbann yfir kærða, sbr. dóma í málum nr. 50/2016, 126/2016 og 215/2016. Því sé farið fram á að ákærði verði úrskurðaður í áframhaldandi farbann á grundvelli 100. gr. laga nr. 88/2008 en á því sé byggt að skilyrði 2. mgr. 95. gr. séu uppfyllt eins og áður sé rakið. Jafnframt teljist fyrir hendi skilyrði til að úrskurða ákærða í farbann á grundvelli b- liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Að mati héraðssaksóknara sé brýnt að tryggja nærveru ákærða á meðan mál hans er til meðferðar fyrir yfirvöldum hér á landi og því nauðsynlegt að honum verði gert að sæta farbanni þar til mál hans er til lykta leitt. Ýmislegt hafi komið upp undir rekstri málsins fyrir dómi, t.d. hafi verið dómkvaddur matsmaður til að meta sakhæfi eins hinna ákærðu og þá hafi komið fram kröfur verjanda um frekari gagnaöflun og afhendingu muna og gagna sem hafi gert það að verkum að málsmeðferð fyrir héraðsdómi hefur dregist en málsmeðferð hófst 10. ágúst sl. og hafi verið fram haldið 11. ágúst sl., 18. ágúst sl. og í dag 23. ágúst 2016.
Ákæruvaldið telji með hliðsjón af því sem rannsókn hafi leitt í ljós að ákærði sé undir sterkum grun um að hafa framið brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ásamt síðari breytingum, sem varði allt að 12 ára fangelsi. Um heimild til að úrskurða kærða í farbann sé vísað til b- liðar 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 95. gr., sbr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Með vísan til alls framangreinds og framlagðra gagna málsins er þess beiðst að krafa héraðssaksóknara um farbann nái fram að ganga.
Ákærða hefur verið gert að sæta farbanni til dagsins í dag á grundvelli 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 2. mgr. 95. gr. sömu laga. Er ekkert fram komið í málinu sem leiðir til þess að ekki séu lengur fyrir hendi skilyrði til að honum verði gert að sæta farbanni, en aðalmeðferð í máli hans hófst 10. ágúst sl. og er gert ráð fyrir því að málið verði tekið til dóms í dag eða á morgun
Með vísan til framangreinds er fallist á kröfu héraðssaksóknara um áframhaldandi farbann, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Ákærði, X, skal sæta farbanni þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 20. september 2016, kl. 16:00.