Hæstiréttur íslands
Mál nr. 3/2015
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
- Gjöf
|
|
Fimmtudaginn 10. september 2015. |
|
Nr. 3/2015.
|
Páll Þór Magnússon (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) gegn þrotabúi IceCapital ehf. (Haukur Örn Birgisson hrl.) |
Gjaldþrotaskipti. Riftun. Gjöf.
Þrotabú I ehf. krafðist riftunar á kaupsamningi I ehf. og P, fyrrum framkvæmdastjóra I ehf., um kaup félagsins á stofnfjárbréfum í B og endurgreiðslu fjárhæðar sem svaraði til kaupverðsins. Var talið að I ehf. hefði verið ógjaldfært við gerð umrædds kaupsamningsins. Óumdeilt væri í málinu að P og I ehf. hefðu verið nákomnir í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 og stæðu því líkindi til þess að samningurinn hefði verið gjafagerningur. Þegar horft væri til þess hvert verðmæti stofnbréfanna var við gerð kaupsamningsins yrði ekki talið að markmiðið með honum hefði verið annað en að valda rýrnun á eignum I ehf. í þágu P. Var því fallist á kröfu þrotabús I ehf. um að rifta samningnum eftir heimild í 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Jafnframt var lagt til grundvallar að P hefði verið ljóst að ráðstöfunin væri riftanleg og var því einnig fallist á endurkröfu búsins á grundvelli 1. mgr. 142. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. janúar 2015. Hann krefst sýknu af annars vegar kröfu stefnda um að rift verði kaupsamningi milli áfrýjanda og Sunds ehf., síðar IceCapital ehf., 4. nóvember 2008 um kaup á stofnbréfum í Byr sparisjóði fyrir 25.000.000 hlutum og hins vegar kröfu um að sér verði gert að endurgreiða stefnda 90.315.122 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með hinum áfrýjaða dómi var rift ráðstöfunum sem fólust í arðgreiðslu IceCapital ehf. til áfrýjanda 9. október 2008 og fyrrgreindum kaupsamningi 4. nóvember sama ár um stofnfjárbréf í Byr sparisjóði. Jafnframt var áfrýjanda gert að endurgreiða stefnda fjárhæðir sem svöruðu til þessara ráðstafana. Áfrýjandi unir dómi um arðgreiðsluna en krefst sýknu af kröfum sem lúta að kaupsamningnum.
Í greinargerð sinni til Hæstaréttar og við munnlegan flutning málsins hefur áfrýjandi teflt fram þeirri málsástæðu að krafa um skaðabætur úr hendi hans eftir almennum reglum sé fyrnd. Almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda sé 4 ár, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, og fresturinn reiknist frá þeim degi sem kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Stefndi hafi fyrst átt rétt til efnda við gerð kaupsamningsins 4. nóvember 2008 og því hafi krafan verið fyrnd þegar málið var höfðað 27. desember 2012. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að þessi málsástæða hafi verið höfð uppi undir rekstri málsins í héraði. Fær hún því ekki komist að fyrir Hæstarétti, enda standa ekki til þess skilyrði 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefndi reisir kröfur sínar á hendur áfrýjanda á því að kaupsamningurinn hafi falið í sér gjafagerning sem verði rift á grundvelli 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt því ákvæði verður gjafagerningum til nákominna rift innan þess tímafrests sem greinir í 1. mgr. 194. gr. laganna, enda verði ekki leitt í ljós að þrotamaður hafi verið gjaldfær þegar gjöfin var afhent og það þrátt fyrir afhendinguna. Með vísan til þeirra atriða sem rakin eru í héraðsdómi um efnahag IceCapital ehf. í kjölfar falls þriggja stærstu viðskiptabanka landsins haustið 2008 verður því slegið föstu að félagið hafi verið ógjaldfært við gerð kaupsamningsins 4. nóvember 2008.
Í málinu er ágreiningslaust að áfrýjandi og IceCapital ehf. voru nákomnir í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Að því gættu standa líkindi til þess að umræddur kaupsamningur um stofnbréf í Byr sparisjóði hafi verið gjafagerningur. Þegar virt er það sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi um verðmæti stofnbréfanna við gerð kaupsamningsins verður ekki talið að áfrýjandi hafi leitt í ljós að markmiðið með samningnum hafi verið annað en að valda rýrnun á eignum félagsins í þágu áfrýjanda. Verður því talið að gjafatilgangur hafi búið að baki samningnum. Samkvæmt þessu verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að rifta ráðstöfuninni sem fólst í samningnum eftir heimild í 2. mgr. 131. gr. laganna. Jafnframt verður lagt til grundvallar að áfrýjanda hafi verið ljóst að ráðstöfunin var riftanleg og því verður einnig staðfest niðurstaða dómsins um endurkröfu stefnda á grundvelli lokamálsliðar 1. mgr. 142. gr. laganna með þeim dráttarvöxtum sem þar eru tilgreindir. Loks verða staðfest ákvæði dómsins um málskostnað.
Eftir þessum úrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Páll Þór Magnússon, greiði stefnda, þrotabúi IceCapital ehf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 2. október 2014.
Mál þetta, sem höfðað var með stefnu birtri 28. desember 2012, var tekið til dóms 4. september sl. Stefnandi er Þrotabú IceCapital ehf., Smáratorgi 3, Kópavogi, en stefndi er Páll Þór Magnússon, Eskiholti 20, Garðabæ.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að rift verði með dómi eftirfarandi greiðslum á skuld IceCapital ehf. við stefnda vegna arðsúthlutunar, samtals að fjárhæð 51.798.642 krónur, sem greiddar voru 15. september 2008 að fjárhæð 20.000.000 króna og 9. október 2008 að fjarhæð 31.798.642 krónur. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda 51.798.642 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 9. október 2008 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi þess að rift verði með dómi gjafagerningi eða kaupsamningi, dagsettum 4. nóvember 2008, milli IceCapital ehf. og stefnda um stofnfjárbréf í Byr sparisjóði, samtals að fjárhæð 90.315.122 krónur. Er þess jafnframt krafist að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda 90.315.122 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 4. nóvember 2008 til greiðsludags.
Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2012 var bú stefnanda IceCapital ehf. tekið til gjaldþrotaskipta en skiptabeiðandi var Arion banki hf. Skiptastjóri var skipaður sama dag í þrotabúinu. Frestdagur í búinu var 26. janúar 2012. Innköllun birtist í Lögbirtingablaði þann 23. mars 2012 og aftur 30. s.m. Skiptafundur um lýstar kröfur var haldinn þann 31. maí s.á. Í júní 2012 barst skiptastjóra bókhald félagsins á rafrænu formi. Deloitte ehf. var falið að rannsaka bókhald félagsins og var samantekt vegna rannsóknarinnar skilað til skiptastjóra í desember 2012. Stefnandi hét áður Sund ehf. Samkvæmt hlutafélagaskrá var tilgangur félagsins umboðs- og heildverslun, eignarhald og viðskipti með verðbréf, rekstur og eignarhald fasteigna, svo og lánastarfsemi. Stefnandi átti hlut í íslensku viðskiptabönkunum. Stefnandi segir að við fall þeirra hafi félagið að mestu orðið eignalaust en setið eftir með háar skuldir.
Atvik þessa máls kveður stefnandi varða tvö atriði sem séu riftanleg að mati skiptastjóra og verði fjallað sérstaklega um hvort þeirra hér á eftir.
Í fyrsta lagi hafi stefndi á tímabilinu september til október 2008 fengið greiddar 51.798.642 krónur sem arðgreiðslu, nánar tiltekið 15. september 2008 að fjárhæð 20.000.000 króna og 9. október 2008 að fjárhæð 31.798.642 krónur. Engar skýringar séu gefnar í bókhaldi félagsins á því hvers vegna arðgreiðslurnar bárust svona seint. Þá veki stefnandi jafnframt athygli á því að félagið hafi verið ógjaldfært þegar greiðslurnar voru inntar af hendi. Í ljósi þess að ofangreindar arðgreiðslur voru til nákomins aðila í skilningi laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., á síðustu 48 mánuðum fyrir frestdag og með hliðsjón af fjárhagsstöðu félagsins þegar greiðslurnar voru inntar af hendi telur stefnandi einsýnt að þær feli í sér ólögmæta og riftanlega ráðstöfun.
Í öðru lagi hafi komið í ljós við rannsókn á bókhaldi félagsins að 4. nóvember 2008 seldi stefndi til félagsins verðlítil eða verðlaus stofnfjárbréf í Byr sparisjóði. Um hafi verið að ræða 25.000.000 hluti og við ákvörðun kaupverðs hafi þeir verið margfaldaðir með endurmatsstuðlinum 2,25787806. Umsamið kaupverð hafi verið á genginu 1,6 pr. hlut eða samtals 90.315.122 krónur. Kaupverðið hafi verið greitt samdægurs með reiðufé. Stefnandi telur einsýnt að kaupverð stofnfjárbréfanna hafi verið óeðlilegt og of hátt í ljósi verðgildis bréfanna á þessum tíma og því sé um að ræða gjafagerning og ótilhlýðilega ráðstöfun sem sé þar af leiðandi riftanleg samkvæmt ákvæðum XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti.
Með tveimur bréfum skipaðs skiptastjóra til stefnda, báðum dagsettum 11. desember 2012, hafi þrotabúið lýst yfir riftun á framangreindum ráðstöfunum með vísan til XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og krafist þess jafnframt að stefndi endurgreiddi búinu þær fjárhæðir sem tilgreindar voru í hverju og einu tilviki. Þess hafi verið krafist að endurgreiðsla ætti sér stað til þrotabúsins í síðasta lagi mánudaginn 17. desember 2013. Þar sem stefndi hafi ekki tekið afstöðu til framangreindra krafna sé þrotabúinu nauðugur sá kostur að höfða dómsmál þetta til riftunar á framangreindum ráðstöfunum og til endurgreiðslu þeirra fjármuna sem gengu til stefnda.
Riftunarkrafa stefnanda varðandi arðsúthlutun sé einkum byggð á 2. mgr. 134. gr., sbr. 1. mgr. 134. gr., laga nr. 21/1991. Samkvæmt ákvæðinu sé riftun heimiluð á greiðslu skuldar til nákominna ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir greiðsluna og að greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum.
Stefnandi bendir á að þar sem greiðslur til stefnda hafi verið gerðar á grundvelli arðsúthlutunar vegna fyrra tímabils sé ljóst að um greiðslu skuldar sé að ræða í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991. Stefndi sé nákominn aðili í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, enda hafi eiginkona stefnda átt verulegan hlut í félaginu.
Á því er byggt af hálfu stefnanda að stefnandi hafi verið ógjaldfært félag í skilningi laga nr. 21/1991 frá septembermánuði 2008 og þar af leiðandi ógjaldfært þegar hinar riftanlegu ráðstafanir áttu sér stað. Á þessum tíma hafi stefnandi verið nær eignalaust félag en skuldir félagsins numið mörgum milljörðum króna. Þessu til stuðnings megi t.d. benda á að samkvæmt ársreikningum stefnanda 2008 og 2009 hafi eigið fé stefnanda verið neikvætt um 17,5 milljarða króna í lok árs 2008 og um rúma 24,6 milljarða króna í árslok 2009. Í ársreikningi félagsins 2008 segi m.a. að tap ársins 2008 nemi rúmlega 32,2 milljörðum króna og eigið fé félagsins sé neikvætt í árslok um 17.579.000 króna. Þessi atriði valdi því að vafi leiki á um rekstrarhæfi félagsins. Þessu til frekari stuðnings vísist til þess að fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 að á tímabilinu frá 1. janúar 2007 til 30. september 2008 hafi skuldir stefnanda og tengdra félaga hækkað um 44,7 milljarða króna. Í evrum talið hafi skuldbindingar félaganna hækkað um 236,5 milljónir eða 117%. Á sama tímabili hafi nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda numið 43,3 milljörðum króna. Fyrirsvarsmönnum stefnanda hafi augljóslega verið ljóst að félagið var ógjaldfært þegar hinar riftanlegu ráðstafanir áttu sér stað. Í raun hafi stjórnarformaður stefnanda viðurkennt þetta í skýrslutöku hjá skiptastjóra þegar hann lýsti því hvernig eignahlið stefnanda hefði þurrkast út við hrun viðskiptabankanna haustið 2008 og aðeins skuldir staðið eftir.
Loks vísar stefnandi til þess að arðgreiðslurnar hafi allar átt sér stað innan fjörutíu og átta mánaða fyrir frestdag, sbr. 194. gr. laga nr. 21/1991, en frestdagur í búinu sé 26. janúar 2012.
Stefnandi byggir á því að umræddar arðgreiðslur hafi verið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. Stefndi hafi fyllilega getað gert sér grein fyrir fjárhagslegri stöðu félagsins þegar skuldin var greidd.
Þá styður stefnandi einnig riftunarkröfu sína sjálfstætt við 141. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991. Samkvæmt þeirri grein megi krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiði til þess að eignir þrotamanns verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg.
Stefnandi byggir á því að arðgreiðslur til stefnda hafi verið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa, enda hafi greiðslurnar leitt til þess að fjármunir voru ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum við gjaldþrotaskiptin. Greiðslurnar hafi þannig verið til þess fallnar að mismuna kröfuhöfum og gengið því gegn jafnræði kröfuhafa sem reynt sé að gæta í lögum nr. 21/1991. Engar líkur séu á því að stefndi hefði fengið greiðslurnar úr þrotabúinu.
Stefnandi byggir á því að það sé fullkomlega ljóst í málinu að stefndi hafi verið grandsamur um fjárhagslega stöðu stefnanda á þeim tíma er útgreiðslan fór fram. Stefndi hafi verið framkvæmdastjóri hins gjaldþrota félags. Þá vísist einnig til skýrslutöku af Jóni Kristjánssyni, stjórnarformanni félagsins, hjá skiptastjóra 20. mars 2012. Þegar Jón hafi verið spurður að því hverjar hann telji vera ástæður gjaldþrotsins hafi hann svarað því til að við fall bankanna hefði eignahlið félagsins algerlega horfið og eftir staðið miklar skuldir.
Fjárkrafa stefnanda byggist á 1. mgr. 142. g.r laga nr. 21/1991 verði henni rift á grundvelli ákvæðis 134. gr. laganna. Þar sé mælt fyrir um að sá sem hag hafi af riftanlegri ráðstöfun skuli greiða þrotabúi fé sem svari til þess sem greiðsla þrotamanns hafi orðið honum að notum. Stefnandi byggir á því að hin riftanlega ráðstöfun hafi komið stefnda að sömu notum og svari til fjárhæðar hennar þar sem um peningagreiðslu var að ræða.
Verði á hinn bóginn fallist á riftun á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 sé endurgreiðslukrafa stefnanda reist á 3. mgr. 142. gr. laganna. Síðarnefnda ákvæðið mæli fyrir um að sá sem hag hefur haft af riftanlegri ráðstöfun greiði bætur eftir almennum reglum. Stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni sem hafi numið fjárhæð hinnar riftanlegu ráðstöfunar, enda hefðu fjármunirnir nýst stefnanda að fullu til úthlutunar upp í lýstar kröfur í þrotabú stefnanda.
Riftunarkrafa stefnanda vegna sölu á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði sé í fyrsta lagi reist á 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Stefnandi telur kaupsamning, sem gerður var milli aðila þann 4. nóvember 2008, hafa verið málamyndagerning. Kaupsamningurinn hafi í reynd verið gjafagerningur. Í öllu falli hafi umsamið kaupverð verið verulega óhagstætt hinu gjaldþrota félagi en vænlegt fyrir stefnda. Ástæðan sé einkum sú að enginn virkur markaður hafi verið með stofnfjárbréf Byrs sparisjóðs á þessum tíma og byggir stefnandi á því að bréfin hafi verið orðin verðlaus þegar kaupsamningurinn var gerður. Stefnandi bendir sérstaklega á það að í byrjun október 2008 hafi þrír stærstu viðskiptabankar Íslands orðið gjaldþrota í einni og sömu vikunni. Hlutabréf í viðskiptabönkunum hafi orðið verðlaus í kjölfarið og enginn virkur markaður verið með stofnfjárbréf í Byr. Fjármálaeftirlitið hafi tekið þá ákvörðun 22. apríl 2010 að taka yfir vald stofnfjáreigendafundar Byrs sparisjóðs.
Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 131. gr. megi krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Í 2. mgr. 131. gr. sé síðan kveðið á um að krefjast megi riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent sex til tólf mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Þetta gildi einnig um gjafir til nákominna sem hafa verið afhentar sex til tuttugu og fjóraum mánuðum fyrir frestdag. Stefnandi og stefndi séu nákomnir í skilningi 3. gr. laga laganna og þar af leiðandi eigi ákvæði 2. mgr. 131. gr. laganna, sbr. bráðabirgðaákvæði 1. mgr. 194. gr. laganna, við um gjafagerninginn. Þá hafi stefnandi á þeim tíma er ráðstöfunin fór fram verið ógjaldfær í skilningi 64. gr. laganna og vísist í þeim efnum til fyrri umfjöllunar um ógjaldfærni félagsins.
Stefnandi byggir riftunarkröfu sína einnig á ákvæði 141. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi byggir á að umrædd ráðstöfun hafi verið ótilhlýðileg og leitt til þess að eignir hins gjaldþrota félags voru ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum auk þess sem stefnandi var ógjaldfær á þeim tíma sem gerningurinn átti sér stað og stefndi vissi eða mátti vita af ógjaldfærni stefnanda. Greiðslurnar hafi þannig verið til þess fallnar að mismuna kröfuhöfum og því gengið gegn jafnræði kröfuhafa sem reynt sé að gæta í lögum nr. 21/1991.
Fjárkrafa stefnanda byggist á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 verði henni rift á grundvelli ákvæðis 131. gr. laganna. Verði á hinn bóginn fallist á riftun á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 sé endurgreiðslukrafa stefnanda reist á 3. mgr. 142. gr. laganna.
Stefnandi byggir fjárkröfur sínar einnig á ákvæðum 51. gr. og 70. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Við gjaldþrotaskiptin hafi stefnandi eignast skaðabótakröfu hins gjaldþrota félags á hendur stefnda, sbr. XII. kafla laga nr. 21/1991. Stefnandi bendir á að stefndi hafi vitað, eða mátt vita, að greiðsla eða lánveiting stefnanda til stefnda hafi verið brot á ákvæðum laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, sbr. 2. tl. 1. mgr. 52. gr. laganna. Stefnandi byggir á því að ráðstöfunin hafi verið bæði hluthöfum stefnanda eða öðrum, það er hluthöfum stefnda, til ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað stefnanda og kröfuhafa hans. Með sömu rökum vísar stefnandi til 70. gr. laganna.
Enn fremur byggir stefnandi á meginreglu gjaldþrotaskiptaréttar um jafnræði kröfuhafa og á almennum reglum kröfuréttar.
Þá vísar stefnandi til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafa um riftun sé einkum reist á 131., 134. og 141. gr. laganna. Fjárkrafa stefnanda byggist á 1. og 3. mgr. 142. gr. gjaldþrotalaga, almennum reglum skaðabótaréttarins sem og ákvæðum laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og reglum kröfuréttar. Um vexti og dráttarvexti er vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá er krafa um málskostnað reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing er vísað til V. kafla sömu laga. Þá bendir stefnandi á að samkvæmt 1. mgr. 148. gr., sbr. bráðabirgðaákvæði 194. gr. gjaldþrotalaga, er mál þetta höfðað innan málshöfðunarfrests.
II
Kröfu sína um sýknu af 1. kröfulið í stefnu byggir stefndi á því að arðgreiðslurnar hafi verið ákveðnar í fullu samræmi við lög nr. 138/1994. Þá er byggt á því að greiðslurnar hafi ekki valdið því að félagið varð ógjaldfært. Stefnandi byggi riftunarkröfu sína einkum á 2. mgr., sbr. 1. mgr. 134. gr., laga nr. 21/1991. Stefndi telur greiðslur stefnanda til sín 15. september 2008 og 9. október sama árs ekki hafa skert greiðslugetu stefnanda verulega, og þó svo teljist vera hljóti greiðslan að hafa talist venjuleg eftir atvikum þar sem greiðslan var byggð á ákvörðun um arðsúthlutun sem hafði verið tekin á lögmætan hátt.
Ennfremur telur stefndi greiðsluna vegna arðsúthlutunarinnar ekki vera riftanlega á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991. Stefndi telur stefnanda ekki hafa verið ógjaldfæran á þeim tíma sem greiðslurnar áttu sér stað og að hann hafi ekki orðið ógjaldfær vegna greiðslnanna. Þá hafi stefndi á þessum tíma ekki getað séð fyrir þær miklu hræringar sem urðu á fjármálamarkaði stuttu eftir að greiðslur til hans áttu sér stað. Í stefnu sé tekið fram að Jón Kristjánsson, stjórnarformaður stefnanda, hafi sagt fall bankanna vera eina af helstu ástæðum gjaldþrotsins vegna þess að eignir félagsins hafi að miklu leyti verið bundnar í hlutabréfum í viðskiptabönkunum þremur. Á þeim tíma sem greiðslurnar voru inntar af hendi hafi ekki legið fyrir að bréf þessi yrðu verðlaus innan skamms tíma og því ekki fyrir hendi grandsemi sú sem byggt sé á í stefnu, þ.e. um að félagið hafi ekki verið gjaldfært þegar greiðslurnar voru inntar af hendi.
Rannsóknarskýrsla Alþingis sé ekki sönnunargagn í máli þessu fremur en öðrum einkamálum. Stefnandi virðist þó að hluta til byggja málatilbúnað sinn á þeirri skýrslu og sé því mótmælt.
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu af 2. kröfulið í stefnu á því að kaupsamningurinn um stofnbréf í Byr sparisjóði 4. nóvember 2008 hafi hvorki falið í sér málamynda- né gjafagerning. Þvert á móti hafi stefndi með samningum verið að selja stefnanda stofnfjárhluti í Byr sparisjóði. Verðmæti þeirra 25.000.000 stofnfjárhluta, sem stefndi hafi selt stefnanda, hafi byggst á endurmatsstuðli nóvember 2008. Stefnanda hafi auk þess verið nauðsynlegt að eignast fleiri stofnfjárhluti í Byr sparisjóði til þess að geta bætt tryggingastöðu sína gagnvart sparisjóðnum sjálfum og öðrum lánadrottnum sínum. Við skoðun á tryggingastöðu stefnanda gagnvart Byr sparisjóði hafi komið í ljós að tryggingar sparisjóðsins fyrir lánum til stefnanda hafi verið minni en gert hafði verið ráð fyrir. Um þennan skort á tryggingum hafi verið rætt við forsvarsmenn stefnanda áður en kaupin 4. nóvember 2008 áttu sér stað og eins eftir þau. Þannig hafi komið fram á fundi forsvarsmanna stefnanda með forsvarsmönnum Byrs sparisjóðs föstudaginn 7. nóvember 2008 að skortur á tryggingum gagnvart Byr sparisjóði væri um 10.000.000 stofnfjárhlutir. Í tölvupósti sparisjóðsstjóra Byrs sparisjóðs til Jóns Kristjánssonar 9. nóvember 2008 hafi vöntunin hins vegar verið talin vera 36.735.928 hlutir. Í tölvupóstinum segi: „Samkvæmt mínum bókum eigið þið 97 milljón hluti óveðsetta. Eftir standa þá 60 milljón hlutir fyrir VBS.“ Eins og framangreint ber með sér sé sparisjóðsstjóri Byrs sparisjóðs ekki í neinum vafa um að stofnfjárhlutir í Byr sparisjóði hefðu þekkt verðgildi og gætu staðið sem veð að baki lánum til stefnanda. Hefði stefnandi ekki verið fær um að útvega nauðsynlegar tryggingar hefðu fjármálafyrirtækin, sem kröfðust frekari trygginga, getað gjaldfellt kröfur sínar á hendur stefnanda. Kaupsamningurinn 4. nóvember 2008 hafi ekki falið í sér gjöf í merkingu 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, þar sem tilgangurinn með honum hafi ekki verið að gefa og því síður hafi hann rýrt eignir stefnanda og leitt til eignaaukningar hjá stefnda.
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu af 2. kröfulið í stefnu í öðru lagi á því að 141. gr. laga nr. 21/1991 eigi ekki við um lögskipti stefnda og stefnanda 4. nóvember 2008. Stefnandi hafi ekki sannað að riftunarskilyrði þessarar huglægu riftunarreglu séu til staðar. Þvert á móti liggi fyrir að með samningnum 4. nóvember 2008 hafi stefnandi fengið í sinn hlut stofnfjárhluti í Byr sparisjóði sem höfðu það verðgildi sem um var samið. Þetta hafi ekki aðeins verið mat stefnda og stefnanda, heldur einnig lánastofnana þeirra sem áttu þegar veð í stofnfjárhlutum í Byr sparisjóði og vildu auka tryggingar sínar vegna lána til stefnanda með því að fá fleiri stofnfjárhluti sem tryggingu. Þessir aðilar hafi verið kröfuhafar stefnanda og þeir hafi þekkt til eigna- og skuldastöðu hans. Kröfuhafar þessir hefðu varla samþykkt viðskiptin með stofnfjárhlutina og veðsetningu þeirra til tryggingar lánum til stefnanda hefðu þeir talið kaupin ótilhlýðileg og til hagsbóta fyrir stefnda á kostnað annarra, þ. á. m. þeirra sjálfra, og að þau leiddu til þess að eignir stefnanda yrðu ekki til reiðu þeim og öðrum kröfuhöfum til fullnustu eða að þau leiddu til skuldaaukningar þeim og öðrum kröfuhöfum til tjóns. Stefnandi hafi ekki verið í vanskilum við neinn lánadrottinn þegar samningurinn var gerður og hafi ekki orðið ógjaldfær vegna samningsins.
Efnahagur stefnanda hafi orðið fyrir höggi þegar íslenskt efnahagslíf hrundi í kjölfar setningar neyðarlaganna 7. október 2008. Það breyti hinsvegar engu fyrir mál þetta. Áhættan af kaupum stofnfjárhlutanna hafi flust til stefnanda 4. nóvember 2008 og þeir hafi nýst stefnanda að fullu sem veðtrygging á þeim tíma sem til kaupanna var stofnað.
Vísun stefnanda til 51. og 70. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 og til almennra reglna skaðabótaréttarins sé óljós og mjög úr samhengi við annað í málatilbúnaði stefnanda. Dómkröfur í málinu lúti ekki að skaðabótum heldur annars vegar að riftun á greiðslum vegna arðsúthlutunar og endurgreiðslu þess fjár og hins vegar að riftun á kaupsamningi stefnanda við stefnda á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði og endurgreiðslu kaupverðsins. Tilvísun stefnanda til laga nr. 138/1994 og til almennra reglna skaðabótaréttar sé því ekki í nokkrum tengslum við aðra þætti málsins og tengist sakarefni málsins ekki á nokkurn hátt. Þá beri að geta þess að í 71. gr. laga nr. 138/1994 sé að finna sérstakt málshöfðunarákvæði. Auk þess sem skaðabótakröfur samkvæmt lögum um einkahlutafélög hafi á þeim tíma sem greiðslurnar voru inntar af hendi lotið sérstökum fyrningarreglum sem leiði til þess að mögulegar kröfur stefnanda væru að öllu leyti fyrndar. Bótakröfur samkvæmt lögunum fyrndust almennt á tveimur árum frá lokum þess reikningsárs sem atvik eða atburður átti sér stað skv. XV. kafla laga nr. 138/1994. Atvik þessa máls hafi átt sér stað í september og október árið 2008 og verði því bótamál á grundvelli laga nr. 138/1994 ekki höfðað síðar en í október 2010. Engu breyti þótt ráðagerð hafi verið uppi um það við setningu laga nr. 68/2010 að lengja fyrningarfrest bótakrafna samkvæmt lögum um einkahlutafélög í fjögur ár. Slík lagasetning geti ekki verið afturvirk frekar en önnur íþyngjandi löggjöf. Jafnvel þótt fallist væri á að fyrningarfrestur væri fjögur ár hafi krafan engu að síður verið fyrnd þar sem málið hafi verið höfðað meira en fjórum árum eftir greiðslurnar í september og október 2008.
Stefndi mótmælir þessum málatilbúnaði stefnanda, enda eigi hann engin tengsl við atvik málsins og málsástæður stefnanda að öðru leyti.
Loks mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfum stefnanda. Kröfurnar séu ekki í samræmi við ákvæði III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á ákvæðum laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, aðallega 131., 141. og 1. og 3. mgr. 142. gr. laganna, laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá er byggt á meginreglum samningaréttar og kröfuréttar, einna helst meginreglunni um skuldbindingargildi samninga. Málskostnaðarkröfu sína byggir stefndi á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 19/1991.
Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslu Páll Þór Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnanda. Þá gaf einnig skýrslu Sif Einarsdóttir, löggiltur endurskoðandi, en hún stjórnaði vinnu við gerð skýrslu um bókhald stefnanda sem gerð var að tilhlutan skiptastjóra stefnanda.
III
Bú IceCapital ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 14. mars 2012 og var frestdagur í búinu 26. janúar 2012. Þrotabúið höfðaði mál þetta í fyrsta lagi til riftunar á ráðstöfunum sem það telur að hafi falist í arðgreiðslum til stefnda, annars vegar að fjárhæð 20.000.000 króna sem greiddar voru 15. september 2008 og hins vegar að fjárhæð 31.798.642 krónur sem greiddar voru 9. október 2008. Stefnandi reisir þessa kröfu sína í fyrsta lagi á 2. mgr. 134. gr., sbr. 1. mgr., laga nr. 21/1991. Telur stefnandi að í ráðstöfuninni hafi falist greiðsla á skuld til nákomins aðila. Í málinu er ekki deilt um að aðilar voru nákomnir í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991.
Samkvæmt 76. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög tekur hluthafafundur ákvörðun um úthlutun arðs eftir að félagsstjórn hefur lagt fram tillögur um það efni. Ekki liggur annað fyrir í málinu en að svo hafi verið gert og að ekki hafi verið úthlutað meiri arði en félagsstjórn ákvað. Samkvæmt 74. gr. laganna er einungis heimilt að úthluta sem arði hagnaði samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta reikningsárs. Hagnaður varð af rekstri félagsins árið 2007 og í skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra í ársreikningi 2007 lagði stjórn félagsins til að greiddur yrði arður til hluthafa að fjárhæð 500 milljónir króna á árinu 2008 vegna rekstrarársins 2007.
Samkvæmt framansögðu var búið að ákveða arðgreiðslur vegna rekstrarársins 2007 og var arður greiddur út árið 2008. Stefnandi byggir á að arðgreiðslurnar hafi, eftir að þær voru ákveðnar, verið færðar á viðskiptamannareikning stefnda hjá stefnanda og því sé um greiðslu á skuld að ræða í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991. Ekki er unnt að fallast á þau sjónarmið stefnanda að um skuld hafi verið að ræða í skilningi ákvæðisins. Þá verður heldur ekki falist á að greitt hafi verið með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr., enda greitt með reiðufé samkvæmt samningi aðila. Krafa stefnanda verður því ekki byggð á þessum grunni.
Í öðru lagi styður stefnandi kröfu sína um riftun á arðgreiðslum sjálfstætt við 141. gr. laga nr. 21/1991 og byggir á að ráðstöfunin, sem fólst í greiðslu arðs til stefnda, hafi á ótilhlýðilegan hátt verið stefndu til hagsbóta á kostnað annarra þar sem stefnandi hafi á þessum tíma verið ógjaldfær og stefndi hafi haft vitneskju um það.
Samkvæmt ársreikningum stefnanda var eigið fé stefnanda neikvætt um 17,5 milljarða króna í lok árs 2008 og rúma 24,6 milljarða króna í árslok 2009. Í ársreikningi stefnanda 2008 segir að tap ársins 2008 nemi 32.262 milljónum króna og eigið fé félagsins sé neikvætt í árslok 2008 um 17.579 milljónir króna. Segir endurskoðandi félagsins í ársskýrslunni að framangreint valdi því að vafi leiki á um rekstrarhæfi félagsins. Í ársreikningi 2009 segir m.a. í skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra að 7.028 milljóna króna tap hafi orðið á rekstri félagsins árið 2009 samkvæmt rekstrarreikningi og að eigið fé félagsins hafi í árslok verið neikvætt um 24.607 milljónir króna. Ársreikningur fyrir 2009 var ekki endurskoðaður af endurskoðanda. Alkunna er að erfiðleikar fjármálafyrirtækja hér á landi hófust árið 2007 og ágerðust haustið 2008. Stefnandi var fjárfestingafélag og átti m.a. stóra hluti í íslenskum viðskiptabönkunum þremur svo og í Byr sparisjóði. Í skýrslu stjórnarformanns stefnanda, Jóns Kristjánssonar, hjá skiptastjóra, kemur fram að við fall bankanna hafi eignahlið stefnanda horfið og eftir staðið stökkbreyttar skuldir. Ber ársreikningur 2008 það með sér. Hinn 6. október 2008 markar upphaf bankahrunsins á Íslandi en þá féll fyrsti bankinn og síðan hinir tveir stuttu síðar. Af framansögðu virtu telur dómurinn ekki fara á milli mála að frá og með 6. október 2008 hafi stefnandi verið orðinn ógjaldfær. Eiginkona stefnda átti 33% hlut í stefnanda og stefndi var framkvæmdastjóri stefnanda og var því nákominn í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Við þessar aðstæður gat honum ekki dulist ógjaldfærni stefnanda og að ráðstöfunin var til þess fallin að skapa einum kröfuhafa hagsbætur umfram aðra. Ráðstöfun stefnanda var því ótilhlýðileg í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991.
Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrðum 141. gr. laga nr. 21/1991 til þess að fallast á kröfur stefnanda um riftun á arðgreiðslum til stefnda sem fram fóru 9. október að fjárhæð 31.798.642 krónur. Stefnandi hefur hins vegar ekki sýnt fram á að stefnandi hafi orðið ógjaldfær fyrr en við fall bankanna 6. október 2008 en fyrir því hefur hann sönnunarbyrðina samkvæmt ákvæði 141. gr. nr. 21/1991. Krafa stefnanda um riftun á greiðslu arðs til stefnda að fjárhæð 20.000.000 króna 15. september 2008 verður því ekki tekin til greina.
Með skírskotun til 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 verður fallist á endurgreiðslukröfur stefnanda eins og í dómsorði greinir.
Í öðru lagi gerir stefnandi kröfu um að rift verði gjafagerningi eða kaupsamningi, dagsettum 4. nóvember 2008, milli IceCapital ehf. og stefnda um stofnfjárbréf í Byr sparisjóði, samtals að fjárhæð 90.315.122 krónur. Telur stefnandi að stofnfjárbréfin hafi á þessum tíma verið verðlaus og salan því til tjóns fyrir stefnanda en til hagsbóta fyrir stefnda sem hafi setið báðum megin borðsins, verið nákominn í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi reisir kröfu sína í fyrsta lagi á 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991, sbr. bráðabirgðaákvæði 1. mgr. 194. gr. laganna, og byggir á að um gjafagerning til nákomins aðila hafi verið að ræða og ennfremur að stefnandi hafi á þessum tíma verið ógjaldfær.
Varðandi gjaldfærni stefnanda 4. nóvember 2008, er kaupsamningur var gerður, verður að líta til þess að samkvæmt ársreikningi stefnanda var eigið fé stefnanda neikvætt um 17,5 milljarða króna í lok árs 2008 og rúma 24,6 milljarða króna í árslok 2009. Í ársreikningi stefnanda 2008 segir að tap ársins 2008 nemi 32.262 milljónum króna og eigið fé félagsins sé neikvætt í árslok 2008 um 17.579 milljónir króna. Segir endurskoðandi félagsins í ársskýrslunni að framangreint valdi því að vafi leiki á um rekstrarhæfi félagsins. Í ársreikningi 2009 segir m.a. í skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra að 7.028 milljóna króna tap hafi orðið á rekstri félagsins árið 2009 samkvæmt rekstrarreikningi og að eigið fé félagsins hafi í árslok verið neikvætt um 24.607 milljónir króna. Ársreikningur fyrir 2009 var ekki endurskoðaður af endurskoðanda. Fram kom í skýrslu stefnda fyrir dómi að stefnandi hefði verið stór hluthafi í íslensku viðskiptabönkunum þremur svo og í Byr sparisjóði. Við hrun bankanna í byrjun október 2008 hafi þessar eignir þurrkast út. Í skýrslu hjá skiptastjóra sagði Jón Kristjánsson, þáverandi stjórnarformaður stefnanda, að við hrun bankanna hafi eignahlið stefnanda horfið og eftir staðið stökkbreytt lán. Þegar framangreint er virt þykir ekki fara á milli mála að stefnandi hafi verið ógjaldfær 4. nóvember 2008 þegar ráðstöfunin var gerð.
Deilt er um þá staðhæfingu stefnanda að stofnfjárbréfin í Byr sparisjóði hafi verið verðlaus þegar kaupsamningur var gerður 4. nóvember 2008. Í því sambandi vísar stefnandi máli sínu til stuðnings einkum til umfjöllunar Hæstaréttar um stofnfjárbréf í Byr sparisjóði í dómum réttarins í máli nr. 442/2011 frá 7. júní 2012 og í máli nr. 135/2013 frá 31. október 2013. Fram kemur í kaupsamningi um stofnfjárbréfin að seldir voru 25.000.000 hlutir sem voru margfaldaðir með endurmatsstuðlinum 2,25787806. Endurmetið stofnfé var því 56.446.951 króna. Hlutirnir voru seldir á genginu 1,6 krónur per hlut eða samtals 90.315.122 krónur. Stofnfjárbréfin voru ekki skráð á markaði en fram kemur í framangreindum dómum Hæstaréttar að bréfin voru í október skráð hjá stofnfjármarkaði MP banka hf. á genginu 1,585 krónur per hlut. Síðasti dagur viðskipta með stofnfjárbréfin í Byr sparisjóði fyrir milligöngu MP fjárfestingarbanka ehf. var 22. ágúst 2008. Gengi í þeim viðskiptum þann dag var á bilinu 1,4 til 1,5 fyrir utan síðustu viðskipti sem voru óveruleg en þar var gengið 1,6. Haustið 2008 ríkti mikil óvissa á fjármálamarkaði og veruleg lausafjárþurrð. Í byrjun október féllu þrír stærstu viðskiptabankar landsins um líkt leyti. Eftir það var enginn markaður með bréf í Byr sparisjóði. Liggur því fyrir að kaupverð stofnfjárbréfanna tók ekki mið af raunverulegu verðgildi bréfanna í nóvember 2008 er þau voru seld til stefnanda en fram er komið í málinu að gengi bréfanna var ákveðið af sparisjóðsstjóra. Með sölu bréfanna til stefnanda, sem greiddi með reiðufé til stefnda, var áhættunni á tjóni vegna stofnfjárbréfanna velt yfir á stefnanda, enda kom á daginn að þau reyndust verðlaus og það fé sem greitt var fyrir er stefnanda glatað.
Að teknu tilliti til þess að náin tengsl voru milli aðila, stefndi var framkvæmdastjóri stefnanda og eiginkona hans átti 33% hlut í stefnanda og bróðir hennar og stjórnarformaður stefnanda, Jón Kristjánsson, sat í stjórn Byrs sparisjóðs, þykir stefndi bera sönnunarbyrðina fyrir því að umræddur samningur hafi ekki verið örlætisgerningur, heldur hafi markmiðið með honum verið annað en að valda rýrnun á eignum stefnanda. Þegar málsatvik eru virt í heild og þar á meðal horft til þeirrar óvissu sem ríkti á fjármálamarkaði haustið 2008 og þeirra atvika sem síðar gerðust í málefnum Byrs sparisjóðs verður ekki talið að stefnda hafi tekist sú sönnun. Verður því talið að gjafatilgangur hafi búið að baki kaupsamningnum 4. nóvember 2008 og er því samkvæmt framansögðu uppfyllt skilyrði 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt framansögðu verður tekin til greina krafa stefnanda um riftun á greiðslu stefnanda til stefnda að fjárhæð 90.315.122 krónur sem fram fór 4. nóvember 2008 en ekki er deilt um tímafresti í málinu.
Með skírskotun til 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 verður stefnda jafnframt gert að endurgreiða stefnanda 90.315.122 krónur.
Stefnandi byggir fjárkröfur sínar einnig á 51., 70. og 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Þessi kröfugerð stefnanda er ekki í tengslum við málatilbúnað stefnanda að öðru leyti og tengist ekki málsástæðum stefnanda og kröfugerð sem byggist á XX. kafla laga nr. 21/1991 um riftun á ráðstöfunum þrotamanns og endurheimt verðmæta við gjaldþrot. Fjárkrafa stefnanda verður því ekki reist á fyrrgreindum ákvæðum laga um einkahlutafélög.
Í kröfugerð sinni í stefnu krefst stefnandi dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu án þess að tiltaka hundraðshluta vaxta eða vísa til 1. mgr. 6. gr. laganna. Undir rekstri málsins var bókað af hálfu stefnanda að dráttarvaxtakrafan væri byggð á 1. mgr. 6. laga nr. 38/2001 og mótmælti stefndi að þessi breyting á kröfugerð kæmist að í málinu þar sem hún væri of seint fram komin. Talið verður í samræmi við fordæmi Hæstaréttar, t.d. í dómi nr. 522/2008, að tilvísun til III. kafla nefndra laga í stefnunni hafi verið fullnægjandi og stefnanda leiðréttingin heimil. Dráttarvextir verða dæmdir frá 11. janúar 2013 en þá var liðinn mánuður frá því að stefnandi krafði stefnda um greiðslu kröfunnar, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 350.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til fimm annarra riftunarmála stefnanda sem flutt voru sama dag.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Rift er arðgreiðslu IceCapital ehf. til stefnda, Páls Þórs Magnússonar, að fjárhæð 31.798.642 krónur sem greidd var 9. október 2008. Stefndi greiði stefnanda 31.798.642 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá11. janúar 2013 til greiðsludags.
Rift er kaupsamningi milli IceCapital ehf. og stefnda, Páls Þórs Magnússonar, sem gerður var 4. nóvember 2008 um kaup stefnanda á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði, 25.000.000 hlutum að verðmæti 90.315.122 krónur. Stefndi greiði stefnanda 90.315.122 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. janúar 2013 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.